II.4.

II.4.A.

 

Í kafla II.3.A. hér að framan er greint frá viðtali, sem lögreglumenn munu hafa átt við Erlu Bolladóttur 21. janúar 1976 í kjölfarið á því að hún hafi gefið sig fram við lögregluna vegna ónæðis, sem hún hafi orðið fyrir um þær mundir vegna símhringinga, og ótta sem þetta hafi vakið. Ítrekað aðspurð hafi hún sagt ótta sinn beinast að Einari Bollasyni, Sigurbirni Eiríkssyni og Jóni Ragnarssyni og tengdist það svokölluðu Geirfinnsmáli. Samhliða þessu mun hafa verið rætt við Sævar Marinó Ciesielski og honum kynnt að Erla hræddist einhverja menn. Mun hann þá sjálfstætt og án þess að nokkuð hafi verið gefið til kynna nefnt að hræðsla hennar tengdist Geirfinnsmálinu og getið í því sambandi nafna Einars, Magnúsar Leópoldssonar og Valdimars Olsen. Af þessu tilefni tók lögreglan skýrslu af Sævari 22. janúar 1976, en af Erlu 23. sama mánaðar. Síðastnefndan dag var einnig tekin skýrsla af Kristjáni Viðari Viðarssyni, sem sagðist kannast við ferð til Keflavíkur einhverju sinni að kvöldlagi með Sævari, Erlu og Einari. Sem fyrr segir voru Einar, Magnús og Valdimar handteknir vegna rannsóknar málsins 26. janúar 1976, en Sigurbjörn 11. næsta mánaðar, og var þeim öllum gert að sæta gæsluvarðhaldi. Þeir neituðu staðfastlega að vita nokkuð um málið. Þeir voru leystir úr varðhaldi 9. maí 1976.

 

Eins og ráðið verður nánar af frásögn í köflum II.3.B., II.3.C. og II.3.D hér á undan um skýrslur Erlu, Sævars og Kristjáns í tengslum við hvarf Geirfinns Einarssonar báru þau sakir í því sambandi á Einar, Magnús, Valdimar og Sigurbjörn í eftirtöldum tilvikum:

 

Einars Bollasonar var getið í skýrslum Erlu fyrir lögreglu 23. janúar, 3. og 10. febrúar, 3. mars, 4. maí og 1. september 1976 og fyrir dómi 30. mars 1976, í skýrslum Sævars fyrir lögreglu 22., 25. og 27. janúar, 10. febrúar og 8. maí 1976 og fyrir dómi 1. apríl 1976, og í skýrslum Kristjáns fyrir lögreglu 23. og 27. janúar, 10. febrúar, 18. mars og 20. apríl 1976 og fyrir dómi 31. mars og 6. og 28. apríl 1976.

 

Magnúsar Leópoldssonar var getið í skýrslum Erlu fyrir lögreglu 23. janúar, 3. og 10. febrúar, 4. maí og 1. september 1976 og fyrir dómi 30. mars og 7. apríl 1976, í skýrslum Sævars fyrir lögreglu 22., 25. og 27. janúar og 8. maí 1976 og fyrir dómi 1. apríl 1976, og í skýrslu Kristjáns fyrir lögreglu 27. janúar 1976.

 

Sigurbjörns Eiríkssonar var getið í skýrslum Erlu fyrir lögreglu 3. og 10. febrúar og 1. september 1976 og fyrir dómi 30. mars 1976, í skýrslum Sævars fyrir lögreglu 27. janúar, 10. febrúar, 8. maí og 4. og 6. nóvember 1976, og í skýrslum Kristjáns fyrir lögreglu 27. janúar, 10. febrúar, 18. mars, 20. apríl og 9. nóvember 1976 og fyrir dómi 31. mars og 28. apríl 1976.

 

Valdimars Olsen var getið í skýrslum Erlu fyrir lögreglu 3. febrúar og 1. september 1976, í skýrslum Sævars fyrir lögreglu 22., 25. og 27. janúar, 10. febrúar og 8. maí 1976 og fyrir dómi 1. apríl 1976, og í skýrslum Kristjáns fyrir lögreglu 27. janúar, 10. febrúar, 18. mars, 20. apríl og 1. nóvember 1976 og fyrir dómi 31. mars og 8. og 28. apríl 1976.

