VI.3.

 

3.1. Í dómi sakadóms Reykjavíkur var tekin upp orðrétt bókun frá þingfestingu málsins 21. mars 1977, þar sem skýrlega kom fram skoðun dómenda þar um að rannsókn þess á fyrri stigum hafi í ýmsu verið verulega áfátt, svo og til hverra aðgerða hafi verið gripið af því tilefni, sbr. dómasafn 1980, bls. 274. Til þeirrar meðferðar, sem málið fékk í samræmi við þetta fyrir sakadómi og fór eftir reglum laga nr. 74/1974, tók Hæstiréttur afstöðu með dómi sínum, þar á meðal hvort dómendum í héraði hafi verið rétt að fara með málið, svo sem gert var, fremur en að vísa því frá dómi eða leggja fyrir ákæruvaldið að afla frekari gagna í því. Í athugasemdum talsmanns dómfellda, sem að þessu snúa, felast því ekki upplýsingar um atriði, sem lágu ekki fyrir við úrlausn málsins eða gætu af öðrum sökum leitt til endurupptöku þess samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991.

Staðhæfingar af hálfu dómfellda um að vanrækt hafi verið að kanna við rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi atriði, sem kynnu að hafa leitt til sönnunar um fjarvist hans þegar Guðmundur Einarsson hvarf aðfaranótt 27. janúar 1974, geta ekki komið til álita sem tilefni til endurupptöku málsins nema að því leyti, sem nýjar upplýsingar gætu bent til að slík sönnun væri tæk. Gögn vegna rannsóknar fíkniefnamáls, sem vitnað hefur verið til í þessu sambandi, gefa ekki slíkar vísbendingar. Eru því ekki efni eftir 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til að gefa þessu frekari gaum.

 

3.2. Talsmaður dómfellda vísar til bréfs Arnar Höskuldssonar 22. ágúst 1977, lögregluskýrslu 30. apríl 1976 og dómsúrskurðar 3. júlí sama árs til marks um að dómfelldi hafi leitast við að skýra rétt frá staðreyndum og þar á meðal dregið til baka framburð sinn um aðild að hvarfi Guðmundar Einarssonar löngu fyrr en lagt hafi verið til grundvallar í dómi Hæstaréttar í málinu, þar sem sé sagt að það hafi gerst í mars 1977. Tilvitnað bréf Arnar Höskuldssonar lá fyrir við úrlausn málsins og var meginefni þess að auki tekið upp orðrétt í dómi sakadóms, svo sem séð verður í köflum II.5.A. og II.5.B. hér að framan. Varðandi orðalag í bréfinu um atvik í þinghaldi 11. janúar 1976, sem talsmaður dómfellda gerir að umtalsefni, er til þess að líta að Örn Höskuldsson greindi aftur frá þeim atvikum í lögregluskýrslu 3. október 1979, svo sem talsmaðurinn hefur einnig vitnað til. Í skýrslunni var meðal annars eftirfarandi haft eftir Erni: "Sævar kvartaði við mig undan því að hann hefði verið þvingaður til að játa í Guðmundarmálinu. Ég gerði ekkert með þessa kvörtun Sævars þar sem ég vissi að hún var röng. Þegar Sævar játaði sinn hlut í Guðmundarmálinu fyrst þá var ég nefnilega viðstaddur sjálfur og einnig Jón Oddsson hrl. hans réttargæslumaður. Sævar var ekki beittur neinu harðræði við þessa yfirheyrslu sem var 22. desember 1975 og Jóni Oddssyni hrl. er um það kunnugt jafnvel og mér." Í framhaldi af þessu var Jón Oddsson hæstaréttarlögmaður, sem var viðstaddur skýrslugjöf Arnar Höskuldssonar, spurður að því hvort hann vildi eitthvað segja um þetta atriði. Svar Jóns var svofellt: "Varðandi ofangreinda fyrirtöku þann 22. des. 1975 get ég staðfest það er fram kemur hjá Erni Höskuldssyni." Í kafla IV.3.2. er getið þess skilnings, sem ríkissaksóknari telur að leggja eigi í orðalag bréfsins varðandi umrætt atvik í þinghaldi 11. janúar 1976. Eru ekki efni til annars samkvæmt framansögðu en að telja þann skilning réttan. Lögregluskýrsla 30. apríl 1976 lá fyrir við úrlausn málsins, en hún er frá samprófun, sem fór fram þann dag á milli dómfellda og Alberts Klahn Skaftasonar. Af hálfu dómfellda er því haldið fram að í þeirri skýrslu hafi hann sagt að allar sakir á hendur sér væru ósannindi og tómur uppspuni. Af hljóðan skýrslunnar verður ekki ráðið að ummæli dómfellda um ósannindi og uppspuna hafi beinst að öðru en frásögn Alberts um flutning á líki 14. september 1974, sem kom fram í lögregluskýrslu 19. mars 1976, sbr. kafla II.2.F. hér að framan. Dómsúrskurður 3. júlí 1976 lá fyrir við úrlausn málsins, en með honum var kveðið á um framlengingu gæsluvarðhalds yfir Erlu Bolladóttur vegna aðildar hennar að hvarfi Geirfinns Einarssonar. Í úrskurðinum voru höfð ummæli eftir dómfellda um að hann hafi byggt framburð sinn fyrir lögreglu á frásögn Erlu, en ekki á sinni eigin vitneskju. Þessi ummæli snúa augljóslega að þeim þætti málsins, sem úrskurðurinn varðaði, en ekki að hvarfi Guðmundar Einarssonar, svo sem einnig má ráða af framburði dómfellda fyrir dómi 1. apríl 1976, sem vikið er að í kafla II.3.C. hér að framan. Öll gögnin, sem hér um ræðir, lágu fyrir við úrlausn málsins og geta þau því ekki gefið tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til endurupptöku þess. Að auki verður ekki séð að efni standi til að draga af þeim ályktanir um að mishermt sé í dómi Hæstaréttar hvenær dómfelldi hafi breytt framburði sínum í þessum þætti málsins. Athuga ber að málið sætti ekki þeirri dómsmeðferð, sem um ræddi í niðurlagi 3. mgr. 134. gr. laga nr. 74/1974. Því eru ekki efni til að fjalla um hvaða réttaráhrif afturköllun játningar hefði haft samkvæmt því ákvæði.

