Hæstaréttardómur 1980:89
Stutt lýsing á efni dóms:
1980:89 Ákært og dæmt fyrir dauða Guðmundar og Geirfinns og fleiri brot. Ákærðu fengu allt frá 12 mán.-17 ára fangelsi.
Atriðisorð: Sakamál, Réttarfar opinber mál, Manndráp, Líkamsárás, Líkamsárás leiðir til dauða, Hnífur, Hnífsstunga, Manndráp af gáleysi, Gáleysi, Íkveikja, Skírlífisbrot, Þjófnaður, Skjalafals, Fjársvik, Rangar sakargiftir, Fíkniefnabrot, Innflutningur, Innflutningur fíkniefna, Ólöglegur innflutningur, Hass, Upptaka eigna, Eignaupptaka, Upptaka fíkniefna, Hylming, Framhaldsrannsókn, Fyrirsvar, Rannsókn, Álitsgerðir sérfróðra manna, Álitsgerðir lækna, Geðrannsókn, Samvinna við brot, Afturköllun framburðar, Framburður vitna, Sönnunarfærsla, Hrottafengin árás, Sýkna, Sýkna að hluta, Sýknað af refsikröfu, Frávísun, Frávísun að hluta frá Hæstarétti í opinberu máli, Frávísun skaðabótakröfu, Íkveikja, Fangaverðir, Augljós hætta á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum, Nauðgun, Skaðabótakrafa, Skaðabótaábyrgð, Líkindaásetningur, Refsiþyngingarástæður, Brotasamsteypa, Hlutdeild, Óvígð sambúð, Nánustu vandamenn, Játning, Skilorð, Skilorðsrof, Ungur aldur brotamanns, Misræmi í framburði, Samprófun vitna, Rannsókn, Rannsókn áfátt, Lögreglurannsókn, Lögreglurannsókn ábótavant, Yfirheyrslur of umfangsmiklar, Haldlagning, Hald á munum, Blóðrannsókn, Vettvangsganga, Sönnun, Sönnunarfærsla, Röskun á grafarhelgi, Játning, Sakbending, Fangelsi
Föstudaginn 22. febrúar 1980.
Nr. 214/1978.
Ákæruvaldið (Þórður Björnsson ríkissaksóknari)
gegn
Kristjáni Viðari Viðarssyni (Páll Arnór Pálsson hdl.)
Sævari Marinó Ciesielski (Jón Oddsson hrl.)
Tryggva Rúnari Leifssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.)
Albert Klahn Skaftasyni (Örn Clausen hrl.)
Erlu Bolladóttur (Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl.) og
Guðjóni Skarphéðinssyni (Benedikt Blöndal hrl.).
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Björn Sveinbjörnsson, Ármann Snævarr, Benedikt Sigurjónsson, Logi Einarsson og Þór Vilhjálmsson.
Málinu er áfrýjað með stefnu 26. júlí 1978, sem birt er hinum ákærðu á tímabilinu 3.-11. ágúst s. á. Er dóminum áfrýjað til staðfestingar að því er varðar ákærðu Kristján Viðar og Sævar Marinó, en til þyngingar að því er tekur til annarra hinna ákærðu.
Þess skal getið, að síðasti hluti aðalágrips í málinu barst Hæstarétti hinn 5. janúar 1980, en nokkur skjöl bárust síðar.
I.
Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð fram allmörg ný gögn. Verða þau reifuð eftir því sem efni standa til og á þeim stöðum hér á eftir, er henta þykir.
Bls. 90
I.1.
Eftir uppsögu hins áfrýjaða dóms hefur verið háð framhaldslögreglurannsókn að ósk ákærða Sævars, vegna þess að hann taldi sig hafa verið beittan harðræði við rannsókn málsins. Í tilefni þessa fól dómsmálaráðuneytið hinn 30. maí 1979 vararannsóknarlögreglustjóra ríkisins að annast meðferð málsins sem rannsóknarlögreglustjóra, sbr. 8. gr. laga nr.108/1976 og 3. gr. laga nr. 5/1978. Með bréfi ríkissaksóknara 23. ágúst 1979 til vararannsóknarlögreglustjóra var mælt fyrir um rannsóknina og rannsóknarefnið markað.
Rannsókn þessi fór fram 5. september til 8. október 1979. Voru yfirheyrðir fangaverðir og ýmsir þeir, sem fóru með rannsókn málsins. Í megindráttum skýrðu þessir aðiljar frá með sama hætti og við rannsókn máls í héraði, og er sú rannsókn rakin ítarlega í héraðsdómi, en þó komu fram nokkur ný atriði. Í framhaldsrannsókninni voru enn fremur teknar skýrslur af séra Jóni Bjarman fangapresti og ákærðu Kristjáni, Sævari og Erlu. Þá voru gerðar athuganir á aðbúnaði fanga í fangelsinu að Síðumúla. Af gögnum máls verður ráðið, að við samprófun hinna ákærðu Sævars, Kristjáns og Erlu 5. maí 1976 hafi nafngreindur fangavörður lostið ákærða Sævar kinnhest. Um aðdraganda þessa eru skýrslur óljósar, en þær benda til þess að ákærði Sævar hafi verið æstur og órór við yfirheyrslu þessa.
Þá er þess að geta, að fangavörður, sem starfaði í fangelsinu að Síðumúla, kvaðst hafa "heyrt" einhverja "pústra" í tvö skipti, þegar verið var að yfirheyra ákærða Sævar. Annar fangavörður taldi sig hafa verið á næturvakt, að því er ætla verður í janúar 1976. Hafi þá tveir nafngreindir fangaverðir farið inn í klefa, m. a. ákærða Sævars, að fyrirmælum yfirfangavarðar í því skyni að halda Sævari vakandi og hafi þeir "tuskað" hann til. Einnig hafi nafngreindur fangavörður valdi hávaða í grennd við klefa Sævars í því skyni að varna honum svefns, að því er vitnið telur. Þá hafi slökkvari verið óvirkur og hafi eigi verið hægt að slökkva ljós í
Bls. 91
klefa Sævars. Viðkomandi fangaverðir og rannsóknarmenn hafa alfarið neitað, að þessar frásagnir séu réttar.
I.2.
Hinn 20. nóvember 1978 sendi ríkissaksóknari Læknaráði álitsgerðir lækna, sem raktar eru að meginefni til í héraðsdómi, um geðheilbrigði og sakhæfi fimm hinna ákærðu í máli þessu. Var leitað umsagnar Læknaráðs með eftirfarandi spurningum:
"1. Fellst Læknaráð á niðurstöður Lárusar Helgasonar um geðheilbrigði og sakhæfi ákærða Kristjáns Viðars Viðarssonar?
2. Fellst Læknaráð á niðurstöðu álitsgerðar Ingvars Kristjánssonar um geðheilbrigði og sakhæfi ákærða Sævars Marinós Ciesielski?
3. Fellst Læknaráð á niðurstöðu álitsgerðar Ásgeirs Karlssonar um geðheilbrigði og sakhæfi ákærða Tryggva Rúnars Leifssonar?
4. Fellst Læknaráð á niðurstöðu álitsgerðar Ásgeirs Karlssonar um geðheilbrigði og sakhæfi ákærðu Erlu Bolladóttur?
5. Fellst Læknaráð á niðurstöðu álitsgerðar Ingvars Kristjánssonar um geðheilbrigði og sakhæfi ákærða Guðjóns Skarphéðinssonar?"
Tillaga réttarmáladeildar Læknaráðs um ályktun Læknaráðs, sem staðfest var 10. desember 1979 sem álitsgerð og úrskurður ráðsins, er sem hér segir:
"Ad 1: Læknaráð fellst í meginatriðum á niðurstöðu álitsgerðar dr. med. Lárusar Helgasonar um geðheilbrigði Kristjáns Viðars Viðarssonar og telur hann sakhæfan.
Ad 2: Já.
Ad 3: Læknaráð er sammála álitsgerð Ásgeirs Karlssonar um geðheilbrigði og sakhæfi Tryggva Rúnars Leifssonar og telur hann sakhæfan.
Ad 4: Læknaráð fellst á niðurstöðu álitsgerðar Ásgeirs
Bls. 92
Karlssonar um geðheilbrigði Erlu Bolladóttur og telur hana sakhæfa.
Ad 5: Já."
I.3.
Við flutning málsins var enn fremur lögð fram greinargerð dr. med. Þorkels Jóhannessonar prófessors varðandi lýsergíð og áhrif þessa á skynjanir manna, en efnið er talið rangskynjunarefni. Í niðurstöðu greinargerðarinnar segir svo:
"Að öllu samanlögðu er þannig viðbúið, að jafnvel lítil neysla lýsergíðs gæti haft grundvallaráhrif á skynjun, hugsun, hegðun og dómgreind manna. Þá er öruggt, að neysla lýsergíðs getur haft endurverkandi áhrif, sbr. að framan, á hlutaðeigandi, löngu eftir að efnið hafði síðast verið tekið. Því fer ekki milli mála, að taka lýsergíðs gæti sem hægast leitt til óhæfuverka á borð við skemmdarverk, líkamsmeiðsl, morð eða sjálfsmorð."
I.4.
Enn hafa verið lagðar fram skýrslur Guðsteins Þengilssonar læknis um lyfjagjafir til ákærðu, meðan þau sættu gæsluvarðhaldi fyrir uppkvaðningu héraðsdóms.
II.
Í dómi þessum verður vikið að ákæruefnum í sömu röð og í héraðsdómi og ákæruatriðum gerð skil, svo sem þeirra er getið í ákæruskjölum.
Við flutning málsins í héraði tóku dómendur fram, "að sakarefnið í ákæru frá 8. desember 1976 I.2. og í I. kafla ákæru frá 16. mars 1977, að því er ákærðu Erlu varðar, var reifað með hliðsjón af því, að það gæti varðað við 124. gr. og 221. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940".
Svo sem að er vikið í héraðsdómi, var því lýst yfir af hálfu ákæruvalds við flutning málsins í héraði, "að ákæran í I. kafla, 1. tl., ákæru sé ekki lengur byggð á því að ákærði Kristján Viðar hafi ráðist að Guðmundi Einarssyni með hníf og stungið hann, heldur að allir ákærðu hafi hver fyrir sig
Bls. 93
átt jafnan þátt í árásinni á Guðmund og dauða hans. Um sé að ræða óaðskiljanlegan samverknað ákærðu á dauða Guðmundar".
Samkvæmt 3. mgr. 118. gr. laga nr. 74/11974 var málið reifað og flutt fyrir Hæstarétti um ákæruatriði þau, er greinir í ákæru 8. desember 1976, I. kafla, og ákæru 16. mars 1977, I. kafla, á þann veg, að brot gætu til vara varðað við 218. gr. og 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að því leyti sem ákært er fyrir brot gegn 211. gr. þeirra laga.
III.
Ákæra 8. desember 1976.
III.1.
I. kafli, 1. töluliður.
Ákæra á hendur Kristjáni Viðari Viðarssyni, Sævari Marinó Ciesielski og Tryggva Rúnari Leifssyni.
A.
Í héraðsdómi er þess getið, að rannsóknarlögreglumennirnir Gísli Guðmundsson og Torfi Jónsson hafi farið til Spánar 23. apríl 1977 til að hafa samband við Gunnar Jónsson. Kom hann hingað til lands í fylgd þeirra 29. s. m.
Lögreglumennirnir svöruðu á dómþingi í sakadómi Reykjavíkur 11. janúar 1980 nokkrum spurningum verjenda ákærðu Sævars og Tryggva. kemur fram í skýrslum lögreglumannanna, að þeir hafi afhent Gunnari bréf dómsforseta sakadóms í máli þessu, en eigi rætt málið við Gunnar. Lögregluvörður var hafður um Gunnar, meðan framangreind rannsókn stóð yfir. Lögreglumennirnir kváðust eigi vita til þess, að Gunnar hefði rætt við ákærða Albert Klahn Skaftason, áður en skýrslur voru teknar af Gunnari eða meðan á skýrslutöku stóð. Samkvæmt skýrslum lögreglumannanna var hvorugur þeirra viðstaddur, er Gunnar vann eið að framburði sínum. Torfi Jónsson kvað Gunnar hafa fundið að þessu við sig og tjáð sér, að hann hefði sennilega ekki unnið eið að framburði sínum, ef hann hefði verið viðstaddur.
Torfi Jónsson kvað sér ekki kunnugt um, að Gunnar Jóns-
Bls. 94
son hefði, eftir að hann gaf skýrslu í málinu, tjáð sig munnlega eða skriflega um framburð sinn.
Rannsóknarlögreglumennirnir eru samsaga um, að ekki hafi verið farið með Gunnar að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði, áður en fyrsta skýrsla var tekin af honum.
B.
Hinn 11. janúar 1980 var að kröfu ríkissaksóknara tekin skýrsla fyrir sakadómi Reykjavíkur af vitninu Helgu Gísladóttur, áður starfsstúlku að Kópavogshæli.
Skýrði vitni þetta svo frá, að haustið 1979 hefði það fengið bréf frá ákærða Sævari, þar sem hann hefði farið þess á leit, að það kæmi austur að Litla-Hrauni, þar sem ákærði var í gæsluvarðhaldi, "og ræddi málin við sig". Ekki sinnti vitnið þessu og kvaðst hafa rifið bréfið og hent því.
Í október eða nóvember 1979, eftir að því barst greint bréf, kvað það Andreu Þórðardóttur húsmóður, Langeyrarvegi 11 A Í Hafnarfirði, sér með öllu ókunnuga, hafa hringt sín. Hafi Andrea sagt, að ákærði Sævar ætti bágt og "væri langt niðri". Hafi Andrea borið sér þau skilaboð frá ákærða, að vitnið breytti framburði sínum á þann veg, að ákærði Sævar hefði að kvöldi 26. janúar 1974 komið í starfsmannahús Kópavogshælis og dvalist þar óslitið alla nóttina. Gat vitnið þess í framburði þessu, að ákærði Sævar hefði fyrrgreint kvöld farið frá Kópavogshæli um klukkan 2330 og komið þangað aftur um klukkan 0430 um nóttina.
Andrea Þórðardóttir kom einnig fyrir sakadóm. Kvaðst hún hafa flutt fræðsluerindi og staðið fyrir skemmtunum að Vinnuhælinu að Litla-Hrauni. Sagði hún ákærða Sævar hafa komið að máli við sig og beðið sig um að koma boðum til Helgu Gísladóttur um, að hún skrifaði ákærða bréf og staðfesti, að hann hefði dvalist hjá henni alla aðfaranótt 27. janúar 1974. Kvaðst Andrea hafa hringt til Helgu og flutt henni þessi skilaboð, en Helga hefði ekki viljað sinna þessu og talið málinu lokið hvað sig varðaði. Minnti Andreu, að símtal þetta hefði farið fram vorið 1979, en örugglega ekki um haustið það ár.
Bls. 95
C.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð fram skrifleg yfirlýsing Páls Konráðs Konráðssonar Þormar, dags. 10. janúar 1980, til ríkissaksóknara, þar sem Páll Konráð segist ekki geta staðið við framburð sinn í máli þessu.
Ekki hefur Páll Konráð komið fyrir dóm, eftir að hann gaf yfirlýsingu þessa.
D.
Í héraðsdómi eru rakin rækilega gögn málsins, er lúta að I. kafla, 1. tölulið, ákærðu 8. desember 1976.
Guðmundur Einarsson fór frá heimili sínu að Hraunprýði, Blesugróf í Reykjavík, að kvöldi laugardagsins 26. janúar 1974. Með gögnum máls er leitt í ljós, að hann fór þá með félögum sínum á dansleik í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði. Varð hann viðskila við félaga sína, er fóru til Reykjavíkur án þess að hafa upp á honum.
Með vættisburði þriggja vitna, sem greinir í héraðsdómi, er sannað, að Guðmundur Einarsson var á götu í Hafnarfirði aðfaranótt 27. janúar 1974 ásamt manni, er tvö vitni telja hafa verið ákærða Kristján. Að sögn vitnanna reyndu þeir að stöðva bifreiðar, er óku þar um, sýnilega í því skyni að fá sér far með þeim.
Ákærði Kristján var kunnugur Guðmundi Einarssyni frá því er þeir voru saman í skóla. Lýsti hann því í skýrslu sinni snemma í rannsókn málsins, þegar hinn 3. janúar 1976 fyrir rannsóknarlögreglu, staðfestri í sakadómi Reykjavíkur hinn 11. janúar s. á., að þeir tveir ásamt ákærða Tryggva hefðu reynt að verða sér úti um far með bifreiðum til Reykjavíkur þá um nóttina. Er það tókst ekki, hafi þeir þrír haldið að Hamarsbraut 11, en síðan hafi ákærði Sævar komið þangað svo og ákærði Albert og Gunnar Jónsson. Gögn máls um dvöl ákærða Sævars í starfsmannahúsi Kópavogshælis þykja samrýmast þessari frásögn. Snemma í rannsókn málsins, fyrir miðjan janúar 1976, viðurkenndu ákærðu Kristján, Sævar og Tryggvi, að þeir hefðu verið staddir að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði aðfaranótt 27. janúar 1974 ásamt
Bls. 96
manni, er Kristján kvað hafa verið Guðmund Einarsson. Hinir tveir kváðu sig ekki hafa borið kennsl á manninn, en þeir töldu síðar í rannsókninni, að maður þessi hefði verið Guðmundur Einarsson. Samkvæmt skýrslum þeirra, sem raktar eru ítarlega í héraðsdómi, hefur þar komið til átaka milli þeirra og Guðmundar, sem leitt hafi til dauða hans. Verður helst ráðið af framburðum þeirra, að tilefni átakanna hafi verið, að Guðmundur hafi færst undan að leggja fram fé til kaupa á áfengisflösku, sem áform voru uppi um að afla. Þeir lýstu í framburðum sínum flutningi á líki Guðmundar, svo sem greinir í héraðsdómi.
Ákærði Albert og Gunnar Jónsson hafa í skýrslum sínum lýst dvöl þeirra ákærðu Kristjáns, Sævars og Tryggva að Hamarsbraut 11 aðfaranótt 27. janúar 1974 og átökum milli þeirra þriggja annars vegar og manns þess, er þeir telja hafa verið Guðmund Einarsson, hins vegar. Eru framburðirnir greindir í héraðsdómi svo og framburður ákærðu Erlu Bolladóttur um, að þeir ákærðu Kristján, Sævar og Tryggvi hafi verið þarna á vettvangi, og um það, sem hún varð áskynja um athafnir þeirra. Einnig er í héraðsdómi lýst samprófunum. Á það skal bent, að ákærða Erla hefur eigi tekið aftur framburði sína að því er varðar atferli ákærðu Kristjáns, Sævars og Tryggva á Hamarsbraut 11.
Á dómþingi í sakadómi Reykjavíkur 29. mars 1977 lýsti ákærði Sævar fyrri framburði sína ranga og kvað sig hafa verið beittan harðræði í því skyni að knýja fram játningar. Í þinghaldi 1. apríl 1977 kvaðst ákærði "sér vitandi" eigi hafa verið að Hamarsbraut 11 aðfaranótt 27. janúar 1974.
Á dómþingi í sakadómi Reykjavíkur 30. mars 1977 tók ákærði Tryggvi aftur fyrri framburði sína og kvaðst aldrei hafa komið að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði og vera saklaus af aðförinni að Guðmundi Einarssyni. Ákærði kvaðst "ekkert geta sagt um, hvar hann var staddur að kvöldi laugardagsins 26. janúar og aðfaranótt hins 27. janúar 1974". Taldi hann fyrri framburði eiga rót að rekja til hótana af hálfu þeirra, er fóru með rannsókn málsins. Hefur hann síðan haldið fast við þann breytta framburð.
Bls. 97
Ákærði Kristján hélt fast við framburði sína um átökin á Hamarsbraut 11 í samprófun við ákærða Sævar 1. apríl 1977 og í samprófun við ákærða Tryggva 31. mars 1977. Á dómþingi í sakadómi Reykjavíkur 27. september 1977 kvaðst ákærði Kristján hins vegar ekkert vita um hvarf Guðmundar Einarssonar og ekki hafa verið í Hafnarfirði aðfaranótt 27. janúar 1974, hvorki ásamt meðákærðu Sævari og Tryggva né Gunnari Jónssyni. Hefur hann síðar áréttað þennan framburð sinn á dómþingi.
Í héraðsdómi er gerð grein fyrir nokkrum sýnilegum sönnunargögnum, sem ákæruvald hefur lagt fram í málinu og vísað til.
Svo sem greint er hér að framan, hafa ákærðu Sævar og Tryggvi staðhæft, að rannsóknarmenn og fangaverðir hafi beitt þá harðræði í því skyni að knýja þá til játninga. Ákærði Kristján ber hins vegar fyrir sig, að rannsóknarmennirnir hafi haft óeðlileg áhrif á þá ákærðu í því skyni að samræma framburði þeirra.
Þegar hin rækilega rannsókn bæði fyrir og eftir uppsögu héraðsdóms varðandi meint harðræði og ólögmæta rannsóknarhætti er virt, verður ekki séð, að játningar ákærðu hafi verið fengnar með ólögmætum aðferðum af hálfu þeirra, er fóru með rannsókn málsins. Kinnhestur sá, sem sannað er, að fangavörður hafi lostið ákærða Sævar, var greiddur honum 5. maí 1976 við samprófun, alllöngu eftir að þessi ákærði játaði atferli sitt að Hamarsbraut 11.
Játningar hinna ákærðu komu fram í skýrslum þeirra í janúar 1976 og voru endurteknar síðar bæði fyrir rannsóknarlögreglu og á dómþingum að viðstöddum verjendum þeirra Kristjáns og Tryggva.
Breyttu þeir ákærðu Sævar og Tryggvi eigi þessum játningum fyrr en í lok mars 1977, eins og að framan greinir. Ákærði Kristján hélt fast við játningu sína, þegar hann var samprófaður við ákærða Sævar og ákærða Tryggva 29. og 30. mars 1977, og hvarf eigi frá henni fyrr en 27. september s. á. Með vísun til þess, sem að framan er ritað, ber að leggja játningar þeirra ákærðu Kristjáns, Sævars og Tryggva til
Bls. 98
grundvallar dómi í málinu, enda þykir ekki mark takandi á afturköllunum þeirra. Fá játningar þeirra stoð í framburðum ákærða Alberts, vitnisins Gunnars Jónssonar og ákærðu Erlu svo og öðrum gögnum, sem drepið er á hér að framan og í héraðsdómi greinir. Samkvæmt þessu þykir sannað, að ákærðu Kristján, Sævar og Tryggvi hafi í félagi átt í átökum við Guðmund Einarsson að Hamarsbraut 11 og misþyrmt honum svo, að til bana hafi dregið. Af gögnum máls verður ekkert fullyrt um, að hverju marki þáttur hvers einstaks hinna ákærðu Kristjáns, Sævars og Tryggva réð hér sköpum, en allir áttu þeir sameiginlega þátt í aðförinni að Guðmundi og voru samvaldir að því að veita honum slíka áverka, að bani hlaust af. Byggja verður á því, að Guðmundur Einarsson hafi látist að Hamarsbraut 11.
Af rannsókn málsins verður ekki ráðið, að það hafi verið ætlun ákærðu Kristjáns og Tryggva að bana Guðmundi, en þeir þrír héldu að Hamarsbraut 11. Varhugavert þykir að fullyrða, sbr. 108. gr. laga nr. 74/1974, að slíkur ásetningur hafi myndast hjá þessum ákærðu og ákærða Sævari, eftir að til átakanna kom eða meðan á þeim stóð. Verður brot ákærðu því eigi fært til 211. gr. almennra hegningarlaga. Árásin á Guðmund Einarsson var hrottafengin. Hún var þeim viljaverk, og mátti þeim vera ljóst, að af þessari stórfelldu líkamsárás gæti hlotist líftjón þess, er fyrir henni varð. Varða brot þeirra því við 218. gr. og 215. gr. almennra hegningarlaga, en heimilt er að beita þeim refsiákvæðum hér, þótt eigi séu þau greind í ákæru, sbr. 3. málsgr. 118. gr. laga nr. 74/ 1974, enda var mál reifað á þeim grundvelli fyrir Hæstarétti, svo sem áður greinir.
III.2.
I. kafli 2. töluliður, ákæru 8. desember 1976.
Ákæra á hendur Albert Klahn Skaftasyni.
Svo sem í héraðsdómi greinir og í ákæru getur, fluttu ákærðu lík Guðmundar Einarssonar frá Hamarsbraut 11 með aðstoð ákærða Alberts Klahn Skaftasonar. Verður
Bls. 99
ákærðu Sævari, Kristjáni og Tryggva ekki gerð refsing vegna líkflutnings þessa.
Ekki hefur tekist að leiða í ljós, hvert lík Guðmundar var flutt eða hvar líkamsleifar hans eru.
Ákærði Albert Klahn Skaftason hefur viðurkennt, að hann hafi í bifreið flutt lík Guðmundar Einarssonar frá Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði út í Hafnarfjarðarhraun og síðar síðla sumars 1974 flutt það aftur þaðan í bifreið, en hvert, er ekki upplýst. Framburðir ákærðu Sævars, Kristjáns og Tryggva eru mjög á reiki um flutning þennan, en leggja verður til grundvallar þessu ákæruatriði, að ákærði Albert Klahn hafi tvívegis, svo sem hann heldur fram, átt þátt í flutningi á líki Guðmundar.
Staðfesta ber úrlausn héraðsdóms um sýknu ákærða af ákæru um brot á 211. gr., sbr. 4. mgr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.
Fallast ber á úrlausn héraðsdóms að því er tekur til 2. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga. Með atferli sínu hefur ákærði raskað ummerkjum brotsins, og varðar það hann refsingu samkvæmt 2. mgr. 112. gr. almennra hegningarlaga.
Krafa ákæruvalds um, að atferli ákærða Alberts varði við 124. gr. almennra hegningarlaga er varakrafa, svo sem héraðsdómarar hafa og skilið hana. Tekið skal fram, að hún rúmast ekki innan verknaðarlýsingar í ákæruskjali og kemur þegar af þeirri ástæðu eigi til álita.
III.3.
II. kafli ákæru 8. desember 1976.
Ákærur á hendur Tryggva Rúnari Leifssyni.
1. Eftir uppsögu héraðsdóms hefur verið lögð fram rannsóknarlögregluskýrsla 11. janúar 1980 um athuganir á húsum Vinnuhælisins að Litla-Hrauni "með tilliti til mannskaðahættu vegna bruna, er þar varð 12.03.1972". Var m. a. rætt við Eirík Guðmundsson, slökkviliðsstjóra slökkviliðs Eyrarbakkahrepps, sem hefur um langt skeið haft á hendi viðgerðir á byggingum á Litla-Hrauni og tók einnig þátt í slökkvistarfinu. Þá var rætt við fangaverði.
Bls. 100
Fram hefur komið, að þegar eldurinn braust út, var einn refsifangi lokaður inni í klefa sínum, og einn maður var þar í geymslu vegna ölvunar. Aðrir fangar áttu greiða leið fram á ganga fangelsisins.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta úrlausn hans að því er þennan ákærulið varðar, og er brot ákærða Tryggva réttilega fært til lagaákvæða, enda gat honum ekki dulist, að mönnum undi vera lífsháski búinn af eldsboðanum og að hann mundi hafa í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum. 2. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms ber að staðfesta úrlausn hans um þennan ákærulið. Er brot Tryggva Rúnars réttilega fært til lagaákvæða.
Þá þykir mega staðfesta úrlausn héraðsdóms um skaðabótakröfu K, sem er í hóf stillt, og um vexti af því fé svo og um frávísun á kröfu um innheimtukostnað.
3., 4. og 6. Staðfesta ber úrlausn héraðsdóms um þessa ákæruliði, og eru brot þessi réttilega færð til lagaákvæða.
Ríkissaksóknari hefur fallið frá ákæru samkvæmt 5. lið þessa ákæruþáttar, svo sem greinir í héraðsdómi.
III.4.
III. kafli ákæru 8. desember 1976.
Ákærur á hendur Sævari Marinó Ciesielski.
1.-4. Staðfesta ber úrlausnir hins áfrýjaða dóms um þessa ákæruliði, og eru brot ákærða Sævars Marinós réttilega færð til lagaákvæða. Að því er varðar heimfærslu brota í 2. tölulið verður ákvæðum 5. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 52/1978 eigi beitt hér, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga.
Enn fremur ber að staðfesta úrlausn héraðsdóms um skaðabætur til Elínar Þórhallsdóttur og Farfugladeildar Reykjavíkur.
II.5.
IV. kafli ákæru 8. desember 1976.
Ákærur á hendur Sævari Marinó Ciesielski og
Erlu Bolladóttur.
Bls. 101
1.-3. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms ber að staðfesta úrlausn hans um þessa ákæruliði, og eru brot ákærðu réttilega færð til lagaákvæða. Þá ber að staðfesta úrlausn héraðsdóms um skaðabætur til Pósts og síma og Silla og Valda.
4. Staðfesta ber úrlausn héraðsdóms um þennan ákærulið að því er varðar ákærða Sævar Marinó, og er brot hans réttilega fært til lagaákvæða.
Í málflutningi hér fyrir dómi lýsti ríkissaksóknari því yfir, að hann teldi brot ákærðu Erlu, þau er í þessum ákærulið greinir, réttilega færð til refsiákvæða í ákæru. Að svo vöxnu máli þykir mega láta sitja við ákvæði héraðsdóms um heimfærslu brota ákærðu Erlu 18. október 1974 til ákvæða 157. gr. almennra hegningarlaga. Með þessari athugasemd þykir mega staðfesta úrlausn hins áfrýjaða dóms um þennan ákærulið að því er ákærðu Erlu verðar svo og um færslu brota til lagaákvæða.
Þá ber að staðfesta úrlausn hins áfrýjaða dóms um skaðabótakröfu Pósts og síma, þar á meðal um frávísun krafna um vexti og innheimtukostnað.
III. 6.
V. kafli ákæru 8. desember 1976.
Ákærur á hendur Kristjáni Viðari Viðarssyni og
Sævari Marinó Ciesielski.
1.-4. Staðfesta ber úrlausn héraðsdóms um þessa ákæruliði, og eru brot réttilega færð til lagaákvæða í dóminum.
III.7.
VI. kafli ákæru 8. desember 1976.
Ákærur á hendur Sævari Marinó Ciesielski og
Guðjóni Skarphéðinssyni.
Málinu hefur ekki verið áfrýjað að því er tekur til Ásgeirs Ebenezers Þórðarsonar.
Að því er varðar ákærðu Sævar Marinó og Guðjón þá ber að fallast á úrlausn héraðsdóms um þennan ákærulið, og eru brot réttilega til lagaákvæða færð.
Bls. 102
Þá ber um ákærða Sævar að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um upptöku á 2,5 kg af hassi samkvæmt 5. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 390/1974.
III.8.
VII. kafli ákæru 8. desember 1976.
Ákærur á hendur Kristjáni Viðari Viðarssyni.
1.-4. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta úrlausn hans á þessum ákæruliðum. Brot ákærða Kristjáns Viðars eru réttilega til lagaákvæða færð. Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um frávísun á skaðabótakröfu Þorgils Axelssonar.
III.9.
VIII. kafli ákæru 8. desember 1976.
Ákærur á hendur Albert Klahn Skaftasyni.
1. Fallast ber á úrlausn héraðsdóms um þessa ákæruliði, og eru brot ákærða Alberts réttilega til lagaákvæða færð.
2. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að fallast á úrlausn hans að því er þessa ákæruliði varðar, og eru brot ákærða réttilega færð til lagaákvæða.
IV.
Ákæra 16. mars 1977.
A.
Ríkissaksóknari hefur lagt fyrir Hæstarétt mælingar á leiðum, sem ætla má, að ákærðu, Kristján, Sævar, Guðjón og Erla hafi ekið að kvöldi 19. nóvember 1974 frá Reykjavík að Dráttarbrautinni í Keflavík. Notast var við vegmæli bifreiðar, en vegalegndum síðan breytt í samræmi við skekkjustuðul, sem reistur er á samanburði við vegalegndir á Keflavíkurvegi, mældar af Vegagerð ríkisins, og þær vegalengdir, er vegmælir þeirrar bifreiðar sýndi, sem notuð var við kannanirnar.
Leiðin frá Kjarvalsstöðum að Grýtubakka 10, Reykjavík, reyndist samkvæmt þessu vera 6,674 km. Þaðan að Hjallavegi 31 eru 5,274 km, en frá þeim stað að Ásvallagötu 46,
Bls. 103
5,641 km og þaðan að Lambhóli við Starhaga 1,870 km, en frá þeim stað að Ásvallagötu 46 1.789 km. Þaðan lá leiðin að Vatnsstíg 3, og reyndist hún 3,219 km. Akstursleið sú sem valin var frá þeim stað að Aðalstöðinni í Keflavík, var samkvæmt þessari könnun 46,705 km.
Síðan var kannaður ökuhraði eftir þeirri tímalengd, sem akstur hvers áfanga tók samkvæmt skýrslum rannsóknarlögreglu. Miðað við skýrslur þessar reyndist ökuhraði frá Vatnsstíg 3 að Aðalstöðinni í Keflavík vera að meðaltali 84,280 km/klst, en á einstökum áfangaleiðum innan Reykjavíkur frá 32,241 til 45,431 km/klst.
B.
Hinn 11. janúar 1980 kom ákærða Erla fyrir sakadóm Reykjavíkur. Lýsti hún því yfir að fyrri framburðir sínir um för til Keflavíkur 19. nóvember 1974 væru rangir og hún hefði ekki til Keflavíkur farið. Þá væru framburðir hennar um flutning á líki Geirfinns Einarssonar einnig rangir. Kvað ákærða Erla gæsluvarðhaldið hafa haft þvingandi áhrif á sig og valdið því, að hún hafi skýrt svo frá sem hún gerði. Þá hafi rannsóknarmenn átt hlut að því að samræma framburðina með því að gefa henni punkta um framburði annarra ákærðu.
I. kafli ákæru 16. mars 1977.
Ákæra á hendur Kristjáni Viðari Viðarssyni, Sævari Marinó Ciesielski, Guðjóni Skarphéðinssyni og Erlu Bolladóttur.
A.
Geirfinnur Einarsson, Brekkubraut 15, Keflavík, fór frá heimili sínu laust eftir kl. 2215 þriðjudagskvöldið 19. nóvember 1974. Bifreið hans sást mannlaus rétt eftir kl. 2234 á stað í grennd við Hafnarbúðina í Keflavík. Geirfinnur kom eigi heim um nóttina, og hafði eiginkona hans samband við nafngreinda vinkonu sína í Keflavík um morguninn. Skýrðu þær, vinnuveitanda hans frá hvarfi hans síðari hluta miðvikudags 20. nóvember s. á., en hann hafði samband við
Bls. 104
lögregluna í Keflavík næsta morgun. Hófst rannsókn málsins þá þegar.
Rannsókn þessa máls hefur tekið langan tíma, og þykir rétt að gefa stutt yfirlit yfir hana.
A.1. Fyrsti þáttur rannsóknarinnar var í höndum rannsóknarlögreglunnar í Keflavík. Eigi tókst að leiða í ljós, hver afdrif Geirfinns hefðu orðið.
A.2. Við rannsókn á fjársvikamáli hjá rannsóknarlögreglunni í Reykjavík, sem beindist að ákærðu Erlu og Sævari, kom upp grunur um, að ákærðu Kristján, Sævar og Tryggvi væru viðriðnir hvarf Guðmundar Einarssonar, og sættu þeir gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarinnar. Ákærða Erla skýrði rannsóknarlögreglunni hinn 21. janúar 1976 frá ýmsum atvikum, er vörðuðu afdrif Geirfinns Einarssonar, og hið sama gerði ákærði Sævar hinn 22. janúar s. á. og ákærða Erla aftur hinn 23. s. m. Bendlaði hún Kristján við málið. Viðurkenndi hann í fyrstu skýrslu sinni að hafa verið í Keflavík ásamt ákærðu Erlu og Sævari um það leyti, er Geirfinnur hvarf. Gáfu þau þrjú ýmsar skýrslur í málinu næstu vikur og mánuði og báru sakir m. a. á fjóra nafngreinda menn, er þau töldu vera valda að láti Geirfinns eða viðriðna þetta mál. Voru þrír þeirra úrskurðaðir í gæsluvarðhald 26. janúar 1976, en einn 11. febrúar s. á. Sættu þeir gæsluvarðhaldi til 9. maí s. á. Viðurkenndu ákærðu Erla, Sævar og Kristján síðar, að hér hefði verið um rangar sakargiftir að ræða og hefðu það verið samantekin ráð þeirra að bendla þessa menn við málið, ef til rannsóknar kæmi og þau yfirheyrð.
A.3. Sumarið 1976 var rannsókn málsins haldið áfram, m. a. með aðstoð þýsks rannsóknarlögreglumanns. Gáfu þau ákærðu Erla, Kristján og Sævar hvarflandi skýrslur um afdrif Geirfinns, og var það ýmist í frásögn þeirra, að hann hefði látist á báti úti á sjó, verið skotinn eða beðið bana í átökum á tilteknum stað í Keflavík. Benti lýsing þeirra til þess, að vettvangur átakanna hefði verið athafnasvæði Dráttarbrautarinnar þar í kaupstaðnum.
A.4. Hinn 28. október 1976 skýrði ákærði Sævar frá því í fyrsta sinni, að ákærði Guðjón Skarphéðinsson væri viðriðinn
105
mál þetta. Jafnframt skýrði hann rækilega frá ýmsu, er m. a. varðaði ferð til Keflavíkur að kvöldi 19. nóvember 1974 og átökum sínum og þeirra ákærðu Guðjóns og Kristjáns við Geirfinn Einarsson í Dráttarbraut Keflavíkur, er leiddu til dauða Geirfinns, svo og flutningi á líki hans. Gaf hann síðan nánari skýrslur um þetta fyrir rannsóknarlögreglu og á dómþingum haustið 1976, veturinn 1976-1977 og vorið 1977, síðast í dómi 20. og 21. júní 1977.
A.5. Ákærði Kristján skýrði haustið 1976 m. a. frá ferð til Keflavíkur haustið 1974 og átökum þeirra þriggja ákærðu við Geirfinn Einarsson í Dráttarbraut Keflavíkur, er leiddu til dauða hans, og frá flutningi á líki hans. Endurtók hann játningar sínar margsinnis, síðast á dómþingi 12. og 13. maí 1977.
A.6. Ákærði Guðjón var handtekinn 12. nóvember 1976. Viðurkenndi hann smám saman hlut sinn að ferð til Keflavíkur haustið 1974 og þátttöku í átökum ásamt ákærðu Kristjáni og Sævari við Geirfinn Einarsson, er leiddu til bana hans. Hafa skýrslur hans að vísu verið nokkuð á reiki, en hann hefur eigi tekið aftur framburði sína. Síðast kom ákærði fyrir dóm 29. og 30. júní 1977.
A.7. Ákærða Erla bar í fyrstu sakir m. a. á fjóra nafngreinda menn um, að þeir væru valdir að hvarfi Geirfinns Einarssonar, eins og áður greinir. Hinn 1. september 1976 greindi hún frá þætti ákærðu Sævars og Kristjáns í átökum við Geirfinn og bendlaði raunar fleiri menn við þau. Hinn 15. og 30. nóvember s. á. kvað hún ákærða Guðjón vera viðriðinn við málið, og 12. og 13. desember skýrði hún nánar frá átökum Kristjáns, Sævars og Guðjóns við Geirfinn að svo miklu leyti sem hún taldi sig hafa getað skynjað þau. Síðast staðfesti hún þessa framburði á dómþingum 4. og 5. júlí svo og 6. og 12. júlí 1977.
A.8. Hinn 9. desember 1976 skýrði ákærði Sævar frá nafni manns þess, er hefði ekið sendibifreið til Keflavíkur að kvöldi 19. nóvember 1974 í tengslum við ferð þeirra Erlu, Guðjóns, Kristjáns og hans. Ökumaður þessi, Sigurður Óttar Hreinsson, viðurkenndi þegar í desember 1976 þennan akstur og
Bls. 106
skýrði frá ýmsu, er varðaði ferð bifreiðar þeirrar, er ákærði Guðjón ók, og því, er hann taldi sig verða áskynja um við Dráttarbrautina í Keflavík umrætt kvöld. Áréttaði hann þann framburð fyrir rannsóknarlögreglunni í janúar 1977 og fyrir dómi í maí s. á.
A.9. Tveir bifreiðarstjórar gáfu sig fram við rannsóknarlögreglu í mars og apríl 1976 og skýrðu frá því, að þeir hefðu ekið stúlku, annar frá Keflavík að Grindavíkurvegi og hinn þaðan til Hafnarfjarðar, að morgni 20. nóvember 1974. Við sakbendingu taldi annar þeirra sig þekkja ákærðu Erlu sem stúlku þá, er hér væri um ræða.
A.10. Rannsóknarlögreglan aflaði smám saman ýmissa rannsóknargagna, sem vikið er að í héraðsdómi, og hinn 23. janúar 1977 setti hún á svið atburðina í Dráttarbrautinni í Keflavík.
A.11. Á dómþingi í sakadómi Reykjavíkur hinn 6. júlí 1977 tók ákærði Kristján aftur fyrri játningar sínar, og á dómþingi í sama dómi 13. september s. á. hvarf ákærði Sævar frá játningum sínum. Eftir að flutningur máls hófst í héraði, kom vitnið Sigurður Óttar að eigin ósk fyrir dóm 12. október 1977 og lýsti meginframburð sinn að mestu rangan. Rétt áður en flutningur máls þessa hófst í Hæstarétti, tók ákærða Erla aftur fyrri framburði sína á dómþingi 11. janúar 1980.
B.
Framburður ákærðu og vitna og önnur rannsóknargögn eru greind rækilega og réttilega í héraðsdómi. Allt um það þykir rétt til glöggvunar að reifa í samanþjöppuðu formi helstu skýrslur ákærðu og vitna og gögn eftir því sem ástæða þykir til. Jafnframt er vísað til héraðsdóms, þar sem fyllri reifunar nýtur við.
Sunnudagskvöldið 17. nóvember 1974 fór Geirfinnur Einarsson, Brekkubraut 15, Keflavík, frá heimili sínu til Reykjavíkur og þar á veitingahúsið Klúbbinn ásamt tveimur félögum sínum. Voru þeir á veitingahúsinu frá því um kl. 2200 þar til um kl. 0100 um nóttina. Neytti Geirfinnur nokkurs
Bls. 107
áfengis. Annar félaga hans minntist þess, að Geirfinnur ræddi við mann í stiga milli 2. og 3. hæðar hússins. Ekki þekkti hann mann þennan, og ekki heyrði hann, hvað þeir ræddu.
Ákærðu Sævar og Kristján hafa báðir skýrt svo frá, að þeir hafi verið í veitingahúsinu Klúbbnum sunnudagskvöldið 17. nóvember 1974 og hitt Geirfinn þar á stigaskörinni á 2. hæð. Hafi þeir rætt við hann um áfengisviðskipti. Ákærði Sævar kveðst hafa ritað hjá sér nafn og heimilisfang Geirfinns.
Geirfinnur var samferða félögum sínum til Keflavíkur, og minntust þeir þess ekki, að hann hefði rætt um viðtöl þessi á leiðinni. Geirfinnur fór til vinnu sinnar mánudaginn 18. nóvember og þriðjudaginn 19. nóvember. Hann kom úr vinnu sinni þriðjudaginn 19. nóvember upp úr kl. 1800. Að frásögn eiginkonu hans hringdi síminn á heimili hans um eða upp úr kl. 1900, og átti Geirfinnur stutt símtal við einhvern. Ekki er vitað um efni þess símtals. Rétt fyrir kl. 2100 kom annar fyrrgreindra félaga Geirfinns í heimsókn til hans og vildi fá hann með sér í kvikmyndahús. Að sögn þessa félaga hans taldi Geirfinnur sig eigi hafa tök á því, þar sem hann þyrfti að hitta einhverja menn við Hafnarbúðina kl. 2200. Hafði vitnið eftir Geirfinni, að ekki vissi hann, hvaða menn þetta væru eða hvaðan þeir kæmu, en hann átti að koma einn og gangandi til fundar við þá. Kvaðst það síðan hafa ekið Geirfinni nokkuð á leið, en skilið við hann í nálægð Hafnarbúðarinnar. Fram er komið að Geirfinnur kom inn í Hafnarbúðina, keypti þar vindlinga, leit í kringum sig og fór síðan. Var hann kominn heim aftur um kl. 2215. Hringt var í síma á heimili Geirfinns skömmu síðar, og svaraði 10 ára gamall sonur hans í símann. Kvað hann dimmraddaðan karlmann hafa spurt eftir Geirfinni, og kvaðst drengurinn hafa kvatt hann í símann. Eiginkona Geirfinns kvað símtal þetta hafa verið stutt og hafi Geirfinnur sagt "ég kom" og síðar "ég kem". Eftir þetta tók Geirfinnur bifreið þeirra hjóna og ók brott. Tvö vitni hafa staðfest, að þau hafi séð bifreið Geirfinns standa mannlausa við hús Kaupfélags Suðurnesja rétt eftir kl. 2234 umrætt kvöld. Fannst bifreiðin á þessum sama stað næsta dag.
Bls. 108
C.
C.1. Hinn 27. og 28. október 1976 skýrði ákærði Sævar rannsóknarlögreglunni frá því, sem hann taldi sig vita um afdrif Geirfinns Einarssonar. Greindi hann þá frá því í fyrsta sinni, að ákærði Guðjón Skarphéðinsson væri viðriðinn mál þetta. Eru þessir framburðir raktir rækilega í héraðsdómi. Lýsti ákærði Sævar aðdraganda ferðar þeirra ákærðu Erlu, Kristjáns og Guðjóns til Keflavíkur, viðtölum í bifreiðinni, símtali við Geirfinn frá Hafnarbúðinni í Keflavík og komu hans og viðdvöl í bifreið þeirra. Síðar lýsti hann allnákvæmlega atvikum að átökunum við Geirfinn og hlut hvers þeirra ákærðu um sig í þeim, andláti Geirfinns og flutningi á líki hans, fyrst til Reykjavíkur og síðar á stað, sem eigi hefur tekist að finna.
Ákærði Sævar skýrði á ýmsa vegu frá atburðum í Dráttarbrautinni í Keflavík í framburðum síðar um haustið 1976 og snemma árs 1977, svo sem rakið er í héraðsdómi. Í þessum framburðum greindi ákærði Sævar frá því, að þeir ákærði Kristján hefðu hitt Geirfinn Einarsson í Klúbbnum sunnudagskvöldið 17. nóvember 1974 og rætt við hann um áfengisviðskipti. Hafi hann fengið nafn Geirfinns og látið síðan ákærða Guðjóni í té upplýsingar um þetta.
Þá skýrði ákærði Sævar frá ýmsu, er varðar flutning á líki Geirfinns, og gætir þar mikils misræmis.
Í framburði 12. janúar 1977 kvað ákærði Sævar allar frásagnir um, að Geirfinnur hefði látist um borð í báti, vera rangar. Í framburði 1. febrúar 1977 lýsti hann rækilega ferðinni til Keflavíkur, viðræðum í bílnum á suðurleið um að "pressa" Geirfinn svo og átökum í Dráttarbrautinni, er lyktuðu með andláti Geirfinns. Skýrði hann í framburði þessum frá hlut sínum og annarra í þessari viðureign.
Á dómþingum 20. og 21. júní 1977 greindi ákærði Sævar síðan sjálfstætt og heildstætt frá sakarefni, allt frá því er fundi hans og Geirfinns bar saman 17. nóvember 1974 og viðræðum þá um áfengisviðskipti og tilboði sínu um að greiða Geirfinni 50-70.000 krónur fyrir upplýsingar um geymslustað áfengis. Þá skýrði hann frá viðræðum við
Bls. 109
ákærða Guðjón 18. nóvember s. á. um ferð til Keflavíkur næsta dag, samtali við ákærða Kristján, er hét að útvega sendibifreið til ferðar til Keflavíkur, símtali um stefnumót við Geirfinn, leigu á bifreið til Keflavíkurferðar, ferðinni til Keflavíkur og umræðu á þeirri leið um að "pressa" Geirfinn eða jafnvel sýna honum "fulla hörku". Enn greindi hann frá símtali við Geirfinn frá Hafnarbúðinni, komu Geirfinns í bifreið þeirra ákærðu, viðtölum við hann þar og afhendingu hans á 70.000 krónum til Geirfinns svo og átökum í Dráttarbrautinni í Keflavík. Loks skýrði hann frá líkflutningi. Verjandi hans var viðstaddur þessi þinghöld.
C.2. Ákærði Kristján skýrði í skýrslum sínum haustið 1976 frá ferð þeirra ákærðu Erlu, Sævars og manns, er hann taldi vera ákærða Guðjón, til Keflavíkur, símtali sínu við Geirfinn Einarsson, átökum í eða við Dráttarbrautina í Keflavík, andláti Geirfinns og flutningi á líki hans. Skýrslur þessar eru að vísu reikular, og ákærði gerði eigi glögga grein fyrir hlut sínum í þessum átökum. Taldi hann í skýrslum þessum nafngreindan fjórða mann hafa verið með þeim.
Enn fremur bar ákærði, að hann hefði hitt mann í Klúbbnum haustið 1974, e. t. v. sunnudagskvöldið 17. nóvember, og hefði átt við hann viðræður að áeggjan ákærða Sævars, er þar var með honum. Snerust þær um viðskipti með áfengi. Kvað ákærði sér finnast, að maður þessi hefði verið Geirfinnur Einarsson, og lýsti hann klæðaburð hans.
Ákærði Kristján gaf heildarskýrslu fyrir rannsóknarlögreglu 14. janúar 1977 og skýrði á sama hátt frá á dómþingi 18. janúar s. á.
Hann lýsti í framburði fyrir rannsóknarlögreglu 1. febrúar 1977 allnákvæmlega átökunum við Geirfinn og hlut hvers þeirra ákærðu Sævars, Guðjóns og sín í aðförinni að honum. Er framburður þessi rakinn í héraðsdómi. Þessa framburði staðfesti hann enn á dómþingi 12. og 13. maí 1977 að verjanda sínum viðstöddum, og viðurkenndi hann þá það atferli, sem honum er gefið að sök í I. kafli ákæru 16. mars 1977. Eru framburðir 12. og 13. maí raktir í héraðsdómi, en ákærði lýsti þar m. a. allnákvæmt átökunum við Geirfinn og and-
Bls. 110
láti hans og svo flutningi á líki hans og því, að hann hefði tekið peningaveski og blýant af líkinu.
C.3. Ákærði Guðjón hafði verið yfirheyrður hjá rannsóknarlögreglu hinn 14. maí 1976 og þá um kynni sín af ákærða Sævari og samband þeirra almennt.
Hinn 12. nóvember s. á. handtók lögreglan hann. Við húsleit hjá honum fundust minnisgreinar, er hann hafði ritað, um ýmislegt, er birst hafði í blöðum um rannsókn á hvarfi Geirfinns Einarssonar og gang hennar. Að lokinni yfirheyrslu fyrir rannsóknarlögreglu og dómara var ákærði Guðjón úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir.
Í yfirheyrslu yfir ákærða Guðjóni hinn 29. nóvember 1976 viðurkenndi hann að hafa ekið með ákærða Sævari og e. t. v. ákærðu Erlu og Kristjáni til Keflavíkur í bifreið af Volkswagen gerð. Hafi verið komið að Hafnarbúðinni og farþegi farið þar úr bifreiðinni til að hringja, en síðan hafi verið ekið að húsi nokkru, þar sem allir hafi farið úr bifreiðinni nema hann. Hafi þarna orðið "eitthvert vesen". Kvað hann ákærða Sævar hafa sagt við sig á leiðinni til Reykjavíkur, að nú væri hann orðinn samsekur um morð. Hafi sér orðið mikið um þau ummæli.
Í yfirheyrslu 30. nóvember 1976 skýrði ákærði Guðjón frá því, að ákærði Sævar hefði haft samband við sig síðari hluta dags mánudaginn 18. nóvember 1974. Sævar hafi þá vakið máls á að fara til Keflavíkur til að hitta þar mann og hringt að sér áheyrandi til að fá upplýsingar um símanúmer þessa manns. Næsta kvöld hafi ákærði Sævar svo sótt sig í tiltekið hús. Kvaðst hann þar hafa tekið við stjórn Volkswagen bifreiðar, er Sævar hefði tekið á leigu, og voru þau Sævar og Erla þá í bifreiðinni. Var ekið að Vatnsstíg. Þar kvað hann mann hafa komið í bifreiðina, er kunni að vera ákærði Kristján. Var síðan haldið til Keflavíkur. Einnig hafði sendibifreið farið suður eftir. Verið geti, að hann hafi verið nærstaddur átök í Dráttarbrautinni, en hann minnist þess ekki að hafa tekið þátt í þeim.
Hinn 2. desember 1976 skýrði ákærði Guðjón frá því í
Bls. 111
dómi, að sig minnti, að hann hefði ekið þeim þremur, er áður greinir, til Keflavíkur. Fyrir ofan Hafnarfjörð minntist hann þess, að einhver spurði, hvort menn sæju sendibifreið. Er til Keflavíkur kom, hafi verið staðnæmst við bragga, er kallast "Pípugerð Áhaldahús". Enn var haldið á annan stað og hafi allir farið út nema hann. Hafi hann á tilfinningunni, að eitthvað hræðilegt hafi gerst. Á leiðinni til Reykjavíkur hafi ákærði Sævar sagt: "Þú ert orðinn samsekur um morð".
Hinn 8. desember 1976 skýrði ákærði Guðjón frá vitneskju sinni um málið í alllöngum framburði, sem tekinn er upp í héraðsdóm. Greindi hann frá tilmælum ákærða Sævars hinn 18. nóvember 1974 til sín um að fara til Keflavíkur næsta dag. Enn fremur frá því, er þau ákærðu Sævar og Erla hafi sótt hann í tiltekið hús í Reykjavík að kvöldi 19. nóvember og hann hafi tekið við akstri bifreiðar, er Sævar hafði til umráða. Fjórði maðurinn, sem hann þekkti ekki, hafi komið í bifreiðina, áður en lagt var upp frá Reykjavík. Sendibifreið hafi átt að vera í samfloti með þeim. Hann greindi frá umræðu í bifreiðinni þess efnis, að sýna ætti manninum í Keflavík, sem hitta átti, "fulla hörku", ef hann vildi ekki ganga til samninga. Þegar til Keflavíkur kom, hafi bifreiðin verið stöðvuð við hús, sem á var skráð "Pípugerð Áhaldahús", en síðan haldið að Hafnarbúðinni. Maðurinn, sem ætlunin var að hitta, hafi eigi sést þar á vettvangi. Hafi einn farþeganna, sem ákærði Guðjón taldi vera ákærða Kristján, þá farið inn í Hafnarbúðina og hringt til mannsins. Maður þessi, sem ákærða Guðjóni varð síðar ljóst, að væri Geirfinnur Einarsson, hafi svo komið til þeirra og sest inn í bifreiðina. Ekið var að Dráttarbraut Keflavíkur. Kvað hann þá ákærða Sævar og Geirfinn hafa ræðst við um áfengisviðskipti, og telur hann, að þeir hafi hvor um sig verið "að fiska eftir upplýsingum hjá hinum". Ákærði Sævar hafi boðið Geirfinni peninga fyrir að útvega áfengi eða veita upplýsingar um geymslustað þess. Eigi gekk saman með þeim tveimur. Hafi nú verið numið staðar og þeir karlmennirnir farið út úr bifreiðinni. Geirfinnur hafi ætlað að hverfa á brott frá þeim,
Bls. 112
en ákærði Guðjón kvaðst þá hafa tekið í hann til að stöðva hann. Hafi nú komið til átaka og rámi sig í að hafa tekið Geirfinn hálstaki, en eigi minnist hann þess að hafa slegið hann með barefli eða hnefum. Eigi treysti hann sér til að greina, hver hlutur hinna hefði verið átökunum né heldur, hvað leiddi Geirfinn til dauða. Lýsti hann síðan flutningi líksins í bifreiðinni til Reykjavíkur.
Í skýrslu ákærða Guðjóns 14. desember 1976 viðurkennir hann að vera samsekur þeim ákærðu Sævari og Kristjáni um dauða Geirfinns Einarssonar. Megi vel vera, að hann hafi veitt Geirfinni höfuðhögg með spýtu eða öðru barefli, en um það geti hann ekki sagt.
Hinn 25. janúar 1977 gaf ákærði Guðjón heildarskýrslu hjá rannsóknarlögreglu og staðfesti hana hjá dómara 31. s. m. Þá kom ákærði fyrir dóm 29. og 30. júní s. á. og staðfesti lögregluskýrsluna að nýju. var ákærða kynnt sakarefnið, en hann kvaðst ekki vilja "viðurkenna það að svo stöddu". Hann greindi frá því m. a., að tímasetningar væru eigi öruggar í skýrslum sínum og þær gloppóttar. Kvaðst hann í upphafi ekki muna eftir að hafa lent í tuski við Geirfinn eða tekið hann hálstaki né heldur að hafa fellt hann til jarðar. Ekki treystist hann til að lýsa þætti ákærðu Kristjáns og Sævars í átökunum. Hann kvaðst muna eftir því augnabliki, þegar Geirfinnur féll til jarðar, en með hverjum hætti það gerðist, viti hann ekki. Hann kvað sér hafa verið ljóst, að Geirfinnur væri látinn. Ekki viti hann um dánarorsök Geirfinns og geti ekki sagt um, "hvort hann hafi beðið bana í átökunum við þá þrjá". Hann viðurkenndi þó að hafa ætlað að stöðva Geirfinn, en þá lent í tuski við hann og náð á honum hálstaki. Verið geti að hann hafi skellt honum til jarðar. Hann minnist þess ekki, að barefli hafi verið beitt, en skynjaði, að Geirfinnur lá hreyfingarlaus á jörðinni, og taldi hann látinn. Ákærði taldi sig "ekki geta sagt til um dánarorsök, en honum er ljóst, að hann lét lífið í átökum við þá þrjá. Ákærði bar og um það, er hann varð áskynja um sendibifreið í námunda við vettvang brotsins svo og um flutning líksins. Þá staðfesti hann, að ákærði Sævar hefði sagt við
Bls. 113
sig á leiðinni til Reykjavíkur, að hann hefði orðið samsekur um morð. Ákærði Guðjón neitaði að hafa átt þátt í að flytja lík Geirfinns frá Grettisgötu 82.
Í samprófun þeirra ákærðu Sævars og Guðjóns 11. júlí 1977 kvað Guðjón Sævar hafa haft orð á því í bifreiðinni, að beita þyrfti "fullri hörku", ef á reyndi, og kannaðist ákærði Sævar við að hafa kveðið svo að orði. Þá kvað Guðjón Sævar hafa talað um "að láta manninn hverfa", en Sævar andmælti að hafa borið sér þau orð í munn.
Á dómþingi 27. september 1977 hélt ákærði Guðjón fast við framburð sinn, en þá var hann samprófaður við ákærða Kristján.
C.4. Ákærða Erla Bolladóttir var í skýrslum sínum í janúar 1976 og fram á vor það ár sakir m. a. á fjóra nafngreinda menn um að vera valdir að andláti Geirfinns Einarssonar, svo sem rakið er hér að framan.
Hinn 4. maí 1976 skýrði hún svo frá fyrir rannsóknarlögreglu, að hún hefði skotið á Geirfinn úr byssu, er ákærði Sævar hefði fengið henni í hendur. Staðfesti hún þann framburð samdægurs í dómi. Var hún nú úrskurðuð í gæsluvarhald.
Hinn 1. september 1976 skýrði ákærða Erla svo frá, að hún ætti engan þátt í því, að Geirfinnur Einarsson beið bana. Kvað hún Sævar, Kristján, sig og ökumann, er hún nafngreindi, hafa ekið til Keflavíkur. Hefði ákærði Sævar og síðastgreindi maðurinn rætt um, að maður sá, er hitta ætti, væri með "stæla" og "yrði þetta bara að vera svona, eins og búið væri að ákveða". Ekið hafi verið í Dráttarbrautina í Keflavík og hafi þar verið fyrir tvær bifreiðar, og var önnur sendibifreið. Lýsti hún síðan átökum við mann, er hún telur hafa verið Geirfinn, og dreifði við þau ýmsum mönnum, nafngreindum og ónafngreindum. Hafi nafngreindur maður tekið í handlegg Geirfinns, en ákærði Sævar gengið í veg fyrir Geirfinn og af þessu orðið stimpingar. Ónafngreindur maður hafi lamið hann, en ákærði Sævar barið hann með spýtu, "þar til hann seig saman". Eftir að Geirfinnur féll til jarðar, hafi Sævar komið til hennar og sagt,
Bls. 114
að hún skyldi fara. Hafi hún síðan falið sig í "einhverju húsi" í Keflavík og komist með bifreið til Reykjavíkur næsta dag.
Hinn 15. nóvember 1976 skýrði ákærða Erla frá því, að lík hefði verið flutt í bifreið, er hún ók, frá Grettisgötu 82 út á Álftanes. taldi Erla, að þessi ferð hefði verið farin 22. nóvember 1974. Í yfirheyrslu hinn 19. nóvember 1976 kvaðst Erla vera fullviss um, að ákærði Guðjón hefði verið með í ferðinni til Keflavíkur og í förinni út á Álftanes með líkið.
Í dómskýrslu 30. nóvember 1976 sagði ákærða Erla m. a., að hún hefði að frumkvæði Sævars borið ranglega sakir á fjóra nafngreinda menn, og raunar fleiri, um að vera valdir að dauða Geirfinns Einarssonar. Þá kvaðst hún viss um, að ákærði Guðjón hefði verið staddur í Dráttarbraut Keflavíkur "umrætt kvöld".
Hinn 12. og 13. desember 1976 skýrði ákærða Erla m. a. frá átökum ákærðu Kristjáns, Sævars og Guðjóns við Geirfinn í Dráttarbrautinni og staðfesti þá skýrslu fyrir dómi 22. desember s. á. Kvað hún þau fjögur hafa rætt um það, nokkru eftir að atburðirnir gerðust, að bendla aðra við málið, og hafi Sævar ítrekað þetta við sig nokkru síðar og jafnframt haft orð á, að allt hefði "þetta" farið út um þúfur, "þar sem hann hefði tekið vitlausan mann."
Ákærða Erla staðfesti enn þessa framburði í dómi 4. og 5. júlí 1977. Skýrði hún þar sjálfstætt frá bifreið, er þau Sævar tóku á leigu, og aðdraganda að ferðinni til Keflavíkur að kvöldu dags 19. nóvember 1974. Voru ákærðu Sævar, Kristján og Erla í bifreiðinni, er haldið var af stað úr Reykjavík, auk ákærða Guðjóns, sem ók henni. Greindi hún frá sendibifreið, er verið hefði í samfloti með þeim til Keflavíkur. Taldi hún bifreiðina svipaða bifreið, er Sigurður Óttar Hreinsson hefði áður ekið. Hún kvað þá ákærðu Guðjón og Sævar hafa ræðst við í bílnum á leiðinni um mann, sem ætlunin væri að hitta, og hefði Sævar viðhaft þau ummæli, að beita þyrfti fullri hörku við manninn. Fannst Erlu ákærði Guðjón taka undir þetta. Þá lýsti hún því, að m. a. hefði verið ekið að Hafnar-
Bls. 115
búðinni í Keflavík og hafi Sævar látið Kristján fá miða með símanúmeri og beðið hann að hringja. Ekki kvaðst hún hafa heyrt minnst á nafn í því sambandi. Nokkru eftir að Kristján kom í bifreiðina aftur, hafi komið til þeirra maður og sest inn í bifreiðina. Kvaðst hún telja, að maður þessi hefði verið Geirfinnur Einarsson. Ekið hafi verið um Keflavík og hafi Sævar og að einhverju leyti Guðjón farið fram á það við Geirfinn, að hann léti þeim í té upplýsingar um geymslustað smyglaðs áfengis og fengi fé fyrir. Hafi hiti færst í umræður og sviptingar byrjað í bifreiðinni. Síðan hafi verið ekið að Dráttarbraut Keflavíkur. Þar hafi verið fyrir sendibifreiðin, er hún hafi séð á Vatnsstíg, áður en lagt var upp til Keflavíkur.
