IV.4.

 

4.1. Talsmaður dómfellda kveður rannsókn, sem fór fram fyrst eftir hvarf Geirfinns Einarssonar, hafa gefið til kynna að ýmsar ástæður kunni að hafa verið fyrir hvarfi hans, en þetta hafi ekki verið rannsakað svo neinu nemi. Eru nefnd nokkur dæmi um þetta í greinargerð dómfellda. Þá vísar talsmaðurinn sérstaklega til lögregluskýrslu 13. febrúar 1975 varðandi atburði, sem gætu hafa tengst hvarfi Geirfinns, en af því tilefni hafi einhver rannsókn farið fram í Keflavík, sem gögn finnist ekki um nú.

 

Talsmaðurinn vísar til þess að nú hafi verið lögð fram sem nýtt skjal lokaskýrsla Karls Schütz um lögreglurannsóknina í þessum þætti málsins, en hann telur víst að skýrslan hafi legið fyrir við meðferð þess fyrir sakadómi og hliðsjón verið höfð af henni við samningu héraðsdóms. Hann telur skýrsluna bera þess merki að Karl Schütz, sem hafi stjórnað rannsókninni á löngu tímabili, hafi ekki rannsakað grunsemdir í garð annarra en sakborninganna, þótt rökstuddur grunur hafi beinst í aðrar áttir, heldur hafi hann einbeitt sér að því að fá fram játningar án tillits til annarra hugsanlegra lausna. Skýringin kunni að vera sú að Karl Schütz hafi talið íslensku ríkisstjórnina eiga í örðugleikum vegna málsins og nauðsynlegt hennar vegna að ljúka því. Talsmaðurinn kveður þessa skýrslu vera mikilvæga í ljósi þess að viðurkennt sé í henni að mikið vanti upp á að sekt sé sönnuð í málinu. Meðal dæma þessu til stuðnings bendir talsmaðurinn á að í skýrslunni segi að ákærðu hafi játað að miklu leyti, en þeim beri þó enn mikið á milli og ekki hafi tekist að sanna játningarnar með vísindalegum aðferðum. Í skýrslunni segi að Guðjón Skarphéðinsson hafi ekki gefið endanlega játningu. Þar sé einnig talið vafasamt að dómfelldi hafi kynnt sig fyrir Geirfinni Einarssyni sem Magnús Leópoldsson og ósannað að dómfelldi eða Kristján Viðar Viðarsson hafi komið í Hafnarbúðina til að hringja til Geirfinns, auk þess að símtal við Geirfinn 18. nóvember 1974 sé óstaðfest. Jafnframt sé gerð grein fyrir atriðum, sem veiki játningar, en sem dæmi um þetta komi fram í skýrslunni að rannsókn hafi bent til þess að ekki fengi staðist játning Kristjáns um að hann hafi tekið blýant af líki Geirfinns. Talsmaðurinn telur miklu skipta að verjendur hafi ekki fengið þessa skýrslu, en öruggt sé að héraðsdómarar hafi haft hana undir höndum og líklega einnig ákæruvaldið. Þá telur dómfelldi jafnframt mikilvægt að líta til upplýsinga í yfirlýsingu Erlu 19. nóvember 1996, sbr. kafla III.4. hér að framan, um viðmót Karls Schütz í fyrsta samtali þeirra. Virðist honum að álykta megi af þessu að Karl Schütz hafi frá byrjun verið ákveðinn í að rannsaka ekki málið frekar, heldur að fá sakborningana til að játa með samræmdum framburði.

 

Af hálfu ákæruvalds er staðhæft að lokaskýrsla Karls Schütz hafi ekki legið fyrir við embætti ríkissaksóknara fyrr en við umfjöllun um beiðni dómfellda um endurupptöku. Ekki hefði þó verið ástæða til að leggja skýrsluna fram í málinu á sínum tíma, því hún hafi verið samantekt manns, sem hafi unnið tímabundið við rannsókn þess, og hafi hún ekkert gildi haft sem sönnunargagn. Varðandi yfirlýsingu Erlu Bolladóttur 19. nóvember 1996 vísar ríkissaksóknari til þess að þargreindar upplýsingar hafi komið fram þegar hún afturkallaði framburð sinn í þessum þætti málsins 11. janúar 1980 og hafi þær því legið fyrir þegar Hæstiréttur felldi dóm á málið. Yfirlýsingin skipti þannig engu í sambandi við heimild til endurupptöku málsins.