 

3.3. Í kafla II.2.I. er greint frá framburði Elínborgar Jónu Rafnsdóttur og Sigríðar Magnúsdóttur, en við sakbendingu hjá lögreglunni í janúar 1977 töldu þær sig þekkja Kristján Viðar Viðarsson sem manninn, sem þær hafi séð gangandi eftir Strandgötu í Hafnarfirði með Guðmundi Einarssyni aðfaranótt 27. janúar 1974. Þetta staðfestu þær í skýrslum fyrir dómi 22. mars 1977, þar sem meðal annars kom fram hjá þeim báðum lýsing á Guðmundi og samferðamanni hans, sem þær kváðu hafa verið svipaða að hæð. Eins og getið var í kafla II.2.I. hér að framan gat Elínborg þess í skýrslu sinni að henni hafi sérstaklega verið minnisstætt andlit samferðamannsins, einkum þykkar varir hans. Kom einnig fram við skýrslugjöf fyrir dómi að þau mistök hafi orðið við framkvæmd sakbendingarinnar að sú þeirra Elínborgar og Sigríðar, sem kom síðar til sakbendingar, hafi heyrt ábendingu þeirrar fyrri, en talið þá ábendingu ekki koma til greina. Lögreglan hafði fært Kristján til í röð við sakbendinguna án vitundar Elínborgar og Sigríðar á milli þess að þær komu þar fyrir, en báðar bentu þær á Kristján. Elínborg og Sigríður unnu eið að framburði sínum fyrir dómi. Í köflum V.2. og V.3. hér að framan er greint frá nýjum vitnaskýrslum, sem þær hafa nú gefið fyrir dómi, en þar segjast þær vera vissar um að Kristján hafi ekki verið maðurinn, sem þær hafi séð með Guðmundi aðfaranótt 27. janúar 1974. Virðist þessi ályktun þeirra einkum vera reist á því að Kristján sé hærri en þeim hafi verið kunnugt um þegar sakbending fór fram. Skýringar þeirra á breyttum framburði nú, 23 árum eftir umræddan atburð og 20 árum eftir að þær gáfu vitnaskýrslur eiðfestar fyrir dómi, eru ekki með þeim hætti að byggt verði á nýjum framburði þeirra. Þá getur frásögn í yfirlýsingum Kristrúnar Jónínu Steindórsdóttur og Þórðar Arnar Marteinssonar, sbr. kafla III.8., um athafnir manns, sem þau töldu vera Guðmund, undir lok dansleiks í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði þessa nótt engu skipt, enda verður ekkert ráðið af frásögninni um ferðir Guðmundar eftir dansleikinn, auk þess að lýsing þeirra Kristrúnar og Þórðar á klæðaburði mannsins kemur ekki heim og saman við lýsingu vitna á klæðnaði Guðmundar. Að öllu þessu gættu verður ekki talið að komnar séu fram nýjar upplýsingar um framangreint efni, sem geti orðið tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til endurupptöku málsins.

