IV.3.

 

3.1. Talsmaður dómfellda telur að við útgáfu ákæru 8. desember 1976 hafi ekki verið fullnægt því skilyrði fyrir höfðun opinbers máls að sakargögn væru nægileg eða líkleg til sakfellis fyrir ætluð brot tengd hvarfi Guðmundar Einarssonar samkvæmt I. kafla ákærunnar. Þetta megi meðal annars ráða af tugum athugasemda, sem einn dómaranna í héraði, Ármann Kristinsson, hafi tekið saman á minnisblaði 9. janúar 1977. Meðal annars hafi þar verið fundið að því að fyrir dómi hafi nær engin rannsókn farið fram og verið lýst þeirri skoðun að lögreglurannsókn hafi í ýmsu verið vægast sagt afar sérstæð. Einnig liggi fyrir minnispunktar um málið, sem Kristmundur Sigurðsson lögreglumaður hafi gert 17. janúar 1977. Af þeim megi ráða að ekki hafi farið fram hjá honum að ekki væri grundvöllur til sakaráfellis eins og málið lá þá fyrir. Þá liggi fyrir minnispunktar Gísla Guðmundssonar lögreglumanns 13. janúar 1977 um það, sem hann hafi talið áfátt í rannsókn málsins, meðal annars vegna upplýsinga um að dómfelldi hafi farið austur í Gljúfurholt um þær mundir, sem Guðmundur Einarsson hvarf. Þessu til samræmis hafi dómarar í málinu gert bókun í þinghaldi 21. mars 1977, þar sem fram komi það álit þeirra að rannsókn málsins hafi í ýmsum atriðum verið verulega áfátt við útgáfu ákæru, en af þeim sökum hafi þeir í janúar á því ári falið tilteknum lögreglumönnum áframhaldandi rannsókn sakarefnisins, sem dómararnir hafi fylgst með. Talsmaðurinn telur ljóst af þessu að dómararnir og lögreglumenn, sem hafi starfað á þeirra vegum, hafi ekki talið sakargögn nægja til ákæru. Í stað þess að vísa málinu frá eða gefa eftir atvikum ákæruvaldinu kost á að afla frekari sönnunargagna hafi dómarar málsins tekið sókn þess í sínar hendur. Við rannsóknina, sem dómararnir hafi hlutast til um, hafi að auki verið vanrækt að kanna atriði dómfellda í hag, meðal annars hvort unnt væri að staðreyna veru hans á öðrum stað þegar atvik í þessum þætti málsins gerðust.

 

Af hálfu ákæruvalds er um framangreint vísað til þess að bókanir og gögn um meðferð málsins fyrir sakadómi hafi legið mjög skýrlega fyrir á þeim tíma, sem málið hafi verið flutt og dæmt. Sé því ekki bent á neitt nýtt í þessu sambandi. Að því er varðar staðhæfingar talsmannsins um að unnt hefði verið að sanna veru dómfellda í Gljúfurholti á þeim tíma, sem Guðmundur Einarsson hvarf, með gögnum varðandi rannsókn á fíkniefnamáli, vísar ríkissaksóknari til þess að gögn úr þeirri rannsókn, sem hann hafi lagt fyrir Hæstarétt á fyrri stigum við meðferð beiðni dómfellda um endurupptöku, veiti enga slíka sönnun.

 

