III.9.

 

Í yfirlýsingu Magnúsar Gíslasonar 20. nóvember 1996 segir meðal annars eftirfarandi:

 

"1. Arnbjörn Óskarsson, læknir í Keflavík, hringdi í mig síðdegis hinn 20. nóvember 1974 og hafði allmikið fyrir því að ná í mig þar sem ég var ekki heima. Hann sagði mér að um morguninn hafði hann verið beðinn um lyfseðil fyrir róandi lyfjum. Gefin var sú ástæða að eiginmaður vinkonu beiðandans hefði ekki komið heim um nóttina og konan hefði áhyggjur vegna þess. Lækninum fannst þetta mjög óvenjulegt og taldi hann að full ástæða væri til að kanna málið. Ég var þá fréttamaður Vísis á Suðurnesjum. Læknirinn var kunningi minn. Hafði ég þegar samband við fréttastjórann Jón Birgi Pétursson.

 

2. Næstu afskipti mín fyrir utan almennar fréttasendingar voru þau að Kjartan Sigtryggsson, lögreglumaður í Keflavík, sem vann að rannsókn málsins bað mig að teikna andlitsmynd eftir lýsingum vitna úr Hafnarbúðinni af manni þeim, sem þangað átti að hafa komið á ellefta tímanum í Hafnarbúðina og hringt í Geirfinn Einarsson. Kjartan vissi að ég fékkst við andlitsteikningar og ég hafði einu sinni séð mann við refsiverða háttsemi eitt augnablik og teiknaði ég andlit þessa manns og þekktist hann af myndinni. Ég fékk lýsingar hjá þremur vitnum, Guðlaugu Jónsdóttur og tveimur unglingsstúlkum. Ég teiknaði margar andlitsmyndir eftir lýsingum á næstu dögum. Á þessu tímabili komu lögreglumenn til mín út af verkefninu. Eitt skiptið kom Skarphéðinn Njálsson, lögreglumaður, til mín með ljósmynd og bað mig að taka tillit til hennar við gerð myndarinnar, þó þannig að hann bað mig að dekkja augabrúnirnar og hársveipur átti að koma yfir ennið. Hann sagði mér ekki nafn mannsins á ljósmyndinni og það var ekki fyrr en á þessu ári er ég sá mynd af Magnúsi Leópoldssyni að mér varð ljóst að ljósmyndin var af honum. Ekki voru mér sýndar ljósmyndir af öðrum mönnum í þessu sambandi. Áður en ég hafði að fullu lokið verkefni mínu birtist mynd af leirstyttu í blöðum og sjónvarpi, sem talin var vera af manninum sem kom í Hafnarbúðina til að hringja. Hafði þá Ríkey Ingimundardóttir, eiginkona fyrrnefnds lögreglumanns Kjartans Sigtryggssonar, gert leirstyttu þessa. Hætti ég þá teikningum mínum."