 

4.2. Talsmaður dómfellda telur að skilja megi lýsingu atvika í þessum þætti málsins í dómi Hæstaréttar á þann hátt að það hafi fyrst gerst á dómþingi 13. september 1977 að dómfelldi hafi neitað að hafa verið í Keflavík 19. nóvember 1974. Þetta sé rangt, því hann hafi ítrekað haldið þeirri neitun fram áður fyrir lögreglu og á dómþingi.

 

4.3. Talsmaður dómfellda kveður Guðjón Skarphéðinsson hafa tjáð sig í fyrsta sinn opinberlega um dóminn í málinu á árinu 1996. Vitnar talsmaðurinn í því sambandi til viðtals í Morgunblaðinu 13. febrúar 1996, sem lagt er fram með greinargerð hans. Í viðtalinu komi fram að Guðjón telji sig hvergi hafa komið nærri. Í dómi sakadóms og Hæstaréttar hafi mikið verið lagt upp úr framburði Guðjóns, þar á meðal að hann hafi ekki dregið framburð sinn til baka. Þá bendir talsmaðurinn á að skýrslur Guðjóns hafi allar verið með fyrirvörum og hafi hann aldrei tekið af skarið um atburði, sem ákæra náði til. Það séu nýjar og mikilvægar upplýsingar að Guðjón hafi nú sagt í fjölmiðlum að umræddir atburðir hafi aldrei gerst og sé því vægið, sem hafi verið lagt í framburð hans við úrlausn málsins, ekki lengur raunhæft.

 

Af hálfu ákæruvalds er því haldið fram að yfirlýsingar, sem dómfelldu í málinu gefi nú 17 árum eftir sakfellingu sem hafi verið reist á játningum þeirra sjálfra, geti ekki talist til nýrra gagna, sem geti leitt til endurupptöku samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991.

 

4.4. Talsmaður dómfellda telur að rannsóknartilgátur, sem ákæra í þessum þætti málsins hafi verið reist á, fái ekki staðist. Þar hafi meðal annars verið gengið út frá því að dómfelldi eða Kristján Viðar Viðarsson hafi rætt í Klúbbnum við Geirfinn Einarsson, sem hafi trúað því að annar hvor þeirra væri forstjóri veitingahússins, Magnús Leópoldsson. Dómfelldi og Kristján hafi verið innan tvítugs og þannig útlits að ekki hafi getað hvarflað að nokkrum manni að um forstjóra stórfyrirtækis væri að ræða. Þórður Ingimarsson, sem hafi verið með Geirfinni mest allan tímann í veitingahúsinu, hafi borið að Geirfinnur hafi hitt mann þar í stiga, ljóshærðan eða skolhærðan, hávaxinn og grannan, um 25 til 30 ára að aldri. Geirfinnur hafi virst þekkja manninn. Þórður hafi sagst mundu geta þekkt þennan mann á ný, en hann hafi ekki kannast við dómfellda eða aðra ákærðu af myndum. Þá hafi Þórður borið að á heimleið hafi Geirfinnur ekki minnst á neitt sérstakt, sem hafi gerst í veitingahúsinu. Af þessum sökum telur talsmaðurinn að ekki geti staðist ályktun í dómi Hæstaréttar um að upphaf málsins verði rakið til þess að dómfelldi og Kristján hafi sannanlega hitt Geirfinn að máli umrætt kvöld í veitingahúsinu.

 

Af hálfu ákæruvalds er vísað til þess að framangreind atriði hafi legið fyrir við flutning og úrlausn málsins og geti þau því ekki komið til skoðunar til stuðnings beiðni um endurupptöku þess.

 

