I.3.

 

Dómur var kveðinn upp í málinu í sakadómi Reykjavíkur 19. desember 1977.

 

Í niðurstöðum dómsins um I. kafla ákærunnar 8. desember 1976 var talið sannað að Kristján, Sævar og Tryggvi hefðu veist að Guðmundi Einarssyni með líkamlegu ofbeldi og misþyrmt honum, eins og greindi í ákærunni með áorðinni breytingu, þannig að hann hlyti bana af, en síðan falið lík hans. Var þessi háttsemi talin varða við 211. gr. almennra hegningarlaga. Albert var sýknaður af sakargiftum um brot gegn sama ákvæði, sbr. 4. mgr. 22. gr. laganna, en hins vegar sakfelldur fyrir að hafa tálmað rannsókn á broti meðákærðu með háttsemi sinni samkvæmt 2. lið tilvitnaðs kafla ákærunnar og brotið þannig gegn 2. mgr. 112. gr. sömu laga.

 Varðandi I. kafla ákærunnar 16. mars 1977 var í dóminum talið sannað að Kristján, Sævar og Guðjón hefðu ráðist á Geirfinn Einarsson, tekið hann hálstaki og barið með hnefum og spýtu uns hann beið bana. Töldust þeir hafa brotið með þessu gegn 211. gr. almennra hegningarlaga. Háttsemi Erlu þótti ekki varða við 211. gr., sbr. 1. mgr. eða 4. mgr. 22. gr. sömu laga, en hins vegar taldist hún hafa tálmað rannsókn á broti meðákærðu með þeirri háttsemi, sem um ræðir í þessum hluta ákæru, og brotið þannig gegn 2. mgr. 112. gr. laganna. Þá var talið sannað að Kristján hefði brotið gegn 244. gr. almennra hegningarlaga með þjófnaði á veski Geirfinns.

Um II. kafla ákærunnar 16. mars 1977 þótti í dóminum sannað að það hafi verið samantekin ráð Kristjáns, Sævars og Erlu að bera ranglega, ef þau yrðu handtekin, um þátttöku þeirra Einars, Magnúsar, Sigurbjörns og Valdimars í átökum, sem leiddu til dauða Geirfinns Einarssonar, svo og um áfengissmygl þeirra, og torvelda þannig rannsókn málsins. Þóttu þau hafa brotið með þessu gegn 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga.

Í héraðsdóminum var þeim ákærðu, sem að framan greinir, gert að sæta fangelsi sem hér segir: Kristjáni og Sævari ævilangt, Tryggva í 16 ár, Albert í 15 mánuði, Erlu í 3 ár og Guðjóni í 12 ár. Til frádráttar fangelsisvist þeirra fjögurra síðastnefndu skyldi koma gæsluvarðhald, sem þau sættu samkvæmt áðursögðu.