 

 

 

Um efni þessara sakargifta vísast til þess, sem segir í fyrrnefndum köflum. Þess skal getið að II. kafli ákæru 16. mars 1977, sem varðaði rangar sakargiftir Erlu, Sævars og Kristjáns, tók ekki til allra skýrslna þeirra, sem greint er frá hér að ofan.

 

II.4.B.

 

Í skýrslu hjá lögreglunni 9. desember 1976 skýrði Sævar frá því að nokkrum dögum eftir atburði í Keflavík 19. nóvember 1974 hafi hann rætt við Guðjón Skarphéðinsson og greint frá því að í samtali við Geirfinn hafi hann sagst vera Magnús Leópoldsson. Þeim hafi ekki verið kunnugt um hvað Geirfinnur kynni að hafa sagt öðrum og hafi Sævar því lagt til að svokölluðum Klúbbmönnum yrði blandað í málið ef þeir yrðu handteknir. Sævar kvaðst síðan hafa hitt Erlu, Guðjón og Kristján heima hjá þeim síðastnefnda í júlí 1975 og hafi þau rætt um þetta mál. Þar hafi þau orðið sammála um að ef til handtöku þeirra kæmi myndu þau flækja málið með því að bera að fyrrnefndir menn og leynivínsalar í Reykjavík hafi verið þar að verki. Erla hafi þar stungið upp á Einari bróður sínum, Valdimar og einum manni enn, sem hún hafi vitað að tengdust svokölluðum Klúbbmönnum. Sævar kvað þau hafa fylgst með rannsókn málsins, sem stöðugt hafi verið sagt frá í fjölmiðlum.

Rétt endurrit staðfestir:

Í skýrslu fyrir dómi 22. desember 1976 sagði Sævar að þau Erla hafi rætt síðla árs 1974 um að blanda öðrum mönnum inn í málið. Þau hafi síðan rætt um þetta aftur við Kristján og Guðjón árið eftir.