3.2. Talsmaður dómfellda vísar til þess að í vottorði Arnar Höskuldssonar 22. ágúst 1977 segi að í þinghaldi 11. janúar 1976 vegna rannsóknar á þessum þætti málsins hafi dómfelldi reynt "að bera fyrir sig, að hann hefði verið þvingaður til þess að játa á sig sakir í "Guðmundarmálinu". Ég tók ekkert mark á framburði hans, þar sem ég vissi betur, en ég var viðstaddur, þegar hann skýrði fyrst frá, og svo var einnig hans réttargæslumaður Jón Oddsson hrl., og á honum að vera manna best kunnugt um, að framburður Sævars er rangur." Þetta hafi Örn áréttað efnislega þegar hann hafi gefið skýrslu hjá lögreglunni 3. október 1979 vegna kæru dómfellda um harðræði, sem hann hafi verið beittur í gæsluvarðhaldsvist. Talsmaðurinn bendir einnig á að í lögregluskýrslu 30. apríl 1976 hafi dómfelldi sagt að allar sakir á hendur sér væru ósannindi og tómur uppspuni. Þá vísar hann jafnframt til þess að í forsendum dómsúrskurðar 3. júlí 1976 hafi verið haft eftir dómfellda að framburður hans fyrir lögreglu hafi ekki verið reistur á hans eigin vitneskju, heldur frásögn Erlu Bolladóttur. Þetta allt sýni að ályktun í dómi Hæstaréttar sé röng, þegar sagt sé að dómfelldi hafi ekki dregið til baka játningu sína um sök í þessum þætti málsins fyrr en í mars 1977. Þessi ranga ályktun hafi leitt til sakfellingar. Jafnframt sé ljóst af þessu að dómfelldi hafi leitast við að skýra rétt frá staðreyndum, en ekki fengið það. Þessu til frekari stuðnings vísar talsmaðurinn til þess að réttargæslumaður dómfellda hafi óskað eftir því með bréfi 22. júlí 1976 að tekin yrði skýrsla af dómfellda fyrir dómi að sér viðstöddum eða af lögreglunni. Þá telur talsmaðurinn enn fremur að Hæstiréttur hafi vanrækt við úrlausn málsins að byggja á þeirri reglu opinbers réttarfars að afturköllun játningar leiði til þess að hún hafi ekki lengur þau réttaráhrif, sem um ræddi í 3. mgr. 134. gr. laga nr. 74/1974.

 

Af hálfu ákæruvalds er því haldið fram að tilvitnuð orð úr bréfi Arnar Höskuldssonar, sem hafi legið fyrir við meðferð málsins og vitnað sé til í dómi sakadóms, gefi ekkert tilefni til þeirrar ályktunar að dómfelldi hafi haldið því fram að hann hafi ekki skýrt efnislega rétt frá við yfirheyrslu, heldur að játning hans hafi verið knúin fram með ólögmætum aðferðum. Í bréfinu fjalli Örn eingöngu um þá ásökun og vísi til þess að hann sjálfur og réttargæslumaður dómfellda hafi verið viðstaddir yfirheyrsluna yfir dómfellda. Þeir viti þess vegna báðir að þessi ásökun dómfellda sé röng. Þá telur ríkissaksóknari að glöggt megi sjá af gögnum málsins að dómfelldi hafi ekki neitað aðild að hvarfi Guðmundar Einarssonar fyrr en í þinghaldi 29. mars 1977. Í því sambandi er bent á að dómfelldi hafi gefið skýrslur hjá lögreglunni 22. desember 1975, 4. janúar, 6. janúar og 30. september 1976 og 9. mars 1977, þar sem hann hafi alltaf játað aðild að hvarfi Guðmundar. Réttargæslumaður dómfellda hafi verið viðstaddur í öllum þessum tilvikum nema því síðastnefnda, en þá hafi verið bókað við skýrslugjöf að ekki hafi náðst til hans. Í skýrslu fyrir dómi 29. mars 1977, þar sem verjandi hafi verið viðstaddur, hafi dómfelldi í upphafi játað aðild að hvarfi Guðmundar, en síðan horfið frá því. Að öðru leyti bendir ríkissaksóknari á það að forsendur dómsúrskurðar 3. júlí 1976, sem talsmaður dómfellda vísar sérstaklega til, hafi legið fyrir þegar leyst hafi verið úr málinu fyrir Hæstarétti. Séu þetta því ekki nýjar upplýsingar og því síður hafi í tengslum við þetta orðið einhver mistök, sem hafi leitt til sakfellingar dómfellda í þessum þætti málsins. Að því er varðar umfjöllun talsmannsins um áhrif þess að lögum að játning hafi verið afturkölluð bendir ríkissaksóknari á að legið hafi fyrir við úrlausn málsins að dómfelldi hafi dregið til baka játningu sína í þessum þætti málsins. Geti þetta því ekki komið til skoðunar sem röksemd fyrir endurupptöku málsins.

