II.3.
II.3.A.
Lögreglunni var tilkynnt 21. nóvember 1974 um hvarf Geirfinns Einarssonar, sem hafi farið heiman frá sér um kl. 22.30 hinn 19. sama mánaðar og ekkert spurst til síðan. Við eftirgrennslan lögreglunnar á fyrstu stigum var meðal annars leitt í ljós að Geirfinnur hafi farið heiman frá sér ásamt kunningja sínum um kl. 22 að kvöldi 19. nóvember. Geirfinnur hafi sagt kunningjanum af því að hann ætti stefnumót í Hafnarbúðinni í Keflavík á þeim tíma og skildi leiðir þeirra þar. Geirfinnur greindi ekki nánar frá hvern hann ætlaði að hitta, en kunningja hans fannst sem honum stæði einhver ógn af stefnumótinu. Að sögn vitna kom Geirfinnur við í Hafnarbúðinni stutta stund um kl. 22. Upplýst var að Geirfinnur hafi komið aftur heim til sín skömmu eftir það, en þangað hafi ókunnur maður hringt til hans og hann farið rakleitt út aftur. Um ferðir hans eftir það fengust ekki upplýsingar. Lýst var eftir Geirfinni í fjölmiðlum og leitað fregna um ferðir hans á ýmsum stöðum og hjá kunningjum hans víða um land. Þá var leitað víða í þéttbýli í Keflavík og nágrenni, svo og utan byggðar með fjörum og kringum vegi og vegaslóðir. Einnig var kafað í höfnum og víðar. Að auki fékk lögreglan gerða leirmynd af höfði manns, sem hún taldi hafa komið í Hafnarbúðina á fyrrgreindum tíma að kvöldi 19. nóvember 1974 og hugsanlega hringt þaðan til Geirfinns, og var lýst opinberlega eftir manni, sem myndin gæti verið af. Engar af þessum aðgerðum báru árangur.
Í dómi sakadóms Reykjavíkur er greint frá því að lögreglan í Keflavík hafi fram á árið 1975 haft með höndum rannsókn á hvarfi Geirfinns. Af ástæðum, sem greinir hér á eftir, hafi málið komið til kasta lögreglunnar í Reykjavík, en frá seinni hluta ársins 1976 hafi hún notið aðstoðar þýsks rannsóknarlögreglumanns, Karls Schütz, við rannsókn málsins. Í janúar 1976 hafi Erla Bolladóttir, sem skömmu áður losnaði úr gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á fjársvikamáli og hvarfi Guðmundar Einarssonar, gefið sig fram við lögregluna í Reykjavík vegna ótta og ónæðis, sem hún hafi orðið fyrir vegna símhringinga. Í lögregluskýrslu 10. mars 1976 segi frá því að Erla hafi komið til viðtals 21. janúar 1976 og lýst þessu nánar, auk þess að skýra frá hótunum, sem henni hafi borist símleiðis. Ítrekað aðspurð um hverja hún óttaðist svo mjög hafi hún nefnt til sögunnar Einar Bollason, Sigurbjörn Eiríksson og Jón Ragnarsson. Aðspurð um tilefnið fyrir þessum ótta hafi hún sagt það tengjast svonefndu Geirfinnsmáli. Í lögregluskýrslunni komi fram að Sævari Marinó Ciesielski hafi verið sagt frá hræðslu Erlu við einhverja menn, en honum hafi á engan hátt verið gefið í skyn hverjir það væru. Sævar hafi þá talið upp sömu mennina og Erla og tengt það sama máli. Hafi því verið teknar skýrslur 22. og 23. janúar 1976 af Erlu og Sævari og síðan einnig af Kristjáni Viðari Viðarssyni, þar sem fram hafi komið að hann væri viðriðinn málið, auk þeirra Magnúsar Leópoldssonar, Valdimars Olsen og áðurnefndra manna. Magnús, Valdimar og Einar hafi verið handteknir 26. janúar 1976 og gert að sæta gæsluvarðhaldi. Eins hafi farið um Sigurbjörn hinn 11. næsta mánaðar. Þessir síðastnefndu fjórmenningar hafi staðfastlega neitað allri vitneskju um hvarf Geirfinns eða áfengissmygl, sem hafi átt sér stað í Keflavík. Þeir voru leystir úr haldi 9. maí 1976. Guðjón Skarphéðinsson var síðan handtekinn vegna rannsóknar á þessum þætti málsins 12. nóvember 1976 og honum gert að sæta gæsluvarðhaldi frá næsta degi.
II.3.B.
Erla Bolladóttir gaf skýrslu hjá lögreglunni vegna þessa þáttar málsins 23. janúar 1976. Þar skýrði hún frá því að hún hafi eitt sinn verið stödd að kvöldi til, fyrir kl. 23.30, við veitingahúsið Klúbbinn með Sævari Marinó Ciesielski, sem hún hafi þá búið með ýmist að Hjallavegi 31 eða Grýtubakka 10 í Reykjavík. Fyrir utan veitingahúsið hafi þau Sævar sest upp í fólksbifreið, sem Erla gat ekki lýst nánar. Hún mundi ekki fyrir víst hvort aðrir en ökumaður hafi þá setið í bifreiðinni. Henni hafi verið ekið af stað án orðaskipta, líkt og ákveðið hafi verið fyrirfram hvert halda ætti, og hafi verið ekið til Keflavíkur. Á leið þangað hafi Sævar rætt við ökumanninn, en Erla kvaðst ekki muna samtal þeirra orðrétt. Hún hafi fengið á tilfinninguna að það ætti að stytta henni aldur í ferðinni og jafnframt manni, sem ætti að fara með í sjóferð. Nafn þess manns hafi ekki verið nefnt, en rætt um að bæði ökumaðurinn og Einar Bollason hafi árangurslaust reynt að koma vitinu fyrir manninn með boði um peningagreiðslu. Í Keflavík hafi bifreiðin verið stöðvuð niður undir flæðarmáli, þar sem var bryggja skammt frá og klettar í sjó fram. Ökumaðurinn hafi farið þar út úr bifreiðinni og Erla þá séð að hann væri Magnús Leópoldsson. Hann hafi sagt Sævari að gæta Erlu. Þar á staðnum hafi verið fleiri menn og aðrar bifreiðir, meðal annars rauð fólksbifreið og stór sendibifreið með stórum framrúðum, líklega ljós á lit, en hún hafi staðið á bryggju og framendi hennar snúið að landi. Þá hafi bátur legið við bryggjuna. Mennirnir, sem þar hafi verið staddir, hafi verið sjö að Magnúsi og Sævari meðtöldum. Af þeim kvaðst Erla hafa þekkt Einar Bollason og Kristján Viðar Viðarsson. Mennirnir hafi verið mjög uppteknir. Kvaðst Erla hafa verið mjög hrædd og neytt færis til að komast út úr bifreiðinni, þaðan sem hún hafi gengið og síðan hlaupið þar til hún hafi komið að opnu húsi, sem gæti hafa verið geymsluhúsnæði eða hús í byggingu. Þar hafi hún falið sig svo klukkustundum skipti. Henni hafi liðið svo illa að hún hafi kastað þar upp. Hún hafi fyrst þorað út úr húsinu þegar hún varð umferðar vör. Henni hafi fljótlega tekist að stöðva bifreið, sem henni fannst koma úr suðri á malarvegi. Bifreiðin hafi verið gömul og af gerðinni Moskvitch, en ökumaðurinn fullorðinn maður. Hann hafi verið ræðinn og greint meðal annars frá því að hann væri frá Vestmannaeyjum, en hefði flust þaðan vegna eldgossins. Erla kvaðst ekki muna hvort hún hafi skýrt ökumanninum frá ferðum sínum, en hana minnti þó að hún hafi sagst starfa í frystihúsi í Grindavík. Hún hafi farið út úr bifreiðinni á mótum Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar, en stöðvað þar stóra vöruflutningabifreið, sem hún hafi fengið far með til Hafnarfjarðar. Þaðan hafi hún síðan farið með almenningsvagni til Reykjavíkur og heim á Hjallaveg. Þegar lýst hafi verið eftir Geirfinni kvaðst Erla hafa komist eftir nokkra umhugsun að þeirri niðurstöðu að hann hafi verið maðurinn, sem átti að láta hverfa í förinni til Keflavíkur. Hún sagðist ekki hafa þekkt Geirfinn af myndum í fjölmiðlum sem einn þeirra, sem hafi verið staddur við sjóinn í Keflavík. Hann gæti þó samt sem áður vel hafa verið þarna, því að dimmt hafi verið á staðnum.
Í dómi sakadóms er greint frá því að Erla hafi verið látin gefa sjálfstæða lýsingu á þeim stað í Keflavík, þar sem framangreindir atburðir hafi gerst, án þess að henni hafi verið greint frá frásögnum annarra um hann. Lýsing hennar hafi komið heim við staðhætti í Dráttarbraut Keflavíkur. Lögreglan hafi farið með Erlu til Keflavíkur og hafi hún þá þekkt dráttarbrautina sem staðinn, sem hér um ræði. Þetta hafi hún staðfest í þeirri skýrslu hjá lögreglunni, sem hér er næst greint frá. Erla hafi jafnframt lýst húsi í Keflavík, þar sem hún hafi falið sig aðfaranótt 20. nóvember 1974. Lögreglan í Keflavík hafi talið lýsinguna eiga við gamalt timburhús skammt frá dráttarbrautinni, en það hafi verið notað sem netageymsla og staðið ólæst og mannlaust á umræddum tíma. Farið hafi verið með Erlu til Keflavíkur og hún staðfest að um sama hús væri að ræða, auk þess að benda þar á tiltekið herbergi, þar sem hún hafi falið sig.
Í lögregluskýrslu 3. febrúar 1976 breytti Erla fyrrgreindri frásögn sinni að því leyti, að Magnús Leópoldsson hafi ekið bifreiðinni, sem hún og Sævar hafi sest upp í við Klúbbinn, að Vatnsstíg í Reykjavík, þar sem Kristján hafi sest inn í bifreiðina. Síðan hafi verið ekið sem leið lá meðal annars um Framnesveg. Kunni vel að vera að einhver hafi verið sóttur þar og jafnvel líklegt, því að Erlu minnti að einhver annar en Sævar eða Kristján hafi setið við hlið ökumannsins. Um mennina, sem hafi verið staddir við dráttarbrautina umrætt sinn, sagðist Erla halda að Valdimar Olsen hafi verið þar auk þeirra, sem hún hafi áður nafngreint. Við skýrslugjöfina munu Erlu hafa verið sýndar ljósmyndir af nokkrum karlmönnum og kvaðst hún þá vera viss um að einn þeirra hafi verið staddur við dráttarbrautina. Mun myndin hafa verið af Geirfinni, en Erla kvaðst ekki geta lýst því, hvernig hann hafi verið klæddur, þegar hún sá hann. Þá sagðist Erla minnast þaðan manns, sem hafi verið eldri en aðrir á vettvangi. Taldi hún þennan mann hafa getað verið Sigurbjörn Eiríksson miðað við mynd af honum, sem lögreglan sýndi henni, en vildi þó ekki fullyrða það. Við skýrslugjöf hjá lögreglunni 10. febrúar 1976, þar sem Erlu munu hafa verið sýndar ljósmyndir af nokkrum fjölda manna, tók hún síðan af skarið um að Sigurbjörn væri einn þeirra, sem hafi verið staddir við dráttarbrautina umrætt sinn, auk Einars og Magnúsar. Hinn 3. mars sama árs voru Erla og Einar samprófuð fyrir lögreglunni og héldu þau þá bæði fast við framburð sinn.
Erla gaf skýrslu fyrir dómi 30. mars 1976. Segir í upphafi skýrslunnar að hún skýri þar sjálfstætt frá málsatvikum. Framburður hennar var að efni til á sama veg og í fyrrgreindum lögregluskýrslum 23. janúar og 3. febrúar 1976. Í lok frásagnar Erlu um atvik málsins á dómþingi munu lögregluskýrslurnar hafa verið lesnar fyrir hana. Hún staðfesti þá fyrrnefndu með þeirri breytingu að frá Klúbbnum hafi verið ekið eitthvað um Reykjavík og Kristján meðal annars tekinn upp í bifreiðina. Hún staðfesti einnig síðarnefndu lögregluskýrsluna, en með þeim fyrirvörum að hún gæti hvorki fullyrt að Valdimar Olsen hafi verið staddur við dráttarbrautina umrætt sinn né að farþegi hafi setið við hlið ökumanns á leið hennar með Kristjáni, Sævari og Magnúsi til Keflavíkur.
Á dómþingi 7. apríl 1976 var Erla samprófuð við Einar. Hún sagðist þá ekki vita hvort Einar hafi verið staddur við dráttarbrautina umrætt sinn. Hún kvaðst vera í vafa um hvort hún hafi þekkt Einar þar rétt á sínum tíma, en á milli þeirra hafi verið 5 til 6 metrar og dimmt hafi verið. Erla sagðist hins vegar vera viss um að Kristján, Sævar, Magnús og Geirfinnur hafi allir verið staddir við dráttarbrautina. Hún kvaðst aðspurð ekki minnast þess hvort hún hafi verið undir áhrifum fíkniefna þegar þessi atvik gerðust.
Erla gaf aftur skýrslu hjá lögreglunni 4. maí 1976. Þar greindi hún enn með sama hætti og áður er lýst frá för sinni með Sævari og Magnúsi frá Klúbbnum, að Kristján hafi komið upp í bifreiðina við Vatnsstíg og ekið hafi verið til Keflavíkur, svo og að nokkru frá orðræðum Sævars og Magnúsar á þeirri leið. Fullyrti hún á ný að hún hafi séð Einar á svæði dráttarbrautarinnar, en það hafi verið þegar hún steig þar út úr bifreiðinni. Þessu sinni sagðist Erla hins vegar hafa haldið kyrru fyrir eftir að hún hafi farið út úr bifreiðinni. Eftir nokkra stund hafi Sævar rétt henni þungt áhald, sem hún átti að nota þar á tiltekinn mann. Erla kvað Sævar hafa skýrt út fyrir sér hvernig nota ætti áhaldið og taldi hún það hafa verið riffil. Að fyrirlagi Sævars hafi hún síðan miðað rifflinum að manninum og hleypt af skoti, en Sævar síðan tekið við rifflinum. Eftir þetta sagðist Erla hafa læðst í burtu og falið sig í mannlausu húsi. Erla staðfesti þessa skýrslu samdægurs fyrir dómi og var henni í kjölfarið gert að sæta gæsluvarðhaldi.
Í lögregluskýrslu 28. maí 1976 greindi Erla nokkuð ítarlega frá kynnum sínum og Sævars af Guðjóni Skarphéðinssyni. Sagðist hún meðal annars hafa ekið Sævari nokkrum sinnum í október 1974 og nær daglega á tímabili í næsta mánuði heim til Guðjóns eða á tiltekið veitingahús. Ef ekið hafi verið heim til Guðjóns hafi hún beðið langtímum saman úti í bifreið á meðan Sævar hafi verið inni hjá honum. Þá sagði Erla einnig frá því að eftir að farið var að skýra frá rannsókn málsins í fjölmiðlum í janúar 1976 hafi Guðjón leitað mjög upplýsinga hjá henni um það.
Í samtali við fyrrnefndan Karl Schütz 11. ágúst 1976 hvarf Erla frá þeirri frásögn, að Magnús hafi ekið bifreiðinni til Keflavíkur 19. nóvember 1974. Nafngreindi hún í staðinn annan mann, búsettan við Bergþórugötu í Reykjavík, sem hún kvað hafa verið ökumann við þetta tækifæri.
Í lögregluskýrslu 1. september 1976 sagði Erla þannig frá atvikum málsins að hún hafi farið með Sævari í leigubifreið að veitingahúsinu Klúbbnum og síðan þaðan í leigubifreið að mótum Grettisgötu og Snorrabrautar, þar sem þau hafi farið úr bifreiðinni og gengið að tilteknu húsi við Bergþórugötu. Þar hafi Sævar farið inn og rætt við nafngreindan kunningja sinn, en Erla beðið fyrir utan þar til þeir hafi báðir komið út. Þau hafi síðan farið þrjú í bifreiðinni á Ásvallagötu, þar sem Sævar hafi farið í stutta stund á heimili Guðjóns, en þaðan á Vatnsstíg, þar sem Sævar hafi á ný farið út úr bifreiðinni, komið svo aftur og Kristján í kjölfar hans. Þau hafi haldið fjögur saman í bifreiðinni eftir Vatnsstíg til norðurs, en aftur hafi verið stöðvað og Kristján og Sævar farið þar út til að ræða við Guðjón. Þeir tveir fyrrnefndu hafi komið aftur í bifreiðina og hafi þá verið ekið til Keflavíkur, sennilega með viðkomu á bensínstöð í Hafnarfirði. Á þeirri leið hafi Sævar og ökumaðurinn rætt um mann, sem búið væri að reyna árangurslaust að tala um fyrir, og yrðu því hlutirnir að vera eins og ákveðið hafi verið. Þau hafi farið á svæði dráttarbrautarinnar, þar sem fyrir hafi verið tvær bifreiðir, annars vegar rauð fólksbifreið og hins vegar sendibifreið, sem Erla lýsti með svipuðum hætti og í fyrri skýrslu. Við dráttarbrautina hafi Kristján og ökumaðurinn farið út úr bifreiðinni, en Magnús komið þar að og sagt Sævari að gæta Erlu. Sævar hafi síðan farið út og gengið til Magnúsar og Geirfinns, þar sem þeir virtust vera ósammála í samræðum. Geirfinnur hafi ætlað að ganga burt, en Magnús gripið um handlegg hans og Sævar gengið í veg fyrir hann og stympingar þá orðið. Erla kvaðst þá hafa séð sex aðra menn skammt frá og hafi henni fundist einn þeirra vera Einar. Annar maður úr þessum hópi hafi farið að berja Geirfinn og hafi hann fallið á hnén. Eftir það hafi Sævar barið Geirfinn með spýtu og hann sigið saman. Erla kvað Sævar hafa komið til sín eftir að Geirfinnur hafi verið fallinn til jarðar og sagt sér nöfn allra, sem væru viðstaddir, en þeirra á meðal hafi verið Magnús, Einar, Valdimar og Sigurbjörn. Sævar hafi síðan sagt sér að fara. Hafi hún falið sig í húsi og haldið til Reykjavíkur næsta dag, svo sem hún hafi greint frá í fyrri skýrslum.
Á dómþingi 1. september 1976 dró Erla til baka framburð sinn um að hún hafi skotið úr byssu á Geirfinn.
Í lögregluskýrslu 15. nóvember 1976 sagðist Erla halda að hún hafi farið með Sævari og móður hans á Kjarvalsstaði að kvöldi 19. nóvember 1974 til að skoða sýningu og sjá kvikmynd eftir Vilhjálm Knudsen. Eftir sýninguna hafi þau ekið móður Sævars heim að Grýtubakka 10 og haldið þaðan heim til sín, þar sem þau hafi farið inn, en Erla kvaðst ekki muna hvað þau gerðu eftir það. Hún minntist þess að hafa síðar ekið Land Rover bifreið í eigu Sævars aftur á bak inn um húsasund við heimili Kristjáns að Grettisgötu 82, en þetta taldi hún hafa gerst 22. nóvember 1974. Þar hafi Sævar og annar maður, sem Erla kvaðst halda að hafi verið Guðjón, farið inn í kjallara hússins og komið aftur út skömmu síðar með Kristjáni. Þeir hafi haft með sér tvo poka, sem þeir settu aftan í bifreiðina. Þau hafi síðan ekið út á Álftanes og stöðvað þar vegna ófærðar. Þau hafi öll farið út úr bifreiðinni og gengið stutta vegalengd í hrauni. Kristján, Sævar og Guðjón hafi borið skóflu og pokana, sem þeir hafi grafið þar. Í sömu skýrslu, svo og annarri, sem Erla gaf hjá lögreglunni 19. nóvember 1976, skýrði hún frá samtölum Sævars og Guðjóns, þar sem hún hafi heyrt þá ræða á tiltekinn hátt um hvarf Geirfinns, og spurningum Guðjóns til hennar snemma árs 1976 um rannsókn málsins.
Erla kom fyrir dóm 30. nóvember 1976, þar sem hún kvaðst hafa skrökvað um nöfn manna, sem hafi verið við dráttarbrautina í Keflavík, þar á meðal þeirra Magnúsar, Sigurbjörns, Valdimars og Einars, til að leiða athygli frá þeim, sem í raun væru við málið riðnir. Hún kvaðst vera viss um að Guðjón hafi verið staddur við dráttarbrautina þetta kvöld. Sagði hún jafnframt að í Land Rover bifreiðinni hafi hún verið ásamt Kristjáni og Sævari auk ökumanns, sem hún viti ekki hver var. Guðjón hafi farið til Keflavíkur í annarri bifreið. Hún sagðist einnig muna eftir rauðri fólksbifreið við dráttarbrautina og stórri ljósri sendibifreið.
Í dómi sakadóms segir að Erla hafi gefið lögregluskýrslur 3., 7., 12. og 13. desember 1976 og 11., 21. og 31. janúar 1977. Hún hafi fyrir dómi 22. desember 1976 staðfest lögregluskýrslur sínar frá 12. og 13. sama mánaðar. Skýrslur hennar við þau tækifæri hafi í flestum meginatriðum verið á sama veg og skýrsla hennar fyrir dómi 4. og 5. júlí 1977. Í síðastnefndu skýrslunni hafi Erla greint frá því að hún hafi farið á veitingahús síðdegis 18. nóvember 1974 með Sævari. Þau hafi hitt þar Guðjón, sem Sævar hafi rætt við. Erla kvaðst ekki hafa heyrt samtal þeirra. Þaðan hafi þau farið saman á bifreið að heimili Guðjóns, þar sem hann og Sævar hafi farið inn, en Erla beðið í bifreiðinni einhverja stund. Daginn eftir hafi hún farið með Sævari á bílaleiguna Geysi til að fá bifreið leigða, en fyrrnefnd Land Rover bifreið hafi verið í ólagi. Í bílaleigunni hafi þau hitt starfsmanninn Guðmund Magnússon, sem Sævar hafi verið kunnugur. Erla kvað Guðmund hafa beðið sig um að taka til í íbúð hans. Hafi Erla fallist á það og þá fengið lykla að ljósblárri Volkswagen bifreið, en skráningarnúmers bifreiðarinnar mundi hún ekki. Erla minntist þess ekki að gerður hafi verið skriflegur leigusamningur um bifreiðina, en taldi að Sævar hafi látið Guðmund hafa einhverja peninga. Erla kvaðst síðan hafa ekið bifreiðinni með Sævari að heimili Guðmundar, sem hafi farið á undan þeim í annarri bifreið. Guðmundur hafi þar opnað íbúðina og farið síðan. Eftir tiltekt í íbúðinni hafi Guðmundur komið þangað á ný, greitt Erlu fyrir verkið og þegið far með þeim á tiltekinn stað. Erla kvað þau Sævar hafa síðan farið heim, skilið þar eftir hina leigðu bifreið og farið á Land Rover bifreiðinni heim til móður Sævars, þar sem þau fengu kvöldverð. Í lögregluskýrslu sagði Erla að Sævar hafi hringt þaðan á milli kl. 19.00 og 19.30 og vissi hún ekki hvert, en í skýrslu fyrir dómi sagðist hún ekki muna eftir þessu. Um kl. 20 hafi þau síðan farið með móður Sævars á Kjarvalsstaði á sýningu kvikmyndar um Heimaey, sem hafi tekið um klukkustund. Strax eftir sýninguna hafi þau ekið móður Sævars heim og farið síðan heim til sín á Hjallaveg, þar sem þau hafi skipt um bifreið. Þaðan hafi þau farið heim til Guðjóns, sem hafi ekki verið þar. Að fyrirlagi Sævars hafi þau þá ekið að Lambhóli við Starhaga, þar sem hann hafi sótt Guðjón inn í hús, en frá þeim stað hafi Guðjón og Sævar farið saman í bifreið Guðjóns heim til hans og Erla fylgt þeim þangað á hinni bifreiðinni. Þar hafi Guðjón og Sævar farið inn í húsið. Erla kvað Sævar hafa komið aftur út í bifreið til sín og þau ekið að Vatnsstíg, þar sem hann hafi farið út og komið svo skömmu síðar með Kristjáni. Kristján hafi sest í aftursæti, en Sævar í framsæti. Þau hafi ekið niður Vatnsstíg og staðnæmst skammt frá Skúlagötu. Þar hafi verið stór sendibifreið, ljós á lit með stórri framrúðu og tveimur hliðarrúðum. Taldi Erla þetta hafa verið sömu bifreið og notuð hafi verið við síðustu búferlaflutninga hennar og Sævars, en Sigurður Óttar Hreinsson hafi þá ekið bifreiðinni. Kvaðst Erla ekki hafa séð hver hafi ekið bifreiðinni þessu sinni, en frá henni hafi Guðjón komið gangandi að bifreiðinni, sem Erla, Kristján og Sævar voru í. Þeir tveir síðarnefndu hafi þá farið út og rætt við Guðjón, en Sævar síðan komið og sagt að Guðjón tæki við akstrinum. Erla kvaðst þá hafa flutt sig í aftursætið við hlið Kristjáns, Guðjón hafi sest undir stýri og Sævar við hlið hans. Þaðan hafi þau svo ekið til Keflavíkur. Á leiðinni hafi Sævar og Guðjón rætt saman, en Kristján lítið sem ekkert tekið þátt í samræðum, enda undir áhrifum lyfja. Samtal Sævars og Guðjóns hafi snúist um mann, sem þeir ætluðu að hitta og væri erfiður. Í lögregluskýrslu mun Erla hafa sagt að í orðaskiptum Sævars og Guðjóns hafi komið fram að búið væri að bjóða þessum manni peninga, en það hafi ekki þýtt, og yrði því að gera það sem hefði verið ákveðið. Erla minntist þess að Sævar hafi einnig sagt að sýna yrði manninum fulla hörku og jafnvel láta hann hverfa. Þegar komið hafi verið til Keflavíkur hafi bifreiðin verið stöðvuð við bensínstöð, sem Erla taldi hafa verið Aðalstöðina. Þar hafi Sævar farið inn til að fá að hringja, en komið brátt til baka og sagst ekki hafa fengið aðgang að síma. Því næst hafi verið ekið að Hafnarbúðinni, þar sem Kristján og Sævar hafi báðir farið inn, að Erla taldi til að fá að hringja. Frá Hafnarbúðinni hafi þau síðan ekið að dráttarbrautinni. Erla taldi að á þeirri leið hafi gerst það atvik, að Sævar hafi sagt þeim að beygja sig og láta ekki sjá sig, en eitthvert fólk hafi verið á ferli á götu þegar þetta gerðist. Þegar komið hafi verið að dráttarbrautinni hafi Sævar og Kristján farið út og skoðað sig um, en þar kvaðst Erla ekki hafa séð aðra á ferli eða sendibifreiðina. Þaðan hafi þau farið að söluturni, þar sem Sævar hafi hringt, en eftir það að Hafnarbúðinni, þar sem staðnæmst hafi verið móts við vigt. Sævar hafi þar beðið Kristján um að fara inn til að hringja og látið hann hafa miða með símanúmeri. Kristján hafi farið brott og komið aftur eftir nokkra stund. Eftir nokkurn tíma hafi síðan komið maður, sem var hleypt inn í aftursæti bifreiðarinnar. Erla kvaðst ekki hafa verið kunnug manninum, en þekkti hann af myndum, sem hún sá af Geirfinni. Ekið hafi verið um Keflavík og hafi Sævar aðallega rætt við manninn. Sævar og að einhverju leyti Guðjón hafi farið fram á að maðurinn seldi þeim upplýsingar um geymslustað smyglaðs spíritus, en maðurinn hafi sagst ekki geta hjálpað í þeim efnum. Sævar hafi þá boðið manninum peninga og hiti færst í samtalið. Maðurinn hafi viljað komast út, en ekki fengið það og hafi þá byrjað einhverjar sviptingar. Ekið hafi verið að dráttarbrautinni, en í lögregluskýrslu bar Erla að þar hafi þá verið sendibifreiðin, sem hún hafi séð fyrr um kvöldið við Vatnsstíg. Á þeim stað hafi Sævar tekið upp seðlabúnt og rétt manninum, sem hafi hent því frá sér og verið orðinn óttasleginn. Erla kvað alla nema sig hafa farið út úr bifreiðinni eftir þetta og hafi þeir haldið í átt að sjónum. Utan bifreiðarinnar hafi haldið áfram þjark við manninn, sem hafi reynt að komast í burtu. Guðjón hafi þá gripið í handlegg mannsins og Kristján og Sævar ráðist á hann. Erla sagðist hafa séð Kristján og Guðjón berja manninn með hnefunum, en Sævar hafi lamið hann með barefli. Átökin hafi verkað þannig að svipta ætti manninn lífi. Hann hafi verið barinn þar til hann féll til jarðar og lá hreyfingarlaus. Erla minntist þess að hafa séð við dráttarbrautina að maðurinn væri í dökkri kuldaúlpu. Hún kvað Sævar hafa komið til sín eftir þetta, rétt sér peninga og sagt sér að fara heim. Eftir þetta hafi hún farið inn í rautt hús skammt frá og verið óttaslegin. Hún hafi sest þar í horn og reykt marga vindlinga. Henni hafi verið kalt, enda hafi hún gleymt dökkblárri kápu í bifreiðinni. Kvaðst hún hafa dvalist í húsinu þar til kominn var dagur. Hún hafi gengið þaðan í átt til Reykjavíkur og hafi verið kalt og snjór á jörðu. Eftir göngu í nokkrar mínútur hafi komið bifreið af gerðinni Moskvitch eða Skoda, sem hafi stöðvað eftir bendingu hennar. Erla sagði frá ferð sinni með þessari bifreið á sama veg og áður greinir. Í dómi sakadóms segir að lögreglan hafi látið Erlu sjá Guðmund Sigurð Jónsson, sem hún taldi sig þá þekkja sem ökumann bifreiðarinnar. Segir í dóminum, að henni hafi verið kynntur framburður Guðmundar, og hún sagst ekki efast um, að hann væri réttur. Þá sagði Erla með sama hætti og í fyrrgreindum skýrslum frá ferðum sínum eftir að hún hafi farið úr umræddri bifreið við mót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Um atvik eftir þetta sagði Erla að Sævar hafi komið heim stuttu seinna en hún og hafi þau þá ekki rætt um fyrrgreinda atburði að öðru leyti en því, að Sævar hafi sagt henni að hafa ekki orð á þessu. Í lögregluskýrslu mun Erla hafa borið að Sævar hafi sagt henni eftir á að hann hafi talað við Geirfinn í Klúbbnum 17. nóvember 1974, en ekki hafi hann greint frá samtali þeirra. Erla sagði frá því að seinni hluta dags 20. nóvember hafi þau Sævar sótt Volkswagen bifreiðina heim til Guðjóns. Kápa hennar hafi þá ekki verið í bifreiðinni og hafi Sævar sagt að hún væri hjá Bjarna Þór Þorvaldssyni að Bergþórugötu 27. Þau hafi síðan skilað bifreiðinni á bílaleigu. Erla kvað þau Sævar hafa farið hinn 20. eða 21. nóvember með Land Rover bifreiðina til Bjarna til lagfæringar. Þaðan hafi þau haldið heim til Kristjáns á Grettisgötu, þar sem hún hafi ekið bifreiðinni inn í húsasund að kjallarainngangi. Þar hafi hún farið inn með Sævari og fundið vonda lykt þegar hún gekk um kjallarann. Inni í íbúð Kristjáns, þar sem hann hafi verið staddur með Guðjóni, hafi verið ráðgast um hvað gera ætti við lík Geirfinns og ákveðið að grafa það í Rauðhólum. Erla kvaðst hafa beðið í herbergi Kristjáns á meðan þeir hinir hafi farið niður í kjallara. Eftir að hún hafi verið sótt í herbergið hafi hún séð aftan í bifreiðinni tvo pakka, vafða í plasti og einhvers konar fatnaði og hnýtta með bandi. Annar pakkanna hafi verið þeirrar stærðar að í honum gæti hafa verið lík, en hinn hafi verið um þriðjungur af lengd þess fyrrnefnda. Erla sagðist hafa ekið bifreiðinni frá Grettisgötu og hafi Sævar og Guðjón setið í framsæti, en Kristján í aftursæti. Farið hafi verið sem leið lá til Rauðhóla, en komið við á bensínstöð á Ártúnshöfða, þar sem Sævar og Guðjón hafi keypt bensín á 5 lítra brúsa. Erla kvaðst hafa ekið eftir fyrirsögn Sævars þegar komið var að Rauðhólum. Þar hafi síðan Kristján, Sævar og Guðjón farið út og grafið með skóflu, sem hafi verið í bifreiðinni. Þeir hafi gert gryfju, sem hafi verið um 2 metrar að lengd og hnédjúp. Pakkarnir hafi verið settir í þessa gryfju, bensíni hellt yfir og kveikt í, en síðan mokað yfir. Eftir þetta hafi Kristjáni og Guðjóni verið ekið heim. Erla kvað Sævar hafa sagt þegar þau komu heim að hún mætti ekki skýra frá þessum atburðum, en ef um yrði spurt ætti hún að segja að Klúbbmenn og Einar bróðir hennar væru við þetta riðnir. Í lögregluskýrslu mun Erla jafnframt hafa borið að síðastnefnt atriði hafi einnig verið rætt og fastmælum bundið á heimili Kristjáns líklega næstu helgi á eftir, þar sem hún hafi verið stödd með Sævari, Guðjóni og húsráðandanum, en þessa frásögn staðfesti hún við samprófun við Guðjón fyrir dómi 12. júlí 1977.
Erla kom fyrir sakadóm Reykjavíkur 11. janúar 1980 og lýsti þá rangan framburð sinn um för til Keflavíkur 19. nóvember 1974 og eftirfarandi flutning á líki Geirfinns. Hún kvað gæsluvarðhald hafa haft þvingandi áhrif á sig og valdið því að hún hafi skýrt svo frá sem hún gerði. Þá hafi rannsóknarmenn átt hlut að því að samræma framburð með því að gefa henni punkta um framburð annarra ákærðu.
II.3.C.
