I.4.
Fyrrnefndum dómi sakadóms Reykjavíkur var áfrýjað til Hæstaréttar 26. júlí 1978 að því er varðaði þau ákærðu, sem áður eru nafngreind. Síðasti hluti aðalágrips barst réttinum 5. janúar 1980, og einnig voru lögð þar fram allmörg ný gögn. Dómur Hæstaréttar var kveðinn upp 22. febrúar 1980.
Niðurstaða Hæstaréttar um I. kafla ákærunnar 8. desember 1976 var á þann veg, að sannað væri að Kristján, Sævar og Tryggvi hafi í félagi átt í átökum við Guðmund Einarsson og misþyrmt honum svo, að til bana hafi dregið. Yrði ekkert fullyrt um að hverju marki þáttur hvers þeirra hafi skipt sköpum, en allir hafi þeir verið samvaldir að því að veita Guðmundi slíka áverka, að bani hlaust af. Varhugavert þótti hins vegar að fullyrða að ásetningur hafi myndast til að bana Guðmundi fyrir átökin eða á meðan á þeim stóð, en árásin hafi verið hrottafengið viljaverk, sem mátti vera ljóst að gæti leitt til bana. Voru brot þeirra Kristjáns, Sævars og Tryggva því ekki talin varða við 211. gr. almennra hegningarlaga, heldur 218. gr. og 215. gr. laganna. Niðurstaðan um brot Alberts samkvæmt þessum kafla ákæru var á sama veg og í héraðsdómi.
Um sakarefni í I. kafla ákærunnar 16. mars 1977 var talið sannað að Guðjón og síðan Kristján hafi tekið Geirfinn Einarsson hálstaki, þeir hafi báðir ásamt Sævari greitt Geirfinni hnefahögg og Guðjón og Sævar hafi barið hann með spýtu eða lurk. Var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms, að Geirfinnur hafi í þessari árás beðið bana af völdum þeirra Kristjáns, Sævars og Guðjóns. Yrði ekki fullyrt um þátt hvers þeirra og væru þeir allir samvaldir að bana Geirfinns. Ekki þótti sannað að með Kristjáni, Sævari og Guðjóni hafi búið ásetningur um að svipta Geirfinn lífi. Væri jafnframt varhugavert að telja nægilega sýnt fram á að þeim þremenningum hafi ekki mátt dyljast að líklegast væri að Geirfinnur biði bana af árás þeirra, þar sem lík hans hafi ekki fundist og upplýsingar skorti því um hvernig dauða hans bar að höndum. Þóttu brot Kristjáns, Sævars og Guðjóns því ekki varða við 211. gr. almennra hegningarlaga, heldur 218. gr. og 215. gr. laganna. Um þátt Erlu var staðfest niðurstaða héraðsdóms að því er varðar sakargiftir um brot gegn 211. gr., sbr. 1. mgr. eða 4. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Háttsemi hennar var talin eiga efnislega undir 2. mgr. 112. gr. almennra hegningarlaga, en hún var hins vegar sýknuð af refsikröfu af þessum sökum vegna ákvæðis 3. mgr. sömu greinar. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um brot Kristjáns gegn 244. gr. almennra hegningarlaga samkvæmt þessum kafla ákæru.
Niðurstaða héraðsdóms var staðfest um brot Kristjáns, Sævars og Erlu gegn 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga samkvæmt II. kafla ákærunnar 16. mars 1977.
Með dómi Hæstaréttar var ákærðu gert að sæta fangelsi sem hér segir: Kristjáni í 16 ár, Sævari í 17 ár, Tryggva í 13 ár, Albert í 12 mánuði, Erlu í 3 ár og Guðjóni í 10 ár. Til frádráttar skyldi koma gæsluvarðhaldsvist hvers þeirra.