V.2.
Elínborg Jóna Rafnsdóttir staðfesti fyrir dóminum yfirlýsingu sína frá 26. ágúst 1996, sem gerð er grein fyrir í kafla III.3. hér að framan. Elínborg kvaðst hafa verið á ferð í Hafnarfirði í bifreið með Sigríði Magnúsdóttur aðfaranótt 27. janúar 1974. Á Strandgötu hafi þær séð Guðmund Einarsson, sem þær þekktu, og í humátt á eftir honum mann á svipuðum aldri. Þessi maður hafi verið mjög grannur með frekar sítt, liðað hár og áberandi ölvaður. Hann hafi komið hálfpartinn hlaupandi á eftir Guðmundi og hent sér upp á bílinn að framanverðu og síðan lent í götunni. Elínborg sagði að maðurinn hefði getað verið svipaður á hæð og Guðmundur eða aðeins lægri. Hún sagðist fljótlega eftir sakbendinguna 1977 og skýrslur sínar fyrir dómi um tveimur mánuðum síðar hafa fengið efasemdir um réttmæti þess, sem hún hafði fært fram þar og hjá lögreglu. Vegna frásagna í fjölmiðlum hafi þær Sigríður vitað hver Kristján Viðar Viðarsson var þegar þær fóru í sakbendinguna og því bent á hann. Hún hafi hins vegar strax eftir sakbendinguna gert um það athugasemd við Gísla Guðmundsson lögreglumann að Kristján væri mikið stærri, þreknari og feitari en maðurinn, sem hún hefði séð með Guðmundi Einarssyni umrædda nótt. Aðspurð sagði hún jafnframt að það væri algjörlega útilokað að hún hefði bent á Kristján ef hún hefði vitað á þeim tíma að hann hefði verið um 10 cm hærri en Guðmundur. Elínborg sagði að á þessum tíma hefðu þær Sigríður verið ungar og óþroskaðar og hálf smeykar við þetta allt saman og því ekki fyrr komið leiðréttingum á framfæri. Þegar þær hafi nú fengið að sjá gögn málsins hjá manni að nafni Sigursteinn Másson hafi þetta hins vegar farið að rifjast upp fyrir þeim.