Erla greindi frá því, að Sævar hefði tekið "búnt af 5.000 króna seðlum" úr tösku, er hann hafi haft meðferðis, og rétt Geirfinni. Hafi hann tekið við fénu, en síðan hent því frá sér inni í bifreiðinni. Kvað hún nú Sævar, Guðjón, Kristján og Geirfinn hafa farið út úr bifreiðinni og hún sjálf litlu síðar. Þjarkið hafi haldið áfram, en Geirfinnur hafi þá gripið í handlegg hans og stöðvað hann. "Alveg í því réðust Kristján og Sævar á Geirfinn". Kvaðst hún hafa séð, að þeir ákærðu börðu Geirfinn. Hafi Kristján og Guðjón greitt honum hnefahögg, en Sævar beitt barefli. Hafi Geirfinnur verið barinn, uns hann féll til jarðar og lá hreyfingarlaus. "Átökin verkuðu þannig á ákærðu, að svipta ætti manninn lífi, en ekki að pynta ætti hann til sagna". Þegar hér var komið, hafi Sævar sagt henni að fara heim og fengið henni fé í hendur. Kvaðst hún hafa orðið óttaslegin, farið inn í mannlaust hús, er stóð þarna nærri, og hafst þar við um nóttina, en fengið far með bifreiðum næsta morgun til Hafnarfjarðar án þess að greiða fyrir. Er þau Erla og Sævar hittust um morguninn, hafi Sævar brýnt fyrir henni að hafa ekki orð á því, sem gerst hafði.
Enn lýsti Erla líkflutningi frá Grettisgötu 82 í bifreið, er hún ók, en í bifreiðinni hefðu einnig verið þeir Guðjón, Kristján og Sævar. Hafi líkið verið flutt upp í Rauðhóla og
Bls. 116
grafið þar, en áður hafi bensíni verið hellt yfir líkið og það brennt.
Hún kvaðst hafa verið heitbundin Sævari á þessum tíma og hafi ekki ekið líkinu af fúsum vilja, heldur vegna ótta við Sævar. Ekki gat hún bent á stað, þar sem líkið hefði verið grafið.
Í dómskýrslunni skýrði Erla einnig frá því, að hún hefði nokkrum dögum eftir atburði þessa, líklega næstu helgi á eftir heyrt á viðræður þeirra Guðjóns, Kristjáns og Sævars þar sem þeir hafi komið sér saman um að bendla fjóra nafngreinda menn við hvarf Geirfinns, ef þeir yrðu spurðir um það. Eru það menn þeir, er þau Erla, Sævar og Kristján nafngreindu síðar í rannsókn málsins.
Hinn 5. júlí 1977 voru þau ákærðu Erla og Sævar samprófuð. Kvað Erla sig þá ráma í, að Sævar hefði sagt sér 18. nóvember 1974, að hann ætlaði að eiga viðskipti við mann, sem hann og ákærði Kristján hefðu hitt í Klúbbnum. Þau staðhæfðu bæði, að þau hefðu tekið bíl á leigu hjá tiltekinni bílaleigu 19. nóvember 1974. Þau héldu fast við þann framburð, að þau hefðu verið á kvikmyndasýningu á Kjarvalsstöðum að kvöldi þess dags. Um viðræður, er fram fóru í bifreiðinni á leiðinni til Keflavíkur, hélt hvort þeirra fast við sinn framburð. Ákærði Sævar taldi framburð Erlu réttan um það, sem gerst hefði í bifreiðinni, eftir að Geirfinnur kom í hana, en þar hefðu þó engar sviptingar átt sér stað. Hvort um sig hélt fast við framburði sína um átökin í Dráttarbraut Keflavíkur, og náðist ekki samræmi. Þeim bar saman um, að ákærði Guðjón hefði tekið þátt í líkflutningi 20. eða 21. nóvember.
Hinn 6. júlí 1977 voru ákærðu Erla og Kristján samprófuð. Hélt Erla fast við framburð sinn um, að Kristján hefði verið með í ferðinni til Keflavíkur 19. nóvember 1977 og tekið þátt í átökunum. Neitaði ákærði Kristján þessu, sbr. síðar um afturköllun hans á fyrri framburðum.
Hinn 12. júlí 1977 voru þau ákærðu Erla og Guðjón samprófuð. Staðfesti Erla þá framburði sína um aðdraganda að ferðinni til Keflavíkur og um ferðina þangað. Guðjón taldi,
Bls. 117
að þau hefðu komið til Keflavíkur kl. 2200 til 2210. Bæðu staðfestu þau framburði sína um það, sem gerðist, eftir að Geirfinnur kom í bifreiðina. Að sögn Guðjóns mætti vera, að orðaskak hefði orðið þar, en hann hefði eigi orðið þess var, að komið hafi til sviptinga, án þess þó að þora að taka fyrir það. Guðjón taldi frásögn Erlu rétta um peningana, sem Sævar bauð Geirfinni, og um viðbrögð hins síðarnefnda. Guðjón sagði það rétt hjá Erlu, að hann hefði tekið í upphandlegg Geirfinns, en það hafi stafað af því, að hann hafi ætlað að hafa hann á brott með sér, án þess að hann yrði áreittur frekar. Geirfinnur hafi misskilið þetta og brugðist illa við, en þeim "Sævari Marinó og Kristjáni Viðari hafi verið of lausar hendur, eins og neista væri hleypt í púður". Guðjón minntist þess ekki að hafa beitt hnefum og staðhæfði, að ekki hefði vakað fyrir sér að lenda í átökum. Ekki minntist hann þess, að barefli hefði verið notað í átökunum.
Ákærði Guðjón kvaðst ekki hafa orðið þess var, er Erla hvarf af vettvangi. Hann synjaði fyrir að hafa tekið þátt í líkflutningi frá Grettisgötu 82, en ákærða Erla kvaðst ekki vera örugg um, að Guðjón hefði verið með í flutningi þessum. Ákærði Guðjón neitaði að hafa tekið þátt í viðræðum við Sævar og Kristján um, hvað gera skyldi, ef upp kæmist um þátt þeirra í dauða Geirfinns. Ákærða Erla hélt fast við fyrri framburð sinn um það efni.
C.5. Í rannsókn málsins á árinu 1976 greinir allvíða í framburðum ákærðu frá sendibifreið, er farið hafi frá Reykjavík til Keflavíkur kvöldið 19. nóvember 1974 í tengslum við för þeirra ákærðu Erlu, Guðjóns og Kristjáns og Sævars og í nokkru samfloti við bifreið þeirra. Lengi vel gátu ákærðu þess eigi, hver verið hefði ökumaður bifreiðar þessarar. Hinn 9. desember 1976 skýrði ákærði Sævar frá því fyrir rannsóknarlögreglu, að frændi ákærða Kristjáns hefði ekið bifreiðinni. Maður þessi, Sigurður Óttar Hreinsson, var yfirheyrður sem vitni hjá rannsóknarlögreglu hinn 13. desember s. á. Synjaði vitnið í fyrstu fyrir að hafa farið til Keflavíkur 19. nóvember 1974 og kvað það ósannindi, að
Bls. 118
það hefði nokkru sinni ekið sendibifreið að Dráttarbraut Keflavíkur. Í rannsóknarlögregluskýrslu viðurkenndi vitnið, að það hefði að tilmælum ákærða Kristjáns komið í sendibifreið kvöld eitt í nóvember 1974, er gæti hafa verið 19. nóvember, á Vatnsstíg í Reykjavík nokkru eftir kl. 2100. Hefði það þar hitt Kristján, sem gaf því fyrirmæli um að aka til ákveðins staðar í Keflavík og bíða sín þar. Ákærði Kristján hafi hitt það á stað þessum, og ók vitnið að fyrirmælum hans í Dráttarbrautina, nam þar staðar og slökkti ljósin. Eftir u. þ. b. hálfa klukkustund hafi Kristján komið til sín og sagt við sig þessi orð: "Þetta er allt í lagi, það verður ekkert úr þessu, þú getur farið, þú veist ekkert um málið". Hafi það að svo búnu farið rakleiðis til Reykjavíkur og komið þangað um kl. 2400. Það hafi verið eitt í bifreiðinni allan tímann.
Vitnið kvaðst engan hafa séð í Dráttarbrautinni nema ákærða Kristján. Ekki taldi það sig hafa orðið vart við bifreið þar. Rifa hafi verið á glugga bifreiðarinnar og það heyrt mannamál. Hafi það ekki tekið eftir því, hvort átök hafi orðið í Dráttarbrautinni.
Þá skýrði vitnið frá því, að þeir ákærði Kristján hefðu um þessar mundið sofið í sama herbergi að Grettisgötu 82. Vitnið heldur, að það hafi verið komið undir morgun næsta dag, þegar Kristján kom inn í herbergið. Vitnið kvaðst hafa innt hann eftir, hvað gerst hefði um kvöldið, en Kristján hafi sagt sér að skipta sér ekki af því. Ekki hafi það orðið vart við, að "neitt væri flutt inn í kjallarann" að Grettisgötu 82, og hafi Kristján eigi nefnt það við sig síðar. Eigi tjáist það hafa orðið vart við, að neitt væri flutt úr kjallaranum næstu daga.
Vitnið tók fram, að það hefði ekki farið ferð þessa "vegna peninga, heldur eingöngu í vináttuskyni við Kristján".
Á dómþingi 14. desember 1976 staðfesti Sigurður Óttar, að hann hefði ekið tiltekinni sendibifreið til Keflavíkur hinn 19. nóvember 1974 og að Dráttarbraut Keflavíkur. Hafi hann farið þessa ferð fyrir frænda sinn, ákærða Kristján. Kvaðst hann hafa beðið u. þ. b. 1/2 klst. við Dráttarbraut-
Bls. 119
ina, uns Kristján kom og sagði honum, að hann gæti farið. Sigurður Óttar var yfirheyrður í dómi með vísan til 2. mgr. 77. gr. laga nr. 74/1974.
Sigurður Óttar samdi skriflega skýrslu í fangelsinu í Síðumúla, að því er virðist þegar eftir lok þinghaldsins. Er hún tekin upp í héraðsdóm. Greindi hann þar nokkru nánar frá viðræðum við Kristján um það erindi, er honum var ætlað að rækja í Keflavík. Tjáði hann Kristján eigi hafa viljað skýra sér frá því, en hann mundi sjá það, þegar komið yrði til Keflavíkur. Þá áréttaði hann skýrslu sína um, að þeir Kristján hefðu hist í Keflavík á fyrirfram tilteknum stað, um akstur sinn að Dráttarbrautinni að fyrirmælum Kristjáns og viðdvöl sína þar í 30 mínútur.
Í skýrslu fyrir rannsóknarlögreglu 14. desember 1976 ítrekaði vitnið framburð sinn. Taldi vitnið sig ekki hafa séð mannaferðir í Dráttarbrautinni, en kvað sig hafa greint óljóst mannamál, eins og margir væru að tala. Ekki kvaðst vitnið hafa heyrt orðaskil.
Þessa framburði áréttaði vitnið enn fyrir rannsóknarlögreglunni 24. janúar 1977 og fyrir dómi 25. maí s. á. en vitnið vann þá eið að framburðum sínum. Eru skýrslur þessar raktar rækilega í héraðsdómi. Gerði það þar m. a. grein fyrir því, hvað sendibifreið það hefði ekið, og lýsti útliti hennar. Kristján hafði orðað við sig ferðina til Keflavíkur kvöldið áður en hún var farin. Vitnið kvaðst hafa komið með bifreiðina á Vatnsstíg milli kl 2100 og 2130 umrætt kvöld, en það var ekki öruggt um dagsetningu. Vitnið sagðist ekki hvaða orðið vart við bifreið við Dráttarbrautina. Hafi það heyrt mannamál og fannst eins og rifrildi ætti sér stað. Giskaði vitnið á, að þarna gætu hafa verið 5 eða 6 menn. Hafi þeir verið í 10-20 metra fjarlægð og hafi það þekkt málróm Kristjáns og Sævars, en ekki hafi það séð, hvað fram fór. Það hafi ekki beinlínis orðið vart við átök, en einhvern óróa. Þegar Kristján kom til vitnisins og sagði því að fara, hefði hann verið móður og virst í æstu skapi. Vitnið ítrekaði, að það hefði beðið í Dráttarbrautinni um hálfa klukkustund. Vitnið endurtók skýrslu sína
Bls. 120
um, að það hefði komið til Reykjavíkur um kl. 2400 og um viðræðu sína við Kristján næsta morgun svo og að það hefði ekki orðið vart við, að neitt væri flutt í kjallara hússins Grettisgötu 82 á þessum tíma og falið þar. Vitnið tók fram, að því hefði þótt ferðalag þetta grunsamlegt og hafi Kristján aldrei viljað gefa neina skýringu á því, hvað gerst hefði. Eigi hafi það þó sett ferðina í samband við hvarf Geirfinns Einarssonar.
Vitnið kvað þá ákærðu Kristján vera systrasyni og þekkjast vel. Það taldi sig þekkja Sævar vel og kannast við Erlu, en Guðjón væri sér með öllu ókunnugur.
C.6. Svo sem áður greinir, kvað ákærða Erla sig hafa komist frá Keflavík til Hafnarfjarðar "á puttanum", eins og hún orðaði það. Í héraðsdómi eru raktir framburðir tveggja bifreiðarstjóra, er kveðast hafa ekið stúlku, morguninn 20. nóvember 1974, annar frá Keflavík að Grindavíkurvegi, en hinn þaðan til Hafnarfjarðar. Vitnið Guðmundur Sigurður Jónsson, sem kvaðst hafa ekið stúlku fyrri áfangann, miðar daginn 20. nóvember 1974 m. a. við afmæli vandamanns síns. Taldi það stúlkuna hafa verið kápulausa, svo sem Erla var að eigin sögn og Sævars, og gaf glögga lýsingu á stúlkunni. Við sakbendingu benti vitnið á Erlu í hópi stúlkna. Var því sýnd mynd af Erlu, og taldi það, að hún væri af umræddri stúlku, en gat þess, að hún hefði ekki verið með gleraugu.
Vitnið kvað stúlkuna hafa sagst ætla að fara til Grindavíkur og farið úr bifreiðinni við Grindavíkurveg. Vitnið kvaðst hafa ekið hægt af stað og sé þá vörubifreið, sem sveigt var inn á Grindavíkurveg. Vakti það undrun þess, að stúlkan reyndi ekki að fá far með þessari bifreið. Skömmu síðar kvaðst vitnið hafa veitt athygli vörubifreið, er ók fram úr bifreið þess. Virtist því stúlka sú, er það ók að Grindavíkurvegi, sitja við hlið ökumannsins.
Önnur vætti, sem greinir í héraðsdómi og lúta að þessu atriði, styðja mjög frásögn þessa greinargóða vitnis.
Hinn ökumaðurinn, Ámundi Rögnvaldsson, kvaðst minnast þess að hafa tekið upp í vörubifreið sína í grennd við
Bls. 121
Grindavíkurveg dag nokkurn haustið 1974 stúlku, er óskaði eftir fari. Samkvæmt dagbók, er hann hélt, kvaðst hann hafa farið af stað frá Keflavík kl. 0930 hinn 20. nóvember 1974 áleiðis til Reykjavíkur, og taldi, að þetta hefði gerst í þeirri ferð. Vitnið minntist þess, að stúlkan hefði verið illa búin. Ók það henni að ósk hennar til Hafnarfjarðar, og fór hún út úr bifreiðinni rétt á móts við kirkjuna. Við sakbendingu þekkti vitnið ekki Erlu í hópi fjögurra annarra stúlkna, en kvað stúlkuna þó geta hafa verið í þessum hópi.
C.7. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir ýmsum öðrum rannsóknargögnum. Meðal þeirra er álitsgerð dr. med. Ólafs Bjarnasonar prófessors. Fjallar hún um það af hverju ráða megi, að maður sé látinn, hvenær stirðnun líks hefjist og hvort unnt sé að svipta mann lífi með hálstaki. Þá eru í dóminum greindar kannanir á blóðslettum í kjallara hússins Grettisgötu 82 og í sendibifreiðinni, sem Sigurður Óttar er talinn hafa ekið til Keflavíkur kvöldið 19. nóvember 1974, sbr. hér að framan. Í héraðsdómi er enn fremur vottorð Veðurstofu Íslands um líkur á frosti í jörðu í Rauðhólum 21. nóvember 1974.
C.8. Svo sem greinir í héraðsdómi, gerði rannsóknarlögreglan hinn 23. janúar 1977 tilraun til sviðsetningar atburða í Dráttarbrautinni í Keflavík að kvöldi 19. nóvember 1974 eða aðfaranótt 20. s. m. Voru viðstödd sviðsetninguna ákærðu Erla, Guðjón, Kristján og Sævar og vitnið Sigurður Óttar Hreinsson. Er skýrsla rannsóknarlögreglunnar tekin upp í héraðsdóm. Hvert hinna ákærðu um sig voru látin staðsetja Volkswagen bifreiðina og sendibifreiðina. Enn fremur lýstu þau stöðu Geirfinns og einstakra sakborninga og voru beðin að sýna hálstak, er Geirfinnur var tekinn. Í lögregluskýrslu segir, að ákærði Kristján kveðist hafa tekið við hálstakinu af Guðjóni og gripið um hálsinn aftan frá og beygt Geirfinn við það aftur á bak. Á meðan á hálstakinu stóð, hafi Sævar slegið með lurki í fætur mannsins. Ákærði Guðjón staðfesti að ákærði Kristján hefði tekið við hálstakinu af sér. Hann gat þess, að hann kynni ekki við rauðan "stuðara", sem væri á sendibifreiðinni, og auk þess væru á
Bls. 122
henni rauðar rendur, sem ekki hefðu verið þar 1974. Að auki væri skráningarmerkið ekki rétt. Leitt er í ljós, að á "stuðara" var annar litur í nóvember 1974 en í janúar 1977 og rendur málaðar á bifreiðina. Breytt hafi og verið um skráningarmerki bifreiðarinnar. Vitnið Sigurður Óttar staðsetti sendibifreiðina 30 m austar en hin ákærðu.
C.9.a. Hinn 6. júlí 1977 var ákærði Kristján samprófaður í sakadómi Reykjavíkur við ákærðu Erlu. Synjaði hann þá með öllu fyrir að hafa farið til Keflavíkur 19. nóvember 1974 og kvaðst ekkert vita um afdrif Geirfinns Einarssonar og vera saklaus af því að eiga þátt í hvarfi hans. Áréttaði hann þennan framburð í dómi 27. og 29. september s. á.
C.9.b. Hinn 5. september 1977 varst sakadómi Reykjavíkur skýrsla ákærða Sævars um nokkra viðburði í lífi hans 15.-21. nóvember 1974. Er sú skýrsla tekin upp í héraðsdóm. Á dómþingi í sakadómi 13. september 1977 sneri ákærði Sævar gersamlega við blaðinu. Lýsti hann alla fyrri framburði sína í málinu ranga og byggða "á sögusögnum rannsóknarlögreglumanna" og hafa "þróast upp með rannsókn málsins". Hann kvaðst eigi hafa farið til Keflavíkur 19. nóvember 1974 og engan þátt eiga í hvarfi Geirfinns Einarssonar og aldrei hafa séð hann. Áréttaði hann þennan framburð á dómþingi 29. september s. á.
C.9.c. Hinn 12. október 1977 kom vitnið Sigurður Óttar Hreinsson fyrir rannsóknarlögreglu. Kvað það fyrstu skýrslu sína hinn 13. desember 1976 er það neitaði því að hafa farið til Keflavíkur 19. nóvember 1974 að kvöldi, rétta, en aðrar skýrslur rangar, þ. á m. eiðvætti sitt hinn 25. maí 1977. Hafi sér verið hótað gæsluvarðhaldi, "ef ekki komi réttur framburður" frá sér. Hafi rannsóknarmenn "leitt sig inn í málið" og hafi það "skáldað" eða "glósað" í eyðurnar. Á dómþingi 13. október 1977 kvað vitnið sér hafa verið ljóst, þegar það gaf skýrslu sína fyrir dómi 25. maí 1977, að hún væri röng, og væri hún til komin "vegna ótta við lögregluna". Vitnið kvað nánar svo að orði, að fyrri framburður þess væri ekki réttur að öðru leyti en því, að það hefði getað fengið sendi-
Bls. 123
bifreiðina að láni. Um hlut sinn í sviðsetningu, sem fram fór 23. janúar 1977 í Dráttarbrautinni í Keflavík, segir vitnið m. a.: "Ég setti bílinn, þar sem ég hélt, að hann ætti að vera. Ég hafði ekki áður farið á þennan stað".
Í héraðsdómi eru rakin rækilega gögn máls, er varða aðdraganda að því, er vitnið breytti framburði sínum hinn 12. október 1977, eftir að munnlegur flutningur málsins hófst í héraði. Meðal annars er lýst viðræðum vitnisins við lögmenn svo og við vandamenn sína, vini og vinnufélaga. Hefði vitnið verið orðið á báðum áttum um, "hvort hann hefði gert þessa hluti".
Vitni, er viðstödd voru yfirheyrslur Sigurðar Óttars fyrir þýskum rannsóknarlögreglumanni 14. desember 1976, hafa gefið skýrslu í dómi, og eru vætti þeirra rakin í héraðsdómi. Aftaka þau með öllu, að nokkrum þvingunum hafi verið beitt. Hafi Sigurður Óttar verið "rólegur og eðlilegur" við yfirheyrsluna.
C.9.d. Um skýrslu ákærðu Erlu 11. janúar 1980, þar sem hún tók aftur fyrri framburði, vísast til reifunar að framan.
D.
Svo sem rakið er hér að framan, breyttu þeir ákærðu Kristján og Sævar framburðum sínum. Kristján hinn 6. júlí 1977 og Sævar hinn 13. september s. á., og tóku að mestu aftur játningar sínar. Jafnframt héldu þeir því fram, að fyrri játningar hefðu verið fengnar með því, að rannsóknarmenn og fangaverðir hefðu beitt þá ólögmætri harðneskju, leitt þá til ákveðinna frásagna, samræmt sögur þeirra og enda viðhaft óhæfilegar og ólögmætar rannsóknaraðferðir.
D.1. Í úrlausn um I. kafla ákæru 8. desember 1976 hér að framan er vikið að rannsóknum, er fram fóru bæði fyrir uppsögu héraðsdóms og eftir gagngert vegna áburðar ákærðu á hendur rannsóknarmönnum og fangavörðum. Eins og þar greinir, leiða þessar umfangsmiklu rannsóknir eigi í ljós, að þeir annmarkar séu á rannsókn málsins, sem valdi því, að játningar hinna ákærðu Kristjáns og Sævars verði út af fyrir sig eigi lagðar til grundvallar við úrlausn máls þessa.
Bls. 124
Um afturköllun þeirra á fyrri framburðum er þess að geta, að þeir höfðu margsinnis endurtekið játningar sínar, bæði fyrir rannsóknarlögreglumönnum og dómurum, stundum að viðstöddum verjendum. Hurfu þeir ekki frá játningum sínum, fyrr en alllangt var liðið á rannsókn málsins og eftir að ákærur voru gefnar út og mál gegn þeim þingfest. Ýmislegt er í frásögn þeirra, sem ekki gat verið frá öðrum komið en þeim sjálfum. Ráða má af gögnum máls, að hinir ákærðu hafa mjög leitað að fyrra bragði eftir viðtölum við rannsóknarmenn og að skýrslur yrðu af þeim teknar. Hinir ákærðu tóku þátt í sviðsetningu atburða í Dráttarbrautinni hinn 23. janúar 1977 og voru þá virkir, að því er ráða má af rannsóknargögnum, um að skýra frá staðsetningu ökutækja, stöðu einstakra manna í viðureign við Geirfinn Einarsson og ýmislegt annað, er varðar vettvangsviðburði. Enn er þess að geta, að ákærði Guðjón hefur haldið fast við framburð sinn, og ýmis gögn önnur benda ótvírætt til, að ákærðu hafi verið í Dráttarbrautinni í Keflavík umrætt kvöld.
Með skírskotun til þess, sem að framan er ritað, og með vísan til héraðsdóms eru afturkallanir Kristjáns og Sævars á játningum þeirra ekki marktækar.
D.2. Með vísan til rökstuðnings héraðsdóms verður ekkert mark tekið á afturköllun Sigurðar Óttars Hreinssonar á framburðum hans.
D.3. Svo sem greint er hér að framan, tók ákærða Erla aftur alla framburði sína, er varða ferðina til Keflavíkur, á dómþingi 11. janúar 1980, rétt áður en munnlegur málflutningur hófst í Hæstarétti. Fallast ber á þá úrlausn héraðsdóms, að sannað sé án tillits til framburða meðákærðu, að Erla hafi verið í Keflavík að morgni 20. nóvember 1974 og farið þá til Hafnarfjarðar, fyrst með bifreið frá Keflavík að Grindavíkurvegi og þaðan með annarri bifreið til Hafnarfjarðar. Erla hefur margoft breytt framburðum sínum, en jafnan sagt, að hún hafi farið til Keflavíkur kvöldið 19. nóvember 1974. Þykir þessi síðbúna afturköllun vera marklaus, og verða framburðir hennar um þennan þátt málsins virtir án tillits til hennar.
Bls. 125
E.
E.1. Sannað er með skýrslum ákærðu Sævars og Kristjáns, er fá stoð í framburði vitnisins Þórðar Ingimarssonar, að þeir hafi hitt Geirfinn Einarsson í Klúbbnum sunnudagskvöldið 17. nóvember 1974 og rætt þar við hann um áfengisviðskipti. Hafi Geirfinnur sagt þeim nafn sitt og heimilisfang.
E.2. Leggja verður til grundvallar, að Sævar hafi rætt við ákærða Guðjón hinn 18. nóvember 1974 og lagt drög á því, að Guðjón kæmi með sér til Keflavíkur næsta dag. Enn fremur að Sævar hafi rætt við Kristján þennan dag og óskað eftir, að hann kæmi með sér til Keflavíkur vegna áfengisviðskipta og útvegaði sendibifreið til fararinnar.
E.3. Miða verður við, að hinn 18. nóvember s. á. hafi þeir Sævar eða Guðjón aflað símanúmers Geirfinns, en nafn hans var ekki í símaskrá, og annar hvor þeirra hafi hringt til hans milli kl. 1900 og 2000 hinn 19. nóvember 1974 og mælt sér mót við hann kl. 2130 til 2200 í Keflavík þá um kvöldið. Samkvæmt sakargögnum tóku þau ákærðu Erla og Sævar á leigu Volkswagen bifreið 19. nóvember 1974. Fór Sævar með Erlu og móður sinni á Kjarvalsstaði að kvöldi þess dags, og horfðu þau þar á stutta kvikmynd, en tímasetningar um komu þeirra þangað og viðdvöl eru eigi nákvæmar. Að sýningu lokinni óku þau Erla og Sævar móður hans heim til hennar. Að svo búnu óku þau á nokkra staði, sem áður greinir. Kom Guðjón í bifreiðina svo og Kristján nokkru síðar á Vatnsstíg. Tók Guðjón nú við stjórn bifreiðarinnar og ók henni til Keflavíkur. Í framburðum Erlu, Guðjóns og Kristjáns, er fá stoð í framburði Sævars, felst, að Sævar hafi látið orð liggja að því í bifreiðinni á leiðinni til Keflavíkur að kvöldi 19. nóvember 1974, að "fullri hörku" skyldi beitt við "manninn", ef hann reyndist ósamvinnuþýður. Ekki er sannað, að Sævar hafi kveðið svo að orði, "að þeir ættu að láta manninn hverfa."
E.4. Sannað er, að sendibifreiðin, sem Sigurður Óttar Hreinsson ók að beiðni Kristjáns, kom á Vatnsstíg kvöldið 19. nóvember 1974, og ók Sigurður Óttar henni til Kefla-
Bls. 125
víkur. þar hafði Kristján tal af Sigurði Óttari og mælti svo fyrir, að hann legði bifreiðinni í grennd við Dráttarbrautina.
E.5. Um tímasetningar varðandi viðburði í Keflavík er leitt í ljós, að Þórður Ingimarsson kom til Geirfinns rétt fyrir kl. 2100 og bað hann að koma með sér á kvikmyndasýningu. Ekki er ástæða til að rengja þá frásögn Þórðar, að Geirfinnur hafi synjað þeirri málaleitan með þeim orðum, að hann þyrfti að hitta einhverja menn við Hafnarbúðina um kl. 2200. Með vætti Guðnýjar, eiginkonu Geirfinns, og Þórðar er sannað, að þeir fóru frá heimili Geirfinns um kl. 2200. Ók Þórður Geirfinni til staðar í námunda við Hafnarbúðina. Að sögn Þórðar lét Geirfinnur í ljós, að hann hefði beyg af mönnum þeim, sem hann ætlaði að hitta.
E.6. Sannað er, að Geirfinnur kom inn í Hafnarbúðina upp úr kl. 2200, keypti þar vindlinga fyrir konu sína og svipaðist um, eins og hann ætti von á einhverjum. Leggja ber til grundvallar þá frásögn Guðnýjar og Sigurðar Jóhanns Geirfinnssonar, að Geirfinnur hafi komið heim til sín eftir stutta stund, svo og að hringt hafi verið um kl. 2215 og spurt eftir Geirfinni. Hafi hann þá að sögn Guðnýjar svarað: "Ég kom" - "Ég kem". Ók hann síðan að heiman í bifreið þeirra hjóna. Með vætti tveggja manna, er unnu í Olíusamlagi Keflavíkur, er sannað, að bifreiðinni hafi verið lagt við hús Kaupfélags Suðurnesja skömmu eftir kl. 2234, og fannst bifreiðin þar næsta morgun. E.7. Af hálfu Sævars hefur því verið haldið fram, að ekki geti verið, að þau Erla hafi verið komin til Keflavíkur rétt eftir kl. 2200 19. nóvember 1975 vegna viðdvalar þeirra á Kjarvalsstöðum. Telja verður sannað með framburðum allra hinna ákærðu og vitnisins Sigurðar Óttars, að þau hafi farið ferð þessa til Keflavíkur kvöldið 19. nóvember 1974. Er og sannað, svo sem áður er greint, að Erla fékk far með tveimur bifreiðum frá Keflavík til Hafnarfjarðar að morgni 20. nóvember 1974. Mælingar rannsóknarlögreglu á vegalegndum og líklegur ökuhraði manna, sem þurftu að flýta sér til
Bls.127
Keflavíkur, sýnir, að þau gátu verið komin til Keflavíkur á tilgreinum tíma. Í því sambandi er þess að geta, að óvíst er, hvenær þau Erla og Sævar fóru frá Kjarvalsstöðum.
E.8. Miða verður við það, að ákærðu hafi komið í bifreiðinni að Hafnarbúðinni og að annað hvort Kristján eða Sævar hafi hringt þaðan til Geirfinns rétt eftir kl. 2215, eins og áður greinir. Þá er sannað með skýrslum hinna ákærðu, að Geirfinnur kom að bifreið þeirra litlu síðar og settist inn í hana svo og að þar hafi byrjað umræður milli Geirfinns og Sævars og að einhverju leyti Guðjóns um áfengisviðskipti. Hafi Sævar rétt Geirfinni peningaseðla, en hann hent þeim á gólf bifreiðarinnar. Þá er sannað, að ekið var að Dráttarbraut Keflavíkur og að Guðjón, Kristján og Sævar hafi ásamt Geirfinni farið út úr bifreiðinni, er þangað kom, og Erla stuttu síðar. Í þann mund hafi svo komið til átaka milli þeirra karlmannanna. Verður að leggja til grundvallar samkvæmt sakargögnum, að Guðjón hafi tekið í handlegg Geirfinns, en síðan hafi Guðjón og svo Kristján tekið hann hálstaki. Þá verður einnig við það að miða, að ákærðu hafi allir greitt Geirfinni hnefahögg og að Guðjón og Sævar hafi barið hann með spýtu eða lurk. Benda sakargögn til þess, að mikill ofsi og æsing hafi verið í mönnum. Ber að fallast á þá niðurstöðu héraðsdóms, að sannað sé, að Geirfinnur hafi beðið bana af völdum ákærðu Guðjóns, Kristjáns og Sævars í átökum þessum, en ekki verður fullyrt nánar um þátt hvers einstaks þeirra í þessu voðaverki. Eru þeir allir samvaldir að bana Geirfinns Einarssonar og eiga refsiverða sök á láti hans.
F.
Ætla verður, að ákærðu hafi veist að Geirfinni Einarssyni í því skyni að knýja hann til sagna um geymslustað smyglaðs áfengis, er þeir hugðust síðan taka ófrjálsri hendi og flytja til Reykjavíkur. Bendir útvegun sendibifreiðar til þess, að Sævar, sem telja verður forgöngumann ferðarinnar til Keflavíkur, hafi haldið, að um mikið áfengismagn væri að ræða.
Bls. 128
Ummæli þau, sem höfð eru eftir ákærða Sævari á leiðinni til Keflavíkur um, að fullri hörku yrði beitt við mann þann, sem þeir ákærðu ætluðu að hitta, veita vísbendingu um, að þessi ákærði hafi ætlað að beita manninn ofbeldi, ef þörf krefði. Ekki er fyllilega í ljós leitt, hver viðbrögð þeirra Guðjóns og Kristjáns voru við þeim ummælum. Eigi verður talið sannað, að með ákærðu hafi búið fyrirfram sá ásetningur að svipta Geirfinn lífi, ef hann léti ekki í té þær upplýsingar, sem eftir var leitað. Árásin var hrottaleg, og kemur mjög til greina að telja, að ákærðu hafi ekki getað dulist, að langlíklegast væri, að árásarþoli mundi bíða bana af henni, bæði vegna ofsans í árásinni og þegar virt er, að þeir þrír sóttu að manninum á fáförnum stað seint að kvöldi. Þess er þó að gæta, að líkið hefur eigi fundist, en könnun á áverkum á því gæti veitt veigamiklar upplýsingar um það, hvernig dauða mannsins hafi borið að höndum. Með vísan til 108. gr. laga nr. 74/1974 þykir varhugavert að telja, að alveg nægilega sé sýnt fram á, að ákærðu Guðjóni, Kristjáni og Sævari verði gefin refsiverð sök á manndrápi af ásettu ráði með atferli sínu, svo að varði við 211. gr. almennra hegningarlaga. Ber að færa háttsemi þeirra til 218. og 215. gr. almennra hegningarlaga, þar sem mannsbani hlaust af ofsafenginni líkamsárás þeirra, en þá afleiðingu verður að virða þeim til stórfellds gáleysis. Er heimilt að beita þeim refsiákvæðum hér, þótt eigi séu þau greind í ákæru, sbr. 3. málsgr. 118. gr. laga nr. 74/1974, enda var mál reifað á þeim grundvelli fyrir Hæstarétti, eins og áður greinir. Hinir ákærðu voru þrír um atlöguna að Geirfinni Einarssyni, og er það refsiþyngjandi, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Árásin var gerð á afviknum stað, sem ákærðu völdu, og er það einnig refsiþyngjandi.
G.
Sannað er, að ákærði Kristján tók peningaveski með 5.000 krónum í, að því er hann telur, svo og blýant af líki Geirfinns. Varðar þessi háttsemi ákærða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
Bls. 129
H.
Ákæra á hendur Erlu Bolladóttur.
Staðfesta ber þá ályktun héraðsdóms, að sannað sé með játningu ákærðu Erlu og framburðum ákærðu Kristjáns og Sævars, að hún hafi tekið þátt í að flytja lík Geirfinns Einarssonar frá Grettisgötu 82 í Rauðhóla eða e. t. v. á einhvern annan stað. Eru framburðir ákærðu um líkflutning að vísu tortryggilegir, eins og bent er á í héraðsdómi.
Háttsemi ákærðu Erlu þykir eigi varða við 211. gr., sbr. 4. mgr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Er um það efni vísað til raka héraðsdóms. Ber að sýkna hana af ákæru um brot á greinum ákvæðum.
Ákærða Erla greinir í framburðum fyrir rannsóknarlögreglu 23. janúar 1976 og fyrir dómi 30. mars s. á., að þau ákærði Sævar hafi búið í óvígðri sambúð í nóvember 1974. Á dómþingi 5. júlí 1977 kveðst hún hafa verið heitbundin ákærða Sævari á þessum tíma. Ákærði Sævar talar í framburðum sínum um ákærðu Erlu sem sambúðarkonu sína á árinu 1974. Í skýrslum rannsóknarlögreglu kemur og fram, að þau hafi búið saman. Samkvæmt gögnum máls fæddist þeim barn 24. september 1975.
Háttsemi ákærðu Erlu á efnislega undir ákvæði 2. málsgr. 112. gr. almennra hegningarlaga, en sýkna ber hana samkvæmt 3. málsgr. sömu greinar, svo sem skýra ber orðin "nánir vandamenn".
Af hálfu ákæruvalds hefur þess verið krafist til vara, að ákærðu verði refsað samkvæmt 2. málsgr. 221. gr. almennra hegningarlaga. Þessi krafa rúmast ekki innan verknaðarlýsingar ákæruskjals og kemur því ekki til álita. Sama gegnir um kröfu ákæruvalds að því er varðar 124. gr. almennra hegningarlaga.
II. kafli ákæru 16. mars 1977.
Ákæra á hendur Erlu Bolladóttur, Kristjáni Viðari
Viðarssyni og Sævari Marinó Ciesielski.
Framburðir hinna ákærðu, þar sem þau bendla fjóra nafngreinda menn við andlát Geirfinns Einarssonar, eru raktir
Bls. 130
í héraðsdómi svo og játningar ákærðu Erlu og Sævars um, að þetta hefi verið samantekin ráð hjá hinum ákærðu til að torvelda rannsókn málsins. Ákærði Kristján gengst að vísu ekki við því, að um samantekin ráð hafi verið að ræða, en fullljóst er, að hann hefur borið fjóra menn röngum sökum gegn betri vitund og ber refsiábyrgð á því. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til héraðsdóms ber að staðfesta þau málalok, að hin ákærðu hafi með háttsemi sinni gerst sek um brot á 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 15. gr. laga nr. 101/1976, sem hér á við, sbr. 2. almennra hegningarlaga.
Framburðir ákærðu leiddu til þess, að þeir fjórir menn, er þau báru sökum, sættu alllangri gæsluvarðhaldsvist, og ber við ákvörðun refsingar að líta til þessara afdrifaríku afleiðinga af broti þeirra.
V.
V.1. Álitsgerðir um geðheilbrigði og sakhæfi ákærðu Erlu, Guðjóns, Kristjáns, Sævars og Tryggva eru teknar upp í héraðsdóm, en úrskurður Læknaráðs um sama efni er greindur hér að framan. Með vísan til þessara gagna ber að staðfesta þá niðurstöðu héraðsdóms, að ofangreindir sakborningar séu sakhæfir.
Þá ber og að staðfesta þá úrlausn héraðsdóms, að ákærði Albert sé sakhæfur.
V.2. Við ákvörðun refsingar ákærða Kristjáns ber að vísa til 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga.
Með dómi sakadóms Reykjavíkur 21. desember 1973 sætti ákærði Sævar 4 mánaða fangelsi skilorðsbundið fyrir brot á 244. gr. og 254. gr. almennra hegningarlaga, og var skilorðstími 3. ár frá uppkvaðningu dómsins. Með brotum þeim, sem hann nú er dæmdur fyrir og hann hefur framið eftir þann tíma, hefur hann rofið skilorð þessa dóms. Ber að dæma honum refsingu í einu lagi fyrir þau ásamt þeim brotum, sem hann nú er dæmdur sekur um, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1955, og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga.
Bls. 131
Ákærði Tryggvi sætti 6 mánaða fangelsi fyrir brot á 244. gr. almennra hegningarlaga með dómi sakadóms Reykjavíkur 20. september 1973, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 21. mars 1975. Þá sætti hann 3 mánaða fangelsi fyrir brot á sömu grein með dómi sakadóms Reykjavíkur 9. september 1974. Ákveða ber refsingu hans fyrir brot þau, sem hann er nú dæmdur sekur um, með vísan til 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur sætt 7 sinnum dómum fyrir auðgunarbrot auk skjalafölsunar á árabilinu 1969 til 1975 og einu sinni dómi fyrir brot m. a. á 259. gr. almennra hegningarlaga. Ber að vísa til 72. og 255. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun á refsingu hans svo og til 72. gr. sömu laga að því er varðar brot hans á 2. málsgr. 164. gr. sömu laga.
Ákærðu Albert Klahn, Erla og Guðjón hafa eigi fyrr sætt refsingu. Vísa ber til 77. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun á refsingu hvers þeirra um sig.
Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess, að ákærði Kristján var aðeins 17. ára, er hann framdi brot þau, er greinir í ákæru 8. desember 1976, V. kafla, 1. og 2, og VII. kafla, 1, 2 og 3. Ákærði Sævar var aðeins 17 ára, er hann framdi brot er greinir í sömu ákæru V. kafla, 1. og 2. Ákærðu Albert, Erla, Kristján og Sævar voru ýmist 18 eða 19 ára, er þau frömdu önnur þau brot, sem um er fjallað í málinu.
V.3. Hér að framan er getið ýmissa refsiþyngjandi atriða, eftir því sem ástæða hefur þótt til.
Refsing ákærða Kristjáns þykir hæfilega ákveðin 16 ára fangelsi.
Refsing ákærða Sævars þykir hæfilega ákveðin 17 ára fangelsi með sérstakri vísan til 2. málsgr. 77. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing ákærða Tryggva þykir hæfilega ákveðin fangelsi 13 ár.
Refsing ákærða Guðjóns þykir hæfilega ákveðin fangelsi 10. ár.
Refsing ákærðu Erlu þykir hæfilega ákveðin í héraðsdómi.
Refsing ákærða Alberts þykir hæfilega ákveðin fangelsi
Bls. 132
12 mánuði og 300.000 króna sekt til ríkissjóðs. Verði sektin eigi goldin innan 4 vikna frá birtingu dóms þessa, komi í stað hennar varðhald 30 dagar.
Frá refsingu hinna ákærðu ber að draga gæsluvarðhaldsvist þeirra sem hér segir, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga: Gæsluvarðhald ákærða Kristjáns frá 23. desember 1975, gæsluvarðhald ákærða Sævars frá 12. desember 1975, gæsluvarðhald ákærða Tryggva frá 27. október 1974 til 6. nóvember s. á. og síðan frá 23. desember 1975, gæsluvarðhald ákærða Guðjóns frá 13. desember 1975 til 18. s. m. og síðan frá 13. nóvember 1976, gæsluvarðhald ákærðu Erlu frá 13. desember 1975 til 20. s. m. og frá 4. maí 1976 til 22. desember s. á., gæsluvarðhald ákærða Alberts frá 19. júní 1973 til 20. júlí s. á. og frá 23. desember 1975 til 19. mars 1976. Hinir fjórir fyrst töldu sæta enn gæsluvarðhaldi.
Ákvæði héraðsdóms um greiðslu skaðabóta og um upptöku eiga að vera óröskuð, eins og að framan greinir.
V.4. Ákvæði héraðsdóms um réttargæslu- og málsvarnarlaun svo og greiðslu þeirra eiga að vera óröskuð. Ákærði Kristján greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti málsvarnarlaun, 900.000 krónur.
Ákærði Sævar greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti málsvarnarlaun, 900.000 krónur.
Ákærði Tryggvi greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti málsvarnarlaun, 700.000 krónur.
Ákærði Guðjón greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti málsvarnarlaun, 700.000 krónur.
Ákærða Erla greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti málsvarnarlaun, 700.000 krónur.
Ákærði Albert greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti málsvarnarlaun, 650.000 krónur.
Allan annan kostnað sakarinnar bæði í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin saksóknarlaun til ríkissjóðs, sem ákveðast samtals 2.500.000 krónur, greiði ákærðu í þessum hlutföllum:
Ákærðu Kristján og Sævar óskipt helming, ákærði Tryggvi
Bls. 133
1/5 hluta, ákærði Guðjón 3/20 hluta, ákærða Erla 1/10 hluta og ákærði Albert 1/20 hluta.
V.5. Rannsókn sakamáls þessa er hin umfangsmesta á landi hér á síðari árum. Rangir og reikulir framburðir ýmissa þeirra, er rannsókn beindist gegn, ollu þeim, með með rannsóknina fóru, miklum örðugleikum. Liggur geysimikil vinna í rannsókn málsins, og var m. a. freistað að beita þar ýmsum tækniúrræðum, er að haldi mættu koma. Í fáein skipti verður eigi séð, að þess hafi verið gætt að benda sökuðum manni, sem yfirheyrður var fyrir rannsóknarlögreglu, á ákvæði 1. málsgr. 40. gr. laga nr. 74/1974, og við hefur borið, að yfirheyrsla hafi staðið samfellt lengur en 6 klukkustundi, sbr. 3. málsgr. 40. gr. sömu laga. Stöku sinnum bera bókanir ekki með sér, að reynt hafi verið að kveðja til réttargæslumenn' eða verjendur við yfirheyrslu, þar sem slíkt hefði verið rétt. Vegna ummæla í málflutningi hér fyrir dómi þykir ástæða til að taka fram, að fangavörðum er eigi heimilt að hafa afskipti af rannsókn opinbers máls að eigin frumkvæði. Það er ámælisvert, að fangavörður laust einn hinna ákærðu kinnhest við yfirheyrslu, en ráðið verður af gögnum máls, að framkoma fangans við rannsóknarmenn í umrætt skipti hafi verið vítaverð.
Dómsorð:
Ákærði Kristján Viðar Viðarsson sæti fangelsi 16 ár. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 23. desember 1975.
Ákærði Sævar Marinó Ciesielski sæti fangelsi 17 ár. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 12. desember 1975.
Ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson sæti fangelsi 13 ár. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 27. október 1974 til 6. nóvember s. á. og frá 23. desember 1975.
Ákærði Guðjón Skarphéðinsson sæti fangelsi 10 ár.
Bls. 134
Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 12. desember 1975 til 18. s. m. og frá 13. nóvember 1976.
Ákærða Erla Bolladóttir sæti fangelsi 3 ár. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhaldsvist hennar frá 13. desember 1975 til 20. s. m. og frá 40 maí 1976 til 22. desember s. á.
Ákærði Albert Klahn Skaftason sæti fangelsi 12. mánuði. Til frádráttar fangelsisrefsingu hans komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 19. júní 1973 til 20. júlí s. á. og frá 23. desember 1975 til til 19. mars 1976. Þá greiði hann 300.000 króna sekt til ríkissjóðs, og komi varðhald 30 daga í stað sektar, verði hún eigi greidd innan 4 vika frá birtingu dóms þessa.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og skaðabætur eiga að vera óröskuð.
Ákvæði héraðsdóms um réttargæslu- og málsvarnarlaun eiga að vera óröskuð.
Ákærði Kristján Viðar Viðarsson greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Páli A. Pálssyni héraðsdómslögmanni, málsvarnarlaun, 900.000 krónur.
Ákærði Sævar Marinó Ciesielski greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Jóni Oddssyni hæstaréttarlögmanni, málsvarnarlaun, 900.000 krónur.
Ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni, málsvarnarlaun, 700.000 krónur.
Ákærði Guðjón Skarphéðinsson greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Benedikt Blöndal hæstaréttarlögmanni, málsvarnarlaun, 700.000 krónur.
Ákærða Erla Bolladóttir greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Guðmundi Ingva Sigurðssyni
Bls. 135
hæstaréttarlögmanni, málsvarnarlaun, 700.000 krónur.
Ákærði Albert Klahn Skaftason greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Erni Clausen hæstaréttarlögmanni, málsvarnarlaun, 650.000 krónur.
Allan annan sakarkostnað bæði í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin saksóknarlaun, er renni í ríkissjóð, 2.500.000 krónur samtals fyrir báðum dómum, greiði ákærðu þannig: Ákærðu Kristján Viðar og Sævar Marinó óskipt helming, ákærði Tryggvi Rúnar 1/5 hluta, ákærði Guðjón 3/20 hluta, ákærða Erla 1/10 hluta og ákærði Albert Klahn 1/20 hluta.
Dóminum ber að fullnægja með aðför að lögum.
Dómur Héraðsdóms
Dómur sakadóms Reykjavíkur 19. desember 1977.
Ár 1977, mánudaginn 19. desember, var á dómþingi sakadóms Reykjavíkur, sem háð var í Borgartúni 7 af sakadómurunum Gunnlaugi Briem sem dómsformanni, Ármanni Kristinssyni og Haraldi Henryssyni, kveðinn upp dómur í sakadómsmálinu nr. 544-550/1977: Ákæruvaldið gegn Kristjáni Viðari Viðarssyni, Sævari Marinó Ciesielski, Tryggva Rúnari Leifssyni, Albert Klahn Skaftasyni, Erlu Bolladóttur, Ásgeiri Ebenezer Þórðarsyni og Guðjóni Skarphéðinssyni, sem tekið var til dóms 14. þ. m.
Málið er höfðað með ákæru, dagsettri 8. desember 1976, gegn ákærðu,
"1. Kristjáni Viðari Viðarssyni, Grettisgötu 82, Reykjavík, nú gæslufanga í Reykjavík, fæddum 21. apríl 1955 í Reykjavík,
2. Sævari Marinó Ciesielski, Þverbrekku 4, Kópavogi, nú gæslufanga í Reykjavík, fæddum 6. júlí 1955 að Stóra-Hofi í Gnúpverjahreppi, Árnessýslu,
3. Tryggva Rúnari Leifssyni, Selásbletti 14, Reykjavík, nú gæslufanga í Reykjavík, fæddum 2. október 1951 í Reykjavík,
4. Albert Klahn Skaftasyni, Laugavegi 46 A, Reykjavík, fæddum 16. febrúar 1955 í Reykjavík,
5. Erlu Bolladóttur, Þverbrekku 4, Kópavogi, nú gæslufanga í Reykjavík, fæddri 19. júlí 1955 í Reykjavík,
Bls. 136
6. Ásgeiri Ebenezer Þórðarsyni, Sigtúni 35, Reykjavík fæddum 15. ágúst 1950 í Reykjavík, og
7. Guðjóni Skarphéðinssyni, Rauðarárstíg 32, Reykjavík, nú gæslufanga í Reykjavík, fæddum 19. júní 1943 í Vatnsdal, Austur-Húnavatnssýslu.
Er ákærðu gefið að sök að hafa gerst sek um eftirgreind brot:
I.
1. Ákærðu Kristjáni Viðari, Sævari Marinó og Tryggva Rúnari er gefið að sök að hafa aðfaranótt sunnudagsins 27. janúar 1974 í félagi ráðist á Guðmund Einarsson, Hraunprýði, Blesugróf, fæddan 6. október 1955, í kjallaraíbúð að Hamarsbraut 11, Hafnarfirði, þáverandi heimili ákærða Sævars Marinós, og misþyrmt honum svo, þar á meðal með hnífstungum, er ákærði Kristján Viðar veitti honum, að hann hlaut bana af, og komið líki hans síðan fyrir á ókunnum stað.
Þykja ákærðu með fyrrgreindum verknaði hafa gerst brotlegir samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. Ákærða Albert Klahn er gefið að sök eftirfarandi hlutdeild í fyrrgreindum verknaði með því að veita meðákærðu Sævari Marinó, Kristjáni Viðari og Tryggva Rúnari liðsinni við að fjarlægja og koma líki Guðmundar fyrir á ókunnum stað og þannig leitast við að afmá ummerki brotsins, bæði þegar fyrrgreinda nótt og síðar síðla sumars s. á., er líkamsleifar Guðmundar voru fluttar á enn annan stað. Fóru flutningar þessir fram í bifreiðum, er ákærði Albert Klahn hafði til umráða og ók.
Þykir ákærði Albert Klahn með fyrrgreindu atferli hafa gerst brotlegur samkvæmt 211. gr., sbr. 22. gr., 4. mgr., sbr. 1. mgr., hegningarlaganna svo og við 112. gr., 2. mgr., sömu laga.
II.
Gegn ákærða Tryggva Rúnari er málið höfðað fyrir eftirtalin hegningarlagabrot:
1. Að valda eldsvoða á Vinnuhælinu að Litla-Hrauni að kvöldi sunnudagsins 12. mars 1972 með því að kveikja í gömlum dagblöðum í timburklæddu þurrkherbergi í risi eldri hluta hússins, en á vinnuhælinu voru þá 35 fangar og 4 fangaverðir.
Þykir þetta aðallega varða við 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 1. mgr. 164. gr. sömu laga.
2. Nauðgunarbrot, framið í Reykjavík aðfaranótt sunnudagsins 27. október 1974, með því að þröngva K, 18 ára, . . . vegi . . .,
Bls. 137
Reykjavík, með líkamlegu ofbeldi til holdlegs samræðis við sig á heimili ákærða að Selásbletti 14, Reykjavík.
Þykir þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
3. Að brjótast aðfaranótt miðvikudagsins 6. desember 1972 inn í verslunina Nesco, Laugavegi 10, Reykjavík, og stela þar þremur segulbandstækjum af gerðinni Grundig CN 224.
4. Að taka í heimildarleysi þriðjudaginn 2. apríl 1974 lítinn peningakassa í Frímerkjaversluninni, Óðinsgötu 3, Reykjavík. Í kassanum voru allt að kr. 1.300.
5. Að brjótast aðfaranótt þriðjudagsins 17. september 1974 inn í leirbrennslu Glits h/f að Höfðabakka 9, Reykjavík, og stela þar reiknivél, peningakassa og sjúkrakassa.
6. Að stela seðlaveski úr jakkavasa Hjálmars Baldurssonar á veitingahúsinu Röðli, Reykjavík, fimmtudaginn 7. nóvember 1974, en í veskinu voru auk skilríkja kr. 2.200 í peningum.
Þykja verknaðir þeir, er greinir í 3.-6. tölulið, varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
III.
Gegn ákærða Sævari Marinó er málið höfðað fyrir eftirtalin þjófnaðarbrot í Reykjavík:
1. Að kvöldi sunnudagsins 24. mars 1974 fór ákærði inn í sælgætisverslunina að Vesturgötu 53 og stal þar kr. 31.700.
2. Í maí 1974 fór ákærði þrívegis í vörugeymslu Eimskipafélags Íslands í Sundahöfn og stal þaðan áfengi. Í fyrsta sinn tók hann 6 koníakspela, 2 flöskur af Vodka og 3 flöskur af Whisky. Í næstu ferð tók ákærði alls 60 flöskur af áfengi og tvær ferðatöskur, er hann flutti áfengið í. Í þriðju og síðustu ferðinni tók ákærði síðan 12 flöskur af Vodka. Áfengi það, er ákærði tók í tveim síðari ferðunum, samtals 72 flöskur, seldi hann Ottó Sigurðssyni á kr. 1.000 hverja flösku.
3. Í júní 1974 tók ákærði í heimildarleysi allt að kr. 30.000 og þverflautu í starfsmannahúsi Farfuglaheimilisins við Baldursgötu í Reykjavík.
4. Aðfaranótt sunnudagsins 6. október 1974 stal ákærði veski, er hann var staddur í veitingahúsinu Tjarnarbúð.
Þykja verknaðir þeir, er að framan eru greindir, varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og auk þess, að því er
Bls. 138
2. tölulið varðar, við 18. gr., sbr. 1. mgr. 39. gr. áfengislaga nr. 82/1969.
IV.
Gegn ákærðu Sævari Marinó og Erlu er málið höfðað fyrir eftirtalin hegningarlagabrot:
1. Laugardaginn 6. mars 1974 tók ákærði Sævar Marinó í heimildarleysi póstpoka við afgreiðslu Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli. Í poka þessum voru 37 póstávísanir, samtals að fjárhæð kr. 313.889, fimm blöð úr sparimerkjabókum, samtals að kr. 20.040, 7 póstgíróseðlar, ávísanahefti við Útvegsbankann á Seyðisfirði og 19 ábyrgðarbréf, er innihéldu peninga og verðbréf. Hélt ákærði Sævar Marinó með pokann á heimili þeirra Erlu, og nýttu þau síðan þýfið í sameiningu.
Þykir háttsemi ákærða Sævars Marinós varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en háttsemi ákærðu Erlu við 1. mgr. 254. gr., sbr. 244. gr. sömu laga.
2. Skjalafals, framið í Reykjavík í apríl 1974, með því að nota í viðskiptum ávísanir, er ákærða Erla falsaði á eftirtalin eyðublöð úr ávísanahefti Jóns Sólbergs Nóasonar við Útvegsbanka Íslands:
a. A 449870, kr. 2.000, á sparisjóðsreikning nr. 2218. Gefin út til handhafa 20. apríl 1974. Nafn útgefanda er Jón Sólberg Nóason. Framseld með nafninu Sólveig Jónsdóttir, Sólheimum 27, Rvk., til greiðslu í söluturninum við Hálogaland.
b. A 449871, kr. 3.000, á sparisjóðsreikning nr. 2218. Gefin út til handhafa 25. apríl 1974. Nafn útgefanda er Jón Sólberg Nóason. Framseld með nafninu Sólveig Jónsdóttir, Sólheimum 27, Rvk., til greiðslu happdrættismiða hjá Krabbameinsfélagi Reykjavíkur.
Þykir þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
3. Skjalafals, framið í Reykjavík í júní 1974, með því að nota í viðskiptum ávísanir, er ákærða Erla falsaði á eftirtalin eyðublöð úr ávísnahefti Björgólfs Stefánssonar við Útvegsbanka Íslands, Seyðisfirði:
a. D 11776, kr. 2.000 á sparisjóðsreikning nr. 5178. Gefin út til handhafa 26. júní 1974. Nafn útgefanda er Björgólfur Stefánsson. Framseld með saman nafni, s. 82567, Rvk., til greiðslu í söluturninum við Hlemmtorg.
Bls. 139
b. D 11777, kr. 5.000 á sparisjóðsreikning nr. 5178. Gefin út til handhafa 28. júní 1974. Nafn útgefanda er Björgólfur Stefánsson. Framseld með nafninu Sigurbjörg Aðalst., Austurbrún 4, Rvk., til greiðslu í versluninni Útilíf í Glæsibæ.
c. D 11778, kr. 5.000 á sparisjóðsreikning nr. 5178. Gefin út til Silla og Valda 28. júní 1974. Nafn útgefanda er Björgólfur Stefánsson. Framseld með nafninu Sigurbjörg Aðalsteinsd. Austurbrún 4, Rvk., til greiðslu í verslun Silla og Valda í Glæsibæ.
Þykir þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
4. Fjársvik, framin í ágúst og október 1974:
Föstudaginn 23. ágúst 1974 lét ákærði Sævar Marinó ákærðu Erlu hringja frá Hjallavegi 31, Reykjavík, á Ritsímastöðina í Reykjavík og látast vera starfsstúlka á símstöðinni í Grindavík. Sendi ákærða Erla síðan fimm póstávísanir, fjórar að fjárhæð kr. 100.000 hver og eina að fjárhæð kr. 75.000, eða samtals kr. 475.000. Sendanda kvað hún vera Hraðfrystihús Grindavíkur og móttakanda Unni Jökulsdóttur, Sólheimum 25, og skyldi féð afhent í Langholtsútibúi Pósts og síma. Ákærði Sævar Marinó lét síðan Guðrúnu Önnu Guðmundsdóttur, sem nú er látin, sækja féð í Langholtsútibú Pósts og síma mánudaginn 26. ágúst 1974.
Föstudaginn 18. október 1974 lét ákærði Sævar Marinó ákærðu Erlu hringja frá Grýtubakka 10, Reykjavík, á Ritsímastöðina í Reykjavík og látast vera starfsstúlka á símstöðinni í Grindavík. Sendi ákærða Erla síðan fimm póstávísanir, samtals að fjárhæð kr. 475.000, á sama hátt og í ágústmánuði. Sendanda kvað hún vera Jón Guðmundsson, framkvæmdastjóra, en móttakanda Guðrúnu Sigríði Jónsdóttur, og skyldi féð afhent í pósthúsinu í Umferðarmiðstöðinni. Er ákærða Erla hugðist sækja féð þangað að morgni mánudagsins 21. október, var það ókomið, og bað hún um, að féð yrði afhent í pósthúsinu á Selfossi. Daginn eftir veitti ákærða Erla síðan viðtöku ávísun að fjárhæð kr. 475.000 í pósthúsinu á Selfossi gegn framvísun nafnskírteinis Guðrúnar Sigríðar Jónsdóttur. Ávísun þessa, sem gefin er út 22. október 1974 á hlaupareikning nr. 1129 í útibúi Landsbanka Íslands á Selfossi af K. Fossberg f. h. Pósts og síma, Selfossi, framseldi ákærða Erla síðan með nafninu Guðrún Sigríður Jónsdóttir, NNR XXXX-XXXX, í útibúi Landsbanka Íslands, Selfossi.
Þykir þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, að því er bæði ákærðu varðar, en auk þess, að því er varðar ákærðu Erlu, við 1. mgr. 155. gr. og 157. gr. sömu laga.
Bls. 140
V.
Gegn ákærðu Kristjáni Viðari og Sævari Marinó er málið höfðað fyrir eftirtalin þjófnaðarbrot í Reykjavík:
1. Síðari hluta árs 1972 stal ákærði Sævar Marinó Blaupunkt útvarpstæki úr bifreið, er stóð utan við heimili ákærða Kristjáns Viðars við Grettisgötu. Notuðu báðir ákærðu síðan tæki þetta til greiðslu á ökugjaldsskuld.
Þykir þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, að því er ákærða Sævar Marinó varðar, en við 1. mgr. 254. gr., 244. gr. sömu laga, að því er ákærða Kristján Viðar varðar.
2. Fyrri hluta ársins 1973 brutust ákærðu inn í verslun að Laugavegi 92 og stálu þar nokkru magni af vindlingum, sælgæti, píputóbaki, pípum og gaskveikjurum auk nokkurrar skiptimyntar.
3. Gegn ákærðu Kristjáni Viðari og Sævari Marinó er málið höfðað fyrir að brjótast ásamt 3. manni í janúarmánuði 1974 tvívegis inn í hús Jóns Steffensen að Aragötu 3 í Reykjavík og stela þar eftirtöldum munum: minnispeningi í tilefni 100 ára afmælis Þjóðminjasafnsins, minnispeningi Sigurðar Nordal, gullminnispeningi Jóns Sigurðssonar, 3 Alþingishátíðarminnispeningum, 10 50 kr. peningum frá 1969, gullkvenúri, 20 karata gullarmbandi, kassa með ýmiss konar mynt, erlendri og íslenskri, eikarkassa með ýmsum skartgripum, 4 þriggja pela flöskum af lyfjaspíritus, 1 lítersflösku af spíritus, nokkrum áfengisflöskum, nokkru magni lyfja og tveimur bankabókum.
4. Í septembermánuði 1974 stálu ákærðu þremur ljóskösturum úr vörugeymslu Eimskipafélags Íslands í Sundahöfn.
Þykir háttsemi sú, sem rakin er í töluliðum 2-4, varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
VI.
Gegn ákærðu Sævari Marinó, Ásgeiri Ebenezer og Guðjóni er málið höfðað fyrir eftirgreind brot á lögum um ávana- og fíkniefni:
1. Gegn ákærðu Sævari Marinó og Ásgeiri Ebenezer er málið höfðað fyrir að hafa seinni hluta nóvember 1975 keypt í Rotterdam 2.5 kg af hassi, hvert kg fyrir 1.700 hollensk gyllini, og undirbúið síðan flutning efnisins til Íslands með því að fela það í bifreiðinni R 45248 í Rotterdam.
2. Gegn ákærða Guðjóni er málið höfðað fyrir að hafa í lok
Bls. 141
nóvember 1975 sent bifreið sína, R 45248, með skipi frá Rotterdam til Reykjavíkur, þrátt fyrir að honum væri ljóst, að ofangreint hassefni var falið í bifreiðinni, sem kom til Reykjavíkur 2. desember 1975 með m. s. Reykjafossi.
Teljast framangreind brot ákærðu varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. gr., sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 390/1974 um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna.
VII.
Gegn ákærða Kristjáni Viðari er málið höfðað fyrir að hafa ásamt öðrum manni:
1. Í ársbyrjun 1972 brotist inn í verslun að Laugavegi 92 í Reykjavík og stolið þar allt að 10 lengjum af vindlingum.
2. Í ársbyrjun 1972 brotist inn í veitingahúsið Silfurtunglið við Snorrabraut í Reykjavík og stolið þar allt að 24 flöskum af áfengi.
3. Aðfaranótt mánudagsins 15. janúar 1973 brotist inn í verslunina Málarann, Bankastræti 7 A, Reykjavík, og stolið þar allt að kr. 5.000 í skiptimynt úr peningakössum og einni rúllu af veggfóðri.
