IV.

 

IV.1.

 

Í eftirfarandi kafla er gerð grein fyrir meginefni þeirra röksemda, sem talsmaður dómfellda hefur fært fram fyrir beiðni um endurupptöku í greinargerð sinni 20. febrúar 1997, svo og tilsvara af hálfu ákæruvalds, eins og þau koma fram í umsögn setts ríkissaksóknara um beiðnina 22. maí 1997. Röksemdir eru endursagðar og tilsvörin við þeim og er efni þeirra skipað hér í aðra röð en í greinargerð dómfellda og umsögn ákæruvaldsins. Sú leið er farin að greina frá hverri röksemd talsmanns dómfellda fyrir sig og jafnharðan tilsvari ákæruvaldsins gegn henni, hafi hún komið sérstaklega til umfjöllunar í greinargerð af hálfu þess. Reifun röksemda og tilsvara er hér raðað þannig að í kafla IV.2. er fjallað um atriði í tengslum við skýringu lagaheimilda, einkum varðandi endurupptöku opinberra mála, í köflum IV.3., IV.4. og IV.5. um atriði, sem tengjast sérstaklega sakarefninu í I. kafla ákæru 8. desember 1976, I. kafla ákæru 16. mars 1977 og II. kafla sömu ákæru, og í kafla IV.6. um röksemdir, sem snúa að staðhæfingum talsmanns dómfellda um harðræði í gæsluvarðhaldsvist, ólögmætar rannsóknaraðferðir og brot á reglum um meðferð máls fyrir dómi. Að lokum verður í kafla IV.7. greint frá öðrum atriðum í röksemdum talsmannsins og tilsvörum ákæruvaldsins, þar á meðal heildarályktunum þeirra.