Sævar Marinó Ciesielski gaf fyrst skýrslu um þennan þátt málsins fyrir lögreglu 22. janúar 1976. Þar greindi hann frá því að nokkru fyrir hvarf Geirfinns hafi hann verið gangandi eftir Laugavegi að kvöldlagi þegar bifreið hafi verið stöðvuð og kallað til hans. Þar hafi verið á ferð Einar Bollason, en með honum í bifreiðinni Magnús Leópoldsson og maður, sem þeir nefndu Geirfinn. Sævar kvaðst hvorugan þessara síðarnefndu hafa þekkt, en Geirfinn hafi hann síðar þekkt á ljósmyndum, sem birtust eftir hvarf hans. Sævar sagðist hafa sest inn í bifreið til þeirra. Hafi Einar og Magnús beðið sig um að annast dreifingu á áfengi, sem verið væri að smygla til landsins, og hann tekið því vel. Nokkrum dögum síðar hafi Einar hringt á heimili móður Sævars, þar sem hann hafi verið staddur með Erlu, og sagst ætla að koma að hitta hann. Skömmu síðar hafi Einar komið á rauðri bifreið með Magnúsi og Valdimar Olsen. Þeir hafi fengið hann til að fara með sér til Keflavíkur til að sækja áfengissendingu. Þegar þangað var komið hafi verið rætt um að hitta Geirfinn, sem Sævari hafi skilist að ætti að sækja með þeim áfengi út á sjó. Sævar kvað Magnús og Valdimar hafa farið úr bifreiðinni skammt frá höfninni í Keflavík, en hann og Einar ekið um í eina eða tvær klukkustundir og hitt þá aftur. Hafi þá komið fram hjá Magnúsi að tekist hafi að ná í áfengið, en Geirfinnur hafi fallið útbyrðis og drukknað. Kvaðst Sævar ekki hafa þorað að nefna þetta við nokkurn mann vegna ótta um hefndarráðstafanir. Sævar sagði að sér hafi ekki litist á að eiga í fyrrgreindum viðskiptum með áfengi eftir að lýst var eftir Geirfinni og hafi ekkert frekar orðið úr þeim.
Í lögregluskýrslu 25. janúar 1976 óskaði Sævar eftir að breyta nokkuð fyrri framburði og gera viðbætur. Sagði hann nú að Erla, sem hafi verið stödd hjá Einari, hafi hringt til sín, þar sem hann var á heimili móður sinnar. Í kjölfarið hafi Einar og Magnús sótt hann í bifreið og Erla og Kristján Viðar Viðarsson verið með þeim, en ekki Valdimar. Þau hafi haldið til Keflavíkur, þar sem ekið hafi verið að bryggju. Á bryggjunni hafi verið fólksbifreið og stór sendibifreið, en við hana trilla. Þar hafi verið einhverjir menn, sem Erla hafi síðar sagt að hafi verið Valdimar og Geirfinnur. Sævar kvaðst hafa séð Erlu, Kristján og Magnús fara um borð í trilluna ásamt þremur karlmönnum, en meðal þeirra hafi verið Geirfinnur. Þeir Einar hafi ekið burt. Þegar þeir komu til baka hafi trillan verið komin að landi. Sævar sagði þá hafa átt orðaskipti við Magnús með sama hætti og greindi í fyrstu skýrslu hans, en eftir það hafi þeir haldið þrír saman í bifreiðinni til Reykjavíkur. Hann hafi ekki hitt Erlu fyrr en daginn eftir og hún þá sagst hafa komið með Valdimar. Í niðurlagi skýrslunnar staðfesti Sævar að lögreglan hafi þá skömmu áður farið með hann til Keflavíkur. Hann væri fullviss um að fyrrgreindir atburðir hafi gerst við dráttarbrautina þar.
Í dómi sakadóms segir að Sævar hafi að eigin ósk gefið lögregluskýrslu 27. janúar 1976 og þá sagst vilja skýra rétt frá atvikum málsins. Í skýrslunni hafi hann sagt síðustu frásögn sína um förina til Keflavíkur vera rétta. Þegar þangað hafi verið komið hafi hann hins vegar farið sjálfur um borð í trilluna ásamt Kristjáni, Magnúsi og þremur öðrum mönnum. Erla hafi síðar sagt sér að einn þessara þriggja væri Sigurbjörn Eiríksson, sem hann þekkti ekki. Þá hafi Geirfinnur að auki farið um borð í bátinn. Siglt hafi verið út á sjó, þar sem komið hafi til átaka á þilfarinu milli Geirfinns annars vegar og Kristjáns, Magnúsar og Sigurbjörns hins vegar. Geirfinnur hafi orðið óstöðugur á fótunum og fallið útbyrðis. Bátnum hafi verið snúið við. Kristjáni og Sigurbirni hafi tekist að ná Geirfinni aftur upp í bátinn, en Sævar kvaðst ekki hafa séð Geirfinn hreyfa sig. Siglt hafi verið áfram til að sækja áfengi í stórum plastbrúsum, sem hafi verið festir við belgi. Síðan hafi verið siglt aftur að sömu bryggju í Keflavík, þar sem varningurinn hafi verið settur í sendibifreið. Sævar sagðist vera viss um að Geirfinnur hafi verið látinn þegar hann náðist upp úr sjónum, en vissi ekki hvað hafi orðið um lík hans. Um atvik eftir þetta var framburður Sævars í meginatriðum á sama veg og í síðustu skýrslu hans.
Hinn 10. febrúar 1976 mun lögreglan hafa sýnt Sævari nokkurn fjölda ljósmynda. Taldi hann menn á þremur þessara mynda hafa verið í fyrrgreindri för. Munu það hafa verið myndir af Einari, Valdimar og Sigurbirni.
Sævar kom fyrir dóm 1. apríl 1976 og var þá beðinn um að skýra sjálfstætt frá málsatvikum. Hann greindi frá því að skýrslurnar, sem hann hafi gefið, væru ekki byggðar á vitneskju hans sjálfs eða reynslu, heldur hafi Erla sagt honum frá öllum atvikum. Hann kvaðst hafa heyrt ummæli tveggja nafngreindra manna um málið þegar hann hafi verið staddur í Kaupmannahöfn, en þangað hafi Erla farið á undan sér í desember 1974 vegna ótta við Magnús, Valdimar, Einar og Jón Ragnarsson. Hafi hann gefið skýrslur sínar til að málið yrði rannsakað, þar sem honum hafi verið sagt að Erla yrði fyrir ónæði og óttaðist um líf sitt.
Í lögregluskýrslu 8. maí 1976 var Sævar sagður hafa óskað sjálfur eftir að mæta til yfirheyrslu og viljað segja sannleikann í málinu, svo sem hann best vissi. Hann greindi frá því að þegar Einar og Magnús hafi tekið sig upp í bifreið við Laugaveg hafi verið með þeim annar maður, sem hann nafngreindi. Hafi verið rætt um dreifingu smyglaðs áfengis, en síðan farið í veitingahúsið Klúbbinn, þar sem Sigurbjörn hafi komið að máli við þá. Sævar kvað nafngreinda manninn og Sigurbjörn hafa þar rætt við sig um að fara með þeim til Keflavíkur til að ná í áfengi. Hafi þeir spurt hvort hann gæti haft með sér aðstoðarmann. Einar hafi hringt í hann nokkrum dögum síðar og látið vita að um kvöldið ætti að ná í áfengið. Sagðist Sævar hafa þá hringt í Kristján til að fá hann með í þessa för. Einar hafi sótt Sævar milli kl. 21 og 22 og hafi Valdimar verið með honum. Þeir hafi ekið að Klúbbnum, þar sem Erla hafi verið stödd utan dyra. Kvaðst Sævar hafa kallað til hennar og hafi hún komið upp í bifreiðina. Hafi síðan verið ekið á Laugaveg. Þaðan hafi hann hringt í Kristján og beðið hann um að koma á Vatnsstíg, þar sem hans biði bifreið. Kristján hafi komið þangað og sest í aftursæti bifreiðarinnar, en Erla hafi setið á milli þeirra. Ekið hafi verið niður Vatnsstíg. Þar hafi staðið blá sendibifreið, sem nafngreindi maðurinn ók. Sævar sagðist hafa farið út með Kristjáni til að ræða við manninn, sem hafi verið með fleiri mönnum í sendibifreiðinni. Síðan hafi verið ekið af stað og komið við á heimili Valdimars, þar sem hann hafi sótt riffil, en þaðan hafi verið haldið til dráttarbrautarinnar í Keflavík. Sævar greindi í skýrslunni frá því hvernig nokkrir menn, sem þar hafi verið staddir, ræddust við á víxl og fóru einhverjir út á sjó með báti, sem var þar við bryggju. Báturinn hafi síðan komið aftur og Sigurbjörn komið í land með tveimur öðrum mönnum. Valdimar hafi farið að ræða við þá þrjá. Hafi þá orðið átök, þar sem þrír mannanna réðust að þeim fjórða og hafi sá legið á jörðinni eftir átökin, en risið svo upp. Valdimar hafi komið með riffil, sem Sigurbjörn hafi tekið. Hafi hann hleypt af skoti á manninn, sem varð undir í átökunum, og féll sá til jarðar. Sævar kvaðst hafa horft á þetta með Erlu, svo og Kristjáni, sem hafi rakleitt á eftir farið að deila við mennina. Sævar sagðist hafa þá farið til Einars og viljað fara í burtu, en náð síðan í Kristján. Hann hafi einnig árangurslaust leitað að Erlu. Eftir þetta hafi hann farið burt í bifreið með Einari og Kristjáni. Þeir hafi svipast um eftir Erlu, en farið svo til Reykjavíkur. Erla hafi komið morguninn eftir. Sævar kvaðst ekki vita hvað hafi verið gert við manninn, sem varð fyrir árásinni við dráttarbrautina.
Í dómi sakadóms segir að Sævar hafi verið færður til viðtals hjá lögreglunni 19. ágúst 1976, þar sem honum hafi verið sýndar myndir af ýmsum tegundum sendibifreiða. Hann hafi þá sagst vera rangi maðurinn í málinu og ekki geta svarað því hvers konar bifreið hafi verið við dráttarbrautina umrætt sinn, þar sem hann hafi ekki verið þar.
Í lögregluskýrslu 22. október 1976 og viðtali við lögregluna sama dag kvaðst Sævar hafa á ótilteknum tíma farið með kápu Erlu heim til Bjarna Þórs Þorvaldssonar en ekki muna, hvort hann hafi sótt hana aftur þangað. Var frásögnin óljós um hvar kápan gæti verið niður komin. Við sama tækifæri neitaði Sævar að hafa verið í Keflavík 19. nóvember 1974 eða vita nokkuð um hvarf Geirfinns.
Sævar gaf skýrslu hjá lögreglunni 27. október 1976 og kvaðst þá vilja skýra sjálfstætt frá vitneskju sinni um hvarf Geirfinns. Hann sagði Kristján hafa hringt til sín 18. nóvember 1974 og spurt hvort hann vildi fara næsta kvöld til Keflavíkur til að taka þátt í áfengissmygli. Sævar kvaðst hafa játað þessu og spurt hvort Erla mætti fara með. Hafi Kristján samþykkt það og þeir ákveðið að ræðast frekar við næsta dag. Sævar sagðist síðan hafa hringt frá móður sinni 19. nóvember til Kristjáns. Hann hafi þá sagt Kristjáni að hann hygðist fara með móður sína á Kjarvalsstaði. Þeir hafi ákveðið að Sævar yrði sóttur heima hjá sér rúmlega kl. 21 um kvöldið. Kæmi Kristján ekki sjálfur að sækja hann yrði gefið hljóðmerki úr bifreið utan við húsið. Sævar kvað Kristján ekki hafa verið með í för þegar þau Erla voru sótt þetta kvöld. Ökumaður bifreiðarinnar hafi spurt hvort hann væri Sævar og síðan ekið með þau að Vatnsstíg. Á leið þangað hafi hann rætt við ökumanninn um smyglið. Sævar kvað ökumanninn hafa sagt þá menn, sem hann hafi nafngreint í fyrri skýrslum sínum, standa að smyglinu, sem færi fram á trillubáti. Hann hafi þó fundið inn á að varningurinn væri geymdur í húsi í Keflavík og stæði ekki til að fara í bátsferð um kvöldið. Sævar sagðist hafa farið út úr bifreiðinni á Vatnsstíg og sótt Kristján að Laugavegi 32, en þaðan hafi þau haldið öll til Keflavíkur. Hafi verið ekið hratt og Kristján og ökumaðurinn rætt um að hitta þyrfti mann í Keflavík á ákveðnum tíma. Þegar þangað var komið hafi verið staðnæmst við söluturn. Ökumaðurinn hafi þar rétt Kristjáni bréfmiða og sagt honum að hringja í Geirfinn. Skömmu eftir að Kristján kom til baka hafi sest við hlið hans í aftursæti bifreiðarinnar maður, sem reyndist vera Geirfinnur. Ökumaðurinn og Kristján hafi rætt við Geirfinn og eitthvað neikvætt komið upp í samræðum þeirra. Hafi verið ekið að dráttarbrautinni, þar sem sendibifreið stóð. Ökumaðurinn hafi gengið að sendibifreiðinni og rætt þar við einhvern, en komið til baka með tvo stóra plastbrúsa og sett þá í farangursgeymslu bifreiðarinnar, sem þau voru í. Ökumaðurinn hafi svo opnað bifreiðina og þeir Geirfinnur og Kristján stigið út. Sævar kvað þau Erlu, sem hafi orðið eftir í bifreiðinni, skyndilega hafa séð hvar átök byrjuðu skammt frá sendibifreiðinni. Kristján hafi slegið Geirfinn, maður úr sendibifreiðinni, sem Sævar lýsti nánar, hafi tekið Geirfinn hálstaki og fyrrnefndur ökumaður hafi einnig slegið hann. Meðan á átökunum stóð hafi Erla horfið á braut. Sævar kvaðst hafa gengið til Kristjáns og séð Geirfinn liggja hreyfingarlausan á jörðinni, en Kristján hafi aðspurður neitað því að hafa slegið Geirfinn. Sagðist Sævar hafa án árangurs kallað á Erlu og farið þá inn í bifreiðina, þar sem Kristján og ökumaðurinn hafi þegar verið sestir. Úr bifreiðinni hafi hann séð tvo menn bera Geirfinn inn í sendibifreiðina, en um frekari afdrif Geirfinns vissi hann ekki. Eftir þetta hafi verið ekið um í leit að Erlu, en síðan að einhverju húsi, þar sem ökumaðurinn hafi farið inn um stund. Kristján hafi þá sagt að Geirfinnur hafi átt að útvega miklu meira áfengi. Sævar kvaðst vita að Geirfinnur hafi gert samkomulag um að útvega áfengi við Kristján og ökumanninn í Klúbbnum 17. nóvember 1974, en til þess hafi verið vísað þegar Kristján og Geirfinnur hafi á fyrri stigum ræðst við í bifreiðinni. Sagði Sævar að sér hafi síðan verið ekið heim, en hann hafi gleymt kápu Erlu í bifreiðinni. Hann hafi vaknað næsta morgun þegar Erla hafi komið heim. Hann hafi farið síðar um daginn til Kristjáns og sótt kápu hennar, en gleymt svo kápunni hjá Bjarna Þór Þorvaldssyni, þar sem hún hafi verið fram á vorið 1975.
Í lögregluskýrslu 28. október 1976 greindi Sævar frá því að Guðjón hafi í nóvember 1974 innt hann eftir því hvort hann gæti selt spíra, sem Guðjón gæti útvegað. Sævar kvaðst hafi rætt um þetta við Kristján og gefið honum upp símanúmer Guðjóns. Hinn 18. þess mánaðar hafi Kristján haft samband við sig og skýrt frá manni í Keflavík, sem héti Geirfinnur og vildi kaupa spíra. Kristján hafi gefið upp símanúmer þess manns og Sævar komið því áfram til Guðjóns. Sævar kvað Guðjón hafa hringt til sín næsta kvöld um kl. 20, þar sem hann hafi verið staddur hjá móður sinni. Hann hafi sagt Guðjóni að hann væri á leið á kvikmyndasýningu með móður sinni og Erlu, en Guðjón hafi þá upplýst um stefnumót, sem hann ætti í Keflavík við Geirfinn kl. 21.30 um kvöldið. Hafi verið ákveðið að Guðjón mundi ná í Sævar og Erlu á Hjallavegi um kl. 21, en sýningunni hafi átt að ljúka stundarfjórðungi fyrr. Þá hafi þeir rætt um að Kristján fengi laun fyrir að selja spírann og hafi Guðjón spurt hvort hann ætti ekki einnig að fara með til Keflavíkur. Sagðist Sævar því hafa hringt til Kristjáns frá Kjarvalsstöðum og hafi Páll Konráð Konráðsson þá svarað í símann. Eftir sýninguna hafi þau Erla ekið móður hans heim í Land Rover bifreið sinni og farið svo rakleitt heim til sín. Guðjón hafi komið þangað skömmu síðar og beðið þau um að flýta sér. Þau hafi farið á Vatnsstíg í bifreið, sem Guðjón hafi haft til afnota. Sævar kvaðst hafa farið þaðan til að sækja Kristján á Laugaveg 32, þar sem fyrrnefndur Páll hafi komið til dyra. Þeir Kristján hafi farið í bifreiðina og hafi þá verið ekið til Keflavíkur. Á leið þangað hafi Guðjón sagt að Geirfinnur hafi verið eitthvað neikvæður þegar þeir ræddust við. Þeir hafi allir talað um að sýna Geirfinni fulla hörku ef hann yrði ekki eins og maður. Þá hafi Guðjón sagt hverjir stæðu að smyglinu, en Sævar kvaðst hafa nafngreint þá í öðrum skýrslum sínum. Guðjón hafi einnig getið þess að áfengið yrði sótt á báti. Sævar sagði þau hafa komið til Keflavíkur um kl. 22.10 eða 22.15 og farið beint að Hafnarbúðinni. Þar sem stefnumótið hafi átt að vera kl. 21.30 hafi verið ákveðið að láta Kristján hringja í Geirfinn. Hafi Guðjón skrifað símanúmer Geirfinns á bréfmiða, sem hann hafi rifið úr vasabók og afhent Kristjáni. Taldi Sævar sig muna að í símanúmerinu væru tölustafirnir 31. Atvikum næst í kjölfarið lýsti Sævar á líkan veg og í skýrslu sinni 27. október 1976 að öðru leyti en því, að nú nafngreindi hann Guðjón sem ökumann bifreiðarinnar, sem þau hafi verið í. Hann kvað Guðjón hafa sótt tvo brúsa af spíra í sendibifreið og látið í farangursgeymslu sinnar bifreiðar, en eftir það hafi þeir allir gengið með Geirfinni að sendibifreiðinni. Rætt hafi verið við menn í sendibifreiðinni um greiðslu fyrir spírann. Orðaskiptin hafi leitt í ljós að Geirfinnur vildi ekki eiga viðskipti, þótt hann hafi bundið þau fastmælum við Kristján á fyrri stigum í Klúbbnum. Geirfinnur hafi sýnt á sér fararsnið og Kristján stöðvað hann. Af því hafi spunnist slagsmál milli þeirra tveggja með þátttöku Sævars og manns úr sendibifreiðinni. Slagsmálunum hafi lokið með því að sá síðastnefndi hafi tekið Geirfinn hálstaki og Guðjón slegið hann fast í höfuðið með 50 til 60 cm löngum lurki. Þegar hálstakinu hafi verið sleppt hafi Geirfinnur dottið niður hreyfingarlaus. Kristján hafi slegið Geirfinn með barefli tvívegis í höfuðið, en síðan þuklað á honum og gefið til kynna að hann væri dáinn. Kristján hafi svo dregið Geirfinn með manninum úr sendibifreiðinni inn í farangursgeymslu hennar. Sævar kvaðst þá hafa gengið með Guðjóni að bifreið hans og séð að Erla væri farin. Kristján hafi svo komið til þeirra og sagt að ákveðið hafi verið að sendibifreiðin kæmi heim til hans. Þeir hafi haldið af stað í bifreið Guðjóns og leitað að Erlu, en kápa hennar og taska hafi orðið eftir í bifreiðinni. Guðjón hafi brugðið sér inn í eitthvert hús í Keflavík, en eftir það hafi þeir farið að Grettisgötu 82, þar sem þeir hafi farið inn til Kristjáns. Þaðan hafi þeir séð sendibifreiðina garðmegin við húsið. Þeir hafi farið út og borið með aðstoð fyrrnefnds manns, sem hafi verið í sendibifreiðinni, 5 plastbrúsa með spíra inn í kjallara hússins, svo og lík Geirfinns. Sævar lýsti í skýrslunni áverkum á líkinu og hvernig gengið hafi verið frá því í læstri geymslu. Hann kvað þá alla hafa farið síðan upp í herbergi Kristjáns, þar sem rætt hafi verið um hvað gera ætti við líkið. Hafi loks verið ákveðið að grafa það austur í Grafningi. Eftir þetta hafi Guðjón ekið honum heim, en hann hafi gleymt kápu Erlu og tösku í bifreiðinni. Erla hafi komið heim morguninn eftir, en Guðjón hafi komið með kápuna og töskuna síðar þann dag. Sævar kvaðst hafa farið heim til Kristjáns næsta kvöld og hitt hann ásamt Guðjóni og manninum úr sendibifreiðinni. Þeir hafi þá brotið saman lík Geirfinns og sett það í svartan plastpoka, sem bundið hafi verið um með hvítu bandi. Samkvæmt ákvörðun þeirra við þetta tækifæri hafi líkið síðan verið flutt austur í Grafning 23. nóvember 1974 í Land Rover bifreiðinni. Lýsti Sævar nánar staðnum, þar sem líkið hefði verið grafið.
Í lögregluskýrslu 4. nóvember 1976 greinir frá því að Sævar hafi verið spurður hvort Sigurbjörn hafi verið í Keflavík 19. nóvember 1974. Hann hafi svarað því einu til að Sigurbjörn þekkti Kristján og hafi eitt sinn gefið honum hálfan kassa af ákavíti. Sævari hafi verið kynntur framburður Erlu um að hann hafi margbarið Geirfinn með lurk eða spýtu. Hann hafi þá sagst ekki ætla að hlífa þessu fólki lengur. Hann kvaðst hafa verið heima hjá móður sinni 19. nóvember 1974, þegar Kristján hafi farið með Erlu til Keflavíkur og látið hana skjóta Geirfinn. Guðjón hafi sótt sig heim þetta kvöld og ekið til Keflavíkur. Sigurbjörn hafi tekið þátt í þessu. Rætt hafi verið í Klúbbnum um peninga og spíra við Geirfinn, en síðar hafi komið í ljós að hann vildi selja spíra en ekki kaupa. Geirfinnur hafi verið vafinn í teppi, sem hafi orðið eftir í kjallaranum hjá Kristjáni. Aðspurður um hvort mikið hafi sést á Geirfinni sagði Sævar hann hafa verið bláan á öðrum vanga og með sár eða skrámu á kinnbeini, auk þess sem annað augað hafi verið blátt og hálfsokkið að því er Sævar héldi. Líki Geirfinns hafi fyrst verið komið fyrir í Grafningi, en síðan sett í Þingvallavatn.
Í dómi sakadóms segir frá því að samkvæmt lögregluskýrslu 6. nóvember 1976 hafi Sævar kvartað undan því að einangrun í gæsluvarðhaldsvist væri orðin mjög slæm. Honum hafi verið svarað því til að hann skapaði sér þetta sjálfur, því margt í síðustu skýrslu hans væri ekki rétt og tæki langan tíma að rannsaka það, en á meðan gæti ekki losnað um hann. Hafi Sævar þá sagt að megnið af skýrslunni væri rétt, bæði að Guðjón hafi ekið til Keflavíkur og eins það sem þar gerðist. Hann hafi hins vegar skýrt rangt frá í upphafi. Hann hafi verið í Klúbbnum 17. nóvember 1974 með Kristjáni og hugsanlega Erlu. Hann og Kristján hafi þar stolið veski af manni og síðan séð annan, sem þeir hafi einnig ætlað að ræna, en það hafi verið Geirfinnur. Þeir hafi því farið að tala við hann á stigaskör og meðal annars þvælt um að selja honum áfengi, en þetta hafi Páll Konráðsson heyrt. Þegar til kom hafi þeir ekki reynt að ræna Geirfinn. Sævar kvaðst hafa gengið burt. Kristján hafi komið rétt á eftir og sagt að maðurinn væri til í að kaupa áfengi. Hafi Kristján haft nafn mannsins og heimilisfang á blaði. Sævar sagðist hafa gefið Guðjóni upp nafn og síma Geirfinns. Hafi Guðjón rætt við Geirfinn og fundist hann eitthvað tortryggilegur. Á leiðinni til Keflavíkur hafi verið rætt um að sýna Geirfinni fulla hörku ef hann væri að blekkja eða með stæla. Þangað hafi verið ekið frá Hjallavegi á Land Rover bifreiðinni og Guðjón setið undir stýri, en Erla hafi fengið að fara með. Geirfinnur hafi verið fluttur til Reykjavíkur aftan í bifreiðinni. Ekki hafi verið farið með lík hans austur í Grafning eða Þingvallavatn, heldur hafi það verið urðað í hrauni nokkuð langt fyrir sunnan álverið í Straumsvík. Þá tók Sævar fram að Guðjón þekkti Sigurbjörn, svo og að Kristján þekkti hann mjög vel. Sagðist hann halda að Sigurbjörn hafi verið staddur í Keflavík, en ef Sigurbjörn ætti bróður, sem væri líkur honum, gæti það eins hafa verið hann.
Í lögregluskýrslum 8. og 17. nóvember 1976 var greint frá upplýsingum, sem Sævar mun hafa veitt um greftrunarstað Geirfinns á Álftanesi, svo og árangurslausri leit þar að líkinu. Í lögregluskýrslu frá 11. sama mánaðar var greint frá frásögn Sævars um hvernig fólksbifreið og sendibifreið hafi verið lagt hjá húsinu að Grettisgötu 82 aðfaranótt 20. nóvember 1974. Sævar gaf skýrslur hjá lögreglunni 15. og 17. nóvember 1976, þar sem hann sagði frá nokkrum samtölum sínum við Guðjón á árinu 1975 varðandi rannsókn á hvarfi Geirfinns. Þá var í lögregluskýrslum 25. og 30. nóvember 1976 sagt frá upplýsingum Sævars um tiltekin atriði málsins, einkum um flutning á líki Geirfinns og hvar því hafi verið komið fyrir.
Á dómþingi 6. desember 1976 kvaðst Sævar ekki hafa farið til Keflavíkur 19. nóvember 1974. Hann sagði Guðjón hafa greitt sér ákveðna fjárhæð fyrir að nefna nöfn Einars, Magnúsar, Valdimars, Sigurbjörns og fleiri manna við rannsókn málsins. Hafi svo átt að greiða sér sömu fjárhæð til viðbótar þegar rannsókn málsins lyki.
Sævar gaf skýrslu hjá lögreglunni 9. desember 1976. Þar skýrði hann frá því að hann og Kristján hafi hitt Geirfinn í Klúbbnum og rætt þar um viðskipti með spíra. Hann greindi einnig frá samtölum við aðra ákærðu í þessum þætti málsins til undirbúnings ferðar til Keflavíkur, svo og símtali við Geirfinn. Sendibifreið hafi staðið við Vatnsstíg og hafi frændi Kristjáns, Sigurður Óttar Hreinsson, ekið henni. Sævar skýrði einnig frá ferð til Keflavíkur, hvernig þeir Geirfinnur hafi hist þar, samtölum við hann og átökum við dráttarbrautina. Loks greindi hann frá flutningi líksins að Grettisgötu 82, geymslu þess þar, flutningi í Rauðhóla 21. nóvember 1974 og greftrun líksins þar. Í dómi sakadóms segir að skýrslan hafi í meginatriðum verið í samræmi við skýrslu Sævars fyrir dómi 20. og 21. júní 1977. Ennfremur hafi hann komið fyrir dóm 22. desember 1976 og skýrt þar sjálfstætt frá málsatvikum á sama veg. Þá hafi hann við það tækifæri skýrt frá því að eftir komu hans og Erlu frá Kaupmannahöfn fyrri hluta árs 1975 hafi þau Erla, Kristján og Guðjón rætt um að blanda öðrum mönnum inn í málið.
Í dómi sakadóms segir frá því hvernig Sævar hafi í viðtali við lögreglumenn 28. desember 1976 lýst því þegar hann hafi ásamt Kristjáni og Guðjóni borið lík Geirfinns inn í Volkswagen bifreið við dráttarbrautina í Keflavík, svo og samræðum milli þeirra á leið þaðan um hvað gera ætti við líkið og hvernig það hafi verið flutt úr bifreiðinni inn í kjallara að Grettisgötu 82. Í lögregluskýrslu 7. janúar 1977 skýrði Sævar frá því hvernig hann hafi skráð hjá sér nafn Geirfinns í samtali þeirra í Klúbbnum 17. nóvember 1974 og hvernig símanúmer Geirfinns hafi síðan verið fengið hjá Landssímanum daginn eftir. Þá skýrði hann frá símtali, sem hann hafi átt við Geirfinn að kvöldi 18. nóvember til að koma á stefnumóti, svo og því hvernig Kristján hafi hringt næsta kvöld til Geirfinns frá Hafnarbúðinni. Í sömu skýrslu sagði Sævar frá kápu Erlu, sem hafi verið í fórum Bjarna Þórs Þorvaldssonar frá því 20. eða 21. nóvember 1974 þar til um vorið 1975. Hann kvaðst þá hafa tekið kápuna, séð á henni bletti, sem hann hafi talið vera blóð eftir ferðina til Keflavíkur, og fleygt henni í sorptunnu við heimili Bjarna. Þá sagði Sævar frá því hvaðan hann hafi fengið fé, sem hann hafi verið með í Keflavík að kvöldi 19. nóvember 1974. Í lögregluskýrslum 10. janúar 1977 var greint frá upplýsingum, sem Sævar hafi gefið um nokkur atriði í tengslum við símhringingar heim til Geirfinns síðdegis 18. nóvember 1974 og að kvöldi þess 19., klæðaburð Geirfinns það kvöld, flutning á líki Geirfinns og geymslu þess að Grettisgötu 82, verustað sinn aðfaranótt 20. nóvember 1974, urðun líksins í Rauðhólum og hvaðan skóflur hafi verið fengnar til þess verks. Um síðastgreint atriði var síðan skráð nánari frásögn Sævars í lögregluskýrslu 22. janúar 1977. Í lögregluskýrslu 12. janúar 1977 kom fram að Sævar hafi lýst ósanna frásögn sína á fyrri stigum um bát við bryggju við dráttarbrautina í Keflavík. Í lögregluskýrslu 19. sama mánaðar sagði frá lýsingu Sævars á samtali í bifreiðinni á leið til Keflavíkur að kvöldi 19. nóvember 1974 um hvað gera ætti við Geirfinn, svo og því hvar þeir hefðu hitt Sigurð Óttar Hreinsson í Keflavík og hvert honum hafi verið sagt að fara. Í lögregluskýrslu 21. janúar 1977 var greint frá frásögn Sævars um samtal, sem hann hafi átt við Geirfinn í Klúbbnum að kvöldi 17. nóvember 1974. Í lögregluskýrslu 24. janúar 1977 var að finna mun ítarlegri frásögn Sævars um hvernig lík Geirfinns hafi verið borið inn í kjallara að Grettisgötu 82, hvernig búið hafi verið um það og hvaða áverkar hafi verið sýnilegir á því. Loks gaf Sævar skýrslu hjá lögreglunni 1. febrúar 1977, þar sem fram kom frásögn hans um ástæðurnar fyrir því að hvert þeirra Erlu, Kristjáns og Guðjóns hafi verið með í för til Keflavíkur að kvöldi 19. nóvember 1974, hvað þau hafi rætt um í bifreiðinni á leið þangað, hvað farið hafi á milli þeirra og Geirfinns við dráttarbrautina og hvað gerst hafi í átökum þar. Að auki var í skýrslu þessari greint frá upplýsingum í sambandi við það, hvort ásetningur hafi verið til að bana Geirfinni í umræddum átökum. Efni allra þessara skýrslna var í meginatriðum eins og frásögn Sævars um sömu atriði í skýrslu fyrir dómi, sem næst verður greint hér frá.