Sævar gaf skýrslu fyrir dómi 21. og 22. júní 1977. Þar kvaðst hann hafa ásamt Erlu, Kristjáni og Guðjóni fylgst með rannsókn á hvarfi Geirfinns í fjölmiðlum. Hafi þau oft rætt um þetta sín á milli. Hann skýrði með sama hætti og í fyrrnefndri lögregluskýrslu frá samtali við Guðjón skömmu eftir 19. nóvember 1974. Hann kvaðst hafa komist að því þegar hann hafði fréttir af rannsókn Geirfinnsmálsins að Magnús og Sigurbjörn væru undir smásjá hjá lögreglunni. Hann hafi ekki sjálfur átt hugmyndina að því að blanda þessum mönnum inn í málið, heldur hafi þetta allt komið af sjálfu sér. Hafi hann haldið að Geirfinnur hafi átt viðskipti við svokallaða Klúbbmenn og hafi því honum og öðrum, sem áttu hér í hlut, dottið í hug að blanda þeim í málið. Guðjón hafi gefið í skyn að þetta væri heppilegt, því að hugsanlega hafi Geirfinnur átt viðskipti við Sigurbjörn. Erla hafi farið að ræða um að Einar hafi átt einhver óheiðarleg viðskipti með áfengi og væri rétt að blanda honum í málið. Hún hafi einnig nefnt til sögunnar Valdimar, sem hafi starfað við Klúbbinn, svo og einhverja fleiri menn. Í þessum samræðum hafi Erla haft á orði að hún væri hrædd við Einar. Sævar kvað þau Erlu hafa dvalist í Kaupmannahöfn veturinn eftir hvarf Geirfinns. Hafi þau hitt þar mann, sem hafi farið að ræða við þau málið og sagst vita um það. Sá maður hafi sagt að Geirfinnur hafi beðið bana úti á sjó þegar hann hafi verið að sækja spíra, sem hafi átt að smygla í land, og taldi svokallaða Klúbbmenn standa að baki þessu. Sævar kvaðst sjálfur hafa heyrt um smygl á spíra í Keflavík og að smyglað áfengi væri geymt í dráttarbrautinni. Þá kvaðst hann muna eftir að hafa rætt við Erlu, Guðjón og Kristján um að bera að fyrrgreindir menn og leynivínsalar hafi verið valdir að hvarfi Geirfinns, ef þau yrðu handtekin, en Erla hafi stungið upp á að nefna jafnframt Einar, Valdimar og einn nafngreindan mann enn. Sævar sagðist hins vegar ekki muna hvenær þetta hafi verið rætt. Varðandi lögregluskýrslu 22. janúar 1976 sagðist Sævar næstu dagana þar á undan hafa verið spurður í yfirheyrslum hjá lögreglunni um vitneskju um hvarf Geirfinns. Hafi nafngreindur lögreglumaður meðal annars sagt þar að lögreglan hefði vitneskju um að hann hafi farið til Keflavíkur 19. nóvember 1974 með Einari. Kvaðst Sævar hafa talið víst að þessar upplýsingar væru komnar frá Erlu. Honum hafi einnig verið sagt að Erla væri í stöðugri gæslu lögreglumanna, því að henni hafi verið hótað morði. Hann hafi sagt lögreglunni að hann vissi að Erla óttaðist Einar og jafnframt Valdimar. Hafi orðið miklar bollaleggingar út af þessu og hann verið spurður um ýmsa aðra menn, sem gætu tengst málinu, þar á meðal Magnús. Nafn Sigurbjörns hafi hins vegar ekki komið fram fyrr en síðar. Búið hafi verið að ákveða að blanda Einari, Magnúsi, Valdimar og Sigurbirni inn í málið ef þau yrðu handtekin. Hann hafi því gefið lögregluskýrsluna 22. janúar 1976. Sævar kvað breytingar á framburði sínum í lögregluskýrslum næsta dagana á eftir, þar sem hann hafi skýrt frá bátsferð, eiga rætur í hugmynd, sem hann hafi að nokkru fengið eftir áðurgreint samtal við mann í Kaupmannahöfn. Varðandi lögregluskýrslu 8. maí 1976 sagðist Sævar hafa þá verið illa fyrirkallaður og orðinn ruglaður vegna framburðar Erlu um að hún hafi skotið Geirfinn og framburðar Kristjáns, sem hafi sagst hafa stungið Geirfinn með hnífi. Hafi þess verið krafist að hann kæmi til móts við þennan framburð. Hann hafi því gefið skýrsluna 8. maí, en dregið hana til baka morguninn eftir. Skýrslan hafi ekki verið gefin að ósk hans sjálfs, svo sem sagt væri í henni. Sævar kvað allar skýrslur hafa verið rangar að því er varðaði þátt Einars, Magnúsar, Valdimars og Sigurbjörns í hvarfi Geirfinns. Hann tók einnig fram um þessar skýrslur að hann hafi verið undir pressu, svo sem hann orðaði það, frá lögreglumönnum þegar hann gaf þær. Hann viðurkenndi sakargiftir á hendur sér samkvæmt II. kafla ákærunnar 16. mars 1977 með framangreindum athugasemdum. Hann kvað þetta athæfi hafa verið samantekin ráð upphaflega og hafi þetta verið gert til að rugla fyrir rannsókn málsins.

 

II.4.C.

Í lögregluskýrslu 13. desember 1976 sagðist Erla hafa verið með Sævari, Guðjóni og Kristjáni á heimili þess síðastnefnda nokkrum dögum eftir ferðina til Keflavíkur. Þeir þrír hafi komið sér þar saman um nefna svokallaða Klúbbmenn ef þeir yrðu handteknir. Sævar hafi spurt sig hverjir þessir menn væru nánar og hafi hún þá meðal annars nefnt Valdimar, Magnús, Sigurbjörn og Einar. Þessa frásögn staðfesti Erla fyrir dómi 22. desember 1976.