4. Laugardaginn 5. janúar eða sunnudaginn 6. janúar 1974 brotist inn í húsið Borgartúni 29 í Reykjavík og stolið þar í húsnæði fyrirtækisins Ljóstaks allt að kr. 2.000 í gömlum peningaseðlum og gamalli mynt og ennfremur kr. 1.400 úr afgreiðsluborði.
Þykir háttsemi sú, sem rakin er í töluliðum 1-4 að framan, varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
VIII.
Gegn ákærða Albert Klahn er málið höfðað fyrir:
1. Að hafa í maímánuði 1974 aðstoðað ákærða Sævar Marinó við að flytja hluta af áfengi því, er um getur í III, 2 að framan, frá Sundahöfn heim til ákærða Sævars Marinós að Álfheimum 40 svo og fyrir að veita viðtöku nokkru magni áfengis sem endurgjaldi fyrir flutningana.
Þykir þetta varða við 1. mgr. 254. gr., sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. Eftirtalin brot á lögum um ávana- og fíkniefni:
a) Um miðjan apríl 1973 tekið við og neytt 10 gr af Marihuana, sem Sævar Marinó sendi ákærða frá Kaupmannahöfn til heimilis hans í Reykjavík.
Bls. 142
b) Í maí 1973 keypt af Gunnari Inga Ægissyni 10 gr af morfinbasa fyrir kr. 10.000 að Brekkustíg 7 í Reykjavík, neytt sjálfur og gefið öðrum af helmingi efnismagns, en ákærði fleygði afganginum, er hann komst að raun um, hvert efnið var, en hann hafði talið, að um Psílocybin væri að ræða.
c) Í júní 1973 tekið við og geymt að Njálsgötu 44 í Reykjavík fyrir Sævar Marinó 150-160 þynnur af LSD og plastbréf með um 50 töflum af LSD, afhent Agnari Agnarssyni 45 þynnur af LSD að Njálsgötu 44 og skömmu síðar afhent nefndum Agnari 30 þynnur af LSD á Laugavegi í bifreið, sem ákærði hafði til umráða. Um sama leyti keypt 5 gr af hassi fyrir kr. 1.500 af Sævari Marinó að Njálsgötu 44. Um svipað leyti selt Agnari Agnarssyni 10 gr af hassi á kr. 300 hvert gramm að Grettisgötu 82, ennfremur keypt 11 töflur af LSD af nefndum Sævari Marinó á kr. 300-400 hvert stykki og síðar selt þær ónefndum aðila fyrir kr. 3.500.
d) Í september 1973 keypt 5 gr af hassi fyrir kr. 2.500 af Sigurþór Stefánssyni að Framnesvegi 61 í Reykjavík.
e) Um miðjan október 1973 keypt í félagi við aðra hass fyrir kr. 100.000, en framlag ákærða var kr. 20.000, hvert gramm á rúmar kr. 300, af Benóný Ægissyni að Vesturgötu 24 í Reykjavík og selt skömmu síðar ónefndum aðila af sínum efnishluta, sem nam 80 grömmum, fyrir kr. 15.000, hvert gramm á kr. 350, en neytt sjálfur og gefið öðrum afganginn.
f) Föstudaginn 26. október 1973 keypt 23 skammta af LSD fyrir kr. 7.000 af Hinrik Jóni Þórissyni að Vesturgötu 24 í Reykjavík, neytt um helmings taflnanna og afhent síðan Kristjáni Viðari Viðarssyni afganginn.
g) Í lok janúar 1974 keypt 120 grömm af hassi, á kr. 350 hvert gramm, af Sævari Marinó að Grettisgötu 82 í Reykjavík og nokkru síðar keypt ásamt Inga Rafni Bæringssyni 60 gr af hassi á kr. 400 hvert gramm af nefndum Sævari Marinó að Grettisgötu 82. Um sama leyti selt Kára Sigurðssyni 20 gr af hassi fyrir kr. 13.000 að Njálsgötu 46 og selt Hákoni Arnari Hákonarsyni 15 gr af hassi fyrir kr. 6.000 utan við húsið að Njálsgötu 49 í Reykjavík.
h) Hinn 20. mars 1974 keypt í Kaupmannahöfn hass fyrir
Bls. 143
rúmar danskar krónur 400, flutt 36 grömm af efninu hingað til lands 22. sama mánaðar, falið í vindlingapakka, en nokkurs hluta efnisins hafði ákærði þá neytt í Kaupmannahöfn.
Teljast brot þau, sem í liðum a-g greinir, varða við 5. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 77/1970 um tilbúning og verslun með ópíum o. fl., en brot það, sem greinir í h lið, einnig við 1. gr. nefndra laga, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 257/1969 um ávana- og fíkniefni og 2., sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 390/1974 um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna.
IX.
Þess er krafist, að öll ákærðu verði dæmd til refsingar, til greiðslu skaðabóta, eftir því sem krafist verður, og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess og krafist, að ákærðu Sævari Marinó og Ásgeiri Ebenezer verði gert að sæta upptöku á 2.5 kg af hassi, sem hald var lagt á samkvæmt 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. VI, 1, að framan."
Þá er málið höfðað með ákæru, dags. 16. mars 1977, gegn ákærðu Kristjáni Viðari, Sævari Marinó, Guðjóni og Erlu fyrir "eftirgreind hegningarlagabrot:
I. Manndráp.
Ákærðu Kristjáni Viðari, Sævari Marinó og Guðjóni er gefið að sök að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 20. nóvember 1974 í félagi ráðist á Geirfinn Einarsson, þá til heimilis að Brekkubraut 15, Keflavík, í Dráttarbrautinni í Keflavík og misþyrmt honum þar svo, að hann hlaut bana af. Fluttu þeir síðan um nóttina lík hans í bifreið, er ákærði Guðjón ók, að heimili ákærða Kristjáns Viðars að Grettisgötu 82 í Reykjavík.
Fimmtudaginn 21. sama mánaðar fluttu ákærðu Kristján Viðar, Sævar Marinó og Erla lík Geirfinns í bifreið, er Erla ók, frá Grettisgötu 82 að Rauðhólum, með viðkomu á bensínstöð á Ártúnshöfða, þar sem tekið var bensín á brúsa. Í Rauðhólum greftruðu þau líkamsleifar Geirfinns eftir að hafa hellt bensíni á líkama hans og lagt eld í.
Þykja ákærðu Kristján Viðar, Sævar Marinó og Guðjón með framangreindu atferli hafa gerst brotlegir samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en ákærða Erla þykir með
Bls. 144
liðsinni sínu, svo sem rakið var, og með því að leitast þannig við að afmá ummerki brotsins hafa gerst brotleg samkvæmt 211. gr., sbr. 22. gr., 4. mgr., sbr. 1. mgr., hegningarlaganna svo og samkvæmt 112. gr., 2. mgr., sbr. 1. mgr., sömu laga.
Ákærða Kristjáni Viðari er ennfremur gefið að sök að hafa eftir komu þeirra félaga með lík Geirfinns að Grettisgötu 82 stolið seðlaveski Geirfinns úr brjóstvasa hans, sem í voru 5.000 krónur auk ýmissa skilríkja, og teikniblýanti hans. Varðar það við 244. gr. almennra hegningarlaga.
II. Rangar sakargiftir.
Ákærðu Kristjáni Viðari, Sævari Marinó og Erlu er gefið að sök að hafa á árinu 1976 gerst sek um rangar sakargiftir í skýrslum, er þau gáfu rannsóknarlögreglunni í Reykjavík og á dómþingi sakadóms Reykjavíkur.
Voru það samantekin ráð þeirra að bera í skýrslum þessum þær röngu sakargiftir á Einar Gunnar Bollason, Heiðvangi 5, Hafnarfirði, Magnús Leópoldsson, Lundarbrekku 10, Kópavogi, Sigurbjörn Eiríksson, Laufásvegi 17, Reykjavík, og Valdimar Olsen, Framnesvegi 61, Reykjavík, að þeir hefðu átt hlut að dauða Geirfinns Einarssonar og smyglbrotum. Leiddu þessar sakargiftir til þess, að fyrrgreindum mönnum var gert að sæta langvinnu gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar þessara sakarefna. Voru Einar Gunnar, Magnús og Valdimar í gæsluvarðhaldi af þessum sökum frá 26. janúar 1976 til 9. maí s. á., en Sigurbjörn frá 11. febrúar 1976 til 9. maí s. á.
Ákærða Kristjáni Viðari er gefið að sök að hafa borið þessar sakir á fyrrgreinda menn sem hér segir:
a) Á Einar Gunnar Bollason fyrir rannsóknarlögreglu 23. og 27. janúar, 10. febrúar, 18. mars og 20. apríl og á dómþingi sakadóms 31. mars og 6. apríl.
b) Á Magnús Leópoldsson fyrir rannsóknarlögreglu 27. janúar.
c) Á Sigurbjörn Eiríksson fyrir rannsóknarlögreglu 27. janúar, 10. febrúar, 18. mars og 20. apríl og á dómþingi sakadóms 31. mars.
d) Á Valdimar Olsen fyrir rannsóknarlögreglu 27. janúar, 10. febrúar, 18. mars og 20. apríl og á dómþingi sakadóms 31. mars og 8. apríl.
Ákærða Sævari Marinó er gefið að sök að hafa borið þessar sakir á sömu menn sem hér segir:
a) Á Einar Gunnar Bollason fyrir rannsóknarlögreglu 22., 25.
Bls. 145
og 27. janúar, 10. febrúar og 8. maí og á dómþingi sakadóms 1. apríl.
b) Á Magnús Leópoldsson fyrir rannsóknarlögreglu 22., 25. og 27. janúar og 8. maí og á dómþingi sakadóms 1. apríl.
c) Á Sigurbjörn Eiríksson fyrir rannsóknarlögreglu 27. janúar, 10. febrúar og 8. maí.
d) Á Valdimar Olsen fyrir rannsóknarlögreglu 22., 25. og 27. janúar, 10. febrúar og 8. maí og á dómþingi sakadóms 1. apríl.
Ákærðu Erlu Bolladóttur er gefið að sök að hafa borið þessar sakir á sömu menn sem hér segir:
a) Á Einar Gunnar Bollason fyrir rannsóknarlögreglu 23. janúar, 3. og 10. febrúar, 3. mars, 4. maí og 1. september og á dómþingi sakadóms 30. mars.
b) Á Magnús Leópoldsson fyrir rannsóknarlögreglu 23. janúar, 3. og 10. febrúar, 4. maí og 1. september og á dómþingi sakadóms 30. mars og 7. apríl.
c) Á Sigurbjörn Eiríksson fyrir rannsóknarlögreglu 3. og 10. febrúar og 1. september og á dómþingi sakadóms 30. mars.
d) Á Valdimar Olsen fyrir rannsóknarlögreglu 3. febrúar og 1. september.
Þykja ákærðu með framangreindum sakargiftum, svo sem rakið hefur verið í þessum kafla ákærunnar, öll hafa gerst brotleg við 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga.
III. Dómkröfur.
Þess er krafist, að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Dæma skal um fjárkröfur, sem uppi kunna að vera hafðar í málinu, og um kröfur til birtingar dóms samkvæmt 2. mgr. 148. gr. hegningarlaganna".
Málavextir eru þessir:
Ákæra, dags. 8. desember 1976.
I.
A. Að morgni þriðjudagsins 29. janúar 1974 kom Einar Baldursson verkamaður, Hraunprýði, Blesugróf, Reykjavík, á skrifstofu rannsóknarlögreglunnar þar og greindi frá því, að laugardagskvöldið 26. sama mánaðar hefði Guðmundur sonur hans farið að heiman klukkan um 2000, en síðan hefði ekkert til hans spurst. Kvað hann Guðmund aldrei fyrr hafa verið í burtu nóttu lengur án þess að láta foreldra sína vita. Daginn áður hefði verið aug-
Bls. 146
lýst eftir honum og vinir hans leitað hans, en enginn árangur orðið.
Rannsóknarlögreglan tilkynnti hvarf Guðmundar Einarssonar þegar í stað Slysavarnarfélagi Íslands sem og lögreglunni í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Jafnframt hófu 10-12 sveitir skáta og manna frá Slysavarnafélagi Íslands leit að Guðmundi frá Fossvogi og suður um Hafnarfjörð, en þar sem um 60 cm snjólag var yfir öllu, var ekki unnt að leita í hrauninu eða á óbyggðum svæðum utan vega. Sunnudaginn 2. febrúar 1974 var Guðmundar enn leitað, en þótt nokkuð hefði þá rignt, voru leitarskilyrði ekki góð, að því er í lögregluskýrslu greinir. Leitirnar báru engan árangur.
Myndir birtust af Guðmundi Einarssyni í dagblöðum 30. og 31. janúar 1974, þar sem einnig var skýrt frá hvarfi hans.
Samkvæmt vottorði Veðurstofu Íslands var veður í Straumsvík þann 26. janúar 1974, klukkan 2100: austan- norðaustan 3-8 vindstig, 3.8 gráðu hiti og úði á síðustu 6 klukkustundum, en þann 27. janúar 1974, klukkan 0900: sunnan 9-10 vindstig, 0.9 gráðu hiti og snjókoma. Úrkomumagnið á sama stað var 15.8 mm frá klukkan 0900 hinn 26. janúar 1974 til sama tíma næsta dags og 4.6 mm frá klukkan 0900 hinn 27. janúar til sama tíma næsta dags.
Hinn 29. janúar 1974, klukkan 1930, hringdi stúlka að nafni Elínborg Rafnsdóttir til rannsóknarlögreglu og sagðist hafa verið á ferð um Strandgötu í Hafnarfirði ásamt annarri stúlku, um klukkan 0200, aðfaranótt síðastliðins sunnudags og, svo sem í lögregluskýrslu greinir, "þá séð Guðmund þar á gangi nálægt bíóinu. Sagðist kannast við hann í sjón. Sagði með með (svo) honum hefði verið annar piltur eitthvað eldri með dökkskollitað hár og í gulri skyrtu, jakkalaus og nokkuð ölvaður. Piltarnir hefðu verið að reyna að stöðva bíla, en þær ekki þorað að stansa sökum sláttar í þeim í gulu skyrtunni, en hann þekkti Elínborg ekki." Rannsóknarlögreglan tók ekki skýrslur af þeim stöllum á þessum tíma, en vætti þeirra verða rakin síðar í málinu.
Hinn 31. janúar 1974, klukkan 1140, hringdi Sveinn Björnsson, yfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, til rannsóknarlögreglunnar í Reykjavík og sagði, að til sín hefði hringt maður að nafni Sveinn Vilhjálmsson og sagst hafa séð Guðmund Einarsson aðfaranótt sunnudagsins 27. s. m. neðst á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði. Rannsóknarlögreglan tók ekki skýrslu af Sveini, en hafði tal af honum samdægurs, og er meðal annars eftirfarandi bókað um
Bls. 147
það samtal: "Þeir hefðu verið að aka um Hafnarstrætið um nóttina og svo norður Reykjavíkurveg, en nokkurn spotta uppi á Reykjavíkurveginum hefði mikið ölvaður strákur, sem hefði verið dettandi, að reyna að stöðva bíla (sic). Sagði að strákurinn hefði verið með mikið hár og í köflóttum jakka . . . Sveinn sagðist svo hafa séð mynd af Guðmundi í Morgunblaðinu og sagðist ekki sjá betur en að þarna væri um sama strák að ræða og því hefði hann látið lögregluna vita um þetta. Hefði verið um 02.15-02.30".
Einnig hafði rannsóknarlögreglan samdægurs tal af Smára Kjartani Kjartanssyni, sem var með Sveini í bifreiðinni, án þess þó að af honum væri tekin skýrsla, en um samtalið er meðal annars eftirfarandi bókað í lögregluskýrslu: "Taldi, að það hefði verið nálægt kl. 03.00, sem þeir komu neðan úr bæ og óku norður Reykjavíkurveg og er þeir komu að ljósunum við Frystihúsið, hefði verið þar á gangi nokkuð ölvaður strákur, en samt ekki mikið fullur. Hann hefði baðað út höndum og verið að reyna að stöðva bíla og hefði gengið í veg fyrir bílinn hjá sér og dottið fyrir framan hann. Sagðist hafa stansað og svo haldið áfram, er strákurinn var staðinn upp og búinn að koma sér frá . . . Gat ekki lýst piltinum, nema hvað hann hefði verið með mikið hár".
Vitnið Sveinn Rúnar Vilhjálmsson sjómaður, Smyrlahrauni 42, Hafnarfirði, kom fyrir dóm hinn 26. apríl 1977 og staðfesti fyrrnefnda frásögn sína. Kvaðst vitnið hafa verið að aka um Hafnarfjörð ásamt öðrum mönnum aðfaranótt 27. janúar 1974 og verið statt neðst á Reykjavíkurvegi á móts við Hverfisgötu á tímanum frá klukkan 0215-0230, eða litlu eftir lokun samkomuhúsa, og þá tekið eftir mikið ölvuðum manni á gangstéttinni, sem var að reyna að stöðva bifreiðar. Maður þessi var stór með dökkt, mikið hár. Hann var yfirhafnarlaus og í köflóttum jakka. Maðurinn gekk út á götuna í veg fyrir bifreiðina, hrasaði, en stóð strax upp aftur, og virtist vitninu honum ekki verða meint af fallinu. Minnti vitnið, að fremur hált hefði verið á götum og snjóþæfingur. Vitnið kvaðst hafa lesið í blöðum einhvern næstu daga, að lýst var eftir Guðmundi Einarssyni, séð þar mynd af honum, og var það ekki í neinum vafa um, að umræddur maður hefði verið Guðmundur Einarsson.
Vitnið Smári Kjartan Kjartansson, Reykjakoti, Árnessýslu, kom fyrir dóm hinn 15. apríl 1977. Vitnið kvaðst hafa verið að aka um Hafnarfjörð aðfaranótt 27. janúar 1974 ásamt tveim öðrum piltum. Þegar þeir voru staddir á Reykjavíkurvegi við frysti-
Bls. 148
húsið Frost h/f á tímabilinu frá kl. 0200 til 0300, kveðst vitnið hafa tekið eftir nokkuð mikið drukknum manni, sem var að reyna að stöðva bifreiðar. Maðurinn fór út á götuna í veg fyrir bifreiðina og datt þar. Þurfti að nema staðar af þessum sökum. Maðurinn stóð upp aftur, og varð vitnið ekki vart við, að hann væri neitt eftir sig af byltunni. Vitnið gat hvorki lýst manninum né klæðnaði hans. Það gat ekki borið um, hvort nefndur maður hefði verið Guðmundur Einarsson.
Elías Kristján Helgason iðnnemi, Norðurvangi 12, Hafnarfirði, sem var með þeim Sveini Rúnari og Smára Kjartani í bifreiðinni greint sinn, kom einnig fyrir dóm sem vitni hinn 15. apríl 1977. Gat vitnið þá ekkert um málsatvik borið.
Við frumrannsókn lögreglu á hvarfi Guðmundar Einarssonar kom í ljós, að hann hafði að kvöldi laugardagsins 26. janúar 1974 verið við áfengisneyslu hjá kunningja sínum Sigurbirni Haraldssyni að Tjarnarflöt 10 í Garðabæ ásamt Kristni Magnússyni, Ásgeiri Þorsteinssyni og fleirum, en síðan hefðu þeir farið á dansleik í Alþýðuhúsið í Hafnarfirði. Rannsóknarlögreglan hafði tal af nefndum þremur piltum hinn 29. janúar 1974, en skýrslur voru ekki teknar af þeim.
Fyrrnefndir piltar voru yfirheyrðir fyrir dómi hinn 22. mars 1977.
Vitnið Kristinn Már Magnússon verkamaður, Dalbæ, Blesugróf, Reykjavík, skýrði frá því, að það hefði farið heim til Guðmundar Einarssonar eftir kvöldmat hinn 26. janúar 1974. Kvað vitnið þá hafa haft áfengi um hönd þar heima, en eftir nokkra viðdvöl haldið heim til Sigurbjörns Haraldssonar að Tjarnarflöt 10 í Garðabæ og dvalist þar við áfengisneyslu fram undir miðnætti, en farið þá á dansleik í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði. Vitnið varð viðskila við Guðmund á dansleiknum og mundi ekki, hvenær það sá hann síðast. Vitnið kvað Guðmund hafa verið eitthvað með áfengisáhrifum, en ekki mikið. Hann hefði verið í jakka, en yfirhafnarlaus, og gat vitnið ekki lýst klæðnaði hans nánar. Vitnið kvað þá Guðmund hafa verið mikið saman, enda nágrannar og vinnufélagar. Hefði Guðmundur verið góður félagi, mjög hægur og stilltur. Aldrei kvaðst vitnið hafa orðið vart við, að Guðmundur væri með nokkrar illdeilur við aðra.
Vitnið Sigurbjörn Kristinn Haraldsson húsasmiður, Köldukinn 20, Hafnarfirði, kvað þá Guðmund Einarsson, Kristin Má Magnússon og Ásgeir Þorsteinsson hafa komið heim til þess að Tjarnarflöt 10 í Garðabæ á milli klukkan 2100 og 2200 að kvöldi laugar-
Bls. 149
dagsins 26. janúar 1974. Áfengi var haft um hönd heima hjá vitninu, og var Guðmundur eitthvað með áfengisáhrifum, en ekki mikið. Dvalist var heima hjá vitninu þar til klukkan 2300 eða 2330 um kvöldið, en þá farið á dansleik, sem haldinn var í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði. Eftir að inn á dansleikinn kom, settust þeir saman við borð, en fljótlega hefðu þeir Guðmundur og Ásgeir horfið þaðan, og kvaðst vitnið ekki hafa séð þá eftir það. Vitnið staðhæfði, að þeir Kristinn Már hefðu verið að svipast um eftir Guðmundi og Ásgeiri, eftir að dansleik lauk, en fundum þeirra ekki borið saman. Um klæðnað Guðmundar gat vitnið borið það eitt, að hann hefði verið í köflóttum jakka og frakkalaus. Vitnið kvaðst hafa þekkt Guðmund Einarsson allvel og ekki orðið vart við, að hann væri með áreitni í garð annarra.
Vitnið Ásgeir Þorsteinsson nemandi, Bakkakoti, Blesugróf, Reykjavík, kvað þá félaga hafa setið að sumbli hjá Sigurbirni að Tjarnarflöt 10 í Garðabæ, en farið á dansleikinn upp úr klukkan 2300. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vart við Guðmund Einarsson, eftir að inn á dansleikinn kom, og ekkert vita, hvað af honum varð. Hann hefði verið nokkuð mikið með áhrifum áfengis. Vitnið kvað Guðmund hafa verið yfirhafnalausan, í stökum jakka og buxum, en nánar gat vitnið ekki borið um klæðnað hans. Vitnið kveðst hafa þekkt Guðmund Einarsson frá barnæsku og hefðu þeir verið mikið saman. Guðmundur hefði verið heilsuhraustur, hann hefði ekki neytt áfengis í óhófi og ekki snert lyf, enda taldi vitnið hann hafa verið mótfallinn slíku. Hann hefði verið óvenjulega hjálpsamur og aldrei stofnað til illinda sjálfur, enda þótt hann hefði verið vel að manni og ekkert dusilmenni. Vitnið sagði þá Guðmund hafa kannast við ákærða Kristján Viðar, frá því þeir voru allir saman í skóla, og taldi, að þeir Guðmundur hefðu báðir kannast við ákærða Sævar Marinó í sjón.
Vitnin Lára Gylfadóttir, Ásenda 14, Reykjavík, Anna Viðarsdóttir, Flókagötu 62, Reykjavík, og Gunnar Þór Árnason, Fögrubrekku 21, Kópavogi, kváðust öll hafa séð Guðmund Einarsson á fyrrgreindum dansleik í Hafnarfirði. Vitnið Anna taldi, að hann hefði verið mikið ölvaður, og vitnið Gunnar Þór hugði, að hann hefði verið eitthvað við skál. Ekkert vitnanna sá hann, eftir að dansleik lauk.
Einar Baldursson verkamaður, Hraunprýði, Blesugróf, Reykjavík, faðir Guðmundar Einarssonar, kom fyrir dóm sem vitni hinn 22. mars 1977. Vitnið skýrði frá því, að Guðmundur sonur þess
Bls. 150
hefði farið að heiman að kvöldi laugardagsins 26. janúar 1974, um klukkan 2000, og ekki sést síðan. Hefðu þrír piltar komið að sækja hann og hann farið með þeim. Vitnið sá mönnunum bregða fyrir, er þeir hurfu á brott, en tók ekki eftir, hverjir þeir voru. Guðmundur og piltar þeir, sem með honum voru, hefðu neytt áfengis, áður en þeir fóru. Vitnið vissi ekkert, hvert förinni var heitið, og heyrði ekki fyrr en síðar, að þeir hefðu farið í Alþýðuhúsið í Hafnarfirði. Vitnið vissi ekkert um, hvaða verðmæti Guðmundur hafði meðferðis. Guðmundur var klæddur í köflóttan jakka, grænleitar buxur og var í brúnum skóm. Ekki vissi vitnið, í hvernig skyrtu hann var, en hann var ekki í yfirhöfn. Vitnið kvaðst aldrei hafa heyrt ákærðu Kristján Viðar, Sævar Marinó og Tryggva Rúnar nefnda á nafn fyrir hvarf Guðmundar, en frétt síðar, að þeir Guðmundur og ákærði Kristján Viðar hefðu verið saman í barnaskóla. Guðmundur var fæddur og uppalinn í Reykjavík og hafði ætíð búið heima hjá foreldrum sínum. Bræðurnir hefðu verið fjórir og Guðmundur næst elstur þeirra. Guðmundur var ágætur á heimili, stilltur og rólegur, hjálpaði til eftir þörfum og var frekar lítið úti við á kvöldin. Þó hefði komið fyrir, að hann fór í kvikmyndahús og á dansleiki, en vanalega komið fljótlega heim aftur og aldrei verið næturlangt að heiman, áður en hann hvarf. Guðmundur var að ljúka gagnfræðanámi, en hugur hans staðið til vélfræðináms og hann verið kominn með bækur þess efnis. Guðmundur hefði verið heilsuhraustur og ekki notað lyf af nokkru tagi, en bragðað áfengi með kunningjum sínum, þótt vitnið hefði aldrei séð hann ölvaðan. Guðmundur var frekar vel að manni og stilltur í skapi. Vitnið kvað lögreglu ekki hafa leitað í föggum Guðmundar og sjálft hefði það ekkert fundið, svo sem dagbækur eða annað, sem varpað gæti ljósi á mál þetta.
Að sögn móður Guðmundar var hann yfirhafnarlaus, er hann fór að heiman, og var ekki með hring, sem hann átti, en hins vegar var hann með armbandsúr og seðlaveski, sem ekki hafa komið í leitirnar.
Vitnin Bjarnfríður Hjördís Guðjónsdóttir, Rjúpufelli 21, Reykjavík, Benedikt Garðar Eyþórsson, Álfhólsvegi 76, Kópavogi, og Grétar Jóhannes Sigvaldason, D götu 5, Belsugróf, Reykjavík, sem öll þekktu Guðmund, báru honum vel söguna og fullyrtu, að hann hefði aldrei troðið illsakir við aðra. Sömuleiðis staðhæfði Pétur Snæland, vinnuveitandi Guðmundar, að
Bls. 151
hann hefði verið sérstaklega góður starfsmaður og haft mikið til brunns að bera.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur Guðmundur Einarsson hvorki sætt ákæru né refsingu.
Fram hefur verið lagt í málinu fæðingarvottorð Guðmundar, þar sem hann er talinn fæddur 6. ágúst 1955, og hefur faðir hans staðfest réttmæti þessa. Fæðingarmánuður hans hefur misritast í ákæruskjali.
B. Erla Bolladóttir var fyrst yfirheyrð um atvik máls þessa hjá rannsóknarlögreglu hinn 20. desember 1975. Tilefni skýrslutökunnar var, "að rannsóknarlögreglunni hefur borist til eyrna, að sambýlismaður Erlu geti hugsanlega verið viðriðinn hvarf Guðmundar Einarssonar aðfaranótt 27. janúar 1974". Eftir að Erlu hafði verið gerð ljós vitnaskyldan sem og að henni væri ekki skylt að bera vitni, þar sem vitnisburður hennar kynni að beinast gegn sambýlismanni hennar, ákærða Sævari Marinó, skýrði hún frá því, að laugardagskvöldið næst fyrir mót janúar- og febrúarmánaðar árið 1974, þ. e. 26. janúar, hefði hún verið ein síns liðs á dansleik í samkomuhúsinu Klúbbnum í Reykjavík. Að dansleik loknum, klukkan um 0200, kvaðst Erla hafa gefið sig á tal við stúlku, sem hún kannaðist við, Auði Úlfarsdóttur Jacobsen, sem verið hefði ásamt fleira fólki á gamalli Mercdedes Benz bifreið fyrir utan samkomuhúsið. Var ætlun Erlu að fá akstur heim til sín, þar sem hún átti ekki fyrir leigubifreið. Eftir að hafa dvalist nokkra stund í samkvæmi í einkahúsi, hefðu Auður, unnusti hennar og ökumaður bifreiðarinnar ekið henni að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði, þar sem hún hefði á þessum tíma búið með ákærða Sævari Marinó, þótt hann hefði stundum verið að heiman sólarhringum saman og sambúð þeirra yfirleitt verið fremur stirð.
Erla taldi, að hún hefði komið heim til sín klukkan um 0330 til 0400. Minntist hún þess ekki, að hún hefði séð ljós loga í húsinu. Þau Sævar Marinó hefðu haft til umráða íbúð í kjallara hússins, þ. e. tvö herbergi og geymslu, en auk þess hefði verið þar gangur, snyrtiherbergi og kyndi- og þvottaherbergi, sem hefðu verið sameiginleg með íbúum á hæðinni fyrir ofan og í risi. Erla staðhæfði, að þau Sævar Marinó hefðu einungis haft einn lykil að útidyrum kjallarans, hún ekki verið með hann umrætt sinn og því orðið að skríða inn um gluggann á kyndi- og þvottaherberginu, enda ekki óalgengt, að þau Sævar Marinó
Bls. 152
hefðu notað þessa leið inn í húsið, þegar þau voru ekki með lykil. Dyrnar úr kyndi- og þvottaherberginu hafi verið lokaðar, en dyrnar inn í geymsluna, sem var inn af því, verið opnar, og mundi hún ekki fyrir víst, hvort nokkur hurð hefði verið í þeim á þessum tíma. Erla kvaðst hafa farið fram á ganginn og úr honum inn í stofuna. Minnti hana, að stofudyrnar hefðu verið lokaðar. Erla fullyrti, að dyrnar úr stofunni inn í svefnherbergið hefðu verið lokaðar og kvaðst örugg um, að þær hefðu verið opnar, þegar hún fór úr íbúðinni, og því hlyti einhver að hafa komið þangað í fjarveru hennar. Erla sagðist ekki hafa kveikt ljós, fyrr en hún kom inn í svefnherbergið. Veitti hún því athygli, að úr sykurpoka, sem verið hefði á borðhillu þar í herberginu, hafði hellst sykur, en svo hefði örugglega ekki verið um morguninn.
Erla kvaðst hafa verið þreytt, þegar heim kom, en ekki ölvuð, og farið beinustu leið í rúmið. Hún hefði slökkt ljósið, ekki háttað, en lagst fyrir í öllum fötunum. Hefði hún þá tekið eftir því, að stórt, ljóst lak, sem náð hefði yfir tvíbreitt rúmið, var horfið, og þótti henni þetta furðulegt, þar sem hún hafði ekki sjálf fjarlægt það úr rúminu. Erla kvaðst hafa sofnað mjög fljótlega, en vaknað við eitthvað þrusk fyrir utan herbergisgluggann, og taldi hún, að hún hefði þá aðeins verið búin að sofa mjög stutt. Erlu fannst eins og þruskið hyrfi fyrir húshornið og sofnaði aftur. Öðru sinni vaknaði hún þessa nótt og taldi, að það hefði verið mjög skömmu síðar. Hefði hún þá heyrt umgang í ganginum og augljóst verið, að einhver eða einhverjir væru komnir inn í kjallarann. Heyrðist Erlu á umganginum, að fleiri væru á ferð og væru með eitthvað þungt, sem þeir bæru. Erla kvaðst hafa farið fram úr rúminu og inn í stofuna og þá tekið eftir því, að hurðin úr henni og fram í ganginn var í hálfa gátt, enda þótt hún hefði örugglega lokað henni á eftir sér, þegar hún kom heim. Ekki sagðist Erla hafa kveikt ljós eða gert vart við sig á annan hátt, en staðið til hliðar við dyrnar á milli gangsins og stofunnar, þannig að hún sást ekki úr ganginum né sá sjálf fram á ganginn, en sá þó, að birta var í ganginum. Erla kvaðst nú hafa heyrt, að þeir, sem þarna voru á ferð, fóru úr ganginum inn í kyndi- og þvottaherbergið og, að því er henni fannst, inn í geymsluna þar inn af. Erla kvaðst nú hafa verið orðin alveg viss um, að fleiri en einn væru þarna á ferð, því hún hefði heyrt mannamál, þótt hún næmi ekki orðaskil. Staðhæfði hún, að hún hefði þekkt raddir tveggja manna, Sævars Marinós, sambýlismanns síns, og
Bls. 153
kunningja hans og vinar, Kristjáns Viðars Viðarssonar. Einnig fannst henni hún heyra þriðja manninn tala, en ekki þekkt rödd hans. Erla kvaðst hafa staðið nokkra stund í ganginum rétt við dyrnar inn í kyndi- og þvottaherbergið, heyrt raddir mannanna innan úr geymsluherberginu, en enn ekki greint orðaskil. Einnig hefði hún heyrt, að eitthvað var um að vera hjá mönnum þessum og þeir virst vera að eiga við eitthvað þungt. Erla kvaðst nú hafa farið í dyrnar milli gangsins og kyndi- og þvottaklefans og ekki komist hjá því að sjá, hvað fram fór inni í geymsluherberginu, þar sem dyrnar þangað inn hefðu verið beint á móti. Birtan hefði komið úr kyndi- og þvottaklefanum, en ljós ekki logað í geymslunni, en þó hefði verið nógu bjart þar inni, til þess að hún sæi greinilega, hvað þar átti sér stað.
Erla staðhæfði, að hún hefði séð þá Sævar Marinó, Kristján Viðar og þriðja manninn, sem hún hefði ekki þekkt, inn í geymsluherberginu. Hefðu þeir verið með á milli sín eitthvað stórt og þungt, sem umlukið var ljósu laki. Hefði Sævar Marinó bograð við annan endann og verið að binda hann saman, Kristján Viðar gengið um og barið krepptum hnefa í lófa sér, en þriðji maðurinn ekkert sérstakt aðhafst. Erla kvaðst ekki hafa séð, hvað í lakinu var, en verið þess fullviss, að í því væri mannslíkami. Virtist henni, að maðurinn í lakinu lægi eiginlega á bakinu, með hnén kreppt upp að maganum. Fætur og sitjandi mannsins hefðu staðið út í lakið og snúið að henni og hefði hún mjög greinilega séð móta fyrir þessum líkamshlutum. Erla kvaðst hafa séð bleytublett myndast á lakinu, þar sem sitjandinn stóð út í það, og samtímis hefði gosið upp vond lykt, einhvers konar saurlykt. Við þessa sjón hefði hún orðið svo miður sín, að hún hefði sig hvergi getað hreyft og jafnframt gripið andann á lofti og hefði Kristján Viðar þá tekið eftir nærveru hennar, bölvað og talað um, hvað hún væri að gera þarna. Hefði Sævar Marinó þá litið upp frá verki sínu, skipað Kristjáni Viðari að vera rólegum og hann þá ekki sagt meira. Erla kvaðst hafa staðið sem negld niður í dyrunum, fannst sér verða mjög kalt og einnig hefði hár hennar blotnað, að því er hún hélt af svita. Hún sagði þremenningana hafa tekið manninn upp í lakinu, Sævar Marinó hefði haldið undir annan endann, Kristján Viðar undir hinn og þriðji maðurinn undir miðjuna. Hefðu þeir komið áleiðis að dyrunum, þar sem hún stóð, enda eru þær eini útgangurinn, Sævar Marinó farið fyrstur og hefði hann hrundið henni frá, til þess að þeir kæmust út. Við þetta kvaðst Erla hafa fallið í gólfið í ganginum
Bls. 154
og legið þar einhverja stund, þar sem hún hefði hreinlega ekki getað hreyft sig. Eftir smástund hefði Sævar Marinó komið til baka og fundið hana liggjandi á gólfinu. Hefði hann tekið undir hendur hennar, dregið hana inn í svefnherbergið og lagt hana upp í rúm. Erla kvað Sævar Marinó hafa spurt sig, hvort hún hefði séð nokkuð, og hún ætlaði að neita því af hræðslu við hann, en ekki getað komið upp nokkru orði. Hefði hann þá haft við orð, að hún skyldi aldrei segja neitt, þótt hún yrði spurð. Að þeim orðum sögðum hefði Sævar Marinó farið út úr húsinu, en sjálf mundi hún ekki frekar eftir sér og taldi sig hafa sofnað. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við akstur bifreiða við húsið um nóttina, en bifreiðar hefðu getað ekið um bifreiðastæðin við húsið, þótt það heyrðist ekki þangað inn.
Erla áleit, að hún hefði vaknað um morguninn, áður en bjart var orðið, ekki þorað út fyrst í stað, en síðan gengið að sorptunnunum við húsið og litið ofan í þær. Ekki gat hún gert sér grein fyrir, hvers vegna hún gerði þetta, en hugði sig með því hafa verið að reyna að ganga úr skugga um, hvort það, sem hún hefði séð um nóttina, hefði verið raunveruleiki. Efst í annarri sorptunnunni kvaðst Erla hafa fundið lakið af rúminu og í því verið blettur, linur og blautur mannssaur, á sama stað og hún hefði séð hann myndast um nóttina. Lakið lét hún liggja í tunnunni. Einnig hefði gosið upp sama lyktin og hún hefði fundið út úr geymsluherberginu. Erla kvað sér hafa liðið mjög illa næstu daga og einbeitt sér að því að hugsa um það, sem gerst hafði. Hún hefði ekki séð Sævar Marinó fyrr en nokkrum dögum síðar, eða nánar tiltekið hinn 1. febrúar.
Þegar lýst var eftir Guðmundi Einarssyni, sem Erla kannaðist við, kvaðst hún ekki hafa sett atburði þessarar nætur í samband við hvarf hans og yfirleitt ekkert um þetta hugsað. Erla staðhæfði, að Sævar Marinó hefði aldrei minnst á atvik næturinnar við sig og hún aldrei rætt þau við hann.
Þegar Erla Bolladóttir hafi gefið hina rækilegu skýrslu sína hjá rannsóknarlögreglunni, kom hún fyrir dómþing sakadóms sem vitni sama dag. Skýrði hún sjálfstætt frá málsatvikum, og var framburður hennar í samræmi við lögregluskýrsluna, sem hún staðfesti á dómþinginu, og var hún jafnframt látin vinna eið að framburði sínum.
Hinn 20. febrúar 1977 tók rannsóknarlögreglan skýrslu af Erlu Bolladóttur, og hélt hún því þá fram, að fyrri framburður sinn í málinu væri réttur. Hún kvaðst muna eftir því, að Kristján
Bls. 155
Viðar hefði verið mikið ölvaður, áfengisáhrif hefðu ekki verið að sjá á Sævari Marinó, en um ástand þriðja mannsins gat hún ekki borið, enda ekki þekkt hann fyrir, en síðar kvaðst hún hafa séð hann og staðhæfði, að um Tryggva Rúnar Leifsson hefði verið að ræða.
Hinn 23. mars 1977 var tekin rækileg dómskýrsla af Erlu Bolladóttur. Staðfesti hún fyrri framburði sína í málinu, og var frásögn hennar í dóminum í meginatriðum á sömu lund. Verða hér því aðeins raktir viðaukar og breytingar.
Erla kvaðst hafa kynnst Sævari Marinó í júlímánuði árið 1973, þau heitbundist í nóvember sama ár og hafið sambúð að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði. Erla mundi ekki, hvenær hún hefði séð Sævar Marinó síðast fyrir atburðina að Hamarsbraut 11, en hún hefði ekki hitt hann, eftir að hann kom úr ferð til útlanda með Viggó Guðmundssyni skömmu áður. Erla staðhæfði, að enginn hefði verið í íbúðinni, þegar hún kom heim umrædda nótt um klukkan 0330, og íbúðin verið læst. Ljós hefði verið í herberginu inn af stofu, en að öðru leyti hefði verið slökkt. Hún mundi ekki, hvar hún kveikti fyrst ljós, eftir að inn í íbúðina kom, en datt helst í hug, að það hefði verið í stofunni. Hún hefði ekki séð blóðbletti nokkurs staðar. Erla kvaðst hafa séð mann þann, sem verið hefði með þeim Sævari Marinó og Kristjáni Viðari um nóttina, nokkrum sinnum síðar og staðhæfði, að um Tryggva Rúnar Leifsson væri að ræða. Erla sagðist aldrei hafa orðið vör við, að lífsmark leyndist með manni þeim, sem vafinn var inn í lakið. Þeir þremmeningarnir hefðu borið hann út úr húsinu, en hún hefði ekkert vitað, hvað þeir gerðu við hann, og ekki orðið vör við þá síðar um nóttina. Erla sagðist hvorki hafa séð Albert Klahn Skaftason né Gunnar Jónsson þessa nótt, en kannast við þá báða. Hún kvaðst ekki muna eftir því, að hún hefði rætt við þá Kristján Viðar og Tryggva Rúnar um nóttina. Erla minntist þess, að Tryggvi Rúnar hefði komið fyrir þennan atburð að Hamarsbraut 11 ásamt Sævari Marinó, Kristjáni Viðari og Albert Klahn. Hefði þetta verið einhvern tíma í janúar 1974, þeir haft skamma viðdvöl, hún þá ekki vitað, hvaða maður þetta var, og ekki spurt um það.
Erlu var í dóminum sýnd mynd af Guðmundi Einarssyni. Minntist hún þess að hafa hitt hann tvisvar sinnum, sennilega á árinu 1972. Hún vissi ekki til þess, að þeir Sævar Marinó og Guðmundur þekktust. Erla fullyrti, að hún hefði enga hugmynd haft um, hvaða maður hefði verið vafinn inn í lakið að Hamars-
Bls. 156
braut 11. Erla kvað Sævar Marinó hafa komið heim aftur að kvöldi sunnudagsins 27. janúar 1974 og verið heima eitthvað fram á nóttina. Ekkert hefði verið minnst á það, sem gerst hafði nóttina áður.
C. Hinn 23. desember 1975 var ákærði Kristján Viðar Viðarsson fyrst yfirheyrður hjá rannsóknarlögreglu, en hann hafði þá um daginn verið fluttur í Síðumúlafangelsið frá Litla-Hrauni, þar sem hann var að afplána refsidóm. Ákærði kvaðst minnast þess, að lýst hefði verð eftir ungum manni, sem horfið hefði í Hafnarfirði í janúarmánuði árið 1974. Hefði hann þekkt mann þennan, sem verið hefði Guðmundur Einarsson, fyrrverandi skólabróðir sinn. Ákærði staðhæfði, að hann hefði enga minnstu hugmynd um, á hvern hátt Guðmundur hefði horfið eða hvað kynni að hafa orðið af honum.
Síðar þennan sama dag, 23. desember 1975, kom ákærði Kristján Viðar fyrir dóm og neitaði allri vitneskju um afdrif Guðmundar Einarssonar. Taldi hann sig hafa verið að vinna í Vestmannaeyjum á þeim tíma, sem Guðmundur hvarf, annað hvort hjá Ísfélaginu eða Herjólfi. Ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald, og óskaði hann þess, að Páll A. Pálsson héraðsdómslögmaður yrði skipaður réttargæslumaður sinn.
Við yfirheyrslu, sem hófst klukkan 1945 hinn 28. desember 1975 og lauk klukkan 0142 næsta dag, skýrði ákærði Kristján Viðar rannsóknarlögreglu frá því, að hann hefði að nóttu til um helgi, sennilega aðfaranótt sunnudags, seinast í janúarmánuði árið 1974 komið heim til þeirra Erlu og Sævars Marinós að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði og hefði Sævar Marinó þá verið nýkominn erlendis frá. Ákæri kvaðst umrætt sinn hafa verið í för með Tryggva Rúnari, Sævari Marinó og einhverjum þriðja manni, sem hann gæti ómögulega munað, hver verið hefði. Þeir hefðu allir farið inn í íbúðina, sem ákærði lýsti rækilega og réttilega, og Erla ekki verið heima. Átök hefðu orðið í íbúðinni. Ekki vissi ákærði um tildrögin til þeirra, en þau hefðu hafist inn í svefnherberginu, borist fram í fremri stofuna og loks fram í ganginn. Ákærði kvaðst vera viss um, að hann hefði ekki tekið þátt í átökunum og þau hefðu ekki verið á milli þeirra Sævars Marinós og Tryggva Rúnars. Taldi hann því sennilegast, að Tryggvi Rúnar og ókunni maðurinn hefðu ást við, þar sem Sævar Marinó væri ekki til stórræðanna. Ekki gat ákærði sagt um, hvernig viðureigninni lyktaði, en þeir félagar þrír hefðu farið að aka um Hafnarfjörð nokkra stund og ókunni maðurinn þá
Bls. 157
örugglega ekki verið með þeim. Síðan hefðu þeir farið að Hamarsbraut 11 aftur, þeir Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar eitthvað verið að bjástra inni í þvottaherberginu eða geymslunni. Hann hefði ekki séð, hvað þeir höfðust að, en fundist þeir þó vera með einhvern poka, sem gæti hafa verið sjópoki. Erla hefði komið þarna að og virtist vera "mjög hissa og skrítin", Sævar Marinó sagt sér að tala við hana og fara með hana inn. Hefði hann orðið við því, en ekki mundi hann, hvað hann sagði við hana. Næst kvaðst ákærði muna til þess, að bifreið Alberts Klahn, sem var gul lítil fólksbifreið af japanskri gerð, var komin að húsinu. Ákærði mundi ekki, hvort hann hefði verið samferða hinum tveimur út úr húsinu. Hann sagðist hafa sest í aftursæti, ökumannsmegin, þeir Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar komið einhverju þungu fyrir í farangursgeymslunni, þannig að bifreiðin vaggaði til, Tryggvi Rúnar sest við hlið hans í aftursætið, en Sævar Marinó brugðið sér inn í húsið aftur og síðan sest við hlið ökumanns, Alberts Klahn. Ákærði staðhæfði, að ekið hefði verið eitthvað suður fyrir Hafnarfjörð, einhvers staðar í námunda við Álverið, þar numið staðar, þeir Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar stigið út, tekið eitthvað úr farangursgeymslunni og horfið á brott í um 15 mínútur. Frekar gat ákærði, sem kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis, ekki borið um ferðir þeirra um nóttina, en hann kvaðst hafa vaknað heima hjá sér daginn eftir. Einhverjum dögum síðar hefði hann tekið eftir því í fjölmiðlum, að lýst var eftir Guðmundi Einarssyni, en ekki sett það í samband við atburðina að Hamarsbraut 11 og aldrei hefðu þau ákærðu rætt þá sín á milli.
Við yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglu hinn 3. janúar 1976 staðhæfði ákærði Kristján Viðar, að Sævar Marinó hefði verið orðinn undir í handalögmálunum við hinn ókunna mann í stofunni að Hamarsbraut 11, kallað á hjálp og þeir Tryggvi Rúnar komið honum til fulltingis. Sjálfur hefði hann þó aðeins togað í einhvern útlim mannsins, annan fótinn, að því er hann minnti. Átökin á milli mannsins annars vegar og Sævar Marinós og Tryggva Rúnars hins vegar hefðu borist út í horn stofunnar, og kvaðst ákærði greinilega muna, að Tryggvi Rúnar hefði legið þar ofan á manninum og haldið honum niðri, en Sævar Marinó á meðan sparkað margsinnis í hann og hefðu flest spörkin, að því er ákærði hugði, hafnað í höfði mannsins. Maðurinn hefði þó ekki misst meðvitund við þetta, því að hann hefði komist fram í ganginn, Tryggvi Rúnar og Sævar Marinó skundað þangað á
Bls. 158
eftir honum og hefði ákærði heyrt þaðan læti, eins og frekari átök ættu sér þar stað, en ekki kvaðst ákærði hafa séð, hvað gerðist, þar sem hann hefði verið áfram inni í stofunni. Þegar hér var komið skýrslutöku, staðhæfði ákærði, að ókunni maðurinn, sem hann hefði verið að ræða um, væri enginn annar en Guðmundur Einarsson, sem verið hefði skólabróðir hans í barnaskóla. Hefði hann þessa nótt verið klæddur í jakka og buxur, minnti, að jakkinn hefði verið einhvern veginn köflóttur og fremur dökkur, en buxurnar ljósari, jafnvel brúnleitar. Ákærði kvaðst ekki muna, hvernig á veru Guðmundar að Hamarsbraut 11 hefði staðið, en rámaði óljóst í, að hann hefði þessa nótt verið að aka um Hafnarfjörð með þeim Sævari Marinó og Tryggva Rúnari og þeir tekið mann nokkurn upp í bifreiðina í brekkunni við samkomuhúsið Skiphól. Fannst honum sennilegt, að þar hefði verið um Guðmund að ræða. Ákærði taldi, að vel gæti hugsast, að þeir hefðu annað hvort verið í bifreið Alberts Klahn eða leigubifreið. Ákærði hélt nú, að tilefnið til átakanna heima hjá Sævari Marinó hefði verið það, að Guðmundur hefði kallað þá hina "dópista", og með því átt við, að þeir væru eiturlyfjaneytendur. Þeir hefðu verið þarna með eitthvað af töflum, en ekki mundi hann, hvaða lyf var um að ræða, og minnti ákærða, að Guðmundi hefði verið boðin lyf. Sjálfur hefði hann reyndar ekki verið með nein lyf, en annað hvort Sævar Marinó eða Tryggvi Rúnar eða þeir báðir verið með lyfin. Ákærði mundi það nú frekar um bjástur þeirra Tryggva Rúnars og Sævars Marinós, að þeir hefðu verið að vefja einhverju ljósu utan um eitthvað, sem verið hefði svo fyrirferðarmikið, að það hefði getað verið mannslíkami. Ekki kvaðst ákærði þó hafa greint þarna mann eða mótun fyrir manni, en þó séð í fatnað í umbúðunum og þeir félagarnir verið að binda utan um þetta. Ekki kvaðst ákærði geta sagt, hverjar umbúðirnar hefðu verið, en gat "látið sér detta í hug" einhvers konar rúmfatnað, t. d. sængurver. Á meðan á þessu sýsli þeirra stóð, hefði Erla komið þarna fram og viðbrögð hennar verið svo sem hann hefði áður lýst. Ákærði minnti, að þeir Tryggvi Rúnar og Sævar Marinó hefðu beðið sig um að hjálpa sér við að bera það, sem í umbúðunum var, út úr húsinu, en hann neitað og farið á undan þeim hinum út í bifreið Alberts, sem verið hefði svört VW fólksbifreið.
Ákærði Kristján Viðar kom fyrir dóm hinn 11. janúar 1976. Skýrði hann sjálfstætt frá málsatvikum, og var framburður hans í samræmi við skýrslu hans hjá rannsóknarlögreglu hinn
Bls. 159
3. janúar 1976, sem hann staðfesti rétta. Ákærði kvað þá félaga sennilega hafa hitt Guðmund Einarsson í brekkunni, sem liggur upp úr Hafnarfirði, en mundi ekki, hvort þeir hefðu verið fótgangandi eða í bifreið. Hann kvaðst heldur ekki muna, hvort Sævar Marinó hefði verið með þeim Tryggva Rúnari, þegar þeir hittu Guðmund. Ákærði taldi, að hann hefði eitthvað flækst inn í áflogin, en líklega fengið högg á höfuðið og misst úr einhverja stund og næst munað eftir, að verið var að athuga manninn og hann talinn látinn. Ákæri kvaðst muna, að hann hefði séð Sævar Marinó sparka í síðu og höfuð Guðmundar, þar sem hann lá á gólfinu inni í stofu. Ákærði sagði, að farið hefði verið með Guðmund suður í Hafnarfjarðarhraun, hann látinn þar í gjótu og stórum steini velt yfir. Hann mundi ekki, hver tekið hefði ákvörðun um, hvað gera skyldi við líkið, en sagðist eiginlega vera fullviss um, að það hefði verið Sævar Marinó.
Ákærði Kristján Viðar kom enn á ný fyrir dóm hinn 22. mars 1976, og var þá eftirfarandi bókað orðrétt eftir honum í viðurvist Páls A. Pálssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns hans: "Ég mætti Erlu á ganginum umrætt sinn, og var hún alvarleg á svip. Hún gekk inn í íbúðina, og ég fór á eftir henni. Ég sagði henni, að þarna hefði orðið hræðilegt slys, það hefði dáið þarna maður. Hún kvaðst ekki ætla að skipta sér neitt af þessu. Ég man eftir, að í átökunum var ég tekinn hálstaki, og sparkaði ég aftur fyrir mig, en síðan hné ég niður. Daginn eftir vorum við Tryggvi heima hjá mér og vorum undir áhrifum LSD, og vorum við að tala um, að við hefðum ekki verið í Hafnarfirði og að enginn hefði dáið og ekkert skeð".
Hinn 7. apríl 1976 tók rannsóknarlögreglan skýrslu af ákærða Kristjáni Viðari að hans eigin ósk. Hann kvað fyrri skýrslur sínar að flestu leyti réttar, en hann vildi nú skýra frá öllum sannleikanum í máli þessu, eins og hann væri og hann örugglega myndi. Ákærði sagði, að þeir Tryggvi Rúnar og Sævar Marinó hefðu verið staddir heima hjá honum umrætt laugardagskvöld, ákveðið að fara eitthvað út að skemmta sér og haldið í leigubifreið að starfsmannahúsi Kópavogshælis til fundar við Helgu Gísladóttur, sem þar starfaði og þeir Sævar Marinó hefðu þekkt. Þegar þangað kom, hefði Sævar Marinó orðið eftir, en þeir Tryggvi Rúnar haldið áfram með bifreiðinni suður í Hafnarfjörð. Sævar Marinó hefði greitt allt leigugjald bifreiðarinnar og svo hefði verið um talað, að þeir hittust allir þrír síðan við samkomuhúsið Skiphól í Hafnarfirði. Þeir Tryggvi Rúnar hefðu ver-
Bls. 160
ið að flækjast um í nágrenni Skiphóls og hitt Guðmund þar á gangi ekki alllangt frá á götu þeirri, sem liggur út úr Hafnarfirði áleiðis til Reykjavíkur. Ekki hefðu þeir rekist á Sævar Marinó og því farið fótgangandi heim til hans að Hamarsbraut 11. Enginn hefði verið heima, þegar þeir komu þangað, en rétt í sama mund hefði Sævar Marinó birst og þeir allir fjórir farið saman inn í húsið. Ekki mundi ákærði gerla, hvað gerst hefði í byrjun heima hjá Sævari Marinó, en þeir Guðmundur hefðu fljótlega verið komnir í hár saman inni í svefnherberginu. Sjálfur hefði ákærði þá verið staddur í stofunni og því ekki séð nákvæmlega, hvað fram fór, en Guðmundur hefði virst mjög æstur í garð Sævars Marinós, og ákærði sagðist ekki hafa betur séð en Guðmundur hefði ráðist á Sævar Marinó, sem komið hefði hlaupandi út úr svefnherberginu og virst mjög hræddur við Guðmund og eins og vera að flýja hann. Ákærði taldi, að Tryggvi Rúnar hefði gengið á milli þeirra Guðmundar og Sævars Marinós og því hefði hinn síðarnefndi sloppið frá Guðmundi. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað, hvers vegna Guðmundur hefði reiðst Sævari Marinó svo heiftarlega, en hann hefði eitthvað talað um "dópista" og annað í þeim dúr. Ákærði kvað Sævar Marinó hafa forðað sér inn á salernið og læst að sér, en áður haft á orði, að Guðmundur ætti að fara út úr húsinu. Ákærði sagðist þessu næst hafa skipað Guðmundi á brott, þar sem húsráðandi óskaði þess, eins og hann hefði sjálfur heyrt. Guðmundur sagðist hvergi fara, og kvaðst ákærði þá hafa spurt hann, hvort hann ætti að hjálpa honum út. Sagði Guðmundur ákærða enga krafta hafa til slíks og boðið honum að reyna, þar sem hann hefði fullkomlega krafta á við ákærða. Þetta orðaskak þeirra hefði átt sér stað í horni stofunnar rétt hjá dyrunum fram í ganginn, þar sem símatækið var. Ákærði kvaðst hafa snúið sér aðeins frá Guðmundi til þess að kalla til Sævars Marinós, en þá hefði Guðmundur ráðist aftan að honum og tekið hann hálstaki aftan frá. Hann hefði reynt það, sem hann gat, til þess að losna, en ekki tekist og Guðmundur tekið svo fast á hálsi hans, að honum fannst hann vera að kafna. Við þetta hefði einhver hræðsla gripið sig, og án þess að gera sér grein fyrir, hvað hann væri að gera, kvaðst ákærði hafa þrifið til hnífs, sem festur hefði verið við beltið á hægri mjöðm hans, kippt hnífnum úr slíðrunum, rekið hann í blindni aftur fyrir sig og fundið, að hnífurinn stakkst í Guðmund, án þess þó að vita, hvar eða hve djúpt hann hafnaði. Við þetta hefði Guðmundur linað takið og frá honum heyrst stuna, ákærði
Bls. 161
getað losað sig frá honum og farið yfir í gagnstætt horn stofunnar. Ákærði kvað Guðmund ekki hafa fallið við hnífsstunguna, en elt sig yfir gólfið og aðeins náð að slíta eina tölu úr frakka, sem hann hefði verið í og var fráhnepptur, en síðan fallið á bakið í gólfið. Á meðan átök þeirra Guðmundar áttu sér stað, hefði Sævar Marinó verið inni á snyrtiherberginu, en Tryggvi Rúnar frammi á gangi íbúðarinnar og því án efa ekki séð það, sem fram fór. Um hnífinn hafði ákærði það að segja, að hann hefði tekið hann úr vörslum Bárðar nokkurs í Kaupmannahöfn sumarið 1973. Um hefði verið að ræða eins konar byssusting, með um 20-22 cm blaði, og var nauðsynlegt að ýta á takka eða fjöður á efri enda skaftsins til að ná honum úr slíðrunum. Hnífinn sagðist ákærði hafa geymt uppi á vegg í herbergi sínu, verið að handleika hann, áður en þeir félagarnir fóru þaðan, en ekki hafa viljað taka hann með sér, þar sem "það gæti verið hættulegt", Sævar Marinó þá tekið hnífinn með samþykki ákærða, en afhent ákærða hnífinn aftur að hans beiðni við starfsmannabústaðinn í Kópavogi. Ákærði kvað þá félaga hafa gert sér ljóst, að Guðmundur væri alvarlega slasaður. Ekki mundi ákærði þó til þess, að úr honum hefði blætt. Ákærði staðhæfði, að hann hefði stungið upp á því, að lögregla yrði kvödd til og Tryggvi Rúnar ekki verið frá því. Endirinn hefði þó orðið sá, að ekki var hringt á lögreglu, en Guðmundur verið borinn fram í geymsluna og þá verið komin af honum nokkuð sterk og vond lykt. Guðmundur virtist meðvitundarlaus, og töldu þeir þremenningarnir, að hann væri látinn. Ákærði giskaði á, að um 15 mínútur hefðu liðið, frá því að hann stakk Guðmund og þar til þeir báru hann fram. Ákærði kvaðst strax hafa gert sér grein fyrir, hvað hann hefði gert, og verið mjög miður sín yfir því. Þegar þeir höfðu lagt Guðmund til í geymslunni, hefðu þeir allir farið út úr húsinu, ekið í leigubifreið um Hafnarfjörð nokkra stund, en haldið þá aftur að Hamarsbraut 11. Þar hefðu þeir borið saman bækur sínar og ákveðið að losa sig við lík Guðmundar, enda voru þeir nú vissir um, að hann væri látinn. Í því skyni hefði verið hringt til Alberts Klahn og hann beðinn um að koma með bifreið og skyldi hann fá "hass" í staðinn. Á meðan þeir biðu komu hans, hjálpuðust þeir að við að vefja einhverju ljósu klæði utan um lík Guðmundar. Ákærði kvað þá hafa beygt líkama Guðmundar saman, þegar þeir voru að setja utan um hann og þá hefði eins og brakað í honum og taldi ákærði, að líkið hefði verið byrjað að stirðna. Ákærði sagði, að þeir þrír hefðu í sameiningu borið Guðmund út úr húsinu, en
Bls. 162
hann hætt burðinum og því komið á undan þeim hinum að svartri VW fólksbifreið, sem Albert Klahn hefði setið í, og spurt hann eitthvað á þá leið, hvort hann vissi, hvað til stæði. Hann hefði svarað, að Sævar Marinó hefði sagt sér það, en sjálfur hefði ákærði ekki minnst á það berum orðum við Albert Klahn, hvað um væri að vera. Ákærði kvaðst hafa sest í aftursæti bifreiðarinnar og tekið á móti byrði þeirra Sævars Marinós og Tryggva Rúnars og hefði Guðmundur verið lagður þvert á gólfið á milli fram- og aftursætis bifreiðarinnar, Tryggvi Rúnar sest í aftursætið við hlið hans og Sævar Marinó í framsætið við hlið Alberts Klahn. Ákærða minnti, að Sævar Marinó hefði skotist aftur inn í húsið. Ákærði taldi, að þeir hefðu ekið veginn að Sædýrasafninu, en síðan Reykjanesbrautina og út af henni í gagnstæða átt við Álverið. Þar einhvers staðar hefði Albert Klahn numið staðar og setið kyrr í bifreiðinni, en þeir hinir borið lík Guðmundar um 100 metra spöl frá bifreiðinni, komið því fyrir í djúpri hraunsprungu og hulið það steinum. Að því búnu hefði Albert Klahn ekið þeim Tryggva Rúnari heim til ákærða og þeir fengið sér þar LSD töflu, en ákærði taldi, að þeir hefðu báðir verið undir áhrifum áfengis og lyfja fyrr um nóttina.
Hinn 22. júní 1976 tók rannsóknarlögreglan skýrslu af ákærða Kristjáni Viðari, og enn að eigin ósk hans. Lýsti ákærði yfir því, að hann hefði aldrei stungið Guðmund Einarsson með hnífi eða öðrum hlut, en hins vegar hefðu þeir Sævar Marinó, Tryggvi Rúnar og hann lent í átökum við Guðmund að Hamarsbraut 11 og þau átök leitt til dauða Guðmundar, en áður en til Hafnarfjarðar kom, hefðu þeir þremenningarnir ekið eitthvað um milli skemmtistaða í Reykjavík. Nánar lýsti ákærði átökunum þannig, að þau hefðu hafist inni í svefnherberginu, þeir Sævar Marinó, Tryggvi Rúnar og Guðmundur verið þar og missættið fyrst komið upp milli Guðmundar og Sævars Marinós, fangbrögð þeirra borist fram í stofuna og ákærði þar tekið þátt í þeim. Orsök átakanna taldi ákærði hafa verið þá, að Guðmundur hefði kallað þá hina "dópista" eða eitthvað í þá áttina. Ákærði kvaðst ekki muna greinilega, hvernig ryskingarnar gengu fyrir sig í smáatriðum, en hann sagðist muna, að hann hefði verið tekinn hálstaki aftan frá, og mundi Guðmundur hafa verið þar að verki. Þessu næst kvaðst ákærði muna, að Guðmundur hefði legið einhvern veginn á gólfinu eða setið að einhverju leyti uppi og Tryggvi Rúnar verið yfir honum, eins og hann héldi honum niðri. Sævar Marinó hefði þá sparkað í Guðmund, þar sem hann lá eða hálfsat, en
Bls. 163
síðan hlaupið fram á salernið og læst sig þar inni. Þeir Tryggvi Rúnar hefðu nú gert sér ljóst, að eitthvað alvarlegt væri orðið að Guðmundi, því að hann hefði ekki staðið upp. Ákærði hefði náð í Sævar Marinó, sem hefði ekki fengist til að opna alveg strax, og þeir allir rætt um, hvað til bragðs skyldi taka. Hefði komið til tals að kalla til lögreglu, en einnig rámaði hann í, að Tryggvi Rúnar hefði stungið upp á, að þeir færu með Guðmund og skildu hann eftir á einhverjum húströppum, en endirinn orðið sá, að þeir hefðu borið hann fram í geymsluna og lagt hann þar til í því skyni að komast að raun um, hvort hann mundi ekki hressast. Þeir hefðu hofið frá um stund, en gert sér ljóst, þegar þeir komu aftur, að Guðmundur væri látinn, og þá verið ákveðið, að þeir losuðu sig við líkið. Í þeim tilgangi hefði Sævar Marinó hringt í símann, og kvaðst ákærði ekki hafa vitað betur en hann væri að hringja til Alberts Klahn, sem komið hefði litlu síðar, en þeir hinir á meðan sveipað lík Guðmundar einhverju, sem líkst hefði laki úr rúmi og Sævar Marinó hefði lagt til. Ákærði staðhæfði, að hann hefði spurt Albert Klahn að því, hvort hann vissi, hvað um væri að vera, hann kinkað kolli, sem ákærði hefði skilið sem samþykki, en annað hefðu þeir ekki um þetta rætt. Ákærði fullyrti, að Sævar Marinó hefði algerlega stjórnað því, hvert ekið var. Ákærði greindi frá því, að nokkrum sinnum hefði verið farið með sig í ökuferðir suður fyrir Hafnarfjörð í því skyni að komast að raun um, hvort hann kannaðist við stað þann, þar sem þeir hefðu urðað Guðmund. Virtist ákærða helst koma til greina rauðmalargryfja, svonefnd Lónakotsgryfja, en skammt frá henni væri gömul fjárborg, hlaðin úr grjóti. Fannst ákærða, eins og hann hefði komið þar áður, og hefði það ekki getað verið nema einu sinni. Ákærði kvað ástæðuna til þess, að hann breytti nú skýrslu sinni frá 7. apríl 1976 þá, að það, sem hann nú hefði sagt, væri hið sanna og rétta í máli þessu, eftir því sem hann myndi best. Hann sagðist ekki gera sér ljósa grein fyrir, hvers vegna hann hefði farið að tala um þennan hníf, en einhvern veginn fundist þá, að hann hefði beitt honum.