Á dómþingi 20. og 21. júní 1977 greindi Sævar þannig frá atvikum í þessum þætti málsins að hann hafi verið staddur í Klúbbnum, að hann minnti að kvöldi 17. nóvember 1974, ásamt Kristjáni og Páli Konráði Konráðssyni. Hann hafi veitt því eftirtekt að Kristján hafi farið að ræða í stiga við ölvaðan mann og grunað að Kristján hygðist ræna af honum veski. Sævar kvaðst hafa farið að ræða við þá. Maðurinn hafi sagst heita Geirfinnur og vera frá Keflavík. Sævar sagðist hafa heyrt um mann í Keflavík, sem kallaður væri Geiri og fengist við sölu á spíra, en ekki vitað á honum frekari deili. Kvaðst Sævar því hafa farið að spyrja manninn um spíra og skilið ummæli hans svo að hann hefði eitthvað með slíkt að gera. Hann hafi spurt manninn hvort þeir ættu ekki að eiga viðskipti, en með þessu hafi hann haft í huga að komast að því við hvern maðurinn skipti og hvar spírinn væri geymdur. Sagðist Sævar minna að hann hafi nefnt að hann væri tilbúinn til að greiða 50.000 til 70.000 krónur fyrir upplýsingar. Hann hafi skrifað niður nafn og heimilisfang mannsins, en ekki símanúmer, og rætt um að hafa samband við hann eftir helgina. Í samtalinu hafi hann sagst vera Magnús Leópoldsson. Sævari mun hafa verið sýnd mynd á dómþinginu af Geirfinni og hann staðfest að um sama mann væri að ræða. Sævar kvaðst hafa sagt Erlu frá samtalinu við Geirfinn daginn eftir og hafi þau ekið það kvöld heim til Guðjóns í Land Rover bifreiðinni, sem Erla beið í meðan Sævar fór þar inn. Hann hafi sagt Guðjóni frá væntanlegum kaupum sínum á upplýsingum frá Geirfinni um hvar spíri væri geymdur og boðið Guðjóni að eiga hlut að viðskiptunum. Taldi Sævar að Guðjóni hafi verið ljóst að taka ætti spíra ófrjálsri hendi. Guðjón hafi ákveðið að taka þátt í þessu. Sagðist Sævar hafa hringt á nokkra staði heiman frá Guðjóni. Meðal annars hafi hann hringt til Kristjáns og hafi Páll Konráð svarað þar í síma. Hann hafi sagt Kristjáni hvað stæði til. Kristján hafi tekið að sér að útvega sendibifreið til að flytja spíra frá Keflavík til Reykjavíkur, en einnig hafi hann sagst hafa tök á að koma spíranum í umferð. Sævar kvaðst einnig hafa hringt í Landssímann og fengið þar símanúmer Geirfinns, sem hann hafi ritað á miða og látið Guðjón hafa. Hann hafi síðan hringt heim til Geirfinns, þar sem barn hafi svarað og sagt að hann væri ekki heima. Sævar sagðist hafa rætt eitthvað meira við Guðjón um ferð til Keflavíkur að kvöldi næsta dags, þar á meðal um að Land Rover bifreiðin væri í ólagi og að fengin yrði bifreið á bílaleigu, svo og að Guðjón yrði þá annaðhvort heima hjá sér eða að Lambhóli við Starhaga. Sævar kvaðst hafa síðan farið um hádegi 19. nóvember 1974 með Erlu á bílaleiguna Geysi, þar sem þau hafi fengið leigða ljósbláa Volkswagen bifreið gegn greiðslu á 5.000 krónum en án þess að gera skriflegan leigusamning. Þau hafi farið heim og skilið bifreiðina þar eftir. Um kl. 18.30 þetta kvöld hafi þau farið til móður Sævars að Grýtubakka 10 og fengið þar kvöldmat. Annaðhvort þar eða heima hjá sér hafi hann hringt í Geirfinn og sagst vera Magnús Leópoldsson. Hann hafi minnt á samtal þeirra í Klúbbnum og spurt hvort Geirfinnur vildi hitta sig við Hafnarbúðina kl. 21.30 eða 22. Hann hafi einnig sagst vera með peningana með sér. Geirfinnur hafi samþykkt þetta. Sævar kvað þau hafa farið um kl. 20 með móður hans á kvikmyndasýningu á Kjarvalsstöðum og hafi þau verið þar uns sýningunni lauk. Þaðan hafi hann rætt við Kristján, sem hafi sagt allt vera í lagi með sendibifreið. Að lokinni sýningunni hafi móður hans verið ekið heim, en þau Erla hafi síðan haldið heim og farið þaðan á bílaleigubifreiðinni heim til Guðjóns. Guðjón hafi ekki verið heima og þau því farið að Lambhóli. Sævar sagði að Guðjón hafi verið þar með einhverju fólki, þar á meðal Rafni nokkrum Guðmundssyni. Guðjón hafi verið með bifreið, sem þeir hafi farið í tveir á Vatnsstíg, en Erla hafi ekið þangað ein. Bifreiðunum hafi verið lagt nálægt Laugavegi. Kvaðst Sævar þessu næst hafa farið að Laugavegi 32 til að sækja Kristján, en þar hafi Páll Konráðsson komið til dyra. Þeir Kristján hafi farið í Volkswagen bifreiðina, sem Guðjón hafi ekið upp frá því. Sævar sagðist hafa farið aftur út úr bifreiðinni með Kristjáni við sendibifreið af gerðinni Mercedes Benz, sem hafi staðið við Vatnsstíg, og rætt við ökumanninn, Sigurð Óttar Hreinsson. Þeir hafi mælt sér mót í Keflavík. Sævar lýsti síðan leiðinni, sem ekið var til Keflavíkur. Á leiðinni hafi ekki verið rætt um að beita Geirfinn ofbeldi, en hins vegar að sýna yrði fulla hörku ef hann yrði með stæla, enda hafi hann virst vera áhugalítill í símtali fyrr um kvöldið. Komið hafi verið til Keflavíkur rúmlega kl. 22. Stöðvað hafi verið á bensínstöð og rætt þar við Sigurð, sem hafi verið sagt að fara að dráttarbrautinni. Því næst hafi verið ekið að Hafnarbúðinni. Sagðist Sævar hafa farið þar inn með Kristjáni til að svipast um eftir Geirfinni, en þeir ekki séð hann. Hafi þeir því farið aftur í bifreiðina og ekið að dráttarbrautinni til að gæta að Sigurði, en þar hafi þeir Kristján farið út að nýju. Þeir hafi svo aftur sest inn í bifreiðina og hafi verið ekið að söluturni, þar sem ætlunin hafi verið að hringja í Geirfinn, en frá því hafi verið horfið vegna mannfjölda þar. Hafi því verið ekið aftur að Hafnarbúðinni. Sævar kvaðst hafa látið Kristján fá miða með nafni og símanúmeri Geirfinns og hafi Kristján farið inn til að hringja í hann. Kristján hafi komið eftir skamma stund og sagst hafa náð til Geirfinns, sem væri á leiðinni, en í samtalinu hafi hann spurt hvort Maggi væri þarna. Skömmu síðar hafi Geirfinnur komið að bifreiðinni. Sagðist Sævar hafa kallað til hans með nafninu Geiri, sem hann hafi játað. Geirfinnur hafi því næst sest í aftursæti bifreiðarinnar. Ekið hafi verið um bæinn og rætt um viðskiptin, en Geirfinnur lagt lítið til málanna og virst ekki vita um hvað verið væri að ræða. Farið hafi verið að dráttarbrautinni og numið þar staðar. Kvaðst Sævar hafa þar sýnt Geirfinni 70.000 krónur og beðið hann um að upplýsa hvar spírinn væri geymdur. Geirfinnur hafi ekki virst átta sig á þessu, en tekið þó við peningunum. Geirfinnur hafi síðan sagst ekkert vilja með þetta hafa, hann hafi hent peningunum á gólfið og viljað komast út úr bifreiðinni. Sagðist Sævar hafa þá farið út ásamt Guðjóni, Kristjáni og Geirfinni. Geirfinnur hafi ætlað að ganga í burtu, en Guðjón stöðvað hann og spurt hvort þeir ættu ekki að ræða betur saman. Kristján hafi staðið við hlið Geirfinns og spurt hvort ekki hafi verið búið að ræða um þetta í Klúbbnum. Geirfinnur hafi ýtt Kristjáni til hliðar, en Kristján hafi þá slegið Geirfinn. Sævar kvaðst þá hafa slegið í andlit Geirfinns, sem hafi hrint sér. Hann hafi á ný ráðist á Geirfinn, en aftur hafi farið á sömu leið. Á sama tíma hafi Kristján og Guðjón báðir slegið Geirfinn og tekið hann hálstaki. Kristján hafi jafnframt haldið um höfuð Geirfinns, en Sævar kvaðst þá hafa slegið í fótleggi hans með spýtu. Hann kvaðst um þessar mundir hafa verið orðinn hræddur og farið til Erlu, sem hafi verið komin út úr bifreiðinni og orðin taugaóstyrk, en Kristján og Guðjón hafi haldið áfram átökunum við Geirfinn. Sævar kvaðst hafa sagt Erlu að fara með leigubifreið til Reykjavíkur og látið hana hafa peninga, en við það hafi hún farið burt. Hann hafi snúið sér aftur til Kristjáns og Guðjóns. Geirfinnur hafi legið á jörðinni og Kristján, sem hafi staðið yfir honum, sagt að hann væri dáinn. Sævar sagðist sjálfur hafa gáð að æðaslætti og talið Geirfinn látinn, en blóð eða skrámur hafi verið á gagnauga hans og kjálka. Átökin við Geirfinn hafi gengið mjög hratt og mikill æsingur verið. Eftir átökin hafi þeir rætt hvað gera ætti og sett síðan líkið sitjandi í aftursæti bifreiðarinnar, en yfir það hafi þeir sett kápu Erlu. Sævar kvaðst hafa leitað að Erlu, en á sama tíma hafi Kristján farið til Sigurðar og sagt honum að fara. Á leið til Reykjavíkur hafi verið rætt um hvað gera ætti við líkið og ákveðið að fara með það heim til Kristjáns að Grettisgötu 82, þar sem það hafi verið sett í kjallarageymslu. Sævar kvaðst hafa hitt Erlu heima hjá þeim morguninn eftir, en hún hafi þá sagst hafa verið í auðu húsi í Keflavík um nóttina og fengið svo far til Reykjavíkur. Þá sagðist Sævar hafa hitt Guðjón á tilteknu veitingahúsi eftir hádegi þann dag. Þeir hafi rætt þar um hvað gera ætti við líkið og hafi Guðjón jafnframt afhent sér lykla að Volkswagen bifreiðinni, sem þau Erla hafi svo skilað á bílaleigu um kvöldið. Síðla dags 21. nóvember 1974 hafi þau Erla farið til Bjarna Þórs Þorvaldssonar til að gera við Land Rover bifreiðina. Sævar sagðist hafa verið þá klæddur í kápu Erlu og orðið var við svarta bletti í kápunni, sem hann hafi talið vera blóð úr Geirfinni. Kápan hafi gleymst heima hjá Bjarna, en Sævar kvaðst hafa tekið hana nokkrum dögum síðar og sett þar í sorptunnu. Þau Erla hafi síðan farið heim til Kristjáns, þar sem þau dvöldust um stund. Þaðan hafi þau öll farið heim til Guðjóns og rætt um að hann tæki þátt í að flytja lík Geirfinns. Guðjón hafi farið með þeim að Grettisgötu 82 og haft skóflu meðferðis. Líkið hafi þar verið borið út í bifreiðina, en áður hafi verið búið að vefja það í plastdúk og binda utan um. Kristján hafi tekið með skóflu, haka og bensínbrúsa. Liðið hafi verið nokkuð á kvöldið þegar þau héldu af stað til Rauðhóla og hafi Erla ekið. Sævar kvaðst hafa grafið ásamt Kristjáni og Guðjóni aflanga gryfju, um einn metra að dýpt, en jarðvegurinn hafi verið grýttur og hafi þurft að nota haka við gröftinn. Líkið hafi svo verið sett í gryfjuna, bensíni hellt yfir það og kveikt í. Þeir hafi síðan mokað ofan í gryfjuna og látið steina yfir slétt yfirborð.
Í dómi sakadóms er tekið orðrétt upp bréf Sævars til dómsins 12. júlí 1977. Segir þar að eftir atburðina í Keflavík 19. nóvember 1974 hafi verið farið með lík Geirfinns á öskuhauga í Hafnarfirði, þar sem bíldekk og drasl hafi verið látið yfir það. Framburður hans um geymslu líksins á Grettisgötu og flutning þess í Rauðhóla hafi því verið rangur. Segir í bréfinu að Erla hafi nefnt Rauðhóla í samprófun í júlí 1976 og gefið merki um að tala um stað þar, sem þau hafi komið á sumarið 1975, auk þess að hún hafi komið þeim boðum á framfæri með miðum, sem hann hafi fengið frá henni í Síðumúlafangelsi. Guðjón hafi lagt mikla áherslu á að ekki yrði upplýst um hvar líkið væri. Kvaðst Sævar því hafa talið Guðjón og Erlu hafa sammælst um þessa frásögn eftir handtöku hans, en hann kæmi þessu á framfæri, af því að hann vildi veita alla hugsanlega aðstoð til að finna mætti lík Geirfinns.
Í dómi sakadóms greinir síðan frá skýrslu Sævars um nokkra viðburði á tímabilinu 15. til 21. nóvember 1974, sem dóminum barst 5. september 1977. Í skýrslunni er sagt af nokkurri nákvæmni frá ferðum og viðfangsefnum Sævars umrædda daga, en hvergi var þar vikið að ferð til Keflavíkur eða atvikum, sem tengjast þessum þætti málsins. Segir í dóminum að Sævar hafi komið á dómþing 13. september 1977 og haldið fast við þá frásögn í skýrslunni, að hann hafi fyrst farið frá Kjarvalsstöðum kl. 22 að kvöldi 19. nóvember 1974. Hann hafi jafnframt haldið því fram að allur framburður sinn væri rangur og byggður á sögusögnum lögreglumanna, en framburðurinn hafi þróast upp við rannsókn málsins. Hann kvaðst ekki hafa farið til Keflavíkur 19. nóvember 1974 eða átt þátt í hvarfi Geirfinns Einarssonar, sem hann hafi aldrei séð.
II.3.D.
Kristján Viðar Viðarsson gaf fyrst skýrslu hjá lögreglunni vegna þessa þáttar málsins 23. janúar 1976. Þar kvaðst hann ekki telja sig vera viðriðinn hvarf Geirfinns Einarssonar eða vita neitt um það. Hann sagðist minnast þess að hafa komið til Keflavíkur um það leyti, sem Geirfinnur hvarf, en minni hans frá því tímabili væri mjög óljóst vegna mikillar notkunar lyfja. Hann kvaðst þó muna eftir því að hafa farið að kvöldlagi upp í stóra sendibifreið, sem gæti hafa verið af gerðinni Mercedes Benz og fremur dökk að lit. Minnti hann að þetta hafi gerst bak við veitingahúsið Klúbbinn. Hann sagðist ekki muna eftir ástæðunni fyrir þessu, en taldi að ekið hafi verið í bifreiðinni til Keflavíkur. Þar hafi verið staðnæmst við stórt hús eða skemmu, þar sem dimmt hafi verið. Sjórinn hafi verið skammt undan og bryggja, þar sem líklega hafi verið bátur. Að minnsta kosti tvær aðrar bifreiðir hafi verið þar og nokkur fjöldi fólks, þar af ein kona. Kristján kvaðst hafa þekkt í þeim hópi Sævar, Erlu og Einar Bollason. Hann mundi ekki frekar eftir atvikum þar á staðnum eða ferð aftur til Reykjavíkur.
Í lögregluskýrslu 27. janúar 1976 sagðist Kristján hafa farið ásamt öðrum um borð í fyrrnefndan bát í ferðinni til Keflavíkur. Siglt hafi verið út á sjó, en á bátnum hafi verið Sævar, Einar, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og að minnsta kosti einn maður enn. Þann mann kvaðst Kristján þekkja á ljósmynd, sem honum var sýnd af Geirfinni. Í landi hafi orðið eftir Erla, Valdimar Olsen og líklega einn nafngreindur maður enn. Siglt hafi verið á aðra klukkustund að dufli, þar sem áfengi hafi verið tekið um borð í bátinn, og haldið síðan aftur að landi. Kristján kvað átök hafa orðið í þessari för milli Geirfinns annars vegar og Einars, Sigurbjörns og Magnúsar hins vegar. Sagðist Kristján hafa blandað sér eitthvað í átökin Geirfinni til hjálpar, en Einar hafi ýtt sér til hliðar. Geirfinnur hafi verið sleginn í höfuðið og legið hreyfingarlaus á þilfarinu eftir átökin. Þegar komið hafi verið í land hafi áfengið verið sett í sendibifreið ásamt líki Geirfinns, sem búið var að búa um í plasti. Síðan hafi verið ekið með viðkomu í Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem förinni hafi lokið sennilega við Klúbbinn, en þaðan kvaðst Kristján hafa farið strax að Laugavegi 32.
Við skýrslugjöf hjá lögreglunni 10. febrúar 1976 munu Kristjáni hafa verið sýndar 16 ljósmyndir af mönnum. Af myndunum þekkti hann Valdimar, Einar, Sigurbjörn, Geirfinn og einn mann enn, sem hann nafngreindi. Sagði hann þessa menn alla hafa tengst áðurgreindri ferð til Keflavíkur og bátsferð þaðan.
Kristján gaf skýrslu hjá lögreglunni 2. mars 1976, þar sem hann lýsti yfir að hann hafi farið með algerlega rangt mál í fyrri skýrslum sínum. Hann hafi aldrei farið þá ferð til Keflavíkur, sem hann hafi áður lýst, eða í bátsferð þaðan. Hann hafi ekki tekið þátt í flutningi áfengis eða orðið sjónarvottur að átökum tengdum hvarfi Geirfinns. Kristján kvaðst lítið geta sagt til skýringar á fyrri skýrslum sínum. Þegar hann hafi verið spurður um hvarf Geirfinns og hvort hann hafi farið til Keflavíkur hafi hann verið miður sín eftir umfjöllun um hvarf Guðmundar Einarssonar, sem hafi fengið mjög á sig. Hann hafi því hreinlega búið til alla söguna um ferðina til Keflavíkur og staðhætti þar, en þessu hafi hann lýst sjálfstætt. Hann gæti ekki gert frekari grein fyrir hvötum, sem hafi búið að baki rangri upplýsingagjöf sinni.
Við skýrslugjöf hjá lögreglunni 9. mars 1976 sagðist Kristján hafa hugsað mjög um málið frá því hann gaf síðast skýrslu og komist að þeirri niðurstöðu að hún væri ekki rétt. Ýmislegt hafi rifjast upp eftir að honum hafi verið sagt að Erla hafi borið að hann hafi komið upp í bifreið við Vatnsstíg um kvöldið, sem farið var til Keflavíkur. Kvaðst Kristján muna greinilega eftir að hafa sest í aftursæti lítillar og þröngrar bifreiðar, sem hafi staðið á Vatnsstíg milli Laugavegar og Hverfisgötu. Sævar hafi setið þar í framsæti og Erla í aftursæti, en undir stýri hafi verið maður, sem honum fannst hann kannast við en vildi ekki fullyrða hver væri. Hafi verið ekið frá Reykjavík og ferðin endað við dráttarbraut, sem hann kvaðst vera viss um að væri í Keflavík, en dráttarbrautina þar hafi hann þekkt þegar farið hafi verið með hann þangað öðru sinni í myrkri. Kristján kvaðst hafa farið út úr bifreiðinni við dráttarbrautina ásamt Sævari og ökumanninum, en fleiri menn hafi verið þar fyrir. Hann sagðist muna mjög óljóst eftir atburðum við dráttarbrautina, en ekkert eftir bátsferð eða hverjir hafi aðrir verið þar á staðnum. Við dráttarbrautina hafi honum verið sagt að bíða við bát, sem hann hafi gert og séð þaðan til mannaferða á svæðinu. Kristján sagðist ekki muna eftir því með hverjum hann hafi farið aftur til Reykjavíkur. Hann kvaðst vera viss um að það, sem hafi gerst við dráttarbrautina, hafi varðað við lög.
Í lögregluskýrslu 18. mars 1976, sem Kristján var sagður gefa að eigin ósk, lýsti hann því að sér fyndist að Valdimar, Einar og Sigurbjörn hafi verið staddir við dráttarbrautina í áðurnefnt sinn. Hann kvaðst einnig minnast þess að einhver varningur hafi verið settur þar í bifreiðina, sem hann hafi farið með aftur til Reykjavíkur, en ekki hafi það verið lík.
Á dómþingi 31. mars 1976 greindi Kristján í meginatriðum eins frá atvikum og í fyrrnefndum lögregluskýrslum 9. og 18. sama mánaðar. Hann kvað skýrslur sínar 23. og 27. janúar og 10. febrúar sama árs ekki hafa verið sannleikanum samkvæmar. Hann hafi skáldað þær upp til að fá frið fyrir fangavörðum og lögreglumönnum, en hann hafi verið orðinn slæmur á taugum vegna stöðugra yfirheyrslna og máls út af hvarfi Guðmundar Einarssonar.
Í skýrslu fyrir dómi 1. apríl 1976 bætti Kristján við fyrri skýrslu frásögn af því að hann hafi séð einhverja menn slá annan mann við dráttarbrautina umrætt sinn. Sá hafi verið orðinn alblóðugur í framan og máttfarinn. Kvaðst Kristján hafa spurt um ástæðu fyrir barsmíðunum og verið sagt að skipta sér ekki af því. Maðurinn hafi reynt að komast frá hinum mönnunum. Honum hafi verið sagt að grípa manninn, sem hafi náðst ofan við fjöruna. Maðurinn hafi verið dökkhærður og milli þrítugs og fertugs.
Í dómi sakadóms er greint frá því að Kristján hafi á dómþingi verið samprófaður við Einar og Valdimar 6. og 8. apríl 1976. Mun Kristján hafa þar haldið fast við fyrri framburð sinn varðandi þá tvo. Á dómþingi síðargreinda daginn upplýsti Kristján jafnframt að hann minntist þess að við dráttarbrautina hafi hann verið að flytja í mörgum ferðum varning í stóra sendibifreið.
Kristján gaf skýrslu hjá lögreglunni 20. apríl 1976. Þar sagði hann að rifjast hafi upp fyrir sér að Sævar hafi eitt sinn hringt um miðjan dag til sín á Laugaveg 32 og spurt hvort hann vildi koma með í leiðangur í tengslum við flutning á spíra. Sævar hafi nefnt háa peningaupphæð í því sambandi. Kvaðst Kristján hafa fengið umhugsunarfrest, en svarað játandi þegar Sævar hafi hringt aftur það kvöld. Sævar hafi þá verið staddur í söluturni rétt við Laugaveg 32 og beðið sig um að koma út að bifreið við Vatnsstíg. Í bifreiðinni eða við hana hafi verið Sævar, Erla og Einar. Sævar hafi vikið frá stutta stund til að tala við einhvern, en síðan hafi þau haldið í bifreiðinni norður Vatnsstíg og stöðvað rétt við Skúlagötu samkvæmt fyrirsögn Sævars. Kvaðst Kristján hafa farið þar út úr bifreiðinni með Sævari og Einari og gengið þar að annarri bifreið, sem hafi verið blá að lit og eins konar sendibifreið. Tveir menn hafi staðið utan við bifreiðina, en nokkrir til viðbótar setið í húsi hennar. Hafi þeir allir ræðst eitthvað við. Eftir þetta hafi þeir þrír farið aftur í bifreiðina og ekið í burtu. Sagðist Kristján ekki muna næst eftir atvikum fyrr en hann hafi staðið við dráttarbrautina í Keflavík. Þar hafi tveir menn, sem hann þekkti ekki, rætt um hvort þörf væri á honum í bátsferð, en niðurstaðan orðið sú að hann ætti að standa skammt frá báti í dráttarbrautinni og stöðva þá, sem kynnu að fara þar um. Eftir um tveggja stunda bið hafi hann séð menn á hlaupum. Hópur manna hafi þá slegið hring um einn mann, sem hafi verið skelfdur á svip og blóðugur í framan. Kristján kvaðst hafa spurt hvað væri að gerast, en verið sagt að skipta sér ekki af því. Nokkru eftir þetta hafi hann verið fenginn til að bera varning inn í bifreið, en meðal annarra hafi verið þar að verki Einar og Valdimar. Þegar því verki var lokið hafi hann séð manninn, sem hring hafði áður verið slegið um, liggjandi á jörðinni. Sagðist Kristján hafa verið leiddur í burtu eftir orðaskipti við mann, sem þar hafi verið staddur. Auk þeirra, sem nafngreindir eru hér að framan, sagðist Kristján hafa séð Sigurbjörn við dráttarbrautina umrætt sinn.
Á dómþingi 28. apríl 1976 greindi Kristján frá því, sem hann hafi rifjað upp frá því hann gaf skýrslu síðast fyrir dómi. Var frásögn hans lýst svo að hún hafi verið í góðu samræmi við lögregluskýrsluna 20. sama mánaðar.
Lögreglan tók skýrslu af Kristjáni 7. maí 1976 og sagði þar að það væri gert að ósk hans. Hann kvaðst muna greinilega eftir því að hafa komið að sendibifreið með Sævari á Vatnsstíg við Skúlagötu. Þá minntist hann nokkuð ferðarinnar til Keflavíkur, þar á meðal að leiðinlegt andrúmsloft hafi verið í bifreiðinni og engar samræður nema í litlum mæli milli Sævars og ökumannsins. Kristján sagði að sér fyndist hann hafa heyrt skothvell, þar sem hann hafi staðið við bát í dráttarbrautinni. Þegar hann hafi síðan komið að mönnunum, sem hafi slegið hring um blóðugan mann, hafi hann séð andlit eins þeirra og taldi sig fullvissan um hver sá maður væri. Á þessum stað hafi jafnframt komið til hans maður, sem hann og Sævar hefðu rætt við hjá sendibifreiðinni á Vatnsstíg. Maðurinn hafi virst stjórna hinum. Kristján lýsti honum svo að hann væri mjög suðrænn í útliti, en þó væri hann örugglega Íslendingur. Kvað Kristján þennan mann hafa skipað sér að fara að bifreiðinni og neitað bón sinni um peningagreiðslu vegna ferðarinnar. Nokkru eftir þetta hafi hann komið að þremur mönnum, sem hafi bograð yfir blóðuga manninum. Sá hafi legið á grúfu og mennirnir þrír lamið hann og sparkað í hann, auk þess að skorið hafi verið í föt hans með lagvopni. Kvaðst Kristján hafa rifist við mennina þrjá og hafi einn þeirra, sem hann lýsti nánar, ætlað að ráðast á sig þegar Sævar hafi komið að þeim. Hann hafi þá orðið við bón Sævars um að fara að bifreiðinni, en skömmu síðar hafi þeir haldið til Reykjavíkur.
Í dómi sakadóms greinir frá því að lögreglan hafi tekið skýrslu af Guðjóni 14. maí 1976. Kristjáni hafi verið gert kleift að sjá Guðjón við það tækifæri og hafi síðan verið inntur eftir því hvort hann kannaðist við hann. Kristján hafi þegar í stað sagst þekkja Guðjón. Hann væri fullviss um að þetta væri maðurinn með suðræna útlitið, sem hann hafi áður getið um. Í lögregluskýrslu 15. sama mánaðar ítrekaði Kristján að hann bæri þessi kennsl á Guðjón. Í skýrslunni sagði Kristján síðan frá atvikum með líkum hætti og í fyrrgreindri skýrslu 7. maí 1976. Þá segir í dómi sakadóms frá því að Kristján hafi gefið skýrslur hjá lögreglunni 16. og 18. maí 1976. Í fyrra skiptið hafi hann sagst vera viss um að annar maður en Guðjón, sem hann hafi einnig séð í viðtali hjá lögreglunni 14. sama mánaðar, hafi verið meðal mannanna í sendibifreiðinni, sem hann og Sævar hafi komið að við Vatnsstíg. Í seinna skiptið hafi hann nafngreint enn annan mann, sem hafi verið í sömu bifreið, og sagst hafa verið til sjós með þeim manni einhverjum árum áður.
Í viðtölum við lögregluna 19. og 30. ágúst 1976 munu hafa verið lagðar myndir fyrir Kristján af ýmsum gerðum sendibifreiða og hann inntur eftir því hvort þær líktust bifreiðinni, sem hann hafi áður greint frá. Mun ekkert nýtt hafa komið þá fram.
Samkvæmt lögregluskýrslu 6. september 1976 var farið með Kristján þann dag á Vatnsstíg og hann beðinn um að skýra frá vitneskju sinni um undirbúning ferðar til Keflavíkur 19. nóvember 1974. Skýrði þá Kristján aftur frá símtali, sem hann hafi átt við Sævar eftir hádegi þann dag, en þar hafi Sævar boðið honum að eiga hlut að áfengismáli, sem gæti gefið af sér mikið fé. Kvaðst Kristján hafa spurt Sævar hvort Páll Konráð Konráðsson, sem hafi verið staddur hjá sér, mætti koma með, en Sævar hafi neitað því. Hafi hann þá ekki viljað taka þátt í þessu, en Sævar sagst mundu hringja aftur til að hann gæti hugsað frekar um þetta. Um kl. 20 það kvöld hafi Sævar síðan hringt, hann hafi lýst sig fúsan til ferðarinnar og Sævar þá sagt honum að koma strax. Kristján sagði Sævar hafa verið á fólksbifreið, sem hafi verið lagt hægra megin á Vatnsstíg, en á móti henni hafi staðið sendibifreið. Í henni hafi verið nokkrir menn, sem Kristján sagðist ekki hafa þekkt, en þar hafi þó verið maður, sem hann taldi líkan fyrrum samstarfsmanni sínum til sjós. Frá Vatnsstíg hafi verið ekið til Keflavíkur. Sendibifreiðin hafi farið á undan, en Kristján kvaðst hafa verið í rauðri fólksbifreið með Sævari, Erlu og ókunnum ökumanni, sem hafi litið út eins og útlendingur. Þegar komið hafi verið til Keflavíkur hafi Sævar látið stöðva bifreiðina við kaffistofu og beðið hann um að hringja þaðan í ókunnan mann. Sagðist Kristján ekki hafa getað lagt símanúmerið á minnið og hafi Sævar því skrifað það á miða ásamt nafni mannsins, sem hafi verið erfitt og óvenjulegt. Nafnið gæti hafa verið Geirfinnur. Sævar hafi lagt fyrir hann að segja aðeins ákveðin orð, sem maðurinn átti að skilja undir eins. Kristján kvaðst hafa hringt í manninn, en orðaskipta þeirra minntist hann ekki. Þegar komið hafi verið að dráttarbrautinni hafi hann farið út úr bifreiðinni með Sævari og ókunna ökumanninum, en hann hafi þá séð trillu skammt frá bryggju. Þeir hafi rætt þar við útlendingslegan mann, sem hann hafi séð við sendibifreiðina á Vatnsstíg, og þrekinn lágvaxinn mann. Orðaskipti þeirra hafi snúist um hvort hann ætti að fara út með trillunni, en niðurstaðan hafi orðið sú að hann ætti að bíða þar til hans yrði þörf á tilteknum stað skammt frá. Kristján sagðist ekki hafa séð átök við dráttarbrautina, en hann hafi hins vegar komið að þremur mönnum, sem hafi staðið yfir liggjandi manni. Honum hafi verið sagt að fara í burtu og vissi hann ekki hvað hafi orðið um þann mann. Aðspurður nánar um síðastgreint atriði sagði Kristján frásögn sína á fyrri stigum hafa verið ranga, þegar hann kvaðst hafa séð lík þessa manns í plastumbúðum og flutning þess í sendibifreið. Hann hafi sagt þetta því að fangaverðir með barefli hafi komið inn í klefa til sín og viljað umfram allt fá hann til að staðfesta að hann þekkti Magnús Leópoldsson. Um heimferðina frá Keflavík sagði Kristján að Erla hafi ekki verið með sér í bifreið. Á leiðinni hafi hann deilt við Sævar um hvort hann ætti að fá greiðslu fyrir ferðina, en þegar komið hafi verið til Reykjavíkur hafi honum verið ekið að leigubifreið og hafi hann farið heim í henni.
Í dómi sakadóms er greint frá því að lögreglan hafi farið með Kristján til Keflavíkur 7. september 1976 í tilefni af frásögn hans um símtal frá kaffistofu þar. Segir að Kristján hafi talið sig kannast við hús í námunda við Hafnarbúðina, en við það hafi bifreið Geirfinns fundist. Þá hafi Kristján talið Hafnarbúðina vera staðinn, sem hann hafi hringt frá, enda hafi allir staðhættir þar komið honum kunnuglega fyrir sjónir. Segir jafnframt að í Hafnarbúðinni hafi Kristján greint aftur frá símtalinu og lýst því í meginatriðum á sama veg og í lögregluskýrslu 6. september 1976. Hann hafi þó talið hinn ókunna ökumann bifreiðarinnar hafa ritað nafn og símanúmer á miða frekar en Sævar. Hann hafi einnig minnst þess að barn hafi svarað í símann og kallað á föður sinn eftir að spurt hafi verið um hann.
Í skýrslu hjá lögreglunni 20. október 1976 kvaðst Kristján minnast þess að hafa verið beðinn um að hringja í Geirfinn þegar hann, Sævar, Erla og ókunni ökumaðurinn hafi verið stödd við Hafnarbúðina í Keflavík. Hann hafi átt erfitt með að leggja nafn Geirfinns og símanúmer á minnið og hafi ökumaðurinn skrifað þessar upplýsingar á miða eftir fyrirsögn Sævars. Hann hafi aðeins átt að segja Geirfinni að þeir væru komnir. Þegar hann hafi borið þessi boð hafi Geirfinnur spurt hvort Maggi væri staddur þarna, en hann hafi þá svarað að það væri enginn þar, hann væri einn. Geirfinnur hafi spurt hann að nafni, en hann svarað að það skipti engu og lagt símann á. Hann hafi farið aftur í bifreiðina og verið spurður þar um samtalið við Geirfinn, en ökumaðurinn hafi sýnt þessu áhuga og farið svo sjálfur inn í Hafnarbúðina, að Kristján taldi til að hringja. Kristján sagðist hafa á tilfinningunni að einhver hafi komið upp í bifreiðina við Hafnarbúðina eða nálægt henni. Þessi maður hafi komið í bifreið og stöðvað skammt frá þeim á eins konar malarplani, en síðan orðið samferða þeim að dráttarbrautinni. Kristján kvaðst ekki hafa séð vel vegna myrkurs og þess að hann hafi verið undir áhrifum lyfja.
Í dómi sakadóms segir frá því að sama dag og síðastnefnd skýrsla var tekin hafi Kristján óskað eftir viðtali við lögreglumann. Hann hafi þá skýrt frá því að hann hafi verið staddur uppi á hæð á svæði dráttarbrautarinnar í Keflavík umrætt kvöld þegar komið hafi að honum maður, sem hafi verið Geirfinnur. Eftir stutt orðaskipti hafi Geirfinnur virst ætla að slá til hans í reiði og gengið eitt skref aftur á bak, en dottið þá aftur fyrir sig. Kristján hafi gengið að Geirfinni, þar sem hann hafi legið meðvitundarlaus ekki langt frá sjónum. Tveir menn hafi þegar verið komnir að Geirfinni og fjórir eða fimm síðan bæst við. Guðjón hafi einnig verið þar. Þeir hafi deilt við sig og hann farið í burtu með Sævari. Kristján hafi ennfremur minnst þess að þegar Geirfinnur kom í upphafi að bifreið þeirra hafi hann sest í aftursæti hennar hjá sér og Erlu. Í dóminum segir að eftir þetta viðtal hafi verið farið með Kristján til Keflavíkur, þar sem hann hafi verið beðinn um að benda nákvæmlega á vettvang þessara atvika. Þar hafi lögreglumönnum virst Kristján annaðhvort ekki geta bent eða ekki vilja benda á nákvæman stað, en eftir nokkra stund hafi hann vísað á stað, þar sem hann taldi atburðina hafa getað gerst.
Í lögregluskýrslu 21. október 1976 skýrði Kristján frá atvikum eftir komuna á svæði dráttarbrautarinnar með líkum hætti og í síðustu skýrslum sínum allt til þess atburðar að lagt hafi verið fyrir hann að bíða þar á tilteknum stað. Hann kvaðst hafa haldið þar kyrru fyrir í eina eða hálfa aðra klukkustund, en þá verið sagt að fara að bifreiðinni, sem hann hafi komið með. Á leið þangað hafi hann gengið upp á hamar. Þangað hafi síðan komið Geirfinnur, klæddur í dökka úlpu. Geirfinnur hafi verið mjög æstur og gengið ógnandi að honum. Kristján kvaðst hafa vikið sér undan, en Geirfinnur hafi þá fallið fram af hamarsbrúninni. Þegar hann hafi komið að Geirfinni neðan við hamarinn hafi tveir menn þegar verið þar og hafi síðan bæst við fjórir eða fimm menn, sjóklæddir og blautir, auk Sævars og útlendingslega mannsins. Kristján kvað Sævar hafa síðan fylgt sér að bifreiðinni, þar sem þeir hafi beðið um stund. Ökumaðurinn hafi svo komið og þeir farið til Reykjavíkur, þar sem hann hafi farið úr bifreiðinni við Laugarásveg. Hann sagðist ekki vita um afdrif Geirfinns eftir að hann fór af vettvangi. Hann kvaðst engan hafa þekkt við dráttarbrautina nema Sævar og Erlu.