4.5. Talsmaðurinn bendir á að móðir dómfellda hafi borið að hann hafi ekið henni heim eftir kvikmyndasýningu á Kjarvalsstöðum kl. 22.10 að kvöldi 19. nóvember 1974. Systir hans hafi borið að móðir þeirra hafi komið heim um kl. 22 þetta kvöld. Þá hafi Vilhjálmur Knudsen borið í vitnaskýrslu að hann hafi hitt dómfellda og móður hans á Kjarvalsstöðum þetta kvöld, á tíunda tímanum að ráðið verði, og hafi dómfelldi ekki verið að flýta sér. Upplýst hafi verið fyrir dómi með vitnaskýrslu lögreglumanns að ekið hafi verið á ólöglegum hraða þegar mælingar hafi verið gerðar til að sýna fram á að dómfellda hefði verið unnt að komast frá Reykjavík til Keflavíkur í tæka tíð til að hringja þar í Geirfinn Einarsson á tilteknum tíma kvöldsins. Þá hafi einnig verið upplýst að við mælinguna hafi lögreglan notað bifreið af gerðinni Volvo, en ekki Volkswagen, svo sem lögreglan taldi ákærðu hafa notað. Talsmaðurinn telur jafnframt aðfinnsluvert að lögreglan hafi verið látin vinna að þessari mælingu, en ekki dómkvaddir matsmenn, sbr. 105. gr. laga nr. 74/1974, auk þess að verjendum hafi ekki verið gefinn kostur á að vera viðstaddir, sbr. og 83. gr. sömu laga. Á grundvelli þessara mælinga hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að dvöl dómfellda á Kjarvalsstöðum 19. nóvember 1974 kæmi ekki í veg fyrir að hann geti hafa verið í Keflavík að kvöldi þess dags. Með því að telja að ekki hafi verið útilokað að dómfelldi hafi komist til Keflavíkur í tæka tíð til að hitta Geirfinn hafi Hæstiréttur lagt sönnunarbyrðina á hann í stað þess að meta óvissu honum í hag.

 

Af hálfu ákæruvalds er bent á að fyrrnefndar skýrslur um veru dómfellda á Kjarvalsstöðum og för hans þaðan, svo og upplýsingar um mælingu á aksturstíma, hafi legið fyrir við flutning og úrlausn málsins. Geti þessi atriði því ekki komið til skoðunar til stuðnings beiðni um endurupptöku þess.

 

4.6. Talsmaður dómfellda bendir á að við rannsókn málsins hafi verið gengið út frá því að hringt hafi verið heim til Geirfinns Einarssonar frá Hafnarbúðinni í Keflavík um kl. 22.15 að kvöldi 19. nóvember 1974 til að boða hann þangað á stefnumót. Hafnarbúðin hafi verið veitingahús og kvöldsala, þar sem umferð hafi verið mikil. Í upphafi hafi rannsóknarmenn talið að Magnús Leópoldsson hafi verið hér að verki, sem sjáist meðal annars af því að Magnúsi Gíslasyni, sem hafi verið fenginn til að teikna mynd af manni sem fékk að hringja í Hafnarbúðinni þetta kvöld, hafi verið sýnd ljósmynd af honum, sbr. yfirlýsingu 20. nóvember 1996 í kafla III.9. hér að framan. Vitnið Guðlaug Konráðs Jónsdóttir, sem hafi þekkt dómfellda og Kristján Viðar Viðarsson í sjón, hafi borið að hún hafi hvorugan þeirra séð í Hafnarbúðinni umrætt kvöld. Vitnin Ásta Elín Grétarsdóttir, Hrefna Björg Óskarsdóttir og Jóhann Guðfinnsson hafi ekki talið að dómfelldi eða Kristján hafi komið þangað þetta kvöld. Fleiri hafi vitnin ekki verið. Verði því nánast að telja sannað að hvorugur þeirra hafi komið í Hafnarbúðina um kvöldið. Í dómi sakadóms sé ekki vikið að því hver verði talinn hafa hringt til Geirfinns áður en hann fór að heiman síðara skiptið umrætt kvöld, en í dómi Hæstaréttar sé hins vegar talið að miða verði við að dómfelldi eða Kristján hafi verið þar að verki. Telur talsmaðurinn lagastoð skorta fyrir þeirri óhefðbundnu leið, sem Hæstiréttur hafi hér farið, að miða við að eitthvað hafi gerst þótt ósannað sé. Þetta sé andstætt reglunni um að sakborningur teljist saklaus þar til sekt hans sé sönnuð. Verði einnig að gæta að því að málatilbúnaður ákæruvaldsins hafi staðið og fallið með því hvort dómfelldi eða Kristján hafi hringt í Geirfinn í umrætt sinn, enda fengi annars ekki staðist að Geirfinnur hafi komið til fundar við þá og þeir haldið síðan í dráttarbrautina í Keflavík.

 

Af hálfu ákæruvalds er vísað til þess að framangreind atriði hafi legið fyrir við flutning og úrlausn málsins og geti þau því ekki komið til skoðunar til stuðnings beiðni um endurupptöku þess.