 

Í skýrslu fyrir dómi 5. júlí 1977 viðurkenndi Erla sakargiftir samkvæmt II. kafla ákærunnar 16. mars 1977. Hún skýrði frá því að einhvern tímann skömmu eftir ferðina til Keflavíkur 19. nóvember 1974 hafi öll ákærðu í þessum þætti málsins hist að Grettisgötu 82, þar sem rætt hafi verið hvað gera skyldi ef upp kæmist um þátt þeirra í dauða Geirfinns. Hafi þetta verið gert að frumkvæði Sævars. Ákveðið hafi verið að blanda inn í málið svokölluðum Klúbbmönnum, sem hafi verið Magnús og Sigurbjörn, svo og Einari og Valdimar. Erla gat ekki sagt til um hver hafi átt hugmyndina að því að bendla Magnús og Sigurbjörn við málið, en talað hafi verið um að þeir væru glæpamenn og hafi hún eða Sævar minnst á það. Þá kvaðst Erla annaðhvort sjálf hafa átt hugmyndina að því að blanda Einari og Valdimar inn í málið eða Sævar hafi átt hana. Erla sagðist ekki þekkja Magnús eða Sigurbjörn og ekki vita til þess að Sævar hafi átt nein samskipti við þá. Hún kvað þeim Sævari báðum hafa verið illa við Einar, því hann hafi rekið hana út úr íbúðinni að Hamarsbraut 11, henni fannst hann hafa svindlað á föður þeirra í sambandi sölu íbúðarinnar og hann hafi mikið verið á móti því að hún væri með Sævari. Þá sagðist Erla ekkert hafa átt sökótt við Valdimar, en taldi að honum hafi verið blandað inn í málið til að gera það eitthvað trúlegra. Erla kvaðst muna að Kristján og Guðjón hafi lagt eitthvað til málanna í þessu sambandi og taldi þá hafa verið þessu algerlega sammála. Þetta hafi verið gert til að leiða athyglina frá þeim ef málið kæmist upp.

 

II.4.D.

Kristján gaf skýrslu fyrir dómi 13. maí 1977, þar sem hann neitaði sakargiftum samkvæmt II. kafla ákærunnar 16. mars 1977. Hann kvaðst kannast við að hafa gefið skýrslurnar, sem þar greinir, fyrir lögreglu og dómi, en þær væru ekki réttar og væri efni þeirra aðallega komið frá lögreglumönnum. Honum hafi verið meinað að hafa réttargæslumann í þinghöldum, þótt hann hafi margsinnis borið fram óskir um það. Kristján skýrði frá aðdraganda að skýrslugjöf sinni hjá lögreglunni 23. og 27. janúar 1976 eins og nánar greinir í kafla II.5.B. hér á eftir, en í meginatriðum rakti hann framburð sinn við þau tækifæri til upplýsinga, sem dómarafulltrúi, lögreglumenn og fangaverðir hafi gefið sér, auk þess að greina frá harðræði, sem hann hafi orðið að sæta. Kristján kannaðist ekki við að það hafi verið samantekin ráð hans og Sævars, Erlu og Guðjóns að blanda Einari, Magnúsi, Sigurbirni og Valdimar inn í málið og hafi þau aldrei rætt um það. Guðjón hafi ekki komið heim til hans nema í eitt skipti, þegar lík Geirfinns hafi verið flutt þaðan, og Erlu hafi hann ekki séð eftir að líkið hafi verið flutt í Rauðhóla. Kristján minntist þess ekki að hafa sagt það um Einar, Sigurbjörn og Valdimar, sem greindi í skýrslu hans fyrir dómi 31. mars 1976, en þó gæti hann hafa gert það, því að hann hafi verið farinn að trúa þessu. Í upphafi þinghaldsins hafi hann sagt að þetta væri allt vitleysa, en ekkert hafi verið hlustað á sig. Kristján kvaðst telja að sagan um tengsl Einars, Magnúsar, Sigurbjörns og Valdimars við málið væri frá Erlu komin og hafi lögreglumenn trúað henni. Í dómi sakadóms segir að vakin hafi verið athygli Kristjáns á því, sem haft hafi verið eftir honum á dómþingi 6. og 8. apríl 1976 þegar hann var samprófaður við Einar og Valdimar. Kvaðst þá Kristján hafa ruglast á Einari og Guðjóni sem ökumanni bifreiðar. Framburður hans um Valdimar hafi ekki verið réttur, en hann hafi verið búinn að bíta þetta svona í sig.