Í lögregluskýrslu 1. nóvember 1976 greindi frá upplýsingum Kristjáns um símtöl milli hans og Sævars 19. nóvember 1974 og næstu daga þar á undan, hvort Sævar hafi vitjað hans að Laugavegi 32 að kvöldi nefnds dags og hvernig hann kunni að hafa þá verið klæddur. Sagði þar einnig frá komu Kristjáns að bifreiðinni við Vatnsstíg og ökuleið og ökuhraða hennar frá Reykjavík, svo og upplýsingum hans um að komið hafi verið við hjá heimili Valdimars Olsen, þar sem Sævar hafi farið inn. Þá sagði þar frá því hvernig Kristján hafi greint frá komu Geirfinns að bifreiðinni og orðaskiptum í kjölfarið. Í skýrslunni var jafnframt greint frá svörum Kristjáns við spurningum um ýmis atriði, sem hafi verið lagðar fyrir hann í tilefni af skýrslu Sævars 28. október 1976.
Kristján gaf skýrslu hjá lögreglunni 3. nóvember 1976. Þar kvað hann Sævar hafa hringt til sín milli kl. 15 og 16 hinn 19. nóvember 1976 og svo aftur milli kl. 20 og 21, en í það skipti hafi Sævar sagt honum að koma út í bifreið, sem stæði við Vatnsstíg. Taldi Kristján þá bifreið hafa verið nýlega og af gerðinni Moskvitch, en ökumaðurinn hafi verið sér ókunnur. Á leið til Keflavíkur hafi Sævar rætt mikið við ökumanninn, en hann hafi ekki heyrt samræður þeirra. Kristján skýrði á sama veg og fyrr frá komu þeirra að Hafnarbúðinni, símhringingu til Geirfinns, komu Geirfinns að bifreiðinni og ferðinni að dráttarbrautinni. Þar hafi hann stigið út úr bifreiðinni með Sævari, ökumanninum og Geirfinni, en Erla orðið eftir í henni. Hann taldi aðra bifreið hafa verið þar á staðnum. Guðjón hafi komið til þeirra og rætt við ökumanninn, en síðan spurt þá Sævar hvort þeir hefðu verið til sjós. All löngu eftir þetta hafi hann orðið var við rifrildi og átök milli Sævars og Geirfinns, sem hafi virst byrja úti í bát við bryggju og berast síðan í land. Kristján kvaðst hafa séð til Sævars, sem hafi haldið á um 80 cm löngum planka. Hann taldi sig hafa tekið þátt í átökunum, en gat ekki gert sér grein fyrir hvort hann hafi slegið til Geirfinns eða hvort aðrir hafi verið þar staddir. Þegar hann hafi farið af staðnum hafi Geirfinnur legið á jörðinni og menn staðið þar í kring. Kristján kvaðst ekki vita hverjir hafi fjarlægt Geirfinn, en sjálfur hafi hann ekki komið þar nærri. Hann sagði Sævar hafa fáeinum dögum síðar sýnt sér í kjallaranum að Grettisgötu 82 stóran böggul í plastumbúðum, sem hafi verið lík Geirfinns. Sævar hafi sagt að flytja ætti líkið, en hann hafi neitað að taka þátt í því. Bifreið hafi beðið eftir Sævari gegnt húsinu og hafi aðstoð fengist þaðan til að flytja líkið. Um afdrif líksins eftir þetta sagðist Kristján ekkert vita. Hann sagðist ekki muna eftir að hafa verið í Klúbbnum að kvöldi 17. nóvember 1974, en fullyrti að hann hafi aldrei rætt við Geirfinn fyrr en í símtali 19. sama mánaðar.
Í viðtali við lögreglumann 5. nóvember 1976 mun Kristján hafa sagst minnast þess að hafa verið í Klúbbnum með Sævari um helgi fyrir ferðina til Keflavíkur 19. nóvember 1974. Að beiðni Sævars hafi hann farið til manns, sem hafi staðið skammt frá stiga, og spurt hvort hann vildi kaupa spíra. Maðurinn hafi virst verða mjög undrandi og hafi Kristján þá slitið samtalinu. Taldi hann þennan mann geta hafa verið Geirfinn.
Lögreglan tók skýrslu af Kristjáni 9. og 10. nóvember 1976. Þar skýrði Kristján frá því að Sævar hafi komið að Laugavegi 32 þann 20. nóvember 1974 og fengið hann til samtals úti í bifreið. Hafi þetta verið sama bifreið og farið var í til Keflavíkur kvöldið áður og ökumaðurinn einnig sá sami. Eftir samtal í bifreiðinni hafi hann ætlað að fá þaðan leðurfrakka, sem hann hafi gleymt þar kvöldið áður, en í misgripum hafi hann fengið kápu Erlu. Um afdrif kápunnar sagðist Kristján ekki vita. Þá skýrði Kristján frá því að nokkrum dögum fyrir ferðina til Keflavíkur hafi Sævar rætt við sig í síma og sagt að maður kæmi til hans í bifreið, en með þeim manni ætti hann að fara heim til Sævars. Maðurinn hafi komið á Mercedes Benz fólksbifreið fyrri hluta kvölds og sagst vera mágur Sævars, en þó ekki bróðir Erlu. Kristján sagðist hafa vísað manninum leiðina heim til Sævars og veitt upplýsingar um dyrabjöllu, sem þar ætti að hringja á. Maðurinn hafi farið þeirra erinda og síðan komið aftur að bifreiðinni. Sævar hafi komið út skömmu síðar með Erlu og maðurinn spurt út um glugga bifreiðarinnar hvort hann væri Sævar. Kristján sagðist hafa talið þessa spurningu undarlega, þar sem hann hafi haldið að maðurinn og Sævar þekktust. Síðan hafi verið ekið að Klúbbnum, þar sem maðurinn hafi farið inn. Eftir um stundarfjórðung hafi maðurinn komið aftur. Hafi þá verið ljóst að ráðagerðir væru breyttar og kvaðst Kristján þá hafa farið út úr bifreiðinni. Í skýrslunni sagði Kristján það vera rétt að Sævar hafi spurt í símtali hvort hann gæti selt spíra og gefið honum upp nafn og símanúmer Guðjóns, sem hann hafi skrifað hjá sér. Hann hafi látið einhvern fá miðann að Laugavegi 32 með þeim orðum að hægt væri að kaupa spíra hjá þessum manni. Hann hafi síðan fengið til baka annan miða með símanúmeri manns í Keflavík, sem vildi kaupa spíra. Þennan miða hafi hann látið Sævar fá. Í skýrslunni kvaðst Kristján vera viss um að Guðjón hafi ekki ekið bifreiðinni, sem hann fór með til Keflavíkur, heldur hafi Guðjón ekið sendibifreið, sem hann hafi séð við Vatnsstíg og síðar við dráttarbrautina. Þá kvað hann það geta verið að Sævar hafi spurt eftir sér við dyrnar að Laugavegi 32 og Páll Konráð Konráðsson svarað þar, en hann hafi þó gengið einn að bifreiðinni við Vatnsstíg. Á leið til Keflavíkur hafi Sævar og ökumaðurinn rætt um einhvern, sem væri til vandræða. Kristján sagðist ekki hafa tekið þátt í þeim samræðum, því að hann hafi sofið mestan hluta leiðarinnar. Hann kvaðst sem fyrr hafa hringt til Geirfinns frá Hafnarbúðinni, en ekki minntist hann símanúmersins. Þegar Geirfinnur hafi komið að bifreiðinni hafi hann opnað afturhurð hægra megin og Geirfinnur sest þar við hlið hans. Ekið hafi verið beint að dráttarbrautinni. Kristján minntist þess ekki að hafa séð þar sendibifreið, en Guðjón, sem hann taldi hafa ekið henni, hafi hins vegar verið staddur þar. Þá kvaðst hann vera næstum fullviss um að Sigurbjörn hafi einnig verið þar. Kristján sagðist hafa komið að rifrildi milli Geirfinns annars vegar og hins vegar Sævars, Guðjóns, ökumannsins og þess, sem hann taldi vera Sigurbjörn. Hafi hann blandað sér í deiluna og Geirfinnur virst ætla að fara. Hann hafi gengið í veg Geirfinns, sem hafi gert sig líklegan til að ráðast á hann. Hafi hann þá slegið Geirfinn með hnefa og það hafi Sævar einnig gert. Geirfinnur hafi verið tekinn haustaki, sem hann hafi losnað úr. Sagðist Kristján hafa þessu næst slegið Geirfinn allfast í öxlina með planka, en við það hafi Geirfinnur fallið. Hann hafi kastað frá sér plankanum, sem Guðjón hafi tekið upp og notað til að slá Geirfinn. Kristján kannaðist ekki við að komið hafi verið við nokkurs staðar í Keflavík á leið frá dráttarbrautinni og minntist heldur ekki þess að leitað hafi verið þar að Erlu. Kápa hennar og taska hafi þó verið í bifreiðinni, sem hann minntist að hafi verið rauð að lit en af óvissri gerð. Kristján sagði að sér hafi verið skipað að fara úr bifreiðinni við Laugarásveg í Reykjavík, en skömmu síðar hafi sendibifreiðin, sem hafi verið í Keflavík, komið að honum. Hann hafi farið inn í bifreiðina að aftanverðu. Þar hafi tveir menn verið auk Geirfinns, sem hafi legið á gólfinu látinn eða meðvitundarlaus. Annar mannanna hafi haldið á skammbyssu og sagst ætla að skjóta Geirfinn. Kristján kvaðst þá hafa óskað eftir að fara úr bifreiðinni. Hann hafi komið aftur inn í hana eftir stutta stund og fundið þá púðurlykt. Ekið hafi verið þessu næst að Grettisgötu 82, þar sem sendibifreiðinni hafi verið lagt við garðhlið. Lík Geirfinns hafi verið borið þar inn í kjallarann og svart plast sett utan um það. Kristján kvaðst ekki minnast þess að hafa borið líkið, en hann hafi hins vegar borið inn í húsið nokkra stóra plastbrúsa, sem spíri hafi verið í. Sagðist Kristján hafa farið eftir þetta í herbergi sitt með Sævari, Guðjóni, ökumanni bifreiðarinnar og manni úr sendibifreiðinni. Þar hafi verið rætt um hvað gera ætti við líkið. Þremur dögum síðar hafi Sævar og Guðjón flutt líkið til í kjallaranum að Grettisgötu 82, en Kristján kvaðst ekki vita hvað hafi orðið um líkið eftir það.
Í dómi sakadóms er greint frá því að lögreglumenn hafi farið með Kristján til Keflavíkur 15. nóvember 1976 í tilefni af því að hann hafi upplýst að ökumaður bifreiðarinnar hafi komið þar við í húsi á heimleið aðfaranótt 20. nóvember 1974. Hafi Kristján talið sig þekkja aftur húsið við Holtsgötu í Njarðvík, en þetta hafi ekki leitt til frekari aðgerða en athugana á íbúaskrám. Þá segir einnig frá því að farið hafi verið með Kristján á Álftanes 17. nóvember 1976 vegna frásagnar Sævars um að lík Geirfinns væri grafið þar. Kristján hafi bent þar á vesturjaðar Gálgahrauns og sagst hafa farið þangað með líkið ásamt Sævari og Erlu. Greinir frá lýsingu Kristjáns á því hvernig líkið hafi verið grafið, en á nákvæman stað hafi hann ekki getað vísað. Í dóminum er jafnframt greint frá viðtali lögreglumanna við Kristján 26. nóvember 1976, þar sem hann hafi sagt frá samtali við Sævar skömmu eftir atvikin í nóvember 1974. Hafi Sævar þá sagt að flytja yrði líkið á annan stað, en Kristján hafi neitað að taka þátt í því. Auk þessa segir í dóminum frá sakbendingu, sem lögreglan hafi efnt til 30. nóvember 1976, en þar hafi Kristján bent á Guðjón í hópi 8 manna sem þann, sem hann hafi rætt um í skýrslum sínum. Sama dag hafi Kristján og Guðjón einnig verið samprófaðir af lögreglunni. Kristján hafi þar haldið fast við fyrri framburð sinn, en hann hafi ítrekað verið spurður hvort frásögn sín væri rétt. Í viðtali við lögreglumann 3. desember 1976 mun Kristján hins vegar hafa horfið frá frásögn sinni um að Guðjón hafi verið í sendibifreið við Vatnsstíg að kvöldi 19. nóvember 1974. Kristján mun þá hafa borið að nafngreindur leigubifreiðarstjóri hafi ekið sendibifreiðinni, auk þess að greina frá nöfnum tveggja annarra manna, sem hafi átt hlut að atburðunum við dráttarbrautina umrætt kvöld.
Í lögregluskýrslu 14. desember 1976 greindi Kristján frá því að hann héldi að Sævar hafi hringt til sín 18. nóvember 1974 og beðið sig um að útvega sendibifreið til að sækja spíra í Keflavík daginn eftir. Að kvöldi þess 19. hafi hann hringt í Sigurð Óttar Hreinsson og beðið hann um að hitta sig við dráttarbrautina í Keflavík. Þegar lagt var af stað frá Vatnsstíg þá um kvöldið hafi Sigurður verið þar með gula Mercedes Benz sendibifreið, sem hann hafi stundum fengið að láni. Þar hafi þeir eitthvað ræðst við og Sigurður sagst ekki vera viss um hvort hann kæmist til Keflavíkur, því að eitthvað annað þyrfti hann að gera fyrst. Kristján kvað aðra sendibifreið hafa staðið við Vatnsstíg og hafi hún verið blá að lit. Sú bifreið hafi verið verið við dráttarbrautina þegar þangað var komið, þaðan hafi hún farið en komið þangað á ný. Á þessari bifreið kvaðst Kristján ekki vita nein deili. Hann sagðist ekkert hafa vitað frekar um ferðir Sigurðar fyrr en hann hafi komið að dráttarbrautinni í Keflavík, en þá hafi atburðirnir verið um garð gengnir. Kvaðst Kristján því strax hafa beint Sigurði í burtu.
Í viðtali við lögreglumenn 13. janúar 1977 mun Kristján hafa greint frá því að komið hafi verið við hjá söluturni í Keflavík, þar sem Sigurði hafi verið sagt hvert hann ætti að fara. Síðan hafi verið staðnæmst við annan söluturn, þar sem Sævar hafi ætlað að hringja en horfið frá vegna mannfjölda. Hafi því verið farið í Hafnarbúðina, þar sem Kristján hafi hringt. Geirfinnur hafi komið þangað í dökkri kuldaúlpu og dökkum buxum. Í bifreiðinni hafi Sævar rætt við Geirfinn um spíra. Sævar hafi afhent Geirfinni peningaseðla, en Geirfinnur orðið æstur og hent þeim í gólf bifreiðarinnar þegar komið hafi verið að dráttarbrautinni. Þar á staðnum hafi Kristján farið út úr bifreiðinni ásamt Sævari, Guðjóni og Geirfinni og hafi átök strax hafist. Blóð hafi verið á andliti Geirfinns þegar hann hafi verið settur aftur inn í bifreiðina. Í viðtalinu mun Kristján síðan hafa greint nokkuð ítarlega frá því hvernig hann hafi ásamt Sævari og Guðjóni komið líki Geirfinns fyrir í kjallaranum að Grettisgötu 82, hvernig hann hafi tekið þar veski og penna úr vasa Geirfinns og hvernig hann, Sævar og Erla hafi svo flutt líkið og grafið það í Rauðhólum. Frásögnin um síðastgreind atriði, sem höfð var eftir Kristjáni, var í meginatriðum á sama veg og í skýrslu hans á dómþingi 12. og 13. maí 1977.
Kristján gaf heildarskýrslu um atvik í þessum þætti málsins hjá lögreglunni 14. janúar 1977 og fyrir dómi 18. sama mánaðar. Var framburður hans þá í meginatriðum á sama veg og skýrsla hans fyrir dómi 12. og 13. maí 1977, sem vikið er að hér á eftir.
Í lögregluskýrslu 1. febrúar 1977 kvaðst Kristján hafa verið undir áhrifum lyfja að kvöldi 19. nóvember 1974, enda hafi hann tekið inn töflur stanslaust um nokkurra mánaða skeið þar á undan. Hann staðfesti að á leið til Keflavíkur hafi Sævar og Guðjón rætt um að sýna ætti einhverjum fulla hörku, en ekki hafi verið minnst á að láta neinn hverfa. Ekkert hafi heldur verið ákveðið fyrirfram um að drepa Geirfinn. Í skýrslunni lýsti Kristján í einstökum atriðum átökunum við Geirfinn. Eftir átökin hafi hann gengið að sendibifreið og rætt við Sigurð, en að loknu því samtali hafi Sævar sagt að Geirfinnur væri dáinn.
Í skýrslu fyrir dómi 12. og 13. maí 1977 kvaðst Kristján viðurkenna það atferli, sem honum væri gefið að sök í ákæru vegna þessa þáttar málsins. Hann greindi þannig frá atvikum að hann hafi verið staddur með Sævari í veitingahúsinu Klúbbnum að kvöldi 17. nóvember 1974. Þar hafi Sævar bent honum á mann, sem hann þekkti ekki en gæti hafa verið Geirfinnur, og ítrekað beðið hann um að spyrja manninn hvort hann vildi kaupa eða selja spíra. Kvaðst Kristján hafa látið þetta eftir Sævari. Maðurinn hafi svarað spurningunni neitandi, en hann þá sagst vera gera að gamni sínu og lokið samtalinu. Sagðist Kristján ekki hafa orðið var við að Sævar ræddi við manninn og hafi slíkt ekki borist í tal á milli þeirra. Rétt eftir hádegi 18. nóvember 1974 hafi Sævar hringt að Laugavegi 32 og beðið hann um að koma í leiðangur til að stela spíra suður með sjó. Sævar hafi þá einnig rætt um hvort hann gæti fengið Sigurð Óttar Hreinsson til að flytja spírann í sendibifreið, svo og hvort hann vissi um kaupendur að spíranum. Kristján kvaðst hafa rætt við Sigurð daginn eftir að Laugavegi 32. Hann hafi beðið Sigurð um að útvega sendibifreið það kvöld, en ekki sagt hvað flytja ætti. Hafi Sigurður átt að koma í sendibifreið á Vatnsstíg þá um kvöldið. Þetta kvöld hafi Sævar komið að Laugavegi 32 um kl. 20 og sagt honum að koma út í bifreið, sem biði við Vatnsstíg. Kristján sagði að Sævar hafi verið sestur inn í bifreiðina, sem hafi verið blá og af gerðinni Volkswagen, þegar hann hafi sjálfur komið þar út. Rétt á eftir hafi Sigurður komið á gulri frambyggðri sendibifreið af gerðinni Mercedes Benz og stöðvað þar rétt hjá. Kristján kvaðst hafa farið út úr bifreiðinni með Sævari og rætt við Sigurð, en um samtalið gæti hann ekki borið, því að hann hafi þá verið allmikið undir áhrifum lyfja. Þó minntist hann þess að Sævar hafi gefið Sigurði leiðbeiningar um hvert aka ætti og að Sigurður hafi sagst þurfa að ræða við eiganda bifreiðarinnar, hvort hann mætti fara á henni. Sigurður hafi ekið af stað, en þeir Sævar farið aftur inn í Volkswagen bifreiðina. Þar hafi Erla setið í aftursæti, en undir stýri ókunnur maður, sem Kristján hafði þekkt á mynd af Guðjóni. Ekið hafi verið að Framnesvegi 60 og eitthvað annað en síðan til Keflavíkur. Kristján sagðist hafa sofið á leiðinni þangað og ekki heyrt orðaskipti milli Sævars og Guðjóns. Þegar komið hafi verið til Keflavíkur hafi sést til sendibifreiðarinnar, þar sem hún hafi staðið við tiltekin gatnamót. Ekið hafi verið að sendibifreiðinni, þar sem Kristján kvaðst hafa farið út til að segja Sigurði að aka að dráttarbrautinni, sem Sigurður hafi ekki vitað hvar væri. Hafi hann þá sagt Sigurði eftir Sævari að hún væri innst í bænum og Sigurður ekið af stað. Þessu næst hafi þau ekið að Hafnarbúðinni og hafi klukkan þá verið um 22. Þar hafi þeir Sævar farið inn og þóst ekki þekkjast, en haldið svo aftur í bifreiðina og hafi þá verið ekið að dráttarbrautinni. Sagðist Kristján hafa farið þar út og rætt stuttlega við Sigurð, sem hafi verið kominn þangað í sendibifreiðinni. Síðan hafi verið ekið að söluturni við aðalgötuna í Keflavík, þar sem Sævar hafi farið út til að hringja. Sævar hafi komið til baka og sagst ekki hafa getað hringt vegna þess hversu margt fólk hafi verið þar. Hafi þá verið ekið aftur að Hafnarbúðinni, en þar hafi Guðjón skrifað nafn og símanúmer á bréfmiða. Sagðist Kristján halda að nafn Geirfinns hafi staðið á miðanum, en að minnsta kosti hafi það nafn verið nefnt áður en hann fór út úr bifreiðinni. Hann hafi farið inn í Hafnarbúðina og hringt til Geirfinns. Frásögn Kristjáns um efni samtalsins var á sama veg og í fyrrgreindri lögregluskýrslu 20. október 1976. Kristján kvaðst eftir símtalið hafa sest á ný í aftursæti bifreiðarinnar, en Guðjón hafi þá stigið út og haldið í átt að Hafnarbúðinni. Guðjón hafi síðan komið aftur og ekið bifreiðinni aðeins frá Hafnarbúðinni. Hafi verið beðið þar góða stund þar til Guðjón hafi vakið máls á að maður væri að koma. Kristján sagðist hafa séð mann koma gangandi, að hann minnti frá bifreið. Sævar hafi hleypt manninum inn í aftursæti bifreiðarinnar og hafi svo verið ekið af stað í átt að dráttarbrautinni. Hafi Sævar farið að ræða við manninn um efni, sem Kristján kvaðst ekki muna eftir, og rétt manninum síðan seðlabúnt. Eftir nokkra tregðu hafi maðurinn tekið við seðlunum, en fleygt þeim aftur frá sér fljótlega. Sagðist Kristján hafa verið hálfsofandi og hrokkið upp við þetta. Um líkt leyti hafi bifreiðin staðnæmst við dráttarbrautina og hafi þeir Sævar verið að deila við manninn. Hafi þeir allir farið þar út. Þegar þeir höfðu gengið þrjá eða fjóra metra frá bifreiðinni hafi maðurinn ætlað að fara í burtu. Sagðist Kristján þá hafa stöðvað manninn og krafið skýringa á þessu. Maðurinn hafi sagst ekkert hafa við þá að tala, en Guðjón hafi þá sagt að þeir skyldu taka manninn í gegn. Átök hafi þá hafist við manninn. Þau hafi farið fram með miklum ofsa og tekið svo skamman tíma að erfitt hafi verið að átta sig á rás atburða. Kristján sagðist hafa í byrjun greitt manninum hnefahögg, líklega í andlitið, en Sævar síðan slegið til mannsins, sem hafi kastað Sævari frá sér. Honum fyndist Guðjón einnig hafa blandað sér í átökin allt frá byrjun. Kristján kvaðst hafa þessu næst tekið manninn hálstaki aftan frá og hafi Sævar komið með spýtu, um metra að lengd, og slegið manninn í fætur, maga og bringu. Hafi hann síðan sleppt hálstakinu, Sævar hafi hlaupið frá og maðurinn komið í átt að sér. Kristján sagðist hafa þá tekið upp spýtu og veitt manninum högg með henni í bringuna. Maðurinn hafi fallið til jarðar og stunið af sársauka. Eftir það hafi hann bankað í manninn með spýtunni, bæði í bringu og kjálka. Um þátt Guðjóns í átökunum sagðist Kristján ekki vita nánar. Eftir þessi átök hafi honum ekki verið ljóst hvort maðurinn væri á lífi. Hann hafi beðið Sævar um að segja Erlu að fara í burtu, en að því gerðu hafi Sævar að ósk hans farið að gæta að manninum. Kristján kvaðst þá hafa gengið að sendibifreiðinni, þar sem Sigurður hafi verið sofandi. Hann hafi sagt Sigurði að fara, því að ekkert yrði úr flutningunum. Sigurður hafi brugðist reiður við og farið á brott. Hann hafi síðan gengið aftur að manninum, sem Sævar hafi þá sagt að væri látinn. Hafi hann séð áverka á gagnauga mannsins og kinn eða kjálka vinstra megin. Þeir hafi rætt um hvað gera ætti við manninn og borið síðan allir líkið inn í aftursæti bifreiðarinnar. Maðurinn hafi verið látinn sitja uppi hallandi að hliðarrúðu þar vinstra megin og einhver flík, sennilega kápa Erlu, sett yfir. Eftir þetta hafi þeir ekið um Keflavík í leit að Erlu, en svo til Reykjavíkur. Á leiðinni hafi verið rætt um hvar láta ætti líkið og hafi orðið úr að setja það í kjallarann að Grettisgötu 82, þar til unnt yrði að ákveða endanlega hvað gera skyldi. Líkið hafi fyrst verið sett á lágt borð í þvottahúsinu þar og grænt teppi sett yfir það. Ekki hafi verið hægt að læsa þvottahúsinu og hafi þeir því fært líkið yfir í læsta geymslu, þar sem þeir Guðjón hafi vafið um það svörtu plasti og bundið með snæri. Kristján kvaðst áður hafa tekið veski og blýant úr vasa mannsins. Í veskinu hafi verið 5.000 krónur, sem hann hafi eignað sér, en öðru hafi hann fleygt. Kristján sagðist hafa farið með Guðjóni og Sævari upp í herbergi sitt og hafi þeir verið þar um stund, en þeir síðarnefndu farið hvor í sínu lagi. Skömmu eftir að Sævar fór hafi Sigurður komið og leitað svara hans um hvað þeir hafi verið að gera í Keflavík, en hann hafi neitað að ræða um það. Sigurður hafi lagst til svefns, en Sævar komið aftur skömmu eftir það. Kvaðst Kristján hafa setið dottandi í sófa með Sævari til morguns, en þá hafi þeir gengið samferða út og leiðir skilið með þeim. Kristján sagði Sævar síðan hafa hringt til sín 21. nóvember 1974 og hafi þeir mælt sér mót á Grettisgötu 82. Hafi Sævar og Erla komið þangað á Land Rover bifreiðinni. Erla hafi beðið í herbergi hans, en þeir Sævar búið betur um líkið, sem hann hafi svo borið út í bifreiðina. Hafi verið ekið í Rauðhóla, þar sem þeir hafi grafið um 80 cm djúpa gryfju. Líkið hafi verið lagt þar ofan í, en þeir síðan reytt sinu, sem þeir hafi lagt ofan á það og kveikt í. Minntist Kristján þess ekki að bensín hafi verið notað í þessu skyni, en hann kvaðst þó hafa verið mjög drukkinn þegar þetta gerðist.
Kristján kom fyrir dóm 6. júlí 1977 til samprófunar við Erlu. Lýsti hann þá yfir að hann hafi ekki farið til Keflavíkur 19. nóvember 1974 og væri saklaus af því að eiga þátt í dauða Geirfinns. Þetta ítrekaði Kristján á dómþingi 27. september 1977, þar sem hann óskaði þó að breyta fyrrgreindri yfirlýsingu á þann veg, að hann hafi ekki átt þátt í hvarfi Geirfinns. Við sama tækifæri var bókuð eftir honum stutt frásögn um atburði kvöldsins 19. nóvember 1974, en þar greindi ekki frá neinum, sem borið gætu um ferðir hans.
II.3.E.
Guðjón Skarphéðinsson gaf fyrst skýrslu vegna málsins hjá lögreglunni 14. maí 1976. Þar sagðist hann hafa kennt Sævari Marinó Ciesielski í unglingaskóla skamman tíma árið 1970 eða 1971, en eftir það hafi þeir hist á ýmsum stöðum og Sævar heimsótt sig nokkrum sinnum. Kvað Guðjón þá hafa hist öðru hverju sumarið 1974, en ekki aftur fyrr en sumarið 1975, að undanteknu einu skipti, þegar Sævar og Erla Bolladóttir hafi heimsótt hann í október 1974 til að sýna Land Rover bifreið, sem þau hafi keypt. Upp úr samskiptum þeirra Sævars hafi svo slitnað í desember 1975. Guðjón minntist þess að hafa rætt einhverju sinni sumarið 1975 við Sævar um svokallað Geirfinnsmál. Hafi Sævar sagst vita allt um það mál, en ekki fengist til að segja neitt meira. Guðjón kannaðist ekki við að hafa verið staddur við sendibifreið á Vatnsstíg í Reykjavík í nóvember 1974. Hann kvaðst aðeins þekkja Erlu í sjón, en ekkert kannast við Kristján Viðar Viðarsson.
Guðjón var handtekinn 12. nóvember 1976 og tók lögreglan af honum tvær skýrslur þann dag. Þar kvaðst hann ekkert vita um hvarf Geirfinns Einarssonar umfram það, sem hann hafi lesið í dagblöðum. Hann væri fullviss um að hafa ekki verið í Keflavík 19. nóvember 1974. Hann væri einnig viss um að hafa ekki verið á Vatnsstíg, þar sem Sævar og Erla hafi sagst vera. Hann kvað það vera rangt að hann hafi átt símtal við Geirfinn eða sagt Sævari að þeir ættu stefnumót, enda hafi hann aldrei heyrt Geirfinns getið fyrr en hann las um málið í blöðum. Hann neitaði að hafa tekið þátt í samræðum um að sýna einhverjum fulla hörku og einnig því að hafa komið heim til Kristjáns eða vita um samtal, sem þar hafi farið fram aðfaranótt 20. nóvember 1974. Það væri lygi að hann hafi látið af hendi miða með nafni og símanúmeri Geirfinns eða átt hlut að átökum við dráttarbrautina í Keflavík, en fullvíst væri að þangað hafi hann aldrei komið. Guðjón kvaðst nýlega hafa verið búinn að kaupa íbúð í nóvember 1974 og hafi hann þá varið flestum kvöldum í vinnu við lagfæringar á henni. Taldi hann þetta meðal annars eiga við um kvöld 19. þess mánaðar. Þá sagði Guðjón með líkum hætti og í skýrslu 14. maí 1976 frá heimsókn Sævars og Erlu til sín, þegar þau hafi sýnt honum Land Rover bifreið, en taldi þetta geta hafa gerst að kvöldi 19. nóvember 1974.
Guðjón var leiddur fyrir dóm 12. nóvember 1976. Þar ítrekaði hann nokkur atriði, sem fram komu í lögregluskýrslum frá sama degi. Hinn 13. sama mánaðar var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi.
Í skýrslum hjá lögreglunni 15. nóvember 1976 og fyrir dómi 19. sama mánaðar neitaði Guðjón því að svokallað Geirfinnsmál hafi borist í tal milli sín og Sævars við tiltekin tækifæri á árinu 1975 eða að hann hafi sóst eftir upplýsingum um það hjá Erlu eftir að hún losnaði úr gæsluvarðhaldi í desember 1975. Hann kvað Erlu hins vegar hafa sagt frá ýmsu úr skýrslum sínum þegar þau hittust tvívegis fyrri hluta árs 1976.
Guðjón gaf skýrslu hjá lögreglunni 23. nóvember 1976. Þar var honum meðal annars bent á framburð Kristjáns um að hann væri útlendingslegi maðurinn, sem Kristján hafi séð við sendibifreið á Vatnsstíg. Guðjón kvaðst vera viss um að hann hafi ekki verið á þeim stað að kvöldi 19. nóvember 1974. Aðspurður loks um hvort hann væri viðriðinn hvarf Geirfinns sagðist Guðjón ekki muna eftir því og segði hann því nei að svo miklu leyti sem hann vissi. Allt kæmi þetta sér spánskt fyrir sjónir.
Í dómi sakadóms greinir frá því að lögreglumenn hafi farið með Guðjón til Keflavíkur 28. nóvember 1976. Samkvæmt skýrslu lögreglunnar um þessa för var í upphafi hennar farið að ósk Guðjóns á Vatnsstíg, þar sem hann hafi sagt götuna ekki minna sig á neitt. Hann hafi hins vegar minnst á Volkswagen bifreið í sambandi við Vatnsstíg og sagst nánar aðspurður hafa ekið eitt sinn slíkri bifreið til Keflavíkur einhvern tímann á árinu 1974 eftir fyrrnefnda heimsókn Sævars og Erlu, þegar þau sýndu honum Land Rover bifreið. Þetta hafi verið eina ferð hans til Keflavíkur og hafi bifreiðin verið full af fólki. Samkvæmt skýrslunni hafi Guðjón sagst ekki hafa skýrar minningar af ákveðnum atvikum á árinu 1974 vegna mikils þunglyndis, sem hafi lagst á hann eftir andlát föður hans um mitt árið. Hann minntist þannig ekki lengur nákvæmlega hverjir hafi verið með sér í Volkswagen bifreiðinni. Sævar gæti hafa verið þar, um Erlu væri hann ekki viss, en Kristján þekkti hann ekki. Þegar lögreglan hafi komið með Guðjón á aðalgötu Keflavíkur hafi hann talið sig gruna að ekið hafi verið þar um í umræddri för sinni, en við Hafnarbúðina hafi hann ekki kannast. Guðjón hafi þá verið látinn ráða hvert farið yrði. Við bæjarmörk Keflavíkur hafi hann sagt að bifreiðinni hafi verið lagt. Hann hafi síðan óskað eftir að staðnæmst yrði á stað um 200 metrum frá dráttarbrautinni. Þar hafi hann sagt að fólkið hafi stigið út úr bifreiðinni og hafi hann beðið í henni eftir fólkinu í um 10 mínútur, en síðan ekið á stað inni í bænum, þar sem fjöldi fólks hafi skyndilega komið út. Hafi hann talið þetta geta verið kvikmyndahús, en við það hafi hann beðið um hálfa klukkustund. Hann hafi síðan aftur stöðvað bifreiðina á móti bensínstöð. Hann minntist ekki hvaða erindi farþegarnir hafi átt í Keflavík, en farið hafi verið aftur til Reykjavíkur að því loknu. Hann minntist heldur ekki hvar leiðir hans og farþeganna hafi skilið í Reykjavík, því að hann myndi ekki eftir sér fyrr en í bifreiðinni utan við heimili sitt að ferðinni lokinni. Samkvæmt skýrslunni mun Guðjón hafa óskað eftir að ekið yrði um Grettisgötu þegar komið var aftur til Reykjavíkur, en við þá götu hafi hann beðið um að sjá innkeyrslu að bakgarði við húsið númer 82. Þar hafi hann sagst aldrei hafa komið inn í það hús.