 

4.7. Talsmaður dómfellda vísar til þess að á dómþingi 13. október 1977 hafi Sigurður Óttar Hreinsson breytt framburði sínum og lýst því meðal annars yfir að fyrri framburður hans hafi spunnist við yfirheyrslur hjá lögreglunni, sem hafi beitt hann hótunum. Talsmaðurinn bendir á að eftir að Sigurður hafi gefið skýrslu hjá lögreglunni 14. desember 1976 hafi hann greint lögmanni frá því að hann hafi þar verið látinn játa á sig ferð til Keflavíkur 19. nóvember 1974, sem hann hafi aldrei farið. Hafi lögmaðurinn ráðlagt honum að leiðrétta frásögn sína þegar í stað. Þegar Sigurður hafi síðan dregið til baka framburð sinn í október 1977 hafi farið í hönd lögreglurannsókn, þar sem yfirheyrðir hafi verið lögmenn, sem Sigurður hafði ráðfært sig við, þar á meðal verjendur tveggja sakborninga. Við þessar yfirheyrslur hafi ekki verið gætt að ákvæði 86. gr. laga nr. 74/1974 um þagnarskyldu verjenda, auk þess að einn lögmaðurinn hafi verið yfirheyrður sem sakborningur og vitni í senn. Lögreglan hafi þannig vanvirt réttindi og skyldur lögmanna og brotið rétt á ákærðu í málinu. Með þessum yfirheyrslum hafi þó sannast að Sigurður hafi leitað til lögmanns strax hinn 15. desember 1976 og sagt frá því hvernig hann hafi verið yfirheyrður daginn áður í meira en 12 klukkustundir með leiðandi spurningum og hótandi atferli. Telur talsmaðurinn mikilvægt við mat á sönnunargögnum að tekist hafi að sanna að Sigurður hafi strax næsta dag komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi verið þvingaður til framburðar síns umrætt sinn, en ekki löngu síðar. Í dómi sakadóms hafi verið talið að breyting Sigurðar á framburði sínum hafi veikt trúverðugleika hans, en í dómi Hæstaréttar hafi hins vegar verið tekið svo til orða að ekkert mark yrði tekið á afturköllun Sigurðar á framburði sínum. Telur talsmaðurinn að Hæstiréttur hafi hér annaðhvort misskilið umrædda ályktun héraðsdóms eða talið að breyttur framburður fyrir dómi skipti engu um gildi fyrri framburðar, sem hafi verið gefinn 14. desember 1976 meðan Sigurðar sætti fangelsun og gaf lögregluskýrslu sem sakborningur án réttargæslu. Þá vísar talsmaðurinn einnig til þess að Sigurði hafi 14. október 1977 verið gert að sæta gæsluvarðhaldi í 25 daga vegna gruns um rangan framburð fyrir lögreglu í desember 1976 og janúar 1977 og fyrir dómi í maí sama árs. Á gæsluvarðhaldstímanum hafi Sigurður verið yfirheyrður sem sakborningur, en héraðsdómur og Hæstiréttur hafi samt sem áður talið skýrslur hans vitnaframburð. Einnig verði að hafa í huga að skýrslur Sigurðar á fyrri stigum, sem sakfelling hafi meðal annars verið reist á, fólu í sér rangan framburð að mati ákæruvaldsins, sem krafðist gæsluvarðhalds yfir Sigurði af þeim sökum og fékk því framgengt með úrskurði sakadóms, sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar. Af skjölum málsins verði ekki ráðið að ríkissaksóknari hafi fallið frá kæru á hendur Sigurði vegna rangs framburðar. Þrátt fyrir allt þetta hafi Hæstiréttur, og að nokkru sakadómur, byggt við úrlausn málsins á fyrri framburði Sigurðar, sem ríkissaksóknari hafi talið rangan og dómstólar tekið undir að rannsaka þyrfti, en hins vegar haft að engu síðari framburð hans, sem ekki hafi verið talinn rangur.

 

Af hálfu ákæruvalds er bent á að það, sem að framan greinir, hafi legið fyrir í gögnum málsins við flutning og úrlausn þess. Geti það því ekki komið til álita til stuðnings beiðni um endurupptöku málsins.

