III.7.
Talsmaður dómfellda hefur lagt fram yfirlýsingu séra Jóns Bjarman 20. nóvember 1996, þar sem segir meðal annars:
"1. Ég var fangelsisprestur frá 1970 til 1986 og þjónaði öllum fangelsum landsins.
2. Fljótlega eftir að Erla Bolladóttir og Sævar M. Ciesielski voru sett í gæsluvarðhald í Síðumúlafangelsi í desember 1975 takmarkaðist aðgangur minn að fangelsinu í Síðumúla. Aðgangur minn að dagbók var útilokaður frá þeim tíma. Ekki var gefin upp ástæða en Gunnar Guðmundsson yfirfangavörður sagði að það væri samkvæmt fyrirmælum Arnar Höskuldssonar fulltrúa í Sakadómi Reykjavíkur.
3. Í september 1976 skrifaði ég dómsmálaráðuneytinu vegna harðræðis sem Guðmundur Kristjánsson og Lárus Svavarsson sættu í Síðumúla. Guðmundur hringdi úr klefa á fangavaktina, en fangaverðir svöruðu ekki. Þeir voru uppteknir við að horfa á sjónvarp. Þegar þeir loks komu var Guðmundur orðinn æstur. Hann vildi aðeins fá gosflösku sem hann átti í ísskáp í vaktherbergi. Fangaverðir spurðu hann hvort hann héldi að hann væri á einhverju hóteli. Orð óx af orði og fór það svo að Guðmundur var settur í járn og strekktur, þ.e. handleggir og fætur járnaðir og festir við borðfætur og rúmfætur á gólfinu. Lárus lenti í svipuðu. Sýndi Lárus mér áverka eftir járnin. Bréf mitt til ráðuneytis var skrifað í framhaldi af þessu. Var mér ljóst að ástandið var alvarlegt í fangelsinu og fór ég fram á að beiting agaviðurlaga í fangelsinu yrði almennt könnuð. Eftir þetta snerist sakadómur Reykjavíkur og rannsóknarlögregla Reykjavíkur gegn mér og fékk ég nánast engar upplýsingar um fanga og mál þeirra.
4. Ég staðfesti að ég ritaði grein í Morgunblaðið 1. september 1981 um þessi mál og er þar farið rétt með staðreyndir eins og ég vissi þær best. Efni greinarinnar skýrir sig sjálft.
5. Í heimsóknum mínum hjá Sævari Marinó Ciesielski kom iðulega fram að hann hefði verið þvingaður til að undirrita játningar hjá rannsóknarmönnum, en að hann hefði alltaf afturkallað þær næstu daga."