Guðjón gaf skýrslu hjá lögreglunni 29. nóvember 1976. Þar greindi hann frá því að hann minntist þess að skömmu eftir fyrrnefnda heimsókn Sævars og Erlu hafi hann ekið Volkswagen bifreið til Keflavíkur. Þetta gæti hafa verið 19. nóvember 1974. Hann minnti að lagt hafi verið af stað í þessa ferð frá Lambhóli við Starhaga, þar sem hann hafi verið í heimsókn hjá vini sínum. Sagðist Guðjón halda að Sævar hafi komið þangað á umræddri bifreið. Hafi verið ákveðið þar að hann færi til Keflavíkur, en ekki minntist hann þess að rætt hafi verið um neinn ágóða af ferðinni. Guðjón sagðist minna að hann hafi sjálfur ekið bifreiðinni og Sævar setið í farþegasæti við hlið hans, en Erla og Kristján gætu hafa verið í aftursæti. Hann kvaðst halda að bifreiðin hafi verið ljósblá að lit og gæti hún hafa verið af bílaleigu. Ekið hafi verið inn í Keflavík eftir aðalgötunni þar. Hann kvað það geta verið að hann hafi stöðvað bifreiðina á götuhorni skammt frá Hafnarbúðinni og að einn maður hafi farið þar út. Hann minntist þess ekki að hafa skrifað neitt á miða þar, en hins vegar hafi Sævar komið heim til hans daginn áður, hringt og skrifað eitthvað á miða, sem Sævar hafi beðið hann um að geyma. Guðjón sagðist minna að farþegi hafi farið út úr bifreiðinni, hugsanlega í grennd við Hafnarbúðina, og ekki komið inn í hana aftur. Hann minntist þess ekki að neinn annar hafi komið þar inn í bifreiðina. Eftir þetta hafi verið ekið áleiðis út úr Keflavík og staðnæmst við hús, sem hann hafði bent á í ferð með lögreglunni 28. nóvember 1976 og reyndist vera skammt frá dráttarbrautinni. Sagði Guðjón að sér fyndist allir nema hann hafa farið út úr bifreiðinni á þessum stað. Næstu atburða þar á eftir minntist hann ekki að öðru leyti en því, að Sævar hafi þurft að fara á annan stað í Keflavík og hafi því verið ekið í nokkrar mínútur aftur áleiðis inn í bæinn þar til staðnæmst hafi verið nálægt kvikmyndahúsi. Honum fyndist að ekið hafi verið söluturni og bensínsölu, þar sem Sævar hafi farið inn til að hringja. Að öðru leyti sagðist hann enga hugmynd hafa um hvað gerst hafi í ferðinni eða tilgang hennar. Hann kvaðst halda að Sævar hafi verið einn með sér í bifreiðinni á leið aftur til Reykjavíkur og hafi Sævar þá sagt að nú væri hann orðinn samsekur um morð. Í skýrslunni vék Guðjón jafnframt að því að í júlí 1975 hafi hann komið með Sævari að Gljúfurárholti, þar sem staðið hafi gul sendibifreið af gerðinni Mercedes Benz, sem hann minnti að væri gluggalaus á hliðunum. Hann kvaðst gruna að þessi bifreið gæti staðið í einhverju sambandi við fyrrnefnda atburði í Keflavík.
Í lögregluskýrslu 30. nóvember 1976 sagðist Guðjón telja sig geta fullyrt að hann hafi hitt Sævar og Erlu á kaffihúsi 18. nóvember 1974 og hafi þau ekið honum heim í Land Rover bifreið. Sævar hafi komið þar inn með sér, en Erla beðið í bifreiðinni. Hafi Sævar þá vakið máls á að fara til Keflavíkur til að hitta mann og fengið að hringja til að afla símanúmers. Hann minnti að Sævar hafi síðan látið sig hafa bréfmiða, sem hann hélt að aðeins hafi verið ritað símanúmer á. Um erindið til Keflavíkur kvaðst Guðjón ekki hafa vitað, en honum hafi þó skilist á Sævari að með ferðinni ætti bjarga peningamálum Sævars vegna væntanlegrar utanlandsferðar. Hafi Sævar látið líta svo út að þetta yrði spennandi viðskiptaferð, en Guðjón kvaðst hafa skilið að þetta væri utan við lög. Hann hafi ekki lofað að taka þátt í ferðinni, en hins vegar gefið ádrátt um það. Næsta kvöld hafi hann ekið að Lambhóli í bifreið, sem hann hafi haft að láni. Þar hafi hann hitt Sævar, sem hafi beðið sig um að aka til Keflavíkur. Guðjón sagðist minna að þeir hafi ekið heim til hans frá Lambhóli í bifreiðinni, sem hann hafi haft til umráða, en þar hafi hann sennilega tekið við akstri Volkswagen bifreiðar. Hugsanlega hafi hann síðan ekið um Laugaveg og Vatnsstíg og það kunni að vera, að á leiðinni hafi fjórði maðurinn verið tekinn upp í bifreiðina, sem hann hafi verið í ásamt Sævari og Erlu. Guðjón kvaðst ekki þekkja Kristján sem þennan fjórða mann. Hann minntist einskis um samræður á leið til Keflavíkur og heldur ekki að hafa farið út úr bifreiðinni þar, en það gæti þó verið að hann hafi gert það við dráttarbrautina. Einnig gæti verið að átök hafi þar átt sér stað án þess að hann sæi þau, enda hafi verið myrkur og sjái hann illa frá sér. Hann minntist þess ekki að hafa tekið þátt í átökum eða að hafa séð lík umrætt sinn. Guðjón endurtók fyrri frásögn sína um ummæli Sævars við sig á heimleiðinni frá Keflavík og kvað Sævar hafa þeim til viðbótar spurt sig hvort hann hafi ekki séð þegar þeir drápu manninn. Hann kvað það geta verið að Sævar hafi fengið lánaða hjá sér skóflu, en hann væri viss um að hann hafi ekki tekið þátt í að grafa lík. Þá greindi Guðjón frá því að Sævar og Erla hafi heimsótt sig vorið 1975 og hafi Sævar þá farið að ræða um svokallað Geirfinnsmál. Hann hafi sjálfur verið alveg úti á þekju. Hafi Erla veitt því athygli og sagt að hann væri búinn að gleyma þessu öllu. Sagðist hann hafa fengið illan grun um það eftir þetta, að hann gæti eitthvað hafa flækst í málið.
Í dómi sakadóms er greint frá því að lögreglan hafi samprófað Guðjón og Kristján 30. nóvember 1976. Guðjón hafi þar sagst ekki þekkja Kristján, en hugsanlegt væri allt að einu að þeir hafi ræðst við í dráttarbrautinni í Keflavík.
Í skýrslu fyrir dómi 2. desember 1976 skýrði Guðjón í flestum meginatriðum frá atvikum með sama hætti og í lögregluskýrslu 30. fyrri mánaðar. Guðjón greindi þó frá því að hann minnti að Erla hafi verið með Sævari inni í húsinu að Lambhóli þegar hann hafi verið sóttur þangað. Að auki hafi verið þar með þeim einn maður enn, sem hann kannaðist ekki við og sagði ekki hafa verið Kristján. Sá maður hafi vakið hjá sér ótta. Guðjón kvað bifreiðina, sem hann hafi haft til umráða, hafa sennilega verið skilda eftir við Snorrabraut, en þar hafi hann tekið við akstri annarrar bifreiðar, sem hann muni ekki hverrar gerðar hafi verið, en taldi þó líklega eldri ameríska bifreið. Þá sagðist Guðjón minnast þess að hafa beðið í bifreið í námunda við dráttarbrautina í um 20 mínútur, en þá hafi verið ekið að söluturni, þar sem Sævar hafi hringt, og svo aftur að upphaflega staðnum. Þar hafi aðrir en hann farið út út bifreiðinni. Hann kvaðst ekki minnast frekari atburða frá þeim stað, en þegar farið hafi verið frá Keflavík hafi hann haft á tilfinningunni að eitthvað hræðilegt hafi gerst þar. Hafi það vakið hjá sér ólýsanlega skelfingu, er Sævar spurði á leiðinni til Reykjavíkur, hvort hann hafi ekki séð, að maðurinn hafi verið drepinn. Þetta hafi hann hins vegar ekki tengt við hvarf Geirfinns fyrr en skýrsla var tekin af honum vorið 1976.
Í dómi sakadóms kemur fram að í lögregluskýrslu 29. nóvember 1976 hafi Guðjón látið í ljós að daginn eftir ferðina til Keflavíkur, sem hann hafi borið um, hafi hann setið á tilteknu kaffihúsi og lesið þar frásögn af jarðarför Þórbergs Þórðarsonar. Samkvæmt lögregluskýrslu 6. desember 1976 hafi Guðjón greint nánar frá þessu á þann hátt að umrædd frásögn hafi verið á innsíðu í dagblaðinu Þjóðviljanum og hafi í lok hennar verið stutt ljóð. Lögreglumaður hafi staðreynt að umfjöllun, sem falli að þessari lýsingu, hafi verið í nefndu blaði 20. nóvember 1974.
Guðjón gaf skýrslu hjá lögreglunni 8. desember 1976. Í upphafi hennar kvaðst hann geta fullyrt að Einar Bollason, Magnús Leópoldsson, Valdimar Olsen og Sigurbjörn Eiríksson væru saklausir af dauða Geirfinns, en sjálfur hafi hann ekki átt þátt að því að bendla þá við málið. Guðjón sagði sem fyrr að Sævar hafi komið heim með sér síðdegis 18. nóvember 1974. Sævar hafi þar rætt um að hafa hitt mann í Klúbbnum og þurfa að fara til Keflavíkur til að athuga viðskipti með spíra. Sævar hafi óskað eftir að hann kæmi í þessa ferð, en hann hafi sagst mundu athuga það. Að kvöldi 19. nóvember hafi hann farið á lánsbifreið að Lambhóli við Starhaga, en þangað hafi svo Sævar komið og beðið sig um að koma til Keflavíkur, sem hann hafi fallist á. Erla hafi verið með Sævari, svo og ókunnur maður. Sævar hafi sagst vera orðinn fullseinn á stefnumót í Keflavík. Guðjón minnti að hann hafi ekið lánsbifreiðinni á einhvern stað til að skilja hana eftir, en síðan hafi verið snúist eitthvað um Reykjavík og rámaði hann eitthvað í sendibifreið í því sambandi. Hann hafi síðan tekið við akstri bifreiðarinnar, sem Sævar hafi verið á. Hún hafi verið ljósblá Volkswagen bifreið, sem Guðjón kvaðst halda að væri frá bílaleigunni Geysi. Á leið til Keflavíkur hafi eitthvað verið gætt að sendibifreið, auk þess að talað hafi verið um að sýna manninum, sem ætti að hitta í Keflavík, fulla hörku ef hann vildi ekki semja. Þegar komið hafi verið til Keflavíkur hafi margt fólk verið hjá kvikmyndahúsi við aðalgötuna og hafi Sævar þá sagt farþegum að beygja sig í bifreiðinni. Ekið hafi verið beina leið að þeim stað í námunda við dráttarbrautina, sem hann hafi áður bent á. Þar hafi farþegarnir farið út úr bifreiðinni, hugsanlega þó að Erlu undantekinni. Farþegarnir hafi svo komið aftur og hafi Sævar þá verið æstur yfir að hafa ekki enn hitt manninn. Hafi Sævar talað um að hringja og hafi þá verið ekið til baka eftir aðalgötunni að bensínstöð. Sævar hafi ætlað að hringja þar, en horfið frá vegna mannfjölda. Þá hafi verið ekið í átt að höfninni og staðnæmst nokkuð frá Hafnarbúðinni. Farþegi úr aftursætinu hafi farið út úr bifreiðinni til að hringja þar og rámaði Guðjón í að hafa verið spurður um miðann, sem Sævar hafi afhent honum daginn áður. Farþeginn hafi svo komið til baka og sagt að maðurinn kæmi. Hafi verið beðið þar til maðurinn kom og settist inn í bifreiðina, en eftir það hafi verið ekið um bæinn. Guðjón kvað sér síðar hafa orðið ljóst að þessi maður hafi verið Geirfinnur. Í bifreiðinni hafi Sævar rætt við Geirfinn um spíra og hafi þeir nánast verið að fiska eftir upplýsingum hvor hjá hinum. Sævar hafi boðið Geirfinni peninga, en sá síðarnefndi hafi ekki getað eða viljað veita upplýsingar. Hafi verið staðnæmst við dráttarbrautina, þar sem allir nema Erla hafi farið út úr bifreiðinni. Þar hafi orðið átök, sem leiddu Geirfinn til dauða. Guðjón kvaðst minnast þess að Geirfinnur hafi ætlað að ganga í burtu, en hann hafi stöðvað Geirfinn. Guðjón sagðist ekki muna eftir að hafa sparkað í Geirfinn eða slegið með hnefa eða barefli, en sig rámi í að hafa tekið Geirfinn hálstaki. Hann kvaðst ekki geta sagt hver hlutur sinn í átökunum hafi verið að öðru leyti eða hvað leitt hafi Geirfinn til dauða, en hann minntist engra áverka á Geirfinni, sem hann kvaðst muna að hafi ekki verið blóðugur. Guðjón sagðist ekki muna eftir að líkið hafi verið sett í bifreiðina, en þegar Sævar hafi rætt á bakaleiðinni um að hann væri orðinn samsekur um morð hafi hann ekki þorað að líta aftur í bifreiðina af ótta við að sjá þar líkið. Hann kvað Erlu hafa farið úr bifreiðinni við dráttarbrautina og muni kápa hennar hafa orðið eftir. Á leið til Reykjavíkur hafi verið rætt um hvað gera ætti við líkið. Hafi meðal annars verið ekið út á Álftanes og farið þar út í hraun til athugunar, en hætt hafi verið við að setja líkið þar. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa farið að Grettisgötu 82 eða tekið þátt í að bera líkið úr bifreiðinni. Helst minnti hann að hafa farið heim og skilið þar við samferðamenn sína eftir að hafa lánað Sævari skóflur. Þá greindi Guðjón frá því að Kristján muni hafa verið fjórði maðurinn í bifreiðinni á leið til Keflavíkur, en hann hafi ekki þekkt Kristján fyrir þennan tíma og lítið tekið eftir honum í ferðinni. Í samprófunum hafi Kristján sagst hafa verið við dráttarbrautina umrætt sinn og geti hann ekki dregið það í efa, þótt hann komi Kristjáni ekki fyrir sig.
Í dómi sakadóms er greint frá handriti Guðjóns, sem hann gerði 14. desember 1976 til uppfyllingar á fyrri skýrslu, en þetta handrit mun hann hafa afhent lögreglunni. Í handritinu greinir Guðjón meðal annars frá því að hann hafi ekið bifreið af gerðinni Fiat frá Lambhóli og skilið hana eftir á Grettisgötu eða Njálsgötu. Þaðan hafi hann gengið með Sævari að horni Laugavegar og Vatnsstígs, þar sem hafi verið gul sendibifreið af gerðinni Mercedes Benz. Hann kunni að hafa átt orðaskipti við ökumann sendibifreiðarinnar, en hún muni hafa haldið af stað til Keflavíkur á undan Volkswagen bifreiðinni. Telja verði víst að rætt hafi verið fyrir brottför frá Reykjavík hvar sendibifreiðin ætti að bíða í Keflavík. Rætt hafi verið um hafnarvog þar. Í handritinu eru vangaveltur um hvorri umræddra bifreiða kunni að hafa verið ekið inn í húsasund að Grettisgötu 82 við lok ferðarinnar, hvort þá eða síðar hafi verið lagt að ökumanni sendibifreiðarinnar að greina ekki frá vitneskju sinni um atvik málsins og hver ökumaðurinn hafi verið, en sennilega hafi ökumaðurinn fengist eitthvað við hljómlist. Þá vísar Guðjón til þess að hann hafi verið beðinn um að gefa nánari mynd af dauða Geirfinns. Hann viðurkenni að vera samsekur Sævari og Kristjáni, en nánari lýsingu en áður hafi komið fram á sínum hlut geti hann ekki gefið nema um tilbúning yrði að ræða. Hann minnist þó að atburðarás við dráttarbrautina hafi verið mjög hröð. Hann greinir einnig frá því að eftir á hafi hvorki séð á honum sjálfum né fatnaði hans. Varðandi lok ferðarinnar segir hann að vera megi að hann hafi lagt Volkswagen bifreiðinni við Grettisgötu 82, en þaðan muni hann hafa gengið að Fiat bifreiðinni, sem hann hafi ekið heim til sín. Hann sé viss um að líkið hafi verið flutt til Reykjavíkur og hljóti það að líkindum að hafa verið gert í Volkswagen bifreiðinni. Hvað síðan hafi verið gert við líkið viti hann ekki, en Sævar muni hafa fengið lánaðar hjá sér skóflur.
Þá er í dómi sakadóms greint frá öðru handriti Guðjóns, sem hann er sagður hafa gert skömmu eftir jól 1976 og afhent lögreglunni, svo og bréfi hans til lögreglumanns 21. janúar 1977. Ekki er ástæða til að rekja hér efni þessara orðsendinga að öðru leyti en því, að í þeirri síðari kveður Guðjón ferð sína með lögreglumanni að Grettisgötu 82 og útlit trappa á þeim stað hafa leitt til þess, að honum finnist hann hafa farið þar inn eftir komuna til Reykjavíkur. Hann muni síðan hafa flutt Volkswagen bifreiðina úr húsasundi þar, lagt henni í nærliggjandi götu og látið Sævar fá lykla að henni. Sævar hafi svo fylgt sér að Fiat bifreiðinni, sem hafi sennilega staðið við Vatnsstíg.
Guðjón gaf heildarskýrslu um atvik í þessum þætti málsins hjá lögreglunni 25. janúar 1977. Hann kom fyrir dóm 31. sama mánaðar og var þá sagður hafa skýrt sjálfstætt frá málsatvikum á sama veg og í lögregluskýrslunni, sem hann hafi lesið yfir í lok þinghalds og staðfest að væri rétt eftir sér höfð.
Í lögregluskýrslu 1. febrúar 1977 gaf Guðjón upplýsingar um nokkur atriði málsins, meðal annars tilganginn með að fara að dráttarbrautinni í umræddri för, hvort hann og aðrir hafi verið undir áhrifum vímugjafa og hvort ásetningur hafi verið til að bana Geirfinni.
Í skýrslu fyrir dómi 29. og 30. júní 1977 greindi Guðjón frá því að veturinn 1969 til 1970 hafi hann sem kennari kynnst Sævari, sem hafi þá verið nemandi að Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Þeir hafi hist stöku sinnum sumarið 1974 og megi ef til vill ræða um kunningsskap milli þeirra. Guðjón kvaðst fyrst hafa séð Erlu 1973, en Kristján hafi hann ekki séð áður en þetta mál kom til. Einhvern tíma í nóvember 1974 hafi Sævar heimsótt sig á Land Rover bifreið og eins hafi Sævar komið til sín einhver skipti í vinnu, en um líkt leyti hafi Sævar rætt við sig um utanlandsferð. Guðjón kvaðst ekki treysta sér til að segja fyrir víst hvenær Sævar hafi fyrst minnst á ferð til Keflavíkur við sig. Hann kvað það mega vera að hann hafi hitt Sævar og Erlu á veitingahúsi síðdegis 18. nóvember 1974. Þau hafi boðist til að aka honum heim. Þar hafi Sævar komið inn með honum og fengið að hringja að minnsta kosti tvívegis. Vel gæti verið að Sævar hafi þá beðið um miða til að skrifa á, en hann gæti ekki sagt til um hvort Sævar hafi látið sig hafa miðann aftur. Guðjón sagðist ekki vilja fullyrða hvort Sævar hafi við þetta tækifæri nefnt við sig ferð til Keflavíkur, en einhvern tíma á þessum dögum hafi Sævar gert það og rætt um spíra í því sambandi. Hann minntist þess að Sævar hafi rætt um að hitta mann í Keflavík vegna spírans. Sævar hafi hitt þann mann á veitingahúsi. Guðjón sagðist ekki hafa fallist á að fara í þessa ferð þegar Sævar nefndi það við sig. Hann kvaðst hafa heimsótt nafngreindan mann að Lambhóli við Starhaga kvöld eitt um kl. 20 til 20.30 og hafi Sævar komið þangað. Um dagsetningu gæti hann ekki fullyrt, þótt haft hafi verið eftir honum í lögregluskýrslu 25. janúar 1977 og á dómþingi 31. sama mánaðar að þetta hafi gerst 19. nóvember 1974. Guðjón sagði Sævar hafa komið þar inn í hús og líklega Erla líka. Hann hafi farið frá Lambhóli á sömu Fiat bifreið og hann kom þangað í. Hann minnti að Sævar hafi farið með sér í bifreiðinni og hafi verið ekið heim til sín. Guðjón kvað Sævar hafa beðið sig um að koma til Keflavíkur og aka bifreiðinni, sem farið yrði þangað á. Þeir hafi staðnæmst við heimili sitt, en Erla þar skammt frá í ljósblárri Volkswagen bifreið. Guðjón sagðist ekki hafa verið búinn að ákveða þá hvort hann færi til Keflavíkur. Hann minnti að Sævar hafi farið þarna yfir í bifreið til Erlu, en hann hafi sjálfur ekið Fiat bifreiðinni á Vatnsstíg eða þar í grennd. Hann hafi síðan séð Volkswagen bifreiðina ofarlega á Vatnsstíg og tekið við stjórn hennar. Guðjón kvaðst ekki muna eftir sendibifreið þar á staðnum, sem hann gæti tengt við ferðina til Keflavíkur, gagnstætt því sem hann sagðist minna í fyrri skýrslum. Frá Vatnsstíg hafi verið ekið rakleitt til Keflavíkur og hafi Sævar þá setið í framsæti, en Erla í aftursæti ásamt manni, sem hljóti að hafa verið Kristján. Á leiðinni hafi Sævar litið eftir sendibifreið og hafi hann þá fyrst heyrt að slík bifreið væri í samfloti með þeim. Þá hafi Sævar rætt við sig á leiðinni um manninn, sem ætti að hitta, og sagt að beita yrði fullri hörku og láta jafnvel manninn hverfa. Í útjaðri Njarðvíkur hafi verið numið staðar við sendibifreið eftir fyrirsögn Sævars, sem hafi farið út til að ræða við ökumann hennar. Guðjón kvaðst hafa séð í höfuð ökumannsins meðan á þessu stóð. Hann kvaðst ekki hafa þekkt ökumanninn, sem hann lýsti lítillega. Báðar bifreiðirnar hafi síðan farið af stað á líkum tíma. Ekið hafi verið rakleitt gegnum Keflavík og hafi Sævar ráðið ferðinni. Guðjón minntist þess að ekið hafi verið fram hjá kvikmyndahúsi, þar sem hlé hafi staðið yfir. Hafi eitthvað af fólki verið þar á ferli og minnti Guðjón að Sævar hafi þá sagt farþegum í bifreiðinni að beygja sig. Guðjón sagði að ekið hafi verið að húsi, sem hann lýsti í fyrri skýrslum og reyndist vera skammt frá dráttarbrautinni í Keflavík. Þar hafi Sævar og karlmaðurinn í aftursæti bifreiðarinnar farið út. Guðjón rámaði í að hafa séð sendibifreiðinni ekið þá áleiðis inn á svæði dráttarbrautarinnar. Hann kvað Sævar og Kristján hafa komið til baka eftir nokkra stund. Sævar hafi þá verið orðinn æstur, því að tíminn hafi verið orðinn naumur og maðurinn ef til vill farinn þaðan, sem þeir hafi átt að hittast. Ekið hafi verið aftur eftir aðalgötunni í Keflavík að bensínsölu, þar sem Sævar hafi keypt eitthvað. Guðjón kvaðst ekki vita hvort Sævar hafi ætlað að hringja þar, en Sævar hafi sagt að margt fólk væri þar á staðnum. Eftir viðkomu á annarri bensínstöð hafi verið ekið áleiðis að Hafnarbúðinni og numið staðar um 100 til 200 metrum frá henni. Hann minni, að þar hafi Sævar og Kristján farið út. Guðjón kvaðst ekki vera frá því að minnst hafi verið á miða áður en þeir hafi farið út úr bifreiðinni, en ekki gæti hann staðhæft hvort miðinn hafi fundist hjá sér. Hann sagðist ekki vita hvert Sævar og Kristján hafi farið. Þeir hafi verið í burtu í um 10 mínútur og hafi hvorugur minnst á símtal þegar þeir komu aftur. Guðjón minnti þó að annar hvor þeirra hafi sagt að maðurinn kæmi. Eftir um 10 mínútur enn hafi komið að bifreiðinni maður, sem hann þekkti ekki. Sævar hafi hleypt manninum inn í aftursæti bifreiðarinnar. Guðjón treysti sér ekki til að segja hvort myndir af Geirfinni, sem honum hafi verið sýndar, væru af umræddum manni, en hann sagðist ekki hafa ástæðu til að efast um að maðurinn hafi verið Geirfinnur. Eftir þetta hafi verið ekið um Keflavík og að dráttarbrautinni. Á leið þangað hafi Sævar talað við Geirfinn um spíra. Sævar hafi verið með peninga í höndunum og boðið Geirfinni þá fyrir spíra eða upplýsingar um spíra. Einhver misskilningur hafi verið á milli Sævars og Geirfinns og eitthvert þjark orðið. Guðjón sagðist hafa stöðvað bifreiðina við dráttarbrautina og hafi allir farið þar út úr henni nema Erla. Hann kvað sæmilegan frið hafa þá verið á milli þeirra allra. Hann sagðist ekki muna eftir orðaskiptum þar eða átökum. Hann hafi reynt að geta sér til um átökin í fyrri skýrslum, en gæti þó ekki lýst atburðunum, sem þarna urðu, svo að nokkurt vit væri í. Guðjón taldi sig þó muna eftir því að Geirfinnur félli til jarðar, en vissi ekki hvernig það gerðist. Honum hafi verið ljóst að Geirfinnur væri látinn, en um dánarorsök eða áverka á Geirfinni gæti hann ekki borið. Guðjón kvaðst ekki vera frá því að hann hafi séð sendibifreið við dráttarbrautina. Hann gæti ekki sagt hvort það hafi verið sama bifreið og honum var sýnd 23. janúar 1977, en ef svo væri hafi rauðar rendur verið málaðar á hana í millitíðinni, stuðari að framan hafi einnig verið málaður rauður og ný skráningarnúmer komin á hana. Guðjón sagðist ekki muna hvað hafi verið gert við lík Geirfinns, en sér væri stórlega til efs að það hafi verið flutt til Reykjavíkur í Volkswagen bifreiðinni. Síðar í skýrslunni sagðist Guðjón þó ekki vilja breyta fyrri framburði sínum um að líkið hljóti að hafa verið í bifreiðinni, en sér fyndist mikill vafi leika á því. Hann sagðist ekki hafa séð Erlu eftir átökin við dráttarbrautina og minntist þess ekki að leitað hafi verið að henni. Hann kvaðst hafa ekið Volkswagen bifreiðinni til Reykjavíkur og hafi Sævar setið við hlið sér, en Kristján í aftursætinu. Á leiðinni hafi Sævar sagt að hann væri samsekur um morð og spurt því til viðbótar hvort hann hafi ekki séð hvað þeir gerðu við manninn. Guðjón minntist þess ekki hvort rætt hafi verið á leiðinni um hvað gera ætti við lík Geirfinns, gagnstætt því sem hann hafi borið í lögregluskýrslu. Ekið hafi verið sem leið lá að Grettisgötu 82, en Guðjón kvaðst þó ekki geta borið af eigin vitneskju um að komið hafi verið þangað. Hann sagðist ekki muna eftir að hafa tekið þátt í að bera lík þar inn í kjallara, en hins vegar rámaði hann í að hafa farið þaðan út. Þá kvað hann erfitt hafa verið að ganga um kjallarann vegna myrkurs, pípulagna og ýmissa aðstæðna. Hann taldi sig muna eftir að hafa séð aftan á Sævar og Kristján inni í herbergi í kjallaranum, að sér skildist í þvottahúsi. Guðjón sagðist telja vafasamt að hann hafi skýrt lögreglunni réttilega frá þegar hann lýsti fyrir henni að Sævar og Kristján hafi þá verið að búa um líkið. Hann kvaðst heldur ekki minnast þess að hafa farið inn í íbúð, þar sem Kristján hafi búið að Grettisgötu 82, eða hversu lengi hann hafi verið þar í húsi. Hann taldi sig hafa skilið Volkswagen bifreiðina eftir við Vitastíg, en líklega hafi hann ekið Fiat bifreiðinni heim frá Vatnsstíg. Hann minnti að Sævar hafi mælt einhver hughreystingarorð við sig um nóttina og sagst ætla að sjá um það, sem eftir væri. Guðjón sagðist hafa hitt Sævar á kaffihúsi eftir vinnu 20. nóvember 1974 og hafi Sævar þá sagt að nú væri bara að þegja. Hann kvað Sævar einnig hafa beðið um að fá að láni skóflur, sem hafi verið heima hjá sér og hann hafi sjálfur fengið að láni. Hann minntist þess hins vegar ekki að hafa látið Sævar fá skóflurnar eða tekið við þeim aftur. Guðjón neitaði að hafa átt þátt í að flytja lík Geirfinns frá Grettisgötu 82 eða grafa það og sagðist ekkert vita um þetta. Hann kvað það geta verið að Sævar hafi einhvern tímann síðar nefnt við sig að blanda svokölluðum Klúbbmönnum í málið ef það kæmist upp, en sér hafi þótt hugmyndin fávísleg.
II.3.F.
Samprófanir fóru fram fyrir dómi á milli þeirra, sem getið hefur verið hér að framan, svo sem hér segir:
Erla og Sævar voru samprófuð 5. júlí 1977. Erla kvaðst þá ekki minnast þess, sem Sævar hafi borið, að hann hafi sagt henni 18. nóvember 1974 frá samtali sínu við Geirfinn og væntanlegum viðskiptum. Erla og Sævar héldu fast við framburð sinn um leigu á bifreið 19. sama mánaðar, þótt þeim hafi verið kynntur framburður Guðmundar Magnússonar. Við samprófunina féllst Sævar á að rétt gæti verið hjá Erlu að Guðjón hafi fyrst tekið við akstri Volkswagen bifreiðarinnar neðarlega á Vatnsstíg, en samræmi fékkst ekki í skýrslur þeirra um hvar sú bifreið og sendibifreið hafi þá nákvæmlega staðið. Þá héldu þau bæði fast við fyrri framburð sinn um samræður í bifreiðinni á leið til Keflavíkur. Sævar kvað framburð Erlu vera réttan um atburði í bifreiðinni, eftir að komið var til Keflavíkur, að öðru leyti en því, að engar ryskingar hafi orðið í henni og að ekið hafi verið rakleitt að dráttarbrautinni eftir að Geirfinnur var kominn inn í hana. Þau héldu bæði fast við fyrri framburð sinn um átök við dráttarbrautina og skil á Volkswagen bifreiðinni að því leyti, sem bar á milli þeirra. Í meginatriðum bar þeim saman um atburði þegar lík Geirfinns hafi verið flutt frá Grettisgötu í Rauðhóla, en Sævar neitaði þó að pakkar í þeim flutningi hafi verið tveir, svo sem Erla hélt fram, og minntist þess heldur ekki að bensín hafi verið keypt á brúsa í þeirri för.
Erla og Kristján voru samprófuð 6. júlí 1977. Erla hélt fast við framburð sinn, en Kristján kvað framburð hennar rangan og neitaði að hafa verið staddur í Keflavík 19. nóvember 1974 eða eiga þátt í hvarfi Geirfinns.
Sævar og Guðjón voru samprófaðir 11. júlí 1977. Að því leyti, sem á milli þeirra bar í fyrri skýrslum, héldu þeir báðir fast við fyrri framburð. Frá þessu var þó sú undantekning að Sævar kvaðst nú ekki þora að fullyrða að Guðjón hafi verið með í för þegar lík Geirfinns hafi verið flutt í Rauðhóla 21. nóvember 1974.
Erla og Guðjón voru samprófuð 12. júlí 1977. Guðjóni var kynntur framburður Erlu um að hún og Sævar hafi hitt hann á tilteknu veitingahúsi síðdegis 18. nóvember 1974, en hann vísaði til fyrri framburðar síns. Að því leyti, sem bar á milli skýrslna þeirra um atvik að kvöldi 19. sama mánaðar þar til Geirfinnur hafi komið upp í bifreiðina við Hafnarbúðina, héldu þau bæði fast við fyrri frásagnir sínar. Um förina þaðan til dráttarbrautarinnar vísuðu þau bæði til fyrri skýrslna sinna, en Guðjón kvað það geta verið rétt hjá Erlu að orðaskak hafi komið upp í bifreiðinni og gat hann ekki tekið fyrir að til sviptinga hafi komið þar. Varðandi átökin við Geirfinn sagði Guðjón frásögn Erlu vera rétta um að Sævar hafi boðið Geirfinni peninga og að hann hafi tekið í handlegg Geirfinns. Guðjón sagði hins vegar að þetta síðastnefnda hafi hann ekki gert til að stöðva brottför Geirfinns, heldur til að leiða Geirfinn í burtu, enda hafi sér þá verið ljóst að misskilningur væri á ferð. Þeim Kristjáni og Sævari hafi þá verið of lausar hendur og líkast því að neista væri hleypt í púður. Um gang mála eftir þetta kvaðst Guðjón ekki þora að fullyrða, en Erla hélt fast við frásögn sína um átökin. Þá hélt Guðjón fast við fyrri skýrslur sínar um að hann hafi ekki átt hlut að flutningi á líki Geirfinns í Rauðhóla, gagnstætt framburði Erlu. Guðjón kannaðist ekki við frásögn Erlu um að hún hafi ásamt Sævari sótt Volkswagen bifreiðina við heimili hans 20. nóvember 1974 og heldur ekki frásögn hennar um að þau hafi hist öll á heimili Kristjáns helgina þar á eftir og rætt um hvað gera skyldi ef bönd beindust að þeim vegna málsins. Þá neitaði Guðjón því að hann hafi leitað fregna hjá Erlu um framvindu rannsóknar á málinu eftir að hún losnaði úr gæsluvarðhaldi 20. desember 1975.
Kristján og Guðjón voru samprófaðir 27. september 1977. Kristján kannaðist þá ekki við þá lýsingu, sem Guðjón gaf við framangreinda samprófun við Erlu á átökum við Geirfinn, enda kvaðst Kristján ekki hafa verið viðstaddur. Þá óskaði Kristján eftir að bókað yrði að rannsóknarlögreglumaðurinn Karl Schütz hafi látið lesa fyrir sér framburð annarra og sagt sér að þær skýrslur væru réttar, þar til hann hafi fallist á það.
II.3.G.