 

3.4. Framburður vitnanna Sveins Vilhjálmssonar og Smára Kjartans Kjartanssonar um að þeir hafi séð til manns, sem þeir töldu hafa verið Guðmund Einarsson, gangandi frá miðbæ Hafnarfjarðar í átt til Reykjavíkur eftir lok dansleiks í Alþýðuhúsinu, lá fyrir við úrlausn málsins, sbr. kafla II.2.A. hér að framan. Ekki hafa komið fram nýjar upplýsingar, sem varða skýrslur þessara vitna. Veita skýrslurnar því ekki ástæðu samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til að taka málið upp á ný.

 

3.5. Við úrlausn málsins lá fyrir framburður ákærðra sjálfra um að Kristján Viðar Viðarsson og Tryggvi Rúnar Leifsson hafi að kvöldi 26. janúar 1974 ætlað að að afla sér fjár með því að stela veskjum og að átök þeirra ásamt dómfellda við Guðmund Einarsson hafi byrjað vegna ágreinings um hvort sá síðastnefndi legði til fé til kaupa á áfengi. Ekki verður séð að upplýsingar um fé, sem dómfelldi kann að hafa haft undir höndum vegna viðskipta með fíkniefni um þessar mundir, gætu brugðið nýju ljósi á það hvort Kristján og Tryggvi hafi ráðið yfir einhverju fé á sama tíma, en þess er jafnframt að gæta að við rannsókn málsins var borið að þeir hafi árangurslaust reynt að fá fé að láni hjá dómfellda þetta sama kvöld. Nýjar upplýsingar hafa annars ekki komið fram um þetta efni. Gefur það því ekki tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til endurupptöku málsins.

 

3.6. Í kafla II.2.I. hér að framan er getið lögregluskýrslu 13. janúar 1977, sem lá fyrir við úrlausn málsins, þar sem greint var frá því að við athugun hafi komið fram að íbúar að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði og næstu nágrannar gætu ekkert borið um atburði í kjallara hússins aðfaranótt 27. janúar 1974. Yfirlýsing Kristrúnar Jónínu Steindórsdóttur og Þórðar Arnar Marteinssonar, sem greint er frá í kafla III.8., getur ekki að þessu leyti talist bæta nýjum upplýsingum við það, sem áður lá fyrir samkvæmt framansögðu. Hún gefur því ekki tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til að verða við beiðni dómfellda.

 

3.7. Eins og ráðið verður nánar af því, sem segir í köflum II.2.C., II.2.D. og II.2.F. hér að framan, var fyrst í stað ósamræmi á milli framburðar dómfellda, Kristjáns Viðars Viðarssonar og Alberts Klahn Skaftasonar í lögregluskýrslum um það hverrar tegundar sú bifreið hafi verið, sem sá síðastnefndi hafi komið á að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði aðfaranótt 27. janúar 1974, hvernig það hafi komið til að hann kæmi þangað og hvernig líki Guðmundar Einarssonar hafi verið komið fyrir í bifreiðinni. Í kafla II.2.J. er gerð grein fyrir vottorði Pósts og síma um hvort sími að Hamarsbraut 11 hafi verið lokaður á þeim tíma, sem hér um ræðir. Öll þessi atriði lágu fyrir þegar dómur var felldur á málið og hefur þá verið lagt mat á þau. Engar nýjar upplýsingar hafa komið fram í tengslum við þau. Þau veita því ekki ástæðu samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til að taka málið upp á ný.

 

3.8. Í kafla III.2. er tekið upp meginefni yfirlýsingar Alberts Klahn Skaftasonar 16. janúar 1997, þar sem segir meðal annars að hann geti ekki staðhæft að hann hafi verið að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði aðfaranótt 27. janúar 1974. Greint er frá framburði Alberts, sem var meðal ákærðu í málinu, við rannsókn þess og meðferð fyrir dómi í kafla II.2.F. Frá þeim framburði hefur hann ekki vikið fyrr en með umræddri yfirlýsingu, tæpum 20 árum eftir að hann gaf síðast skýrslu vegna málsins fyrir dómi. Fyrir þessari síðbúnu breytingu á frásögn hafa ekki verið færðar haldbærar ástæður. Eru því ekki efni til að taka tillit til hennar. Samkvæmt þessu getur yfirlýsing Alberts Klahn Skaftasonar ekki gefið tilefni til endurupptöku málsins.