 

3.3. Talsmaður dómfellda vísar til þess að Elínborg Jóna Rafnsdóttir og Sigríður Magnúsdóttir, sem hafi séð Guðmund Einarsson ásamt öðrum manni á gangi eftir Strandgötu í Hafnarfirði aðfaranótt 27. janúar 1974, hafi komið til sakbendingar 27. janúar 1977. Við sakbendinguna hafi Kristjáni Viðari Viðarssyni, sem fjölmargar myndir hafi áður birst af opinberlega, verið stillt upp meðal jafn hárra manna og hafi ekki komið fram hversu háir þeir væru. Talsmaðurinn kveður Kristján vera um 190 cm að hæð, en Guðmund hafa verið um 180 cm. Við sakbendinguna hafi Elínborg og Sigríður bent á Kristján með nokkurri óvissu. Talsmaðurinn segir að nú sé komið í ljós að maðurinn, sem Elínborg og Sigríður hafi séð með Guðmundi, hafi verið nokkru lægri en hann, eða um 170 cm hár, en um þetta vísar hann til yfirlýsingar Elínborgar 26. ágúst 1996, sem greint er frá í kafla III.3. hér að framan. Þetta geti samrýmst því, sem fram kemur í yfirlýsingum Kristrúnar Jónínu Steindórsdóttur og Þórðar Arnar Marteinssonar frá 7. september 1996, sbr. kafla III.8., um að þau hafi séð Guðmund í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði við lok dansleiks með heldur lágvaxnari manni. Talsmaðurinn kveður Elínborgu og Sigríði telja sig hafa verið leidda af lögreglumönnum til vættis síns. Við skýrslugjöf þeirra hafi verjendur ekki verið viðstaddir. Framburður þeirra hafi því verið fenginn með ólöglegum hætti og verði ekki lagður til grundvallar refsidómi. Enn fremur leiði af yfirlýsingu Elínborgar að Kristján geti ekki hafa verið maðurinn, sem hafi sést til með Guðmundi umrætt sinn, en ekki hafi fundist önnur vitni til stuðnings því að Guðmundur hafi hitt einn eða fleiri ákærðu í miðbæ Hafnarfjarðar og haldið með þeim að Hamarsbraut 11. Telur talsmaðurinn að með þessu sé sýnt fram á að ekki standist sú meginforsenda fyrir niðurstöðum í héraðsdómi, að Guðmundur hafi hitt Kristján fyrir utan Alþýðuhúsið í Hafnarfirði og það hafi leitt til þeirra atburða að Hamarsbraut 11, sem ákært hafi verið fyrir í þessum þætti málsins.

 

Af hálfu ákæruvalds er bent á að framkvæmd sakbendingar, sem Elínborg Rafnsdóttir og Sigríður Magnúsdóttir hafi tekið þátt í, sé ítarlega lýst í gögnum málsins. Þær hafi þar báðar gert skilmerkilega grein fyrir því að langur tími væri liðinn frá atburðum málsins. Samt sem áður hafi þær verið nokkuð vissar í sinni sök. Þær hafi tekið fram að maðurinn, sem þær bentu á, væri feitari en hann hafi verið þremur árum fyrr, en þær hafi allt að einu talið sig þekkja hann aftur, meðal annars af munnsvip hans. Í nýrri yfirlýsingu Elínborgar segi að maðurinn, sem hún hafi séð í umrætt sinn, hafi verið 10 cm lægri en Guðmundur Einarsson, en þeir, sem hafi verið stillt upp við sakbendingu, hafi allir verið á hæð við Kristján Viðar Viðarsson, eða um 10 cm hærri en Guðmundur. Er því haldið fram að þessi yfirlýsing Elínborgar sé gersamlega haldlaus, en í yfirlýsingunni felist að við sakbendingu hafi Elínborg bent á mann, sem hafi verið 190 cm hár, og talið hann vera 170 cm. Þessi "uppgötvun" Elínborgar hafi átt sér stað 20 árum eftir sakbendingu. Elínborg og Sigríður hafi báðar komið fyrir dóm 22. mars 1977. Þar hafi þær staðfest skýrslur, sem þær hafi áður gefið hjá lögreglunni, og unnið eið að framburði sínum, þar á meðal upplýsingum um hæð mannsins, sem þær hafi séð með Guðmundi.