Sigurður Óttar Hreinsson mun fyrst hafa verið nefndur í tengslum við þennan þátt málsins í skýrslu Sævars hjá lögreglunni 9. desember 1976, þar sem hann kvað Sigurð hafa ekið sendibifreið, sem áður greinir, til Keflavíkur að kvöldi 19. nóvember 1974. Kristján mun hafa staðfest að þessi frásögn væri rétt í skýrslu 14. desember 1976. Sigurður gaf fyrst skýrslu af þessu tilefni hjá lögreglunni 13. sama mánaðar. Þar kvaðst hann hafa um sumarið 1974 ekið sendibifreið í eigu Jóns Þ. Walterssonar. Bifreiðin væri af gerðinni Mercedes Benz, gul að lit og sennilega af árgerð 1971. Hann sagðist halda að hann hafi fengist við þennan akstur í júní og júlí 1974, en eftir það hafi hann ekkert starfað á því ári. Hann hafi verið búsettur á heimili Kristjáns að Grettisgötu 82 frá ágúst 1974 til loka ársins, en þeir Kristján væru systrasynir. Þá sagðist Sigurður hafa kynnst Guðmundi Magnússyni, sem hafi annast rekstur bílaleigunnar Geysis, í utanlandsferð haustið 1974 og hafi þeir haft töluverð samskipti eftir það. Sigurður kvaðst ekki muna eftir kvöldi 19. nóvember 1974 eða nóttinni á eftir, en þó væri víst að hann hafi ekki farið þá til Keflavíkur. Hann sagðist ekki muna eftir að hafa flutt neitt í sendibifreið fyrir Kristján, Sævar eða Erlu, en þó gæti verið að hann hafi flutt einhverja muni fyrir þá síðastnefndu í hús við Hjallaveg. Hann hafi oftar en einu sinni fengið lánaða sendibifreiðina hjá Jóni Þ. Walterssyni eftir að hann lét af fyrrnefndum störfum, en hann minntist þess ekki að hafa gert slíkt í þágu Kristjáns, Sævars eða Erlu. Sérstaklega aðspurður sagði Sigurður það vera helber ósannindi, sem Sævar hafi borið, að hann hafi ekið sendibifreið, sem hafi verið við dráttarbrautina í Keflavík að kvöldi 19. nóvember 1974.
Í lögregluskýrslu 14. desember 1976 greindi Sigurður frá því að dag einn í nóvember 1974 hafi Kristján átt símtal við einhvern mann frá tilteknu kaffihúsi. Sama kvöld hafi Kristján spurt, hvort hann gæti ekið sendibifreið til Keflavíkur og hafi Kristján sagt, að þangað ætti að sækja eitthvað. Þennan dag hafi hann verið að gera við áðurnefnda sendibifreið í eigu Jóns Þ. Walterssonar. Hafi hann fallist á að fara þessa ferð. Hann kvaðst hafa komið á bifreiðinni á Vatnsstíg um kl. 21 þetta kvöld og verið einn síns liðs. Kristján hafi komið að bifreiðinni og sagt sér að aka til Keflavíkur, þar sem hann hafi átt að staðnæmast utan við bæinn. Sigurður kvaðst hafa ekið rakleitt þangað og beðið í um 20 mínútur. Hafi Kristján komið og hann síðan ekið að boði Kristjáns að dráttarbrautinni, þar sem hann hafi lagt bifreiðinni og beðið í henni um hálfa klukkustund. Þá hafi Kristján komið aftur til sín og sagt að hann gæti farið. Sigurður sagðist enga hafa séð við dráttarbrautina nema Kristján. Hann hafi heyrt mannamál, en ekki orðið var við átök. Sigurður sagðist hafa ekið eftir þetta til Reykjavíkur og lagt bifreiðinni við Grettisgötu 82, en þangað hafi hann komið um miðnætti. Hann hafi sofnað, en vaknað þegar Kristján kom heim, að hann taldi undir morgun. Ekkert hafi verið rætt um atburði kvöldsins, hvorki þá né síðar, og hann ekki tengt ferðina við hvarf Geirfinns fyrr en eftir handtöku Kristjáns.
Sigurður var leiddur fyrir dóm 14. desember 1976. Þar kvaðst hann hafa ekið sendibifreiðinni, sem áður getur, til Keflavíkur 19. nóvember 1974 að ósk Kristjáns. Hann hafi beðið þar við dráttarbrautina um hálfa klukkustund. Hafi Kristján þá komið til sín og sagt að hann gæti farið. Í kjölfar þessarar skýrslu tók dómarinn sér allt að sólarhrings frest til ákvörðunar um gæsluvarðhald yfir Sigurði, sem var þá hafður áfram í haldi. Síðar sama dag mun Sigurður hafa skráð skýrslu, sem hann afhenti lögreglunni. Í henni greindi hann frá atvikum með líkum hætti og í fyrrgreindri lögregluskýrslu sama dag.
Önnur skýrsla var tekin af Sigurði hjá lögreglunni að kvöldi sama dags. Þar sagðist hann minnast þess að hafa verið staddur að Laugavegi 32 þegar Kristján hafi fært í tal við sig að aka sendibifreið til Keflavíkur. Hann kvað það vera rangt í fyrri skýrslu sinni að hann hafi verið að gera við bifreiðina umræddan dag. Það rétta væri að hann hafi farið í tiltekna verslun til að hitta Jón Þ. Waltersson og beðið um að fá bifreiðina lánaða. Jón hafi fallist á það með því skilyrði að ekki væru önnur not fyrir hana. Sigurður sagði að sér hafi verið kunnugt um að fangavörður æki bifreiðinni fyrir Jón um þessar mundir. Hann hafi því gengið að bifreiðinni vísri, þar sem hún hafi staðið hjá hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Hann hafi ekki þurft að ræða við fangavörðinn, því hann hafi haft lykil að bifreiðinni. Hann kvaðst hafa ekið beinustu leið að Vatnsstíg, þar sem Kristján hafi talað við sig. Sigurður lýsti síðan öðrum atburðum kvöldsins á sama veg og í fyrri skýrslum frá sama degi.
Sigurður gaf aftur skýrslu hjá lögreglunni 24. janúar 1977. Segir í dómi sakadóms að sú skýrsla hafi í meginatriðum verið á sama veg og framburður Sigurðar hjá lögreglunni 14. desember 1976, svo og framburður hans fyrir dómi, sem rakinn er hér næst.
Á dómþingi 25. maí 1977 sagði Sigurður frá kynnum sínum af Kristjáni, Sævari og Erlu, búsetu sinni að Grettisgötu 82 og störfum við akstur fyrir Jón Þ. Waltersson á sama veg og í fyrri skýrslum sínum. Þá sagði Sigurður einnig frá kynnum sínum af Guðmundi Magnússyni, en greindi frá því að hann hafi starfað með Guðmundi á bílaleigunni Geysi frá hausti til loka ársins 1974. Sigurður skýrði frá því að skömmu fyrir ferðina til Keflavíkur hafi hann verið staddur að Laugavegi 32, þar sem Kristján og Páll Konráð Konráðsson hafi rætt um símtal, sem sá fyrrnefndi hafi átt við Sævar. Kristján hafi ekki nefnt um hvað símtalið hafi fjallað, en Sigurður kvaðst þó hafa tengt það við umrædda ferð. Kvöldið fyrir ferðina hafi hann síðan verið staddur að Laugavegi 32. Hafi Kristján þá beðið sig um að flytja eitthvað í sendibifreið, sem Kristján hafi vitað að hann gæti fengið lánaða. Kvaðst Sigurður hafa verið tregur til að taka þetta að sér, en þó sagst mundu athuga hvort hann gæti fengið bifreiðina. Hann hafi rætt við Jón Þ. Waltersson um hádegið daginn eftir og Jón fallist á að lána sér bifreiðina ef hún yrði ekki í notkun. Jón hafi sagt að starfsmaður í hegningarhúsinu væri með bifreiðina og léti hana standa þar í nánd. Sigurður sagðist ekki vita nákvæmlega hvaða dag þessir atburðir gerðust, en það hafi verið fyrri hluta vetrar og gæti vel hafa verið 19. nóvember 1974. Kvaðst Sigurður sama kvöld hafa einn síns liðs tekið bifreiðina, þar sem hún hafi staðið við hegningarhúsið. Hafi hann ekki látið umráðamann bifreiðarinnar vita um það. Hann hafi ekið að Laugavegi 32, en ekki fengið stæði þar og farið niður á Vatnsstíg, þar sem hann hafi numið staðar. Þangað hafi Kristján komið og sagt sér að aka til Keflavíkur. Hafi hann átt að aka í gegnum bæinn allt þar til komið væri að enda malbiks, en þar hafi hann átt að bíða Kristjáns, sem kæmi með annarri bifreið. Sigurður sagðist hvorki hafa séð Kristján fara upp í bifreið né með hverjum Kristján hafi verið. Hann hafi ekið eftir þetta til Keflavíkur og numið þar staðar, sem um hafi verið rætt. Eftir 10 til 20 mínútur hafi önnur bifreið, sem hann hafi ekki séð, verið stöðvuð fyrir aftan sendibifreiðina. Kristján hafi komið til sín og sagt sér að aka á tiltekinn stað við dráttarbrautina, en leiðinni þangað hafi Kristján lýst. Sagðist Sigurður hafa fylgt þessum fyrirmælum. Þegar hann hafi verið kominn á áfangastað hafi Kristján komið aftur og beðið sig um að bíða. Kvaðst Sigurður hafa heyrt mannamál nokkru síðar, eins og menn væru að rífast. Gætu fimm eða sex manns hafa átt þar í hlut og sagðist Sigurður hafa þekkt málróm Kristjáns og Sævars. Hann hafi hvorki séð hvað fór fram né greint orðaskil, en orðið var við óróa. Meðan á þessu hafi staðið hafi Kristján komið og sagt sér að fara. Um leið hafi Kristján tekið fram að Sigurður ætti ekkert að vita um málið. Kristján hafi verið móður og virst vera æstur. Sagðist Sigurður halda að hann hafi verið við dráttarbrautina um hálfa klukkustund. Hann hafi ekið eftir þetta til Reykjavíkur, þar sem hann hafi tekið eldsneyti á bifreiðina um miðnætti og haldið heim að Grettisgötu 82. Kristján hafi komið þangað seint um nóttina og ekkert viljað ræða um atburði kvöldsins. Kvaðst Sigurður hafa síðan skilað sendibifreiðinni á sama stað um kl. 8 næsta morgun og taldi ólíklegt að umráðamaður hennar hafi orðið var við að hún hafi verið tekin. Sigurður staðfesti þennan framburð með eiði.
Lögreglan tók skýrslu af Sigurði 12. október 1977 í tilefni af því að verjandi Sævars tilkynnti sakadómi að Sigurður hafi sagt í viðtali 10. sama mánaðar, þar sem lögfræðingur hans og annar verjandi hafi verið viðstaddir, að hann hafi ekki farið til Keflavíkur eins og greindi í skýrslum hans. Í skýrslunni kvað Sigurður einu réttu skýrslu sína vera þá, sem hafi verið tekin 13. desember 1976. Hann hafi verið hafður í haldi og lögreglumenn leitt hann inn í málið. Hafi hann skáldað í eyðurnar af ótta við lögreglumennina og gæsluvarðhald. Kvaðst hann aldrei hafa ekið sendibifreið til Keflavíkur, hvorki 19. nóvember 1974 né á öðrum tíma. Skýrði Sigurður frá því að morguninn eftir að hann var leystur úr haldi 14. desember 1976 hafi hann leitað til Róberts Árna Hreiðarssonar lögfræðings og sagst hafa verið látinn játa ferð, sem aldrei hafi verið farin. Lögfræðingurinn hafi ráðið sér að leiðrétta þetta strax, en hann ekki viljað það vegna efa um hvort hann kynni að hafa farið þessa ferð og eins vegna ótta við lögregluna. Hann hafi leitað aftur til lögfræðingsins í febrúar 1977 vegna umfjöllunar um skýrslu sína í fjölmiðlum og hafi lögfræðingurinn þá skrifað grein til leiðréttingar um þátt hans að málinu. Sigurður kvaðst við það tækifæri hafa ítrekað við lögfræðinginn að hann hafi ekki farið til Keflavíkur umrætt sinn. Eins hafi hann rætt um það við sína nánustu, vinnuveitanda sinn og vinnufélaga eftir að hann kom fyrir dóm 25. maí 1977. Þegar fjölmiðlar hafi farið að fjalla um málið í tengslum við flutning þess hafi hann enn farið til lögfræðingsins og óskað eftir að sá bæði fjölmiðla um að birta ekki nafn sitt. Einnig hafi hann sagt lögfræðingnum að hann vildi afturkalla framburð sinn og hafi hann beðið lögfræðinginn um að rita fyrir sig bréf af því tilefni. Hafi lögfræðingurinn þá kvatt tvo verjendur í málinu til fundar með sér og Sigurði 10. október 1977. Sigurður mun hafa verið hafður í haldi eftir að hann gaf þessa skýrslu og var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi frá 14. október 1977.
Á dómþingi 13. október 1977 kvað Sigurður fyrri framburð sinn ekki hafa verið réttan nema að því leyti að hann kunni að hafa fengið sendibifreið að láni, eins og hann hafi borið, auk þess að hann hafi borið rétt um símtal milli Kristjáns og Sævars. Hann hafi ekki farið umrædda ferð til Keflavíkur, heldur hafi frásögn sín spunnist við yfirheyrslur hjá lögreglunni og orðið til vegna ótta við hana. Sigurður sagðist hafa sætt hótunum frá lögreglunni um gæsluvarðhald og hafi nafngreindur lögreglumaður vitnað til nafngreinds dómarafulltrúa um að það vofði yfir. Honum hafi verið ljóst 25. maí 1977 að skýrslan, sem hann gaf þá fyrir dómi, hafi verið röng. Hann hafi fyrst rætt við fyrrnefndan lögfræðing 15. desember 1976. Honum hafi þá liðið mjög illa og hann verið á báðum áttum um hvort hann hafi gert þá hluti, sem hann bar um. Fyrir um tveimur mánuðum hafi hann síðan orðið viss í sinni sök og beðið lögfræðinginn um að birta yfirlýsingu í fjölmiðlum til að verja nafn sitt. Hann tók fram að hann teldi litlar eða engar líkur á því að Sævar og Kristján hafi talað við sig í nóvember 1974, því þeir hafi þá verið hörkuóvinir vegna bílaviðskipta, sem þeir hafi ætlað að eiga. Sigurður kvaðst fyrst hafa hinn 10. október 1977 sagt lögfræðingi sínum að hann hafi skýrt rangt frá fyrir dómi 25. maí sama árs. Hann svaraði játandi spurningu um hvort lögfræðingurinn hafi einhvern tímann á tímabilinu reynt að hafa áhrif á sig til að hann skýrði rétt frá. Hann sagðist hafa haft mikil óþægindi af flutningi málsins vegna blaðaskrifa. Um aðdraganda fundarins með lögfræðingi sínum og tveimur verjendum 10. október 1977 sagði Sigurður að lögfræðingurinn hafi hringt til sín og spurt hvort hann hafi lesið blaðagrein, sem lögfræðingurinn hafi skrifað fyrir sig. Hann kvaðst hafa svarað því neitandi. Hafi lögfræðingurinn þá beðið hann um að koma á sinn fund. Þeir hafi rætt um málið og lögfræðingurinn síðan hringt í verjendur Sævars og Kristjáns, sem hafi komið. Aðspurður um hvað hann hafi óttast hjá lögreglu sagði Sigurður það eingöngu hafa verið gæsluvarðhald og stafi það af innilokunarkennd.
Í dómi sakadóms greinir frá því að samkvæmt skýrslu lögreglunnar um framburð Sigurðar 14. desember 1976 hafi skýrslugjöf hans byrjað kl. 11 að morgni, en ekki hafi verið tekið þar fram hvenær skýrslugjöfinni hafi lokið. Samkvæmt dagbók Síðumúlafangelsis hafi Sigurður verið færður aftur til fangaklefa rúmlega kl. 20. Sigurður hafi sagt að skýrslugjöfin hafi staðið yfir allan þann tíma og hafi allt að 10 menn tekið þátt í henni, en þó ekki allir í senn, heldur hafi þeir skipst á. Þessir menn hafi komið með plögg, sem þeir hafi lesið upp úr, og hafi þeir sannfært sig um að hann hafi farið umrædda ferð. Þá hafi Sigurður einnig lýst því hvernig tveir lögreglumenn hafi verið ógnandi í framferði sínu meðan á skýrslugjöfinni hafi staðið.
Róbert Árni Hreiðarsson lögfræðingur greindi frá því í lögregluskýrslu að Sigurður hafi komið til sín 15. desember 1976 og sagt frá skýrslugjöf sinni vegna málsins. Sigurður hafi verið í miklu uppnámi og hugaræsingi. Sigurður hafi sagst hafa gefið þrjár skýrslur hjá lögreglunni. Hafi sú fyrsta verið eftir bestu samvisku Sigurðar, sem hafi fram til þess tíma ekki talið sig tengdan málinu. Róbert kvað Sigurð hafa sagst hafa farið að efast um þessa sannfæringu sína eftir yfirheyrslur lögreglumanna og talið þá vita betur. Hann hafi spurt Sigurð hvort hann ætti að hlutast til um að afturkalla skýrslurnar, en Sigurður hafi ekki óskað eftir því, þar sem lögreglumenn hlytu að hafa haldið fram því rétta í málinu. Róbert kvaðst einnig hafa spurt Sigurð hvort umrædd ferð til Keflavíkur hafi í raun verið farin og hafi Sigurður sagst vera óviss eftir yfirheyrslurnar um hvað væri raunveruleiki. Í febrúar 1977 hafi Sigurður verið nafngreindur í umfjöllun fjölmiðla um málið. Róbert bar, að Sigurður hafi kvartað undan því að hafa verið borinn sökum, sem væru andstæðar lögregluskýrslum hans, en auk þess hafi þá verið rofið fyrirheit við hann um að greina ekki opinberlega frá nafni hans. Sagði Róbert að í kjölfar þess að Sigurður leitaði til sín hafi hann sent yfirlýsingu til fjölmiðla, þar sem því hafi verið komið á framfæri að Sigurði hafi ekki verið kunnugt um hvað hafi átt að flytja í Keflavíkurferðinni. Róbert kvað Sigurð hafa síðan komið til sín 10. október 1977 og sagt að efasemdir sínar um réttmæti framburðar síns hafi magnast svo mjög að rétt væri að það kæmi fram. Sigurður hafi aðspurður neitað því að hafa gefið skýrslu fyrir dómi. Hafi hann því rætt við Pál Arnór Pálsson, verjanda Kristjáns, en Páll hafi þá sagt sér að Sigurður hafi þegar komið fyrir dóm og unnið eið að framburði sínum.
Páll Arnór Pálsson greindi í skýrslu hjá lögreglunni frá síðastnefndu samtali við Róbert Árna Hreiðarsson. Róbert hafi þar sagst vera lögmaður Sigurðar, sem héldi nú fram að ferðin til Keflavíkur 19. nóvember 1974 hafi aldrei verið farin og að skýrslur sínar um hana væru því rangar. Páll kvaðst þá hafa sagt Róbert frá því að Sigurður hafi þegar gefið skýrslu fyrir dómi og verið heitfestur. Þetta hafi virst koma Róbert á óvart. Hann hafi því boðist til að lána Róbert skýrslur Sigurðar. Síðar þennan dag hafi hann farið á skrifstofu Jóns Oddssonar, verjanda Sævars, og sagt lítillega frá þessu samtali. Þaðan hafi þeir hringt til Róberts, þar sem Sigurður hafi verið staddur. Þeir Jón hafi því farið til fundar við Róbert og Sigurð. Sigurður hafi þar sagt frá atvikum á sama veg og í skýrslu sinni fyrir dómi 13. október 1977. Þá hafi verið rætt um viðurlög, sem Sigurður gæti átt yfir höfði sér fyrir rangan framburð. Sigurður hafi ekki verið hvattur til að breyta framburði sínum.
Hrefna Sigurðardóttir kvaðst í lögregluskýrslu hafa farið með Sigurði, eiginmanni sínum, til Róberts Árna Hreiðarssonar 11. október 1977. Róbert hafi viljað hafa hana með í ráðum um ákvörðun Sigurðar um að draga til baka framburð sinn. Hrefna sagði Róbert hafa skýrt út fyrir sér að Sigurður væri viss um að hafa ekki farið umrædda ferð til Keflavíkur og hefði því mikið á samviskunni ef menn yrðu í og með dæmdir vegna rangs framburðar hans. Rætt hafi verið um hvort Sigurður ætti á hættu gæsluvarðhald ef framburðurinn yrði dreginn til baka. Hrefna kvað samkomulag hafa orðið um að Róbert skrifaði bréf til að afturkalla framburð Sigurðar, en Sigurður hafi átt að fara til Róberts næsta morgun til að rita undir bréfið.
Auður Gestsdóttir túlkur kvaðst í lögregluskýrslu hafa verið viðstödd skýrslugjöf Sigurðar 14. desember 1976. Skýrslugjöfin hafi byrjað um morguninn, en hlé hafi verið gert í 20 til 30 mínútur í hádeginu. Auður kvað Karl Schütz hafa stjórnað skýrslugjöfinni, en hún hafi túlkað fyrir hann og vélritað skýrsluna. Taldi hún að Pétur Eggerz hafi tekið við túlkun af sér um eða eftir hádegi þennan dag. Hún kvað ýmsar spurningar hafa verið lagðar fyrir Sigurð um sendibifreiðina, hvort hann hafi ekið henni til Keflavíkur og hvort hann hafi verið staddur við Vatnsstíg. Sigurður hafi í byrjun sagst ekkert muna, en ekki neitað að hafa tekið þátt í þessu. Eftir hádegishlé hafi Sigurður byrjað að segja ótilkvaddur frá símtali Kristjáns á tilteknu kaffihúsi og síðan skýrt sjálfstætt frá. Þegar Sigurður hafi verið spurður sérstaklega hafi þess verið getið í skýrslunni. Við skýrslugjöfina hafi Sigurður verið rólegur og eðlilegur, hvorki æstur né niðurdreginn. Auður kvaðst ekki minnast þess að lesið hafi verið fyrir Sigurð úr skýrslum annarra eða að honum hafi verið sagt frá framburði annarra, en honum kunni að hafa verið greint frá því að aðrir hafi bendlað hann við málið. Hún taldi sig geta fullyrt að Karl Schütz hafi einn lagt spurningar fyrir Sigurð og hafi aðrir ekki komið þar að en þeir, sem hafi staðið að skýrslutökunni. Sigurði hafi engu verið hótað, hvorki gæsluvarðhaldi né öðru. Frásögn hans hafi komið án nokkurrar þvingunar af hendi þeirra, sem tóku skýrsluna. Auður kvaðst telja að skýrslutöku hafi verið lokið upp úr kl. 15 þennan dag.
Pétur Eggerz kvaðst í lögregluskýrslu muna glöggt eftir að hafa verið staddur við skýrslugjöf Sigurðar 14. desember 1976, en þó ekki við upphaf hennar. Pétur greindi frá því að áður en byrjað hafi verið að skrá framburðinn hafi farið fram almennt samtal milli Sigurðar og Karls Schütz og hafi þá virst eins og það brytist um í huga Sigurðar hvort hann ætti að segja frá. Hafi Sigurður meðal annars spurt hvort hann kæmist á sakaskrá ef hann segði frá ferðinni til Keflavíkur. Við skýrslutökuna hafi auk sín og Sigurðar verið staddir Karl Schütz, Auður Gestsdóttir og Sigurbjörn Víðir Eggertsson rannsóknarlögreglumaður. Pétur kvaðst alls ekki minnast þess að Sigurði hafi verið kynntur framburður annarra við skýrslutökuna eða sýnd skjöl. Aðspurður um hvort gengið hafi verið hart að Sigurði við skýrslugjöfina sagði Pétur að Karl Schütz hafi sýnt öllum, sem hann yfirheyrði, fyllstu kurteisi og beitt rökum. Hafi engin undantekning verið frá því við skýrslutökuna af Sigurði. Hótunum eða þvingunum hafi þar ekki verið beitt. Pétur kvaðst hafa talið Sigurð rólegan og eðlilegan við skýrslugjöfina. Hann kvaðst ekki geta fullyrt hvenær skýrslutökunni lauk.
Í dómi sakadóms greinir frá því að Sigurði hafi verið kynntar skýrslur Auðar Gestsdóttur og Péturs Eggerz. Sigurður kvað það vera rétt að sér hafi aldrei verið hótað neinu í skýrslugjöf hjá Karli Schütz og hafi hún farið fram eins og greint væri frá í nefndum skýrslum. Þá greinir einnig frá í dóminum að tveir lögreglumenn hafi borið að þeir hafi farið með Sigurð til sprautugjafar á stofu nafngreinds læknis milli kl. 16 og 17 hinn 14. desember 1976. Hafi læknirinn og tveir starfsmenn hans staðfest þá frásögn. Samkvæmt endurriti úr þingbók hafi Sigurður síðan komið fyrir dóm stutta stund kl. 18 sama dag.
Jón Þ. Waltersson mun hafa greint frá því í viðtali við lögregluna 14. desember 1976 að hann hafi átt sendibifreið þeirrar gerðar og þannig útlits, sem áður er lýst, og hafi Sigurður unnið við akstur hennar sumarið 1974. Hafi Guðmundur Valdimarsson tekið við akstrinum af Sigurði og sinnt því starfi meðal annars í nóvember 1974. Kvaðst Jón oftar en einu sinni hafa lánað Sigurði bifreiðina eftir að sá síðarnefndi hætti akstrinum og gæti það vel hafa gerst 19. nóvember 1974. Í skýrslu hjá lögreglunni 24. október 1977 kvaðst Jón hafa hitt Sigurð með lögreglumönnum milli kl. 19 og 19.30 líklega hinn 14. desember 1976. Sagðist hann hafa þá spurt hvort Sigurður hafi tekið bifreiðina umrætt sinn og myndi hann ekki betur en Sigurður hefði játað því. Hann hafi einnig spurt hvort olía hafi verið sett á bifreiðina og Sigurður sagst hafa gert það. Daginn eftir hafi Sigurður komið til sín. Hafi hann þá spurt hvort Sigurður hafi farið þessa ferð og hafi Sigurður neitað því, en sagst hafa áður verið á báðum áttum um það.
Guðmundur Valdimarsson gaf skýrslur hjá lögreglunni 14. desember 1976 og 26. október 1977. Hann kvaðst hafa starfað fyrir Jón Þ. Waltersson við akstur sendibifreiðar frá hausti til loka ársins 1974. Hann lýsti gerð og útliti bifreiðarinnar, sem hann fullyrti að hafi hvergi verið máluð í rauðum lit á þessum tíma, en framstuðari á henni hafi verið svartur. Guðmundur sagðist ekki kannast við Sigurð. Hann kvaðst hafa tekið fram við Jón að hann vildi ekki að aðrir væru að aka bifreiðinni meðan hann annaðist starfið og ekki vita til að það hafi gerst. Guðmundur neitaði því að hafa ekið bifreiðinni til Keflavíkur að kvöldi 19. nóvember 1974. Hafi bifreiðin verið notuð í slíka för, hafi það verið gert án vitundar hans og í heimildarleysi. Taldi hann ólíklegt að slíkt hafi getað gerst. Í síðari yfirheyrslunni kvað Guðmundur það hafa rifjast upp fyrir sér, að eitt sinn haustið 1974 hafi honum fundist að olía á bifreiðinni hafi verið minni að morgni til en hún hafi átt að vera. Dagana 19. og 20. nóvember 1974 hafi hann ekið fyrir tiltekinn viðskiptavin og hafi hann líklega farið heiman frá sér milli kl. 8 og 9 síðari morguninn. Hann kvaðst ekki mundu hafa tekið eftir því þótt bifreiðin hafi þá verið nýkomin úr akstri nema þeim mun kaldara hafi verið í veðri. Guðmundur greindi frá því hvar hann hafi að staðaldri lagt bifreiðinni þegar hann hafi skilið við hana hjá hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Hann fullyrti að hann hafi aldrei lagt henni á þeim tiltekna stað, þar sem Sigurður kvaðst hafa tekið hana.
Í dóm sakadóms er tekið upp að hluta efni fyrrnefndra yfirlýsinga, sem Róbert Árni Hreiðarsson ritaði í þágu Sigurðar Óttars Hreinssonar og birtar voru í fjölmiðlum. Í fyrri yfirlýsingunni, sem mun hafa birst í Morgunblaðinu 12. febrúar 1977, sagði meðal annars eftirfarandi: "3. Við rannsókn "Geirfinnsmálsins" kom ekkert fram, sem leiddi í ljós eða benti til, að skjólstæðingur minn hafi vitað, hvað átti að sækja eða flytja frá Keflavík kvöld það, sem Kristján Viðar sendi hann þangað. 4. Við rannsókn "Geirfinnsmálsins" kom ekkert fram, sem leiddi í ljós eða benti til, að skjólstæðingur minn hafi haft hina minnstu hugmynd um þá atburði, sem áttu sér stað í dráttarbrautinni umrætt kvöld." Í síðari yfirlýsingunni, sem mun hafa birst í dagblaðinu Tímanum 6. október 1977, sagði meðal annars þetta: "1. Við rannsókn "Geirfinnsmálsins" kom ekkert fram, sem leiddi í ljós eða benti til, að skjólstæðingur minn hafi vitað, hvað átti að sækja eða flytja frá Keflavík kvöld það, sem Geirfinnur er sagður myrtur. En í fréttaflutningi Tímans í gær er því haldið fram, að tilgangur fararinnar hafi verið að leita að eða stela áfengi. 2. Ekkert kom fram við rannsókn málsins, sem leiddi í ljós eða benti til, að skjólstæðingur minn hafi vitað um þá atburði, sem áttu sér stað í Dráttarbraut Keflavíkur umrætt kvöld. ... Nafnbirting skjólstæðings míns í fjölmiðlum fyrr á þessu ári og í Tímanum í gær hefur raskað mjög stöðu og högum skjólstæðings míns. Hefur hann sætt aðkasti frá fólki, sem telur hann "viðriðinn" málið. Má rekja það til óábyrgs fréttaflutnings fjölmiðla af málinu, hvað hann varðar."
II.3.H.
Guðný Sigurðardóttir, eiginkona Geirfinns, sagði í vitnaskýrslu að hann hafi farið á kvikmyndasýningu með þeim Þórði Ingimarssyni og Birni Marteinssyni að kvöldi sunnudagsins 17. nóvember 1974. Geirfinnur hafi komið heim eftir sýninguna og farið síðan með sömu mönnum á veitingahúsið Klúbbinn í Reykjavík. Þaðan hafi Geirfinnur komið heim um kl. 2 um nóttina og ekki getið um neitt óvenjulegt, sem þar hafi komið fyrir. Guðný kvað Geirfinn hafa farið til vinnu um kl. 10 morguninn eftir og verið eins og hann átti að sér að öðru leyti en því, að hann hafi verið eftir sig vegna drykkju kvöldið áður. Hann hafi komið heim úr vinnu um kl. 18 þann dag. Kvaðst Guðný ekki hafa orðið þá vör við neitt óvenjulegt í fari Geirfinns. Hún staðfesti frásögn manns, sem mun hafa verið kunnugur Geirfinni, um að hann hafi hringt til Geirfinns um kvöldmatarleytið þennan dag og óskað eftir aðstoð við að eima spíritus, sem sjór hafi komist í. Hafi Geirfinnur ætlað að athuga málið. Að morgni 19. nóvember 1974 hafi Geirfinnur farið í vinnu og komið heim um kl. 18. Eftir kvöldverð, eða um kl. 19, hafi síminn hringt og Geirfinnur svarað. Samtal hans hafi verið stutt og hann einskis getið um það að því loknu. Nokkru síðar, eða um kl. 19.30, kvaðst Guðný hafa verið að þvo upp þegar Geirfinnur hafi komið skyndilega fram af baðherbergi og sagt: "Varstu ekki að öskra, eða mér heyrðist þú öskra, eins og verið væri að drepa þig". Sagði Guðný að þau hafi farið út til að gæta að því hvort hljóð hafi borist þaðan, en einskis orðið vör. Hafi þá tal um þetta fallið niður. Guðný kvaðst hafa farið út um kl. 20 og komið aftur hálfri eða einni klukkustund síðar. Hafi Þórður Ingimarsson þá verið í heimsókn hjá Geirfinni, hún hafi gefið þeim kaffi og þeir síðan sýnt á sér fararsnið um kl. 22. Geirfinnur hafi sagt syni þeirra að hann ætlaði aðeins að skreppa út og hafi hún þá beðið Geirfinn um að kaupa fyrir sig vindlinga. Geirfinnur og Þórður hafi haldið brott á bifreið þess síðarnefnda, en Geirfinnur komið til baka um stundarfjórðungi síðar. Rétt í því hafi síminn hringt og sonur þeirra svarað. Kvað Guðný hann hafa kallað í föður sinn, en sagt sér síðar að spurt hafi verið um Geirfinn með fullu nafni. Sagðist Guðný hafa heyrt Geirfinn segja í símann: "Ég kom" eða "Ég er búinn að koma", en þar á eftir: "Ég kem". Samtalið hafi staðið stutt og Geirfinnur ekki virst segja annað en framangreind orð. Hann hafi síðan haldið út á ný og farið á bifreið þeirra, en ekki fremur en venjulega sagt Guðnýju hvert hann væri að fara. Eftir þetta hafi hún hvorki séð hann né frétt af honum. Guðný lýsti klæðaburði Geirfinns meðal annars svo, að hann hafi verið í blárri mittisúlpu með loðfóðri og áfastri hettu. Hann hafi verið í grænum flauelsbuxum, grænköflóttri skyrtu og brúnum leðurskóm, sem hafi náð upp á miðjan legg. Þá hafi hann verið með svart seðlaveski, sem í voru ýmis skilríki, en Guðný kvaðst ekki vita til að þar hafi verið peningar.
Sigurður Jóhann Geirfinnsson, sonur Geirfinns Einarssonar og Guðnýjar Sigurðardóttur, sagðist í vitnaskýrslu hafa komið heim milli kl. 21 og 22 að kvöldi 19. nóvember 1974. Hann hafi eftir það svarað í síma. Dimmraddaður karlmaður hafi spurt um Geirfinn með fullu nafni. Sigurði hafi fundist af röddinni að um ungan mann væri að ræða. Sigurður kvaðst hafa kallað í föður sinn, en ekki heyrt orðaskipti hans í símtalinu. Sigurður sagðist síðan hafa spurt Geirfinn hvert hann væri að fara og ekkert svar fengið. Ennfremur hafi hann spurt hvort hann mætti fara með og Geirfinnur neitað því.