Ákærði Kristján Viðar kom fyrir dóm hinn 17. september 1976. Var honum þá bent á misræmi, sem fram kæmi í skýrslum hans hjá rannsóknarlögreglu hinn 7. apríl og 22. júní 1976. Minnti ákærða, að hann hefði tekið hnífinn af Sævari Marinó í Kópavogi umrætt sinn, verið með hann á Hamarsbraut 11 og fundist hann hafa notað hnífinn, sem hann kvaðst nú ekki vita, hvar væri niður kominn.
Bls. 164
Hinn 19. september 1976 kvaðst einn rannsóknarlögreglumanna hafa átt viðtal við ákærða Kristján Viðar í fangelsinu við Síðumúla að ósk hans sjálfs. Hefur lögreglumaðurinn ritað skýrslu um samtal þeirra, sem lögð hefur verið fram í málinu. Samkvæmt skýrslunni skýrði ákærði honum frá því, að átökin við Guðmund hefðu hafist þannig, eftir því sem hann minnti best, að Sævar Marinó hefði stolið veski Guðmundar, sem þá hefði ætlað að ráðast á hann, en Tryggvi Rúnar gengið á milli þeirra. Sævar Marinó hefði flúið undan Guðmundi og sagt þeim hinum að koma honum út úr íbúðinni, því hann vildi ekki, að hann væri þar lengur. Ákærði sagðist hafa beðið Guðmund um að fara með góðu, en hann brugðist hinn versti við og sagst hafa í fullu tré við ákærða. Kvaðst ákærði ekki hafa vitað fyrr til en Guðmundur hefði tekið hann hálstaki aftan frá og hert að. Hefði hann þá beðið Guðmund um að sleppa sér, en Guðmundur þá hert svo að hálsi ákærða, að hann hefði ekki náð andanum. Ákærði hefði reynt að brjótast um og losa sig, en Guðmundur haldið honum föstum og sveigt hann aftur á bak. Ákærði hefði freistað þess að láta sig falla á gólfið, þannig að Guðmundur missti tökin, en hann hefði haldið ákærða uppi á hálsinum og ákærði orðið að stíga í fæturnar aftur til að losa átakið og reynt að sparka aftur fyrir sig, en allt reynst árangurslaust. Ákærði kvaðst hafa orðið var við, að hann væri hættur að heyra, fundið sterka máttleysiskennd og skynjað, að hann væri að missa meðvitund. Við þetta hefði gripið hann svo óstjórnleg hræðsla, að hann hefði þrifið til hnífs, sem hann hefði borið í slíðrum við belti sér hægra megin, dregið hann úr slíðrum með hægri hendi, rekið hann aftur fyrir sig og fundið, að hann lenti í Guðmundi, sem hljóðað hefði upp og losað svo mikið um tökin, að ákærði gat slitið sig lausan.
Þegar þetta átti sér stað, hefðu þeir verið við norðurvegg stofunnar, ákærði stokkið í átt að svefnherbergisdyrunum, um leið og hann losnaði, Guðmundur fylgt á eftir, náð taki á tölu á frakka, sem ákærði var í, en um leið fallið á gólfið. Við það hefði talan slitnað af frakkanum og Guðmundur haldið henni í krepptum hnefanum. Ákærði kvaðst hafa áttað sig á því, hvernig komið var, og hnigið niður á stól í mikilli geðshræringu, en Guðmundur legið hreyfingarlaus á gólfinu. Ákærði kvaðst þá hafa séð, að skyrta Guðmundar var blóðug ofan við beltisstað, og fundið einhvern vondan þef, sem líkst hefði einna helst saurlykt, en verið sterkari. Einnig hefði hann heyrt hljóð koma frá Guðmundi, sem mjög erfitt væri að lýsa, einna líkast garnagauli eða
Bls. 165
"prumphljóði" og minnti ákærða á það, þegar loftbólur koma upp úr vatni, en þó verið hærra og öðru vísi. Þegar allt þetta gerðist, hefðu hvorki Sævar Marinó né Tryggvi Rúnar verið í stofunni, en sá síðarnefndi í þessu komið þangað inn og ákærði farið fram að leita Sævars Marinós. Hefði hann í þessu skyni meðal annars farið út á kjallaraströppurnar og gáð upp í stigann, sem lá upp á efri hæðina, heyrt þrusk úr snyrti herberginu, en hurðin þangað inn hefði verið læst, og hann sagt Sævari Marinó að koma út og sjá, hvað gerst hefði. Þeir hefðu farið inn í stofuna, Tryggvi Rúnar staðið þar við skrifborð og starað á Guðmund, og gat ákærði ekki merkt, að hann hefði nokkuð hreyft sig.
Þeir félagar hefðu ræðst við um, hvað til ráða væri, ákærði spurt, hvort ekki væri best að hringja á lögreglu. Tryggvi Rúnar jánkaði því, en Sævar Marinó engu svarað. Fallið var frá þessu ráði, en ákærði fullyrti, að Tryggvi Rúnar hefði stungið upp á því að skilja lík Guðmundar eftir á nærliggjandi húströppum, ákærði sjálfur lagt til að flytja líkið í Hellisgerði, en Sævar Marinó talið of mikla hættu á, að til þeirra sæist, ef þeir gerðu eitthvað slíkt. Þegar hér var komið, hefði óþefurinn verið orðinn svo sterkur, að þeir hefðu tekið Guðmund, borið hann fram í geymsluna og hagrætt honum í sitjandi stellingu í eitt hornið, þannig að hann hefði setið slötum beinum með bakið hinn í hornið. Ákærði staðhæfði, að þeim hefði ekki lengur fundist vært í íbúðinni vegna þefsins og því farið út um stund, en þegar þeir komu aftur, óðara tekið til við að búa um Guðmund í ljósu rúmlaki eða voð, sem Sævar Marinó hefði útvegað, og hefði Guðmundur ekkert hreyfst í millitíðinni. Ákærði kvaðst muna, að þeir hefðu orðið að kreppa Guðmund saman til þess, að auðveldara væri að setja voðina utan um hann, og hefði hann þá heyrt, að brakaði í baki Guðmundar. Ákærði kvaðst hafa sagt Erlu, sem komið hafði heim, á meðan þeir skustust frá, hvað gerst hefði. Hún hefði hlustað þegjandi á og hann sagt, að ef hún vildi, skyldi hann hringja á lögreglu, en hún ekki sagst skipta sér af þessu og gengið inn í svefnherbergið.
Eftir að Albert Klahn kom, hefði Sævar Marinó farið út til að tala við hann, en komið inn aftur nokkru síðar og sagt, að allt væri í lagi. Ákærði fullyrti, að hann hefði þá sjálfur farið og talað við Albert Klahn og spurt hann, hvort hann vissi, hvað hann væri að ganga út í. Hann hefði sagt það vera, en ekki kvaðst ákærði hafa vitað, hvað þeim Sævari Marinó og Albert Klahn
Bls. 165
hefði farið á milli. Síðan sagðist ákærði hafa farið inn og hjálpað þeim Sævari Marinó og Tryggva Rúnari að ganga frá Guðmundi. Hefði Sævar Marinó þá rétt honum veski Guðmundar og ákærði ekki getað betur séð en Sævar Mari nó hefði verið með veskið á sér. Kvaðst ákærði fyrir sitt leyti sannfærður um, að Sævar Marinó hefði verið að leita í veskinu, á meðan hann læsti sig inni á salerninu. Einnig var ákærði viss um, að Sævar Marinó hefði verið búinn að gera Guðmundi eitthvað, áður en viðureign þeirra Guðmundar hófst með svo hrapalegum afleiðingum.
Ákærði kvað Albert Klahn hafa ekið með lík Guðmundar eftir leiðsögn Sævars Marinós, þeir verið komnir út á Álftanes, ákærði haft á orði, að þeir skyldu ekki haga sér eins og fífl, því að forsetinn byggi þarna, og ættu þeir að koma sér eitthvað annað. Hefði þá verið ekið til baka, eitthvað eftir veginum að Sædýrasafninu, en einnig snúið þar við og ekið suður fyrir Álverið í Straumsvík. Á leiðinni kvaðst ákærði hafa minnst frakkatölunnar, sem Guðmundur hefði slitið af frakka hans og hann verið með í krepptum hnefanum, þar sem honum hefði ekki tekist að losa tak Guðmundar á tölunni. Sagðist ákærði hafa haft orð á þessu við Tryggva Rúnar og hann ætlað að sjá, hvað unnt væri að gera , eftir að þeir hefðu stöðvað. Um leið og þeir urðuðu Guðmund, hefði Tryggvi Rúnar losað töluna úr hendi Guðmundar og rétt ákærða hana.
Ákærða minnti, að Albert Klahn hefði eftir þetta ekið að Hamarsbraut 11 og Sævar Marinó skotist þar inn. Síðan hefði þeim Tryggva Rúnari verið ekið að Grettisgötu 82, en Sævar Marinó haldið áfram í bifreiðinni með Albert Klahn.
Hinn 20. september 1976 var fyrrnefnd lögregluskýrsla lesin fyrir ákærða Kristjáni Viðari að réttargæslumanni hans nærverandi. Taldi ákærði skýrsluna að öllu leyti rétta, en vildi þó bæta því við, að Guðmundur Einarsson hefði sagt sér, að Sævar Marinó hefði tekið veski hanss, og því hefði ákærði leitað Sævars Marinós, áður en átökin hófust og einnig eftir að þeim lauk. Þá vildi ákærði ekki fullyrða, að ekið hefði verið út á Álftanes, en minntist þess þó að hafa talað umrædd orð um forsetann og bústað hans. Ákærði kvaðst greinilega muna, að lík Guðmundar hefði verið sett hægra megin inn í bifreiðina og tekið út úr henni sömu megin. Ákærði vildi taka það fram, að hann hefði ekki þagað vísvitandi yfir atburðarásinni, eins og hún gerðist og hann nú lýst henni, en hún hefi rifjast upp fyrir sér smám saman.
Hinn 19. september 1976 ræddi sami rannsóknarlögreglumaður
Bls. 167
aftur við ákærða Kristján Viðar að eigin ósk hans og ritaði um samtalið skýrslu, sem fram hefur verið lögð í málinu. Kvaðst ákærði dag nokkurn í ágústmánuði árið 1974 hafa verið staddur á heimili sínu að Grettisgötu 82 ásamt Sævari Marinó, sem farið hefði að tala um "Guðmundarmálið" og ákærði hefði stungið Guðmund Einarsson til bana að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði í janúarmánuði 1974 og nú væri hyggilegast að losa sig við hnífinn. Að skipan Sævars Marinós hefði hann sótt hnífinn, sem settur hefði verið með slíðrum í poka, sem þeir hefðu verið með, en síðar um daginn hefðu þeir ásamt Tryggva Rúnari og Albert Klahn farið með pokann eitthvað út í Hafnarfjarðarhraun og falið hann þar.
Hinn 21. september 1976 staðfesti ákærði réttmæti þessarar frásagnar með undirskrift sinni í viðurvist réttargæslumanns síns.
Hinn 14. október 1976 skýrði ákærði Kristján Viðar rannsóknarlögreglu frá því, að dag nokkurn í ágústmánuði 1974 hefði hann farið í Fossvogskirkjugarð ásamt Sævari Marinó og Albert Klahn til þess að grafa þar eitthvað niður. Kvaðst ákærði muna, að þetta hefði verið síðari hluta dags á tímabilinu 1800 til 1900, að því er hann taldi. Ákærði hélt, að þeir hefðu þarna verið að grafa Guðmund Einarsson, enda þótt hann ræki ekki minni til, að hann hefði sótt Guðmund út í Hafnarfjarðarhraun, þangað sem hann var fyrst fluttur. Ákærði sagðist viss um veru þeirra í kirkjugarðinum, en gat ekki fullyrt, hvort hann hefði sjálfur tekið þátt í greftrinum. Einnig kvaðst hann muna fyrir víst, að hann hefði rifist við Sævar Marinó og viljað, að Guðmundur eða það, sem grafið var, yrði tekið upp aftur, þar eð hann hefði talið hugsanlegt, að leiði væri fyrir á þeim stað, þar sem grafið var.
Hinn 22. október 1976 gaf ákærði Kristján Viðar skýrslu hjá rannsóknarlögreglu að eigin ósk. Skýrði hann þá frá því, að honum hefði verið sýndur grænbrúnn, síður, tvíhnepptur taufrakki og tæknirannsókn leitt í ljós, að enginn hnappur hefði verið slitinn af frakkanum. Ákærði kvaðst þekkja þennan frakka og hefði hann verið í honum að Hamarsbraut 11, þegar Guðmundur Einarsson hlaut bana. "Mér finnst því augljóst, að hnappurinn, sem slitnaði af, muni hafa verið af leðurjakka, sem ég var í innan undir frakkanum", er bókað eftir ákærða í lögregluskýrslunni. Ákærði fullyrti, að fyrri frásögn hans um hnappinn og hvernig Tryggvi Rúnar hefðu afhent honum hann, væri sönn,
Bls. 168
en ákærða misminnt, af hvaða flík hnappurinn slitnaði. Kvaðst ákærði muna það greinilega nú, að efra hnapp leðurjakkans hefði vantað eftir atburðinn að Hamarsbraut 11 og hann eftir það lengi legið laus í vasa jakkans, en jakkannn hefði hann lánað manni nokkrum í febrúar 1974 og hann ekki komið síðan í sínar vörslur.
Hinn 14. mars 1977 skýrði ákærði Kristján Viðar rannsóknarlögreglu frá því, að laugardagskvöldið 26. janúar 1974 hefðu Albert Klahn og Gunnar Jónsson komið heim til hans að Grettisgötu 82 og Tryggvi Rúnar þá verið þar staddur. Mundi ákærði eftir því að Albert Klahn hefði farið í leiðangur til þess að kaupa LSD töflur af Sigríði nokkurri Gísladóttur, og minnti, að Gunnar hefði farið með honum. Ákærði kvað hugsanlegt, að hann hefði tekið inn hálfa töflu af LSD, áður en þeir fóru út, og sagðist muna eftir að hafa verið að skipta slíkri töflu í sundur með rakvélarblaði. Ákærði staðhæfði, að Sævar Marinó hefði haft orð á því, að þeir félagarnir gætu ekki verið lengi að Hamarsbraut11, þar sem Erla kæmi fljótlega heim. Einnig minnti hann, að Sævar Marinó hefði brýnt þá á að hafa ekki hátt. Ákærði fullyrti nú, að frásagnir hans um, að hann hefði stungið Guðmund Einarsson með byssusting, væru ekki sannleikanum samkvæmar. Sagði ákærði, að þeim hefði skotið upp í huga sér og gæti ástæðan hafa verið sú, að hann hefði einn viljað taka á sig alla sökina. Lýsingar þær, sem ákærði hefði gefið, þegar hann átti að hafa stungið Guðmund, hefðu ekki verið raunverulegar og hljóð það, sem hann hefði lýst fyrir rannsóknarlögreglumanninum og koma hefði átt frá Guðmundi, væri hugarburður, sem hann taldi sig sjálfan eiga sök á. Sama væri að segja um lyktina, sem hann hefði minnst á, hún væri tilbúningur, en sú lýsing væri trúlega komin frá Erlu Bolladóttur og lögreglumönnum þeim, sem fóru með rannsókn málsins í upphafi. Ákærði kvað fyrrnefndan byssusting hafa horfið frá sér, en gat ekki staðhæft, hvort það hefði verið fyrir eða eftir atvikin að Hamarsbraut 11.
Ákærði Kristján Viðar Viðarsson kom fyrir dómþing sakadóms hjá dómurum máls þessa hinn 25. mars 1977. Var skipaður verjandi hans viðstaddur yfirheyrsluna, sem stóð frá klukkan 1000-1220 og 1345-1748. Verð meginatriði dómskýrslu hans rakin hér á eftir.
Ákærða var kynnt sakarefnið í I. kafla ákæru. Kvað hann það rétt, sem honum er gefið þar að sök, að því undanskildu, að Guðmundur hefði aldrei verið stunginn með hníf eða byssusting.
Ákærði skýrði frá því, að hann hefði þekkt Sævar Marinó frá
Bls. 169
því hann var 10 ára og hefði hann kynnst honum er þeir voru saman í barnaskóla, og þeir verið mikið saman frá því árið 1972. Tryggva Rúnari hefði hann kynnst árið 1971 og þeir verið mikið saman síðan. Ákærði kvaðst hafa þekkt Albert Klahn, frá því hann var 10 ára að aldri, og þeir haft töluverð samskipti frá þeim tíma. Ákærði skýrði frá því, að þeir hefðu allir neytt áfengis saman töluvert mikið og einnig fíkniefna. Hann tók þó fram, að Sævar Marinó hefði hætt fíkniefnaneyslu árið 1972. Þeir hefðu einkum hist heima hjá ákærða að Grettisgötu 82, heima hjá Albert Klahn að Njálsgötu 44 og eins að Vesturgötu 24 hér í borg. Ákærði kvað Sævar Marinó hafa kynnst Erlu Bolladóttur í ágúst 1973. Hófust náin kynni milli þeirra, og tóku þau upp sambúð um haustið eða veturinn að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði. Ákærði taldi sig hafa komið tvisvar eða þrisvar að Hamarsbraut 11, eftir að Erla og Sævar Marinó fóru að búa þar og áður en hann kom þangað aðfaranótt 27. janúar 1974. Ákærði kvaðst hafa komið einn í eitt skiptið, í annað skiptið kom hann með Albert Klahn og Sævari Marinó. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa komið oftar að Hamarsbraut 11. Hann mundi ekki eftir því að hafa séð Tryggva Rúnar þar nema í eitt skipti, þ. e. aðfaranótt 27. janúar 1974.
Ákærði skýrði frá því, að hann hefði verið staddur heima hjá sér að Grettisgötu 82 nokkuð seint að kvöldi 26. janúar 1974, er Tryggvi Rúnar kom þangað. Ákærða minnti, að þegar Tryggvi Rúnar kom, hefði Albert Klahn og piltur að nafni Gunnar Jónsson, er búið hefði einhvers staðar við Lokastíg, verið staddir heima hjá honum, en þeir hefðu komið eitthvað fyrr um kvöldið.
Ákærði kvaðst hafa neytt áfengis, tekið mebumal natrium og LSD töflur. Ákærði sá Tryggva Rúnar neyta áfengis og taka inn mebumal natrium, en hvort hann tók inn LSD töflur, vissi hann ekki. Ákærði sá ekki, að Albert Klahn og Gunnar Jónsson neyttu áfengis eða fíkniefna. Albert Klahn hafði útvegað LSD töflurnar hjá Sigríði Gísladóttur að Vesturgötu 24. Um miðnætti fóru þeir allir út saman. Ákærði minntist þess, að nokkuð kalt var í veðri, en að öðru leyti myndi hann ekki hvernig veðrið var. Bifreið, er Albert Klahn var með, stóð á Grettisgötu skammt frá heimili ákærða. Þetta var svört Volkswagen bifreið, er faðir Alberts Klahn átti. Þeir fóru í bifreiðina, og var Albert Klahn ökumaður hennar. Gunnar Jónsson sat í framsæti við hlið Alberts Klahn, en ákærði og Tryggvi Rúnar sátu í aftursæti. Þeir fóru í bifreiðinni milli skemmtistaða hér í borginni. Ákærði minntist þess
Bls. 170
ekki, að þeir hefðu haft neitt sérstakt í huga með ferðalagi þessu, en sagði, að ætlun þeirra Tryggva Rúnars hefði verið að hitta fólk. Ákærði minntist þess ekki, að þeir hefðu komið nokkurs staðar við hér í borginni.
Ákærði kvað þá hafa ekið að starfsmannahúsi við Kópavogshæli og þeir verið þar á tímanum frá kl. 0100 til 0130. Fóru þeir þangað til að hitta Sævar Marinó, sem var þar hjá Helgu Gísladóttur. Ekki voru þeir búnir að mæla sér mót þarna, en ákærði ætlaði að fá lánaða peninga hjá Sævari Marinó, og eins kvað hann þá hafa haft hug á að fá að setjast þarna inn. Ákærði kvaðst hafa vitað, að Sævar Marinó átti peninga, og hefði hann ætlað að fá peningalán hjá honum til kaupa á áfengisflösku. Sævar Marinó sagðist ekki geta lánað ákærða peninga. Ákærði kvaðst hafa talað sjálfur við Sævar Marinó, en hinir verið í bifreiðinni á meðan. Ákærði sagðist ekki hafa farið inn í húsið, en talað við Sævar Marinó við útidyr. Ákærði nefndi það einnig við hann, hvort þeir gætu fengið að koma inn, en Sævar Marinó sagði, að það væri ekki hægt. Sævar Marinó hafði orð á því, að hann væri á heimleið, en eigi ákváðu þeir að mæla sér mót á neinum ákveðnum stað.
Frá Kópavogshæli var ekið til Hafnarfjarðar, og taldi ákærði, að klukkan hefði verið rúmlega 0200, þegar þangað kom. Þeir námu staðar í Hafnarfirði skammt frá veitingahúsinu Skiphóli neðst í brekkunni, þegar komið er til bæjarins frá Reykjavík. Ákærði og Tryggvi Rúnar fóru úr bifreiðinni, en Albert Klahn og Gunnar urðu eftir. Ákærði kvað þá Tryggva Rúnar hafa gengið þarna um nokkra stund, m. a. fram hjá Skiphóli í átt að Alþýðuhúsinu, en síðan aftur upp brekkuna. Stefndu þeir í átt til Reykjavíkur, og var ætlun þeirra að reyna að fá far þangað. Þegar þeir komu upp í brekkuna, sem liggur upp úr Hafnarfirði, sáu þeir ameríska bifreið, rauðbrúna að lit. Bifreiðin var full af fólki. Ákærði sá, þegar þeir komu að bifreiðinni, að Guðmundur Einarsson, sem hann þekkti, stóð við afturdyr bifreiðarinnar, ökumannsmegin. Þeir spurðu, hvort hægt væri að fá far með bifreiðinni. Guðmundur svaraði þeim og sagði, að hann hefði verið að biðja um að fá far og mundi það ekki unnt. Bifreiðinni var síðan ekið á brott, og urðu þeir þrír eftir. Ákærði sá ekki fólk það, er var í bifreiðinni, og veit ekkert, hvaða skrásetningarmerki var á henni. Guðmundur hefði farið með þeim að bifreiðinni til Alberts Klahn, en hann ekki viljað aka þeim og sagst þurfa að fara eitthvað. Var nokkurt þras út af þessu, en Albert Klahn
Bls. 171
fór á brott frá þeim. Ákærði mundi, að hann spurði Albert Klahn, hvort hann þekkti ekki Guðmund og hvort hann vildi ekki gera honum þann greiða að aka honum til Reykjavíkur. Sagði Albert Klahn, að hann kannaðist við Guðmund, en gæti ekki ekið þeim. Ákærða var í dóminum sýnd mynd af Guðmundi Einarssyni og staðfesti, að hann hefði þekkt hann, svo sem áður greinir.
Ákærði skýrði frá því, að þeir Tryggvi Rúnar, Guðmundur og hann hefðu verið að veifa bifreiðum í því skyni að fá far til Reykjavíkur. Ákærði mundi eftir því, að Tryggvi Rúnar hafði orðið viðskila við þá Guðmund nokkra stund, er þeir voru staddir á Strandgötu við skúra rétt hjá Skiphóli. Var ástæðan sú, að þeir töldu minni líkur á því, að þeir gætu stöðvað bifreiðar og fengið far, ef þeir væru þrír saman. Hefði því Tryggvi Rúnar farið á bak við skúrana, svo að hann sæist ekki. Ákærði og Guðmundur hefðu síðan staðið tveir á gangstéttinni og veifað bifreiðum, sem fóru fram hjá. Ákærði kvaðst muna eftir því, að margar bifreiðar óku fram hjá þeim, m. a. mundi hann eftir fólksbifreið, að hann minnti ljósblárri, sem hefði hægt ferðina, en síðan verið ekið áfram. Ekki kvaðst hann muna eftir hvítri Volkswagen bifreið, er hefði hægt ferðina, er hún nálgaðist þá, en síðan verið ekið áfram. Ákærði mundi ekki eftir að hafa farið úr jakkanum, en þó gæti það hafa verið. Ákærði var í umrætt sinn í frakka og jakka innan undir. Hann mundi ekki, í hvernig skyrtu hann var. Ákærði kvaðst hafa verið mikið undir áhrifum áfengis, en sérstaklega þó undir áhrifum lyfja.
Ákærði staðhæfði, að þeir Tryggvi Rúnar og Guðmundur hefðu nú ákveðið að fara að Hamarsbraut 11 til að reyna að fá lán fyrir leigubifreið. Kvaðst ákærði hafa átt hugmyndina að því. Ákærði mundi ekki vel, hvað leið þeir fóru, en taldi, að þeir hefðu gengið eftir Strandgötu og síðan fram hjá lögreglustöðinni. Þeim gekk illa að finna Hamarsbraut 11, og tók ákærði fram í því sambandi, að hann hefði aldrei komið þar áður nema í bifreið. Ákærði kvaðst ekki hafa boðið Guðmundi í samkvæmi að Hamarsbraut 11, tilgangur þeirra með ferðinni þangað hefði aðeins verið að hitta Sævar Marinó og fá lán hjá honum fyrir bifreið til Reykjavíkur.
Þegar að Hamarsbraut 11 kom, voru ljós slökkt í íbúð þeirra Sævars Marinós og Erlu, sem var í kjallara hússins. Ákærði kvaðst hafa barið að dyrum, en enginn ansað. Taldi hann, að ekki mundi heyrast til sín, og bankað þá á glugga á svefnherbergi og stofu, en ekki var ansað þar heldur. Ákærði kvaðst hafa orðið þess
Bls. 172
var, á meðan hann var að þessu, að einhver gekk fram hjá húsinu niður stíginn. Ákærði vissi ekki, hvaða maður þetta var, og hreyfði sig ekki, svo að maðurinn tæki ekki eftir honum. Ákærði fór síðan bak við húsið og aftur að útidyrum. Stóð þá Sævar Marinó þar hjá þeim Guðmundi og Tryggva Rúnari. Ákærði sá ekki hvort Sævar Marinó kom í bifreið á staðinn. Sævar Marinó virtist vera tregur til að hleypa þeim inn í húsið, en lét þó til leiðast. Þegar inn var komið, tók hann ákærða á eintal og var það finna að því við ákærða, að hann hefði komið með þá Tryggva Rúnar og Guðmund. Orðrétt sagði ákærði: "Hann (Sævar Marinó) var eitthvað reiður yfir, að ég skyldi láta Tryggva vita, hvar hann byggi". Ákærði varð ekki var við, að Sævar Marinó væri með áhrifum áfengis eða lyfja, og sagði ákærði í því sambandi, að Sævar Marinó bragðaði lítið áfengi og notaði ekki lyf. Ákærði skýrði svo frá klæðaburði Guðmundar Einarssonar, að hann hefði verið yfirhafnarlaus, en í munstruðum, dökkleitum jakka og í dökkum buxum og dökkri skyrtu. Guðmundur var nokkuð mikið drukkinn. Ákærði og Guðmundur höfðu kynnst, er þeir voru í barnaskóla, en lítil eða engin samskipti haft eftir það, aðeins heilast á götu.
Ákærði kvaðst hafa fundið það, er inn í íbúðina var komið, að Sævar Marinó var óánægður yfir að hafa þá þar, og talaði um, að þeir hefðu stutta viðdvöl. Ákærði kvaðst hafa beðið Sævar um að lána þeim peninga til að greiða leigubifreið og hefði hann ætlað að verða við því. Ákærði kvað þá Albert Klahn og Gunnar hafa komið að Hamarsbraut 11 stuttu síðar, eða um 5 mínútum, að hann taldi. Ákærði mundi, að Albert Klahn kom inn, en hann kvaðst lítið muna eftir Gunnari, en sagði hann þó hafa komið inn. Mundi ákærði ekki eftir honum nema á fremri ganginum. Þegar inn var komið, fóru ákærði og Guðmundur inn í stofuna og hefði Albert Klahn verið þar einnig eftir að hann kom. Ákærði mundi hins vegar ekki eftir, að Gunnar Jónsson kæmi þar inn. Ákærði og Guðmundur settust ekki niður.
Ákærði kvaðst hafa tekið inn töflur, mebumal natrium, sem hann fékk hjá Tryggva Rúnari. Hefði hann boðið Guðmundi töflur, en hann afþakkað og haft orð á, að honum líkaði þetta ekki. Í framhaldi af þessu var farið að ræða áfengiskaup. Kvaðst ákærði hafa átt hugmyndina að því. Hefði hann beðið Sævar Marinó að lána sér fyrir flösku, en hann verið tregur til. Stakk þá ákærði upp á því, að Guðmundur greiddi helminginn af flöskunni. Guðmundur vildi ekki á það fallast. Gengu þeir Tryggvi
Bls. 173
Rúnar á efti rhonum með þetta, en hann neitaði. Hið næsta, sem gerðist, var það, að Sævar Marinó, Tryggvi Rúnar og Guðmundur fóru inn í svefnherbergið, en ákærði varð eftir í stofunni og fékk sér töflur.
Ákærði kvaðst hafa orðið þess var allt í einu, að átök voru byrjuð í svefnherberginu rétt við dyrnar í stofunni, milli Sævars Marinós, Tryggva Rúnars og Guðmundar. Ákærði sá ekki, hvernig átökin byrjuðu, en þau hófust í framhaldi af þjarkinu um áfengiskaupin. Áður en átökin byrjuðu í svefnherberginu, mundi ákærði eftir því, að hann og Guðmundur höfðu ýtt hvor við öðrum, en það var, þegar ákærði var að bjóða Guðmundi töflurnar. Ákærði kvaðst hafa séð, að Tryggvi Rúnar sló Guðmund hnefahögg í andlitið. Var Guðmundur þá staddur í svefnherberginu, rétt innan við dyrnar, og Tryggvi Rúnar og Sævar Marinó hjá honum. Guðmundur féll á bakið við höggið og lenti á gólfinu inni í stofunni. Tryggvi Rúnar lagðist ofan á Guðmund og hélt honum niðri. Í því stökk Sævar Marinó út úr herberginu og sparkaði í Guðmund, sennilega í höfuðið, að ákærða fannst. Ekki sá ákærði, að Sævar Marinó sparkaði nema einu sinni. Eftir það hraðaði Sævar Marinó sér út úr stofunni fram á ganginn og lokaði sig inni á salerni. Tryggvi Rúnar sleppti nú Guðmundi, sem stóð upp. Ekki minntist ákærði þess að hafa séð neina áverka á honum. Guðmundur var mjög reiður. Réðst hann á ákærða og spurði hann, hvers vegna hann væri að draga sig inn í svona "dópistabæli". Ákærði kvað Guðmund hafa slegið sig í brjóstið og reynt að slá sig í andlitið. Ákærði kvaðst hafa barið frá sér og snúið sér við. Kom þá Guðmundur aftan að ákærða og tók hann haustaki. Ákærði gat losað sig og sló Guðmund nokkur högg í andlit og víðar. Guðmundur féll við höggin á stofugólfið og stóð ekki upp eftir það. Guðmudur lá að átökunum afstöðnum á ská á stofugólfinu með höfuðið í átt að dyrunum milli svefnherbergis og stofu og bærði ekkert á sér. Á meðan átökin á milli ákærða og Guðmundar áttu sér stað, var Sævar Marinó inni á snyrtiherbergi og Tryggvi Rúnar frammi á gangi við stofudyrnar. Ákærði kvaðst ekki geta gert sér grein fyrir því, hvar Albert Klahn og Gunnar Jónsson voru, á meðan á átökunum stóð, en hvorugur þeirra tók þátt í þeim, en þeir voru einhvers staðar þarna. Ákærði mundi eftir því, að þeir voru inni í húsinu eftir átökin.
Fljótlega eftir að Guðmundur var fallinn í gólfið, kallaði ákærði á Sævar Marinó. Kom hann út af snyrtiherberginu og fór
Bls. 174
inn í stofuna. Ákærði og Sævar Marinó vildu nú losna við Gunnar Jónsson. Sagði ákærði Gunnari, að þarna ættu að fara fram viðskipti, sem þeir kærðu sig ekki um, að hann yrði vitni að, og gæti hann ekki verið viðstaddur. Raunverulega ástæðan fyrir þessu var þó sú, að þeir vildu ekki láta Gunnar sjá meira af því, sem gerst hafði, en orðið var. Gunnar fór síðan á brott, og sagði ákærði Albert Klahn frá því. Sagðist Albert vilja aka Gunnari heim, en ákærði vissi ekki, hvort hann gerði það. Ákærði kvað það hafa verið að frumkvæði Sævars Marinós, að Gunnar var látinn fara, en engar ákvarðanir var þó búið að taka um, hvað frekar yrði gert.
Ákærði hélt fyrst, að Guðmundur væri meðvitundarlaus, en þeir höfðu tekið á púlsi hans og gagnauga, en engan æðaslátt fundið. Var þeim þá ljóst, að eitthvað alvarlegt hafði gerst, og greip þá skelfing. Hófu þeir nú að ræða saman, hvað gera skyldi. Var rætt um, hvort kalla ætti á lækni eða sjúkrabíl, en frá því var horfið. Var ákveðið að bíða átekta og sjá, hvort Guðmundur jafnaði sig. Ákærði sá, að blóð var í munnvikum Guðmundar, en aðra áverka sá hann ekki á honum. Ákærði staðhæfði, að þeir félagar hefðu borið Guðmund inn í geymslu inn af þvottahúsi og lagt hann þar. Var ástæðan sú, að þeir töldu geta verið, að Erla Bolladóttir kæmi heim í millitíðinni og kæmi að Guðmundi inni í svefnherberginu.
Ákærði kvað þá hafa farið saman á brott úr húsinu. Héldu þeir niður Suðurgötu og náðu þar í leigubifreið. Létu þeir aka sér að nætursölunni í Hafnarfirði. Þeir höfðu þar skamma viðdvöl og voru komnir aftur að Hamarsbraut 11 eftir um það bil hálftíma. Þegar þeir komu aftur, var Guðmundur enn meðvitundarlaus, og fundu þeir, að hann var farinn að kólna. Þeir héldu áfram að ráðgast um, hvað gera skyldi við Guðmund, og datt m. a. í hug að setja hann á útitröppur eða í almenningsgarð, en frá því var horfið. Tóku þeir loks þá ákvörðun að fela lík Guðmundar einhvers staðar.
Ákærði mundi eftir því, að Sævar Marinó rétti honum veski, þegar þeir voru staddir inni í geymslunni, og sagði, að þetta væri veski Guðmundar. Ákærði tók við veskinu og stakk því í brjóstvasann á jakka Guðmundar. Hann tók það skömmu síðar aftur af Guðmundi og gáði þá í það. Ákærði sá, að persónuskilríki voru í veskinu, en ekki varð hann var við, að neinir peningar væru þar. Ákærði sá ekki Sævar Marinó taka veskið af Guðmundi.
Ákærði varð þess ekki var, að Erla Bolladóttir væri komin
Bls. 175
heim, er þeir komu aftur að Hamarsbraut 11. Ákærði mundi, að Sævar Marinó fór inn í íbúðina, á meðan þeir voru í geymslunni, og sótti lak. Ákærði vissi ekki, hvert hann náði í lakið. Guðmundur var vafinn inn í það. Þegar þeir voru staddir í geymslunni, heyrðu þeir umgang frammi á ganginum, og sagði Sævar Marinó, að þetta væri líklega Erla. Ákærði fór til Erlu og ræddi við hana inni í stofu. Sagði ákærði, að það hefði orðið hroðalegt slys í íbúðinni og að maður hefði dáið. Ákærði sagði henni, hvað þeir hygðust fyrir með líkið, þ. e. að fela það, en Erla sagðist ekki skipta sér neitt af þessu. Þegar þetta gerðist, var Albert Klahn kominn aftur. Sagði Sævar Marinó, að hann væri úti í bíl og væri hann búinn að tala við hann. Ákærði kvað Albert Klahn ekki hafa komið inn í húsið, eftir að hann kom aftur.
Ákærði skýrði frá því, að hann hefði verið í Kaupmannahöfn í júlí árið 1973. Ákærði kom til Bárðar Ragnars Jónssonar og konu hans, er þar bjuggu um þessar mundir. Bárður átti nokkra hnífa, m. a. byssusting. Ákærði kvaðst hafa tekið byssustinginn hjá Bárði og haft hann með sér hingað til lands. Ákærði hafði byssustinginn í herbergi sínu. Festi ákærði hann upp á vegg, en gekk ekki með hann. Ákærði kvaðst ekki hafa verið með byssustinginn né neinn hníf að Hamarsbraut 11 framangreinda nótt. Hann tók aftur fyrri framburð hjá lögreglu um, að hann hefði stungið Guðmund Einarsson með byssustingnum, svo að hann hlaut bana af. Ákærði kvað sögu þessa algerlega út í loftið. Hefði hann sagt lögreglunni hana, vegna þess að hann var orðinn ruglaður af stöðugum yfirheyrslum og hefði sagan verið sögð til að flýta málinu.
Eins og áður greinir, ræddi Sævar Marinó við ákærða og sagðist vera búinn að tala við Albert Klahn og hefði Albert Klahn fallist á að flytja líkið á brott. Ákærði kvað þá alla hafa borið lík Guðmundar út úr húsinu. Hann mundi ekki eftir því, að Erla Bolladóttir yrði fyrir þeim í ganginum og félli við, a. m. k. hefði það ekki verið af sínum völdum. Ákærði kvaðst aldrei hafa fundið neina lykt af líki Guðmundar. Hann varð þess ekki var, að blóð eða saur kæmi í lakið, sem líkið var vafið inn í. Þegar út á tröppurnar að Hamarsbraut 11 kom, hætti ákærði að bera líkið, en Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar báru það að bifreið Alberts Klahn, sem var skammt frá húsinu, og sneri afturendi hennar að því. Ákærði fór inn í bifreiðina, strax og hann kom að henni, og settist í aftursæti. Fyrst var ætlunin að koma líki Guðmundar fyrir í geymsluhólfi bifreiðarinnar, en það var alltof lítið, og var
Bls. 176
líkið sett á gólfið aftan við framsæti. Ákærði tók á móti líkinu inni i bifreiðinni. Tryggvi Rúnar settist í aftursæti við hlið ákærða, Sævar Marinó fór aftur inn í húsið til að tala við Erlu. Hafði Sævar Marinó beðið ákærða að gera það, en ákærði vísað því frá sér. Ákvað þá Sævar Marinó að gera það sjálfur. Sævar Marinó var stutta stund inni í húsinu, og þegar hann kom aftur, settist hann í framsæti bifreiðarinnar við hlið Alberts Klahn. Ákærði tók ekki LSD eða önnur fíknilyf fyrr en síðar um nóttina, og hann varð ekki var við, að Tryggvi Rúnar gerði það, fyrr en eftir að heim til ákærða kom.
Ekki var ákveðið, hvert halda skyldi, en lagt var af stað með líkið. Sævar Marinó stjórnaði ferðinni og ákvað, að ekið skyldi í átt að Álverinu. Áður en lengra var haldið, var farinn vegurinn að Sædýrasafninu, en er að hliði safnsins kom, var snúið við og síðan ekið áfram. Ákærði kvaðst hafa sýnt lögreglunni, hvert ekið var, og sagði hann þar rétt frá greint. Hann mundi eftir því, að ekið var inn á afleggjara, sem er vinstra megin við Reykjanesbrautina gegnt Álverinu. Var ekinn nokkur spölur eftir afleggjaranum, en hve langt, myndi ákærði ekki. Þegar Albert Klahn taldi ekki fært lengra, var numið staðar og líkið tekið út úr bifreiðinni. Ákærði, Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar báru líkið út í hraunið í suðurátt, en Albert Klahn varð eftir í bifreiðinni á meðan. Þeir gengu inn í hraunið nokkurn spöl, en hve langt, gat ákærði ekki sagt um. Námu þeir staðar, er þeir komu að hraungjótu, og settu líkið þar. Þeir létu lakið vera utan um líkið. Ákærði og Tryggvi Rúnar sóttu stóran, hellulaga stein og lögðu hann ofan á líkið. Steinn þessi huldi það ekki alveg. Sótti ákærði 3-4 steina til viðbótar og lagði yfir höfuð líksins. Ákærði kvaðst ekki hafa kastað steinum á líkið, heldur lagt þá varlega að því og hið sama sé að segja um stóra steininn. Líkið var alveg hulið af steinum, og sást ekkert í það. Ákærði minnti, að Albert Klahn hefði haft ljóst bifreiðarinnar kveikt, á meðan þeir voru í burtu, en ákærði taldi, að þeir hefðu verið um 15-20 mínútur að bera líkið út í hraunið og koma því fyrir. Ákærði skýrði frá því, að honum hefði fundist óhugnanlegt að þurfa að vera með líkið í bifreiðinni og því forðast að hafa fæturna ofan á því. Ákærði mundi þó ekki til að hafa haft orð á þessu.
Veski Guðmundar Einarssonar, er ákærði hafði tekið aftur af honum, kvaðst hann hafa kastað í höfnina í Hafnarfirði, er þeir komu úr hrauninu. Ákærði mundi ekki til þess, að úr hefði verið tekið af Guðmundi Einarssyni. Ákærði kvað Albert Klahn
Bls. 177
hafa ekið þeim til Reykjavíkur, eftir að líkið hafði verið falið, en ekki mundi hann, hvort komið hefði verið við á Hamarsbrautinni í bakaleiðinni. Ekið var heim til ákærða að Grettisgötu 82, og fóru ákærði og Tryggvi Rúnar þar úr bifreiðinni, en Sævar Marinó varð eftir hjá Albert Klahn. Hafði Sævar Marinó á orði að láta aka sér að starfsmannahúsi við Kópavogshæli. Ákærði taldi, að klukkan hefði verið um 0400, er þeir komu að Grettisgötu 82. Þegar heim til ákærða kom, tóku þeir Tryggvi Rúnar inn LSD töflur. Þegar áhrifa þeirra fór að gæta, hóf ákærði að ræða um það við Tryggva Rúnar, að maður hefði dáið í Hafnarfirði. Sagði Tryggvi Rúnar, að það væri tóm ímyndun, og lét ákærði sannfærast um, að svo væri. Þeir sofnuðu út frá LDS neyslunni og sváfu til morguns. Ákærði sá í blöðunum, að lýst var eftir Guðmundi Einarssyni og hafin leit að honum. Ákærði var þá búinn að gleyma því, er átt hafði sér stað framangreæinda nótt. Ræddu þeir félagarnir aldrei saman um það, er gerst hafði.
Ákærði skýrði frá því, að hann hefði ekki hreyft við líki Guðmundar Einarssonar, eftir að það var flutt suður í hraunið, og vissi ekki til þess, að það hefði verið gert. Höfðu Albert Klahn, Sævar Marinó eða Tryggvi Rúnar aldrei orð á þessu við hann. Ákærði kannaðist ekki við, að lík Guðmundarhefði verið flutt í kirkjugarð, svo sem fram hefur komið í málinu. Var hann sérstaklega spurður um kirkjugarðinn í Hafnarfirði. Hann neitaði að hafa átt nokkurn þátt í að flytja líkið þangað. Ákærði kvað skýrslu sína hjá lögreglu hinn 14. október 1976 ekki hafa við nein rök að styðjast. Hann hefði ekki komið með þá sögu, að líkið hefði verið flutt í kirkjugarð. Ákærði var ítrekað spurður um það, hvort hann vissi, hvar lík Guðmundar Einarssonar væri niður komið, og svaraði því þannig: "Ég veit ekki, hvar líkamsleifar Guðmundar eru, séu þær ekki í Hafnarfjarðarhrauni".
Hinn 28. mars 1977 kom ákærði Kristján Viðar Viðarsson fyrir sakadóm, og voru honum þá kynntir framburðir hans í dómi 11. janúar 1976 og það úr lögregluskýrslu, er hann staðfesti þá, svo og framburður hans hinn 25. mars 1977 um átökin að Hamarsbraut 11, er Guðmundur Einarsson beið bana, og var ákærða bent á misræmi milli framburðanna. Ákærði sagði framburðinn frá 25. mars 1977 vera réttari. Hann hefði ekki munað eins vel um málsatvik 11. janúar 1976 eins og 25. mars 1977.
Ákærði var sérstaklega inntur eftir því, er fram kemur í framburði hans, að Sævar Marinó hefði sparkað í Guðmund, eftir að hann var fallinn. Í dómsframburðinum frá 11. janúar 1976 kvaðst
178
ákærði hafa séð, að Sævar Marinó sparkaði í síðu og höfuð Guðmundar, þar sem hann lá á gólfinu inni í stofu, en í framburði hans 25. mars 1977 kvaðst ákærði hafa séð hann sparka í Guðmund, sennilega í höfuðið, að ákærða fannst. Ákærði sagði síðari framburðinn vera réttari.
Hinn 28. mars 1977 fór fram samprófun þeirra Erlu og Kristjáns Viðars fyrir dómi. Kvað Kristján Viðar "það geta verið rétt, sem Erla segir". Kristján Viðar sagðist ekki hafa orðið þess var, að Erla yrði fyrir Sævari Marinó á ganginum að Hamarsbraut 11 og dytti, er þeir voru að bera lík Guðmundar Einarssonar út úr húsinu. Erla hélt fast við framburð sinn því viðvíkjandi. Erla hélt og fast við það, að hún hefði séð saur í lakinu, sem maðurinn var vafinn inn í, og fundið vonda lykt, en Kristján Viðar kvaðst ekki hafa orðið var við neitt slíkt. Kristján Viðar hélt því fram, að hann hefði rætt við Erlu á staðnum, en hún kvaðst ekki muna til þess. Kristján Viðar kvað Sævar Marinó hafa sótt lakið, sem sveipað var utan um Guðmund Einarsson, eftir að þeir komu aftur að Hamarsbraut 11. Erla sagðist ekki muna eftir þessu. Kristján Viðar kvaðst ekki vita, hvert Sævar Marinó hefði sótt lakið. Þau voru nánar spurð um þetta atriði, en héldu hvort um sig fast við sinn framburð.
Hinn 19. apríl 1977 kom ákærði Kristján Viðar Viðarsson fyrir sakadóm og kvaðst vilja breyta framburði sínum um það, er hann kom að Hamarsbraut 11 aðfaranótt 27. janúar 1974 ásamt Guðmundi Einarssyni og Tryggva Rúnari Leifssyni.
Ákærði skýrði nú frá því, að við nánari athugun hefði rifjast upp fyrir sér, að um Albert Klahn hefði verið að ræða, en ekki Sævar Marinó, er kom niður stíginn að húsinu, á meðan ákærði Tryggvi Rúnar og Guðmundur voru enn utan dyra. Ákærði kvaðst hafa skriðið inn um glugga á þvottahúsi, er hann fór inn í húsið að Hamarsbraut 11, og síðan opnað húsið. Hafði Sævar Marinó sagt ákærða áður, að hægt væri að komast inn um þennan glugga. Ákærði skýrði frá því, að Gunnar Jónsson hefði ekki verið í fylgd með Albert Klahn, er hann gekk niður stíginn að húsinu, en Gunnar hefði komið rétt á eftir. Ákærða minnti, að Albert Klahn hefði sagt sér, þegar hann kom á staðinn, að Gunnar biði í bifreiðinni. Voru ákærðu Kristján Viðar, Tryggvi Rúnar og Albert Klahn svo og Guðmundur Einarsson og Gunnar Jónsson nýkomnir inn í húsið, er ákærði Sævar Marinó kom. Voru þeir á ganginum og höfðu sest þar niður, en höfðu ekki farið inn í sjálfa íbúðina.
Bls. 179
Ákærði var nánar spurður um flutninginn á líki Guðmundar Einarssonar inn í hraunið. Kvaðst ákærði halda fast við fyrri framburð sinn um það og hefði líkið sér vitanlega aldrei verið flutt úr hrauninu. Ákærði taldi, að þeir hefðu verið um stundarfjórðung að bera líkið inn í hraunið frá bifreiðinni og numið staðar tvisvar á leiðinni til þess að hvíla sig.
Hinn 27. september 1977 var ákærði yfirheyrðu í sakadómi að beiðni Páls A. Pálssonar, skipaðs verjanda hans, og að eigin ósk ákærða sjálfs. Óskaði verjandinn þess, að ákærði yrði spurður að því, hvort hann hefði orðið Guðmundi Einarssyni að bana.
Svar ákærða var á þessa leið: "Ég veit ekkert um hvarf Guðmundar Einarssonar. Ég fór fram á það 12. maí s.l. í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og 6. júlí s.l. í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og 6. júlí s.l. í þinghaldi í Geirfinnsmálinu, að þetta yrði bókað, en því var hafnað".
Að ósk verjanda ákærða var hann spurður, hvers vegna hann hefði gefið dóms- og lögregluskýrslu í "Guðmundarmálinu".
Svar ákærða var: "Vegna þess að lögreglumenn fóru fram á það, og ég taldi mér ekki heimilt að neita því. Ég og meðákærðu vorum yfirheyrðir saman, án þess að skýrsla væri tekin, og við látnir hjálpast að við að muna atburði, sem ekki höfðu skeð, en lögreglumenn töldu, að átt hefðu sér stað. Ég var ekki staddur í Hafnarfirði aðfaranótt 27. janúar 1974 ásamt meðákærðu og Guðmundi Einarssyni og Gunnar Jónssyni".
Í þinghaldi í sakadómi hinn 29. september 1977 óskaði ákærði Kristján Viðar Viðarsson, að eftirfarandi yrði bókað:
"Laugardagskvöldið 26. janúar 1974 var ég á kvikmyndasýningu Superstar í Laugarársbíó, fimmsýningu. Að henni lokinni labbaði ég heim til mín, en kom við að Miðtúni 19, þar sem kunningi minn bjó, sem heitir Gunnar. Átti ég einhver orðaskipti við hann. Ég hafði orð á að fara á Röðul og bað hann um peningalán, sem hann gat ekki veitt mér. Ég fór ekki á Röðul, heldur heim til mín að Grettisgötu 82 og var þar það, sem eftir var kvöldsins, og um nóttina. Framburðir mínir í samprófunum í málinu hér í sambandi við Mál Guðmundar Einarssonar við meðákærðu og Gunnar Jónsson svo og í máli Geirfinns Einarssonar að undanskildum samprófunum við ákærðu Erlu og Guðjón eru tómur þvættingur".
Ákærði kvaðst aðspurður hafa komið heim til sín um kl. 2100 um kvöldið.
D. Hinn 22. desember 1975 yfirheyrði rannsóknarlögreglan ákærða Sævar Marinó Ciesielski fyrst um atvik máls þess, en
Bls. 180
hann var þá gæslufangi í fangelsinu við Síðumúla. Yfirheyrsla þessi hófst klukkan 1400 og lauk klukkan 1900, og var Jón Oddsson hæstaréttarlögmaður, réttargæslumaður ákærða, viðstaddur hana. Var ákærði margspurður um hvarf Guðmundar Einarssonar, en hann neitaði í fyrstu allri vitneskju um það. Var ákærða bent á, að Erla Bolladóttir hefði skýrt frá sinni vitneskju um málið og hún segði ákærða vera við það riðinn. Þar kom, að ákærði viðurkenndi, að hann vissi eitthvað um afdrif Guðmundar, en hann vildi ekki til að byrja með segja nánar frá atvikum málsins. Formleg skýrsla var ekki tekin af ákærða, en í skýrslu rannsóknarlögreglu um yfirheyrsluna segir orðrétt: "Í samráði við Jón Oddsson, hrl., var upphafið að skýrslu Erlu Bolladóttur lesið fyrir Sævar. Sævar bað þó fljótlega um, að lestrinum yrði hætt, og féllst á að skýra sjálfur frá hlutdeild sinni í hvarfi Guðmundar. Ekki var tekin skrifleg skýrsla af Sævari, en hann skýrði frá atburðum mjög á sömu lund og Erla hafði gert. Sævar rakti í aðalatriðum þann atburð, að Guðmundur Einarsson, Kristján V. Viðarsson og Tryggvi R. Leifsson hefðu allir komið í íbúðina við Hamarsbraut að nóttu til seint í janúar 1974. Tímasetningu miðaði Sævar við það, að hann hefði þá verið nýkominn erlendis frá vegna kaupa á "hassi". Í þá innkaupaferð hefði hann farið með Viggó Guðmundssyni. Átök höfðu svo átt sér stað í íbúðinni við Hamarsbraut, sem lauk með því, að Guðmundur beið bana. Ekki var lögreglu gert viðvart eða læknir tilkvaddur, heldur hringdi Sævar til Alberts K. Skaftasonar kunningja síns og fékk hann á bifreið föður síns á staðinn. Í þeirri bifreið fluttu þeir svo lík Guðmundar og urðuðu í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar.
Eigi var nú skrifleg skýrsla tekin af Sævari, bæði vegna þess, að mjög var liðið á leyfilegan yfirheyrslutíma, og einnig óskaði Jón Oddsson, hrl., eftir þeirri frestun".
Hinn 4. janúar 1976 var ákærði Sævar Marinó yfirheyrður af rannsóknarlögreglu og tekin af honum formleg skýrsla. Jón Oddsson hæstaréttarlögmaður var nærstaddur, en yfirheyrslan stóð frá klukkan 1650 til klukkan 1900 og frá klukkan 2000 til klukkan 2240.
Ákærði skýrði svo frá, að skömmu eftir áramótin 1973-1974 hefði hann að næturlagi um helgi komið heim til sín að Harmasbraut 11, þar sem hann hafði þá búið með Erlu Bolladóttur. Þar við húsið hefðu verið tveir kunningjar hans, þeir Kristján Viðar Viðarsson og Tryggvi Rúnar Leifsson. Þeir hefðu farið með
Bls. 181
ákærða inn í íbúðina, en Erla ekki verið heima. Rétt á eftir kvaðst ákærði hafa heyrt einhvern dynk úr geymsluherbergi íbúðarinnar og farið þangað fram. Þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar hefðu verið þar inni og á gólfinu hefði legið maður, sem búið var að breiða lak yfir. Ákærði kvaðst ekki hafa séð manninn á aðra lund en þá, að hann hefði séð móta fyrir honum undir lakinu. Ákærði sagðist hafa farið fram á ganginn og kallað á Kristján Viðar að koma með sér, en hann ekki komið. Hefði ákærði þá farið fram á salerni og verið þar nokkra stund. Þegar ákærði hefði komið fram aftur, hefðu þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar verið að ljúka við að vefja lakinu um manninn og binda utan um. Í því hefði Erla Bolladóttir komið að þeim og henni bersýnilega orðið mikið um. Maðurinn hefðu nú verið borinn í lakinu út í bifreið, sem ákærði kvað einn kunningja sinn, Albert Klahn Skaftason, hafa haft til umráða, og hefði hann legið í bifreiðinni við húsið. Manninum hefði verið komið fyrir í aftursæti bifreiðarinnar og þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar sest sitt hvorum megin við hann, en ákærði sjálfur sest í framsætið við hlið Alberts Klahn. Ekið hefði verið í nánd við Álverið í Straumsvík og þar til vinstri út af aðalveginum, en þó ekki langt. Þeir hinir hefðu tekið manninn í lakinu og horfið með hann á milli sín út í náttmyrkrið. Kvaðst ákærði ekki hafa séð, hvert þeir fóru, en þeir hefðu verið nokkra stund í burtu. Síðan hefðu þeir komið aftur í bifreiðina og ekið hefði verið með ákærða annað hvort á Hamarsbrautina til til vinstúlku hans í starfsmannahúsi Kópavogshælis.
Hinn 6. janúar 1976 skýrði Sævar Marinó svo frá við yfirheyrslur hjá rannsóknarlögreglu, að í janúarmánuði árið 1974 hefði hann búið ásamt sambýliskonu sinni, Erlu Bolladóttur, í íbúð, sem faðir hennar hefði átt að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði. Lýsti ákærði húsakynnum þannig: "Íbúðin er í kjallara hússins og samanstendur af tveim íveruherbergjum, snyrtiherbergi, gangi, kyndi- og þvottaherbergi og geymsluherbergi. Húsið er auk kjallarans ein hæð og ris. Snyrtiherbergið og kyndi- og þvottaherbergið var sameiginlegt með öðrum íbúum hússins. Inngangur í kjallarann er frá Hamarsbraut og gengið niður nokkrar tröppur að dyrunum. Hamarsbrautin er nokkuð sérkennileg gata, því hún er lokuð í báða enda, en ekið inn á hana um húsasund frá bifreiðastæði, sem tilheyrir Suðurgötu. Húsasundið er milli húsanna nr. 11 við Hamarsbraut og þess næsta við. Íveruherbergin í íbúð okkar voru svefnherbergi og stofa. Þegar komið var
Bls. 182
inn um útidyrnar, þá kom maður inn í ganginn. Úr honum voru fyrst dyr til hægri inn í þvotta- og kyndiherbergið, síðan aðrar dyr til hægri inn í snyrtiherbergið. Á enda gangsins gegnt útidyrunum voru dyr inn í stofuna og svo úr henni inn í svefnherbergið. Inn í svefnherbergið var því ekki hægt að komast nema í gegnum stofuna. Í geymsluherbergið var gengið í gegnum kyndi- og þvottaherbergið af ganginum".
Nótt eina síðast í janúarmánuði árið 1974, sennilega aðfaranótt sunnudags, kvaðst ákærði hafa komið heim að Hamarsbraut 11, en hann hefði þá örfáum dögum áður komið hingað til lands úr ferð frá Kaupmannahöfn og Amsterdam. Við útidyrnar hefði hann orðið var við Kristján Viðar, Tryggva Rúnar og einhvern þriðja mann, sem hann hefði ekki borið kennsl á. Ákærði kvaðst ekki muna með vissu, hvort hann hefði opnað útidyrnar með lykli eða þær verið ólætar, en þau Erla hefðu aðeins haft einn lykil að dyrunum, annað þeirra oft verið lykillaust og dyrnar þá stundum skildar eftir ólæstar. Um leið og ákærði fór inn í húsið, hefðu hinir ruðst óboðnir inn með honum. Hefði honum alls ekki verið umþað gefið, að þeir kæmu inn í íbúðina, enda hefði ákærði ekki verið viss um, hvort Erla væri heima, en það ekki reynst vera.
Um það, sem síðar gerðist, er eftirfarandi bókað eftir ákærða: "Ég fór rakleitt inn í svefnherbergið, ég geri ráð fyrir í þeim tilgangi að athuga, hvort Erla væri heima, og eltu þeir hinir mig þangað. Ég reyndi að mótmæla veru þeirra þarna í íbúðinni, en þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar bentu mér vinsamlegast á að þegja, því það væri best fyrir mig. Þeir gáfu fyllilega í skyn, að ég yrði tekinn og farið illa með mig, ef ég væri eitthvað að "rífa kjaft". Einhver orðaskipti urðu þarna, og gerði ókunni maðurinn sig líklegan til þess að fara út úr herberginu og hafði við orð að yfirgefa staðinn. Þá réðst Kristján Viðar á manninn, og sá ég hann slá manninn með krepptum hnefa í andlitið. Þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar höfðu setið á rúminu í svefnherberginu, og nú stóð Tryggvi Rúnar á fætur, og virtist mér hann ætla að gera sig líklegan til þess að ráðast á mig. Ekki hafði ég hug á að verða fyrir árás af hans hendi og forðaði mér fram í stofuna. Þegar ég var þangað kominn, þá heyrði ég dynk inni í svefnherberginu og smell, eins og eitthvað slægist utan í vegginn eða á þröskuldinn milli svefnherbergisins og stofunnar. Jafnframt sá ég, að maðurinn féll á gólfið alveg við dyrnar milli svefnherbergisins og stofunnar, svefnherbergismegin. Kristján
Bls. 183
Viðar kom nú inn í stofuna og hafði í frammi ýmsa tilburði, sem ég tók sem svo, að hann hefði í hyggju að ráðast á mig, en það gerði hann þó ekki. Ekki sagði hann neitt á meðan. Á meðan var Tryggvi Rúnar inni í svefnherberginu, og sá ég ekki, hvað hann aðhafðist. Nú fóru þeir báðir eitthvað að stumra yfir manninum og hrista hann til, en maðurinn sýndi engi merki þess, að hann væri með meðvitund, og heyrði ég Kristján Viðar þá segja, að maðurinn væri dáinn. Þetta fékk mjög á mig, og tel ég, að það ávall, sem ég varð þarna fyrir, sé orsökin til þess, hversu mér hefur gengið erfiðlega að muna atvikin náið og í réttri röð. Þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar gengu nú um stund um gólf í herbergjunum og voru eitthvað að ræða saman, sem ég ekki heyrði, hvað var. Á meðan hélt ég mit í stofunni og var mjög miður mín. Þeir fóru svo fram í ganginn og þaðan í gegnum kyndi- og þvottaherbergið, inn í geymsluherbergið. Ég sá þá hverfa inn í kyndi- og þvottaherbergið, en heyrði til þeirra inni í geymslunni, og ég sá, að þeir kveiktu ljós þar inni. Ég var nú orðinn verulega hræddur og fór inn í snyrtiherbergið til þess að hugsa ráð mitt og hvað ég skyldi til bragðs taka. Ég heyrði til þeirra Kristjáns Viðars og Tryggva Rúnars, bæði það, að þeir voru eitthvað að ræða saman, og svo heyrði ég hljóð, eins og eitthvað væri dregið eftir gólfinu úr svefnherberginu og um ganginn og inn í geymsluherbergið. Rétt á eftir kom ég út úr snyrtiherberginu fram á ganginn, og rétt í því kom Kristján Viðar út úr kyndi- og þvottaherberginu fram á ganginn. Hann skipaði mér að hringja til Alberts Klahn Skaftasonar og segja honum að koma strax, undir því yfirskyni, að ég ætlaði að gefa honum "hass", því þá myndi hann koma undir eins. Ég hringdi svo, eins og Kristján Viðar lagði fyrir mig, enda þorði ég ekki öðru, og féllst Albert Klahn á að koma. Þegar ég var búinn að hringja, þá fór ég inn í svefnherbergið og sá þá, að maðurinn var þaðan hoirfinn, og jafnframt var lakið úr rúmi okkar Erlu horfið. Lakið var einhvern veginn gulleitt með röndum. Þá heyrði ég til þeirra Kristjáns Viðars og Tryggva Rúnars inni í geymsluherberginu, enda ekki nema þunnur veggur milli þess og svefnherbergisins. Ekki man ég nákvæmlega eftir ferðum mínum um íbúðina næstu mínúturnar, en svo var ég kominn fram á ganginn. Í ví komu þeir Tryggvi Rúnar og Kristján Viðar út úr kyndi- og þvottaherberginu einnig fram á ganginn og slökktu ljósin á eftir sér. Tryggvi Rúnar gekk til mín og tók um axlir mér, og hafði ég einhvern veginn á tilfinningunni, að þeir myndu einnig ráðast á mig.