 

3.4. Talsmaður dómfellda vísar til þess að þegar eftir hvarf Guðmundar Einarssonar hafi komið fram við rannsókn lögreglunnar vísbendingar um að hann hafi verið dauðadrukkinn að ganga áleiðis til Reykjavíkur eftir götu í Hafnarfirði á þriðja tíma morguns 27. janúar 1974. Vitnið Sveinn Vilhjálmsson hafi greint lögreglunni frá því að hann hafi séð til þessara ferða Guðmundar á milli kl. 2.15 og 2.30 um nóttina, en félagi Sveins, Smári Kjartan Kjartansson, hafi talið klukkuna hafa verið nálægt þrjú. Telur talsmaðurinn þetta vera sönnun um ferðir Guðmundar, sem valdi því að ekki fái staðist að hann hafi verið á sama tíma á leið að Hamarsbraut 11 með Kristjáni Viðari Viðarssyni og fleirum.

 

3.5. Talsmaður dómfellda bendir á að í dómi Hæstaréttar í þessum þætti málsins hafi verið gengið út frá því að átök, sem hafi leitt Guðmund Einarsson til dauða, hafi stafað af neitun hans um að leggja fram fé til áfengiskaupa. Við úrlausn málsins hafi Hæstiréttur haft undir höndum gögn um rannsókn á fíkniefnamáli, sem talsmaðurinn kveður hafa leitt í ljós að dómfelldi og aðrir ákærðu hafi haft mikið fé undir höndum um þessar mundir vegna sölu fíkniefna, en frekari gögn um þetta kveðst talsmaðurinn ekki hafa getað fengið frá embætti ríkissaksóknara. Af þessum sökum standist hvorki tilgátan um að ákærðu hafi að kvöldi 26. janúar 1974 verið að leitast við að ræna veskjum af vegfarendum né tilgátan um framangreint tilefni átaka við Guðmund. Hafi borið að meta áhrif þessara upplýsinga við úrlausn málsins.

 

Af hálfu ákæruvalds er vísað til þess að á fyrri stigum við meðferð beiðni dómfellda um endurupptöku málsins hafi verið lögð fram ýmis gögn varðandi þá rannsókn á fíkniefnamáli, sem að framan getur. Frekari gögn séu tiltæk um þá rannsókn, en talsmaður dómfellda hafi ekki leitað eftir þeim. Ríkissaksóknari kveður þau gögn ekkert hafa að geyma, sem gæti að áliti hans hafa haft áhrif á mat Hæstaréttar á gögnum varðandi hvarf Guðmundar Einarssonar.

 

3.6. Talsmaður dómfellda bendir á að húsið að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði sé lítið timburhús á tveimur hæðum með kjallara. Húsið sé gamalt og gert af vanefnum. Þar sé mjög hljóðbært, enda hafi aðrir íbúar hússins kvartað ef háreysti eða umgangur barst frá kjallaraíbúðinni, sem Erla Bolladóttir hafði þar til afnota. Að auki sé húsið við litla götu í hljóðlátu hverfi, þar sem hús standi þétt, og megi heyra greinilega á milli þeirra. Verði því nágrannar varir við alla umferð, einkum á síðkvöldum og um nætur. Enginn íbúi að Hamarsbraut 11 eða í nærliggjandi húsum hafi orðið var við hávaða eða umferð aðfaranótt 27. janúar 1974. Þessu til frekari stuðnings liggi nú fyrir nýjar yfirlýsingar frá Kristrúnu Jónínu Steindórsdóttur og Þórði Erni Marteinssyni, sbr. kafla III.8. hér að framan.

 

Af hálfu ákæruvalds er því haldið fram að upplýsingar um framangreint hafi legið fyrir við úrlausn málsins, en mótmælt sé að umrædd yfirlýsing hafi nokkra þýðingu fyrir mat á sönnunargögnum málsins.

 