Þórður Ingimarsson greindi frá því í vitnaskýrslu að hann hafi farið eftir kvikmyndasýningu með Geirfinni og Birni Marteinssyni í Klúbbinn að kvöldi 17. nóvember 1974 og hafi þeir verið þar frá um kl. 22 til um kl. 1 um nóttina. Þórður kvaðst hafa verið mest allan tímann með Geirfinni og hafi þeir hitt þar ýmsa Keflvíkinga. Einnig hafi Geirfinnur hitt mann í stiga, þar sem þeir Þórður hafi verið á gangi um veitingahúsið. Geirfinnur og maður þessi hafi tekið tal saman og virst þekkjast, en Þórður heyrði ekki samtal þeirra. Þórði fannst hann hafa séð manninn áður, en kom honum þó ekki fyrir sig. Sagðist Þórður hafa beðið stutta stund eftir Geirfinni, en gengið síðan áfram og Geirfinnur komið skömmu síðar. Um þennan mann hafi þeir ekkert rætt, en Þórður lýsti honum svo að hann hafi verið 25 til 30 ára, grannur, hávaxinn og frekar ljóshærður eða skolhærður. Þórður taldi sig mundu þekkja manninn aftur. Honum voru sýndar myndir af Kristjáni, Sævari og Guðjóni, en hann kvaðst engan þeirra hafa séð fyrr. Þórður sagðist ekki hafa séð Geirfinn ræða við aðra ókunnuga í Klúbbnum, en þeir hafi þó eitthvað orðið viðskila þar. Hann minntist einskis óvenjulegs í fari Geirfinns eða framkomu eftir að þeir yfirgáfu veitingahúsið og heldur ekki næstu tvo daga þegar þeir hittust í vinnu. Þórður sagðist hafa komið heim til Geirfinns um kl. 21 að kvöldi 19. nóvember 1974 til að fá hann með sér í kvikmyndahús. Geirfinnur, sem hafi verið einn heima, hafi hafnað því þar sem hann þyrfti að hitta einhverja menn í bifreið kl. 22 við Hafnarbúðina. Geirfinnur hafi sagt að hann vissi ekki hverjir þessir menn væru eða hvaðan þeir kæmu, en Þórður kvaðst hafa tekið þetta þannig að Geirfinnur vildi ekki segja sér frá þessu. Þórði hafi fundist að Geirfinnur ætlaði að hitta einhverja, sem hann þekkti eða hafi hitt áður, en ekkert hafi komið fram, sem tengdi stefnumót Geirfinns við dvöl þeirra í Klúbbnum þann 17. sama mánaðar, eða um erindið að öðru leyti. Þórður kvað Geirfinn hafa sagt að hann hafi verið boðaður til stefnumótsins með símtali, hann ætti að koma einn og fótgangandi og þætti honum þetta dularfullt. Geirfinnur hafi talað um þetta fremur eins og í gríni eða um gabb væri að ræða og skotið því inn að hann ætti ef til vill að hafa með sér barefli. Hann hafi einnig rætt um að kona sín mætti ekki vita af þessu og hafi virst eins og þeir, sem hann ætti að hitta, hafi ekki viljað að öðrum yrði kunnugt um stefnumótið. Þórður kvaðst síðan hafa horft á sjónvarp með Geirfinni og rætt við hann um önnur efni. Þeir hafi drukkið kaffi, sem Guðný gaf þeim, en um kl. 22 hafi hann ekið Geirfinni að stað í námunda við Hafnarbúðina. Þórður sagðist ekki hafa séð Geirfinn eftir þetta.
Björn Marteinsson kvaðst í vitnaskýrslu hafa farið í kvikmyndahús með Geirfinni og Þórði Ingimarssyni að kvöldi 17. nóvember 1974 og síðan veitingahúsið Klúbbinn, þar sem þeir hafi verið frá um kl. 22 og þar til því var lokað um nóttina. Björn kvaðst hafa orðið viðskila við Geirfinn fljótlega eftir komu þeirra á veitingahúsið og lítið hitt hann þar. Þeir hafi síðan farið þrír saman til Keflavíkur. Minntist Björn einskis sérstaks úr samræðum þeirra á heimleiðinni.
Gunnar Svanur Hafdal sagðist í vitnaskýrslu hafa verið í kunningsskap við Geirfinn á árunum 1969 til 1971, en lítið hitt hann eftir það. Gunnar kvaðst hafa hitt Geirfinn í Klúbbnum að kvöldi 17. nóvember 1974 um kl. 23.30 og hafi þeir ræðst við í um 5 mínútur, einkum um vinnu Geirfinns og heimili.
Guðlaug Konráðs Jónsdóttir kvaðst í vitnaskýrslu hafa verið við afgreiðslustörf í Hafnarbúðinni að kvöldi 19. nóvember 1974, en þangað hafi þá komið Geirfinnur, sem hún var kunnug, og keypt vindlinga. Taldi hún Geirfinn hafa verið á óvenju hraðri ferð. Tíu eða fimmtán mínútum síðar hafi komið í Hafnarbúðina maður, sem hafi hagað sér allundarlega, virst vera órólegur og sagst ekkert ætla að fá, heldur aðeins að doka við, þegar hann var spurður hvort aðstoða mætti hann. Þessi maður hafi síðan fengið að hringja. Hann hafi ekki notað símaskrá og verið mjög stutta stund í símanum, þannig að jafnvel væri óvíst hvort hann hafi fengið svar. Eftir þetta hafi hann lagt peninga á borðið og gengið rakleitt út. Guðlaug gaf nokkra lýsingu á útliti mannsins og klæðaburði. Hún mun hafa verið við sakbendingu hjá lögreglunni, þar sem Kristjáni var stillt upp í hópi manna, en sagt að Kristján, sem hún hafi vitað áður hver væri, hafi ekki verið maðurinn, sem fyrrgreind frásögn sé um. Taldi Guðlaug sig ekki hafa séð Kristján eða Sævar í Hafnarbúðinni umrætt kvöld, en Kristján kynni þó að hafa þá komið þangað og fengið að hringja án þess að hún yrði þess vör. Þá tók Guðlaug fram að leirmynd af manninum, sem kom í Hafnarbúðina að kvöldi 19. nóvember 1974, hafi verið gerð án samráðs við sig og hafi hún fyrst vitað um myndina þegar hún var sýnd í sjónvarpi. Kvaðst hún hafa grun um að leirmyndin hafi verið miðuð við mynd af Magnúsi Leópoldssyni, enda hafi lögreglan sýnt henni meðal annars mynd af honum og hún sagt að svipur hans og höfuðlag væri ekki ósvipað manninum, sem átti í hlut, þótt hún hafi engan veginn bent á Magnús.
Ásta Elín Grétarsdóttir sagðist í vitnaskýrslu hafa verið stödd í Hafnarbúðinni að kvöldi 19. nóvember 1974. Kannaðist hún við að Geirfinnur hafi komið þangað og keypt eitthvað. Nokkru eftir það hafi maður henni ókunnugur komið þar inn og taldi hún víst að hann hafi verið utanbæjarmaður. Hann hafi fengið að hringja úr síma, sem hafi verið innan við afgreiðsluborð, talað þar í stutta stund, síðan greitt fyrir símtalið og gengið rakleitt út. Ásta lýsti nokkuð útliti mannsins í lögregluskýrslu, sem hún staðfesti fyrir dómi, en við sakbendingu, sem hún sótti tvívegis, taldi hún sig ekki geta bent á manninn. Hún gat heldur ekkert sagt um hvort ljósmyndir, sem henni voru sýndar af Kristjáni, Sævari og Guðjóni, líktust manninum. Ásta sagðist hafa verið eitthvað til ráðuneytis um gerð leirmyndar af manninum, en verið ósátt við munnsvipinn á myndinni, auk þess að hárið hafi þar verið of snyrtilegt.
Guðmundur Magnússon kvaðst í skýrslu fyrir dómi hafa starfað sem framkvæmdastjóri bílaleigunnar Geysis frá 1973 til loka ársins 1975. Á því tímabili hafi félagið haft til útleigu nokkra tugi Volkswagen bifreiða, sem hafi allar verið ljósbláar að lit. Hann sagðist kannast við öll ákærðu í þessum þætti málsins, en Erla hafi skipt töluvert við bílaleiguna og Guðjón einnig einu sinni. Hann minntist þess ekki að Erla eða Guðjón hafi fengið leigða bifreið á árinu 1974 án þess að skriflegur samningur væri gerður. Árið eftir hafi Erla hins vegar fengið að láni bifreiðir í greiðaskyni og án endurgjalds, enda hafi þá verið hætt að húftryggja bifreiðirnar og ekki sama þörf og áður á að skriflegir samningar væru gerðir. Guðmundi var kynntur framburður Erlu og Sævars um að þau hafi fengið leigðar bifreiðir hjá honum án skriflegra samninga. Hann kvaðst ekki geta staðhæft um þetta, en taldi það ólíklegt. Hann minntist þess ekki að hafa þekkt Erlu í nóvember 1974 og gæti því ekki verið að hún hafi tekið til á heimili hans á þeim tíma. Nánar aðspurður sagðist Guðmundur þó ekkert vilja fullyrða um hvort hann hafi lánað Erlu og Sævari bifreið í nóvember 1974, en hann kvaðst geta ímyndað sér að þau hafi stolið bifreið á bílaleigunni, enda hafi það verið auðvelt og gerst í nokkrum mæli. Guðmundur kvaðst hafa haft mjög lág laun í starfi sínu og hafi hann því gripið til þess ráðs að lána bifreiðir án leigusamninga og taka greiðslur til sín.
Sigurbjörg Ólöf Guðjónsdóttir, móðir Sævars, greindi frá því að hún minntist þess að hafa farið á sýningu á Kjarvalsstöðum með Sævari og Erlu, en sér væri þetta minnisstætt því hún hafi mjög sjaldan farið út á kvöldin. Þau hafi sótt sig í jeppa á vinnustað um kl. 18. Taldi Sigurbjörg sýnt af þeirri tímasetningu að þetta hafi gerst á þriðjudegi. Hún kvað þau hafa farið heim til hennar og neytt kvöldverðar, en síðan farið líklega rétt fyrir kl. 20 á Kjarvalsstaði með viðkomu á heimili Sævars og Erlu. Gengið hafi illa að fá stæði fyrir bifreiðina við Kjarvalsstaði og hafi fyrsta sýning kvikmyndarinnar, sem þau hugðust sjá þar, verið byrjuð þegar þau komu inn. Hafi þau því skoðað aðra sýningu og séð kvikmyndina þegar hún hafi verið sýnd öðru sinni, en það hafi tekið um hálfa klukkustund. Eftir sýninguna hafi þau hitt Vilhjálm Knudsen ásamt fleirum og ræðst við um stund, en síðan skoðað ljósmyndasýningu. Eftir það hafi þau verið um hríð á kaffistofu, en hún hafi ekki mátt vera að því að þiggja þar boð Sævars um kaffi, þar sem hún hafi orðið að hraða sér heim af sérstökum ástæðum. Sævar og Erla hafi ekið sér heim og ekki virst vera að flýta sér. Þangað hafi þau komið kl. 22.10 og leiðir þeirra skilið, en um ferðir Sævars og Erlu eftir þetta vissi hún ekki. Sigurbjörg kvað Erlu hafa verið í síðri peysu þetta kvöld, en ekki kápu.
Anna Björg Ciesielski, systir Sævars, kvaðst minnast þess að móðir þeirra hafi farið eitt sinn að kvöldlagi á kvikmyndasýningu á Kjarvalsstöðum með Sævari og Erlu. Þau hafi borðað kvöldmat að Grýtubakka 10 og farið á sýninguna um kl. 20. Móðir hennar hafi komið aftur heim um kl. 22. Kvaðst Anna ekki vita um ferðir Sævars og Erlu eftir þann tíma.
Vilhjálmur Knudsen sagðist hafa kynnst Sævari vorið 1974, en Sævar hafi sýnt kvikmyndagerð áhuga og verið með sér nokkrum sinnum við kvikmyndun á tímabilinu frá október til desember 1974. Vilhjálmur kvað kvikmynd, sem hann hafi gert með föður sínum um eldgosið í Heimaey, hafa verið sýnda á Kjarvalsstöðum um þessar mundir. Hafi sýningarnar verið fjórar að kvöldi 19. nóvember 1974. Fyrsta sýning hafi venjulega byrjað um kl. 20 en hafi þó getað dregist í 10 mínútur. Hver sýning hafi tekið hálfa klukkustund og hlé verið gert í um stundarfjórðung á milli sýninga. Vilhjálmur kvað sér vera minnisstætt að hafa komið á Kjarvalsstaði með eiginkonu sinni og föður um kl. 20 umrætt kvöld og hafi þetta verið eina kvöldið, sem hann hafi farið á sýninguna. Fyrstu sýningunni kunni að hafa seinkað og sú næsta þá hafist um kl. 20.50. Vilhjálmur sagðist hafa hitt Sævar og móður hans að Kjarvalsstöðum um kl. 21 þetta kvöld og hafi Sævar kynnt hann fyrir móður sinni. Í stuttu samtali við Sævar hafi honum skilist að Sævar hafi ekki séð fyrstu sýninguna, en það hafi móðir Sævars hins vegar gert. Kvaðst Vilhjálmur ekki hafa merkt að Sævar væri að flýta sér, en honum fyndist eins og Sævar væri að fara eitthvað. Hafi honum fundist eins og Sævar hafi látið orð falla um að fara til Keflavíkur, en það hafi að minnsta kosti gerst einhvern tíma um þær mundir. Vilhjálmur greindi frá því að Sævar hafi eitt sinn komið til sín seint að kvöldi, eða milli kl. 23 og 23.30, til að ræða um kvikmyndagerð. Hann sagðist halda að þetta hafi gerst 22. nóvember 1974, en ekki vildi hann þó synja fyrir að þetta gæti hafa verið 19. sama mánaðar.
Páll Konráð Konráðsson gaf skýrslur hjá lögreglunni 14. apríl, 7. maí og 9. september 1976 og fyrir dómi 1. júlí 1977. Hann kvaðst hafa dvalist að Laugavegi 32 haustið 1974 og fyrri hluta vetrarins. Kristján hafi þá dvalist þar mikið hjá sér. Páll minntist þess að dag einn sennilega um kl. 16 hafi sími á ganginum að Laugavegi 32 hringt og hafi hann svarað. Taldi Páll öruggt að þetta hafi verið sama dag og Geirfinnur hvarf. Sævar hafi verið í símanum, hann hafi kynnt sig og spurt um Kristján. Páll kvaðst hafa sótt Kristján, en ekki heyrt orðaskipti hans í símanum. Kristján hafi síðan sagt sér að Sævar bæði sig um að koma í sjóferð til að sækja spíra. Í skýrslum Páls gætti misræmis um hvort Kristján hafi sagt að farið yrði í sjóferð frá Hafnarfirði eða Keflavík. Páll kvaðst hafa rætt um þetta við Kristján og látið í ljós áhuga á að fara með, sem Kristján hafi tekið vel. Kristján hafi ekki minnst á aðra en Sævar í sambandi við ferðina. Milli kl. 20 og 21 þetta kvöld hafi dyrabjöllu verið hringt að Laugavegi 32 og hafi Kristján farið til dyra. Kvaðst Páll ekki vita hver hafi hringt. Kristján hafi skipt um jakka og farið á brott, en áður hafi verið afráðið að Páll færi ekki með. Páll sagðist hafa horft á eftir Kristjáni út um glugga. Hann hafi séð Kristján í fylgd með manni, sem hann þekkti ekki en taldi víst að hafi ekki verið Sævar. Þeir hafi gengið yfir Laugaveg og að bifreið vestan megin á Vatnsstíg. Páll kvað þetta hafa verið fólksbifreið, sem hafi ekki verið stór en hann gæti ekki lýst nánar. Hafi fólk verið í bifreiðinni, þar á meðal ökumaður, og Kristján og förunauturinn sest þar inn. Sagðist Páll ekki hafa fylgst frekar með þessu. Kristján hafi komið aftur um nóttina eða daginn eftir og vantað einhver föt. Af ástæðum, sem Páll kvaðst ekki minnast, hafi hann farið út í bifreið, sem Kristján hafi komið í, til að sækja jakka. Hafi hann þurft að elta bifreiðina og hafi verið í henni karl og kona, sem hann taldi að hafi ekið. Hann kvaðst hafa spurt um jakkann og konan rétt sér hann. Páll sagðist telja sig kannast við fólkið í bifreiðinni, en ekki koma fyrir sig hverjir það hafi verið. Þetta gætu þó hafa verið Sævar og Erla. Páll kvaðst telja Kristján hafa breyst eftir þessa ferð. Hafi Kristján aukið neyslu lyfja og helst viljað vera í vímu. Kristján hafi ekkert viljað ræða um fyrrgreint ferðalag við sig. Páll sagðist minnast þess að hafa farið um helgi í veitingahúsið Klúbbinn með Sævari og Kristjáni, sem hafi rætt við menn í þeim tilgangi að ná af þeim veskjum. Hann kvaðst ekkert geta sagt um hvort Sævar og Kristján hafi hitt Geirfinn við þetta tækifæri. Þá minntist Páll þess að Sigurður Óttar Hreinsson hafi hringt í Kristján sama dag og áður getur, en um samtal þeirra vissi hann ekkert. Páll gat þess að þeir Kristján hafi neytt lyfja um mánaðarskeið fyrir þá atburði, sem að framan greinir, og kvaðst hann af þeim sökum ekki minnast atburðanna eins vel og annars hefði verið. Í dómi Hæstaréttar er þess getið að þar hafi verið lögð fram yfirlýsing Páls 10. janúar 1980, þar sem hann sagðist ekki geta staðið við framburð sinn í málinu, en hann hafi ekki komið fyrir dóm eftir að yfirlýsingin var gefin.
Hulda Björk Ingibergsdóttir gaf skýrslu hjá lögreglunni 14. apríl 1976 og 24. febrúar 1977 og fyrir dómi 1. júlí 1977. Hún kvaðst hafa dvalist mikið að Laugavegi 32 hjá Páli Konráð Konráðssyni haustið 1974, en þaðan hafi þau farið rétt eftir 20. nóvember það ár. Kristján hafi verið mikið þar. Einhverju sinni seinni hluta dags, sem Hulda taldi afar líklegt að hafi verið 19. nóvember 1974, hafi Sævar hringt í Kristján. Eftir símtalið hafi Kristján sagt að Sævar væri að biðja sig um að koma til Keflavíkur til að sækja spíra. Hafi Kristján beðið Pál um að koma með. Einhvern tíma um kvöldið, líklega frekar snemma, hafi dyrabjöllu verið hringt. Kvaðst Hulda ekki vita hver hafi verið þar á ferð, en Kristján hafi verið að bíða eftir manni. Kristján hafi farið til dyra og haldið brott fljótlega á eftir. Hún kvað Kristján hafa komið til baka um hádegi daginn eftir og sagst hafa gist að Grettisgötu 82 um nóttina. Hafi Kristján sagst hafa farið þar í bað og haft fataskipti. Kristján hafi ekki minnst frekar á ferðina til Keflavíkur, en ljóst hafi verið að þar hafi hann engan spíra fengið.
Þórdís Bára Hannesdóttir gaf skýrslu hjá lögreglunni 10. apríl 1976 og fyrir dómi 12. sama mánaðar. Hún kvaðst hafa kynnst Erlu þegar þær unnu saman hjá ritsímanum, en þar hafi Erla hætt 1974. Þórdís skýrði meðal annars frá því að haustið eftir hafi Erla komið á símstöðina og sagst vera hrædd. Hafi henni skilist á Erlu að sú síðarnefnda hafi verið í mannlausu húsi á flótta undan Sævari og minnti hana örugglega að Erla hafi sagt að þetta hafi gerst í Keflavík. Hafi Erla sagst hafa verið með hálfan pakka af vindlingum í húsinu um nóttina og hafa fengið far til Reykjavíkur morguninn eftir. Sagði Þórdís að sér hafi skilist að þessi atvik hafi gerst rétt áður en Erla sagði frá þeim. Þórdís kvaðst hafa hitt Erlu fáum dögum fyrir skýrslugjöf sína og hafi Erla þá sagt að ökumaður hafi gefið sig fram. Hún sagðist þá hafa sagt Erlu að hún myndi eftir frásögninni um dvöl í mannlausa húsinu og hafi það komið Erlu á óvart. Þórdís staðfesti framburð sinn fyrir dómi með eiði.
Guðmundur Sigurður Jónsson kvaðst í skýrslu fyrir dómi 26. maí 1977 hafa farið í afmæli fóstru sinnar að kvöldi 19. nóvember 1974. Snemma næsta morgun hafi hann farið til Sandgerðis í heimsókn til dóttur sinnar, sem hafi búið þar. Hann hafi dvalist þar stutt og haldið aftur til Reykjavíkur í bifreið sinni, sem hann hafi verið einn í. Guðmundur kvaðst hafa verið í Keflavík á þessari leið sinni um kl. 10 um morguninn og tekið þar stúlku upp í bifreiðina. Fyrir dómi sagði Guðmundur að sig hafi minnt í byrjun að hann hafi tekið stúlkuna upp í við afleggjara að Keflavíkurflugvelli frá Njarðvík, en við nánari umhugsun teldi hann þetta hafa gerst vestast á Hafnargötu í Keflavík. Guðmundur lýsti útliti stúlkunnar og sagði meðal annars að hún hafi ekki verið klædd í kápu. Hann kvað hana hafa veifað og hafi hann stöðvað bifreiðina. Hafi komið fram að hann væri á leið til Reykjavíkur og hafi stúlkan gefið í skyn að það hentaði sér. Á leiðinni hafi stúlkan sagst vinna í fiskverkunarstöð í Grindavík, en ekki veitt fullnægjandi svar við spurningu hans um hver fiskverkunarstöðin væri. Hann hafi sagt henni að hann ynni í Grindavík, en ætti ekki leið þangað fyrr en eftir hádegið. Hún hafi þá sagst geta fengið þangað far frá vegamótum Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Hún hafi farið þar út úr bifreiðinni og hafi hann ekið rólega af stað. Hann hafi veitt því eftirtekt rétt á eftir að vörubifreið, sem hann hafi mætt, hafi ekið inn á Grindavíkurveg og hægt á sér. Stúlkan hafi ekki þegið far með bifreiðinni, sem hann taldi ökumanninn hafa boðið henni. Skömmu síðar hafi verið ekið fram úr bifreið hans brúnleitri vörubifreið, sem honum hafi sýnst stúlkan sitja í. Hann sagðist hafa sagt vinnufélaga sínum Sigurvin Hannibalssyni frá þessu atviki síðar sama dag, þegar hann hafi verið kominn til vinnu. Guðmundur sagðist hafa átt rauða bifreiða af gerðinni Skoda um þessar mundir. Hann væri þó ekki viss um að hann hafi verið á þeirri bifreið, því að um þessar mundir hafi hann fengið lánaða hjá vinnufélaga sínum gamla Moskvitch bifreið, gulgræna að lit. Hann taldi sennilegt að það hafi verið í þetta skipti. Við sakbendingu hjá lögreglunni 30. mars 1976 benti Guðmundur á Erlu í hópi stúlkna og taldi hana líkasta þeirri, sem hafi fengið far með sér. Kvaðst hann telja að þar hafi verið um hana að ræða.
Sigurvin Hannibalsson gaf skýrslu hjá lögreglunni 1. júní 1977. Hann greindi frá því að á tímabilinu frá október til desember 1974 hafi vinnufélagi sinn Guðmundur Sigurður Jónsson komið eitt sinn til vinnu í Grindavík um hádegisbil. Guðmundur hafi sagst hafa tekið stúlku upp í bifreið í Keflavík og ekið henni að Grindavíkurvegi, þar sem hún hafi farið út. Sigurvin sagðist ekki minnast þess að Guðmundur hafi sagst hafa séð stúlkuna í annarri bifreið á leið sinni til Reykjavíkur. Guðmundur hafi hins vegar talað um að sér hafi fundist stúlkan skrýtin, en Sigurvin kvaðst ekki minnast þess hvað Guðmundur hafi nefnt í því sambandi. Sigurvin sagðist minna að Guðmundur hafi átt Skoda bifreið á þessu tímabili, en um þær mundir hafi Guðmundur nokkrum sinnum fengið lánaða Moskvitch bifreið hjá vinnufélaga þeirra.
Ingvar Georg Engilbertsson greindi frá því í lögregluskýrslu 10. júní 1977 að hann hafi unnið með Guðmundi Sigurði Jónssyni og Sigurvin Hannibalssyni frá því síðla sumars 1974. Um vorið það ár hafi hann keypt gamla Moskvitch bifreið, hvíta að lit, en hann hafi losað sig við hana í lok ársins og hafi henni verið fargað vorið á eftir. Ingvar kvaðst minnast þess að hafa lánað Guðmundi bifreiðina um haustið 1974, jafnvel oftar en einu sinni, en um nánari tímasetningu, erindi Guðmundar eða ferðir gat hann ekki borið.
Pálína Jóna Guðmundsdóttir greindi frá því í lögregluskýrslu 27. maí 1977 að hún hafi hitt föður sinn, Guðmund Sigurð Jónsson, í afmæli frænku sinnar að kvöldi 19. nóvember 1974. Hafi Guðmundur rætt um að heimsækja hana morguninn eftir í Sandgerði, en hann hafi um þær mundir unnið í Grindavík, að hún taldi á vöktum. Guðmundur hafi komið snemma morguninn eftir, eða um kl. 9, en hann hafi sagst hafa komið við á vinnustað eiginmanns hennar til að fá lýsingu á leiðinni heim til þeirra. Pálína kvað Guðmund hafa dvalist hjá sér um 30 til 40 mínútur. Hana minnti að Guðmundur hafi nefnt við brottför sína að hann ætti ekki að mæta til vinnu fyrr en um hádegi. Hún kvaðst ekki hafa séð á hvers konar bifreið Guðmundur hafi verið.
Þórarinn Gunnar Reynisson kvaðst í lögregluskýrslu 27. maí 1977 hafa verið með eiginkonu sinni, Pálínu Jónu, í afmæli að kvöldi 19. nóvember 1974. Hafi faðir Pálínu rætt þar um að koma í heimsókn morguninn eftir, en þau hafi þá verið nýflutt til Sandgerðis. Þórarinn kvað Guðmund hafa komið á vinnustað sinn um kl. 8.30 morguninn eftir og spurt um leiðina heim til þeirra. Hafi hann gefið Guðmundi leiðbeiningar. Sagðist Þórarinn ekki hafa séð á hvers konar bifreið Guðmundur hafi verið. Hafi Pálína síðan sagt sér að faðir hennar hafi haft mjög skamma viðdvöl hjá sér.
Ámundi Rögnvaldsson skýrði frá því í lögregluskýrslu 11. apríl 1976 að í nóvember 1974 hafi hann ekið rauðri vörubifreið reglulega á milli Siglufjarðar og Keflavíkur í tilteknum vöruflutningum. Samkvæmt skrám um þessar ferðir hafi hann losað farm í Keflavík meðal annars snemma morguns 20. nóvember 1974 og haldið þaðan áleiðis til Reykjavíkur um kl. 9.30. Ámundi kvaðst minnast þess að í einni af ferðum sínum á þessu tímabili hafi hann tekið stúlku upp í bifreiðina á Reykjanesbraut um 400 metrum fyrir austan Grindavíkurveg. Hún hafi verið ein síns liðs og ekki nægilega vel búin til að vera fótgangandi á ferð í veðri, eins og þá hafi verið. Stúlkan hafi sagst búa í Njarðvík og hafa gengið þaðan á leið til Reykjavíkur, en bifreið hennar hafi ekki farið í gang þá um morguninn. Ámundi minntist þess ekki að stúlkan hafi rætt frekar um hagi sína og hafi þau lítið talað saman á leiðinni. Stúlkan hafi sagst ætla að koma við í heimsókn í Hafnarfirði og hafi hann því lagt lykkju á leið sína til að geta ekið henni þar inn í miðbæ. Stúlkan hafi þakkað kærlega fyrir aksturinn og hann haldið á brott. Lögreglan lét Ámunda sjá Erlu ásamt fjórum öðrum stúlkum 11. apríl 1976. Mun Ámundi ekki hafa þekkt neina þeirra sem stúlkuna, sem hann hafi tekið upp í bifreið sína, en hann kvað hana hugsanlega samt geta verið í hópnum þótt hann þekkti hana ekki.
Guðrún Unnur Ægisdóttir, fyrrverandi eiginkona Guðjóns Skarphéðinssonar, gaf skýrslu hjá lögreglunni 15. nóvember 1976 og fyrir dómi 17. sama mánaðar. Hún greindi meðal annars frá kynnum þeirra Guðjóns af Sævari og Erlu, svo og því að hún vissi ekki betur en að Guðjón hefði verið heima að kvöldi 19. nóvember 1974, þótt hún gæti ekki fullyrt um það, enda hafi Guðjón aldrei farið út á kvöldin eða um næturnar á þessu tímabili.
Í dómi sakadóms er að öðru leyti greint frá vitnaskýrslum í þessum þætti málsins frá Sigríði Malmberg, Sjöfn Traustadóttur, Hrefnu Björgu Óskarsdóttur, Jóhanni Guðfinnssyni, Ellert Birni Skúlasyni, Elínu Guðnadóttur, Sigurði Kristinssyni, Sævari Sigurðssyni, Sverri Lútherssyni, Einari Jónssyni, Sverri Karlssyni, Sighvati Andréssyni, Jóni Sigurðssyni, Ásdísi Gígju Halldórsdóttur, Hinrik Jóni Þórissyni, Leifi Vilhjálmssyni og Sólrúnu Elídóttur, auk þeirra sem er getið í næstu köflum hér að framan og eftir.
II.3.I.
Við handtöku Guðjóns 12. nóvember 1976 var leitað á heimili hans. Fannst þar ekki annað tengt málinu en minnisbók, þar sem ritaðar höfðu verið ýmsar upplýsingar varðandi það. Í dómi sakadóms segir að meðal annars hafi eftirfarandi verið þar skráð: "Geirfinnsmál fyrst nefnt í Mbl. föstud. 22. nóv. á 2. síðu sagður þar hafa horfið af heimili sínu kl. 22.30. Laugard. 23. talað um dularfullt mannshvarf. Blá úlpa grænar buxur úr flaueli - grænköflótt skyrta brúnum skóm. Villa í frásögn því þar er talað um ferð Geirfinns frá heimili sínu með kunningja sínum þriðjud.kvöld 18, hlýtur að eiga að vera 19. nóv. Fyrir liggur nákvæm lýsing á manninum, sem hringdi í Hafnarbúð kl. 20.00-23. Þriðjud. 24. nóv. 3. síða löng grein af hverju hugsanlegt morðmál. Þórður Ingimarsson vinnufélagi Geirfinns. Ellert Skúlason vinnuveit. Miðvikud. 27. nóv. Mynd tekin af Geirfinni í Klúbbnum 17. nóv. hann var þar á dansleik ásamt kunningjum sínum. Mynd af Leirfinni er í því blaði. Fimmtud. 28. fengin nöfn 70 manna af landinu öllu. Maður á Akureyri á G-bíll kl. 6.20 þriðjud. 26. nóv. á smurstöð starfsm. þóttust þekkja manninn af leirstyttunni. Hvaða tegund af bíll var þetta. 29. nóv. Hópurinn farinn að þrengjast." Þá er í dóminum einnig greint frá eftirfarandi tilvísun á sama stað til dagblaðsins Þjóðviljans: "Þriðjud. 26. nóv. Mannshvarfið í Keflavík". Í lögregluskýrslu 12. nóvember 1976 gaf Guðjón þá skýringu á þessu að þegar hann hafi verið kallaður til skýrslugjafar hjá lögreglunni 14. maí sama árs hafi honum orðið ljóst að farið væri að bendla hann við málið. Hann hafi því farið á Landsbókasafnið til að skoða umfjöllun blaða um málið. Hann hafi skrifað helstu atriðin hjá sér og einnig upplýsingar um atburði frá sama tíma til að geta rifjað þetta tímabil upp.
Í dómi sakadóms er greint frá vottorði Veðurstofunnar um veður á Keflavíkurflugvelli að kvöldi 19. nóvember 1974. Af því má ráða að þá hafi verið rigning eða úði og hiti allt að sex stigum.
Lögreglan mældi 11. janúar 1977 vegalengdir á milli staða, sem ákærðu í þessum þætti málsins sögðust í skýrslum sínum hafa komið á að kvöldi 19. nóvember 1974, og þann tíma, sem tæki að aka þessar leiðir. Að því leyti, sem ekki hafi verið greint frá akstursleiðum í skýrslum ákærðu, hafi lögreglumennirnir valið þær, sem þeir töldu eðlilegastar. Í dómi sakadóms er þessum mælingum lýst í einstökum atriðum. Þá er greint frá því að á grundvelli mælinganna hafi lögreglumennirnir gert töflu um áætlaðan komutíma og brottfarartíma á hverjum stað og reiknað með biðtíma, þar sem það hafi átt við. Áætlaður hafi verið stuttur biðtími, þar sem upplýst hafi verið að ákærðu hafi verið orðnir of seinir á stefnumót í Keflavík. Niðurstaða áætlana lögreglumannanna hafi orðið sú, að miðað við brottfarartíma kl. 20.40 frá Kjarvalsstöðum hafi komutími til Hafnarbúðarinnar í seinna skiptið getað verið kl. 22.20. Í framburði lögreglumannanna fyrir dómi kom fram að ekið hafi verið allhratt og trúlega yfir löglegan hraða, en það hafi verið gert í ljósi þess, að ákærðu hafi talið sig vera í tímahraki. Í framburðinum kom einnig fram sú skoðun að unnt væri að aka þá leið, sem hér um ræðir, á Volkswagen bifreið á sama tíma og mælingar lögreglumannanna bentu til, þótt mælingarnar hafi verið gerðar í annars konar bifreið. Undir áfrýjun málsins var gerð ný mæling, þar sem tekið mun hafa verið tillit til skekkju á vegalengdum í vegmæli bifreiðar, sem mun hafa verið notuð við mælinguna, í samanburði við vegalengdir mældar af Vegagerð ríkisins. Þá var þar einnig reiknaður út meðalhraði við akstur miðað við þær tímasetningar, sem voru fengnar með mælingunni 11. janúar 1977. Var niðurstaða þess útreiknings að meðalhraði við akstur á einstökum leiðum innan Reykjavíkur hafi verið frá 32,241 til 45,431 kílómetrar á klukkustund, en meðalhraði við akstur frá Vatnsstíg í Reykjavík að Aðalstöðinni í Keflavík 84,28 kílómetrar á klukkustund.
Í janúar 1977 mun lögreglan í Keflavík hafa kannað hversu langan tíma tæki að ganga frá Hafnarbúðinni að heimili Geirfinns. Var niðurstaða þeirrar athugunar að með frekar greiðri göngu tæki ferðin liðlega sex og hálfa mínútu.