Bls. 184
Ekki gerðu þeir það, en Tryggvi Rúnar talaði um, að ég skyldi ekki vera með neina "stæla", og einnig um að fara út. Við fórum nú út úr húsinu, en ekki get ég gert mér grein fyrir, hvert ferðinni var heitið, enda ekki ég, sem ráð henni. Rétt á eftir kom Albert Klahn í VW-bifreið föður síns, og settumst við allir upp í hana. Ég hafði tekið með mér "hass", eins og ég hafði lofað Albert Klahn, og sagði ég, að nú skyldum við aka suður fyrir Hafnarfjörð að Álverinu. Áður var eitthvað ekið um bæinn. Við ókum svo suður veginn til Keflavíkur og beygðum til hægri inn á afleggjarann að Álverinu, og var hugmyndin af minni hálfu að gefa Albert Klahn þar í pípu. Þarna var allt upplýst og fólk á ferli, og sagði ég því Albert Klahn að snúa við, hvað hann gerði rétt við vegamótin. Við ókum svo í átt til Hafnarfjarðar smáspotta, en svo út af veginum til hægri og stöðvuðum þar rétt utan við veginn. Þar fékk Albert Klahn sér í pípu, en síðan var ekið til baka til Hafnarfjarðar og heim til mín. Albert Klahn ók bifreiðinni inn í húsasundið að Hamarsbrautinni og stöðvaði við húshornið heima, en ekki man ég, hvort hann þá strax snéri bifreiðinni við. Við fórum nú allir úr bifreiðinni, nema Albert Klahn, og inn í húsið. Ekki man ég heldur, hvort þá voru læstar dyrnar eða ekki. Á meðan á ökuferðinni stóð og eins nú, eftir að við komum til baka að húsinu, þá voru þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar eitthvað að pískra sín á milli, sem ég ekki heyrði. Ég held, að þeir hafi báðir verið undir áhrifum áfengis og einhverra lyfja, sennilega örvandi. Þeir Tryggvi Rúnar og Kristján Viðar fóru báðir rakleiðis inn í geymsluherbergið í gegnum kyndi- og þvottaherbergið og kveiktu ljós, en ég fór inn í snyrtiherbergið. Þaðan fór ég svo út aftur og á eftir hinum tveim inn í geymsluherbergið. Þegar ég var að fara þangað inn, þá varð ég þess var, að Erla myndi hafa komið heim í millitíðinni og vera heima, því ég heyrði til hennar í stofunni. Þegar ég kom í dyr geymsluherbergisins, þá voru þeir Tryggvi Rúnar og Kristján Viðar að vefja lakinu úr rúmi okkar Erlu utan um eitthvað, sem var svo fyrirferðarmikið, að það hefði vel getað verið mannslíkami, enda þóttist ég þess fullviss, að hér væri um að ræða manninn, sem kom með þeim Kristjáni Viðari og Tryggva Rúnari fyrr um nóttina og þeir höfðu ráðist á. Mér virtist maðurinn vera einhvern veginn samanhnipraður, og rétti Tryggvi Rúnar mér annan enda laksins og sagði mér að binda hnút á. Kristján Viðar var þá við hinn endann. Ég held, að ég hafi hnýtt hnút á þann enda laksins, sem snéri að dyrum geymslunnar. Er hér
Bls. 185
var komið, þá varð ég þess var, að Erla stóð í gangdyrunum og var augljóslega mjög miður sín eftir svipnum að dæma, en ekki sagði hún neitt. Þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar tóku undir sinn hvorn enda laksins og báru það áleiðis fram í gegnum þvotta- og kyndiherbergið fram á ganginn, en ég gekk við hlið byrðarinnar, en minnist þess ekki, að hafa haldið nokkurs staðar í. Kristján Viðar fór fyrir, og þar sem Erla stóð í dyrunum milli gangsins og kyndi- og þvottaherbergisins, þá var hún fyrir þeim. Kristján hrinti henni til hliðar, svo að hún hrökklaðist aftur á bak, en ekki held ég hún hafi dottið. Þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar fóru nú með manninn í lakinu út úr húsinu, en ég fór að stumra yfir Erlu og kom henni inn í rúm. Ekki man ég greinilega, hvað ég sagði við hana, en ég sagði henni að segja ekki nokkrum frá því, hvað hún kynni að hafa heyrt eða séð, og var þetta að fyrirmælum Kristjáns Viðar. Síðan fór ég út, en þá voru þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar horfnir svo og bifreið Alberts Klahn. Ég fór þá inn aftur, og lá Erla þá uppi í rúmi, en ekki get ég gert mér nánari grein fyrir ástandi hennar, nema hún var mjög miður sín á svipinn. Nokkru síðar kom Albert Klahn aftur, en þá voru þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar ekki með honum. Albert Klahn aftur á móti ók mér nú í Kópavog, því þangað var ég að fara í starfsmannahús Kópavogshælis. Ekki gat Albert Klahn þess neitt við mig, hvert hann hefði ekið þeim Tryggva Rúnari og Kristjáni Viðari, og ekki minnist ég þess að við höfum neitt rætt um, hvað Albert Klahn hefði verið að flytja en vel getur verið að ég hafi sagt honum, að það hafi verið lík af manni."
Tveimur eða þremur dögum síðar kvaðst ákærði hafa heyrt auglýst eftir manni, sem átt hefði að hafa horfið í Hafnarfirði nótt þá, sem hann lýsti hér að framan, og vildi ákærði ekki neita því að hann hefði sett þetta mannshvarf í samband við atburði næturinnar. Hins vegar hefði hann ekki þorað að segja nokkrum frá vitneskju sinni af hræðslu við hefndaraðgerðir þeirra Kristjáns Viðars og Tryggva Rúnars, enda hefðu þeir fullkomlega gert honum skiljanlegt, að til þeirra yrði gripið, ef hann sagði frá því, sem hann vissi.
Þessi yfirheyrsla rannsóknarlögreglu stóð frá klukkan 1410 til klukkan 1600, og var Jón Oddsson hæstaréttarlögmaður viðstaddur upplestur skýrslunnar.
Ákærði Sævar Marinó Ciesielski kom fyrst fyrir dóm vegna
Bls. 186
máls þessa hinn 11. janúar 1976, en hann hafði þá setið 30 daga í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar svikamáls.
Um sjálf átökin á Hamarsbraut 11 er eftirfarandi bókað eftir ákærða á dómþinginu:
"Þeir ruddust inn í íbúðina þrátt fyrir mótmæli kærða, og þar hófust deilur, sem enduðu með áflogum, og var maðurinn rotaður.
Kærði kveðst hafa sparkað í kjálka mannsins, þar sem hann lá á gólfinu í svefnherberginu, eftir að Kristján Viðar hafði slegið hann niður. Eftir þetta velti maðurinn sér við. maðurinn stóð ekki upp eftir þetta, en reyndi að standa upp.
Farið var með manninn inn í geymslu, og var maðurinn þá meðvitundarlaus. Kærði segir nú, að maðurinn hafi verið á hnjánum, er hann sparkaði í hann".
Ákærði staðhæfði, að hann hefði ekki vitað, hvort maðurinn hefði verið látinn, þegar farið var með hann fram í geymsluna, og hann neitaði allri vitneskju um, hvað orðið hefði af manninum eftir þetta.
Á dómþingi hinn 11. mars 1976 kvaðst ákærði Sævar Marinó ekki hafa neitt nýtt fram að færa vegna máls þessa, og efnislega kom ekkert frekar fram um málsatvik, þegar hann kom fyrir dóm hinn 9. júní og 7. september 1976 vegna gæsluvarðhaldsúrskurða.
Við yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglu hinn 20. september 1976 staðhæfði ákærði Sævar Marinó, að Albert Klahn hefði komið inn í forstofuna að Hamarsbraut 11, þegar hann kom til að flytja lík Guðmundar, og taldi, að það hefði verið sett inn í bifreiðina vinstra megin.
Hinn 30. september 1976 gaf ákærði Sævar Marinó Ciesielski skýrslu hjá rannsóknarlögreglu, og er þá svofelld frásögn hans skráð:
"Ég vil skýra frá því nú, hvað skeði þann 26. janúar og aðfaranótt þess 27. árið 1974, þegar Guðmundur Einarsson hvarf. Þetta kvöld var ég staddur hjá kunningjakonum mínum að Vesturgötu 24, en þær heita Guðfinna Gísladóttir og Sigríður Gísladóttir. Þarna var einnig staddur Albert Klahn Skaftason. Ég man, að Albert Klahn sagði við mig, að hann væri að fara til Kristjáns Viðars Viðarssonar að Grettisgötu 82. Ég spurði Albert Klahn að því, hvort hann mundi ekki vilja aka mér að Kópavogsbústaðnum í Kópavogi, en hann kvaðst vera tímabundinn og vera á leið til Kristjáns Viðars. Ég gekk því út, og er ég kom að veitingahúsinu Nausti, náði ég í leigubifreið. Með henni fór ég rak-
Bls. 187
leitt að Kópavogsbústaðnum, en ég var að hitta Helgu Gísladóttur, sem vann þar og bjó einnig þar. Ég vil geta þess, að ég hafði orð á því að Albert Klahn á Vesturgötunni, hvert ég væri að fara, en hann þekkti einnig Helgu nokkuð vel. Ég veit, að Albert Klahn hafði lent í átökum í Kópavogsbústaðnum, og þess vegna vildi hann ekki aka mér þangað. Er ég var kominn til Helgu, fórum við að neyta áfengis, og man ég, að við drukkum Ballantine Whisky. Ég var búinn að vera þarna um það bil eina klukkustund, er Kristján Viðar kom þangað, og var mér kunnugt um það, að Tryggvi Rúnar var með honum, en þeir voru í leigubifreið,. Ég tel það hugsanlegt, að það hafi verið Viggó Guðmundsson, sem hafi ekið þeim, en Viggó umgekkst okkur nokkuð mikið þennan tíma, og verið getur, að Guðmundur Einarsson hafi verið með þeim í bifreiðinni, en ég vil geta þess, að ég hafði komið heim til Kristjáns Viðars fyrr um daginn að Grettisgötu 82, og þá var hjá honum mikið af fólki, sem ég þekkti ekki, en man þó eftir að hafa séð Tryggva Rúnar þar.
Erindi Kristjáns Viðars við mig var að reyna að fá lánaða peninga hjá mér, en hann vissi, að ég hafði handbæra peninga á þessu tímabili, en þessa peninga hafði ég fengið vegna hasssölu. ég svaraði honum, að ég væri ekki með neina peninga á mér, og man ég, að ég átti í einhverjum orðaskiptum við hann vegna þessa. Kristján Viðar hvarf því næst í burtu, en eftir stutta stund fór ég að hugleiða, hvort þeir myndu ekki fara að Hamarsbrautinni og leita að peningum þar, en íbúðin var nær alltaf opin og því mjög auðvelt að komast þar inn. Ég vil geta þess, að ég var með 80.000 krónur í peningum á mér, en ég vildi ekki lána Kristjáni Viðari peninga, þar sem hann greiddi yfirleitt ekki skuldir sínar. Ég fór því fljótlega frá Kópavogsbústaðnum og gekk að Kópavogsbíói, þar sem ég náði leigubifreið, en síðan fór ég rakleitt að Hamarsbrautinni og tel mig hafa komið þangað um miðnætti. Er ég kom að húsinu, mætti ég þeim Kristjáni Viðari, Tryggva Rúnari og einhverjum manni til, sem ég veit núna, að var Guðmundur Einarsson. Þeir voru á leiðinni út og voru að loka útihurðinni, er ég kom að þeim. Ég ávarpaði þá, og varð það úr, að við fórum allir inn í íbúðina. Ég sagði þeim, að þeir gætu ekki verið þarna, þar sem Erla væri húsráðandi og henni mundi ekki líka það, að þeir væru þarna. Kristján Viðar var mjög jákvæður gagnvart þessum ummælum mínum, en Tryggvi Rúnar og Guðmundur urðu hinir verstu. Einhver orðaskipti fóru fram á milli okkar, og man ég, að Guðmundur hugðist fljúga á
Bls. 188
mig. Er það gerðist, voru við allir inni í stofu. Kristján Viðar réðst þá á Guðmund, og voru þeir komnir í handalögmál á gólfinu. Ég fór strax fram og inn á salerni, þar sem ég lokaði hurðinni að mér, og þaðan heyrði ég nokkurt brölt og hávaða, einnig stunur, eins og er menn standa í áflogum. Ég heyrði bæði stunur í Kristjáni Viðari og Guðmundi. Þegar ég hafði verið nokkra stund á salerninu, man ég, að Tryggvi Rúnar var að kalla á mig og að hann var kominn í þvottahúsið til þess að leita að mér. Ég minnist þess einnig, að Kristján Viðar kom á salernið til mín, og man ég, að hann kallaði: "Heyrðu, Sævar". Ég gekk þá fram og fór með Kristjáni Viðari inn í stofu. Sá ég þá, hvar Guðmundur lá á gólfinu og hafði verið breitt yfir hann lak. Kristján Viðar sagði við mig, að Guðmundur væri dáinn. Hann skýrði mér frá því, að maðurinn hefði komið sér í gólfið og náð haustaki, og svo gæti hann ekki gert sér grein fyrir því, hvað hefði gerst. Ég hafði veitt því athygli, að er Kristján Viðar kom að Kópavogsbústaðnum, var hann með hníf, sem hann hafði keypt, er við vorum í Kaupmannahöfn árið 1973. Þetta var gamall byssustingur um 40-45 cm að lengd, og hunstrið, sem var utan um hann, var um það bil 7 cm að breidd. Ég man, að Kristján Viðar var í brúnum frakka og að hnífurinn var hægra megin.
Við ræddum á milli okkar, hvað skyldi gera, hvort kalla skyldi á lögregluna eða ekki. Var ákveðið að bíða með það. Guðmundur var síðan dreginn inn í þvottahús, þar sem honum var hægrætt. Ég hafði orð á því, að ég væri hræddur um, að Erla gæti komið heim. Fórum við út eftir að hafa hagrætt Guðmundi í þvottahúsinu, en ég hafði þá skömmu áður hringt á leigubifreið, sem við fórum síðan burtu í. Ég vil geta þess, að ég hafði séð blóð í lakinu, sem var utan um Guðmund, og einnig man ég eftir, að ég fann sterka lykt, lykt, sem ég man eftir að hafa fundið, er ég var í sveit, og er einna líkust saurlykt. Ég minnist þess, að Guðmundur lá á bakinu, er við fórum að handleika hann og draga hann fram í geymsluherbergið. Ég og Tryggvi Rúnar tókum í sín hvora öxlina á Guðmundi, og Kristján Viðar tók undir fæturna, og þannig var Guðmundur borinn fram í geymsluherbergið. Síðan fórum við í leigubifreið beint í nætursöluna, þar sem ég keypti Coca-Cola. Ég man, að við ræddum ekkert um atburðinn á milli okkar í leigubifreiðinni og að við vorum allir mjög niðurdregnir út af þessu. Þegar við komum að Hamarsbraut aftur, var Erla komin heim, og man ég, að Kristján Viðar fór að ræða við hana. Við ræddum síðan saman, ég, Kristján Viðar og
Bls. 189
Tryggvi Rúnar, og man ég, að það kom til umræðu að fara og leggja Guðmund á bersvæði, þar sem hann mundi síðan finnast, en frá þessu var horfið, þar sem við töldum, að hægt hefði verið að rekja slóðina til okkar. Var síðan ákveðið að hringja til Alberts Klahn. Ég man að Kristján Viðar stóð í þvottahúsdyrunum og sagði við mig að hringja til Alberts Klahn. Ég gerði það og bað Albert Klahn að koma, en ég útskýrði ekki fyrir honum, hvað hefði gerst. Sagði ég við hann, að það væri áríðandi, að hann kæmi, og að hann mundi þá fá hassmola. Strax eftir símtalið fór ég inn í svefnherbergi og ræddi við Erlu, sagði henni, að það hefði orðið áflog, maður dáið, en um slys hefði verið að ræða. Ég vil taka það fram, að Erla var undir áhrifum áfengis, er hún kom heim, og var lögst fyrir, en Kristján Viðar hafði einnig skýrt henni frá því áður, hvað hefði gerst. Á meðan Albert Klahn var á leiðinni, var ákveðið endanlega, hvað skyldi gera, það að fara með Guðmund út í hraun fyrir sunnan Hafnarfjörð.
Þegar Albert Klahn ók niður húsasund það, sem er heim að Hamarsbraut 11, blikkaði hann ljósgeislum bifreiðarinnar, og urðum við varir við það úr svefnherberginu. Kristján Viðar fór strax út, talaði við hann og útskýrði fyrir honum, hvað hefði gerst og að um alvarlegan hlut væri að ræða. Ég tel, að Albert Klahn hafi komið inn í forstofuna að Hamarsbrautinni. Tryggvi Rúnar og Albert Klahn báru manninn út, en ég fór að tala við Erlu, sem hafði komið fram á gang. Ég, Kristján Viðar og Albert Klahn vorum einnig þar fyrir. Albert Klahn og Tryggvi Rúnar héldu í sinn hvorn enda á lakinu. Kristján Viðar sagði við mig að fara með Erlu inn í svefnherbergi til að fyrirbyggja það, að hún fengi lost, er hún sæi Guðmund. Fór ég inn í svefnherbergi með Erlu. Ég man, að ég tók utan um hana og sagði við hana, að hún skyldi ekki vera hrædd, ég ætlaði að fara með þeim, en mundi koma strax aftur. Ég sagði jafnframt við hana, að þetta væri hrottalegur atburður, en þetta hefði verið slys.
Þegar ég kom út, var Albert Klahn að loka farangursgeymslunni á bifeiðinni, og Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar voru að fara inn í bifreiðina vinstra megin. Framendi bifreiðarinnar snéri til suðurs, og gekk ég fram fyrir bifreiðina og settist inn í hana hægra megin. Tryggvi Rúnar sat beint fyrir aftan mig í bifreiðinni, það er hægra megin aftur íhenni, en Kristján Viðar sat vinstra megin aftur í fyrir aftan Albert Klahn.
Við ókum frá húsinu og beygðum til hægri eftir Suðurgötunni. Ókum svo eftir Hvaleyrarholtinu. Ég man eftir, að við fórum
Bls. 190
veginn, sem liggur að Sædýrasafninu, og eins, og við fórum afleggjarann, sem liggur að Álverinu. Hvort við fórum fyrst að Álverinu eða Sædýrasafninu, þori ég ekki að fullyrða um, en ég man eftir, að við komum á báða þessa staði.
Þegar við komum á þann stað, þar sem Guðmundur var tekinn út úr bifreiðinni, en frá þeim stað get ég ekki greint nákvæmlega, fórum við allir út úr bifreiðinni, en þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar tóku í sinn hvorn endann á lakinu, sem vafið hafði verið utan um Guðmund, og báru hann út í hraun. Við Albert Klahn gengum á eftir þeim stuttan spöl, en fórum svo að bifreiðinni aftur og biðum þar, uns þeir komu, en ég tal, að það hafi liðið u. þ. b. 20 mínútur, þangað til þeir komu aftur. Þeir komu með lakið, og ég man, að það var gult að lit.
Haldið var strax heim á leið og farið með mig að Hamarsbrautinni, þar sem ég yfirgaf bifreiðina, tók lakið með mér og kastaði því í öskutunnu, sem er utan við húsið. Ég fór síðan inn til Erlu, ræddi lítillega við hana, en fór siðan að Kópavogsbústaðnum aftur, þar sem ég svaf það, sem eftir var af nóttinni. Þegar Erla kom heim úr vinnu að kvöldi þess 27. janúar, en það var sunnudagur, ræddum við um atburðarásina frá nóttinni áður, og man ég, að Erla var hrædd um, að Tryggvi Rúnar og Kristján Viðar mundu koma aftur að Hamarsbrautinni."
Yfirheyrsla þessi hófst klukkan 1400, og henni lauk ekki fyrr en klukkan 2105. Í skýrslunni er bókað, að ákærða hafi verið ljóst, að yfirheyrslan hefði staðið í meira en sex kukkustundir samfleytt, "en hann óskaði þess, að haldið yrði áfram, uns skýrslunni væri lokið, hvað sem tímanum liði". Ákærði og Jón Oddsson hæstaréttarlögmaður, verjandi hans, rituðu báðir nöfn sín undir skýrslu rannsóknarlögreglunnar, og verður ekki séð, að frá þeim hafi komið nokkur andmæli.
Hinn 5. október 1976 skýrði ákærði Sævar Marinó Ciesielski rannsóknarlögreglu frá eftirfarandi:
"Það var í byrjun ágústmánaðar 1974, að ég hitti Kristján Viðar, er þá var nýkominn til Reykjavíkur frá dvöl á Litla-Hrauni. Ég man, að þennan dag var veður mjög gott, og varð það úr, að við urðum okkur úti um áfengi og gengum síðan niður í bæ. Sátum við hjá Iðnó og neyttum áfengis. Við fórum þá að ræða atburð þann, sem gerðist í janúarmánuði að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði. Við ræddum um að flytja líkamsleifar Guðmundar Einarssonar, sem dáið hafði að Hamarsbraut 11, úr Hafnarfjarðarhrauni í kirkjugarð, og urðum við sammála um að
Bls. 191
koma þeim fyrir í Fossvogskirkjugarði. Við ræddum einnig, hvort líkamsleifar Guðmundar hefðu fundist, en við höfðum skilið líkið eftir í gráum pokum, en ekki falið það neitt, aðeins lagt það til í hraunsprungu.
Við fórum heim til Alberts Hlahn og skýrðum honum frá erindi okkar og báðum hann að aka okkur út í Hafnarfjarðarhraun og reyna að finna þann stað, þar sem við höfðum skilið lík Guðmundar Einarssonar eftir, en ég vil taka það fram, að við tókum með okkur tvo stóra plastpoka, sem voru svartir að lit. Við fórum á Toyota bifreið, sem faðir Alberts Klahn átti, en hún er gul að lit, en ekki man ég skráningarnúmerið. Þegar í Hafnarfjarðarhraun kom, ókum við um í nokkurn tíma til að reyna að finna þann stað, þar sem við höfðum sett lík Guðmundar. Eftir nokkra leit fundum við staðinn, en hann er nokkuð úti í Hafnarfjarðarhrauni handan við Álverið skammt frá rauðmalargryfju, sem þar er. Ekki var hægt að geina, að það hefði verið hreyft við líkamsleifunum. Við tókum pokana tvo, sem við höfðum tekið með okkur, og settum þá utan yfir poka þá, sem voru fyrir á líkamsleifunum, en síðan var farið með þær í bifreiðina og þær settar í farangursgeymsluna. Eftir þetta var ekið sem leið liggur til Reykjavíkur, og var farið beint heim til Kristjáns Viðars að Grettisgötu 82. Ég tel, að klukkan hafi verið á milli 1900 og 2000, er þetta gerðist.
Þegar við höfðum haldið kyrru fyrir að heimili Kristjáns Viðars til kl. 2400 eða 0100, ókum við af stað, það er að segja ég, Kristján Viðar og Albert Klahn. Við tókum með okkur tvær skóflur, sem voru í kjallara að Grettisgötu 82. Man ég, að önnur skóflan var stunguskófla, en hin venjuleg mokstursskófla. Skóflurnar settum við inn í sjálfa bifreiðina. Við ókum síðan sem leið liggur Hafnarfjarðarveg, yfir Öskjuhlíð og að hliði, sem er nokkuð fyrir neðan sjálfa Fossvogskapellu, rétt vestan Hafnarfjarðarvegar. Þar var bifreiðinni ekið aftur á bak að hliðinu, og við fórum út úr henni. Albert Klahn og Kristján Viðar héldu á pokanum í sameiningu, en ég hélt á skóflunum. Rétt innan við hliðið komum við að götu og gengum eftir henni í áttina að Kapellunni sjálfri, það er að segja til norðurs. Beygðum við þá til vesturs eftir mjórri götu, en síðan til suðurs, og þá man ég, að við gengum fram hjá ljósi, sem var á ljósastaur í garðinum. Síðan var beygt til vesturs aftur, og þá minnist ég þess, að ég sá marga streypta krossa á grafreit, þar sem voru jarðaðir franskir sjómenn, sem fórust hér við Ísland fyrir 40 árum. Það skal tekið fram, að í kirkjugarðinum er mikið af götum, bæði breiðum og mjóum, og því nokkuð erfitt að segja til um, hvað var gengið fram hjá mörgum götum.
Ég man, að við vorum ekki langt frá þessum mörgu steyptu krossum, þegar við fundum stað, sem við töldum heppilegan til þess að koma líkamsleifunum fyrir. Minnist ég þess, að við grófum að sunnanverðu við götuna, þannig að við horfðum í áttina að Kópavogi. Ég tel, að við höfum grafið ca 60 til 70 cm niður í jörðina, en síðan var pokinn settur niður í holuna og mokað yfir. Man ég, að við sléttuðum vel, bæði með skóflunum og eins með fótunum, moldina til þess að láta sem minnst á þessu bera. Ég man, að við hliðina á þeim stað, sem við grófum, var steyptur steinn, og á honum var skeljasandur nokkuð gráleitur, en ég vil ekki fullyrða, að við höfum verið fyrir utan grafreit.
Ég man, að við gengum nokkuð til suðurs og fundum þar götu og síðan gegnum við til austurs og beygðum þaðan til norðurs og urðum að ganga nokkurn spöl til að komast að hliði því, sem bifreiðin var við. Við tókum skóflurnar inn í bifreiðina, og síðan var ekið að Grettisgötu 82 að heimili Kristjáns Viðars. Þar tókum við skóflurnar og settum þær niður í kjallara. Albert Klahn dvaldist í nokkurn tíma að Grettisgötu 82, en fór síðan, en ég var hjá Kristjáni Viðari alla nóttina. Ég vil geta þess, að um það bil mánuði síðar fór ég aftur í Fossvogskirkjugarðinn með Kristjáni Viðari og ömmu hans. Ég og Kristján Viðar leituðum þá nokkuð að þeim stað, þar sem við höfðum sett líkamsleifar Guðmundar Einarssonar, en okkur tókst ekki að finna staðinn. Tel ég, að við höfum verið of vestarlega í kirkjugarðinum, og eins komum við að garðinum frá Kapellunni. Erindið var það, að amma Kristjáns Viðars ætlaði að leiði einhvers ættingja hans, og fórum við með henni, en áttum ekki neitt erindi þangað sjálfir, nema að athuga með stað þann, sem við grófum líkamsleifar Guðmundar á."
Dagana 2.-3. mars 1977 hefur rannsóknarlögreglan skráð ýmsar upplýsingar, sem hún kvað fengnar í viðræðum, sem átt hefðu sér stað undanfarna daga við ákærða Sævar Marinó Ciesielski. Voru ákærðu kynntar bókanir þessar við yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglu hinn 9. mars 1977, og kvað hann rétt eftir sér haft.
Samkvæmt bókunum þessum skýrði ákærði svo frá, að hann hefði verið staddur að Vesturgötu 24 hér í borg laugardagskvöldið 26. janúar 1974. Þangað hefði Albert Klahn komið til
Bls. 193
að kaupa LSD af Sigríði Gísladóttur, sem þar bjó. Ákærði kvaðst hafa beðið Albert Klahn að aka sér á Kópavogshælið til Helgu Gísladóttur, en hann ekki viljað það, þar sem hann hefði lent þar í átökum áður. Ákærði kvaðst vita um það, að Albert Klahn hefði síðan farið heim til Kristjáns Viðars að Grettisgötu 82 og látið Tryggva Rúnar hafa LSD. Þar hefði einnig verið staddur piltur, sem kallaður er Gunni, og hefði hann verið búinn að taka inn LSD. Ákærði kvaðst engin deili vita á þessum Gunna, en hann væri í útliti ekki ósvipaður ákærða sjálfum og hefði hann verið talsvert mikið með Albert Klahn á því tímabili, sem Guðmundur Einarsson hvarf. Kvaðst ákærði ekki hafa nefnt hann í fyrri framburðum sínum, þar sem honum "hefði yfirleitt aldrei verið trúað og hann þá ekki séð neina ástæðu til að segja frá slíku fremur en öðru, sem einhverja þýðingu gæti haft á gang málsins". Sjálfur kvaðst ákærði hafa farið í leigubifreið á Kópavogshælið og muna vel eftir veru sinni þar um kvöldið, hann hefði veitt Sæmundi Jóhannssyni Ballantine Whisky og Lilja Hjartardóttir verið að rekja ástarraunir sínar. Þangað hefði Kristján Viðar komið og verið að falast eftir peningaláni, en ákærði neitað, þótt hann hefði verið með talsverða peninga á sér. Albert Klahn hefði beðið fyrir utan í svartri VW bifreið fyrrnefndur Gunni verið við hlið hans í framsæti, en Tryggvi Rúnar setið í aftursæti bifreiðarinnar. Ákærði kvað sér hafa verið kunnugt um að Kristján Viðar hefði ætlað suður í Hafnarfjörð. Hann sagðist og hafa haft fulla vitneskju um það frá strákunum sjálfum, að þeir fjórir, sem saman voru í VW bifreiðini, hefðu fyrr þetta sama kvöld verið að aka um á milli skemmtistaða í Reykjavík og ætlan þeirra hefði verið að verða sér úti um fjármuni með því að stela veskjum af fólki, sem þeir treystu sér til við, en árangurinn ekki orðið sem erfiði. Ákærði kvaðst hafa farið í leigubifreið frá Kópavogshæli að Hamarsbraut 11 og þá hefðu mennirnir allir verið komnir inn í íbúðina, þar á meðal Albert Klahn, en ákærði kvaðst ekki vera alveg viss um, hvort áðurnefndur Gunni hefði þá verið með þeim þar inni. Ákærði sagðist ekki muna betur en Tryggvi Rúnar hefði verið vafinn á hægri hendi, þar sem hann hafði brennt sig á eldavélarhellu að Vesturgötu 24 um miðjan janúarmánuð 1974. Ákærði fullyrti nú, að fyrri frásagnir um, að hringt hefði verið á leigubifreið að Hamarsbraut 11 sem og heim til Alberts Klahn, væru ekki sannleikanum samkvæmar, enda hefði síminn verið lokaður vegna vanskila á þessum tíma.
Bls. 194
Við yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglu hinn 9. mars 1977 skýrði ákærði Sævar Marinó Ciesielski svo frá, að hann hefði komið heim til Kristjáns Viðars að Grettisgötu 82 eftir kvöldverð laugardaginn 26. janúar 1974. Mundi ákærði eftir því, að Albert Klahn, Tryggvi Rúnar og Gunnar Jónsson hefðu verið þar staddir, og taldi að Gunnar Jónsson hefði þá verið búinn að taka inn LSD töflu og jafnvel Tryggvi Rúnar einnig. Þaðan kvaðst ákærði hafa farið að Vesturgötu 24 og mætti vera, að Albert Klahn hefði ekið honum þangað. Ákærði taldi, að klukkan hefði verið um 2300, þegar hann kom á Kópavogshælið. Hann kvað Kristján Viðar hafa komið þangað, líklega um klukkan 2400, og verið að reyna að fá lánaðar 5.000 krónur, enda vitað, að ákærði var allfjáður, hann verið með um 60.000 krónur i vasanum. Ákærði neitaði Kristjáni Viðari um lánið og sagði honum, að hann geymdi sína peninga suður í Hafnarfirði. Ákærða virtist Kristján Viðar vera nokkuð ölvaður, en hann hefði verið rólegur. Klæðnaði hans lýsti ákærði svo, að hann hefði verið í brúnum, síðum taufrakka og í dökkleitum leðurjakka innan undir, rauðum taubuxum og ljósri skyrtu, sem verið hefði eitthvað mynstruð. Sjálfur sagðist ákærði hafa verið klæddur í dökkan leðurjakka, bláar terylenebuxur, lopapeysu, svarthvíta að lit, og verið í svörtum leðurskóm, uppháum, með rennilás að innan verðu. Ákærði kvaðst hafa tekið eftir bíl Alberts Klahn fyrir utan húsið, þ. e. svörtum VW fólksbíl af eldri gerð. Minnti hann, að bíllinn hefði staðið í innkeyrslunni við húsið. Ákærði sá, að Gunnar Jónsson sat fram í hjá Albert Klahn, en Kristján Viðar hefði sagt sér, að Tryggvi Rúnar væri einnig í bílnum.
Ákærði sagði, að Kristján Viðar hefði haft orð á því við sig, að þeir hefður verið að aka á milli skemmtistaða í borginni til að reyna að afla sér peninga, eða verið á "putteríi", eins og hann hefði heyrt það kallað, en hann hefði verið daufur yfir árangrinum. Ákærði sagði, að Kristján Viðar hefði talað um, að þeir mundu nú fara til Hafnarfjarðar. Ákærða skildist, að erindið þangað væri það saga og fyrir utan skemmtistaðina hér í borginni. Ákærði staðhæfði, að ekki hefði verið rætt um, að þeir hittust neins staðar í Hafnarfirði.
Ákærði kvaðst hafa farið aftur inn til Helgu, eftir að Kristján Viðar fór, og giskaði hann á, að þá hefði klukkan verið um 0100. Rétt á eftir sagðist hann muna eftir því, að starfsstúlka á hælinu og herbergisfélagi Helgu, Lilja Hjartardóttir, hefði komið
Bls. 195
heim og verið miður sín út af ástarmáli, en hún hafði verið á skemmtistað um kvöldið.
Ákærði sagðist hafa legið nokkra stund í rúminu hjá Helgu og verið orðinn talsvert ölvaður. Hann hélt, að klukkan hefði verið um 0200 aðfaranótt sunnudagsins, þegar hann fór að hugsa um það, að vissara væri að fara að huga að því, hvort Kristján Viðar og félagar hans, sem áður eru nefndir, mundu reyna að komast inn í íbúðina að Hamarsbraut 11, en hún hefði oft staðið ólæst, sökum þess að ekki var nema einn lykill til að útidyrum. Ákærði kvaðst hafa klætt sig og síðan tekið leigubíl til Hafnarfjarðar, en mundi ekki fyrir víst, hvar eða hvernig hann fékk þann bíl. Hann sagði að til greina kæmi, að hann hefði gengið upp að bilasíma Hreyfils við bíóhúsið, og eins gæti verið, að hann hefði tekið bílinn fyrir utan starfsmannahúsið. Hann kvaðst ekki muna, hvaða bílstjóri ók honum þessa ferð, en það hefði ekki við Viggó Guðmundsson.
Ákærði mundi eftir því, að ljós var í gluggum íbúðarinnar í kjallara hússins, þegar hann kom að Hamarsbraut 11. Hann sagðist hafa greitt fyrir aksturinn, en ekki muna, hvað hann kostaði. Hefði leigubíllinn síðan ekið í burtu. Ákærði kvaðst muna eftir því að hafa séð bíl Alberts Klahn við kjallaradyrnar og framendinn snúið til suðurs, meðfram þeirri hlið hússins, sem útidyrnar á kjallaraíbúðinni eru.
Ákærði staðhæfði, að kjallaradyrnar hefðu verið opnar. Þegar hann kom inn, hefðu verið þar fyrir Kristján Viðar Viðarsson, Tryggvi Rúnar Leifsson, Gunnar Þór Jónsson svo og Guðmundur Einarsson, sem hann hefði þá ekki þekkt. Hann sagði, að mennirnir hefðu allir verið staddir í fremra herbergi íbúðarinnar, en Erla ekki verið heima. Virtist ákærða allir mennirnir, nema Albert Klahn, vera mjög mikið ölvaðir og "lyfjarugl" á þeim að heyra. Ákærði fullyrti, að strax og hann virtist hefðu bæði Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar beðið sig um peninga til að kaupa flösku. Sagðist ákærði hafa sagt við þá, að hérna gætu þeir ekki verið, vegna þess að varla væri hægt að segja, að hann réði húsum, því að Erla Bolladóttir fengi að vera þarna hjá föður sínum. Ekki hefði verið hlustað á sig og þeir bullað einhverja vitleysu og ekkert komist annað að en kaupa flösku og setjast síðan að drykkju. Þegar hér var komið sögu, hefði nokkur misklíð vera orðin og Guðmundur Einarsson ætlað að þrífa til ákærða, en hann getað vikið sér undan. Þarna hefðu orðið "ein alsherjar slagsmál út úr þessu", og beindust þau að Guðmundi Einarssyni.
Bls. 196
Þegar þetta gerðist, hefðu þeir allir verið staddir í fremra herbergi íbúðarinnar.
Ákærði kvaðst ekki gera sér alveg ljóst, hvers vegna Guðmundur beindi aðförinni í fyrstu að sér, en taldi, að þar kæmu tvær ástæður til álita. Annars vegar, að hann var að amast við því, að þeir væru þarna inni, og hins vegar, að Guðmundur hefði haldið, hann hefði rænt veski hans. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið veski Guðmundar og ekki séð það tekið úr vasa hans og benti á það, að hann hefði verið með peninga á sér og því engin ástæða til slíks verknaðar.
Ákærði kvaðst hafa séð, að Kristján Viðar sló Guðmund í andlitið og þeir Tryggvi Rúnar og Albert Klahn verið þar við, og taldi hann, að þeir hefðu einnig tekið þátt í átökunum við Guðmund, en hann sagðist ekki hafa séð, hver gerði hvað eða hver það var, sem sló Guðmund niður. Hann sagðist sjálfur hafa flúið fram á ganginn og inn í snyrtiherbergið. Þegar hann var þar inni, hefði hann heyrt dynk, eins og maður félli utan í vegg eða í gólfið. Ákærði taldið, að Gunnar hefði ekki tekið þátt í átökunum, áður en ákærði fór fram á ganginn, en þá hefði Gunnar setið í gulfóðruðum stól innarlega í fremra herberginu.
Ákærði fullyrti, að þetta hefði gerst mjög snöggt. Hann sagðist hafa heyrt, að Tryggvi Rúnar og Kristján Viðar fóru fram á ganginn, og þá hefði hann farið út úr snyrti herberginu. Þegar hann kom inn í stofuna, hefði Guðmundur legið á bakinu á gólfinu í fremra herberginu og Albert Klahn verið yfir Guðmundi að athuga hann. Ákærði mundi ekki glöggt, hvar Gunnar var á þessum tíma, en hélt, að hann hefði verið hjá Albert Klahn að huga að Guðmundi.
Ákærði kvaðst hafa álitið, að Guðmundur hefði verið sleginn niður, en ekki gert sér ljóst, að það væri alvarlegs eðlis. Hann sagðist hafa séð Tryggva Rúnar og Kristján Viðar frammi á ganginum og þeir enn verið að ræða um peningamál og viljað kaupa flösku. Ákærði kvaðst hafa ætlað að leggja til peninga til áfengiskaupanna og þeir fallist á að vera ekki í íbúðinni við drykkjuna.
Þessu næst kvað ákærði, að reynt hefði verið að vekja Guðmund, fyrst hefði Tryggvi Rúnar beygt sig niður að honum og Kristján Viðar líka, þeir þá uppgötvað, að Guðmundur var látinn. Sjálfur sagðist ákærði hafa beygt sig niður að Guðmundi og komist að sömu niðurstöðu, að hann væri látinn. Ákærði sagðist hafa tekið eftir því, að eitthvað blóð var í munnvikum Guðmmundar.
Bls. 197
Ákærði kvaðst ekki hafa sé Kristján Viðar beita hníf eða eggvopni og ekki heldur hafa orðið var við, að notað væri barefli. Ákærði óskaði eftir að taka það fram, að við samprófun í marí 1976 við Kristján Viðar í Síðumúlafangelsi hefði Kristján Viðar haldið því fram, að hann hefði orðið Guðmundi Einarssyni að bana með hnífsstungu. Þetta sagðist ákærði ekki hafa fallist á, enda hafi það ekki við rök að styðjast.
Ákærði staðhæfði, að í upphafi rannsóknar þessa máls hefði sér verið sýnt hnífsblað, er fengið var hjá Helgu Gísladóttur, og látið að því liggja, að því hafi verið beitt í umræddum átökum, en þetta ætti ekki skylt við raunveruleikann. Honum var sýnd mynd af byssusting þeim, sem áður hefur verið vikið að. Kannaðist hann við að hafa sé slíkan grip hjá Kristjáni Viðari, en kvaðst ekki hafa séð Kristján Viðar með byssustinginn þetta umrædda kvöld eða nótt. Ákærði vildi geta þess, að í maímánuði 1976 hefði Kristján Viðar tjáð ákærða, að hann hefði verið með byssustinginn á sér og orðið Guðmundi að bana með honum. Ákærði kvaðst þora að fullyrða, að þessi saga Kristjáns Viðars væri hreinn uppspuni, og kenndi því um, hvernig staðið hefði verið að fyrri rannsókn í málinu. Ákærði sagðist ekki hafa neina hugmynd um, hvað orðið hefði af þessum byssusting, sem Kristján Viðar hafði undir höndum, hann hefði einhvern tíma orðið var við hann í herbergi Kristjáns Viðas.
Ákærði sagði, að þegar ljóst var orðið, að Guðmundur Einarsson var látinn, hefðu þeir orðið mjög óttaslegnir. Í fyrstu hefði verið rætt um að kalla á lögreglu eða sjúkrabíl, en af ótta við afleiðingarnar hefði verið horfið frá því. Líka hefði komið til álita að koma líkinu út og skilja það eftir, svo að það fyndist, en ekki hefði verið fallist á það vegna þess, að böndin mundu berast að þeim félögum, sem síðast voru með honum um kvöldið, einhver gæti hafa þekkt þá.
Þá sagði ákærði, að komið hefði upp tillaga um að koma líkinu fyrir á öruggum stað, svo að það fyndist ekki. Ekki kvaðst ákærði vilja eða geta sagt, hver stungið hefði upp á þessu, en þetta hefði orðið að samkomulagi á milli þeirra allra og hefði Gunnar einnig verið með í ráðum.
Ákærði staðhæfði, að tekin hefði verið ákvörðun um að koma líkinu fyrir einhvers staðar fjarri mannabyggðum, en ekki verið nefndur neinn ákveðinn staður. Það væri rangt, að þeir hefðu tekið lakið úr rúmi þeirra Erlu og vafið utan um líkið. Sannleikurinn væri sá, að þeir hefðu borið líkið á milli sín, eins og
Bls. 198
það lá á gólfinu. Hann kvað enn fremur rangt, að þeir hefðu borið það fyrst inn í geymsluherbergið, því að farið hefði verið með það beint út í bíl Alberts Klahn,. Fyrst hefði verið reynt að koma því í farangursgeymsluna, en þegar ekki var hægt að loka henni, hefði það verið sett inn í bílinn fyrir aftan framsætin, en eins gæti verið, að þeir hefðu strax sett það inn í bílinn.
Ekki kvaðst ákærði hafa tekið eftir neinum blettum á gólfinu í herberginu, þar sem líkið lá, þegar það var tekið upp. Hann hefði lægt útidyrahurðinni, eftir að þeir fóru út með líkið. Hann sagði, að eftir að þeir settu líkið í bílinn, hefðu hann farið einsamall, að hann minnti aftur inn í húsið, slökkt ljósin og lokað hurðum. Ákærði minnist þess ekki að hafa séð Erlu Bolladóttur þarna á staðnum, og sagðist hann ekki hafa hitt hana fyrr en sunnudagskvöldið þann 27. janúar 1974.
Ákærði Sævar Marinó Ciesielski kom fyrir dómþing sakadóms hinn 29. mars 1977 hjá dómurum máls þessa. Hófst yfirheyrslan klukkan 1010 og lauk klukkan1750, en hlé voru gerð á þinghaldinu frá klukkan 1200 til 1400 og frá klukkan 1545 til 1610. Ákærði vildi ekki viðurkenna, að það væri rétt, sem honum væri gefið að sök í I. kafla ákæru, dagsettri 8. desember 1976.
Ákærði skýrði frá því, að hann hefði kynnst Kristjáni Viðari, er þeir voru 11-12 ára gamlir. Þeir hefðu hist stundum síðustu árin, en ekki verið mikið saman. Ákærði kynntist Tryggva Rúnari veturinn 1972, en þeir voru lítið saman, hittust aðeins annað slagið heima hjá Kristjáni Viðari og víðar. Ákærði kynntist Albert Klahn, er þeir voru 10 ára að aldri. Hafa þeir verið lítið saman síðustu árin.
Ákærði vissi, að nefndir menn hefðu allir neytt fíkniefna síðustu ár, bæði hass og LSD. Einnig hefðu þeir notað örvandi og róandi lyf og áfengi. Ákærði kvaðst hafa neytt áfengis, bragðað hass, en ekki LSD. Þeir voru aðallega saman að Grettisgötu 82 heima hjá Kristjáni Viðari og heima hjá Albert Klahn að Njálsgötu 44.
Ákærði kynntist Erlu Bolladóttur haustið 1973. Var það í húsi við Framnesveg, og voru Albert Klahn og Kristján Viðar þar staddir. Tókust milli þeirra náin kynni, en ekki heitbundust þau. Þau áttu barn saman, er fæddist í september 1975. Erla bjó að Hamarsbraut 11, er ákærði kynntist henni. Ákærði og Erla voru mikið saman, og dvaldist ákærði heima hjá henni að Harmarsbraut 11 einstöku sinnum, en ekki taldi hann sig eiga þar heim-
Bls. 199
ili og var aldrei skráður þar heimilisfastur. Var þannig ekki um sambúð hjá þeim að ræða.
Ákærði kvað Albert Klahn og Kristján Viðar hafa komið að Hamarsbraut 11. Mundi ákærði eftir þeim þar um jólaleytið 1973. Ákærði vissi hins vegar ekki til, að Tryggvi Rúnar hefði nokkurn tíma komið að Hamarsbraut 11.
Ákærði kvað þá Viggó Guðmundsson hafa farið til útlanda í janúar 1974. Kom ákærði úr því ferðalagi 24. janúar sama ár, að hann minnti, en Viggó einhverjum dögum áður. Viggó hafði meðferðis frá Kaupmannahöfn hass, er ákærði átti. Viggó ók ákærða mikið um þessar mundir.
Ákærði minntist þess, að hann kom heim til Kristjáns Viðars að Grettisgötu 82 að kvöldi laugardagsins 26. janúar 1974, um klukkan 2000 að hann taldi. Eitthvað var þar af fólki auk Kristjáns Viðars, og mundi ákærði eftir því, að þar voru Tryggvi Rúnar Leifsson, Albert Klahn Skaftason og Gunnar Jónsson, Lokastíg 18. Ákærði varð þess var, að þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar voru undir áhrifum einhverra lyfja og sömuleiðis Gunnar Jónsson. Ákærði sá ekki, að Albert Klahn hefði neytt lyfja. Eitthvað var rætt þarna um fíkniefni, og ætlaði Albert Klahn að útvega Kristjáni Viðari LSD. Ákærði hafði einhverja viðdvöl að Grettisgötu 82, en hann mundi, að um kl. 2200-2230 var hann staddur að Vesturgötu 24 hjá Sigríði Gísladóttur. Þar var margt fólk. Ákærði hitti þarna Albert Klahn, og var hann að kaupa LSD hjá Sigríði. Ákærði bað Albert Klahn að aka sér suður að Starfsmannahúsi Kópavogshælis, en þangað ætlaði ákærði til að hitta Helgu Gísladóttur, sem hann var þá í tygjum við, og vera þar um nóttina. Albert Klahn færðist undan því að aka ákærða, þar sem hann væri að flýta sér. Skildist ákærða, að hann væri búinn að lofa Kristjáni Viðari og Tryggva Rúnari að aka þeim. Ákærði mundi ekki, hvort Gunnar Jónsson hefði verið með Albert Klahn á Vesturgötunni. Albert Klahn fór síðan á brott, en ákærði tók leigubifreið að starfsmannabústað við Kópavogshæli. Ákærði taldi sig hafa verið kominn til Helgu Gísladóttur um kl. 2230-2300. Ákærði mundi eftir því, að auk Helgu ræddi hann við mann að nafni Sæmundur, sem kom til Helgu. Hann veitti Sæmundi whiskylögg.
Um kl. 2400 kom Albert Klahn akandi á bifreið að starfsmannabústaðnum. Með honum í bifreiðinni voru Kristján Viðar, Tryggvi Rúnar og Gunnar Jónsson. Kristján Viðar fór úr bif-
Bls. 200
reiðinni og ræddi við ákærða á ganginum. Kristján Viðar sagði ákærða, að þeir hefðu verið að aka á milli skemmtistaða hér í borginni eða verið í svokölluðu "bíseríi" eða "putteríi", en ekkert orðið ágengt, að ákærða skildist. "Bíserí" eða "putterí" sagði ákærði vera veskjaþjófnaði. Kristján Viðar bað ákærða að lána sér 5.000 krónur til kaupa á áfengi. Ákærði kvaðst hafa verið með um 60.000 krónur á sér eða jafnvel meira. Ákærði sagðist ekki geta lánað Kristjáni Viðari neitt og væru peningar sínir geymdir að Hamarsbraut 11. Var ástæðan fyrir neituninni sú, að Tryggvi Rúnar var með Kristjáni Viðari og vissi hann, að ætti einhver peninga, væri hann látinn eyða þeim. Ákærði kvað Kristján Viðar hafa verið bæði drukkinn og undir áhrifum fíkniefna. Ákærði mundi ekki betur en Kristján Viðar segði, að þeir væru á leið til Hafnarfjarðar, þar sem þeir ætluðu að vera fyrir utan skemmtistaði. Ákærði hitti ekki að máli aðra, er voru í bifreiðinni. Ákærði fylgdi Kristjáni Viðari til dyra og sá, er hann fór inn í bifreiðina. Gunnar Jónsson sat í framsæti, og sá ákærði, að hann opnaði fyrir Kristjáni Viðari. Albert Klahn var á svartri Volkswagen bifreið af eldri gerð.
Ákærði neytti áfengis í starfsmannahúsi Kópavogshælis og varð mikið ölvaður. Hann mundi eftir því, að eftir að Kristján Viðar var farinn, kom stúlka til Helgu, sem hét Lilja. Var hún í einhverri ástarsorg út af pilti, sem hún var með og ekki hefði viljað sinna henni.
Ákærði kvaðst muna óglöggt það, sem síðar gerðist þessa nótt vegna ölvunar. Hann mundi, að hann fór frá starfsmannahúsinu að Hamarsbraut 11, en klukkan hvað, mundi hann ekki fyrir víst. Ákærði fór í leigubifreið, sem hann mundi ekki, hvar hann tók. Ákærði fór þangað vegna þess, að íbúðin var oft opin, og hann var hræddur um, að þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar kynnu að fara inn í hana og setjast þar að drykkju. Ákærði átti enga peninga geymda í íbúðinni. Hann sagðist þó hafa verið búinn að segja Kristjáni Viðari annað, eins og áður greinir. Ákærði hafði ekki rætt við hina um að hitta þá aftur síðar um nóttina.
Þegar ákærði kom að Hamarsbraut 11, klukkan um 0200 að því er hann minnti, voru þar ljós í gluggum, og stóð bifreið Alberts Klahn við útidyr, að hann taldi. Húsið var opið, og fór ákærði inn í kjallaraíbúðina. Þegar inn kom, sá hann, að í íbúðinni voru þeir Kristján Viðar, Tryggvi Rúnar, Albert Klahn, Gunnar Jónsson og einhver maður, sem ákærði þekkti ekki. Ákærði mundi ekkert, hvernig maður þessi leit út. Ákærða var
Bls. 201
í dóminum sýnd mynd af Guðmundi Einarssyni, og kvað hann það eflaust hafa verið hann, sem var í íbúðinni með hinum. Ákærði var nánar spurður um útlit Guðmundar Einarssonar og klæðaburð, en hann kvaðst ekkert muna um það. Ákærði tók fram, að hann myndi lítið eftir klæðaburði hinna, nema Gunnar hefði verið í úlpu svo og Albert Klahn. Síðar í Þinghaldinu skýrði ákærði þó frá því, að þeir Tryggvi Rúnar og Kristján Viðar hefðu verið í leðurjökkum, Guðmundur Einarsson hefði verið yfirhafnarlaus, dökkklæddur, í stökum jakka og buxum. Ákærði var um það spurður, hvar hinir hefðu verið, hver fyrir sig, er hann kom inn. Ákærði skýrði frá því, að Guðmundur Einarsson hefði setið við skáp í stofunni. Tryggvi Rúnar hefði setið við skrifborð, Albert Klahn verið í dyrunum milli svefnherbergis og stofu og Gunnar Jónsson inni í svefnherberginu. Ákærði mundi, að Kristján Viðar kom á móti honum, er hann kom inn í stofuna. Ákærði kvað Kristján Viðar hafa verið bæði ölvaðan og undir áhrifum lyfja. Kvaðst ákærði kannast við að hafa fundið að því við Kristján Viðar, að hann léti Tryggva Rúnar vita, hvar hann byggi. Tryggvi Rúnar var einnig ölvaður og undir áhrifum lyfja og mikil ókyrrð í honum. Gunnar virtist og vera drukkinn, en Albert Klahn alsgáður að sjá. Guðmundur Einarsson var drukkinn. Andrúmsloftið var þannig, að mikil spenna virtist ríkja.
Ákærði kvað þá Kristján Viðar og Tryggva Rúnar hafa farið þess á leit við sig, að hann lánaði þeim fyrir flösku, og minnti ákærða, að þeir hafi nefnt 5.000 krónur í því sambandi. Ákærði lét liggja að því, að það gæti komið til greina, ef þeir vildu fara. Ákærði kvaðst þó hafa látið í veðri vaka, að hann hefði enga peninga. Ákærði kvað Guðmund hafa haft hægt um sig, fyrst eftir að ákærði kom inn. Ákærði kvað það kunna að vera, að þess hafi verið farið á leit við Guðmund að kaupa áfengisflösku, en hann mundi ekki hverju hann svaraði. Kærði hafði orð á því, fljótlega eftir að hann kom inn, að Bolli Gunnarsson ætti húsnæðið, en Erla fengi að vera þar. Mundi hún ekki vilja hafa ákærða og menn þá, sem með honum voru, í íbúðinni. Ekki leið langur tími, frá því ákærði kom inn í íbúðina, þar til átök hófust.
Í dómskýrslu ákærða frá 11. janúar 1976 sagði hann, að Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar hefðu verið við útidyrnar að Hamarsbraut 11 ásamt þriðja manni, er hann kom þangað. Þeir hefðu ruðst inn í íbúðina þrátt fyrir mótmæli ákærða, og þar hafist deilur, sem enduðu með áflogum og maður verið rotaður. Ákærða var kynntur þessi framburður í dóminum og hann beðinn að gefa
Bls. 202
skýringu á þeirri breytingu, sem hann gerði á honum. Ákærði sagði framburð sinn nú vera hið rétta í málinu. Mundi hann koma fram með skýringar á þessu síðar.
Ákærði skýrði frá því, að átökin við Guðmund hefðu hafist í stofunni að Hamarsbraut 11, við dyrnar inn í svefnherbergið. Byrjuðu þau með því, að Guðmundur Einarsson þreif til ákærða, en ekki mundi ákærði, hvort hann náði taki á honum. Ákærði taldi, að ástæðan fyrir þessu hefði annað hvort verið sú, að Guðmundur hefði haldið, að ákærði hefði tekið veski hans, eða þá, að Guðmundur hefði verið reiður út í ákærða vegna þess, að ákærði hafði vísað þeim út úr íbúðinni. Ákærði neitaði að hafa tekið veskið af Guðmundi, og ekki sá hann heldur neinn annan gera það. Ákærði kallaði ekki á hjálp, þegar Guðmundur veittist að honum. Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar stóðu þarna alveg við. Sá ákærði, að Kristján Viðar sá Guðmund, að hann hélt í andlitiið. Ákærði hafði haldið, að Tryggvi Rúnar ætlaði að ráðast á sig, en svo varð ekki, og lagði Tryggvi Rúnar höndum til Guðmundar, eins og ákærði orðaði það. Albert Klahn var þarna við, en ákærði sá hann aldrei taka þátt í átökunum. Gunnar var inni í innra herberginu á þessum tíma, að ákærði áleit, og kom ekki nálægt þessu.
Ákærði kvaðst ekki þora að fara með, hver lamdi hvern, en þarna hefðu hafist allsherjar slagsmál. Var Guðmundur einn á móti, að ákærði hugði, þeim Tryggva Rúnari, Kristjáni Viðari og ef til vill Albert Klahn. Ákærði kvaðst ekki hafa átt neinn þátt í átökunum, heldur hraðaði sér fram á gang í upphafi þeirra og farið hafa á snyrtiherbergi. Kvaðst ákærði hafa verið að flýja átökin, enda hefði hann haldið, eins og áður greinir, að Tryggvi Rúnar hefði ætlað að ráðast á sig. Ákærði mundi ekki, hvað hann hefði verið lengi inni á snyrtiherberginu, er hann heyrði dynk. Ákærði heyrði Kristján Viðar kalla til sín, og fór hann þá fram af snyrtiherberginu. Ákærði hélt inn í stofuna og sá, að Guðmundur Einarsson lá á gólfinu, meðvitundarlaus, og sneru fætur hans í átt að dyrum milli stofu og svefnherbergis. Ákærði taldi, að Guðmundur hefði verið rotaður. Ákærði sá ekki blóð á Guðmundi, en mundi eftir, að hann var með sprungna vör. Þeir reyndu að fá Guðmund til að ranka við sér, en komust að raun um, að hann var látinn, er þeir athuguðu hann nánar. Ákærði kvaðst aldrei hafa séð Guðmund rísa upp, eftir að hann var fallinn.
Ákærða var kynntur framburður hans í sakadómi 11. janúar
Bls. 203
1976. Ákærði kvað framburðinn eftir sér hafðan, en hann væri rangur. Hann kvaðst nú aldrei hafa sparkað í kjálka Guðmundar, þar sem hann lá á gólfinu. Ekki kvaðst ákærði heldur hafa séð Guðmund velta sér við, svo sem í framburði hans greindi, og hann hefði ekki reynt að standa upp. Sérstaklega aðspurður neitaði ákærði að hafa sparkað í höfuð Guðmundar, þegar hann var að reyna að standa upp.
Þegar hér var komið sögu, óskaði ákærði, að eftirfarandi væri bókað orðrétt eftir sér: "Ég var ekki að Hamarsbraut 11 þessa nótt. Ég var hjá Helgu Gísladóttur í starfsmannabústað Kópavogshælis alla þessa nótt, ræddi við hana um morguninn um að fara að Gljúfurholti í Ölfusi. Ég hitti Erlu einhvern tíma á sunnudagskvöldið 27. janúar 1974 og var þá með Viggó Guðmundssyni. Ég var að hugsa um að fara austur í Gljúfurholt, en hætti við það vegna Erlu. Ég var upphaflega látinn játa á mig sakir, beittur líkamlegu ofbeldi af rannsóknarmönnum, einnig af fangavörðum, hótað af Tryggva Rúnari og Kristjáni Viðari. Erla hótaði að fremja sjálfsmorð í júlímánuði 1976 við samprófun í fangelsinu við Síðumúla. Samprófunin stóð öðru hverju í 8 daga, og lengst í 6 tíma í einu. Var Erla höfð þar til að koma vitinu fyrir mig. Sigurbjörn sagði við mig, að ef ég játaði ekki að hafa verið á Hamarsbraut 11 þessa nótt, myndi ég fá lífstíðaröryggisgæslu. Sigurbjörn Víðir sagði það vera orð "nafngreinds manns, og lét sá maður" orð falla í maímánuði og sagðist lofa mér því, að ég fengi að týnast í amerísku fangelsi, ef ég játaði ekki á mig sakir í "Guðmundar" og Geirfinnsmáli". Daginn eftir að ég fór í samprófun með Tryggva Rúnar og Kristjáni Viðari, var höfð samsprófun, þar sem Sigurbjörn Víðir lét Tryggva Rúnar Leifsson ráðast á mig, og barði hann mig svolítið til. Síðan, er ég átti að fara inn í fangaklefa, réðst Sigurbjörn Víðir á mig, sló mig í andlitið í viðurvist Ara Ingimundarsonar, fangavarðar, tók mig á loft og fleygði mér í stól í yfirheyrsluherbergi. Í júlímánuði, júlílok, kom fangavörður, Skúli Steinsson að nafni, og biður mig að koma fram með sér. Ég spurði, hvað það væri, og sagði hann mig mundu komast að því og ef ég kæmi ekki með góðu, yrði ég beittur ofbeldi, en það var ávallt þeirra orðatiltæki, þegar ég var látinn fara í yfirheyrslur. Gekk ég fram, og þegar ég kem að sturtuherbergi, segir hann mér að bíða aðeins, tekur mig síðan hálstaki og dregur mig inn í sturtuherbergið og lætur renna í vask og gólfklút í vaskinn. Reyndi hann að dýfa mér ofan í, en tókst það ekki í fyrstu, en fékk þá Jóhann fyrrverandi lögreglu-
Bls. 204
mann, til að aðstoða sig. Skúli spurði, með hverjum ég hefði farið til Keflavíkur og hvert ég hefði farið með Guðmund Einarsson út í hraun. Eftir allar vatnsdýfingarnar var ég orðinn þjakaður og var farinn að hljóða. Þá hætta þeir og fleygja mér inn í klefa, en þetta hafði þá staðið í góða stund. Ekki hafði ég lengi verið í klefanum, er Skúli Steinsson kemur á ný, tekur mig með ofbeldi og heldur áfram sama leiknum og áður, þar til ég var allur orðinn blautur og farinn að hljóða. Ekki veit ég, hversu lengi þetta stóð, en loks kom varðstjóri, Guðjón að nafni, og kvað þetta gott í bili. Var ég síðan látinn inn í klefa. Daginn, sem fjórmenningarnir voru handteknir í Geirfinnsmálinu, sagði ég við einn rannsóknarmannanna, "að ég gæti ekki sagt, að ég hefði farið út á bát og ekki heldur, að ég hefði farið með þessum mönnum til Keflavíkur." Hann "sagði þá við mig: "Farðu inn í klefa og hengdu þig". Við Gunnar Marinósson sagði hann: "Lánaður honum reipi, svo hann geti hengt sig"."
Skýrsla rannsóknarlögreglu 22. desember 1975, skýrslur ákærða 4. janúar, 6. janúar, 30. september og 5. október 1976 sem og skýrsla hans frá 9. mars 1977 voru í heild lesnar í heyranda hljóði í dóminum. Ákærði kannaðist við að hafa gefið skýrslur þessar og undirritað þær, en hann kvað allt rangt, er í þeim greindi um dauða Guðmundar Einarssonar. Ákærði var ítrekað spurður, hvort hann hefði komið að Hamarsbraut 11 aðfarfanótt 27. janúar 1974. Hann neitaði því eindregið og hélt því fram, að hann hefði ekki komið þangað um nóttina. Ákærði kvaðst alltaf hafa haldið fram sakleysi sínu, en hefði ekki getað annað en gefið þessar skýrslur, þar sem þess hefði verið krafist.
Ákærði neitaði að vita nokkuð um flutning á líki Guðmundar Einarssonar, hvorki þá um nóttina né síðar. Kvaðst hann ekkert vita, hvar líkið væri niður komið.
Ákærði kvað þaðö rétt, sem að framan væri greint um ferðir hans að kvöldi 26. janúar 1976, uns komið var á Kópavogshælið, en aðfaranótt 27. janúar hefði hann dvalist þar hjá Helgu Gísladóttur.
Hinn 1. apríl 1977 fór fram í dómi samprófun þeirra Erlu Bolladóttur og ákærða Sævars Marinós Ciesielski. Héldu hvort um sig fast við framburði sína, og varð samprófunin árangurslaus. Ákærði Sævar Marinó óskaði í þinghaldi þessu, að Erla yrði spurð að því, hvort Sigurbjörn Víðir rannsóknarlögreglumaður hefði nefnt við hana lífstíðaröryggisgæslu við samprófun þeirra á fangelsinu í Síðumúla 29. júlí 1976. Erla kvað Sigurbjörn Víði
Bls. 204
hafa sagt, að ákærði Sævar Marinó fengi lífstíðar öryggisgæslu, þ. e. lífstíðar fangelsi, ef hann játaði ekki að hafa verið að Hamarsbraut 11, er Guðmundur Einarsson beið bana. Loks komu þau Erla og ákærði Sævar Marinó saman fyrir dóm hinn 5. júlí 1977, og krafðist Jón Oddsson hæstaréttarlögmaður, skipaður verjandi ákærða Sævars Marinós, þess þá, að eftirfarandi spurning yrði lög fyrir Erlu: "Hittust ákærði og ákærða að Hamarsbraut 11 aðfaranótt 27. janúar 1974?" Svar Erlu var: "Já, og fóru frekari yfirheyrslur ekki fram í þinghaldi þessu.
