V.3.

 

Fyrir dóminum áréttaði Sigríður Magnúsdóttir fyrri frásagnir sínar við rannsókn málsins um akstur með Elínborgu Jónu Rafnsdóttur um Strandgötu í Hafnarfirði aðfaranótt 27. janúar 1974. Hún sagðist hafa kannast við Guðmund Einarsson. Á eftir honum á Strandgötu hefði komið ölvaður maður, sem hafi verið lægri og með styttra hár en Guðmundur, og héldi hún að hann hafi verið grannur. Þessi maður hafi reynt að kasta sér á bílinn og hafi þær orðið hræddar og ekið brott. Sigríður sagði að við sakbendinguna 1977 hefði hún þekkt Kristján Viðar Viðarsson af myndum í blöðum. Hún sagði að ef hún myndi rétt hefði hún strax haft efasemdir um að Kristján hefði verið sá maður, sem hefði verið með Guðmundi umrætt sinn. Hún hefði hins vegar lokað þetta frá sér því að hún hefði verið mjög hrædd þegar sakbendingin fór fram. Þegar hún hefði frétt af því í tengslum við gerð sjónvarpsmyndar eftir Sigurstein Másson að Kristján hefði verið hærri en Guðmundur hefði þetta engan veginn getað staðist, því að maðurinn, sem var með Guðmundi, hefði verið lægri og grennri en hann. Talsmaður dómfellda spurði Sigríði fyrir dóminum að því hvort rannsóknarmenn hefðu haft tilhneigingu til að beita hana þrýstingi til að taka afdráttarlausari afstöðu. Hún sagði að ef hún myndi rétt hafi verið eins og þeir vildu að þær segðu manninn hafa verið Kristján.