 

3.9. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti lágu fyrir í endurriti úr þingbók skýrslur, sem Gunnar Jónsson gaf fyrir dómi og greint er frá í kafla II.2.G. hér að framan, en hann kom fyrir dóm fimm skipti á tímabilinu frá 30. apríl til 5. maí 1977. Endurritin bera með sér hverjir voru staddir á dómþingi við skýrslugjöf Gunnars hverju sinni, hvers var gætt við hann áður en hún hófst og hvernig aðdragandi var að því að hann vann að endingu eið að framburði sínum. Af skýrslunum verður ráðið að Gunnari hafi að einhverju marki verið veittar upplýsingar þegar skýrslurnar voru gefnar, svo og að framburður hans hafi í ýmsu verið óákveðinn. Þá lá einnig fyrir framburður lögreglumanna, sem sóttu Gunnar til Spánar til þess að umræddri skýrslugjöf hans yrði komið við. Á öll þessi atriði var lagt mat við úrlausn málsins, þar á meðal hvort einhverjir þeir annmarkar hafi verið á öflun framburðar Gunnars, sem gætu takmarkað sönnunargildi hans eða orðið til ómerkingar á meðferð málsins. Þau atriði, sem talsmaður dómfellda hefur bent á varðandi skýrslur Gunnars fyrir dómi, snúa því ekki að nýjum upplýsingum um framburð hans. Þá verður ekki séð að yfirlýsing Alberts Klahn Skaftasonar, sem greint er frá í kafla III.2., geti haft sjálfstætt gildi í því skyni. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á að röksemdir, sem talsmaður dómfellda hefur haldið fram í sambandi við framburð Gunnars Jónssonar, geti leitt til endurupptöku málsins samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991.

 

3.10. Í yfirlýsingu Erlu Bolladóttur 22. febrúar 1996, sem greint er frá í kafla III.4., kemur meðal annars fram að rangt sé að hún hafi orðið þess áskynja að dómfelldi, Kristján Viðar Viðarsson og Tryggvi Rúnar Leifsson hafi flutt eitthvað út úr íbúð hennar að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði aðfaranótt 27. janúar 1974. Hún kveður þá ekki hafa komið að Hamarsbraut 11 þá nótt. Þá segir í yfirlýsingunni að hún hafi í upphafi skýrt lögreglumönnum réttilega frá atvikum, að öðru leyti en um eitt tiltekið atriði, en þeir hafi með ýmsum ráðum fengið hana til að gefa aðra og ranga skýrslu. Greint er frá framburði Erlu, sem var meðal ákærðu í málinu, við rannsókn þess og meðferð fyrir dómi í kafla II.2.B. Frá þeim framburði hefur hún ekki vikið fyrr en með umræddri yfirlýsingu, tæpum 20 árum eftir að hún gaf síðast skýrslu vegna málsins fyrir dómi. Fyrir þessari síðbúnu breytingu á framburði hafa ekki verið færðar haldbærar ástæður. Eru því ekki efni til að taka mark á henni. Samkvæmt þessu getur yfirlýsing Erlu Bolladóttur, að því leyti sem hér um ræðir, ekki gefið tilefni til endurupptöku málsins.

 

3.11. Við úrlausn málsins lá fyrir vottorð Veðurstofu Íslands 30. desember 1975 um veður í Reykjavík, í Straumsvík og á Vífilsstöðum dagana 25. til 27. janúar 1974, þar með talið um úrkomu, veðurhæð og hitastig á því tímabili. Eins og fram kemur í kafla II.2.A. hér að framan lágu fyrir upplýsingar í málinu um snjólag utan byggða í námunda við Hafnarfjörð þegar leitað var Guðmundar Einarssonar eftir hvarf hans. Þá liggur að auki fyrir meðal gagna málsins minnisblað lögreglumanns 26. febrúar 1977 um viðtöl við leigubifreiðarstjóra, þar sem meðal annars kemur fram að einn þeirra hafi minnst þess að ófært hafi verið seinni hluta aðfaranætur 27. janúar 1974. Á allar þessar upplýsingar hefur verið lagt mat við úrlausn málsins. Gögn um snjó og færð á vegum á umræddum tíma, sem talsmaður dómfellda hefur lagt fram, varpa ekki nýju ljósi á þetta efni. Þau veita því ekki ástæðu samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til endurupptöku málsins.