Hinn 1. apríl 1977 fór fram í dómi samprófun ákærðu Kristjáns Viðars Viðarssonar og Sævars Marinós Ciesielski. Var í dóminum lesinn í heyranda hljóði framburður ákærða Kristjáns Viðars um það, er gerðist að Hamarsbraut 11 aðfaranótt 27. janúar 1974 og síðar þá nótt. Ákærði Sævar Marinó kvaðst "sér vitandi" ekki hafa verið að Hamarsbraut 11 þessa nótt. Ákærði Kristján Viðar kvaðst halda fast við framburð sinn. Samræmi náðist ekki milli ákærðu um það, er Kristján Viðar kvað hafa gerst að Hamarsbraut 11 aðfaranótt 27. janúar 1974, og það, er gerðist, eftir að farið var þaðan.
Ákærði Kristján Viðar kannaðist við að hafa farið í Kirkjugarðinn í Fossvogi með ákærða Sævari Marnó í ágúst 1974 og fleira fólki, er þeir urðu viðskila við. Þetta var að degi til, og voru þeir að leita að leiði Kristins Esmars Skarphéðinssonar, en fundu það ekki.
E. Ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson var fyrst yfirheyrður vegna máls þessa klukkan 1850 hinn 23. desember 1975 í fangelsinu við Síðumúla, en þar hafði hann verið settur inn klukkan 1415 sama dag. Skýrsla um handtöku hans fylgir ekki gögnum málsins. Við yfirheyrsluna kvaðst ákærði enga hugmynd hafa um, á hvern hátt Guðmundur Einarsson hefði horfið, enda ekki muna til þess, að nokkur maður hefði horfið í Hafnarfirði.
Ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson kom fyrir dóm hinn 23. desember 1975, klukkan 1935. Neitaði hann þá alfarið að vera viðriðinn hvarf Guðmundar Einarssonar. Ákærði var á dómþinginu úrskurðaður í gæsluvarðhald.
Rannsóknarlögreglan tók næst skýrslu af ákærða Tryggva Rúnari Leifssyni hinn 9. janúar 1976. Kvaðst hann mikið hafa hugsað um mál þetta, frá því að síðast hefði verið tekin af honum skýrsla hinn 23. desember 1975, og vildi hann nú skýra frá ýmsum atriðum varðandi máli. Skýrsla hans var efnislega á þessa leið: "Ég man eftir því tilviki, að ég var á þeim tíma, sem
Bls. 206
atburður sá, sem hér um ræðir, á að hafa átt sér stað, staddur einhvers staðar í húsi með þeim Sævari Ciesielski, Kristjáni Viðari Viðarssyni og einhverjum einum enn, sem ég ekki bar kennsl á. Ég get ekki munað, hver húsráðandi var á þessum stað eða hvar þetta húsnæði var. Herbergjaskipan í íbúð þeirri, sem við vorum í, var í aðalatriðum á þann veg, að gengið var inn í tvö íveruherbergi innst af gangi og þá fyrst gengið í gegnum annað, en svo var framar af ganginum gengið inn í geymsluherbergi, að ég held fyrst í gegnum þvottaherbergi. Nánar man ég ekki eftir herbergjaskipan enn sem komið er.
Eins og fram er komið, veit ég ekki deili á manni þeim, sem þarna var með okkur og ég hef ekki getið um nafn á. Aftur á móti held ég að Kristján Viðar hafi eitthvað þekkt þennan mann, eða það virtist mér á öllu tali þeirra.
Eitthvert ósamkomulag kom upp, og var það ábyggilega milli þeirra Kristjáns Viðars og þess nafnlausa. Þetta byrjaði með einhverjum fúkyrðum þeirra á milli, en endaði með átökum. Ég held ég megi fullyrða, að þetta hafi byrjað inni í innra íveruherberginu. Leikurinn barst fram í fremra íveruherbergið og held ég, að þá hafi Sævar Marinó verið kominn í átök við nafnlausa manninn og beðið um hjálp. Hver var þáttur Kristjáns Viðars í átökunum á því stigi, er mér óljós. Ég kom Sævari Marinó til hjálpar og reyndi að ganga á milli hans og þess nafnlausa. Þá fékk ég högg frá þeim síðarnefnda, og held ég, að ég hafi þá slegið hann aftur. Við höggið frá mér féll maðurinn í gólfið, en missti ekki meðvitund við það, heldur dasaðist eitthvað. Hann hálfpartinn lá svo á gólfinu úti í horni fremra íveruherbergisins, og virtist mér hann vera að reyna að standa á fætur. Ekki virtist hann eiga mjög gott með það. Þá sá ég Sævar Marinó ráðast á manninn með því að sparka með fæti í höfuð honum, og kom höggið, að ég held, ofan við annað eyra hans. Við það féll maðurinn fram yfir sig á gólfið og hreyfði sig ekki eftir það. Ég er viss um, að Sævar Marinó var í skóm, er hann sparkaði í manninn, við vorum allir í skónum þarna inni. Ég man svo, að Sævar Marinó fór eitthvað að stumra yfir manninum og hafði á orði, að hann væri dáinn. Ég fór þá einnig að athuga þetta með því að leita eftir hjartslætti eða æðaslætti eða öðru lífsmarki, en fann ekkert. Okkur brá nú nokkuð í brún, því að við vorum þess allir fullvissir, að maðurinn væri látinn. Við ræddum eitthvað okkar á milli, hvað gera skyldi við hann, og á endanum var ákveðið að láta hann til að byrja með fram í geymslu-
Bls. 207
herbergið. Þangað fórum við með manninn og lögðum hann þar á gólfið. Ekki man ég eftir neinum verulegum ákverkum á manninum, en ég held það hafi blætt úr munni hans eitthvað.
Hvað gerðist eða við aðhöfðumst, er við höfðum komið manninum fyrir í geymsluherberginu, get ég alls ekki komið fyrir mig, að minnsta kosti ekki að svo komnu máli. Eitthvað hljótum við þó að hafa gert við látinn manninn, en ég man ekki hvernig við bárum okkur að.
Ekki man ég heldur aðdragandann að því, að við yfirleitt voru staddir í þessari íbúð eða húsi, en bæði það og hvað gert var við manninn kann að rifjast upp fyrir mér síðar."
Yfirheyrslan stóð frá klukkan 0850 til klukkan 1005.
Ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson kom fyrir dómþing sakadóms hinn 11. janúar 1976. Skýrði hann þar sjálfstætt frá málsatvikum, og var framburður hans í samræmi við skýrslu hans hjá rannsóknarlögreglu hinn 9. sama mánaðar. Ákærði kvaðst ekki muna, hvernig staðið hefði á veru þeirra að Hamarsbraut 11 né hvað þeir hefðu gert við líkið af manninum. Ákærði las fyrrnefnda skýrslu sína hjá rannsóknarlögreglu í dóminum, kvað þar rétt eftir sér haft og staðfesti undirskrift sína undir skýrslunni. Dómþingið stóð frá klukkan 1501 til klukkan 1618.
Ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson kom fyrir dóm hinn 22. mars 1976, og kvaðst hann þá ekki muna neitt frekar um mál þetta en hann hefði þegar skýrt frá.
Hinn 30. apríl 1976 kom ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson aftur fyrir sakadóm, og var Hilmar Ingimundarson hæstaréttarlögmaður, skipaður réttargæslumaður hans, viðstaddur þinghaldið. Ákærði skýrði á sama hátt frá atvikum málsins og fram kom í skýrslu hans hjá rannsóknarlögreglu hinn 9. janúar 1976. Síðan er eftirfarandi bókað eftir ákærða á dómþinginu:
"Kærði kveðst ekki muna, í hvað húsi þessi atburður átti sér stað, og ekki heldur hvernig stóð á ferðum hans þangað. Kærði kveðst muna, að Kristján Viðar var að deila þar við mann, og enduðu þær deilur með átökum. Kærði kveðst hafa slegið manninn niður, og sá kærði þá, að Sævar Marinó sparkaði í höfuð hans. Maðurinn hreyfði sig ekki eftir þetta, og fóru þeir félagar með hann fram í geymsluherbergi og fóru síðan að ræða um, hvað gera skyldi.
Kærði kveðst ekki muna eftir að hafa flutt mann þennan í bifreið Alberts Skaftasonar.
Kærði tekur fram, að hann hafi ætlað að ganga á milli, þegar
Bls. 208
Kristján Viðar var í átökum við manninn. Kærði heldur, að Sævar hafi beðið sig að skilja þá Kristján".
Hinn 20. júní 1976 kom ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson fyrir dóm, en var þá ekkert spurður um efnisatriði málsins.
Á dómþingi hinn 17. september 1976 kvaðst ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson ekki muna eftir því, að Kristján Viðar hefði verið með hníf að Hamarsbraut 11 umrætt sinn, né muna frekar, hvert þeir félagar hefðu farið með lík Guðmundar Einarssonar, en kvað sig þó muna eftir að hafa sé fjárborg "og gæti það hafa verið umrætt sinn, en gæti líka hafa verið í annað sinn eða annars staðar".
Ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson kom fyrir dómþing sakadóms hinn 30. mars 1977 hjá dómurum máls þessa. Kvaðst hann þá ekki vilja viðurkenna, að það væri rétt, sem honum væri gefið að sök í I. kafla ákæru, dagsettri 8. desember 1976. Ákærði neitaði að hafa ráðist á Guðmund Einarsson að Hamarsbraut 11 ásamt meðákærðu aðfaranótt 27. janúar 1974 og misþyrmt honum svo, að hann hlaut bana af. Ákærði kvaðst aldrei hafa komið að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði, hvorki aðfaranótt 27. janúar 1974 né fyrir þann tíma. Ákærði kvað sér hafa verið sýnt húsið að Hamarsbraut 11 í ársbyrjun 1976 til að vita, hvort hann myndi eftir því. Ákærði kvaðst ekki hafa kannast við húsið og aldrei hafa komið þar inn.
Ákærði kvaðst ekkert geta sagt um, hvar hann var staddur að kvöldi laugardagsins 26. janúar og aðfaranótt hins 17. árið 1974. Ákærði sagði það óhugsandi, að hann hefði verið með Kristjáni Viðari Viðarssyni og Sævari Marinó Ciesielski í framangreint sinn, að minnsta kosti ekki, er atvik það gerðist, sem ákært er fyrir.
Ákærði þekkti Kristján Viðar, og kvaðst hann hafa kynnst honum, eftir að hann losnaði af Litla-Hrauni 1972. Þeir voru mikið saman fyrst, en síðan minnkaði það og var orðið lítið, þegar komið var fram á árið 1973. Ákærði mundi eftir að hafa verið heima hjá Kristjáni Viðari 10.-12. janúar 1974, en ekki mundi hann eftir að hafa hitt Kristján Viðar aftur í þessum mánuði.
Ákærði kvaðst þekkja Sævar Marinó mjög lítið og aðeins fyrir tilstilli Kristjáns Viðars. Ákærði mundi eftir, að Sævar Marinó kom heim til Kristjáns Viðars í það skipti, sem ákærði var heima hjá Kristjáni Viðari í janúar 1974. Mundi ákærði, að þeir fóru saman á dansleik.
Bls. 209
Ákærði þekkti Albert Klahn Skaftason mjög lítið og mundi ekki eftir að hafa hitt hann á þessum tíma.
Ákærði kvaðst ekki hafa þekkt Guðmund Einarsson og mundi ekki eftir að hafa nokkurn tíma hitt hann. Ákærði sá í dóminum mynd af Guðmundi. Kvaðst ákærði ekki kannast við hann.
Ákærði mundi ekki eftir að hafa komið til Hafnarfjarðar í janúar 1974, og hann kannaðist ekki við að hafa verið þar aðfaranótt 27. janúar það ár, hvorki með Kristjáni Viðari né öðrum.
Framburðir ákærða í dómi 11. janúar, 22. mars og 30. apríl 1976 svo og lögregluskýrslur þær, er ákærði þá staðfesti, voru lesnar í heyranda hljóði í dóminum.
Ákærði kannaðist við, að framburðir hans í dómi og fyrir lögreglu væru rétt eftir hafði, en hann sagði nú, að framburðir þessir væru rangir. Ákærði var beðinn að gefa skýringu á þeirri breytingu, sem hann gerði á framburðim sínum. Var sérstaklega brýnt fyrir ákærða að segja rétt til um þetta.
Ákærði óskaði nú eftirfarandi bókað: "Þegar ég var tekinn fyrst 23. desember 1975 heima hjá mér, var borin upp á mig þessi sök, að ég hefði í samráði við Kristján Viðar Viðarsson og Sævar Marinó Ciesielski orðið Guðmundi Einarssyni að bana. Síðan var ég yfirheyrður. Mér varð mikið um þetta, þar sem ég var saklaus í þessu máli. Ég gat ekki sofið og mér var neitað um svefntöflur. Síðan liðu 2-3 dagar, þar til þurfti að sprauta mig niður, til að ég gæti sofið, enda var ég kominn með óráð. Ég vil taka það fram, að upp úr þessu voru borin á mig tvö önnur stórmál, að ég hafi átt að verða stúlku að bana í Vík í Mýrdal og einhverjum manni í Ólafsvík, átti það að hafa verið haustið 1974. Ég tel mig alls ekki hafa verið kominn í fullt jafnvægi, þegar eg var tekinn í yfirheyrslur dag eftir dag, sem oft vöruðu í 12 tíma. Ekkert kom annað til umræðu en að ég ætti að játa þetta mál, sem upp á mig var borið. Það var alveg sama, hvað ég sagði, þeir tóku ekki mark á því. Ég átti vara að játa að hafa verið með fyrrgreindum mönnum við nefndan verknað. Fyrstu dagana átti ég að skýra frá því sjálfur, hvernig þetta atvikaðist. Sagði "einn rannsóknarmanna", að ég fengi að rotna í 2 ár í Síðumúla. Það væri hægt að halda mér þann tíma. Í þessum yfirheyrslum voru yfirleitt þrír, Örn Höskuldsson, Sigurbjörn Víðir Eggertsson og Eggert Bjarnason. Áfram héldu hótanirnar, og sögðu þeir, að ég yrði dæmdur fyrir þetta, því það væru allir búnir að játa og bentu á mig. Loks kom að því, að ég sá mér ekki annað fært en að játa á mig þátttöku í verknaðinum, þar
Bls. 210
sem mér fannst það skynsamlegra, úr því sem komið var. Fannst mér yfirheyrslurnar með þeim hætti, að ég játaði þetta með því hugarfari, að hið sanna kæmi í ljós þegar málið kæmi fyrir dómara".
Ákærði var spurður um Gunnar Jónsson, Lokastíg 18, og sýnd mynd af honum. Ákærði kvaðst ekki kannast við mann þennan.
Ákærða var bent á lýsingu á herbergjaskipan að Hamarsbraut 11, Hafnarfirði, og skýrsla hans um það atriði frá 9. janúar 1976 lesin í heyranda hljóði. Ákærði kannaðist við að hafa skýrt frá eins og í skýrslunni greinir. Ákærða var sýndur uppdráttur af kjallaraíbúð að Hamarsbraut 11 og um það spurður, hvernig hann hefði vitað svo nákvæmlega um herbergjaskipan að Hamarsbraut 11, hefði hann aldrei komið þar, eins og hann héldi fram. Ákærði skýrði frá því, að hann hefði í yfirheyrslum hjá rannsóknarlögreglunni fengið að vita, hvernig herbergjaskipan var að Hamarsbraut 11, og væri lýsing sín á henni á því byggð.
Ákærði var enn spurður um það, hvort hann hefði orðið valdur að dauða Guðmundar Einarssonar ásamt meðákærðu, en hann hélt fast við þennan nýja framburð sinn.
Hinn 31. mars 1977 fór fram samprófun þeirra Erlu Bolladóttur og ákærða Tryggva Rúnars Leifssonar fyrir dómi. Var Erlu þá kynnt neitun ákærða Tryggva Rúnars á því, að hann hefði verið að Hamarsbraut 11 umrædda nótt. Erla hélt engu að síður fast við framburð sinn og staðhæfði, að ákærði Tryggvi Rúnar væri maður sá, sem hún hefði séð að Hamarsbraut 11 þessa nótt. Erla hélt því fram, að ákærði Tryggvi Rúnar hefði einnig komið að Hamarsbraut 11 fyrir 27. janúar 1974, en hann neitaði því eindregið. Erla kvaðst hafa dregið upp mynd af ákærða Tryggva Rúnari í tæknideild rannsóknarlögreglu, en slík teikning fylgir ekki gögnum málsins. Enn fremur hefði hún lýst útliti hans, en þá lýsingu er ekki að finna í skýrslum rannsóknarlögreglu.
Samprófun ákærðu Kristjáns Viðars Viðarssonar og Tryggva Rúnars Leifssonar fór og fram í dómi hinn 31. mars 1977. Voru framburðir beggja lesnir í dóminum. Ákærði Kristján Viðar kvað framburð sinn réttan í öllum atriðum, en ákærði Tryggvi Rúnar neitaði því, að hann hefði verið með meðákærða að kvöldi hins 26. janúar og aðfaranótt 27. janúar 1974, svo sem ákærði Kristján Viðar héldi fram, og kvað hann framburð ákærða Kristjáns Viðars "allan vera lygi". Héldu ákærðu báðir fast við framburði sína, og náðist ekki samræmi.
Bls. 211
Hinn 31. mars 1977 fór fram í dómi samprófun þeirra ákærðu Sævars Marinós Ciesielski og ákærða Tryggva Rúnars Leifssonar.
Ákærði Tryggvi Rúnar kvaðst minnast þess að hafa einhvern tíma verið í bifreið með Viggó Guðmundssyni og Kristjáni Viðari í leit að ákærða Sævari Marinó, en hvort það hefði verið í það skipti, er í framburði ákærða Sævars Marinós greindi, gæti hann ekki fullyrt um.
Aðspurður, hvort ákærði Tryggvi Rúnar hefði verið með Kristjáni Viðari og Albert Klahn að kvöldi 26. janúar 1974, þá svaraði ákærði Tryggvi Rúnar því orðrétt þannig: "Ég get ekki staðfest það svoleiðis. Ég var svo mikið með þessum mönnum, að ég get ekkert fullyrt um það, hvort ég var með þeim þetta sinn. Það er rétt, að við vorum oft að "putta" eða á "veskjabísiríi", en hvort það var þetta kvöld eða ekki, man ég ekki". Ákærði Sævar Marinó sagði, að hann hefði talið, að ákærði Tryggvi Rúnar hefði verið í bifreið hjá Albert Klahn, er Kristján Viðar átti tal við hann í starfsmannabústað við Kópavogshæli um kl. 2400 að kvöldi 26. janúar 1974. Ákærði Sævar Marinó kvað ákærða Tryggva Rúnar hafa verið að Grettisgötu 82 umrætt kvöld svo og Gunnar Jónsson. Ákærði Tryggvi Rúnar kvaðst ekkert geta fullyrt um þetta. Hann var um það spurður, hvort hann neitaði því, og var svar hans á þá leið, að hann gæti ekkert fullyrt um það. Þá skýrði ákærði Tryggvi Rúnar frá því, að hann hefði einu sinni komið að Kópavogshæli, að hann minnti í bifreið Viggós Guðmundssonar, en það hefði alveg eins getað verið í bifreið, sem Albert Klahn var með.
Þá skýrði ákærði Tryggvi Rúnar frá því, að hann hefði á þessum tíma lítið verið með meðákærðu, þar sem hann hefði verið farinn að búa með stúlku.
Verjandi ákærða Tryggva Rúnars óskaði þess, að ákærði Sævar Marinó væri spurður um, hvort hann hefði séð ákærða Tryggva Rúnar í bifreið Alberts Klahn fyrir utan starfsmannahús Kópavogshælis umrædda nótt. Ákærði Sævar Marinó svaraði því til, að hann minntist þess ekki að hafa séð hann, en hefði talið það, svo sem fyrr segir.
Frekara samræmi náðist ekki í framburðum ákærðu.
F. Albert Klahn Skaftason var fyrst yfirheyrður hjá rannsóknarlögreglu hinn 23. desember 1975 og þá sem vitni. Var Albert Klahn gert ljóst, að tilefni yfirheyrslunnar væri hvarf á
Bls. 212
ungum manni í Hafnarfirði aðfaranótt 27. janúar 1974, og jafnframt var honum tjáð, að ákærði Sævar Marinó hefði skýrt rannsóknarlögreglunni frá því, að á þeim tíma hefði maður verið laminn á heimili ákærða að Hamarsbraut 11. Albert Klahn sagðist á þessum tíma hafa verið töluvert mikið í félagsskap þeirra Sævars Marinós, Kristjáns Viðars og Tryggva Rúnars og oftlega ekið þeim í bifreið föður síns, gulri Toyota fólksbifreið.
Albert Klahn kvað það hafa gerst eitt sinn að nóttu til, og gæti það hafa verið aðfaranótt 27. janúar 1974, að hann hefði komið á bifreið föður síns að heimili Sævars Marinós í Hafnarfirði. Ekki mundi Albert Klahn gerla, hvernig á komu hans stóð, hvort hann hefði ekið einhverjum þeirra félaga þangað eða þeir hringt heim til hans og beðið hann um að koma. Hann mundi ekki tímamörk, en verið gæti, að það hefði verið einhvern tíma á milli klukkan 2400 og 0500. Albert Klahn kvaðst muna, að hann hefði setið í bifreiðinni á bifreiðastæðinu Suðurgötu megin við húsið, Sævar Marinó kom frá húsinu að bifareiðinni og beðið sig að opna farangursgeymsluna. Hann hefði orðið við því, en Sævar Marinó horfið aftur inn í húsið. Eftir nokkra bið hefðu þeir Sævar Marinó, Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar komið að bifreiðinni. Hefði afturendi hennar snúið að húsinu, en götulýsing verið bágborin, og hann því aðeins getað fylgst með ferðum þeirra í vinstri baksýnisspegli bifreiðarinnar. Þeir hefðu borið á milli sín poka, einn eða fleiri, eða eitthvað pokalaga. Frekar kvaðst Albert Klahn ekki geta vorið um, hvers kyns byrði þeirra var, en þeir hefðu komið henni fyrir í farangursgeymslu bifreiðarinnar, sem við það hefði ruggað dálítið til og honum virst það benda til þess, að eitthvað þungt hefði verið sett í farangursgeymsluna. Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar hefðu sest í aftursætið, en Sævar Marinó ekki komið strax inn í bifreiðina. Hugði Albert Klahn, að hann hefði farið aftur heim að húsinu, en síðan hefði hann komið og tekið sér sæti við hlið hans. Að fyrirlagi Sævars Marinós kvaðst Albert Klahn hafa ekið suður fyrir Álverið í Straumsvík, þeir hinir farið þar úr bifreiðinni, Sævar Marinó beðið um lykilinn að farangursgeymslunni og opnaði hana, en síðan látið sig fá lykilinn aftur. Albert Klahn sagðist ekki hafa farið út sjálfur, en þremenningarnir hefðu staðið nokkra stund aftan við bifreiðina og virst eiga í einhverjum erfiðleikum með að ná einhverju út úr farangursgeymslunni. Hann hefði ekki séð, hvað það var, þótt hann hefði ekki slökkt ljós bifreiðarinnar, en þó sýnst þeir bera á milli sín einn
Bls. 213
poka, er þeir gengu frá bifreiðinni og hurfu út í myrkrið. Þeir hefðu komið aftur um 15-30 mínútum síðar og þá ekki verið með neitt meðferðis. Albert Klahn áleit, að hann hefði ekið þeim heim til Kristjáns Viðars að Grettisgötu 82. Á leiðinni hefði borist í tal á milli þeirra Sævars Marinós hvað í pokanum hefði verið, og Sævar Marinó sagt berum orðum, að það hefði verið lík. Kvað Albert Klahn sér hafa fundist þetta svo fjarstæðukennt, að hann hefði ekkert mark tekið á því og ekki frekar um það hugsað. Hann hefði hitt þremenningana oftar en einu sinni eftir þetta, en aldrei verið á ferðina minnst.
Hinn 23. desember 1975 var Albert Klahn Skaftason yfirheyrður í dómi sem kærði. Staðfesti hann skýrslu þá, sem hann hafði gefið fyrr um daginn hjá rannsóknarlögreglu, og kannaðist við að hafa ekið þeim Sævari Marinó, Kristjáni Viðari og Tryggva Rúnari suður fyrir Hafnarfjörð umrætt sinn. Þeir hefðu verið með eitthvað, sem þeir hefðu sett í farangursgeymslu bifreiðar hans, og hann ekki vitað, hver sá flutningur var, en Sævar Marinó sagt honum á heimleiðinni, að lík hefði verið í farangursgeymslunni. Albert Klahn var í þinghaldi þessu úrskurðaður í gæsluvarðhaldi.
Hinn 11. janúar 1976 skýrði Albert Klahn fyrir dómi sjálfstætt frá málsatvikum umrætt sinn. Var framburður hans í samræmi við skýrslu hans hjá rannsóknarlögreglu hinn 23. desember 1975, sem hann staðfesti að nýju, en frekar var hann ekki inntur eftir efnisatriðum málsins.
Hinn 6. febrúar 1976 kom Albert Klahn fyrir dóm, og var þá einasta eftirfarandi setning skráð eftir honum: "Kærði kveðst nú vera þess fullviss, að hann hafi umrætt sinn ekið veginn að Sædýrasafninu".
Á dómþingi hinn 7. mars 1976 gaf Albert Klahn Skaftason svofellda skýrslu: "Kærði segist nú vera viss um, að hann hafi farið tvær ferðir með lík fyrir þá félaga Sævar Ciesielski, Kristján Viðar Viðarsson og Tryggva Rúnar Leifsson. Segist kærði ekki hafa vitað í fyrra skiptið, hvað hann var að flytja, en í síðara skiptið hafi honum verið sagt, að það hafi verið lík. Kærði kveðst ekki muna, hvert hann ók, en telur, að í síðara skiptið hafi hann ekið suður í Kúagerði.
Hinn 19. mars 1976 tók rannsóknarlögreglan skýrslu af Albert Klahn Skaftasyni að eigin ósk hans, og var hann þá yfirheyrður sem vitni í málinu. Skýrði hann frá á þessa lund:
Bls. 214
"Þann 23. desember s.l. gaf ég skýrslu, þar sem ég skýrði frá því, að ég hefði flutt lík heiman frá Sævari Ciesielski eitthvað suður fyrir Hafnarfjörð. Ég taldi, að þetta gæti hafa verið aðfaranótt 27. janúar 1974 og ég hefði verið á Toyota bifreið föður míns. Ég hef mikið hugsað um þetta mál og oft verið rætt við mig um það. Það, sem ég skýrði frá í fyrri skriflegri skýrslu minni, er rétt að öðru leyti en því, að sá atburður, sem ég greini þar frá, átti sér ekki stað í janúar, heldur þann 14. september 1974.
Hitt er annað, að í janúar 1974, nánar tiltekið aðfaranótt þess 27., flutti ég einnig eitthvað heiman frá Sævari Marinó í Hafnarfirði. Með honum voru þá þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar. Þetta bar þannig að, að Sævar Marinó hringdi heim til mín um nóttina, ég held um kl. 0100, og bað mig að koma heim til sín suður í Hafnarfjörð. Hann talaði um að gefa mér hassmola, og féllst ég á að koma. Ég hafði á þessum tíma til umráða bifreið föður míns, en faðir minn átti þá Volkswagen fólksbifreið, árgerð 1957. Ég stöðvaði bifreiðina við húsið heima hjá Sævari Marinó. Kom hann út að bifreiðinni til mín og bað mig að bíða aðeins. Hann hvarf aftur inn í húsið, en kom eftir skamma stund og rétt á eftir honum þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar. Þeir síðarnefndu báru á milli sín langan poka eða eitthvað pokalaga úr ljósu efni, að ég held lérefti eða einhverju slíku. Þetta hefur verið vafið innan í eitthvað, og það var bundið fyrir báða enda, það man ég greinilega. Sævar Marinó kom að bifreiðinni til mín, bað mig að opna farangursgeymsluna, og gerði ég það. Þeir reyndu að koma þessari byrði fyrir í farangursgeymslunni, en hún reyndist ekki nógu stór. Þessi byrði þeirra virtist vera nokkuð þung, eftir því hvernig þeir meðhöndluðu hana. Þeir settu byrðina inn í bifreiðina og lögðu hana á gólfið milli fram- og aftursætis. Hún var svo löng, að sinn hvor endi bognaði upp á við. Þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar settust í aftursæti bifreiðarinnar, og urðu þeir að hafa fæturna á því, sem á gólfinu lá. Í því sambandi man ég það, að Kristján Viðar virtist eitthvað feiminn við að hafa fæturna ofan á þessu og var í einhverjum vandræðum. Sævar Marinó hafði farið aftur inn í húsið, en kom nú út aftur og settist í framsætið við hlið mér.
Ég ók sem leið lá til suðurs út úr Hafnarfirði og beygði til hægri veginn, sem liggur að Sædýrasafninu, ók hann á enda og stöðvaði bifreiðina við hliðið inn á safnsvæðið, en það var lokað. Þeir Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar fóru út úr bifreiðinni og
Bls. 215
reyndu að opna hliðið, en tókst það ekki. Ég hafði orð á því við þá að hætta þessari vitleysu, því að mér fannst ekkert vit í því að vera að reyna að fara inn í Sædýrasafnið. Ég sneri nú bifreiðinni við á planinu við hliðið og ók til baka áleiðis á veginn, sem liggur til suðurs úr Hafnarfirði á Reykjanesbraut. Á leiðinni til baka voru þeir félagar að reyna að finna stað til þess að losa sig við pokann. Var snúið við aftur og ekið áleiðis til baka að safninu. Á þeirri leið stöðvaði ég bifreiðina og sneri henni við á veginum. Þarna fóru þeir Kristján Viðar, Tryggvi Rúnar og Sævar Marinó út úr bifreiðinni og tóku byrði sína með sér. Þeir gengu vestur yfir veginn og út í hraunið í átt að Álverinu. Dimmt var af nóttu, svo að ég gat ekki fylgst gjörla með ferðum þeirra. Þó sá ég, að þeir höfðu numið staðar, og ég held lagt frá sér byrðina í hraunbolla nokkuð vestan vegarins. Ég leit af þeim um stund, en þegar ég leit aftur í þá átt, sem ég hafði séð þá, voru þeir horfnir, og gerði ég ráð fyrir, að þeir hefður farið lengra út í hraunið. Ég beið þó nokkra stund í bifreiðinni og leit við og við út til að vita, hvort ég sæi ekki til þeirra. Allt í einu tók ég eftir þeim, þar sem þeir voru á leið aftur að bifreiðinni og komu úr þeirri átt, sem ég hafði séð þá hverfa. Þeir settust inn í bifreiðina aftur, og ég ók sem leið lá heim til Sævars Marinós, þar sem þeir fóru út úr bifreiðinni, en ég fór heim til mín. Þegar við komum aftur heim til Sævars Marinós, lét hann mig hafa hassmolann, sem hann hafði boðið mér í símanum. Hann reykti ég daginn eftir.
Þegar ég kom heim til Sævars Marinós um nóttina, eftir að hann hafði hringt í mig, talaði hannum, að hann eða þeir félagar þyrftu að losa sig við eitthvað, en aldrei nefndu þeir, hvað það væri, hvorki áður en þeir settu byrði sína í bifreiðina, á leiðinni né eftir það. Þeir hafa ekki einu sinni minnst á það nokkru sinni við mig síðan, hvað ég hefði verið að flytja, og raunar veit ég það ekki enn þann dag í dag fyrir víst. Lögun þess, sem ég flutti þessa nótt heiman frá Sævari Marinó, gæti vel bent til þess, að þar hefði verið um mann að ræða. Ekki datt mér slíkt í hug á þeim tíma, og ég var ekkert að veita þessu sérstaka athygli. Þá vil ég geta þess, að það var Sævar Marinó, sem sagði algjörlega til um, hvert ekið var og hvar var stöðvað.
Hinn 30. apríl 1976 komu þeir Albert Klahn Skaftason og Tryggvi Rúnar Leifsson fyrir dóm til samprófunar, en ekkert samræmi fékkst á framburðum þeirra.
Albert Klahn Skaftason kom til yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglu hinn 30. apríl 1976. Rakti hann fyrir Sævari Marinó, sem viðstaddur var yfirheyrsluna, ferðir þeirra hinn 27. janúar 1974 og um haustið það ár. Sævar Marinó kvað þetta allt ósannindi og tóman uppspuna hjá Albert Klahn og neitaði því harðlega, að þetta hefði átt sér stað. Hinn 21. september 1976 skýrði Albert Klahn Skaftason rannsóknarlögreglunni frá því, að hann hefði ekið bifreiðinni aftur á bak að Hamarsbraut 11 og Guðmundur verið settur inn í hana hægra megin, en sjálfur hefði hann ekki farið út úr bifreiðinni. Einnig hefði Guðmundur verið tekinn út úr bifreiðinni hægra megin, þegar út í hraunið kom.
Hinn 5. október 1976 var Albert Klahn Skaftason yfirheyrður af rannsóknarlögreglu, og var frásögn hans nú á þessa lund:
"Svo sem ég hef áður sagt frá, hringdi Sævar Marinó til mín um nótt í janúar 1974. Hann spurði mig í símann, hvort ég vildi koma og aka fyrir sig líki. Ég neitaði því, og talaði hann ekkert meira um lík í þessu sambandi, en lagði að mér að koma heim til sín að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði. Mér skildist, að ég ætti að aka honum eitthvað og fá hass í staðinn, en komið hafði fyrir, að ég æki Sævari Marinó og félögum hans gegn því að fá að reykja hass. Ég féllst á að koma heim til hans, og fór ég á Volkswagen bifreið föður míns. Þegar ég kom að Hamarsbraut 11 nokkru síðar, lagði ég bifreiðinni á planið fyrir ofan húsið. Gekk ég niður fyrir það, fór niður í kjallaratröppurnar og bankaði eða hringdi dyrabjöllunni. Sævar Marinó kom til dyra, og ætlaði ég að fara inn. Hann bannaði mér það, en sagði mér að koma með bifreiðina að kjallaratröppunum. Ég náði í bifreiðina og ók henni þangað og snéri vinstri hlið bifreiðarinnar að húsinu. Þegar ég hafði beðið nokkra stund, kom Sævar Marinó út og bað mig að opna lok farangursgeymslunnar. Minnir mig, að til þess hafi ég fyrst tekið í handfang inni í bifreiðinni, en svo farið út og tekið í handfang framan á lokinu og opnað þannig. Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar komu út og báru eitthvað á milli sín. Settu þeir það í farangursgeymsluna, en það var svo fyrirferðarmikið, að ekki var hægt að loka með nokkru móti. Var ekki um annað að ræða en setja þetta inn í bifreiðina, og kann að vera, að ég hafi átt uppástunguna að því. Það, sem þeir Tryggvi Rúnar og Kristján Viðar báru á milli sín, var í laki, sem virtist bundið saman til endanna. Því var vafið utan um innihaldið, og sá ég ekki í það, sem innan undir var.
Ég get ekki lýst, hvað kom þarna yfir mig, eða lýst tilfinning-
Bls. 217
um mínum. Ég mundi, að Sævar Marinó hafði talað um, að ég flytti fyrir hann lík, og ég sá, að það, sem í lakinu var, gæti verið lík. Þessum hugsunum reyndi ég að bægja frá mér, enda hafði ég ævinlega reynt að blanda mér ekki í afbrotamál þeirra. Ég reyndi að telja mér trú um, að það gæti ekki verið, að þeir hefðu verið með lík. Sævar Marinó hafði orð á, að dauður maður væri í lakinu, en ég forðaðist að tala nokkuð um þetta við hann. Ég tel mig muna fyrir víst, að flutningurinn hafi verið settur inn í bifreiðina vinstra megin og tekið á móti, en hinir tveir hafi lyft undir. Ég lagði ekki hönd að þessu verki, en þó þurfti ég að laga flutninginn eitthvað til, svo að ég gæti lagt sætisbakið í rétta stellingu áður en ég settist inn.
Ég held, að Sævar Marinó hafi annað hvort farið út úr bifreiðinni aftur eða komið inn í hana nokkuð á eftir hinum. Ég man fyrir víst, að Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar settust aftur í bifreiðina, en Sævar Marinó í framsætið.
Þá tel ég mig muna fyrir víst, að ég hafi beygt Hamarsbrautina til hægri. Síðan ók ég suður úr Hafnarfirði og inn á veginn að Sædýrasafninu. Á leiðinni töluðu þeir um, hvað gera ætti við flutninginn, en ég lagði ekki eyru að því. Ég stöðvaði við hliðið að Sædýrasafninu, og þar fóru Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar út úr bifreiðinni og reyndu að opna hliðið. Kristján Viðar talaði um, hvort þeir væru orðnir vitlausir að ætla þarna inn. Hætt var við þetta, og komu strákarnir inn í bifreiðina aftur. Snéri ég við, ók út á Keflavíkurveg og beygði til hægri. Á móts við Álverið eða aðalinnkeyrsluna að því snéri ég við og ók Keflavíkurveginn aftur til baka, en beygði út af veginum á móts við álverið. Eftir þessum vegi ók ég um það vil 500 m vegalengd, en snéri þá við og stöðvaði. Þar var flutningurinn tekinn úr bifreiðinni. Strákarnir fóru allir þrír með hann á brott, og sagði Kristján Viðar við mig að vera ekki að horfa á eftir þeim. Ég sá þó á eftir þeim, þar sem ég sat í bílnum, en framendi hans snéri að Álverinu, og fóru strákarnir til vinstri frá bifreiðinni.
Þegar þeir komu aftur, var Sævar Marinó með lakið, og var það sett í farangursgeymsluna. Eftir þetta ókum við til baka. Fór Sævar Marinó að Hamarsbraut 11, og þar held ég, að hann hafi sett lakið í öskutunnu. Ég held, að ég hafi ekið hinum strákunum heim til Kristjáns Viðars.
Það hefur nú verið að rifjast upp fyrir mér, að verið geti, að
Bls. 218
ég hafi farið fleiri ferðir líkra erinda fyrir strákana. Mig rámar í, að ég hafi síðar farið með þá suður í hraun og hafðir hafi verið svartir, tómir pokar. Þeir Tryggvi Rúnar og Sævar Marinó hafi farið út í hraun og sótt eitthvað í pokana, sem voru látnir hver utan yfir annan. Kristján Viðar var með mér í bifreiðinni. Þá man ég, að farið var út á Álftanes og þar tekin gröf rétt við hliðina á bifreiðinni. Þetta er allt mjög óljóst fyrir mér, en þó getur verið, að þetta geti ég rifjað upp."
Hinn 6. október 1976 af Albert Klahn Skaftason svofellda skýrslu hjá rannsóknarlögreglu:
"Í gær, eftir að skýrslutöku lauk, fór ég ásamt rannsóknarlögreglumönnum suður á Álftanes, þar sem ég vísaði á stað niðri í fjöru, þar sem ég hefði tekið þátt í að grafa hlut, sem ég taldi, að gæti hafa verið lík. Ég tel nú, að þetta hefi verið rangt hjá mér og að um ímyndun hafi verið að ræða. Þrátt fyrir það, minnist ég þess, að varið hafi verið með hlut, sem gæti hafa verið lík, og hann grafinn.
Ég man eftir því að Sævar Marinó kom heim til mín um sumar, en ekki get ég tímasett það nánar. Hann bað mig um að aka sér, og fór ég á Toyota bifreið föður míns. Ég fór fyrst heim til Kristjáns Viðars og fór um undirgang bak við húsið. Þar hafði ég stutta viðdvöl, en náð var í tóma svarta plastpoka heim til Kristjáns Viðars, og einnig var komið með eina eða tvær skólfur. Ekki man ég, hvert ég ók svo eða hvað var náð í. Það næsta, sem ég man, var það, að ég hjálpaði við að bera flutning, sem kominn var í plastpokana, úr bifreiðinni. Þá man ég eftir að hafa tekið þátt í að grafa þetta, en hvar það var, man ég ekki fyrir víst. Mig rámar þó í, að þetta hafi verið flutt í kirkjugarð, og tel ég, að þar komi helst til greina Hafnarfjarðarkirkjugarður, en í þessu sambandi man ég eftir garðvegg. Ég tel, að þarna hafi verið um lík Guðmundar Einarssonar að ræða. Ég man fyrir víst, að Sævar Marinó og Kristján Viðar voru með mér, er ég flutti þetta, og mig minnir, að Tryggvi Rúnar hafi ennig verið með, en ég er þó ekki viss um það.
Ég get ekki gefið neina skýringu á því, hvers vegna þetta hefur farið að rifjast upp fyrir mér nú, en þó tel ég, að aðalorsökin hafi verið, að ég óttaðist refsingu. Ég hef reynt að byrgja þetta inni, og geri ég mér ljóst, að ég hef barist á móti því að segja sannleikann um þetta mál. Mér finnst við þessar síðustu yfirheyrslur, að eitthvað sé að mér í höfðinu. Ég veit, að ég tók þátt í þessu og að ég ætti að geta sagt skýrt frá öllu, en þótt ég reyni
Bls. 219
að leggja mig fram, á ég erfitt með að greina á milli hugarburðar og veruleika. Ég hef frá barnsaldri neytt margvíslegra fíkniefna og eiturlyfja. Kann það að eiga sinn þátt í, að ég muni þessi mál óskýrt."
Þennan sama dag, hinn 6. október 1976, var Albert Klahn enn á ný yfirheyrður um málsatvik, og stóð sú yfirheyrsla frá klukkan 1130-1215, en fyrri yfirheyrslan hafði varað frá klukkan 0845 til 0945. Albert Klahn skýrði nú meðal annars svo frá:
"Seinni hluta dags, um kl. 1600 til 1700, nokkrum mánuðum eftir að ég flutti lík Guðmundar í hraunið, komu þeir Sævar Marinó og Kristján Viðar heim til mín. Ég man ekki, hvað okkur fór á milli, en ég fór með þeim á Toyota bifreið föður míns. Minnir mig, að fyrst hafi verið ekið heim til Kristjáns Viðars og sóttir plastpokar, en ég man þetta þó ekki örugglega. Þá held ég og, að ég hafi komið með skólfur, sem faðir minn átti, en þar var um að ræða stunguskóflu og að mig minnir steypuskóflu eða malarskóflu. Ég man þó ekki vel, hvort skóflurnar voru teknar með strax eða sóttar síðar. Eftir þetta var farið í Hafnarfjarðarhraun, og ég man, að það tók okkur nokkurn tíma að finna staðinn. Minnir mig, að Tryggvi Rúnar hafi verið með okkur og hann og Sævar Marinó hafi fundið staðinn, en þetta man ég þó ekki örugglega. Ég var ekki með, er líkamsleifarnar voru sóttar, en beið í bifreiðinni, og ég held, að Kristján Viðar hafi verið hjá mér. Þeir komu með pokann, og var hann settur í farangursgeymsluna. Að mig best minnir, var síðan eftir aftur til Reykjavíkur og haldið heim til Kristjáns Viðars. Ég þori ekki að fullyrða um staðinn í Hafnarfjarðarhrauninu, en held, að þetta hafi verið einhvers staðar á móti Álverinu, nokkuð langt úti í hrauninu. Ég man, að það var komið myrkur, er við vorum þarna, að minnsta kosti var eitthvað farið að skyggja. Það var síðan farið seint um kvöldið eða snemma þessa nótt frá Grettisgötunni í Fossvogskirkjugarð. Ég man, að ég ók fyrst inn á planið við Kapelluna. Síðan minnir mig, að ekið hafi verið út af planinu niður að girðingunni og að hliði. Við Kristján Viðar tókum pokann úr farangursgeymslunni og bárum hann að hliðinu eða stutt inn í garðinn, en ég man þó óljóst þennan burð. Þó man ég, að ég fór inn í bifreiðina, og minnir mig, að Kristján Viðar kæmi þangað rétt á eftir. Ég man örugglega, að ég sá þá Sævar Marinó og Tryggva Rúnar, þar sem þeir voru að grafa. Sat ég inni í bifreiðinni og fylgdist með þeim út um hliðarrúðu, en bifreiðinni var lagt meðfram girðingunni. Ég man ekki eftir neinni umferð
Bls. 220
um Reykjanesbrautina, og mig minnir, að það hafi verið einhver rigning.
Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar voru ekki lengi, en ég þori þó ekki að slá neinu föstu um tímann, sem þetta tók. Ég var ekki ölvaður og ekki undir neins konar áhrifum. Held ég örugglega, að eins hafi verið ástatt um hina og mig.
Mig minnir, að eftir að þetta var afstaðið, hafi verið farið heim til Kristjáns Viðars. Ég hef talað um ferð á Álftanes, og það er rétt, að þangað hef ég farið. Ég man eftir gröf við hlið bifreiðarinnar, en man ekki, hvort eitthvað var sett í þá gröf eða sótt í hana. Í þessari ferð voru þeir Sævar Marinó, Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar."
Hinn 11. október 1976 tók rannsóknarlögreglan nánari skýrslu af Albert Klahn Skaftasyni um flutning á líki Guðmundar Einarssonar úr Hafnarfjarðarhrauni í Fossvogskirkjugarð. Skýrði hann þá svo frá:
"Ég hef ekki enn getað komist að fullnaðarniðurstöðu um, hvort ég lagði af stað í umrædda ferð frá Hamarsbraut 11 eða frá heimili Kristjáns Viðars. Eftir því sem ég hugsa meira um þetta, er ég nokkurn veginn alveg viss um, að Tryggvi Rúnar var ekki með í ferðinni. Ég var örugglega á Toyota bifreið föður míns. Það var dagsbirta, þegar við fórum suður eftir. Ég man óljóst eftir, að ég hafi farið með strákunum frá bílnum út í hraunið, en man, að ég sá Guðmund í frekar djúpri gjótu eða laut. Ég held ég muni það rétt, að mosi eða eitthvað því um líkt hafi verið ofan á honum. Ég tel, að þeir hafi velt honum upp í plast eða einhvern svartan dúk, en ekki sett hann í poka. Þegar við vorum komnir í Fossvogsgarðinn, sá ég að snæri eða band var vafið utan um hann á einum þremur stöðum, en ekki man ég, hvernig það var til komið. Við Kristján Viðar bárum pokann inn í kirkjugarðinn, en Sævar Marinó mun hafa haldið á skólfum. Ég tel, að strax og við komum inn fyrir hliðið, höfum við beygt til vinstri niður eftir, en síðan fljótlega til hægri og þar inn í þrönga götu. Ég tel, að við höfum ekki gengið langt, og ekki man ég til, að við hvíldum okkur á leiðinni. Ég hygg, að ég hafi ekki mokað þarna, en þeir Sævar Marinó og Kristján Viðar grófu aflanga gryfju niður með austurhlið steinveggs eða kants. Ég sat þá á steinvegg rétt fyrir vestan þá, að ég tel, en man ekki, hvort gata eða stígur var á milli okkar. Ég tel mig vissan um, að þeir hafi grafið fyrir neðan stíginn og ekki hafi verið steinkantur milli stígsins og gryfjunnar. Einnig man ég eftir, að
Bls. 221
rétt hjá var leiði með slakri keðju. Ég man ekki, þegar mokað var ofan í gryfjuna, og tel því, að ég hafi þá verið kominn upp í bifreiðina utan við hliðið. Finnst mér, að ég hafi séð þá Kristján Viðar og Sævar Marinó í gegnum girðinguna, en það gæti hafa verið, þegar þeir voru að koma að bifreiðinni á eftir. Ég man ekki eftir, þegar verkfærin voru sett í bifreiðina, en tel, að þarna hafi verið um tvær skóflur að ræða og önnur hafi verið brotna skóflan, sem var alltaf í bílnum og ég hef nú afhent lögreglunni. Holan, sem þeir grófu þarna, var ekki djúp, en ég er ekki viss um, að hún hafi verið komin í fulla dýpt, er ég fór frá. Ég tel alveg öruggt, að þetta sé fyrir neðan hliðið, því að ég man greinilega, að ég gekk fyrst í áttina að girðingunni, er ég var á leiðinni í bílinn, og síðan upp með henni og út um hliðið. Eins tel ég, að þetta sé ekki langt inni í garðinum."
Hinn 22. febrúar 1977 tók rannsóknarlögreglan skýrslu af Albert Klahn Skaftasyni. Kvaðst hann þá ekki muna fyrir víst, hvernig hann hefði ekið bifreiðinni að húsinu Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði umrætt sinn. Hann hefði áður sagt frá því, að hann hefði ekið aftur á bak að húsinu, en héldi nú, að það hefði ekki verið rétt, líklega hefði hann ekið áfram að húsinu og stöðvað bílinn skammt frá útidyrunum. Hann hefði farið að útidyrum, hringt dyrabjöllu eða bankað og hefði Sævar Marinó komið til dyra. Albert Klahn kvaðst hafa ætlað að ganga inn í húsið, en Sævar Marinó hefði aftrað því og beðið sig um að bíða heldur úti í bíl. Albert Klahn kvaðst þá hafa farið í bílinn, en minntist þess ekki að hafa innt Sævar Marinó eftir því, hvers vegna hann vildi ekki, að hann kæmi inn. Ekki kvaðst hann hafa tekið eftir óeðlilegum viðbrögðum Sævars Marinós, öðrum en þeim, að hann vildi ekki hleypa honum inn. Albert Klahn kvaðst nú hafa sest inn í bílinn, en mundi ekki, hve langan tíma hann beið þar. Hann minnti, að Sævar Marinó hefði komið einn út fyrst og beðið sig um að opna farangursgeymsluna á bílnum, en það var gert með handfangi undir mælaborðinu. Hann hefði verið þarna á bíl föður síns, Volkswagen, árgerð 1957. Síðan hefði Sævar Marinó farið inn aftur. Þeir hefðu svo komið þrír og borið líkið á milli sín og hefði verið vafið utan um það hvítur dúkur eða ljósleitt stykki. Mennirnir hefðu í fyrstu ætlað sér að setja þetta í farangursgeymsluna, en þegar ekki hefði verið unnt að loka henni, hefði verið horfið frá því og líkið lagt á gólfið í bílnum á bak við framsætin. Hann taldi, að líkið hefði verið sett í bílinn hægra megin, en hann hefði ekki aðstoðað við það.
Bls. 222
Albert Klahn sagðist ekki hafa heyrt þá félagana hafa orð á því, að um lík var að ræða, og kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því. Þeir hefðu fyrst haft orð á því við sig, að um slíkt væri að ræða, er þeir voru að flytja það í kirkjugarðinn, en aldrei hefði verið nefnt hvers lík þetta væri.
Albert Klahn kvaðst ekki hafa séð neitt annað fólk á Hamrasbraut 11 en Tryggva Rúnar, Kristján Viðar og Sævar Marinó og hefðu þeir allir tekið þátt í að flytja líkið út í hraunið. Hann hefði áður lýst því, hvert hann teldi, að farið hefði verið með líkið, og margoft reynt að benda lögreglumönnum á þann stað. Gæti hann engu bætt við þá frásögn sína.
Albert Klahn var beðinn að gefa lýsingu á ástandi þeirra félaga, er þeir komu út í bílinn til hans við Hamarsbraut 11. Hann sagði, að sér hefði virst Tryggvi Rúnar vera langæstastur og engu líkara en hann væri eitthvað ruglaður. Sævar Marinó hefði verið í jafnvægi, en Kristján Viðar verið eins og hann væri undir annarlegum áhrifum, en annars væri mjög erfitt að sjá áhrif á honum. Albert Klahn minnti, að Kristján Viðar hefði verið klæddur í hálfsíðan mokkafrakka, en sagðist ekki geta munað eftir klæðnaði hans að öðru leyti. Hann hefði ekki tekið eftir því, hvort tölu vantaði á frakka Kristjáns Viðars og ekki heyrt þá minnast á neina tölu. Albert Klahn fullyrti, að eftir að þeir höfðu losað sig við líkið í Hafnarfjarðarhrauni og verið að leggja af stað, hefði hann ekki vitað fyrr til en Tryggvi Rúnar, sem sat í aftursæti, hefði tekið sig hálstaki aftan frá, þar sem hann sat undir stýri og var kominn á ferð. Tryggvi Rúnar hefði ekki gefið neina skýringu á þessu háttalagi sínu, en þegar Kristján Viðar skipaði honum að sleppa takinu, hefði hann gert það. Tryggvi Rúnar hefði tekið hálstakið þannig, að hann hefði sett handlegginn fram fyrir hann og hert að, þannig að haka hans var í olnbogabót Tryggva Rúnars.
Albert Klahn minntist þess ekki, að hann sæi blóðbletti á stykkinu, sem var vafið utan um líkið, og ekki hefði hann orðið var við neina blóðbletti eða aðra bletti í bílnum eftir þessa flutninga. Hann hefði ekki heldur fundið neina óvenjulega lykt, hvorki saurlykt né annars konar lykt. Hann mundi ekki eftir því að hafa séð hníf eða eggvopn í fórum Kristjáns Viðars eða hinna. Hins vegar sagðist hann hafa séð byssustyng heima hjá Kristjáni Viðari á Grettisgötu 82 og minnti, að það hefði verið, áður en þessi gerðist. Kristján Viðar hefði geymt byssustinginn uppi í skáp í stofu hjá móður sinni. Hann sagðist muna sérstaklega
Bls. 223
vel eftir þessu, því að hann hefði sjálfur reynt að fala byssustinginn af honum, en Kristján Viðar ekki viljað láta sig hafa hann. Kristján Viðar hefði sagt sér frá því, að hann hefði stolið byssustingnum frá Bárði Ragnari Jónssyni sumarið 1973. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa séð Kristján Viðar með byssustinginn við belti sitt.
Albert Klahn kveðst ekki hafa fengið neina greiðslu fyrir þessa flutninga. Hann hefði nokkrum sinnum fengið hass í pípu hjá Sævari Marinó, enda gert talsvert að því að reykja hass. Hann hefði einnig tekið mjög oft LSD, en yfirleitt í litlum skömmtum, 1/4 til 1/2 töflu í einu.
Albert Klahn gat ekki munað, hvar hann hefði verið kvöldið áður en þessi atburður gerðist. Hann minnti helst, að hann hefði verið staddur heima hjá sér, þegar hann fékk boðin um að koma á Hamarsbraut 11, en vel gæti verið, að hann hefði verið einhvers staðar annars staðar, þetta gæti hann alls ekki munað.
Albert Klahn kvaðst ekki hafa þekkt Guðmund Einarsson og ekki vitað til þess, að hann hefði haft neitt samband áður við þá Sævar Marinó, Kristján Viðar eða Tryggva Rúnar.
Albert Klahn treysti sér ekki til að benda á stað þann, sem líkið væri nú. Hann hélt fast við sinni fyrri framburð um það, að það síðasta, sem hann vissi, væri það, að það hefði verið sett í Fossvogskirkjugarð. Hann hefði sjálfur tekið þátt í að koma líkinu þar fyrir með þeim Kristjáni Viðari, Tryggva Rúnari og Sævari Marinó. Hann væri alveg viss um, að þeir hefðu allir verið við þetta. Albert Klahn mundi ekki fyrir víst, hvort líkið var sótt að nóttu eða degi, en hélt frekar, að það hefði verið að næturlagi. Sömu menn hefðu verið með í bílnum, en nú hefði hann verið á Toyota bíl föður síns. Hann sagði, að ekið hefði verið suður í hraun og þeir Tryggvi Rúnar og Sævar Marinó farið út úr bílnum, en hann og Kristján Viðar beðið þar. Sér hefði fundist biðin eftir þeim löng, um það bil ein klukkustund, og hefðu þeir sett líkið í geymsluhólfið á bílnum, er þeir komu.
Albert Klahn minnti, að ekið hefði verið fyrst heim til Kristjáns Viðars og seinna um kvöldið í kirkjugarðinn. Honum fannst það vera Sævar Marinó, sem stjórnaði þessu. Hann minnti, að þeir hefðu verið með tvær skóflur, önnur hefði verið í bílnum, en hin verið fengin heima hjá Kristjáni Viðari. Hann sagðist ekki muna eftir því, hvað gert hefði verið við skóflurnar.
Ekki kvaðst Albert Klahn hafa fundið neina lykt, þegar verið var að flytja líkið í kirkjugarðinn. Það hefði þá verið í svört-
Bls. 224
um plastpoka, og sagðist hann ekki hafa orðið var við, að leyst hefði verið frá pokanum og litið ofan í hann, hvorki á meðan hann var í bílnum né þegar verið var að fara með hann út í kirkjugarðinn. Þegar Albert Klahn var ítrekað aðspurður um það, hvort Tryggvi Rúnar hefði verið með við að koma líkinu fyrir í kirkjugarðinum, sagði hann, að hann væri alveg viss um, að hann hefði verið með við að sækja líkið út í hraunið, en hann væri ekki alveg viss um það, hvort hann hefði verið með við flutninginn heiman frá Kristjáni Viðari í kirkjugarðinn. Albert Klahn mundi ekki fyrir víst, hvenær þessir flutningar hefðu átt sér stað, en giskaði á júlí til ágúst 1974 og taldi, að þeir hefðu verið við þetta nálægt miðnætti. Hann hélt, að hann hefði verið kominn heim til sín um tvö leytið um nóttina. Ekki minntist hann þess, að aðrir hefðu verið heima hjá Kristjáni Viðari, þegar þeir fóru í þennan leiðangur í kirkjugarðinn. Hann hélt, að þeir hefðu ekki farið heim til Kristjáns Viðars, eftir að þetta var um garð gengið. Hann minnti, að sjálfur hefði hann farið beint heim til sín, en líklega hefði hann þó ekið hinum heim til Kristjáns Viðars.
Albert Klahn kvaðst ekki hafa heyrt neitt minnst á þennan atburð, eftir að hann gerðist. Hann sagði þó, að þeir hefðu allir lagt áherslu á það, Sævar Marinó, Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar, að þagað væri yfir ferðinni með líkið.
Dagana 4. og 5. mars 1977 var Albert Klahn Skaftason fyrirheyrður hjá rannsóknarlögreglu og í dómi. Tók hann fram í upphafi yfirheyrslunnar hjá rannsóknarlögreglunni fyrri daginn, að hann hefði nú ákveðið að gera hreint fyrir sínum dyrum og segja allan sannleikann í málinu. Yfirheyrslan hjá rannsóknarlögreglunni hinn 4. mars hófst kl. 1300 og stóð til kl. 0200, en hlé var gert á henni, á meðan ákærði var fyrir dómi, frá kl. 1750-1905 svo og klukkustundar matarhlé. Þar sem skýrslur þessar eru í öllum verulegum atriðum samhljóða, þykir ekki ástæða til að rekja þær hvora fyrir sig, en Albert Klahn skýrir frá málsatvikum á þessa leið:
Hann kvaðst hafa komið til Kristjáns Viðars að Grettisgötu 82, að hann minnti á milli kl. 2100 og 2200 að kvöldi laugardagsins 26. janúar 1974 með Gunnari Jónssyni, Lokastíg 18. Kristján Viðar var heima og hjá honum hefði verið Tryggvi Rúnar Leifsson. Þeir Tryggvi Rúnar og Kristján Viðar hefðu haft áfengi um hönd og líka verið með einhvers konar töflur. Komið hefði til tals, að þá langaði að fá LSD töflur, og verið ákveðið, að hann
Bls. 225
færi til Sigríðar Gísladóttur að Vesturgötu 24, því að hún mundi eiga þær til. Albert Klahn kvaðst hafa farið þangað og Gunnar Jónsson komið með sér. Sævar Marinó hefði verið staddur að Vesturgötu 24, er þeir komu þangað. Hann minnti, að hann hefði keypt 3-4 LSD töflur af Sigríði eða jafnvel fengið þær að láni.
Sævar Marinó hefði beðið sig um að aka sér að starfsmannahúsi Kópavogshælis, en hann færst undan því, vegna þess að hann hefði lent þar í átökum og væri óvelkominn. Þeir Gunnar hefðu síðan farið aftur að Grettisgötu 82, En Sævar Marinó orðið eftir á Vesturgötu 24. Albert Klahn mundi ekki betur en Kristján Viðar, Tryggvi Rúnar og Gunnar hefðu allir tekið eitthvað inn af þessum töflum, en treysti sér ekki til að segja nánar um það.
Þeir félagarnir hefðu allir verið peningalausir, og taldi Albert Klahn, að það hefði verið eftir uppástungu þeirra Kristjáns Viðars og Tryggva Rúnars sem ákveðið var að fara út að "bísa", eins og kallað er. Það væri í því fólgið að fara að skemmtistöðum og komst í samband við náunga, sem ættu peninga, eða stela veskjum.
Albert Klahn sagði, að þeir hefðu síðan farið út í Volkswagen bifreið föður hans, en bifreið þessa hafði hann til umráða. Þeir Tryggvi Rúnar og Kristján Viðar hefðu setið aftur í, en Gunnar við hlið hans í framsætinu. Hefði hann ekið að samkomuhúsunum Röðli, Þórscafé, Sigrúni og Klúbbnum um það leyti sem skemmtistöðum var lokað, að hann taldi. Hann sjálfur og Gunnar hefðu ekki tekið þátt í "bísinu", en bæði Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar haft sig í frammi. Ekki hefði orðið neinn árangur af þessu og hefði hann ekið að starfsmannahúsinu við Kópavogshæli í þeim tilgangi að hitta þar Sævar Marinó og reyna að fá lánaða hjá honum peninga.
Albert Klahn kvaðst hafa stöðvað bifreiðina á Kópavogsbrautinni gegnt umræddu húsi og hefði Kristján Viðar farið þar inn. Gunnar hefði farið út úr bifreiðinni til að hleypa honum út. Kristján Viðar hefði verið nokkurn tíma í burtu, um 10 til 15 mínútur eða svo, en borið sig illa, þegar hann kom aftur, því að Sævar Marinó hefði ekki viljað lána honum peninga. Þeir Tryggvi Rúnar og Kristján Viðar hefðu þá stungið upp á því að fara til Hafnarfjarðar og halda þar áfram að "bísa". Sævar Marinó hefði orði eftir á Kópavogshælinu, en hann hefði ekið til Hafnarfjarðar og taldi, að þangað hefðu þeir komið um það leyti sem dansleikjum var að ljúka. Fyrst sagðist hann hafa stansað neðarlega í brekkunni á Reykjavíkurvegi og hefðu þeir
Bls. 226
Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar farið þar út. Var ætlun þeirra að reyna að finna einhverja drukkna menn til að taka af þeim veski. Þá kvaðst hann hafa ekið áfram, snúið við, ekið aftur upp í brekkuna og numið staðar við gangstéttarbrún hinum megin á götunni á móts við samkomuhúsið Skiphól.
Þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar voru burtu í nokkra stund, 15-20 mínútur að Albert Klahn taldi, og beið Gunnar hjá honum í bifreiðinni á meðan. Hann hefði ekki veitt þeim Kristjáni Viðari og Tryggva Rúnari neina athygli, frá því þeir fóru úr bifreiðinni, þar til þeir komu aftur. Þá hefði verið með þeim maður, sem hann þekkti ekki, en Kristján Viðar virtist þekkja. Maður þessi hefði verið 18-20 ára að aldri hár grannur, með mikið dökkt og sítt, liðað hár. Hann sagðist ekki muna, hvernig hann var klæddur, en hann var í frekar fínum fötum. Maður þessi hefði verið talsvert drukkinn, en ekki slagað. Hann hefði verið stilltur og kurteis. Þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar hefðu aldrei nefnt manninn með nafni eða hann myndi ekki til þess. Þeir hefðu spurt sig að því, hvort maðurinn mætti koma með í bifreiðinni, og hann tekið því vel. Þeir hefðu síðan allir komið upp í bifreiðina og sest í aftursæti. Albert Klahn hugði, að það hefði verið Kristján Viðar, sem lagði það til, að þeir færu að Hamarsbraut 11 og reyndu að slá þar upp "partíi". Þangað hefði hann ekið, en enginn verið heima og slökkt í íbúð Sævars Marinós. Kristján Viðar hefði farið fyrst inn, en með hverjum hætti, mundi hann ekki. Hann hefði opnað húsið og hafi þeir allir farið þangað inn. Myrkur var í íbúðinni. Albert Klahn var kunnugt um, að þarna bjuggu Erla Bolladóttir og Sævar Marinó. Hann hefði tvisvar sinnum komið þar áður, í annað skiptið ekið Sævari Marinó þangað, en í hitt skiptið Erlu og fleira fólki.