 

4.8. Talsmaðurinn vísar til þess að við úrlausn málsins hafi verið lagt til grundvallar að dómfelldi hafi ásamt Kristjáni Viðari Viðarssyni og Guðjóni Skarphéðinssyni farið með lík Geirfinns Einarssonar í bifreið að Grettisgötu 82, þar sem líkið hafi verið geymt um sinn. Hafi þá verið ekið inn um undirgang og eftir stíg, sem liggi aftan við hús við Grettisgötu. Í þessum efnum hafi verið litið framhjá því að akstur um bakgarða um miðja nótt hefði að líkindum vakið fjölda íbúa í nærliggjandi húsum. Geymslustaður líksins í kjallaranum að Grettisgötu 82 hafi verið rækilega rannsakaður, en án árangurs. Því til viðbótar hafi ekki tekist að finna lík Geirfinns Einarssonar og sé augljóst að það geti ekki hafa verið grafið í Rauðhólum, svo sem byggt hafi verið á við úrlausn málsins, því að ekki hefði verið unnt að grafa þar vegna frosts í jörðu á þeim tíma, sem um ræðir í málinu, eða alltént þá aðeins grunnt.

 

Af hálfu ákæruvalds er vísað til þess að gögn frá Veðurstofu Íslands um frost í jörðu í Rauðhólum á umræddum tíma hafi legið fyrir við úrlausn málsins, enda sé til þess vitnað í dómi Hæstaréttar.

 

4.9. Talsmaður dómfellda bendir á að í dómi sakadóms og Hæstaréttar sé lögð mikil áhersla á framburð Guðmundar Sigurðar Jónssonar og Ámunda Rögnvaldssonar, sem hafi talið sig ef til vill hafa ekið Erlu Bolladóttur hluta leiðar frá Keflavík til Hafnarfjarðar. Talsmaðurinn vísar til þess að Guðmundur hafi fyrst gefið skýrslu hjá lögreglunni 30. mars 1976, þar sem hann hafi meðal annars sagst hafa ekið rauðri Skoda bifreið umrætt sinn og tekið stúlku upp í hana við gatnamót, þar sem vegur liggi að Keflavíkurflugvelli. Atburðinn hafi hann ekki getað tímasett eða dagsett. Myndir af Erlu hafi oft birst í fjölmiðlum áður en þessi skýrsla var gefin. Guðmundur hafi fyrrgreindan dag mætt til eins konar óformlegrar sakbendingar og talið eina stúlkuna þar koma til greina. Þegar Guðmundur hafi hins vegar komið fyrir dóm 26. maí 1977 hafi hann breytt framburði sínum verulega. Hann hafi þá sagst muna eftir að umræddur atburður hafi gerst 20. nóvember 1976. Hann hafi tekið stúlkuna upp í bifreiðina vestast á Hafnargötu í Keflavík. Hann hafi jafnframt talið sennilegt að bifreiðin, sem hann hafi þá ekið, hafi verið gömul og af gerðinni Moskvitch. Talsmaðurinn kveður þessa gerbreyttu frásögn Guðmundar hafa fallið betur að tilgátum rannsóknarmanna, auk þess að frásögn höfð eftir Erlu hafi birst í fjölmiðlum áður en Guðmundur kom fyrir dóm. Þá sé þess að gæta að Ámundi Rögnvaldsson hafi ekki þekkt Erlu í hópi stúlkna, sem hann hafi fengið að sjá í tengslum við skýrslugjöf hjá lögreglunni. Talsmaðurinn telur athyglisvert að í frásögn af framburði þessara vitna í dómi Hæstaréttar sé ekki gerður greinarmunur á skýrslugjöf fyrir lögreglu og dómi. Ekki sé þar getið um að framkvæmd sakbendinga, sem þessi vitni voru við, fullnægði ekki reglum um öflun slíkra sönnunargagna. Þá hafi héraðsdómarar sem endranær látið hjá líða að boða verjendur til þinghalds við öflun vitnisburðar Guðmundar, sem að auki sé sérstætt að telja greinargott vitni, svo sem gert var í dómi Hæstaréttar, þegar þess sé gætt hversu verulega hann hafi breytt framburði sínum. Í tengslum við þetta vísar dómfelldi enn fremur til yfirlýsingar Erlu Bolladóttur 19. nóvember 1996, sbr. kafla III.4. hér að framan, þar sem komi fram hvernig frásögn hennar hafi orðið til um ferð frá Keflavík til Hafnarfjarðar að morgni 20. nóvember 1974. Hafi hún þar byggt á fyrri reynslu af slíkri ferð, en hart hafi verið lagt að henni að gefa skýrslu, sem samræmdist tilgátum rannsóknarmanna.

 

Af hálfu ákæruvalds er því haldið fram að umfjöllun talsmanns dómfellda um skýrslur framangreindra vitna feli í sér gagnrýni á mat Hæstaréttar um sönnunargildi gagna, sem hafi legið fyrir við úrlausn málsins, en ekki sé um að ræða ný gögn, sem geti leitt til endurupptöku þess samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991.