Lögreglan mun hafa aflað upplýsinga 6. desember 1976 um kvikmynd, sem hafi verið sýnd í Nýja Bíói í Keflavík að kvöldi 19. nóvember 1974. Sýning hennar mun hafa byrjað kl. 21 og lokið rétt upp úr kl. 23. Hlé mun hafa verið gert á sýningunni um kl. 22 í 10 mínútur. Lögreglan lýsti staðháttum við kvikmyndahúsið þannig að það væri á akstursleiðinni í gegnum Keflavík og væri ekið fram hjá því ef farin væri stysta leiðin frá Hafnarbúðinni til dráttarbrautarinnar.
Söluturn og bensínafgreiðsla mun hafa verið við Aðalstöðina í Keflavík. Afgreiðslumaðurinn þar, Magnús Jónsson, mun hafa tjáð lögreglunni að opið hafi verið á hverju kvöldi til kl. 23 og töluvert um að fólk kæmi þangað til að nota síma gegn greiðslu. Mun Magnús hafa staðfest að hann hafi verið við vinnu á umræddum stað til kl. 23 að kvöldi 19. nóvember 1974, en hann gæti alls ekki sagt til um hverjir hafi komið þangað það kvöld.
Símstöðvarstjórinn í Keflavík mun hafa upplýst að Geirfinnur hafi fengið tengdan síma 7. mars 1974 með númerinu 3157, en nafn hans og símanúmer hafi aldrei birst í símaskrá. Jafnframt mun Landssíminn hafa upplýst að ógerlegt væri að segja til um hvort spurt hafi verið um símanúmer Geirfinns um þær mundir, sem atvik málsins gerðust.
Bifreið Geirfinns fannst við Víkurbraut í Keflavík 20. nóvember 1974. Sporhundur mun hafa rakið slóð Geirfinns frá bifreiðinni að Hafnarbúðinni, en ekki fundið slóðina eftir það. Þá mun bifreiðin hafa verið rannsökuð, meðal annars með leit að fingraförum, en ekkert komið fram sem gæti gefið bendingar um afdrif Geirfinns.
Lögreglan mun hafa í nóvember 1976 og janúar 1977 athugað staðhætti og ýmislegt annað varðandi ætluð atvik við dráttarbrautina í Keflavík. Í dómi sakadóms segir frá því að tveir nafngreindir starfsmenn í dráttarbrautinni hafi tjáð lögreglumönnum að vegna mikils munar á flóði og fjöru væri óhugsandi að trillubátar væru látnir liggja þar við bryggju næturlangt. Starfsmennirnir hafi jafnframt sagt frá því að oftast væri eitthvað af spýtum á athafnasvæði dráttarbrautarinnar, en öðru hverju væri þeim safnað saman og þær brenndar. Heildarhreinsun færi fram einstaka sinnum og væri þá ekið burt með rusl, en slík hreinsun hafi verið gerð í maí 1974 og því næst ári síðar. Athugun á gögnum fyrirtækisins hafi leitt í ljós að sex bátar hafi verið í dráttarbrautinni 19. nóvember 1974, en þann dag hafi allir starfsmenn verið hættir vinnu kl. 18.15. Þá hafi komið fram að á umræddu tímabili hafi ávallt verið látið loga að næturlagi á tveimur ljóskösturum við þakbrún verkstæðishúss við dráttarbrautina, en öðrum þeirra hafi verið beint að görðum, sem bátar stæðu á. Við athugun á vettvangi að kvöldlagi hafi lögreglumaður ekki talið þessa kastara gefa mikla birtu á athafnasvæðið.
Svo sem fyrr greinir lýsti Erla í lögregluskýrslu mannlausu húsi skammt frá dráttarbrautinni í Keflavík, sem hún kvaðst hafa dvalist í aðfaranótt 20. nóvember 1974. Í kjölfarið var farið með hana í mars 1976 í hús, sem lögreglan í Keflavík taldi koma heim við lýsingu hennar. Sagðist hún þá vera fullviss um að þetta væri sama hús. Benti hún einnig á tiltekið herbergi, sem hún hafi falið sig í umrædda nótt. Við athugun lögreglunnar á vettvangi í janúar 1977 mun verkstjóri fyrirtækis, sem hafði umráð yfir húsinu, hafa staðfest að það hafi oft staðið opið á þeim tíma, þegar atburðir í þessum þætti málsins gerðust. Við þessa athugun munu hafa fundist fimm vindlingastubbar við sæti á öðrum stað í húsinu en Erla hafði bent á sem dvalarstað sinn, en þar mun hins vegar ekkert slíkt hafa fundist.
Í janúar 1977 mun lögreglan hafa athugað sendibifreið, sem Sigurður Óttar Hreinsson hafði nokkru áður sagst hafa ekið til Keflavíkur að kvöldi 19. nóvember 1974. Í samskeytum milli gólfs og hliða í farangursgeymslu bifreiðarinnar munu hafa fundist þó nokkur sýni, sem voru könnuð í erlendri rannsóknarstofu og reyndust hafa að geyma mannsblóð, en vegna óhreininda mun ekki hafa verið unnt að greina flokk þess. Um líkt leyti mun lögreglan hafa athugað Land Rover bifreið, sem Sævar og Erla voru talin hafa eignast 14. nóvember 1974 samkvæmt bifreiðaskrá. Hluti úr teppaklæðningu á innanverðum hliðum afturhluta bifreiðarinnar mun hafa verið sendur til erlendrar rannsóknarstofu. Var þar ekki talið unnt að sannreyna hvort blóð væri í þeim teppabútum, sem rannsókn náði til.
Lögreglan mun hafa gert ýmsar athuganir í kjallaranum að Grettisgötu 82 í desember 1976 og janúar 1977. Þar munu hafa fundist blóðleifar á rimlabekk í þvottaherbergi. Munu sýni hafa verið send til greiningar í erlendri rannsóknarstofu. Voru niðurstöður hennar að annað af tveimur sýnum væri mannsblóð, sem væri af öðrum flokki en blóð Geirfinns. Hitt sýnið reyndist einnig vera mannsblóð, en óhreinindi í því voru sögð koma í veg fyrir að unnt væri að greina flokk þess. Lögreglan kvað athugun á dyrabúnaði geymsluherbergis í kjallaranum leiða í ljós verulegar skemmdir, sem mætti rekja til þess að spyrnt hafi verið í hurðina til að opna geymsluna. Umráðamaður geymslunnar, Ingiríður Finnsdóttir, mun hafa tjáð lögreglunni að Kristján hafi oft spyrnt upp hurðinni þótt honum hafi verið kunnugt um hvar nálgast mætti lykil að henni.
Kristján mun hafa afhent lögreglunni teikniblýant, sem hann kvaðst hafa tekið úr vasa Geirfinns í kjallaranum að Grettisgötu 82 aðfaranótt 20. nóvember 1974. Blýantur þessi mun hafa verið sýndur eiginkonu og syni Geirfinns, vini hans og vinnuveitanda, en ekkert þeirra kannast við blýantinn.
Hinn 10. desember 1976 var farið með Sævar í Rauðhóla og hann beðinn um að benda þar á staðinn, þar sem Geirfinnur væri grafinn. Hann kvaðst ekki vera viss um staðinn, því að ferðin með líkið hafi verið farin í myrkri, en mun hafa bent á nokkra uppmoksturshóla á tilteknu svæði, sem hann taldi líkasta greftrunarstaðnum. Þá var í sama tilgangi farið með Erlu í Rauðhóla 11. sama mánaðar. Mun hún hafa bent á stað um 50 metrum frá þeim, sem Sævar hafi bent á, og sagst halda að Geirfinnur væri grafinn þar. Rauðamöl þar mun hafa verið fremur laus í sér, en uppgröftur, sem fór fram með vinnuvélum, bar ekki árangur.
Í dómi sakadóms er greint frá efni vottorðs Veðurstofu Íslands um lofthita í Reykjavík og á Hólmi dagana 17. til 21. nóvember 1974, svo og ályktun á þeim grunni um hvort frost hafi þá verið í jörðu í Rauðhólum.
Hinn 23. janúar 1977 reyndi lögreglan að sviðsetja atburði kvöldsins 19. nóvember 1974 við dráttarbrautina í Keflavík með þeim Sævari, Kristjáni, Guðjóni og Erlu, auk Sigurðar Óttars Hreinssonar, en jafnframt mun hafa verið fengin þangað sendibifreiðin, sem sá síðastnefndi hafði áður sagst hafa ekið til Keflavíkur umrætt kvöld. Tilgangur þessarar aðgerðar mun hafa verið að ákveða hvar tilteknir atburðir kunni að hafa gerst. Í skýrslu lögreglunnar um hana sagði meðal annars að komið hafi aftur greinilega í ljós ósamræmi um smáatriði í frásögnum hvers þeirra, sem áður er getið, en einkum hafi þetta átt við um átök við Geirfinn. Þá var jafnframt greint frá því í skýrslunni að við dráttarbrautina hafi Guðjón séð sendibifreiðina, sem áður var nefnd, og haft þá orð á því að hann þekkti hana sem sömu bifreið og hafi verið þar 19. nóvember 1974. Guðjón hafi tekið fram að framstuðari bifreiðarinnar hafi ekki verið rauður þá, heldur svartur, og ekki hafi verið komnar rauðar rendur á hlið bifreiðarinnar. Í kjölfarið munu hafa verið lagðar spurningar um þessi atriði fyrir Jón Þ. Waltersson, sem átti bifreiðina í nóvember 1974, og svör hans staðfest að lýsing Guðjóns á útliti hennar á þeim tíma væri rétt.
II.3.J.
Í röksemdum sakadóms Reykjavíkur fyrir niðurstöðu í þessum þætti málsins er vísað til þess að Sigurður Óttar Hreinsson hafi hinn 12. október 1977 breytt eiðsvörnum framburði sínum fyrir dómi 25. maí sama árs og neiti að hafa ekið sendibifreið til Keflavíkur 19. nóvember 1974. Sigurður hafi skýrt þessa breytingu með því að lögreglan hafi beitt hann þvingunum og hótunum um gæsluvarðhald, auk þess að skýrsla sín hafi að nokkru verið reist á upplýsingum frá lögreglunni og hafi hann svo skáldað í eyðurnar. Í sambandi við þetta vísar dómurinn til þess að Sigurður hafi ekki haldið fram að sér hafi verið hótað neinu við skýrslugjöf hjá lögreglunni 14. desember 1976, þar sem hann hafi fyrst viðurkennt að hafa farið umrædda ferð til Keflavíkur, og hafi hann sagt framburð Auðar Gestsdóttur og Péturs Eggerz um þá yfirheyrslu vera réttan. Leitt hafi verið í ljós með óyggjandi hætti að staðhæfingar Sigurðar um að sú skýrslugjöf hafi staðið lengur en heimilað var með lögum væru ekki réttar. Sigurður hafi staðfest þá skýrslu samdægurs fyrir dómi, hann hafi í einrúmi ritað upplýsingar um ferðina á blað, sem hann hafi afhent lögreglunni, og hann hafi vísað á stað, þar sem sendibifreiðin hafi verið, við sviðsetningu í dráttarbrautinni í Keflavík 24. janúar 1977. Við skýrslugjöf fyrir dómi 25. maí 1977 hafi Sigurður borið á sama veg og í fyrrnefndri lögregluskýrslu og bætt við frásögn sína, en í engu kvartað undan yfirheyrslu lögreglunnar og heldur ekki á síðari stigum undan skýrslugjöfinni 25. maí. Einnig komi margt fram til stuðnings því að framburður Sigurðar í það sinn væri réttur. Þannig hafi ákærðu í þessum þætti málsins borið frá upphafi að sendibifreið hafi verið í dráttarbrautinni 19. nóvember 1974 og hafi þau einnig gefið lýsingu á bifreiðinni, sem gæti átt við þá sem Sigurður hafði aðgang að. Kristján og Sævar hafi borið, þar til þeir breyttu framburði sínum í júlí og september 1977, að Sigurður hafi ekið bifreiðinni umrætt sinn. Guðjón hafi borið um hvernig útlit bifreiðarinnar væri á annan veg í janúar 1977 en í dráttarbrautinni 19. nóvember 1974 og hafi sú frásögn hans fengist staðfest. Í dóminum er að auki vísað til þess að Sigurður hafi ekki breytt framburði sínum fyrr en eftir rækilega frásögn fjölmiðla um munnlegan flutning málsins, þar sem fram hafi komið að Sævar og Kristján neituðu orðið að hafa verið í Keflavík 19. nóvember 1974. Þótti Sigurður ekki hafa rennt neinum marktækum stoðum undir það að eiðsvarinn framburður hans 25. maí 1977 væri rangur. Frásögn hans í tengslum við breytingu framburðarins þótti reikul og segði hann ýmist að hann hafi ekki farið umrædda ferð eða muni ekki eftir henni. Var því komist að þeirri niðurstöðu að breyting Sigurðar á framburði sínum ætti ekki við rök að styðjast, þótt hún hlyti engu að síður að veikja trúverðugleika hans.
Um framburð þeirra Kristjáns, Sævars, Guðjóns og Erlu segir í dóminum að þau hafi margsinnis viðurkennt fyrir lögreglu og dómi að hafa farið saman til Keflavíkur að kvöldi 19. nóvember 1974, hitt þar Geirfinn og farið með hann að dráttarbrautinni, þar sem komið hafi til átaka þeirra þriggja fyrstnefndu við Geirfinn og hann beðið bana. Erla hafi farið af vettvangi og jafnframt Sigurður Óttar Hreinsson, en Kristján, Sævar og Guðjón hafi flutt lík Geirfinns að Grettisgötu 82 og það verið grafið í Rauðhólum tveimur dögum síðar. Skýrslur ákærðu um aðdraganda ferðarinnar til Keflavíkur, ferðina sjálfa, átökin við Geirfinn og dauða hans séu í öllum meginatriðum samhljóða og afdráttarlausar. Nokkur undantekning sé varðandi skýrslur Guðjóns, sem hafi borið við minnisleysi um mörg atriði eftir upphaf átakanna. Framburður hans sé þó ótvíræður um för ákærðu til Keflavíkur og að þau hafi hitt þar Geirfinn, sem hafi beðið bana í átökum við þá þrjá. Í skýrslu Guðjóns fyrir dómi við meðferð málsins hafi hann dregið mjög úr þátttöku sinni í átökum við Geirfinn, en hann hafi ekki fært fram haldbær rök fyrir breytingu frá fyrri skýrslum sínum að þessu leyti. Um þátt hans í átökunum þótti því verða að leggja til grundvallar framburð hans fyrir dómi 31. janúar 1977. Kristján og Sævar hafi undir lok meðferðar málsins breytt framburði sínum og neitað allri aðild að því. Þeir hafi beint ásökunum að lögreglumönnum og fangavörðum um að hafa leitt þá í yfirheyrslum, lagt fyrir þá hvað segja ætti, hótað þeim og látið þá sæta illri meðferð, allt að líkamsmeiðingum. Þóttu Kristján og Sævar engin rök hafa fært fyrir þessu. Við rannsókn dómsins hafi ekkert marktækt komið fram því til styrktar. Tíðar beiðnir ákærðu um viðtöl við lögreglumenn þóttu benda til hins gagnstæða, auk þess að ýmsar lögregluskýrslur bæru þess merki að þau hafi skýrt sjálfstætt frá málsatvikum og hvert í sínu lagi. Jafnframt þóttu mörg atriði í skýrslum ákærðu vera slík, að þau gætu ekki verið frá öðrum komin. Var samkvæmt þessu komist að þeirri niðurstöðu að breytingar Kristjáns og Sævars á framburði sínum yrðu ekki teknar til greina, heldur yrðu fyrri skýrslur þeirra lagðar til grundvallar, einkum skýrslur þeirra fyrir dómi í maí og júní 1977.
Varðandi sönnunargögn er í dóminum vísað til þess að vegna langs tíma frá hvarfi Geirfinns þar til rannsókn beindist að ákærðu hafi ekki tekist að koma við vísindalegri rannsókn á hugsanlegum sýnilegum sönnunargögnum nema að mjög takmörkuðu leyti. Fyrirliggjandi gögn af þeim toga tengi ekki ákærðu með óyggjandi hætti við málið. Væru játningar ákærðu því aðal sönnunargögnin ásamt því, sem unnt væri að finna til styrktar játningunum. Af atriðum, sem dómurinn virðist telja styrkja játningar, er þess meðal annars getið í fyrsta lagi að Sævar, Kristján og Erla hafi fljótlega borið að þeim væri kunnugt um hvarf Geirfinns, en framburður þeirra hafi þó verið sundurlaus og óákveðinn, þau hafi borið sakir á menn, sem voru ekki viðriðnir málið, en sagst hafa orðið sjónarvottar að dauða Geirfinns og þau hafi gert allt til að torvelda rannsókn málsins og rugla um fyrir rannsóknarmönnum. Síðar hafi Sævar og Erla sagt að þetta hafi verið samantekin ráð þeirra, en meðal þess, sem Sævar hafi borið á aðra á fyrri stigum, hafi verið hlutir sem ákærðu viðurkenndu síðar að hafa gert. Í öðru lagi hafi öll ákærðu í þessum þætti málsins lýst staðháttum við dráttarbrautina í Keflavík, þannig að ekki færi á milli mála að þau hafi verið þar. Því til stuðnings væri að auki framburður Erlu um hús, sem hún hafi dvalið í, en um líkt leyti og Geirfinnur hvarf hafi hún skýrt vitni frá dvöl sinni í mannlausu húsi í Keflavík. Í þriðja lagi hafi Erla fengið far frá Keflavík með tveimur ökumönnum að morgni 20. nóvember 1974, en tekist hafi að staðreyna að ökumenn þessir hafi þá verið þar á ferð. Annar ökumannanna hafi þekkt Erlu við sakbendingu og rakið að auki efni samtals þeirra, sem Erla hafi staðfest. Þótti dóminum sannað, þótt ekki væri litið til framburðar annarra ákærðra, að Erla hafi verið á ferð frá Keflavík þennan morgun. Í fjórða lagi hafi Kristján þekkt Guðjón 15. maí 1976 sem útlendingslegan mann, sem Kristján kvað hafa verið í Keflavík með öðrum ákærðu 19. nóvember 1974, en Sævar hafi fyrst gefið upplýsingar 28. október 1976 um að Guðjón hafi verið með þeim í för. Guðjón hafi í upphafi neitað allri vitneskju um málið. Hann hafi síðan játað stig af stigi á löngum tíma, en erfitt hafi reynst að fá hann til að tjá sig um sakarefnið, hann hafi borið við minnisleysi og gert alls konar fyrirvara í framburði sínum. Við húsleit hjá Guðjóni hafi fundist minnisbók með ýmsum upplýsingum úr dagblöðum um málið. Einnig hafi virst vera náið samband milli hans og Sævars, bæði fyrir og eftir hvarf Geirfinns, og hafi Erla borið um grunsamleg samtöl þeirra. Í fimmta lagi hafi ákærðu í þessum þætti málsins lýst hvert í sínu lagi á vettvangi hvar þau hafi verið á meðan átök við Geirfinn hafi staðið yfir og hvar Geirfinnur hafi legið að þeim loknum. Ákærðu og Sigurður Óttar Hreinsson hafi jafnframt sagt til um stöðu bifreiða við dráttarbrautina. Misræmis hafi gætt um smáatriði, en framburður ákærðu, einkum þeirra Kristjáns, Sævars og Guðjóns, væri áþekkur um margt. Í sjötta lagi væri fullkomin vissa fyrir að Geirfinnur hafi verið staddur í veitingahúsinu Klúbbnum að kvöldi 17. nóvember 1974. Sævar hafi sagst hafa hitt Geirfinn þar og rætt við hann. Kristján hafi greint frá því að hann hafi rætt um áfengisviðskipti við mann, sem hann taldi að gæti hafa verið Geirfinnur. Vera þeirra Sævars og Kristjáns í veitingahúsinu væri staðfest með framburði vitnis. Í sjöunda lagi hafi Sævar sagt frá því að Geirfinnur hafi gefið sér upp nafn og heimilisfang, en ekki símanúmer, sem hann hafi síðar fengið upplýsingar um hjá Landssímanum. Aðspurður hafi Sævar sagst ekki muna símanúmerið, en taldi að í því hafi verið talan 31. Númerið hafi verið 3157. Í áttunda lagi virtist Sævar, sem hafi verið frumkvöðull ferðarinnar til Keflavíkur, hafa fengið þá hugmynd af fyrrnefndu samtali við Geirfinn að hann vissi um geymslustað smyglaðs spíra í Keflavík. Einhverja hugmynd hafi Sævar virst hafa um dráttarbrautina þar, því þangað hafi ferðinni verið heitið. Hafi með góðu eða illu átt að fá Geirfinn til að gefa upplýsingar um geymslustaðinn. Svo viss hafi Sævar virst vera um þetta og að magn spírans væri mikið, að hann hafi fengið Kristján til að útvega sendibifreið til að flytja spírann. Kristján, sem virðist hafa verið tilgangur ferðarinnar ljós, hafi getið um þessa fyrirhugaða ferð við tvö vitni og hafi þau talið það hafa gerst um líkt leyti og Geirfinnur hvarf. Þessi vitni hafi jafnframt borið að komið hafi verið á Laugaveg 32 að kvöldlagi um þessar mundir til að sækja Kristján. Annað vitnið hafi borið að það hafi séð Kristján fara upp í bifreið við Vatnsstíg, en ákærðu hafi borið að þau hafi lagt af stað til Keflavíkur frá þeim stað. Í níunda lagi væri komið fram að Sævar og Erla hafi verið á Kjarvalsstöðum að kvöldi 19. nóvember 1974 með móður Sævars. Dómurinn telji þá dvöl ekki koma í veg fyrir að þau geti hafa verið í Keflavík síðar sama kvöld. Vitni, sem þau hafi hitt á Kjarvalsstöðum, hafi borið að sig minnti að annaðhvort þar eða um sömu mundir hafi Sævar sagt sér að hann væri að fara til Keflavíkur. Í tíunda lagi hafi vitni borið að Geirfinnur hafi sagst vera að fara á dularfullt stefnumót við ókunna menn við Hafnarbúðina í Keflavík og eiga að koma þangað einn og án vitneskju konu sinnar, að virtist samkvæmt ósk þeirra, sem hann ætti að hitta. Geirfinnur hafi farið heiman frá sér seinna skiptið skömmu fyrir kl. 22.30 og hafi vitni staðfest að kl. 22.34 hafi bifreið hans verið mannlaus á stað, þar sem hún síðar fannst. Ákærðu í þessum þætti málsins hafi öll borið að þau hafi verið í bifreið í Keflavík á þessum tíma. Þau teldu sig hafa verið komin þangað þegar hlé á sýningu stóð yfir í kvikmyndahúsi á tímabilinu fram til um kl. 22.10. Þau hafi öll talið sig þekkja Geirfinn af ljósmyndum, sem þeim hafi verið sýndar, og hafi þau lýst nokkuð klæðaburði hans, þótt lýsingin hafi verið ófullkomin.
Varðandi átök við Geirfinn segir í dóminum að skýrslur Sævars og Kristjáns séu ótvíræðar um þátt þeirra, en varhugavert þyki að leggja alveg til grundvallar framburð þeirra um þátt Guðjóns í átökunum. Guðjón hafi borið að hann hafi hindrað Geirfinn í að fara brott, tekið hann hálstaki, haldið honum og hugsanlega síðan skellt honum til jarðar þannig að hann hafi dasast. Guðjón hafi einnig borið að sér væri ljóst að Geirfinnur hafi beðið bana í átökum við þá þrjá. Ljóst væri að þessir þrír ákærðu hafi allir ráðist á Geirfinn þegar hann ætlaði brott, að virðist vegna gremju út af því að hann hafi ekki vísað þeim á geymslustað spíra. Þessum ákærðu beri saman um að Geirfinnur hafi verið tekinn hálstaki og barinn með hnefum og spýtu uns hann beið bana. Yrði ekki greint á milli þáttar hvers þeirra og bæru þeir því sameiginlega ábyrgð á dauða Geirfinns. Ekki þótti sannað að ásetningur hafi verið fyrir hendi til að bana Geirfinni áður en átök hófust. Árásin þótti hins vegar hafa verið með þeim hætti, að Kristjáni, Sævari og Guðjóni hafi átt að vera ljóst að hún gæti leitt til dauða. Voru þeir því sakfelldir fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga.
Ekki þótti ástæða til að vefengja framburð Kristjáns um að hann hafi stolið veski með peningum úr vasa Geirfinns eftir framangreindan verknað. Var Kristján því jafnframt sakfelldur fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga.
Eins og greinir í kafla I.3. hér að framan var háttsemi Erlu í þessum þætti málsins talin varða við 2. mgr. 112. gr. almennra hegningarlaga.
II.3.K.
Í röksemdum í dómi Hæstaréttar fyrir niðurstöðu um þennan þátt málsins var vísað til þess að Kristján hafi 6. júlí 1977 og Sævar 13. september sama árs breytt framburði sínum og tekið að mestu aftur játningar sínar. Þeir hafi þá haldið því fram, að játningar þeirra hafi verið fengnar með því að rannsóknarmenn og fangaverðir hafi beitt þá ólögmætri harðneskju, leitt þá til frásagna og samræmt sögur þeirra, enda hafi rannsóknaraðferðir verið óhæfilegar og ólögmætar. Um þetta segir í dómi Hæstaréttar að fram hafi farið rannsókn, bæði fyrir og eftir uppkvaðningu héraðsdóms, vegna áburðar Kristjáns og Sævars á hendur rannsóknarmönnum og fangavörðum. Þessar umfangsmiklu aðgerðir hafi ekki leitt í ljós að þeir annmarkar væru á rannsókn málsins, sem valdi því að játningar Kristjáns og Sævars yrðu ekki út af fyrir sig lagðar til grundvallar úrlausn málsins. Um afturköllun þeirra á framburði þótti þess vera að geta að þeir hafi margendurtekið játningar sínar fyrir lögreglu og dómi og stundum að viðstöddum verjendum. Þeir hafi ekki horfið frá játningunum fyrr en alllangt hafi verið liðið á meðferð málsins. Þótti ýmislegt í frásögnum þeirra ekki geta verið komið frá öðrum og mætti ráða af gögnum málsins að þeir hafi leitað mjög eftir viðtölum við lögreglumenn og skýrslugjöf. Þeir hafi einnig tekið virkan þátt í sviðsetningu atburða á vettvangi. Að auki hafi Guðjón haldið fast við framburð sinn og bendi ýmis gögn til þess, að þeir hafi verið við dráttarbrautina í Keflavík að kvöldi 19. nóvember 1974. Með skírskotun til þessara atriða og héraðsdóms voru afturkallanir Kristjáns og Sævars á játningum sínum því ekki taldar marktækar.
Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með vísan til röksemda hans um að taka ekki mark á afturköllun Sigurðar Óttars Hreinssonar á framburði hans.
Varðandi afturköllun Erlu 11. janúar 1980 á framburði sínum í þessum þætti málsins var talið að fallast yrði á úrlausn héraðsdóms um að sannað væri án tillits til framburðar annarra ákærðra að Erla hafi verið stödd í Keflavík að morgni 20. nóvember 1974 og farið þaðan í tveimur áföngum með bifreiðum til Hafnarfjarðar. Erla hafi margoft breytt framburði sínum, en þó alltaf sagst hafa farið til Keflavíkur að kvöldi 19. nóvember 1974. Þótti þessi síðbúna afturköllun Erlu því vera marklaus og yrði framburður hennar í þessum þætti málsins metinn án tillits til afturköllunarinnar.
Í dómi Hæstaréttar þótti vera sannað með skýrslum Kristjáns og Sævars, sem ættu stoð í framburði Þórðar Ingimarssonar, að þeir hafi hitt Geirfinn í veitingahúsinu Klúbbnum að kvöldi 17. nóvember 1974 og rætt við hann um áfengisviðskipti. Hafi Geirfinnur sagt þeim nafn sitt og heimilisfang. Leggja yrði til grundvallar að Sævar hafi 18. sama mánaðar lagt drög að því að Guðjón færi með sér til Keflavíkur næsta dag, auk þess að ræða við Kristján í sama tilgangi og óska eftir að hann útvegaði sendibifreið. Þótti verða að miða við að 18. nóvember 1974 hafi Sævar eða Guðjón aflað símanúmers Geirfinns og annar þeirra hringt til hans milli kl. 19 og 20 næsta dag til að mæla sér mót við hann í Keflavík kl. 21.30 til 22 þá um kvöldið. Sævar og Erla hafi tekið á leigu Volkswagen bifreið 19. nóvember 1974 og farið með móður Sævars á Kjarvalsstaði það kvöld. Þar hafi þau horft á stutta kvikmynd, en tímasetningar um komu þeirra og viðdvöl væru ekki nákvæmar. Eftir sýninguna hafi Sævar og Erla ekið móður hans heim og að svo búnu ekið á nokkra staði. Guðjón hafi komið í bifreiðina og Kristján nokkru síðar við Vatnsstíg, en Guðjón hafi tekið þar við stjórn hennar og ekið til Keflavíkur. Í framburði Kristjáns, Guðjóns og Erlu, sem fái stoð í framburði Sævars, felist að Sævar hafi á leið þangað látið orð að því liggja að beitt skyldi fullri hörku við manninn, sem þau áttu að hitta, ef hann reyndist ekki samvinnuþýður. Hins vegar væri ósannað að Sævar hafi kveðið svo að orði að þeir ættu að láta manninn hverfa. Þá væri sannað að sendibifreið, sem Sigurður Óttar Hreinsson hafi ekið að ósk Kristjáns, hafi komið að Vatnsstíg að kvöldi 19. nóvember 1974 og Sigurður ekið henni þaðan til Keflavíkur, þar sem Kristján hafi gefið honum fyrirmæli um að leggja bifreiðinni í grennd við dráttarbrautina. Leitt væri í ljós að Þórður Ingimarsson hafi um kl. 21 þetta kvöld beðið Geirfinn um að koma með sér á kvikmyndasýningu, en Geirfinnur hafi hafnað því, þar sem hann hafi átt að hitta einhverja menn við Hafnarbúðina kl. 22. Með vætti eiginkonu Geirfinns og Þórðar væri sannað að þeir hafi farið frá heimili Geirfinns um kl. 22. Þórður hafi ekið Geirfinni að stað í námunda við Hafnarbúðina og hafi Geirfinnur látið í ljós að hann hefði beyg af mönnunum, sem hann ætlaði að hitta. Sannað væri að Geirfinnur hafi farið inn í Hafnarbúðina, keypt vindlinga og svipast þar um, eins og hann ætti von á einhverjum. Leggja yrði til grundvallar frásögn eiginkonu og sonar Geirfinns um að hann hafi komið aftur heim eftir stutta stund, hringt hafi verið þangað um kl. 22.15 og spurt eftir honum. Í símtalinu hafi hann sagst hafa komið og síðan sagst mundu koma, en farið að því loknu að heiman í bifreið þeirra hjóna. Sannað væri að skömmu eftir kl. 22.34 hafi bifreiðin staðið við hús Kaupfélags Suðurnesja, þar sem hún hafi fundist daginn eftir. Af hálfu Sævars hafi verið haldið fram að vegna viðdvalar á Kjarvalsstöðum gæti ekki staðist að þau Erla hafi verið í Keflavík rétt eftir kl. 22 umrætt kvöld. Var ekki fallist á þetta með vísan til þess að í fyrsta lagi yrði að telja sannað með framburði ákærðu og Sigurðar Óttars Hreinssonar að þau hafi farið til Keflavíkur þetta kvöld. Væri í öðru lagi jafnframt sannað að Erla hafi fengið far þaðan til Hafnarfjarðar morguninn eftir með tveimur bifreiðum. Þá væri í þriðja lagi sýnt með mælingum á vegalengdum og líklegum ökuhraða manna, sem þyrftu að flýta sér, að þau gætu hafa komist til Keflavíkur á þessum tíma, en í því sambandi væri þess að geta að óvíst væri um brottfarartíma Sævars og Erlu frá Kjarvalsstöðum. Í dóminum þótti verða að miða við að ákærðu hafi komið í bifreið að Hafnarbúðinni og hafi annaðhvort Sævar eða Kristján hringt þaðan til Geirfinns um kl. 22.15. Sannað væri með skýrslum ákærðu að Geirfinnur hafi skömmu síðar komið upp í bifreið þeirra, þar sem umræður hafi byrjað um áfengisviðskipti. Hafi Sævar rétt Geirfinni peningaseðla, sem Geirfinnur hafi kastað á gólf bifreiðarinnar. Þá væri sannað að ekið hafi verið að dráttarbrautinni, þar sem Sævar, Kristján, Guðjón og Geirfinnur hafi stigið út og Erla skömmu síðar. Í þann mund hafi komið til átaka milli þeirra fjögurra fyrstnefndu. Verði að leggja til grundvallar að Guðjón hafi tekið í handlegg Geirfinns, en Guðjón og svo Kristján hafi tekið Geirfinn hálstaki. Sævar, Kristján og Guðjón hafi allir greitt Geirfinni hnefahögg og hafi Sævar og Guðjón einnig barið hann með spýtu eða lurk. Bendi sakargögn til að mikill ofsi og æsing hafi verið í mönnum. Þótti verða að fallast á niðurstöðu héraðsdóms um að sannað væri að Geirfinnur hafi beðið bana í þessum átökum, en um þátt hvers þeirra Sævars, Kristjáns og Guðjóns í þessu voðaverki yrði ekki fullyrt nánar. Væru þeir allir samvaldir að bana Geirfinns og ættu refsiverða sök á láti hans.
Ummæli Sævars á leiðinni til Keflavíkur um að sýna yrði manninum, sem þar átti að hitta, fulla hörku þóttu veita vísbendingar um að Sævar hygðist beita manninn ofbeldi ef þörf krefði, en viðbrögð Kristjáns og Guðjóns við þessum orðum væru ekki ljós. Yrði ekki talið sannað að með þessum ákærðu hafi fyrirfram búið ásetningur um að bana Geirfinni ef hann veitti ekki upplýsingarnar, sem leitað var eftir. Árásin hafi verið hrottaleg og kæmi mjög til greina að telja að þessum ákærðu hafi ekki getað dulist að langlíklegast væri að Geirfinnur biði þar bana. Lík Geirfinns hafi hins vegar ekki fundist, en könnun á áverkum á því hefði getað veitt veigamiklar upplýsingar um hvernig dauða hans bar að höndum. Þótti því varhugavert að telja alveg nægilega sýnt fram á að Sævari, Kristjáni og Guðjóni yrði gefið að sök manndráp af ásetningi, þannig að 211. gr. almennra hegningarlaga ætti við. Var háttsemi þeirra því talin varða við 218. gr. og 215. gr. laganna.
Sannað þótti að Kristján hafi gerst sekur um að taka veski með peningum og blýant af líki Geirfinns, svo að varðaði við 244. gr. almennra hegningarlaga.
Um niðurstöðu vegna ákæruefna á hendur Erlu í þessum þætti málsins vísast til þess, sem fram kemur í kafla I.4. hér að framan.