Þegar inn var komið, hefði verið farið að ræða um að kaupa saman áfengisflösku. Sævar Marinó hefði komið heim stuttu seinna. Ekki kvaðst Albert Klahn hafa séð, að hann væri undir áhrifum áfengis. Sævar Marinó hefði virst hissa á veru þeirra þarna og spurt þá, hvað þeir væru að gera. Ekki hefði hann samt óskað eftir því, að þeir færu í burtu. Síðan hefði einhver meðákærðu spurt manninn, hvort hann ætti peninga til kaupa á áfengisflösku, en hann eins og færst undan því eða svarað því neitandi. Voru þeir staddir í fremri stofu í íbúðinni á þessum tíma. Þetta hefði síðan magnast á milli þeirra og hefðu meðákærðu farið að þreifa fyrir sér hjá manninum, hvort hann væri
Bls. 227
með veski. Hefði Kristján Viðar byrjað á því að hrinda manninum og rétt á eftir hefði Tryggvi Rúnar hlaupið að honum og slegið til hans. Maðurinn hefði reynt að verja sig, eftir því sem hann gat, og slegið á móti, en verið fljótlega yfirbugaður. Hafði viðureignin þá borist inn í hitt herbergið. Albert Klahn kvað meðákærðu alla þrjá saman hafa ráðist á manninn og barið hann, uns hann féll á gólfið meðvitundarlaus. Var atlagan að manninum hrottafengin, en stóð aðeins skamma stund. Ákærði kveðst ekki hafa séð, hver sló manninn niður, og ekki geta vorið um það, en telur, að Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar hafi báðir verið þar að verki. Ekki varð hann var við, að maðurinn reyndi að koma sér út, enda ekki ráðrúm til þess, að virtist sem maðurinn hefði heldur ekki rænu á því, Albert Klahn sá ekki, hvað gerðist, eftir að maðurinn var fallinn, og ekki, að meðákærðu tækju veski af honum. Hann sá ekki, að nein vopn eða barefli væru notuð á manninn, og varð ekki var við, að meðákærðu væru með hníf. Hann sá ekki, að meðákærðu tækju manninn haustaki eða hann einhvern þeirra.
Í lögregluskýrslu skýrði Albert Klahn frá því, að þegar átökin höfðu borist inn í innra herbergið, hefði Sævar Marinó farið að skipta sér af þeim, en hann hefði ekki séð Sævar Marinó slá eða sparka til mannsins.
Maðurinn lá á gólfinu eftir átökin, og hélt Albert Klahn, að hann hefði rotast. Hann sá ekki blóð á manninum, og ekki sá hann heldur blóð á gólfinu eða annars stðar. Albert Klahn varð aldrei var við, að nein verðmæti væru tekin af manninum, hvorki veski, úr né aðrir munir. Hann kvað þá Gunnar hafa setið í fremri stofunni á einhvers konar bekk, á meðan á viðureigninni stóð, og engan þátt tekið í henni. Þeir Gunnar hefðu ekki nefnt við meðákærðu að hætta árásinni á manninn, enda hefði þetta, svo sem áður greinir, gerst allt svo fljótt, að ekkert ráðrúm hefði verið til þess.
Albert Klahn mundi, að Gunnari var ekkert um að vera þarna. Var það annað hvort, að meðákærðu báðu hann að fara með Gunnar eða að Gunnar bað um það sjálfur. Þegar Albert Klahn fór á brott, lá maðurinn á gólfinu, en ekkert var minnst á, að hann væri alvarlega slasaður eða látinn. Albert Klahn ók Gunnari heim til hans að Lokastíg 18 hér í borg.
Hann var í burtu í rúman hálftíma. Þegar hann kom aftur að Hamarsbraut 11, minnti hann, að hann hefði lagt bifreiðinni á bílastæði sunnan við húsið. Síðan hefði hann farið að dyrunum
Bls. 228
og bankað. Sævar Marinó hefði komið til dyra, beðið hann að færa bifreiðina að tröppunum og bíða í henni. Hann sagðist alveg muna eftir því, að hann hefði ekki farið inn í húsið aftur, og hefði hann gert það, sem Sævar Marinó bað hann um.
Albert Klahn minnti, að Sævar Marinó hefði komið út og beðið sig um að opna farangursgeymsluna. Rétt á eftir hefðu þeir komið út allir þrír og borið lík mannsins á milli sín. Utan um líkið hefði verið vafið hvítu léreftsstykki, sem leit út fyrir að geta verið lak. Lakið eða léreftið hefði hulið líkið að öllu leyti. Þeir hefðu í fyrstu reynt að koma líkinu fyrir í farangursgeymslunni, en horfið frá því, þegar ekki var hægt að loka henni. Síðan hefðu þeir sett líkið á gólfið í bifreiðinni á milli sætanna. Hann hefði aldrei orðið var við neitt lífsmark með manninum, eftir að hann var borinn út í bifreiðina.
Þegar líkinu hafði verið komið fyrir í bifreiðinni, hefðu þeir Tryggvi Rúnar og Kristján Viðar sest aftur í, Tryggvi Rúnar vinstra megin, en Kristján Viðar hægra megin. Hann sagðist muna vel eftir því, að Kristján Viðar virtist vera feiminn við að láta fætur sína hvíla ofan á líki mannsins. Hann taldi, að höfuð mannsins hefði verið þeim megin í bifreiðinni, sem Kristján Viðar var, þ. e. hægra megin. Þegar búið var að setja líkið í bifreiðina, hefði Sævar Marinó aðeins skroppið inn aftur, en verið fljótur, og síðan sest í framsætið við hlið hans. Hefði að því búnu verið ekið á brott. Hann sá aldrei Erlu Bolladóttur að Hamarsbraut 11 þessa nótt.
Albert Klahn taldi, að Sævar Marinó hefði ráðið ferðinni. Ekið hefði verið suður fyrir Hafnarfjörð, fyrst inn á Sædýrasafnsveginn og hefði verið stansað við Sædýrasafnið. Þar hefðu Tryggvi Rúnar og Sævar Marinó farið út úr bifreiðinni og gengið að hliðinu, sem var læst. Hann kvaðst muna eftir því, að Kristján Viðar hefði kallað til þeirra eitthvað á þá leið, hvort þeir væru brjálaðir. Þá hefðu þeir fljótlega komið aftur inn í bifreiðina.
Að fyrirlagi Sævars Marinós hefði síðan verið ekið að gömlu Reykjanesbrautinni og nokkurn spöl eftir henni. Taldi hann, að á móts við Álverið hefði hann beygt til vinstri inn á afleggjara og ekið eftir honum nokkurn spöl, 2-3 km leið. Þá hefði hann að beiðni Sævars Marinós stöðvað og snúið við. Þarna hefði líkið verið tekið út úr bifreiðinni hægra megin og þeir síðan allir þrír borið það eitthvað út í hraunið. Áður en þeir fóru, varð að ráði að hafa ljós bifreiðarinnar kveikt. Hann minntist þess og, að Kristján Viðar hafði orð á því við sig, áður en þeir fóru
Bls. 229
af stað með líkið, og horfa ekki á eftir þeim og reyna ekki að fylgjast með ferðum þeirra, það væri honum fyrir bestu. Sjálfur sagðist hann hafa farið eftir þessum ráðum og ekki litið í átt til þeirra, fyrr en þeir voru komnir alllangt frá bifreiðinni og þeir horfið þar út í myrkrið. Albert Klahn sagðist ekki vita, hve langt þeir fóru.
Þeir hefðu verið um hálfa klukkustund í burtu og komið saman til baka. Hann hefði ekki orðið var við, að þeir væru með neitt meðferðis, hvorki lak né annað. Hann minntist þess ekki, að þeir hefðu verið með neitt verkfæri til að urða líkið, og þeir ræddu ekkert um líkið eða annað því viðkomandi á eftir í bifreiðinni.
Hann hefði síðan ekið af stað áleiðis til baka. Þá hefði Tryggvi Rúnar tekið sig hálstaki, svo að honum lá við köfnun, en Kristján Viðar sagt við Tryggva Rúnar, að þetta væri óþarfi, og um leið tekið í Tryggva Rúnar, sem þá hefði sleppt takinu. Hann vissi ekki, hvað Tryggvi Rúnar ætlaðist fyrir með þessu, en Kristján Viðar hefði sagt rétt á eftir í tilefni af þessu, að Tryggvi Rúnar væri brjálaður. Hann taldi, að Sævar Marinó hefði síðar beðið sig að þegja yfir því, sem hann hefði orðið vitni að.
Eftir þetta var ekið aftur að Hamarsbraut 11, og mundi Albert Kalhn ekki betur en Sævar Marinó hefði farið þar úr bifreiðinni. Hann minnti, að hinir tveir hefðu farið með honum til Reykjavíkur og hann ekið þeim að Grettisgötu 82. Sjálfur hefði hann farið heim til sín að Njálsgötu 44, og giskaði hann á, að þá hefði klukkan verið orðin 0400 um nóttina.
Albert Klahn sagðist ekki hafa orðið var við neinn blóðblett eða neina aðra bletti í bifreiðinni eftir þessa flutninga og ekki hafa séð neina bletti í léreftsstykkinu, sem sveipað hefði verið utan um líkið. Ekki mundi hann heldur eftir því að hafa fundið vonda lykt, hvorki inni á Hamarsbraut 11 né inni í bifreiðinni, þegar verið var að flytja líkið.
Albert Klahn kvað Kristján Viðar og Tryggva Rúnar hafa bæði verið með áfengisáhrifum og undur áhrifum lyfja, en verð ekki var við, að þannig væri ástatt um Sævar Marinó. Sjálfur hefði hann ekki neytt áfengis eða lyfja. Hann mundi ekki til þess, að maðurinn kallaði meðákærðu "dópista".
Albert Klahn kvaðst breyta fyrri framburði til samræmis við það, er nú hefur verið rakið.
Albert Kalhn hefur skýrt frá því, að um miðjan ágúst 1974, hvaða dag mundi hann ekki, hefði Sævar Marinó sagt við sig, að
Bls. 230
hann vildi láta flytja lík mannsins úr hrauninu, en ekki nefndi hann af hvaða tilefni. Þetta var að Grettisgötu 82, heima hjá Kristjáni Viðari, og var Tryggvi Rúnar viðstaddur. Í lögregluskýrslu greinir Albert Klahn frá því, að Sævar Marinó hafi hringt heim til hans og beðið hann að koma að Grettisgötu 82. Var ákveðið að hefjast handa samdægurs.
Undir kvöldið var lagt af stað í ferðina á bifreið föður ákærða, sem var af Toyota gerð, en skrásetningarnúmer mundi ákærði ekki. Hefði verið reykt hass heima hjá Kristjáni Viðari, áður en farið var þaðan. með í ferðinni voru Kristján Viðar, Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar. Þeir höfðu meðferðis 1 eða 2 skóflur, er Kristján Viðar átti. Einnig var hafður meðferðis stór poki úr svörtu plasti eða strangi úr plasti. Ekið var á stað þann í hrauninu að tilvísan Sævars Marinós, þar sem manninum hafði verið komið fyrir. Fóru Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar að sækja líkið, en Kristján varð eftir í bifreiðinni hjá ákærða. Eftir um 1 klst. eða svo komu þeir Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar aftur og höfðu meðferðis plastpoka með einhverju í eða stranga með plasti utan um og bundið um með snæri. Settu þeir þetta í farangursgeymslu bifreiðarinnar. Biðu þeir síðan í um 2 tíma, uns dimmt var orðið, en þá var ekið til Hafnarfjarðar. Ekki fann Albert Klahn neina lykt koma upp í bifreiðinni af líkinu.
Þegar til Hafnarfjarðar kom, var staðnæmst við kirkjugarðinn. Fóru þeir allir þar inn og var tekin gröf á milli leiða einhvers staðar í norðausturhorni hans. Gröfin var við leiði, um 2 metra löng, um 40 cm breið og 50-60 cm á dýpt. Þegar lokið var við gröftinn, var líkið sótt í bifreiðina. Var það borið inn í kirkjugarðinn um eystra hlið á norðurvegg, síðan meðfram veggnum og loks smáspöl inn í garðinn, þar sem gröfin var. Líkið var að því búnu látið í gröfina og mokað yfir. Minnti Albert Klahn, að Kristján Viðar og Sævar Marinó hefðu gert það. Hann taldi, að notaðar hefðu verið tvær skóflur, önnur sennilega úr bifreið föður hans, en hin frá Kristjáni Viðari. Albert Klahn vissi ekki, hvar skóflurnar væru niður komnar. Hann átti að hafa gætur á mannaferðum, á meðan á þessu stóð. Hann vissi ekki, hvernig meðákærðu gengu frá gröfinni, eftir að þeir voru búnir að grafa líkið.
Albert Klahn kvaðst ekki vita, hvað klukkan var, þegar þetta var um garð gengið, en taldi líklegt, að það hefði verið á milli klukkan tvö og þrjú um nóttina. Hann minnti, að hann hefði ekið Tryggva Rúnari heim til hans að Selásbletti 14, en hinum
Bls. 231
að Grettisgötu 82. Hann veit ekki til, að hreyft hafi verið við líkinu eftir þetta.
Albert Klahn sagðist nú hafa sagt allan sannleikann í málinu eins og hann gæti best munað. Fyrri framburðir hans, sem ekki komi heim við þessa skýrslu, séu ekki réttir. Hann væri reiðubúinn að gera allt, sem í hans valdi stæði, til að mál þetta upplýstist að öllu leyti.
Hinn 21. mars 1977 kom Albert Klahn Skaftason fyrir dómþing sakadóms hjá dómurum máls þessa. Var skýrsla hans þá í verulegum atriðum í samræmi við skýrslu hans í dómi og hjá lögreglu dagana 4. og 5. mars sl., og verður því skýrslan í heild ekki rakin, en getið breytinga og viðauka.
Albert Klahn skýrði frá því, að hann hefði kynnst Kristjáni Viðari og Sævari Marinó, er þeir voru saman í barnasóla, og hefðu kynni þeirra haldist síðan. Hann kynntist Tryggva Rúnari árið 1972. Hefði hann mikil samskipti átt við Kristján Viðar og Sævar Marinó, en lítil við Tryggva Rúnar.
Albert Klahn kvaðst hafa numið staðar við bensínstöð, sem er við Strandgötu, skammt frá Reykjavíkurvegi, þegar komið var til Hafnarfjarðar umrædda nótt um kl. 0200, og hefðu þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar farið þar úr bifreiðinni. Hann minnti, að Kristján Viðar hefði verið með yfirhöfn, en Tryggvi Rúnar hins vegar ekki. Hann minntist þess ekki að hafa séð Kristján Viðar fara úr jakkanum.
Albert Klahn var í dóminum sýnd mynd af Guðmundi Einarssyni. Hann staðfesti, að myndin væri af sama manni og kom í bifreið hans með Kristjáni Viðari og Tryggva Rúnari aðfaranótt 27. janúar 1974 í Hafnarfirði. Honum fannst Kristján Viðar þekkja Guðmund Einarsson, en hins vegar fannst honum Tryggvi Rúnar ekki þekkja hann. Albert Klahn kvaðst ekki geta staðhæft, hvort Guðmundur hefði verið í yfirhöfn, en minnti frekar, að svo hefði verið.
Á leiðinni að Hamarsbraut 11 var rætt um það að halda áfram drykkju, og fannst Albert Klahn Guðmundur fara þangað í boði þeirra Kristjáns Viðars og Tryggva Rúnars. Hann mundi, að þeir Gunnar Jónsson hefðu verið í innra herberginu að Hamarsbraut
Bls. 232
11, er átökin byrjuðu. Kvað hann hafa verið um misminni hjá sér að ræða, að þeir hefðu verið í fremri stofunni. Hann, Guðmundur og Gunnar Jónsson hefðu allir verið í sama herbergi, þegar átökin byrjuðu.
Átökin hófust, að sögn Alberts Klahn með því, að meðákærðu fóru þess á leit við Guðmund, að hann legði út fyrir áfengisflösku. Guðmundur var tregur til, en hafði ekki gefið afsvar. Reyndu Kristján Viðar og Sævar Marinó að ná af honum viski hans. Guðmundur snerist til varnar, og sá Albert Klahn þá aldrei ná af honum veskinu. Hann kvaðst þó telja, að svo hefði verið. Kristján Viðar hefði byrjað átökin með því að hrinda Guðmundi, en síðan ráðist á hann. Þeir hefðu notað þessa aðferð við að ná veskjum af mönnum, að því þeir hefðu sagt honum. Hann kvaðst hafa séð Sævar Marinó reyna að ná veskinu af Guðmundi, en ekki varð hann var við, að hann aðhefðist meira. Albert Klahn varð ekki var við, að Sævar Marinó færi burtu, meðan á átökunum stóð. Hann sá ekki Sævar Marinó sparka í höfuð Guðmundar, eftir að hann var fallinn í gólfið, en verið geti, að svo hafi verið, þótt hann sæi það ekki. Eftir að átökin byrjuðu milli Guðmundar og Kristjáns Viðars, tók Tryggvi Rúnar þátt í þeim. Greiddi hann Guðmundi hnefahögg í andlitið, en hve mörg, gat hann ekki sagt um. Hann minntist þess, að Guðmundur kastaðist upp að vegg við högg frá Tryggva Rúnari. Guðmundur féll í gólfið og lá endilangur í fremra herberginu að átökunum afstöðnum. Sá hann ekki lífsmark með Guðmundi og arð þess ekki var, að hann reyndi að rísa upp.
Albert Klahn var bent á, að nokkurs misræmis gætti í skýrslu hans nú og fyrri dómskýrslum. Hann tók fram af því tilefni, að hann gæti ekki munað nákvæmlega um átökin í öllum smáatriðum, hann hefði ekki séð öll átökin. Hann hefði setið setið kyrr, á meðan þau fóru fram, og hið sama sé að segja um Gunnar Jónsson. Þeir hafi engan þátt átt í átökunum og ekki hvatt meðákærðu til þeirra.
Albert Klahn kvað Kristján Viðar hafa átt byssusting og stundum verið með hann. Hann kvaðst ekki hafa sé Kristján Viðar stinga Guðmund með byssustingnum og mundi ekki eftir að hafa séð Kristján Viðar með hann að Hamarsbraut 11 umrætt sinn.
Albert Klahn fannst Sævar Marinó hafa forystu um flutninga á líki Guðmundar. Hann staðhæfði, að Sævar Marinó hefði verið með í ferðinni, er lík Guðmundar var flutt aðfaranótt 27. janúar
Bls. 233
1974, og að lak hefði verið utan um líkið. Hann mundi eftir því, að á leiðinni suður eftir, er þeir voru að flytja líkið, að meðákærðu ræddu um, hvar þeir ættu að fela líkið, en ekki mundi hann eftir, að annað hefði verið rætt.
Albert Klahn staðhæfði, að Gunnar Jónsson hefði ekki verið með í ferðinni. Hann hefði hitt Gunnar í nokkur skipti eftir framangreindan atburð, en þeir aldrei rætt um það, er gerst hafði. Gunnar fór af landi brott um mitt sumar 1974.
Albert Klahn var beðinn að gefa skýringu á því misræmi, sem er í framburðum hans í mál þessu. Hann kvaðst ekki geta gefið frekari skýringar á því en áður hefur verið gert. Hann kvað þá skoðun hans, að hann gæti átt refsingu í vændum, ef upp kæmist um mál þetta, ekki hafa haft áhrif á framburði sína í málinu. Meðákærðu hefðu aldrei nefnt við hann, hvað hann ætti að segja ef upp kæmist, hvernig dauða Guðmundar Einarssonar hefði borið að höndum, en búið var að gefa honum í skyn, hvað það mundi þýða fyrir hann, ef hann segði frá.
Hinn 28. mars 1977 fór fram í dómi samprófun ákærðu Alberts Klahn Skaftasonar og Kristjáns Viðars Viðarssonar.
Í framburði ákærða Alberts Klahn hafði komið fram, að ákærðu hefðu að kvöldi 26. janúar og aðfaranótt 27. janúar 1974 farið að ýmsum samkomuhúsum í borginni til að sjá út drukkna menn og taka af þeim veski. Albert Klahn kvað þetta kallað að fara á "bísann", svo sem áður greinir. Albert Klahn kvaðst halda fast við þennan framburð sinn. Kristján Viðar kvað þá hafa ætlað að hitta kunningja til að komast með þeim í heimahús til að geta verið við drykkju. Frekara samræmi náðist ekki um þetta atriði.
Kristján Viðar hefur haldið því fram, að hann, Tryggvi Rúnar og Guðmundur Einarsson hafi farið fótgangandi frá bifreið Alberts Klahn, er stóð í nánd við Skiphól nótt þá, er að framan greinir, að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði.
Albert Klahn kvað þetta vera rétt og hefði verið um misminni hjá sér að ræða, er hann sagði, að hann hefði ekið þeim. Hann mundi ekki eftir, að hann sæi til ferða þeirra á leiðinni. Nánar aðspurður um þetta sagði Albert Klahn, að hann myndi eftir því, að þeir 3 hefðu komið að bifreiðinni til hans við Skiphól og beðið hann að aka sér, en hann ekki viljað á það fallast. Sagði hann, að sér hefði ekki fundist maðurinn, sem var með Kristjáni Viðari og Tryggva Rúnari, viðkunnanlegur. Kristján Viðar, Tryggvi Rúnar og Guðmundur hefðu beðið hann að aka sér til
Bls. 234
Reykjavíkur. Þeir hefðu sagst ætla að Hamarsbraut 11, en hann ekki viljað fallast á að aka þeim til Reykjavíkur. Albert Klahn ók til Reykjavíkur, en síðan aftur til Hafnarfjarðar að Hamarsbraut 11. Þegar þeir Gunnar Jónsson, sem með honum var, komu að Hamarsbraut 11, voru Kristján Viðar, Tryggvi Rúnar og Guðmundur komnir þar inn. Albert Klahn mundi ekki, hvort Sævar Marinó var þá kominn, en hann kom alveg um þetta leyti.
Albert Klahn mundi ekki eftir, að hann hefði séð Guðmund Einarsson áður. Hann kvaðst hafa séð Kristján Viðar taka inn svefntöflur að Hamarsbraut 11 og eins Tryggva Rúnar. Kristján Viðar taldi það rétt vera, að Tryggvi Rúnar hefði tekið inn svefntöflur.
Albert Klahn kvað Kristján Viðar og Tryggva Rúnar hafa verið búna að tala um það, að þeir ætluðu að hafa samkvæmi að Hamarsbraut 11. Hefði Sævar Marinó verið búinn að láta liggja að því áður, að hann væri á heimleið. Albert Klahn mundi ekki, hvort hann og meðákærðu voru búnir að ákveða að hittast að Hamarsbraut 11, er hann fór á brott frá þeim við Skiphól. Albert Klahn kvað þá alla hafa sest niður, er þeir voru komnir að Hamarsbraut 11.
Kristján Viðar kvað þetta geta verið, en mundi það ekki fyrir víst.
Framburður Alberts Klahn um átökin að Hamarsbraut 11 aðfaranótt 27. janúar 1974, er Guðmundur Einarsson beið bana, var þessu næst lesinn í heyranda ljóði í dóminum. Kristján Viðar kvaðst nú minnast þess, að Gunnar Jónsson hefði verið í svefnherberginu að Hamarsbraut 11, er átökin byrjuðu, en hvar Albert Klahn var, mundi hann ekki. Kristján Viðar sagði það rétt vera, að hann hefði ýtt við Guðmundi, svo sem Albert Klahn segði. Tilefnið hefði verið það, að hann hefði boðið Guðmundi töflur, en hann ekki þegið þær og ætlað að taka þær af sér. Albert Klahn kvaðst ekki muna eftir þessu. Kristján Viðar sagði það ekki rétt, að þeir hefðu farið að þreifa á Guðmundi til að vita, hvort hann væri með veski. Albert Klahn kvað sér hafa sýnst átökin byrja með því, að meðákærðu hefðu farið að þreifa á Guðmundi til að kanna, hvort hann væri með veski. Hefði Kristján Viðar byrjað að hrinda Guðmundi og rétt á eftir hefði Tryggvi Rúnar hlaupið að honum og slegið til hans.
Kristján Viðar neitaði að hafa verið að sækjast eftir veski Guðmundar, en sagði Tryggva Rúnar hafa slegið hann. Hann minntist þess ekki að hafa tekið þátt í viðureigninni við Guð-
Bls. 235
mund, fyrr en eftir að hann hafði fallið í fyrra skiptið og var staðinn upp aftur. Það væri ekki rétt hjá Albert Klahn, að þeir hefðu ráðist allir 3 saman á Guðmund og barið hann, uns hann féll á gólfið meðvitundarlaus. Kristján Viðar kvaðst halda fast við fyrri framburð sinn um það, sem gerðist, er Guðmundur beið bana.
Framburður Kristjáns Viðars um átökin var nú lesinn í heyranda hljóði í dóminum. Albert Klahn kvaðst ekki geta skýrt nánar frá átökunum en hann hefði áður gert. Hann mundi, að hann sá Kristján Viðar, Sævar Marinó og Tryggva Rúnar í átökum við Guðmund í dyrunum milli svefnherbergis og stofu. Hann hefði ekki séð Guðmund standa á fætur aftur, eftir að hann féll í gólfið. Albert Klahn kvaðst ekki hafa séð ákærða Kristján Viðar slá Guðmund niður, svo sem hann segði. Samræmi náðist ekki í framburðum ákærðu um þetta atriði.
Ákærðu bar saman um, að ekið hefði verið að Hamarsbraut 11 aftur, eftir að lík Guðmundar hafði verið flutt út í Hafnarfjarðarhraun. Sævar Marinó hefði farið smástund inn að Hamarsbraut 11, en komið aftur, og síðan hefði verið ekið áleiðis til Reykjavíkur.
Kristján Viðar hélt því fram, að staðnæmst hefði verið í nánd við höfnina í Hafnarfirði, hann farið þar úr bifreiðinni og hent veski Guðmundar í sjóinn. Albert Klahn kvaðst ekki kannast við þetta, a. m. k. myndi hann ekki eftir þessu.
Albert Klahn taldi, að Sævar Marinó hefði farið úr bifreiðinni við Kópavogshælið á heimleiðinni. Kristján Viðar sagðist ekki viss um þetta. Hann minnti frekar, að Sævar Marinó hefði verið í bifreiðinni, þegar að Grettisgötu 82 kom og þeir Tryggvi Rúnar fóru úr henni. Albert Klahn kvaðst muna eftir því, að numið var staðar í nánd við Kópavogshælið, Sævar Marinó hefði farið þar inn og verið inni í langan tíma. Hann kvaðst ekki alveg þora að fullyrða, hvort hann hefði orðið eftir, en var frekar á því. Kristján Viðar kvaðst vilja fullyrða, að Sævar Marinó hefði verið í bifreiðinni, er hann og Tryggvi Rúnar fóru úr henni að Grettisgötu 82, og hefði Sævar Marinó farið á brott með Albert Klahn. Náðist ekki frekara samræmi um þetta.
Lesinn var í dóminum framburður Alberts Klahn um hálstak það, er Tryggvi Rúnar tók á honum, eftir að þeir komu úr hrauninu frá því að flytja lík Guðmundar Einarssonar. Kristján Viðar kvaðst muna eftir þessu, en ekki vita, hvers vegna Tryggvi Rúnar gerði þetta.
Bls. 236
Albert Klahn skýrði frá því, að ekið hefði verið að enda Álversins, sem er fjær Hafnarfirði, er lík Guðmundar Einarssonar var flutt í Hafnarfjarðarhraun. Hefði verið ekið þar út fyrir veginn og eftir vegi, sem er samsíða Reykjanesbraut, til baka. Síðan hefði verið beygt inn á afleggjara, sem er um það bil á móts við mitt Álverið, og ekið inn í hraunið beina stefnu, en ekki beygt til vinstri frá því eftir afleggjara, a. m. k. einn kílómeter, uns ekki var hægt að aka lengra með góðu móti. Kristján Viðar kvað þetta rétt.
Framburður Alberts Klahn um flutning á líki Guðmundar Einarssonar úr hrauninu við Hafnarfjörð í kirkjugarðinn í Hafnarfirði í ágúst 1974 var nú lesinn í heyranda hljóði í dóminum. Kvaðst Albert Klahn halda fast við þennan framburð sinn. Kristján Viðar kannaðist ekki við að hafa tekið þátt í flutningi á líki Guðmundar úr Hafnarfjarðarhrauni, svo sem Albert Klahn bæri, og vissi ekki til, að meðákærðu hefðu flutt líkið. Hann kvaðst ekkert hafa hreyft við líki Guðmundar, eftir að því hefði verið komið fyrir í Hafnarfjarðarhrauni aðfaranótt 27. janúar 1974. Kristján Viðar kvaðst ekki geta bent á, hvar lík Guðmundar væri niður komið. Kristján Viðar kvaðst aldrei hafa grafið neitt í kirkjugarðinum í Hafnarfirði og aldrei hafa komið þar inn.
Samprófun þeirra ákærðu Alberts Klahn Skaftasonar og Sævar Marinós Ciesielski fyrir dómi fór fram hinn 31. marsw 1977. Var framburður Alberts Klahn, að því er snerti Sævar Marinó, lesinn í heyranda hljóði í dóminum. Albert Klahn kvaðst halda fast við framburð sinn. Sævar Marinó kvað framburðinn rangan að öllu leyti, nema að meðákærðu hefðu komið að starfsmannabústaðnum við Kópavogshæli og beðið hann um peningalán. Samræmi náðist ekki, og var samprófun án árangurs.
Hinn 31. mars 1977 fór og fram í dómi samprófun ákærðu Alberts Klahn Skaftasonar og Tryggva Rúnars Leifssonar. Var framburður Alberts Klahn lesinn í heyranda hljóði í dóminum, og kvaðst hann halda fast við framburðinn í öllum atriðum. Albert Klahn var skýrt frá framburði Tryggva Rúnars þess efnis, að Tryggvi Rúnar hefði ekki verið með meðákærðu að kvöldi 26. janúar og aðfaranótt 27. janúar 1974, er Guðmundur Einarsson beið bana í átökum að Hamarsbraut 11. Ákærðu héldu báðir fast við framburði sína, og náðist ekki samræmi.
Hinn 3. maí 1977 staðhæfði ákærði Albert Klahn Skaftason á dómþingi sakadóms, að hann og Gunnar Jónsson hefðu komið
Bls. 237
að Grettisgötu 82 um kvöldmatarleytið 26. janúar 1974. Voru þeir á Volkswagen bifreið, sem faðir ákærða átti. Ákærði lagði bifreiðinni á Grettisgötu, skammt frá húsinu nr. 82. Þeir fóru heim til Kristjáns Viðars og höfðu þar um klukkutíma viðdvöl. Kristján Viðar var heima hjá sér, og Tryggvi Rúnar var þar einnig. Ákærði kvað Gunnar hafa kannast við Kristján Viðar, en taldi, að hann hefði ekki þekkt Tryggva Rúnar. Sævar Marinó var ekki þarna, og sá ákærði hann ekki á Grettisgötu 82 þetta kvöld. Ákærði vissi, að Gunnar Jónsson kannaðist við Sævar Marinó. Gunnar hafði komið þarna áður, og taldi ákærði, að það hefði verið skömmu fyrir jól. Ákærði mundi ekki, hverjir voru þarna þá, að undanskildum Kristjáni Viðari.
Ákærði og Gunnar fóru brott af Grettisgötu 82, er þeir höfðu verið þar í um klukkustund, en komu aftur þangað, og giskaði ákærði á, að klukkan hefði þá verið um 2200. Þeir voru að Grettisgötu 82, þar til um miðnætti, er þeir fóru út saman að aka um borgina. Gunnar sat í framsæti við hlið ákærða, en þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar í aftursæti. Gunnar sat síðan í framsæti bifreiðarinnar, á meðan á akstrinum stóð um nóttina. Ákærða var ekkert sérstakt minnisstætt um Gunnar, á meðan á akstrinum stóð. Gunnar hafði neytt einhvers áfengis, en var ekki ölvaður. Ákærði vissi hins vegar ekki til þess, að hann hefði neytt lyfja.
Ákærði kvað hafa verið ekið fram hjá lögreglustöðinni í Hafnarfirði á leiðinni að Hamarsbraut 11, en þá voru ákærði og Gunnar tveir einir í bifreiðinni. Ákærði mundi ekki eftir að hafa ekið með Gunnari í annað skipti í Hafnarfirði. Erindi þeirra Gunnars á Hamarsbrautina hefði verið að athuga með hass, að því er hann taldi, en hann vissi, að Sævar Marinó hafði haft hass til sölu.
Þeir fóru báðir inn í kjallaraíbúðina að Hamarsbraut 11. Ákærði mundi eftir því, að Kristján Viðar, Tryggvi Rúnar og Guðmundur voru að Hamarsbraut 11, en hvort Sævar Marinó var kominn þá, kvaðst hann ekki muna fyrir víst, en hann hefði komið um svipað leyti. Ákærði man ekki eftir, hvort grammófónmúsik var í íbúðinni. Hann man ekki eftir neinum grammófóni þar. Hann hugði, að þeir hefðu beðið eitthvað í ganginum að Hamarsbraut 11, áður en þeir fóru inn í innri stofuna.
Ákærði kvað átökin hafa hafist, skömmu eftir að þeir komu, og var öruggur um, að Gunnar sá þau. Ákærði vissi ekki til þess, að Gunnar hefði neitt kannast við Guðmund Einarsson.
Bls. 238
Þeir Gunnar fóru á brott af Hamarsbraut 11, skömmu eftir að átökunum lauk, og fannst ákærða, að átökin hefðu fengið á Gunnar. Lýsti það sér í því, að Gunnar vildi komast sem fyrst á brott. Ákærði mundi ekki eftir, að þeir hefðu rætt um átökin, hvorki í bifreiðinni á leið til Reykjavíkur né síðar.
G. Laugardaginn 30. apríl 1977 var eftirfarandi skráð í þingbók sakadóms:
"Eins og fram hefur komið í framburðum ákærðu, á Gunnar Jónsson, Lokastíg 18 hér í borg, að hafa verið með ákærðu að kvöldi 26. janúar og aðfaranótt 27. 1974, er Guðmundur Einarsson beið bana að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði í átökum. Undanfarnar vikur hefur verið haldið uppi spurnum um Gunnar, en upplýsingar um dvalarstað hans komu ekki fyrr en í þessum mánuði. Í bréfi, sem hann skrifaði móður sinni, sem búsett er hér í borginni, sagðist hann vera staddur í Torremolinos á Spáni. Lét móðir Gunnars dóminum í té upplýsingar um þetta. Af þessu tilefni var ákveðið, að rannsóknarlögreglumennirnir Gísli Guðmundsson og Torfi Jónsson færu til Torremolinos og hefðu tal af Gunnari og bæðu hann að koma hingað til lands og bera vitni í máli þessu. Þeir fóru til Spánar laugardaginn 23. apríl sl. Hittu þeir Gunnar Jónsson, og féllst hann á að koma hingað til lands og bera vitni í máli þessu. Komu rannsóknarlögreglumennirnir með Gunnar hingað til lands í gær. Gisti Gunnar á hóteli hér í borginni í nótt, og var lögreglumaður á vakt yfir honum".
Nefndur Gunnar Jónsson kom fyrir dóm þennan sama dag, en formlegri skýrslutöku var frestað, enda kvaðst Gunnar Jónsson vera eftir sig eftir langa ferð. Var lögregluvakt höfð áfram yfir honum.
Gunnar Jónsson kom aftur fyrir dóm hinn 2. maí 1977. Var honum þá sýnt dagblað frá 30. janúar 1974, þar sem lýst var eftir Guðmundi Einarssyni, og fylgdi mynd af Guðmundi. Gunnar taldi sig muna, að hann hefði séð frétt þessa, en eigi setti hann það í samband við neitt, sem hann hefði orðið sjónarvottur að dagana á undan. Gunnar þekkti ekki Guðmund Einarsson. Hann kvaðst þekkja Albert Klahn Skaftason og hefðu þeir verið saman í gagnfræðaskóla. Eftir að þeir hættu í skóla, hittust þeir annað slagið, en þó gat liðið langur tími á milli.
Gunnari Jónssyni voru í dóminum sýndar myndir úr sakaskrá af 20 mönnum. Hann var beðinn að segja til um, hverja af mönnum þessum hann þekkti. Tók hann viðstöðulaust úr myndunum myndir af þremur ákærðu í máli þessu, þ. e. Kristjáni Viðari
Bls. 239
Viðarssyni, Sævari Marinó Ciesielski og Tryggva Rúnari Leifssyni. Gunnar mundi eftir nafni Sævars Marinós, en ekki hinna. Hann mundi þó, að Kristján Viðar bjó að Grettisgötu 82. Einnig mundi hann eftir því, að Tryggvi Rúnar hafði komið þar.
Gunnar Jónsson minntist þess, að hann hefði komið að Grettisgötu 82 ásamt Albert Klahn á tímbilinu frá 2.-6. janúar 1974 að degi til. Hann mundi eftir, að Kristján Viðar var þar. Kvaðst Gunnar hafa kannast við hann. Einnig mundi Gunnar eftir því, að Tryggvi Rúnar var þar, en hann hafði ekki kynnst honum áður. Gunnar vissi, hver Sævar Marinó var, en var ekki öruggur um, hvort hann hefði verið þarna umrætt sinn. Gunnar kvaðst hafa haft beyg af þeim Kristjáni Viðari og Sævari Marinó, og taldi hann, að betra væri að vera ekki of nærri þeim. Gunnar mundi, að Sævar Marinó var smávaxinn og að hann gekk svartklæddur, og sagði það geta verið, að hann hefði verið í leðurjakka. Kristján Viðar væri stór og þybbinn, munnstór og geiflaði oft munninn, en Tryggvi Rúnar kraftalegur, með ljóst hár, að hann minnti, og lét hann mjög í veðri vaka, að hann kynni að slást. Gunnari var þetta minnisstætt vegna þess, að hann hafði til umráða 1.200 krónur eða svo, og gæti verið, að hann hefði látið Albert Klahn fá peningana. Átti að kaupa hass, og ætlaði Albert Klahn að kanna möguleika á því. Gunnar mundi, að þeir Albert Klahn dvöldust nokkra stund að Grettisgötu 82, einn til tvo klukkutíma, að hann taldi. Tveir bræður hefðu komið að Grettisgötu 82 umrætt sinn og unnusta eða eiginkona annars þeirra verið með þeim. Hann mundi eftir, að hann hefði farið í söluturn til að kaupa vindlinga. Hafði hann skamma viðdvöl að Grettisgötu 82, eftir að hann kom aftur. Fóru þeir Albert Klahn saman heim til hans að Lokastíg 18 og borðuðu, en fóru síðan heim til Alberts Klahn og dvöldust þar fram eftir kvöldi. Gunnar fékk ekkert hass að Grettisgötu 82. Hins vegar fékk hann eitthvað sem hann taldi vera LSD. Eigi mundi hann, hver lét það í té. Henti hann því í salerni, er hann kom heim.
Gunnar Jónsson skýrði frá því, að hann myndi eftir því að hafa komið með Albert Klahn að Grettisgötu 82 einhvern tíma nokkru síðar á bifreið. Hann kvað þetta geta hafa verið 2-3 vikum síðar. Eigi mundi hann, um hvert leyti sólarhringsins þetta var, en minnti frekar, að dimmt hefði verið. Hann fór aldrei inn í húsið. Hann sagði geta verið, að Albert Klahn hefði farið þarna inn.
Gunnar Jónsson mundi ekki, hvort það var í þetta skipti eða
Bls. 240
einhvern tíma síðar, að hann var að aka með Albert Klahn milli staða hér í borginni. Hann mundi ekki, hvernig bifreið Albert Klahn var á. Hann taldi, að auk þeirra hefðu tveir menn verið í bifreiðinni og þeir setið í aftursæti. Hann minnti, að annar manna þessara hefði verið Kristján Viðar eða Sævar Marinó, en hver hinn maðurinn var, kvaðst hann ekki muna fyrir víst. Hann mundi ekki, í hvaða erindagerðum þeir voru, en var helst á, að þeir hefðu verið að aka milli skemmtistaða til þess að leita að einhverjum manni. Hann mundi ekki, hvar var komið við. Gunnar Jónsson mundi ekki sérstaklega eftir, að komið hefði verið við á Kópavogshæli í þessari ferð.
Einhvern tíma var þó komið þar við, og mundi hann, að hann fór ekki út úr bifreiðinni í það skiptið. Minnti hann, að hann hefði þá verið með Albert Klahn, en hvort fleiri voru í bifreiðinni, mundi hann ekki. Hann mundi ekki, að farið væri frá Kópavogshæli til Hafnarfjarðar, en einhvern tíma um þetta leyti, mundi hann eftir því, að hann var í bifreið með Albert Klahn í Hafnarfirði og að numið var staðar í brekkunni á Reykjavíkurvegi. Gunnar Jónsson gat ekki borið um, hverjir fleiri voru í bifreiðinni, en þetta var að næturlagi. Honum fannst endilega, að fleiri hefðu verið í bifreiðinni og eitthvað hefði verið um að vera. Hann mundi ekki, hvort þeir hefðu hitt einhvern, og ekki mundi hann eftir Guðmundi Einarssyni þarna. Hann rámaði eitthvað í, að Albert Klahn var að amast við því, að fleiri kæmu í bifreiðina. Hann tók þó fram, að það gæti hafa verið í annað skipti, sem Albert Klahn var að amast við þessu.
Gunnar mundi, að framangreinda nótt var ekið fram hjá lögreglustöðinni í Hafnarfirði, sem er við Suðurgötu. Hann mundi ekki, hvort numið var staðar þarna við hús, en hann minnti, að þeir hefðu verið 2 eða 3 í bifreiðinni. Honum fannst, að numið hefði verið staðar við eitthvert hús og þeir Albert Klahn farið þar inn. Hann minnti, að þeir hefðu farið inn í íbúð í kjallara. Hann mundi ekki eftir, að hann hefði sjálfur farið nema inn á ganginn. Honum er minnisstæður stigi upp á loft í húsinu, er blasti við, er inn kom, og eins mundi hann eftir að hafa litið inn í þvottahús og geymslu, er voru opin.
Farið hafði verið með Gunnar Jónsson laugardaginn áður að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði, og fannst honum hann kannast við það, er að framan greinir. Einnig kom honum gangurinn kunnuglega fyrir. Hann mundi ekki eftir herbergjaskipan að öðru leyti. Gunnari voru sýndar myndir frá Hamarsbraut 11 í
Bls. 241
Hafnarfirði. Hann rámaði í, að það hefði verið tveggja herbergja íbúð, sem hann kom inn í. Hann tók fram í þessu sambandi, að hann myndi eftir stuttri viðdvöl í 2ja herbergja íbúð með Albert Klahn, þar sem spilað var á grammófón, eða a. m. k. talað um músík. Hann rámaði í einhvern grammófón, sem var í innra herbergi í horni út við gluggann. Hann mundi eftir, að Albert Klahn var örugglega með honum, en hvaða fleira fólk var þar, mundi hann ekki, nema honum fannst, að húsráðandi hefði verið þar. Hann mundi eftir einhverju þrasi þarna, en af hvaða tilefni það var, mundi hann ekki, og ekki mundi hann eftir átökum. Honum fannst þó þrasið tengjast meira við brekkuna á Reykjavíkurvegi. Gunnar kvaðst ekki geta staðhæft, að Kristján Viðar, Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar hefðu verið þarna. Hann mundi ekki hvert erindið var á framangreindan stað og ekki hvert hann fór þaðan.
Gunnar kvaðst aldrei hafa tekið inn LSD, en hins vegar hefði hann reykt hass. Hann kvað það geta verið, að hann hefði reykt hass í janúar 1974. Hann hefði haft grun um, að Sævar Marinó seldi hass. Hann vissi ekki, hvar Sævar Marinó bjó á þessum tíma. Honum var sýnd mynd af Erlu Bolladóttur. Hann taldi sig einhvern tíma hafa séð hana, en mundi ekki hvar. Ekki vissi hann um samband þeirra Erlu Bolladóttur og Sævars Marinós. Hann vissi ekki til, að Sævar Marinó væri með neinni stúlku, og ekki vissi hann til þess, að hann vendi komur sínar á Kópavogshælið til Helgu Gísladóttur. Sjálfur hefði Gunnar komið til Helgu á Kópavogshælið í tvö skipti. Hann kannaðist við Ingibjörgu, er starfaði einnig á Kópavogshæli. Gunnar Jónsson skýrði frá því, að ákærðu hefðu aldrei neitt minnst á Guðmund Einarsson við sig og ekki hefðu þeir heldur haft orð á því, hvað gerst hefði að Hamarsbraut 11 aðfaranótt 27. janúar 1974. Hann mundi eftir því, að hann hitti Kristján Viðar og ef til vill fleiri ákærðu í máli þessu í Vestmannaeyjum í mars 1974, og var þá ekkert minnst á þetta. Einnig mundi hann eftir að hafa hitt Sævar Marinó í húsi við Laugaveg í júní eða júlí 1974.
Gunnar Jónsson kvaðst hafa farið utan í ágúst 1974 og verið erlendis þar til um miðjan desember sama ár. Fór hann síðan utan aftur 27. janúar 1975 og hefur verið erlendis síðan.
Hinn 3. maí 1977 var Gunnar Jónsson enn yfirheyrður í dómi og jafnframt samprófaður við Albert Klahn Skaftason. Var farið yfir framburð hins síðarnefnda og Gunnar Jónsson enn fremur spurður um málsatvik. Gunnar kvað mikið hafa rifjast upp
Bls. 242
fyrir sér, er gerðist að kvöldi 26. og aðfaranótt hins 27. janúar 1974.
Svo sem í fyrri framburði hans greindi, kvaðst Gunnar hafa kannast við þá Kristján Viðar, Sævar Marinó og Tryggva Rúnar. Tryggva Rúnar þekkti hann þó minnst. Vel gæti verið, að hann hefði komið að Grettisgötu 82 að kvöldi 26. janúar 1974. Hann mundi þetta ekki vel, en verið gæti, að hann hefði farið inn í húsið. Hann væri ekki öruggur um þetta, en mundi, að einhver beygur var í honum, eftir að hann hafði verið að Grettisgötu 82 hjá Kristjáni Vijðari dagana 2.-6. janúar 1974. Gunnar hafði neytt einhvers áfengis heima hjá sér, en var ekki drukkinn.
Hann mundi eftir því, að þetta kvöld var hann að aka með Albert Klahn milli skemmtistaða hér í borginni. Hann minnti, að þeir hefðu verið að leita að einhverjum manni. Með þeim í bifreiðinni voru tveir menn, og sátu þeir í aftursæti. Menn þessir voru Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar. Þeir ætluðu að reyna að ná í áfengi með einhverjum hætti, en ekki mundi hann eftir, að veskjaþjófnaðir væru nefndir í þessu sambandi. Hann mundi ekki til, að neitt hefðist upp úr krafsinu.
Hann mundi eftir því, að ekið var að Kópavogshæli, en ekki í hvaða tilgangi. Þó var hann á því, að þeir hefðu ef til vill verið að leita að Sævari Marinó til þess að fá hjá honum peninga. Hann minnti fastlega, að Kristján Viðar hefði farið úr bifreiðinni við Kópavogshælið og farið þar inn. Ekki vissi hann, við hvern Kristján Viðar ætlaði að tala, en það gæti hafa verið Sævar Marinó, svo sem áður greinir. Hann, Albert Klahn og Tryggvi Rúnar biðu í bifreiðinni á meðan. Hann mundi, að Tryggvi Rúnar var spenntur og órór og talaði mikið. Kristján Viðar minntist ekkert á erindi sitt, er hann kom aftur, og hafði ekki orð á því, hvort hann hefði fengið peninga. Þó gæti verið, að hann hefði nefnt við Tryggva Rúnar eitthvað um þetta atriði.
Gunnar mundi eftir, að í framhaldi af þessu var ekið til Hafnarfjarðar. Staðnæmst var á Reykjavíkurvegi í brekkunni, sem liggur niður í Hafnarfjörð, en ekki vissi hann í hvaða tilgangi, en grunaði þó, að það hefði verið í því skyni að ná í áfengi. Hann og Albert Klahn biðu í bifreiðinni, á meðan þeir voru í burtu. Gunnar mundi ekki, hve lengi þeir biðu, en þegar þeir komu aftur, mundi hann eftir einhverjum manni, er var með þeim. Hann sá manninn ekki vel og gat ekki lýst honum. Hann tók fram í þessu sambandi, að það hefði frekar verið um það að ræða, að hann hefði orðið mannsins var, en beinlínis að hafa séð hann.
Bls. 243
Gunnar minnti, að þeir Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar hefðu ætlað að reyna að fá far fyrir sig og manninn í bifreiðinni. Albert Klahn vildi það ekki, og upphófst þjark út af þessu. Mundi hann, að Albert Klahn vildi ekki hafa frekari afskipti af þeim og ók á brott ásamt honum. Þeir fóru áleiðis til Reykjavíkur, en sneru síðan við til Hafnarfjarðar. Hann taldi Albert Klahn hafa ráðið ferðinni. Minnti hann, að komið hefði til tals að ná í hass eða jafnvel fara í heimsókn, en eigi var neinn ákveðinn staður nefndur í því sambandi.
Ekið var fram hjá lögreglustöðinni í Hafnarfirði og síðan í nánd við hús skammt frá. Var ekki ekið alveg að húsinu, en bifreiðinni lagt á bílastæði fyrir framan. Hann minnti, að Albert Klahn hefði fyrst farið úr bifreiðinni og haldið að Hamarsbraut 11 til að athuga, hvort einhver væri heima, en hann beðið í bifreiðinni á meðan.
Albert Klahn kom eftir skamma stund, og fóru þeir saman að húsinu. Útihurð á kjallara hefði verið opin og ljós logað inni á gangi íbúðarinnar. Honum var sérstaklega minnisstæður stiginn upp á loft í húsinu, en hann blasti við, þegar inn var komið. Einnig mundi hann eftir, að hurð á þvottahúsi var opin og að hann sá þar inn. Hann mundi ekki, hvern hann hitti fyrst að Hamarsbraut 11, en þar voru Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar. Einnig fannst honum Sævar Marinó hafa komið jafnvel seinna. Gunnar mundi einnig eftir manni, frekar stórum, en grönnum. Hann var vel klæddur og betur klæddur en þeir hinir. Hann gat ekki gefið nánari lýsingu á manni þessum. Honum hafði verið sýnd mynd af Guðmundi Einarssyni. Kvað hann vel geta verið, að um hann hefði verið að ræða, en var ekki alveg viss. Honum fannst vera um sama mann að ræða og komið hafði að bifreiðinni í brekkunni á Reykjavíkurvegi.
Gunnar mundi eftir, að hann fór á snyrtiherbergi, er var á gangi íbúðarinnar, áður en hann fór inn í stofurnar. Hann fór inn í innra herbergi íbúðarinnar, er hann koma af snyrtiherberginu, og settist þar hjá Albert Klahn. Hann minnti, að hann hefði spurt, hvort hægt væri að spila á grammófón, er þarna var, en hvort spilað var, mundi hann ekki.
Eitthvað var talað um að kaupa áfengisflösku og gæti verið, að það hefði verið nefnt við manninn. Gunnar kvaðst ekki hafa verið beinlínis hræddur þarna inni, en hafði á tilfinningunni, að betra væri að fara varlega. Hann hefði sett traust sitt á Albert Klahn. Hann minnti, að Kristján Viðar hefði stjakað við mann-
Bls. 244
inum og ýtt honum upp að ísskáp, eins og í því skyni að leggja áherslu á þau orð sín að fá manninn til að leggja peninga í flösku. Hann sá ekki, að farið væri ofan í vasa mannsins til að taka veski hans. Gunnar mundi einnig eftir því, að Tryggvi Rúnar stökk fram eins og tilbúinn til átaka. Hann mundi það, að einhver "hasar" varð eða átök, en nánar gat hann ekki greint frá þeim. Hann kvað það hljóta að vera, að átökin hefðu borist inn í næsta herbergi, þar sem hann hefði ekki séð þau greinilega. Hann mundi ekki eftir því að hafa séð hníf eða barefli í fórum viðstaddra. Gunnar taldi, að Sævar Marinó hefði verið kominn, er átökin áttu sér stað. Gunnar fór fljótlega á brott ásamt Albert Klahn, eftir að átökin hófust. Var hann ekki viss, hvort þeim var þá lokið. Minnti hann, að hann hefði séð einhverja ruddamennsku út undan sér, um leið og hann fór út, en mundi ekki nánar, hvað það var. Hann kvaðst ekki hafa séð manninn liggja á gólfinu og ekki heyrt hann hrópa á hjálp, svo að hann myndi. Hann var hræddur og leið mjög illa. Hann hafði litla peninga á sér, en taldi, að umræddir menn gætu verið til alls vísir.
Gunnar kvaðst hafa hraðað sér á brott og kallað til Alberts Klahn að koma einnig. Hann hefði flýtt sér út og Albert Klahn komið á eftir honum. Albert Klahn hefði ekið honum rakleitt heim til hans að Lokastíg 18. Þó gæti verið, að þeir hefðu haft viðkomu hjá söluturni á leiðinni. Gunnar fór úr bifreiðinni, er heim til hans kom, en Albert Klahn hélt á brott.
Eins og áður greinir, mundi Gunnar eftir, að lýst var eftir Guðmundi Einarssyni, en ekki setti Gunnar hvarf hans neitt í samband við það, er gerst hafði að Hamarsbraut 11. Menn þeir, er viðstaddir voru að Hamarsbraut 11 greint sinn, minntust aldrei á atburð þennan við hann. Gunnar kvaðst enga hugmynd hafa haft um, að umræddur maður kynni að hafa beðið bana í átökunum. Hann tók fram í sambandi við það, hvort veski mannsins hefði verið tekið, að hann rámaði í, að eitthvað hefði verið talað um veskið. Hann minnti, að kallað hefði verið upp: "Veskið mitt, veskið mitt" og átökin hafist í framhaldi af því.
Ákærði Albert Klahn var um það spurður, af hverju hann hefði ekki nefnt Gunnar Jónsson fyrr í máli þessu. Hann kvaðst enga skýringu geta á því gefið.
Hinn 4. maí 1977 kom Gunnar Jónsson fyrir dómþing sakadóms og voru þá kynntir framburðir ákærðu Kristjáns Viðars, Tryggva Rúnars og Sævars Marinós.
Gunnar kvaðst halda fast við fyrri framburð sinn um, að hann
Bls. 245
myndi ekki eftir að hafa farið inn til Kristjáns Viðars að Grettisgötu 82 að kvöldi 26. janúar, en þó gæti það verið. Framburður Sævars Marinós um komuna að Grettisgötu 82 og síðar að Vesturgötu 24 ætti við, er hann kom að Grettisgötu 82 dagana 2.-6. janúar 1974. Gunnar kvaðst ekkert hafa frekar fram að færa um ferðina milli skemmtistaða í Reykjavík, að Kópavogshæli og síðar til Hafnarfjarðar að kvöldi 26. og aðfaranótt hins 27. janúar 1974. Taldi hann, að Kristján Viðar Greindi í öllum atriðum rétt frá ferðinni svo og komunni að Hamarsbraut 11. Gunnar rámaði eitthvað í, að rætt hefði verið um, að Kristján Viðar hefði farið inn um glugga að Hamarsbraut 11 og opnað dyrnar. Hann kvað Sævar Marinó hafa komið á staðinn, rétt eftir að hann og Albert Klahn komu þangað. Verið gæti, að hann hefði verið á snyrtiherberginu, er Sævar Marinó kom. Eitthvað rámaði Gunnar í, að Sævar Marinó hefði ekki verið ánægður með, að þeir hefðu farið inn í íbúðina. Gunnari fannst óvissa ríkja þarna. Hann taldi sig muna eftir að hafa farið inn í innra herbergið og sest niður hjá Albert Klahn. Mundi hann, að Albert Klahn hefði setið nær dyrunum milli stofanna.
Gunnar mundi eftir, að hann sá Kristján Viðar stjaka við manninum og maðurinn ýtti honum frá sér. Fannst honum þetta vera í fremri stofunni og Kristján Viðar gera þetta í því skyni að fá manninn til að leggja út fyrir áfengisflösku. Gunnar mundi eftir frekari átökum í innra herberginu. Taldi hann sig muna, að maðurinn hefði skollið upp að ísskáp eða einhverjum skáp og eins að hann skylli á vegg. Gunnar mundi eftir Tryggva Rúnari tilbúnum til átaka, en sá hann aldrein greiða manninum högg, svo að hann myndi. Gunnar taldi sig muna eftir, að Sævar Marinó hefði beðið um hjálp í þann mund, sem átökin voru að byrja. Gunnar gat ekki greint frá átökunum nánar, en þetta gerðist allt mjög fljótt, og fannst honum manninum vera sýndur hrottaskapur. Gunnar mundi ekki eftir, að maðurinn reyndi að koma sér út, og ekki heldur, að hann hefði kallað á hjálp. Gunnar taldi sig hafa orðið áskynja um, að maðurinn hefði rotast, en gat ekki skýrt nánar, á hverju hann byggði það, hvort hann hefði séð það sjálfur eða heyrt talað um það.
Gunnar rámaði í það, að hann hefði átt tal við Kristján Viðar frammi á ganginum í þann mund, er hann var að fara út. Hefði Kristján Viðar verið að tala um einhver viðskipti, sem ættu að fara fram, sem hann vildi ekki láta Gunnar fá vitneskju um og því best, að hann færi. Verið gæti, að í framhaldi af því, hefði
Bls. 246
hann beðið Albert Klahn að aka sér heim eða Albert Klahn boðist til þess. Gunnar taldi, að átökin hefðu staðið stutt, og fannst honum, að þau hefðu farið fram í tveimur lotum. Gunnar taldi sig hafa farið út úr herbergjunum alveg í þann mund, er átökunum var að ljúka. Hann hefði aldrei heyrt um það talað, að maðurinn væri látinn.
Gunnar kvaðst hafa orðið mjög skelfdur við átökin og kunni það vera skýringin á, hve erfiðlega honum hefði gengið að rifja þetta upp. Hann sagði þetta núna vera orðið ljóst fyrir sér í megindráttum.
Hinn 4. maí 1977 fór fram í dómi samprófun Gunnars Jónssonar og ákærða Kristjáns Viðars Viðarssonar. Þeir kváðust kannast hvor við annan. Gunnar Jónsson kvaðst ekkert hafa við framburð Kristjáns Viðars að athuga. Kristján Viðar sagðist engar athugasemdir gera við framburð Gunnars Jónssonar. Páll A. Pálsson héraðsdómslögmaður, skipaður verjandi ákærða Kristjáns Viðars, var viðstaddur samprófunina.
Gunnar Jónsson og ákærði Sævar Marinó Ciesielski voru samprófaðir fyrir dómi hinn 4. maí 1977. Sævar Marinó kvaðst kannast við Gunnar Jónsson og nefndi nafn hans, og Gunnar kvaðst kannast við Sævar Marinó. Sævar Marinó hélt því fram, að Gunnar Jónsson hefði komið að Grettisgötu 82 að kvöldi 26. janúar 1974 til Kristjáns Viðars. Gunnar kvaðst vísa til fyrri framburðar síns um þetta. Gunnar Jónsson sagði, að eftir sínu besta minni hefði Sævar Marinó verið að Hamarsbraut 11 aðfaranótt 27. janúar 1974. Samræmi náðist ekki í framburðum ákærða Sævars Marinós og Gunnars Jónssonar. Héldu þeir hvor fast við framburð sinn.
Hinn 4. maí 1977 fór fram í dómi samprófun Gunnars Jónssonar og ákærða Tryggva Rúnars Leifssonar. Gunnar Jónsson kvaðst kannast við Tryggva Rúnar. Tryggvi Rúnar kvaðst hins vegar ekki kannast við Gunnar Jónsson, en sagðist ekki geta fullyrt um það, hvort hann hefði séð hann áður. Framburður Gunnars Jónssonar í málinu var rakinn, og kvaðst hann halda fast við framburð sinn. Tryggvi Rúnar hélt og fast við framburð sinn og neitaði að hafa verið að Hamarsbraut 11 umrætt sinn. Fékkst ekki samræmi í framburð þeirra. Hilmar Ingimundarson hæstaréttarlögmaður, skipaður verjandi ákærða Tryggva Rúnars, var viðstaddur samprófunina.
Gunnar Jónsson kom loks fyrir dóm hinn 5. maí 1977. Voru allir framburðir hans í málinu lesnir í heyranda hljóði í dómin-
Bls. 247
um. Gunnar Jónsson skýrði frá því, að þegar hann hefði rifjað mál þetta upp sl. nótt, minnti hann "mjög fastlega", að það hefði verið sagt við sig, að maðurinn hefði fallið á borð og rotast í átökunum. Minnti hann, að það hefði annað hvort verið Kristján Viðar, sem sagði honum þetta á gangi íbúðarinnar, eða Albert Klahn í bifreiðinni á leið til Reykjavíkur. Þó gæti hann hafa heyrt þetta út undan sér, um leið og hann fór út. Gunnar Jónsson sagði, að allir framburðir sínir væru gefnir eftir bestu vitund, en sum atriði væru óljós fyrir sér, eins og þeir bæru með sér.
Af hálfu ákæruvaldsins var því lýst yfir, að Gunnar Jónsson yrði ekki saksóttur, eins og málið lægi nú fyrir. Gunnar Jónsson vann síðan eið að framburði sínum eftir lögmæltan undirbúning.
H. Vitnið Elínborg Jóna Rafnsdóttir gjaldkeri, Hvassaleiti 18, Reykjavík, skýrði frá því, að það hefði farið aðfaranótt 27. janúar 1974 með Sigríði Magnúsdóttur til Hafnarfjarðar á Volkswagen bifreið, sem Sigríður var nýbúin að kaupa. Vitnið kvað hafa verið þurrt veður, en hvasst. Þær lögðu af stað frá Reykjavík milli kl. 0100 og 0130 og voru komnar að nætursölunni í Hafnarfirði um kl. 0130, en þar höfðu þær smáviðdvöl.
Þær óku síðan um í bænum, þar sem þær hittu tvo pilta, sem þær óku heim. Síðan héldu þær áleiðis til Reykjavíkur, og lá leið þeirra um Strandgötu. Þegar þær komu á móts við Bæjarbíó, sáu þær tvo menn koma á móti þeim eftir gangstéttinni, hægra megin miðað við akstursstefnu bifreiðarinnar. Vitnið þekkti annan manninn, og var það Guðmundur Einarsson til heimilis að Hraunprýði í Blesugróf hér í borg. Guðmundur var yfirhafnarlaus, en í köflóttum jakka, dökkbrúnrauðum, sem vitnið hafði séð hann í áður, og dökkum buxum. Vitnið hafði hitt Guðmund á dansleikjum í nokkur skipti og var alveg öruggt um, að þetta hefði verið hann. Að sögn vitnisins var Guðmundur prúður maður og kom vel fyrir. Vitninu fannst Guðmundur eitthvað með áfengisáhrifum, en ekki mikið. Maðurinn, sem var með Guðmundi, var svipaður á hæð og Guðmundur og með mikið dökkskollitað hár, er virtist liðað. Hann hélt á jakkanum undir hendinni. Maðurinn var í einlitri ljósri skyrtu, en vitnið gat ekki alveg fullyrt um lit hennar. Vitninu virtist maðurinn vera mikið drukkinn. Vitnið taldi, að klukkan hefði verið alveg um eða rétt tæplega 0200, er þær komu auga á Guðmund og umræddan mann, sem vitnið þekkti ekki. Sigríður, er ók bifreiðinni, þekkti einnig Guðmund, og ræddu vitnið og hún saman um, að þetta væri Guðmundur.
Sigríður hægði ferðina, er þær sáu mennina, og bjóst til að
Bls. 248
nema staðar og taka Guðmund upp í bifreiðina. Þegar til kom, leist þeim ekkert á manninn, sem með honum var, vegna þess hve ölvaður hann var, og hættu við þetta áform sitt. Vitninu fannst Guðmundur draga sig í hlé og verða feiminn, er hann varð þeirra var.
