I.2.

Á meðan lögreglurannsókn stóð yfir og farið var með málið fyrir dómi var Kristjáni Viðari Viðarssyni, Sævari Marinó Ciesielski, Tryggva Rúnari Leifssyni, Albert Klahn Skaftasyni, Erlu Bolladóttur og Guðjóni Skarphéðinssyni gert að sæta gæsluvarðhaldi sem hér segir:

Kristjáni frá 23. desember 1975 þar til endanlegur dómur gekk.

Sævari frá 12. desember 1975 til sama tíma.

Tryggva frá 27. október til 6. nóvember 1974 og frá 23. desember 1975 þar til endanlegur dómur gekk.

Albert frá 19. júní til 20. júlí 1973 og frá 23. desember 1975 til 19. mars 1976.

Erlu frá 13. til 20. desember 1975 og frá 4. maí til 22. desember 1976.

Guðjóni frá 12. til 18. desember 1975 og frá 13. nóvember 1976 þar til endanlegur dómur gekk. 

Gæsluvarðhald yfir þeim Tryggva, Albert og Guðjóni fyrir 23. desember 1975 tengdist öðrum sakargiftum á hendur þeim en beiðnin um endurupptöku varðar. Þá var gæsluvarðhald yfir Sævari og Erlu einnig reist í upphafi á öðrum sakargiftum. Í kafla V.6. er greint nánar frá því hvernig gæsluvarðhaldinu var hagað í einstökum tilvikum.