VII.
Hér að framan hefur verið tekin afstaða til þeirra gagna og röksemda, sem talsmaður dómfellda færir fram fyrir endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 214/1978. Komist er að þeirri niðurstöðu að fæst þessara atriða fullnægi skilyrðum 184. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til þess að koma til álita sem forsenda fyrir endurupptöku málsins. Byggist það aðallega á því að þau lágu fyrir Hæstarétti við uppkvaðningu dóms í málinu 22. febrúar 1980 og var þá tekin afstaða til þeirra. Nokkur atriði varða breytta réttarfarslöggjöf, sem öðlast hefur gildi eftir að dómur Hæstaréttar var kveðinn upp, en að sjálfsögðu var farið með málið eftir þeirri réttarfarslöggjöf, sem þá var í gildi. Um meðferð málsins ber að hafa í huga að Hæstiréttur taldi á sínum tíma alvarlega galla vera á rannsókn þess, þótt ekki væri talið að þeir ættu að valda því að málið ónýttist eða ekki yrði af sakfellingu. Þessir gallar hafa þó að líkindum einhverju ráðið um það að niðurstaða Hæstaréttar varð nokkuð önnur en héraðsdóms.
Því næst er komist að þeirri niðurstöðu að dómfelldi hafi sætt ólögmætu harðræði í gæsluvarðhaldvist í Síðumúlafangelsi, einkum í apríl og maí 1976. Samkvæmt dómi Hæstaréttar 22. febrúar 1980 var það að nokkru kunnugt en frekari gögn hafa komið fram um þetta. Hins vegar þykja þetta vera einu atriðin, sem færð hafa verið fram og til álita geta komið sem grundvöllur að endurupptöku málsins samkvæmt 184. gr. laga nr. 19/1991. Þau varða tímabil í gæsluvarðhaldsvist dómfellda, sem var annars vegar nokkrum mánuðum eftir að hann gaf skýrslur, þar sem hann játaði að eiga þátt í hvarfi Guðmundar Einarssonar og bar einnig sakir á fjóra nafngreinda menn um aðild þeirra að hvarfi Geirfinns Einarssonar, og hins vegar mörgum mánuðum áður en hann gekkst við aðild sinni að hvarfi hins síðarnefnda. Fyrir liggur að hluti þess harðræðis sem dómfelldi varð fyrir var ætlaður sem agaviðurlög við brotum hans á reglum sem um gæsluvarðhaldsvistina giltu. Þótt atriði þau, sem nú hafa verið leidd í ljós, styrki nokkuð fyrri ásakanir dómfellda um harðræði í gæsluvarðhaldsvistinni, er það mat réttarins, að ekki hafi komið fram nýjar upplýsingar, sem líklegar væru til þess að hafa breytt niðurstöðu Hæstaréttar 22. febrúar 1980.
Samkvæmt framansögðu er ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til að verða við beiðni dómfellda, Sævars Marinós Ciesielski, um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 214/1978.
Rétt endurrit staðfestir: