III.6.

 

Í yfirlýsingu Hlyns Þórs Magnússonar, fyrrverandi fangavarðar, frá 26. ágúst 1996 segir meðal annars eftirfarandi:

 

"Í ársbyrjun 1976 var ég beðinn að koma til starfa sem fangavörður í Síðumúlafangelsi í Reykjavík. Tilefni þess að til mín var leitað var að ég hafði þrívegis starfað sem fangavörður sumarlangt og hafði því nokkra reynslu af starfinu. Vantaði þá fangaverði vegna óvenju mikilla anna í Síðumúlafangelsi.

 Ég var í það skiptið starfandi í Síðumúlafangelsi frá fyrri hluta febrúar 1976 til fyrri hluta október 1976. Ég hóf síðan störf að nýju í sumarbyrjun 1977 og starfaði sem fangavörður í Síðumúla samfellt allt fram á haust 1980.

 Fyrrnefndar annir í Síðumúlafangelsi stöfuðu einkum af því að þar voru í gæsluvarðhaldi annars vegar Sævar Marinó Ciesielski o.fl. sakborningar sem grunaðir voru um aðild að mannshvörfum, og hins vegar menn sem voru í gæsluvarðhaldi taldir tengjast hvarfi Geirfinns Einarssonar í Keflavík.

 Ragnar Aðalsteinsson hefur óskað eftir því að ég geri grein fyrir því hvort ég hafi orðið þess var að skjólstæðingur hans, Sævar M. Ciesielski, eða aðrir sakborningar sem tengjast ofanrituðum Guðmundar- og Geirfinnsmálum, hafi sætt harðræði á gæsluvarðhaldstímanum í fangelsinu, og í hverju slíkt harðræði hafi fólgist, ef um það var að ræða.

 Ég vil taka fram, að langt er um liðið síðan þeir atburðir gerðust sem ég er spurður um, og þess vegna get ég illa lýst dagsetningum eða tímasetningum einstakra atburða, en nokkrir atburðir eru sérstaklega minnisstæðir vegna þess hversu óvenjulegir þeir voru og ástandið óvenjulegt í fangelsinu á fyrri hluta ársins 1976.

 Mikil spenna ríkti í Síðumúlafangelsinu á fyrri hluta ársins 1976 og hef ég þá samanburð annars vegar við þau þrjú sumur sem ég starfaði í Hegningarhúsinu á sumrin nokkru fyrr og síðan tímabilið í Síðumúlafangelsinu 1977-1980. Agareglum fyrir fangaverði var fylgt eftir með öðrum hætti á fyrri hluta árs 1976 en fyrr og síðar sem ég þekki til. Forstöðumaður fangelsisins og aðrir starfsmenn voru mjög spenntir á þessu tímabili. Sögur gengu um játningar sakborninganna í fangelsinu. Mikill erill var í fangelsinu þar sem rannsóknarlögreglumenn, rannsóknardómari og aðrir voru sífellt að koma og ræða við sakborningana eða fara með þá í yfirheyrslur í hornherbergi eða ræða við þá í fangaklefum.

 Meðal þess sem til eindæma má telja var að fangaverðir voru sendir með sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálum að leita að líkum suður í hraunið sunnan við Hafnarfjörð og fór ég í slíkar leitarferðir, m.a. með Kristjáni Viðari.

 Þá var það og óvenjulegt á árinu 1976 var að fangavörðum var af æðra settum mönnum falið að ræða við eða vingast við einstaka sakborninga og veiða upp úr þeim. Mér var falið að ræða við og vingast við Erlu Bolladóttur á meðan hún var í gæsluvarðhaldi. Var það fólgið í því að ég sat á spjalli við hana í fangaklefa á næturvöktum. Af eðlilegum ástæðum hafði hún sem var í einangrun þörf á að tala og talaði mikið. Fékk ég hana til þess að skrifa það niður sem hún sagði og skilaði þeim skrifum til yfirmanns. Á sama hátt var öðrum fangavörðum falið að ræða við aðra sakborninga í sama skyni.

 Framkvæmd einangrunar var strangari en venja var til. Sævar Marinó var sviptur öllu því sem venja er að gæsluvarðhaldsfangi njóti í einangrun, svo sem bókum, tóbaki, pappír og skriffærum. Allt virtist þetta vera gert í því skyni að fá fram játningar sakborninganna sem allra fyrst, en í fangelsinu ríkti sú fyrirvaralausa skoðun að sakborningarnir væru sekir.

 Þá var þeirri aðferð beitt í tilviki Sævars að svipta hann svefni. Ég hafði af því spurnir hjá samstarfsmönnum mínum, að áður en ég kom til starfa í febrúar 1976 hefði þeirri aðferð m.a. verið beitt að taka rofa á rafmagnsljósi í klefa Sævars úr sambandi þannig að rafmagnsljós logaði allan sólarhringinn. Þá var og þeirri aðferð beitt að halda Sævari vakandi með því að berja útvegg klefa hans með grjóti. Minnist ég þess að fangavörður á minni vakt hafi farið út gagngert í því skyni að "skemmta" sér við að hræða Sævar með þessum hætti og halda honum vakandi.

 Þá var það rætt meðal fangavarða að Skúli Steinsson hefði beitt þeirri aðferð við Sævar að færa höfuð hans á kaf í vatni. Ég varð ekki vitni að því sjálfur en heyrði um það talað hjá félögum mínum. Þá bar það við að fangaverðir og rannsóknarlögreglumenn sátu á rökstólum í kaffistofu fangelsisins og ræddu hugsanlega árangursríkar aðferðir við að fá sakborninga til að játa. Var þá rætt um meinta vatnshræðslu Sævars Marinós að Hallvarði Einvarðssyni viðstöddum. Var þá um það rætt að stjaka við Sævari í einhverri leitarferðinni þannig að hann félli í vatn og "láta helvítið synda". Þá minnist ég þess að Sævar Marinó var hafður í fótajárnum í fangelsinu. Ekki var það vegna að fangelsisyfirvöld óttuðust að honum tækist að strjúka heldur var það beinlínis gert í niðurlægingarskyni. Mér er og kunnugt um það að svonefnd strekking, þ.e. að járna menn á höndum og fótum á gólfi var notuð í fangelsinu, en ég minnist þess ekki að hún hafi verið notuð við sakborningana í Geirfinns- og Guðmundarmálum þegar ég var á vakt.

 Ég var ekki beðinn um neinar upplýsingar í tengslum við svokallaða harðræðisrannsókn árið 1979. Ekki veit ég hvers vegna, en skýringin kann að vera sú, að ég var ekki borinn neinum sökum um harðræði og hins vegar vegna þess að ekki hafi þótt líklegt að vitnisburður minn yrði til framdráttar "málstað" rannsóknarinnar heldur jafnvel þvert á móti.

 Eins og fram er komið ríkti sú fullvissa meðal rannsóknarmanna og fangavarða að sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum væru sekir og liggur við að segja megi að litið hafi verið svo á að tilgangurinn helgaði meðalið. Ég taldi því gagnslaust að reyna að hafa í frammi opinbera gagnrýni á framanritaða meðferð á gæsluföngunum, enda taldi ég að það myndi einungis lenda til ófara fyrir mig og til einskis gagns fyrir aðra, enda var samstaða algjör í þessu efni og fyrirsjáanlegur árangur enginn.

 Ekki leikur vafi á því að illa var farið með sakborningana í málum þessum, en það var í því skyni gert að fá þá til að játa sig hafa gert það sem rannsóknarmenn og fangaverðir trúðu staðfastlega að sakborningarnir höfðu gert."