3.7. Talsmaður dómfellda finnur að því að í dómi Hæstaréttar hafi ekkert verið fjallað um að gögn málsins beri með sér að framan af við rannsókn þess hafi verið byggt á því að hringt hafi verið eftir leigubifreið og til Alberts Klahn Skaftasonar frá Hamarsbraut 11 aðfaranótt 27. janúar 1974, svo og að Albert hafi komið þangað á bifreið með skuthurð af gerðinni Toyota, sem lík Guðmundar Einarssonar hafi síðan verið flutt í. Hafi á því stigi komið fram ítarlegar upplýsingar um hvernig bifreiðin hafi staðið þegar líkið hafi verið sett inn í hana og hvar farþegar hafi setið í henni. Þegar lögreglumenn hafi komist síðar að því að Albert hafi ekki á þessum tíma haft aðgang að bifreið þessarar gerðar, heldur gamalli Volkswagen bifreið, hafi þurft að breyta öllum skýrslum sakborninga um þetta efni. Við þá breytingu hafi meðal annars komið til sú frásögn að lík Guðmundar hafi verið lagt á gólfið framan við aftursæti bifreiðarinnar, þar sem Kristján Viðar Viðarsson og Tryggvi Rúnar Leifsson hafi síðan sest. Telur talsmaðurinn útilokað að unnt hafi verið að koma líkinu og síðastnefndum farþegum fyrir með þessu móti, en það hafi þó ekki verið rannsakað. Eins hafi þurft að breyta skýrslum sakborninga þegar komið hafi í ljós að síminn að Hamarsbraut 11 hafi verið lokaður á umræddum tíma.

 

3.8. Talsmaður dómfellda vísar til þess að fram komi í yfirlýsingu Alberts Klahn Skaftasonar 16. janúar 1997, sem greint er frá í kafla III.2. hér að framan, að hann geti ekki borið um að hann hafi verið að Hamarsbraut 11 aðfaranótt 27. janúar 1974.

 

Af hálfu ákæruvalds er bent á að Albert hafði ekki dregið til baka framburð sinn þegar málið var dæmt í Hæstarétti. Ný yfirlýsing frá honum nú, 17 árum eftir sakfellingu hans, geti engu skipt um hvort taka eigi málið upp á ný.

 