 

II.4.E.

Í lögregluskýrslu 8. desember 1976 sagðist Guðjón geta fullyrt að Einar, Magnús, Sigurbjörn og Valdimar væru allir saklausir af dauða Geirfinns, en hann hafi engan þátt átt í því að bendla þá saklausa við málið. Guðjón kvað það geta verið að Sævar hafi einhverju sinni á árinu 1975 látið að því liggja að svokallaðir Klúbbmenn væru viðriðnir málið, en alls ekki hafi verið talað um að bendla þá við málið ef ákærðu yrðu handtekin. Hann sagði að sér hafi verið fullljóst að fjórmenningarnir væru saklausir þegar þeir voru settir í gæsluvarðhald og hafi þetta hvílt mjög á samvisku sinni, en hann ekki haft kjark til að segja frá málinu.

Um þennan þátt málsins gáfu skýrslur fyrir dómi Einar Gunnar Bollason, Magnús Leópoldsson, Valdimar Olsen og Sigurbjörn Eiríksson.

Vegna fyrrgreindra staðhæfinga Kristjáns um harðræði og ólögmætar aðgerðir við rannsókn málsins komu eftirtaldir fyrir dóm til skýrslugjafar: rannsóknarlögreglumennirnir Eggert Norðdahl Bjarnason og Sigurbjörn Víðir Eggertsson, Gunnar Guðmundsson forstöðumaður Síðumúlafangelsis og fangaverðirnir Högni Ófeigur Einarsson og Örn Ármann Sigurðsson. Þá var lagt fyrir sakadóm bréf Arnar Höskuldssonar 22. ágúst 1977 varðandi fyrrnefndar staðhæfingar Kristjáns. Greint er frá skýrslum þessum og bréfi í kafla II.5.B. hér á eftir.

 

II.4.F.

Í dómi sakadóms er um þennan þátt málsins vísað til þess að Sævar, Erla og Kristján hafi öll viðurkennt að hafa gefið hjá lögreglu og fyrir dómi umræddar skýrslur um þátttöku Einars, Magnúsar, Sigurbjörns og Valdimars í ferð til Keflavíkur 19. nóvember 1974 og átökum, sem leiddu þar til dauða Geirfinns, svo og um smygl þeirra á áfengi. Sævar og Erla hafi bæði fullyrt að það hafi verið samantekin ráð þeirra, Kristjáns og Guðjóns að bendla þessa menn við málið til að torvelda rannsókn ef þau yrðu handtekin. Þessu hafi Kristján neitað, en skýrslur hans gefi þetta þó sterklega til kynna. Þótti verða að telja hann bera fulla ábyrgð á skýrslum sínum og væri ekki tekinn til greina framburður hans um að rannsóknarmenn og fangaverðir hafi ráðið efni skýrslnanna. Með þessu töldust Sævar, Erla og Kristján hafa brotið gegn 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga.

 

II.4.G.

Í dómi Hæstaréttar er vísað til skýrslna Sævars, Erlu og Kristjáns, þar sem þau báru sakir á Einar, Magnús, Sigurbjörn og Valdimar, og játninga Sævars og Erlu um að þetta hafi verið samantekin ráð ákærðu til að torvelda rannsókn málsins. Kristján hafi að vísu ekki gengist við því að um samantekin ráð hafi verið að ræða, en fullljóst væri að hann hafi borið fjóra menn röngum sökum gegn betri vitund. Þótti Kristján bera refsiábyrgð á því. Með þessum athugasemdum var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að Sævar, Erla og Kristján hafi brotið með þessari háttsemi sinni gegn 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 15. gr. laga nr. 101/1976. Tekið var fram að skýrslur Sævars, Erlu og Kristjáns hafi leitt til þess að fjórir menn sættu alllangri gæsluvarðhaldsvist og þótti bera að líta til þessara afdrifaríku afleiðinga brota þeirra við ákvörðun refsingar.