3.9. Talsmaður dómfellda kveður það fyrst hafa verið nefnt í skýrslu Gísla Guðmundssonar lögreglumanns 3. mars 1977, þar sem greint var frá samtölum hans við dómfellda næstu daga þar á undan, að Gunnar Jónsson kunni að hafa verið staddur að Hamarsbraut 11 aðfaranótt 27. janúar 1974. Eftir skýrslutöku af Albert Klahn Skaftasyni 3. og 4. mars 1977 hafi verið gerðar ráðstafanir til að hafa upp á Gunnari, sem þá hafi búið erlendis. Tveir lögreglumenn hafi verið sendir til að sækja Gunnar til Spánar og hafi hann síðan komið fyrir dóm 30. apríl 1977. Á dómþingi hafi þá verið mætt af hálfu ákæruvalds, en verjendur ákærðu hafi ekki verið boðaðir. Gunnar hafi þar verið áminntur um sannsögli, en einnig hafi verið vakin athygli hans á reglu um yfirheyrslu grunaðs manns fyrir dómi. Samkvæmt bókun um þinghaldið hafi Gunnar verið þar tæpar 5 klukkustundir og hafi málið verið reifað fyrir honum. Segi þar að formlegri skýrslutöku hafi verið frestað, þar sem reifunin hafi tekið alllangan tíma. Þegar Gunnar hafi komið aftur fyrir dóm 2. maí 1977 hafi honum verið sýnd ljósmynd af Guðmundi Einarssyni, sem hann hafi séð í dagblaði í lok janúar 1974 en ekki sett í samband við neitt, sem hann hafi orðið sjónarvottur að dagana þar á undan. Í bókun um framburð Gunnars þessu sinni hafi verið tekið fram að hann hafi komið að Hamarsbraut 11 sama dag og hann kom fyrst fyrir dóm. Við skýrslugjöfina hafi Gunnari síðan verið sýndar ljósmyndir af íbúðinni þar. Hafi þá Gunnar getað lýst henni að nokkru. Samkvæmt framburði Gunnars hafi hann ekki munað eftir átökum á þessum stað eða að dómfelldi, Kristján Viðar Viðarsson eða Tryggvi Rúnar Leifsson hafi verið þar, en hann hafi neytt LSD og hugsanlega einnig hass um þessar mundir. Daginn eftir hafi Gunnar aftur komið fyrir dóm og verið samprófaður að viðstöddum fulltrúa ákæruvaldsins við Albert Klahn Skaftason, sem hafi verið án verjanda. Gunnar hafi ekkert munað með vissu, en fallist á að segja óljósa sögu til samræmis við Albert. Hafi Gunnar minnt sumt og sagt að annað hljóti að hafa verið með tilteknum hætti, en aldrei hafi hann staðhæft neitt. Hann hafi ítrekað að hafa frétt af hvarfi Guðmundar þegar lýst hafi verið eftir honum, en ekki sett það í samhengi við atburðina, sem spurt væri um. Hinn 4. maí 1977 hafi Gunnar aftur gefið skýrslu fyrir dómi og síðan verið samprófaður við Kristján, Tryggva og dómfellda. Verjendur Kristjáns og Tryggva hafi verið viðstaddir samprófun, sem hafi staðið mjög stutt, en þar hafi framburður Gunnars ekki verið lesinn upp. Verjandi dómfellda hafi hins vegar ekki verið viðstaddur og hafi ekkert verið bókað um að hann hafi verið boðaður. Loks hafi Gunnar komið fyrir dóm 5. maí 1977 og unnið eið að framburði sínum eftir að lýst hafi verið yfir að hann yrði ekki saksóttur í málinu. Talsmaður dómfellda telur sönnunargildi þessa framburðar næsta lítið í ljósi þess að Gunnar hafi fyrst verið yfirheyrður sem sakborningur, en síðan unnið eið sem vitni að framburði, sem hann hafi gefið sem sakborningur. Þá hafi Gunnar sagst hafa séð ljósmynd af Guðmundi fáum dögum eftir hvarf hans og ekki þekkt hann. Gunnar hafi einnig borið að hvorki dómfelldi né aðrir ákærðu hafi rætt við sig um Guðmund eða atburði honum tengda. Telur talsmaðurinn að ekki verði ráðið annað af þessu en að í framburði Gunnars felist skilaboð um að hann viti ekkert um atburði varðandi Guðmund að Hamarsbraut 11 aðfaranótt 27. janúar 1974. Hafa verði í huga að Gunnar hafi gefið skýrslur sínar að viðstöddum saksóknara fyrir dómurum, sem hafi litið á það sem hlutverk sitt að rannsaka málið, en skýrslurnar hefðu orðið með talsvert öðrum hætti ef verjendur hefðu einnig verið viðstaddir. Verjandi Tryggva hafi fundið að þessari málsmeðferð í bréfi til dómsins 14. september 1977 og beint síðan tilteknum spurningum í þessu sambandi til dómsins og saksóknara í öðru bréfi 3. næsta mánaðar. Verjandi dómfellda hafi einnig með bréfi 11. maí 1977 lýst óánægju með að Gunnar væri farinn aftur úr landi, því að verjendur hafi ekki haft sama tækifæri til að yfirheyra hann og saksóknari. Engu þessara bréfa hafi verið svarað. Talsmaðurinn bendir á að framburður Gunnars hafi allt að einu verið lagður til grundvallar sakfellingu í héraðsdómi. Talsmaðurinn telur endursögn af framburðinum í héraðsdómi óvenjulega hlutdræga, en ákveðin dæmi eru tekin í greinargerð hans því til stuðnings. Þá hafi ekki verið sagt frá því í dóminum hvernig staðið hafi verið að skýrslutöku af Gunnari. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms hafi lögreglumennirnir, sem sóttu Gunnar til Spánar, gefið skýrslu fyrir dómi að kröfu verjenda. Þar hafi annar lögreglumaðurinn meðal annars sagt að Gunnar hafi haft á orði að hann hefði sennilega ekki unnið eið að framburði sínum ef lögreglumaðurinn hefði verið viðstaddur á dómþingi. Með þessu hafi lögreglumaðurinn talið að Gunnar hafi gefið í skyn að hann væri ekki viss í sinni sök um framburðinn. Hinn lögreglumaðurinn hafi haft eftir föður Gunnars að Gunnar hafi verið hugsandi út af málinu. Með hliðsjón af þessu öllu, sérstaklega framburði Gunnars varðandi birtingu myndar af Guðmundi í lok janúar 1974, telur talsmaðurinn héraðsdómi og einkum Hæstarétti hafa orðið á yfirsjón við mat á sönnunargildi framburðar Gunnars, en það eitt, að verjendur hafi verið útilokaðir frá því að vera við skýrslutöku af honum, hefði að auki átt að nægja til að ómerkja alla málsmeðferðina. Hæstiréttur hafi enn fremur ranglega talið að það, sem bókað hafi verið eftir Gunnari við skýrslugjöf 2. maí 1977, hafi legið fyrir áður en farið hafi verið með hann á vettvang að Hamarsbraut 11. Varðandi gildi vitnisburðar Gunnars vísar talsmaðurinn jafnframt til yfirlýsingar Alberts Klahn Skaftasonar 16. janúar 1997, sbr. kafla III.2. hér að framan.

 

Af hálfu ákæruvalds er því haldið fram að öll framangreind atriði varðandi mat á sönnunargildi framburðar Gunnars Jónssonar, önnur en yfirlýsing Alberts Klahn Skaftasonar, hafi legið fyrir þegar málið var dæmt. Sé því mótmælt að komin séu fram ný gögn, sem bendi til þess að héraðsdómi eða Hæstarétti hafi yfirsést einhver mikilvæg atriði í þessu mati. Sérstaklega sé því mótmælt að efni séu til endurupptöku á þeirri forsendu að Hæstarétti hefði borið að ómerkja alla meðferð málsins vegna þess að verjendum hafi ekki gefist kostur á að vera staddir við skýrslutöku af Gunnari Jónssyni, enda hafi allt, sem að þessu lúti, legið skýrlega fyrir við flutning og úrlausn málsins. Þá skipti ný yfirlýsing frá Albert engu um það hvort taka eigi málið upp á ný.

 

3.10. Talsmaður dómfellda vísar til þess að í yfirlýsingu Erlu Bolladóttur 22. febrúar 1996, sbr. kafla III.4. hér að framan, sé skýrt frá því að hvorki dómfelldi né aðrir ákærðu í þessum þætti málsins hafi komið að Hamarsbraut 11 aðfaranótt 27. janúar 1974. Hafi hún því ekki orðið þess áskynja að þeir flyttu þaðan eitthvað, sem gæti hafa verið lík. Í yfirlýsingunni komi einnig fram skýring Erlu á því hvers vegna laki af rúmi þar á staðnum hafi verið fargað í sorptunnu og sé sú skýring eðlileg og sennileg, gagnstætt skýringunni, sem lögð hafi verið til grundvallar við úrlausn málsins. Þá komi og fram í yfirlýsingu Erlu að hún hafi skýrt lögreglumönnum rétt frá atvikum við yfirheyrslu, en þeir hafi fengið hana til að gefa ranga skýrslu með ýmsum aðferðum. Af þessu telur talsmaðurinn ljóst að sakfelling verði ekki byggð á framburði Erlu, auk þess að sönnun sé fengin fyrir því að dómfelldi hafi ekki verið í Hafnarfirði umrædda nótt.

 

Af hálfu ákæruvalds er bent á að Erla Bolladóttir hafi ekki tekið aftur framburð sinn í þessum þætti málsins áður en dómur var lagður á það í Hæstarétti. Nýjar yfirlýsingar hennar nú um þetta efni geti því engu skipt um mat á þeim sönnunargögnum, sem hafi verið lögð til grundvallar við úrlausn málsins.

 

3.11. Talsmaður dómfellda vísar til þess að í dómi sakadóms greini frá því að þegar Guðmundar Einarssonar var leitað fyrstu dagana eftir hvarf hans hafi verið um 60 cm snjóalag utan vega á óbyggðum svæðum kringum Hafnarfjörð. Einnig hafi legið fyrir í gögnum málsins upplýsingar um að ófært hafi verið síðari hluta aðfaranætur 27. janúar 1974. Talsmaðurinn kveður unnt að ráða af nýjum gögnum, sem hann hafi aflað um snjó og færð á umræddan tíma, að ókleift hefði verið að aka gamalli Volkswagen bifreið um vegarslóða í Hafnarfjarðarhrauni þessa nótt. Þetta atriði, sem hafi verið meðal forsendna fyrir málatilbúnaðinum á hendur dómfellda, hafi yfirsést við rannsókn málsins. Fyrir bragðið hafi komið fram lýsingar frá sakborningum á ferðinni um hraunið, sem útilokað sé að geti staðist miðað við þessi nýju gögn.

 

Af hálfu ákæruvalds er vísað til þess að í gögnum málsins sé vottorð frá Veðurstofu Íslands um veður í Reykjavík, á Vífilsstöðum og í Straumsvík dagana 25. til 27. janúar 1974. Ný skjöl, sem talsmaður dómfellda hafi lagt fram um sama efni, breyti engu um það mat, sem hafi verið lagt á þetta atriði við úrlausn málsins.