Bæði Guðmundur og maðurinn höfðu gefið þeim merki um að stöðva, er þær nálguðust, og farið aðeins út á akbrautina. Þegar Guðmundur varð þeirra var, færði hann sig upp á gangstéttina og stakk hendinni í vasann. Hinn maðurinn hélt áfram, og var eins og hann ætlaði að kasta sér á bifreiðina. Snerti hann bifreiðina, en í því jók Sigríður ferðina og hélt á brott. Þær vissu síðan ekki um ferðir Guðmundar þessa nótt og héldu til Reykjavíkur. Vitnið kvaðst kannast við Ásgeir Þorsteinsson, sem kallaður er Gilli, og var öruggt um, að hann var ekki með Guðmundi umrætt sinn.
Vitnið heyrði auglýst eftir Guðmundi í útvarpinu í fréttum kl. 1600, að það taldi mánudaginn 28. janúar 1974. Vitnið var þó ekki öruggt um dagsetninguna, en sama dag og það heyrði tilkynninguna hringdi það til rannsóknarlögreglumanns og sagði honum frá vitneskju sinni um ferðir Guðmundar. Skýrsla var ekki tekin af vitninu hjá rannsóknarlögreglunni um það, er að framan greinir, fyrr en 22. janúar 1977. Við yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglunni þann dag voru því sýndar 8-9 myndir úr myndasafni lögreglunnar. Vitnið benti á mynd af Kristjáni Viðari Viðarssyni og taldi þá mynd líkjast mest manni þeim, er verið hafði með Guðmundi Einarssyni greint sinn.
Við sakbendingu benti vitnið á mann þann, er bar spjald nr. 6. en það var ákærði Kristján Viðar. Vitnið hafði heyrt Sigríði nefna mann, sem bar spjald nr. 4, og taldi vitnið þann mann ekki koma til greina. Vitninu fannst afar líklegt, að maður sá, er bar spjald nr. 6, hefði verið í fylgd með Guðmundi Einarssyni í Hafnarfirði. Það eina, sem vitninu fannst mæla á móti því, var það, að maður sá, sem var með Guðmundi, var grennri, en að öðru leyti hefðu mennirnir verið eins, að því er vitnið minnti. Var vitningu sérstaklega minnisstætt andlit mannsins, einkum þykkar varir hans.
Vitnið Sigríður Magnúsdóttir skrifstofustúlka, Hvassaleiti 18, Reykjavík, skýrði frá því, að það hefði farið til Hafnarfjarðar ásamt Elínborgu Rafnsdóttur aðfaranótt 27. janúar 1974 á hvítri Volkswagen bifreið, sem vitnið var nýbúið að kaupa. Vitnið ók bifreiðinni. Vitnið mundi ekki, hvenær þær fóru frá Reykjavík,
Bls. 249
en þær voru í Hafnarfirði á tímanum frá kl. 0100-0200. Þær komu við í nætursölunni í Hafnarfirði, en höfðu þar skamma viðdvöl og óku niður í bæinn. Þær hittu í Hafnarfirði 2 litla drengi, sem þær óku heim.
Eftir það óku þær áleiðis til Reykjavíkur, og lá leið þeirra um Strandgötu. Þegar þær nálguðust hús nr. 6, sáu þær tvo menn á gangstéttinni, hægra megin miðað við akstursstefnu þeirra. Mennirnir stóðu kyrrir, en gengu síðan aðeins út á akbrautina og gáfu þeim merki um að nema staðar með því að lyfta upp þumalfingrinum. Vitnið þekkti annan manninn, og var það Guðmundur Einarsson, Hraunprýði í Blesugróf. Vitnið hafði hitt Guðmund í nokkur skipti áður og var öruggt um, að um hann var að ræða, enda ræddu þær um það í bifreiðinni. Vitnið kvað Guðmund hafa verið prúðan og kurteisan pilt. Guðmundur var ekki í frakka, en hann var í stökum jakka, að vitnið minnti, köflóttum og rauðlilluðum. Nánar um klæðaburð Guðmundar mundi vitnið ekki. Vitninu fannst Guðmundur vera smávegis undir áhrifum áfengis, en ekki mikið. Vitnið minnti, að maður sá, sem var með Guðmundi, hefði verið svipaður á hæð og hann. Vitnið þekkti ekki manninn, en hann var ungur að aldri og mikið drukkinn. Maðurinn hélt á jakka sínum á handleggnum. Vitnið minnti, að maðurinn hefði verið í gulri skyrtu. Maðurinn var fremur dökkhærður og með flaksandi hár.
Þegar þær nálguðust mennina, taldi vitnið, að Guðmundur hefði orðið þeirra var, því að hann hörfaði af akbrautinni upp á gangstéttina og virtist hætta við að reyna að stöðva bifreiðina. Vitnið hafði hægt ferð bifreiðarinnar, þegar þær nálguðust mennina, og var ætlunin að nema staðar og bjóða Guðmundi far. Þegar þær sáu, hve maðurinn, er var með Guðmundi, var drukkinn og mikil læti í honum, hættu þær við það, og jók vitnið ferðina. Virtist þá maðurinn, sem var með Guðmundi, ætla að kasta sér á hlið bifreiðarinnar. Af því varð þó ekki, og fann vitnið ekki, að hann snerti bifreiðina.
Vitnið og Elínborg óku brott af staðnum og héldu til Reykjavíkur. Vissu þær ekki um ferðir Guðmundar eftir þetta. Vitnið varð ekki vart við, að neinir aðrir væru í fylgd með Guðmundi og manninum. Það minnti, að eitthvað fólk hefði verið þarna á ferli. Vitnið vissi um, að Elínborg hafði tilkynnt rannsóknarlögreglunni um það, er að framan greinir, þegar lýst hafði verið eftir Guðmundi í fjölmiðlum.
Vitnið mætti til skýrslugjafar hjá rannsóknarlögreglu 22.
Bls. 250
janúar 1977, en fyrr hafði aldrei verið talað við vitnið um hvarf Guðmundar. Vitnið kvað sér hafa verið sýndar myndir úr safni rannsóknarlögreglunnar. Vitnið mundi ekki, hve myndirnar voru margar, en taldi, að þær hefðu verið milli 5 og 10. Vitnið taldi, að mynd af einum mannanna líktist mest manni þeim, sem það sá með Guðmundi umrætt sinn. Var mynd þessi af Kristjáni Viðari Viðarssyni.
Þá fór fram sakbending, og benti vitnið á mann þann, sem bar spjald nr. 4. Fannst vitninu maður þessi líkjast mest manni þeim, er það sá með Guðmundi í Hafnarfirði. Það, sem vitninu fannst mæla á móti því, að um sama mann væri að ræða, var það, að Kristján Viðar Viðarsson, er vitnið veit nú, að bar spjald nr. 4, var feitari en maður sá, sem það sá með Guðmundi í Hafnarfirði.
Samkvæmt skýrslu rannsóknarlögreglu fór sakbending fram hinn 27. janúar 1977. Voru átta ungir menn úr lögregluskólanum fengnir til að stilla sér upp í tæknideild rannsóknarlögreglunnar við hlið ákærða Kristjáns Viðars og látnir bera númerin 1-9. Þegar Sigríður Magnúsdóttir sá mennina, bar Kristján Viðar númerið 4, og nefndi þá Sigríður þá tölu, og mun Elínborg Jóna Rafnsdóttir hafa heyrt hana nefna töluna. Rannsóknarlögreglan hafði ákveðið að skipta um númeraspjöld á mönnunum, þegar Elínborg Jóna athugaði mennina, og bar Kristján Viðar þá númerið 6. Nefndi Elínborg Jóna þá tölu, og gat þess við rannsóknarlögreglu, að maður nr. 4, sem Sigríður hefði bent á, væri ekki rétti maðurinn.
Á dómþingi hinn 25. mars 1977 var ákærða Kristjáni Viðari kynnt það, sem vitnin Elínborg Jóna Rafnsdóttir og Sigríður Magnúsdóttir höfðu borið í málinu. Lýsti ákærði því þá yfir, að framburður þeirra gæti verið réttur. Hann minntist þess ekki, að Guðmundur hefði nefnt, að hann hefði þekkt stúlku, sem ekið hefði fram hjá þeim.
Vitnið Auður Úlfarsdóttir Jacobsen húsmóðir, Sóleyjargötu 13, Reykjavík, kom fyrir dóm hinn 24. mars 1977. Skýrði vitnið frá því, að það minntist þess að hafa einhvern tíma fyrir nokkrum árum farið með Erlu Bolladóttur í bifreið til Hafnarfjarðar. Vitnið mundi ekki, hver ók bifreiðinni, en Ómar Aðalsteinsson, nú eiginmaður þess, gæti hafa verið með í bifreiðinni. Vitnið hafði verið með Erlu í skóla, en ekki var um nein frekari kynni á milli þeirra að ræða. Vitnið mundi ekki, hvar það hitti Erlu, en minnti, að það hefði annaðhvort verið við Sigtún við Austurvöll eða við Klúbbinn við Lækjarteig. Vitnið kvað það fá staðist, að þau
Bls. 251
hefðu verið í Mercedes Benz bifreið umrætt sinn. Vitnið minntist þess ekki, að Erla hefði farið með þeim í samkvæmi, og fannst það heldur ólíklegt, en vildi þó ekki alveg neita því, að svo gæti hafa verið. Þetta var að næturlagi, en hvenær ársins, mundi það ekki. Vitnið taldi, að komið hefði verið til Hafnarfjarðar á tímanum milli kl. 0100 og 0300. Vitnið minntist þess, að Erlu var ekið að húsi sunnan við lögreglustöðina, þegar til Hafnarfjarðar kom, en hvaða hús það var, mundi vitnið ekki. Hús það, er staðnæmst var við, stóð nokkuð frá götu. Fór Erla þar úr bifreiðinni og á bak við húsið, þar sem hún hvarf vitninu sjónum. Erla kom ekki aftur í bifreiðina, eða að minnsta kosti mundi vitnið ekki til þess. Eftir þetta fór vitnið á brott og hefur ekki séð Erlu nema í eitt skipti síðan, en þá töluðust þær ekki við. Vitnið kvaðst ekkert geta borið um ástand Erlu Bolladóttur umrætt sinn, og það mundi ekki, hvort ljós voru í gluggum á húsi því, sem hún fór inn í.
Rannsóknarlögreglan hafði tal af Ómari Aðalsteinssyni, eiginmanni vitnisins, en hann minntist ekki fararinnar til Hafnarfjarðar og gat því ekkert um málsatvik borið. Vitnið Lárus Kristján Pétursson deildarstjóri, Fornhaga 13, Reykjavík, kvaðst hafa handtekið Sævar Marinó á Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði vegna fíkniefnamáls hinn 4. febrúar 1974. Vitninu fannst allt á tjá og tundri í íbúðinni, en sagðist ekki muna eftir neinu sérstöku, sem varpað gæti ljósi á þá atburði, sem þarna eiga að hafa átt sér stað. Vitnið mundi ekki, hvort teppi var á gólfi íbúðarinnar, en taldi líklegra, að svo hefði ekki verið. Vitnið sagði, að Sævar Marinó hefði verið fús til að koma með því. Á leiðinni frá Hafnarfirði til Reykjavíkur hefði hann haft orð á því, að hann vissi um mjög stórt mál, og vitnið mundi gefa milljónir króna fyrir vitneskju um það. Vitnið lagði mjög að Sævari Marinó að skýra frá því nánar, hvað hann ætti við, en hann hefði ekki orðið við því. Vitnið tók það fram, að það hefði ekki séð ástæðu til að taka þetta alvarlega, þar sem Sævar Marinó hefði margoft áður látið skína í svipaða hluti, þ. e. vitneskju sína um eitt og annað. Það hefði margreynt Sævar Marinó að því að reyna að gefa upplýsingar um aðra, ef það gæti orðið til þess, að hann slyppi sjálfur úr sínum vanda.
Vitnið Sigríður Gísladóttir, Laugarnesvegi 84, Reykjavík, kvað þá Kristján Viðar, Albert Klahn og Sævar Marinó hafa verið tíða gesti á þeim tíma, sem það bjó að Vesturgötu 24 hér í borg, en það hefði verið þar frá því sumarið 1973 til aprílmánaðar
Bls. 252
1974. Vitnið kvaðst ekkert geta borið um atburði hinn 26. janúar 1974.
Vitnið Sæmundur Jóhannsson, Kópavogsbraut 5, Kópavogi, kvaðst kannast við Sævar Marinó og hafa vitað, að kunningsskapur var á milli hans og Helgu Gísladóttur. Vitnið gat ekkert fullyrt um, hvort það hefði séð Sævar Marinó í starfsmannahúsi Kópavogshælis laugardagskvöldið 26. janúar 1974, en líklega gæti það þó hafa verið.
Vitnið Viggó Guðmundsson leigubifreiðarstjóri, Gyðufelli 14, Reykjavík, kvaðst hafa ekið ákærðu Sævari Marinó, Kristjáni Viðari og Tryggva Rúnari um það leyti sem Guðmundur Einarsson hvarf. Vitnið staðhæfði, að það gæti ekkert um málsatvik borið.
Vitnið Einar Gunnar Bollason, Heiðvangi 5, Hafnarfirði, skýrði frá því, að Erla Bolladóttir hefði flutt inn í kjallaraíbúðina að Hamarsbraut 11 ásamt Bolla föður þeirra sumarið 1973. Bolli veiktist í nóvember sama ár, og fluttist Sævar Marinó þá til Erlu að Hamarsbraut 11. Vitnið kvaðst ekki geta staðhæft neitt um það hvort þau Sævar Marinó og Erla voru heitbundin, en þau hefðu búið saman. Vitnið kom einu sinni í íbúðina, er þau voru ekki heima. Virtist umgengni vera mjög ábótavant. Konan á hæðinni fyrir ofan hafði kvartað við vitnið um hávaða og umgang frá íbúðinni. Vitnið kvaðst ekkert vita um ferðir Sævars Marinós og Erlu aðfaranótt 27. janúar 1974. Íbúðin, þar sem Erla bjó, var seld í mars 1974, en Erla fór ekki úr henni fyrr en skömmu fyrir afhendingu. Vitnið tók dót það, sem skilið hafði verið eftir í íbúðinni, og sá um þrif á henni. Vitnið varð ekki vart við neitt, sem benti til þess, að átök hefðu átt sér stað í íbúðinni. Það mundi ekki eftir að hafa séð blóðbletti og ekki ljósleitt lak.
Vitnið Bárður Ragnar Jónsson, Snekkjuvogi 12, Reykjavík, skýrði frá því, að það hefði dvalist í Kaupmannahöfn um miðjan júlímánuð 1973. Hefði þá horfið úr herbergi þess um 40 cm langur byssustingur. Vissi vitnið ekki, hver tók hann, en margir hefðu komið í heimsókn, þeirra á meðal Kristján Viðar og Sævar Marinó. Vegna þess hve byssustingurinn var stór og þungur, taldi vitnið fremur ólíklegt, að nokkur hefði borið hann á sér eða látið hann hanga við belti.
Vitnið Magnea Jóhanna Matthíasdóttir kennari, Borgarbraut 8, Grundarfirði, kvaðst hafa verið með eiginmanni sínum, Bárði Ragnari Jónssyni, í Kaupmannahöfn sumarið 1973 og þau keypt
Bls. 253
þar byssusting með um 25 cm blaði. Vitnið skrapp til Íslands þetta sumar, en þegar það kom aftur til Hafnar í júlí 1973, var byssustingur þessi horfinn, og vissi vitnið ekki, hvernig hann hvarf. Vitnið sagði, að eiginmaður þess og Kristján Viðar hefðu verið kunnugir.
Vitnið Ingiríður Finnsdóttir, móðuramma Kristjáns Viðars, Grettisgötu 82, Reykjavík, skýrði frá því, að Kristján Viðar hefði komið með hníf eða byssusting, þegar hann kom frá Kaupmannahöfn síðla sumars 1973. Sá vitnið byssustinginn í ferðatösku Kristjáns Viðars, þar sem hann geymdi hann, en eigi mundi það eftir, að hann hengdi hann upp á vegg. Kristján Viðar hafði orð á því, að hann ætlaði að eiga þetta sem minjagrip frá Danmörku. Vitnið hafði áhyggjur af byssustingnum vegna óreglu, sem var í kringum Kristján Viðar. Vitnið ræddi þetta við Stellu Esther, dóttur þess, er hún kom eitt sinn í heimsókn, en vitnið hafði þá rekist á byssustinginn í efsta hólfi á eldhússkáp, er það var að gera hreint. Sagði dóttir vitnisins, að það skyldi fleygja byssustingnum. Kvaðst vitnið hafa vafið hann í brúnt bréf og fleygt honum í ruslatunnu. Vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega hvenær þetta var, en það hefði verið rétt fyrir jólin og skömmu eftir að dóttir þess og tengdasonur fluttust að Asparteigi 2 í Mosfellssveit. Kristján Viðar minntist aldrei á byssustinginn við vitnið eftir þetta. Vitnið kveðst aldrei hafa séð Kristján Viðar hafa byssustinginn meðferðis.
Vitnið Stella Esther Kristjánsdóttir, móðursystir Kristjáns Viðars, Asparteigi 2, Mosfellssveit, sagði, að eitt sinn fyrir nokkrum árum hefði það verið statt að Grettisgötu 82 hjá Ingiríði Finnsdóttur, móður sinni. Sýndi móðir vitnisins því hníf, sem hún sagði, að Kristján Viðar væri með og hafði áhyggjur af vegna óreglu á Kristjáni Viðari og fólki, sem vendi komur sínar til hans. Vitnið mundi ekki, hvar móðir þess náði í hnífinn. Vitnið ræddi mál þetta aldrei við Kristján Viðar sjálfan og sá hann ekki með hnífinn. Vitnið ráðlagði móður sinni að fleygja hnífnum. Það minnti, að hnífurinn hefði fyrst verið settur í bréf, en síðan í plastpoka með rusli, og staðhæfði vitnið, að hann hefði verið settur í ruslatunnu. Vitnið kvaðst hafa flutt að Asparteigi 2 í Mosfellssveit seinast í júlímánuði árið 1973.
Vitnið Helga Gísladóttir, Kelduhvammi 3, Hafnarfirði, kvaðst hafa kynnst Sævari Marinó mjög náið, eftir að hann kom erlendis frá í janúarmánuði árið 1974, og hafi hann verið tíður gestur hjá því á Kópavogshæli, þar sem það starfaði. Hefði hann yfirleitt
Bls. 254
komið á hverri nóttu til vitnisins, á meðan samband þeirra stóð, eða í viku til tíu daga, en haft stutta viðdvöl.
Vitnið mundi ekki sérstaklega eftir laugardagskvöldinu 26. janúar 1974 eða næstu nótt. Það minntist þess ekki, að Lilja Hjartardóttir hefði þá komið inn í herbergi þess og verið miður sín af ástarsorg, en þetta hefði oft komið fyrir. Vitnið minntist þess heldur ekki, að Sævar Marinó hefði þá verið við whiskydrykkju og boðið Sæmundi Jóhannssyni í glas. Sævar Marinó hefði á þessu tímabili verið mjög undarlegur og stundum þegar hann kom til þess, hefði hann ætt um gólf, en síðan horfið á brott. Vitnið mundi til þess, að Sævar Marinó sagði því í eitt skipti, að hann hefði drepið mann, en þegar vitnið spurði nánar um það, hefði hann engu svarað, sem mark væri á takandi, en þó tekið fram, að þetta hefði verið erlendis. Vitnið kvaðst hafa frétt af því, að Sævar Marinó hefði verið að stæra sig af því, að hann hefði drepið mann, og talað um, að auðvelt væri að láta menn hverfa.
Vitnið skýrði frá því, að einu sinni, þegar Sævar Marinó kom til þess síðla vetrar á þessu tímabili, hefði hann verið með svarta skyrtu og beðið vitnið um að þvo hana, en síðar sagt því að henda henni. Vitnið kvaðst hafa skoðað skyrtuna nokkru eftir þetta og séð einhverja dökka bletti á brjóstinu og annarri erminni, en ekki gat vitnið borið um, hvort um blóðbletti hefði verið að ræða.
Vitnið kvaðst hafa farið með Hinrik Jóni Þórissyni til Erlu Bolladóttur í Hafnarfjörð í febrúar 1974. Hefðu þau drukkið eitthvað hjá Erlu, sem hún hefði sjálf ekki viljað, þetta verið áfengi eða einhvers konar vímugjafi og ólystugt, en nánar mundi vitnið ekki eftir því. Síðar hefði Hinrik Jón Þórisson verið að spyrja það, hvort það myndi ekki eftir blóðinu, og einhver hryllingur verið í honum í þessum sambandi.
Vitnið Jónína Ingibjörg Gísladóttir, Laugavegi 46 A, Reykjavík, kvaðst hafa starfað á Kópavogshæli frá ársbyrjun 1974 til 1. maí það ár, en síðan tekið upp sambúð við Albert Klahn Skaftason. Vitnið kvað Sævar Marinó hafa farið að venja komur sínar til Helgu Gísladóttur, vinkonu vitnisins, eftir áramótin 1973-1974. Vitnið vissi til þess, að þær Erla Bolladóttir og Helga Gísladóttir hefðu hist heima hjá Erlu, sennilega í febrúar 1974, og síðar hefði Hinrik Jón Þórisson sagt vitninu, að þarna hefði verið drukkið blóðté. Vitnið tók fram, að það hefði hætt að umgangast Sævar Marinó hinn 5. september 1974, því að þá hefði
Bls. 255
hann stolið veski af gesti vitnisins, en að vísu skilað því aftur. Vitnið kvað Helgu Gísladóttur hafa sagt því, að á því tímabili, sem hann hefði heimsótt Helgu á Kópavogshælið, hefði hann komið með skyrtu, sem í hefðu verið blóðblettir. Vitnið vissi til þess, að Albert Klahn slasaðist illa á fæti, sennilega í nóvember 1973, í átökum við mann nokkurn á Kópavogshæli.
Vitnið Lilja Hjartardóttir, Æsufelli 2, Reykjavík, kvaðst ekki muna eftir laugardagskvöldinu 26. janúar 1974 né næstu nótt, en það hefði á þessum tíma búið með Helgu Gísladóttur á Kópavogshæli og þá orðið vart við náinn kunningsskap þeirra Helgu og Sævars Marinós. Vitnið kvaðst í nokkra mánuði hafa verið með pilti, sem Einar héti, en það vissi ekki föðurnafn hans. Hefði hann slitið kunningsskap þeirra eitthvert laugardagskvöld á dansleik í Glæsibæ og vera mætti, að þetta hefði átt sér stað hinn 26. janúar 1974.
Vitnið Hinrik Jón Þórisson, Heiðarbæ 9, Reykjavík, skýrði frá því, að það hefði þekkt Sævar Marinó Ciesielski um árabil og einnig þekkt Erlu Bolladóttur, Kristján Viðar Viðarsson og Albert Klahn Skaftason. Sævar Marinó var mikið í fíkniefnasölu á þessum tíma, og einstaka sinnum kom fyrir, að hann neytti fíkniefna. Albert Klahn og Kristján Viðar neyttu töluvert mikið fíkniefna og Erla eitthvað. Vitnið kvaðst sjálft hafa notað fíkniefni. Stöfuðu kynni þeirra Sævars Marinós meðal annars af því. Vitnið mundi til þess, að Sævar Marinó minntist einhvern tíma á að láta menn, sem honum var illa við, hverfa, en einkum var það Kristján Viðar, sem hafði orð á því. Vitnið kvað hafa komið fyrir, að Sævari Marinó sinnaðist við það, og hafði hann á orði að stytta því aldur. Vitnið var mikið með Sævari Marinó og Kristjáni Viðari á árunum 1974-1975. Albert Klahn var einnig með þeim, en Gunnar Jónsson kvaðst vitnið ekki hafa hitt fyrr en síðar úti í Kaupmannahöfn, líklega haustið 1975. Tryggvi Rúnar var einnig með þeim á þessum tíma. Vitnið kvaðst hafa tekið eftir því, að eftir mánaðamótin janúar-febrúar 1974 var eins og Tryggvi Rúnar forðaðist að vera með Sævari Marinó og Kristjáni Viðari, og var hann lítið með þeim upp frá því.
Vitnið skýrði frá því, að um mánaðamótin janúar-febrúar 1974 hefði það eitt sinn farið með þeim Sævari Marinó, Kristjáni Viðari og Albert Klahn að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði, en þar bjuggu Sævar Marinó og Erla Bolladóttir um þær mundir. Vitnið kvaðst ekki geta sagt, hvaða dag þetta var, en það hefði verið 1-2 dögum eftir að það kom frá Amsterdam. Vitnið mundi, að
Bls. 256
þeir hinir vildu ekki, að það færi með þeim til Hafnarfjarðar, en af hvaða ástæðu, vissi það ekki. Það varð þó úr, að vitnið fékk að fara með þeim. Vitnið minnti, að Albert Klahn hefði ekið bifreiðinni, sem hefði verið jeppi. Þegar að Hamarsbraut 11 kom, vildu þeir ekki hleypa vitninu inn, en af hvaða ástæðu, vissi það ekki. Voru þeir með hótanir við vitnið, og mundi vitnið eftir, að Kristján Viðar sagði eitthvað á þá leið, hvort leyfa ætti vitninu "að fara með honum." Sævar Marinó dró úr þessu, en Kristján sagði við vitnið, að það mætti velja á milli þess að fara í bæinn sjálft eða hann fleygði því fram af hömrunum þarna fyrir neðan. Vitnið kvaðst hafa verið leitt yfir því að fá ekki að fara inn með þeim, þar sem það langaði að vita, hvað þeir væru að aðhafast, en vitninu hafði skilist, að eitthvað stæði til, og taldi, að um eitthvert gróðabrall væri að ræða. Vitnið hvarf frá Hamarsbraut 11 við svo búið og hitti hina ekki fyrr en síðar.
Vitnið mundi eftir því, að Sævar Marinó var handtekinn einhvern tíma í byrjun febrúar 1974. Einum til tveimur dögum síðar flutti vitnið inn til Erlu Bolladóttur að Hamarsbraut 11 og bjó þar um hálfs mánaðar skeið. Vitnið var þarna í boði Erlu, en Sævar Marinó komst ekki að þessu fyrr en eftir á. Erla var mjög taugaveikluð, og taldi vitnið, að ástæðan fyrir þessu hefði verið sú, að hún vildi ekki vera ein. Óreiða var í íbúðinni, og tók vitnið þar fljótlega til. Vitnið kvaðst hafa séð blóðbletti í svefnherberginu, sem er inn af stofu. Mundi vitnið sérstaklega eftir tveimur blóðblettum í gólfteppi. Var annar, sem var nokkuð stór, innarlega í herberginu, en hinn, sem var nokkru minni, var nálægt dyrunum fram í stofuna. Vitnið sá einnig blóð víðsvegar um herbergið og var sérstaklega minnisstætt, að það sá blóð á legubekk. Vitnið kvaðst af þessu tilefni hafa spurt Erlu, hvaða blettir þetta væru. Þegar Erla sagði því, að þetta væri blóð, kvaðst vitnið hafa spurt hana, hvort átök hefðu orðið þarna inni. Erla neitaði því, en sagði, að Sævar Marinó hefði verið að steikja sér nautakjöt og blóðið væru úr því. Vitnið spurði ekki frekar út í þetta. Vitninu fannst blettirnir það stórir, að þetta væri ekki rátt, og taldi það, að átök hefðu átt sér stað í íbúðinni. Vitnið kvaðst hafa fundið vonda lykt út úr ísskápnum og farið að athuga, af hverju hún stafaði. Vitnið gat ekki fundið það út, en við leit í skápnum fann það tvo taupoka, sem voru umbúðir utan af hassi. Algengt er, að slíkar umbúðir séu soðnar, eftir að þær hafa verið tæmdar, og seyðið drukkið. Vitnið mundi, að Helga Gísladóttir var stödd þarna, og voru hún og Erla viðstaddar, er
Bls. 257
vitnið sauð umbúðirnar. Vitnið tók eftir því, að dökkir blettir voru á umbúðunum, og taldi það, að um blóð væri að ræða. Spurði það Erlu um þetta, og sagði hún, að þetta væri nautsblóð. Vitnið og Helga drukku seyðið af umbúðunum, og hafði það áþekk áhrif og þegar hass er reykt. Erla vildi ekki drekka seyðið, en reykti hassköggla, sem voru eftir í umbúðunum. Á meðan vitnið og Helga voru að drekka teið, spurði Erla, hvernig vitninu fyndist að drekka mannsblóð. Hún nefndi þetta einnig síðar við vitnið og fleiri. Erla nefndi ekki þá, úr hverjum þetta blóð væri, en síðar, eftir að "Guðmundarmálið" kom til rannsóknar, sagði hún vitninu og fleirum, að blóðið hefði verið úr Guðmundi Einarssyni.
Vitnið kvaðst sjálft hafa þrifið íbúðina ásamt Erlu, m. a. eitthvað blóð, en það taldi, að ekki hefði verið unnt að hreinsa blóðið úr teppinu, þar sem það var storknað, og hið sama væri að segja um blóðið á legubekknum. Vitnið aðstoðaði Erlu við að flytja frá Hamarsbraut 11 og mundi ekki eftir því, að legubekkurinn hefði verið fluttur þangað sem Erla flutti. Vitnið kvað legubekk þennan hafa verið mjóan, en gat að öðru leyti ekki lýst honum. Vitnið taldi, að teppi hefði verið sett yfir hann til þess að hylja blóðið, og einnig var settur renningur yfir teppið, þar sem blóðblettirnir voru.
Hinn 27. september 1977 var ákærða Albert Klahn kynntur framburður Hinriks Jóns Þórissonar frá 16. ágúst 1977 um ferð að Hamarsbraut 11. Ákærði Albert Klahn kvaðst þekkja Hinrik Jón og hafa farið einhvern tíma með honum að Hamarsbraut 11 ásamt Sævari Marinó og Kristjáni Viðari. Ákærði Albert Klahn kvaðst ekkert muna sérstaklega eftir ferð þeirri, sem Hinrik Jón greindi frá í framburði sínum, og ekkert geta borið frekar um þetta.
Framburður Hinriks Jóns Þórissonar var borinn undir ákærða Kristján Viðar Viðarsson. Var eftirfarandi bókað eftir ákærða:
"Ég kannast ekki við það, er Hinrik Jón greinir frá í framburði sínum, hvorki varðandi hótanir né ferð til Hafnarfjarðar. Hins vegar hefi ég tekið á þessum manni, en það var af þeirri ástæðu, að hann braust inn heima hjá mér, og ég stóð hann að verki".
Frásögn Erlu Bolladóttur varðandi fyrrnefndan framburð Hinriks Jóns Þórissonar var á þessa lund:
"Mér hefur verið tjáð, að Hinrik Jón segist hafa í byrjun árs
Bls. 258
1974 búið heima hjá mér að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði um hálfsmánaðarskeið í boði mínu. Á þeim tíma á Sævar Marinó að hafa setið í fangelsi. Það er alrangt hjá Hinrik Jóni, að hann hafi búið heima hjá mér, en hitt er rétt, að hann gisti heima hjá mér nótt og nótt á þeim tíma, sem um ræðir. Það er rétt hjá Hinrik Jóni, að ég hafi verið taugaveikluð, og væntanlega hefur ástæðan verið sú, að mér var illa við að vera ein. Ekki man ég til þess, að nein sérstök óreiða hafi verið í íbúðinni eða að Hinrik Jón hafi tekið þar til.
Hvað snertir blóðbletti, sem Hinrik Jón segist hafa séð á gólfteppinu í svefnherberginu, þá man ég ekki til að hafa tekið eftir þeim. Aftur á móti hitti ég Hinrik Jón einhvern tímann á fyrri hluta árs 1976, og fór hann þá að tala um þessa blóðbletti við mig. Mig rámaði þá í, að hann hefði á sínum tíma, það er snemma árs 1974, er hann var af og til heima hjá mér, talað við mig um blóðbletti í svefnherberginu, en ég hugsaði ekkkert nánar um það þá. Í því sambandi vil ég benda á það, að það var aldrei neinn renningur á gólfteppinu í íbúðinni að Hamarsbraut 11, en teppi var á dívaninum í svefnherberginu. Ekki man ég eftir neinum blóðblettum á dívaninum og er reyndar nokkuð viss um, að þar voru engir blóðblettir."
Erla Bolladóttir kvað það rétt vera, að Hinrik Jón hefði soðið strigagrisjur utan af hassi og drukkið seyðið. Á grisjunum hefðu verið rauðleitir blettir, sem hún taldi vera hassolíu. Erla kvaðst ekki muna til þess, að hún hefði sagt við Hinrik Jón eða nokkurn annan, að um blóðbletti væri að ræða.
Reynt var að finna legubekk þann, sem var að Hamarsbraut 11, þegar þetta átti sér stað, en hann fannst ekki.
Vitnið Páll Rúnar Elíson, Heiðardal, Blesugróf, Reykjavík, skýrði frá því, að það hefði verið að afplána refsidóm á Vinnuhælinu að Litla-Hrauni í ágúst 1976. Tryggvi Rúnar Leifsson var þá í gæsluvarðhaldi þar. Vitnið kvaðst hafa rætt við Tryggva Rúnar um mál þetta í tvö skipti í klefa sínum, sem var nr. 39, og Halldór Fannar Ellertsson verið viðstaddur í annað skiptið. Tryggvi Rúnar talaði mjög frjálslega um málið og virtist hekki hafa neinu að leyna. Hann skýrði vitninu frá því, að hann hefði verið staddur í húsi í Hafnarfirði ásamt Sævar Marinó og Kristjáni Viðari nótt þá, er Guðmundur Einarsson hvarf. Hefði Guðmundur Einarsson verið þar og sennilega tvær stúlkur. Ekki minntist Tryggvi Rúnar á, hvar þeir hefðu hitt Guðmund, og
Bls. 259
ekki nefndi hann nöfn stúlknanna. Hann minntist heldur ekki á, að þeir hefðu verið undir áhrifum áfengis og lyfja, er Guðmundur beið bana.
Tryggvi Rúnar skýrði vitninu frá því, að upphaf átakanna við Guðmund hefði orðið með þeim hætti, að Guðmundur hefði hótað að ljóstra einhverju upp um ákærðu. Hefði Tryggvi Rúnar þá ráðist á Guðmund og slegið hann niður. Síðan hefði Sævar Marinó sparkað í höfuð hans, þar sem hann lá á gólfinu og var að reyna að rísa á fætur. Guðmundur hefði ekki hreyft sig eftir þetta. Þeir hefðu tekið lík Guðmundar og sett það í einhvern skáp. Þeir hefðu orðið skelkaðir eftir þetta og tekið inn LSD töflur og hefði hann alveg orðið ringlaður. Hann kvaðst þó muna, að lík Guðmundar hefði verið sett í einhvern jeppa og ekið burt í honum, en ekki muna, hvað hefði verið gert við það. Fleira sagði Tryggvi Rúnar ekki um þetta, að vitnið mundi, og hann minntist aldrei á það, að Kristján Viðar hefði tekið þátt í árásinni á Guðmund. Tryggvi Rúnar sagði að það hefði komið sér algerlega á óvart, er hann var tekinn vegna máls þessa. Hann hefði ekkert munað fyrst í stað, en síðan hefði þetta rifjast upp fyrir sér.
Þá skýrði vitnið frá því, að um mánaðamótin september-október 1976 hefði verið gerð árás á sig að næturlagi á Miðtúni í Keflavík. Hefðu þrír menn staðið að árásinni. Vitnið var slegið til jarðar og missti meðvitund um stund. Hefði það nefbrotnað og tennur brotnað í því. Vitnið vissi ekki tilefni árásarinnar, en grunaði, að hún stæði í sambandi við upplýsingar þær, sem það hefði gefið í máli þessu.
Ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson kvað framburð Páls Rúnars Elísonar vera alger ósannindi. Hann hefði aldrei rætt mál þetta við Pál Rúnar, hvorki á Litla-Hrauni né annars staðar.
Vitnið Halldór Fannar Ellertsson sjómaður, Snorrabraut 85, Reykjavík, skýrði frá því, að það hefði í júlí og ágúst 1976 verið að afplána refsingu á Vinnuhælinu að Litla-Hrauni. Tryggvi Rúnar var á þessum tíma þar í gæsluvarðhaldi, og ræddi vitnið oft við hann um mál varðandi dauða Guðmundar Einarssonar. Tryggvi Rúnar hafði orð á því, að ekki væru öll kurl komin til grafar í málinu. Hann spurði mikið um, hvað hefði verið skrifað í blöðin um málið, en taldi það hafa litla þýðingu. Tryggvi Rúnar fékk á þessum tíma að lesa dagblöð, svo sem aðrir refsifangar á Litla-Hrauni. Hann hélt því fram, að hann væri saklaus og
Bls. 260
dómsrannsókn mundi leiða það í ljós. Vitnið mundi eftir því, að Páll Rúnar Elíson var viðstaddur einhverju sinni, er Tryggvi Rúnar var að ræða þetta.
Vitninu var kynntur framburður Páls Rúnars Elísonar um það, er Tryggvi Rúnar átti að hafa sagt í viðurvist Páls Rúnars og vitnisins. Vitnið kvaðst aldrei hafa heyrt Tryggva Rúnar segja það, er í framburði Páls Rúnars greindi, og hefði það ekki heyrt það, er Páll Rúnar sagði, fyrr en nú fyrir skömmu. Vitnið mundi ekki eftir því, að Tryggvi Rúnar hefði nokkurn tíma gefið í skyn, hvernig dauða Guðmundar Einarssonar hefði borið að höndum.
Vitnið Guðmundur Edwin Þór Björnsson, Háagerði 43, Reykjavík, kvaðst þekkja Kristján Viðar og Tryggva Rúnar allvel og talsvert hafa umgengist þá. Það hefði eitt sinn verið í samkvæmi heima hjá Kristjáni Viðari nokkrum dögum eftir hvarf Guðmundar Einarssonar, að því er það minnti best. Sævar Marinó, sem vitnið kannaðist við, hefði verið staddur þarna, en ekki mundi það að nafngreina fleiri. Vitnið staðhæfði, að í samkvæminu hefði hvarf Guðmundar Einarssonar komið til umræðu og Kristján Viðar þá sagt, að hann vissi um mál þetta og hann hefði látið Guðmund hverfa. Kristján Viðar hefði og nefnt einhverja ástæðu fyrir hvarfinu, og minnti vitnið, að hún hefði eitthvað verið í sambandi við eiturlyf. Í samkvæminu var enn fremur verið að tala um einhverja utanferð, sem annað hvort Kristján Viðar eða Sævar Marinó hefðu farið í, og þeir verið nýkomnir til landsins aftur. Vitnið kvaðst minnast þess, að það hefði spurt Kristján Viðar að því, hvað hann hefði gert við líkið af Guðmundi, og sagði hann það hafa verið sett í hraunið við afleggjarann, sem liggur til Grindavíkur af Keflavíkurvegi. Vitnið minnti, að Kristján Viðar hefði eitthvað nefnt Sævar Marinó í sambandi við mál þetta, en mundi ekki til þess, að hann hefði nefnt Tryggva Rúnar. Vitninu fannst tal Kristjáns Viðars svo fjarstæðukennt, að það hefði ekkert mark tekið á því.
Vitnið Hulda Kristín Gissurardóttir, Akraseli 7, Reykjavík, kvaðst hafa hafið sambúð með Tryggva Rúnari Leifssyni sumarið 1973. Þau hefðu eignast son í desember það ár, en slitið samvistir í september 1974 vegna óreglu hans. Vitnið kannaðist við Albert Klahn, Sævar Marinó og Kristján Viðar, en þau Tryggvi Rúnar hefðu oft verið heima hjá hinum síðastnefnda. Vitnið kvaðst ekki muna sérstaklega eftir helginni, þegar Guðmundur Einarsson hvarf, og því ekki geta borið um dvalarstað Tryggva Rúnars
Bls. 261
þá. Hann hefði stundum lagst í óreglu og vitnið ekki fylgst með ferðum hans.
Vitnið Alfreð Hilmarsson trésmiður, Efstalandi 2, Reykjavík, kvaðst hafa komið nokkrum sinnum heim til Kristjáns Viðars eftir áramótin 1973-1974. Þar hefði verið nokkuð um drykkjuskap og verslað með fíkniefni. Vitnið hitti þar þá Albert Klahn, Tryggva Rúnar, Sævar Marinó og Viggó Guðmundsson. Orð hefði farið af ofbeldishneigð þeirra Kristjáns Viðars og Tryggva Rúnars. Vitnið kannaðist við Guðmund Einarsson, þeir hefðu verið saman í barnaskóla, en aldrei sagðist vitnið hafa séð Guðmund á heimili Kristjáns Viðars.
Við geðrannsókn Ásgeirs Karlssonar læknis á ákærða Tryggva Rúnari skýrði ákærði svo frá málsatvikum samkvæmt skýrslu læknisins:
"Tryggvi Rúnar segir, að það hafi komið flatt upp á sig, þegar hann var settur í gæsluvarðhald h. 23.11.'75 í sambandi við hvarf Guðmundar Einarssonar, þar eð hann taldi sig ekkert vera flæktan í það mál eða vita nokkuð um það. Segist hann hafa farið í mikið uppnám, hélt, að það væri verið að beita sig einhverjum bellibrögðum. Missti svefn, gat ekki sofið í eina 4 sólarhringa, fyrst eftir að hann var settur inn, var spenntur, kvíðinn, örvæntingarfullur, fékk ofheyrnir, heyrði raddir kunningja, bæði karla og kvenna. Það, sem hann heyrði, var mest sundurlaust málæði, mest rifrildi eða veisluglaumur, eins og í partýi. Segir, að læknir hafi verið fenginn til sín og gefið sér róandi lyf, telur, að ruglið hafi runnið af sér á nokkrum dögum. Hann segist síðan hafa verið í yfirheyrslum í sambandi við hvarf Guðmundar, en ekkert fór að rifjast upp fyrir honum um eiginn þátt í því máli, fyrr en u. þ. b. 30 dögum eftir að hann var settur í varðhald. Það, sem hann man í því sambandi, er fyrir honum næsta óljóst og sundurlaust, en telur sig þó muna greinilega eftir því núna, að hann hafi lent í átökum við Guðmund ásamt tveimur mönnum og annar þeirra hafi sparkað í andlit Guðmundar, þar sem hann lá á gólfinu. Jafnframt telur hann sig muna, að þeir hafi farið með lík Guðmundar á einhvern stað í nágrenni Hafnarfjarðar, man óljóst eftir þessum stað, en segir að "Fjárborg" hafi verið þar nálægt".
Ákærða Tryggva Rúnari var bent á þessa skýrslu læknisins, er hann kom fyrir dóm hinn 30. mars 1977. Kannaðist hann við að hafa sagt það við lækninn, sem í skýrslu hans greindi. Sagðist
Bls. 262
hann hafa nefnt fjárborg við hann, en ekki í sambandi við þetta mál.
I. Ari Ingimundarson, fangavörður í fangelsinu við Síðumúla, Hamraborg 8, Kópavogi, kom fyrir dóm og var kynnt bókun ákærða Sævars Marinós Ciesielski fyrir dómi hinn 29. mars 1977. Kvaðst Ari Ingimundarson ekki kannast við atriði þau, sem ákærði fjallaði um í bókun þessari. Ari sagðist ekki hafa verið sjónarvottur að því, að Sigurbjörn Víðir Eggertsson hefði slegið ákærða Sævar Marinó í andlit, tekið hann upp og fleygt honum í stól í yfirheyrsluherbergi Síðumúlafangelsis, og ekki vita til, að slíkt hefði átt sér stað. Hann hefði ekki orðið var við, að ákærði Sævar Marinó væri beittur ofbeldi eða hótunum um ofbeldi í fangelsinu.
Ari sagðist ekkert geta borið um það, sem fram kæmi í bókun ákærða Tryggva Rúnars Leifssonar á dómþingi hinn 30. mars 1977, enda ekki verið viðstaddur neinar yfirheyrslur í málinu.
Eggert Norðdahl Bjarnason rannsóknarlögreglumaður, Hverfisgötu 90, Reykjavík, kvaðst í upphafi hafa haft með höndum rannsókn máls þessa ásamt Erni Höskuldssyni fulltrúa og Sigurbirni Víði Eggertssyni rannsóknarlögreglumanni, en síðar hefðu fleiri bæst í hópinn.
Eggert Norðdahl kvaðst ekki kannast við neitt af því, sem fram kæmi í bókun ákærða Sævars Marinós hinn 29. mars 1977 um meðferð þá, sem ákærði taldi sig hafa orðið fyrir í fangelsinu við Síðumúla. Tók hann fram, að honum væri ekki kunnugt um, að ákærði Sævar Marinó hefði verið beittur líkamlegu ofbeldi við rannsókn máls þessa eða hótunum um það. Ákærði hefði alltaf verið yfirheyrður sjálfstætt og hefði hann skýrt frá af fúsum og frjálsum vilja, en spurningar oft verið endurteknar, svo sem venja sé við rannsóknir. Ákærði var að öllu jöfnu prúður og viðræðugóður við yfirheyrslur, en það kom þó nokkuð oft fyrir, að hann kallaði rannsóknarmennina öllum illum nöfnum. Ákærði gerði sig líklegan til að hlaupast á brott úr yfirheyrslum í nokkur skipti, og varð þá að taka hann og koma honum aftur í sæti sitt. Í eitt sinn hljóp hann á brott utan dyra. Hljóp Örn Höskuldsson ákærða uppi og felldi hann til jarðar, en síðan var hann færður aftur í fangelsið. Ákærði var ekki með járn, er þetta gerðist, og gekk við hlið rannsóknarmanna. Eggert Norðdahl tók fram, að þeir rannsóknarmennirnir hefðu ekki átt von á, að ákærði hlypist á brott í þetta sinn.
Þá var Eggert Norðdahl kynntur framburður ákærða Tryggva
Bls. 263
Rúnars Leifssonar. Hann mundi eftir því, að á milli jóla og nýárs árið 1975 var ákærði Tryggvi Rúnar eitthvað miður sín í fangelsinu í Síðumúla. Fór hann að hafa orð á því, hvort þessi líðan gæti verið samviskubit, því að hann hefði aldrei haft samviskubit af neinu, sem hann hefði gert. Eggert Norðdahl kvað ákærða Tryggva Rúnar aldrei hafa verið beittan neinum hótunum, að því að hann gæti borið um. Hann hefði skýrt sjálfstætt frá málsatvikum og af frjálsum vilja.
Eggert Norðdahl kvaðst hafa tekið skýrslu af ákærða Tryggva Rúnari Leifssyni hinn 9. janúar 1976 og hefði hann þá lýst herbergjaskipan að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði, svo sem í skýrslunni greinir. Eggert Norðdahl var kynnt það, er ákærði sagði í framburði sínum um, að hann hefði í yfirheyrslum hjá rannsóknarlögreglunni fengið að vita, hvernig herbergjaskipan var að Hamarsbraut 11, og að lýsing sín væri á því byggð. Hann sagði þetta ekki rétt og hefði ákærði sjálfstætt lýst herbergjaskipaninni.
Eggert Norðdahl skýrði frá því, að við rannsókn póstsvikamálsins, sbr. IV. kafla ákæru, dags. 8. desember 1976, hefði grunur vaknað um það, að ákærðu kynnu að vera viðriðnir dauða Guðmundar Einarssonar, en rannsóknarlögreglumenn höfðu áður heyrt orðróm í þá átt. Við yfirheyrslu 20. desember 1975 yfir Erlu Bolladóttur hefði þessi grunur styrkst og rannsókn málsins haldið áfram í framhaldi af því.
Eggert Norðdahl Bjarnason kom loks fyrri sakadóm hinn 27. september 1977. Tilefni þeirrar yfirheyrslu var bréf Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða Tryggva Rúnars Leifssonar, til dómsins, sem dagsett er hinn 14. september 1977. Óskaði verjandinn þar eftir því, að eftirfarandi spurningar yrðu lagðar fyrir Eggert Norðdahl Bjarnason:
1. Hvers vegna var Tryggvi Rúnar Leifsson tekinn til yfirheyrslu í ein 30 skipti, á þess að lögreglumenn bókuðu nokkuð um, hvað gerst hafi?
Svar hans var: "Ég dreg það í efa, að hann hafi verið færður í yfirheyrslu svo oft, en ég rengi ekki, að það hafi verið talað við hann jafnvel í ein 30 skipti. Samtölin fóru fram, að því er ég best man, oft að beiðni Tryggva Rúnars sjálfs, en ekki af því, að ég óskaði að tala við hann. Um slík samtöl var ekki gerð sérstök skýrsla".
2. Hvers vegna voru engir vottar hafði við skýrslutökurnar?
Svar: "Í mínu starfi hefur það ekki verið venja, að vottur
Bls. 264
sé viðstaddur sjálfa skýrslutökuna, heldur fenginn eftir á og þá ýmist hlustað á, er skýrslan var lesin fyrir skýrslugefanda eða þegar skýrslugefandi hefur verið spurður, hvort ekki sé allt rétt eftir honum haft í skýrslunni. Þar sem Sigurbjörn Víðir Eggertsson er vottur í þessu máli, var hann viðstaddur skýrslutökuna, eftir því sem ég best man. Ég hefi engin bein fyrirmæli fengið frá yfirboðurum mínum um að hafa þennan hátt á, heldur hefur þetta verið starfsvenja".
3. Hver var tilgangur með ferðum lögreglumanna inn í klefa Tryggva Rúnars og hvað fór þeim og Tryggva Rúnari á milli?
Svar: "Ég man ekki eftir því að hafa farið inn í klefa Tryggva Rúnars".
Hilmar Ingimundarson hæstaréttarlögmaður kvaðst ekki óska eftir því, að frekari spurningar yrðu lagðar fyrir Eggert Norðdahl.
Gunnar Marinó Marinósson, varðstjóri í fangelsinu við Síðumúla, skýrði frá því fyrir dómi, að hann kannaðist ekki við það, sem ákærði Sævar Marinó héldi fram í bókun sinni frá 29. mars 1977. Hann hefði aldrei orðið var við, að ákærði Sævar Marinó sætti illri meðferð í fangelsinu við Síðumúla, á meðan ákærði var þar í gæsluvarðhaldi vegna máls þessa.
Varðandi bókun ákærða Tryggva Rúnars Leifssonar frá 30. mars 1977 tók Gunnar Marinó fram, að hann hefði yfirleitt ekki verið viðstaddur yfirheyrslur í málinu. Hann kannaðist við að hafa undirritað sem vottur skýrslu ákærða Tryggva Rúnars hinn 9. janúar 1976. Gunnar Marinó mundi ekki, hvort hann var viðstaddur, er skýrsla Tryggva Rúnars var lesin, en hann hefði örugglega verið viðstaddur, þegar ákærði undirritaði skýrsluna og staðfesti hana rétta.
Högni Ófeigur Einarsson, fangavörður í fangelsinu við Síðumúla, Eyjabakka 16, Reykjavík, hefur ritað sem vottur á skýrslu þá, sem rannsóknarlögreglan tók af ákærða Tryggva Rúnari Leifssyni hinn 9. janúar 1976. Hann kvaðst ekki hafa verið viðstaddur, þegar skýrslan var tekin af ákærða, en skrifaði undir hana sem vottur, þegar yfirheyrslu var lokið. Högni Ófeigur mundi til þess, að ákærði lýsti skýrsluna rétta og undirritaði hana í viðurvist hans.
Jóhanni Gunnari Friðjónssyni, fangaverði í fangelsinu við Síðumúla, Þverbrekku 4, Kópavogi, var kynnt bókun ákærða Sævars Marinós í þinghaldi 29. mars 1977 um meðferðina á sér í fangelsinu við Síðumúla. Jóhann Gunnar kvaðst ekki kannast
Bls. 265
við neitt það, er ákærði Sævar Marinó rakti í bókuninni. Jóhann Gunnar var ekki viðstaddur yrirheyrslur í málinu. Hann kvað ákærða Sævar Marinó hafa verið prýðisfanga og gert það, sem hann var beðinn um, en þó hefði þurft að ítreka við hann að þrífa sig og klefa sinn. Jóhann Gunnar kannaðist ekki við, að hann hefði veitt Skúla Steinssyni aðstoð við að dýfa ákærða ofan í vask, svo sem hann héldi fram, og vissi ekki til, að það hefði verið gert. Hann vissi ekki til þess, að nokkurn tíma hefði komið til átaka, er ákærði átti að fara í bað. Hann mundi þó eftir, að Skúli Steinsson sótti ákærða eitt sinn inn í klefann til þess að fara í bað og hélt utan um hann á leiðinni fram á baðherbergi. Ekki varð Jóhann Gunnar var við, að ákærði væri beittur neinu ofbeldi.
Kjartan Kjartansson fangavörður, Hrafnhólum 8, Reykjavík, kvaðst hafa verið fangavörður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg 9, en verið fenginn til að annast fangavarðarstarf í fangelsinu við Síðumúla frá því snemma í janúar og fram í apríl eða maí árið 1976.
Kjartan kvaðst ekki af eigin raun geta borið um atriði þau, sem fram kæmu í bókun ákærða Sævars Marinós hinn 29. mars 1977, en minntist þess að hafa heyrt talað um, að viðhöfð hefðu verið þau ummæli sem í niðurlagi bókunarinnar greindi, en gat ekki staðhæft, hvort hann hefði verið viðstaddur.
Kjartan kvaðst ekki hafa verið við yfirheyrslur og því ekki geta borið um af eigin raun, hvort beitt hefði verið líkamlegu ofbeldi við ákærða Sævar Marinó, en heyrt, að yfirheyrslurnar voru "ákaflega hávaðasamar". Kjartan sagðist ekki vita til, að ákærði Sævar Marinó hefði verið beittur ofbeldi eða hótunum um ofbeldi í fangelsinu, en orðið var við það, að fangaverðir virtust yfirheyra ákærða eða blanda sér að óþörfu í mál hans, og nefndi hann í því sambandi þá Skúla Steinsson og Högna Einarsson. Ekki vissi hann þó til, að þetta hefði verið gert að beiðni rannsóknarmanna. Kjartani fannst ákærði Sævar Marinó sæta að ástæðulausu meira harðræði í fangelsinu en aðrir fangar í sama máli, enda hefði ákærði Sævar Marinó hegðað sér afburðavel frá sjónarmiði fangavarðar. Kjartan varð ekki var við, að ákærði Sævar Marinó sýndi tregðu á að þrífa sig eða klefa sinn.
Kjartani Kjartanssyni fannst vanta eitt atriði inn í málið, og var í því sambandi eftirfarandi orðrétt bókað eftir honum:
"Ég var þarna ásamt fleiri fangavörðum staddur í milliherbergi milli varðstofu og yfirheyrslusals fangelsisins, sem er fyrst til
Bls. 266
hægri, er inn í fangelsið kemur. Að yfirheyrslu þeirra Eggerts Bjarnasonar og Sigurbjörns Víðis yfir Sævari Marinó liðinni, fannst mér, að yfirheyrslunni ætti að vera lokið. Svo var þó ekki. Gekk Gunnar Guðmundsson yfirfangavörður þá mjög berserkslega inn í yfirheyrsluherbergið og upphófst vægast sagt allmikill hávaði, og ég leit í augu nærstaddra fangavarða. Ég var ekki viss um, hverjum bæri skylda til að opna hurðina og athuga, hvað þarna færi fram. Þegar ég sá ekki, að neinn hefði kjark til að athuga, hvað væri að gerast, opnaði ég hurðina. Ég sá ekki, að Gunnar Guðmundsson væri í hættu staddur, en mér virtist sem Sævar Marinó hefði verið svínbeygður, enda hefði hann ella ekki kallað: "Stilltu þig, stilltu þig, Gunnar, Gunnar". Gunnar Guðmundsson skipaði mér að loka tafarlaust. Ekki heyrði ég, að fleira gerðist þarna inni".
Um bókun ákærða Tryggva Rúnars frá 30. mars 1977 kvaðst Kjartan ekkert geta borið, enda hefði honum verið málið algerlega ókunnugt.
Sigurbjörn Víðir Eggertsson rannsóknarlögreglumaður, Asparfelli 4, Reykjavík, kannaðist ekki við, að hann hefði nokkurn tíma minnst á það við ákærða Sævar Marinó, að hann yrði settur í lífstíðaröryggisgæslu. Hins vegar hefði ákærði mikið talað um þetta sjálfur og hefði greinilega óttast þetta.
Sigurbjörn Víðir kannaðist ekki við að hafa nokkurn tíma heyrt þau ummæli, að ákærði fengi að týnast í amerísku fangelsi, ef hann játaði ekki sakir á sig í "Guðmundar- og Geirfinnsmáli". Kvaðst Sigurbjörn Víðir aldrei hafa haft orð á þessu við ákærða.
Sigurbjörn Víðir skýrði frá því, að eitt sinn, er tilraun var gerð til samprófunar milli ákærðu Sævars Marinós og Tryggva Rúnars, hefðu þeir byrjað að bera sakir hvor á annan. Hefðu þeir lent í orðahnippingum og Tryggvi Rúnar þrifið í skyrtu Sævars Marinós að framan og e. t. v. lyft honum upp. Hann stöðvaði Tryggva Rúnar strax, og meiddist Sævar Marinó ekkert. Var samprófuninni þar með lokið.
Sigurbjörn Víðir kvað það alger ósannindi hjá ákærða Sævari Marinó, að hann hefði ráðist á ákærða, er ákærði átti að fara inn í fangaklefa, og slegið ákærða í andlitið, tekið hann á loft og fleygt honum í stól í yfirheyrsluherbergi. Einu skiptin, sem hann hefði þurft að snerta ákærða væru þau, þegar hann ætlaði að hlaupa út úr yfirheyrslu, og kom það fyrir oftar en einu sinni. Sigurbjörn Víðir kannaðist ekkert við það, sem ákærði sagði um
Bls. 267
Skúla Steinsson. Hann sagði, að ákærði hefði verið mjög misjafn við yfirheyrslur. Stundum hefði hann verið prúður, en stundum mjög æfur og kallað þá rannsóknarlögreglumennina öllum illum nöfnum. Hann kvað oftast hafa farið vel á með sér og ákærða og hefði hann oft gert ákærða greiða.
Samprófun fór fram milli Sigurbjörns Víðis og ákærða Sævars Marinós, en hvor þeirra hélt fast við sinn framburð.
Sigurbjörn Víðir kvað það ekki rétt, að ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson hefði fengið upplýsingar um herbergjaskipan að Hamarsbraut 11 hjá rannsóknarlögreglu. Ákærði hefði skýrt sjálfstætt frá þessu atriði. Minnti Sigurbjörn Víði, að ákærði Tryggvi Rúnar hefði gert "skissu" af herbergjaskipaninni, en ekki vissi hann, hvort hún væri til.
Í tilefni fyrrnefnds bréfs Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns voru eftirfarandi spurningar lagðar fyrir Sigurbjörn Víði Eggertsson á dómþingi sakadóms hinn 27. september 1977:
1. Hvers vegna var Tryggvi Rúnar Leifsson tekinn til yfirheyrslu í ein 30 skipti, án þess að lögreglumenn bókuðu nokkuð um, hvað gerst hefði?
Svar: "Ég held, að það komi ekki til, að þetta hafi verið yfirheyrslur, heldur var oft um viðtöl við Tryggvi Rúnar að hans beiðni að ræða. Það er ekki venja í yfirheyrslum að bóka allar yfirheyrslur og yfirleitt ekki bókað í yfirheyrslu, nema eitthvað nýtt komi fram eða sá, sem er yfirheyrður, vilji bæta einhverju við framburð sinn".
2. Hvers vegna voru engir vottar við yfirheyrslurnar?
Svar: "Það er ekki venja, að vottar séu við sjálfar yfirheyrslurnar, heldur eru þeir kallaðir til eftir á, ýmist er skýrslan er lesin upp eða þegar sá, sem er yfirheyrður, undirritar hana. Ég hefi engin fyrirmæli um það fengið frá yfirboðurum mínum um, að þessi háttur skuli hafður á".
3. Hver var tilgangur með ferðum lögreglumanna inn í klefa Tryggva Rúnars Leifssonar og hvað fór þeim og Tryggva Rúnari á milli?
Svar: "Tryggvi Rúnar hafði oft samband við fangaverði og óskaði eftir að fá að tala við mig, bæði um málið og um persónuleg mál".
Verjandi ákærða Tryggva Rúnars kvaðs ekki vilja leggja fleiri spurningar fyrir Sigurbjörn Víði.
Skúli Ævar Steinsson, fangavörður að Litla-Hrauni, Háeyrar-
Bls. 268
völlum 32, Eyrarbakka, kvaðst hafa verið fangavörður í fangelsinu við Síðumúla, á meðan ákærði Sævar Marinó var þar í gæsluvarðhaldi á árinu 1976. Skúli Ævar kvað hafa gengið mjög illa að fá ákærða Sævar Marinó til að þrífa sig og eins til að þrífa klefa sinn. Hann mundi eftir því, að einhvern tíma á meðan á gæsluvarðhaldinu stóð, neitaði ákærði að fara í bað og eins að þrífa klefa sinn. Kvaðst hann þá hafa tekið utan um ákærða og farið með hann fram á bað, sett hann þar inn og læst því. Ákærði fór í bað og þreif síðan klefa sinn á eftir. Síðan hlýddi ákærði Skúla Ævari alltaf um að þrífa sjálfan sig og klefa sinn. Ákærði var ekki beittur neinu harðræði í umrætt sinn, og ekki var minnst á mál þetta eða "Geirfinnsmálið" í því sambandi, enda ekki í verkahring hans. Skúli Ævar taldi, að lýsing sú, sem ákærði gaf á meðferðinni á sér, væri fjarri öllu lagi.
Vegna fyrrnefnds bréfs Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns frá 14. september 1977 hafa verið lögð fram í málinu tvö svarbréf Arnar Höskuldssonar fulltrúa til dómsins.
Hið fyrra er dagsett hinn 22. september 1977 og hljóðar svo:
"Ég hefi verið beðinn að skýra, hvernig standi á ferðum mínum inn í klefa til Tryggvi Rúnars Leifssonar, á meðan hann var vistaður í fangelsinu að Síðumúla 28. Oftast fór ég inn í klefa að beiðni Tryggva sjálfs, og yfirleitt var erindið, að hann vildi sýna mér myndir þær, sem hann hafði teiknað og/eða málað. Tryggvi vildi líka alltaf gefa mér myndir eftir sig, og á ég nokkrar myndir eftir hann. Ég minnist þess ekki að hafa farið inn í klefa til hans nema samkvæmt hans beiðni, og var erindið oftast það, sem fyrr greinir. Yfirheyrslur fóru ekki fram í klefunum."
Síðara bréfið, sem dagsett er hinn 27. september 1977, er á þessa leið.
"Í framhaldi af bréfi mínu, dags. 22. september sl., vil ég taka fram, að ég get ekki upplýst, hvers vegna Tryggvi Rúnar var tekinn til yfirheyrslu í "ein 30 skipti, án þess að þeir bóki nokkuð um það". Ég sjálfur yfirheyrði ekki Tryggva Rúnar, án þess að það væri bókað, og hafði alltaf votta viðstadda. Ég vil geta þess, að ekki tíðkast að hafa votta viðstadda lögregluyfirheyrslur, en þeir eru alltaf kallaðir til til þess að votta undirskrift undir skýrslu. Hvaða erindi lögreglumenn hafa átt við Tryggva Rúnar fram í yfirheyrsluherbergi í ein 30 skipti, get ég ekki sagt til um, en erindin geta verið mýmörg, án þess að um yfirheyrslu hafi verið að ræða, þó ekki væri nema til þess að spyrja hann, hvort hann hefði eitthvað nýtt fram að færa, sem svo hafi ekki
Bls. 269
reynst vera neitt. Einnig er rétt að geta þess, að Tryggvi Rúnar bað lögreglumenn oft um viðtal, ef ég man rétt, og gæti verið, að þau viðtöl hafi farið fram í yfirheyrsluherbergi, en Tryggvi átti oft erindi við lögreglumenn, án þess að það kæmi málsrannsókninni beint við, svo sem biðja þá að koma skilaboðum til fjölskyldu sinnar o. s. frv.
Ég vona, að ég hafi svarað öllum spurningum, sem fram koma í bréfi Hilmars Ingimundarsonar, með þessu".
J. Auk leitarferða þeirra að Guðmundi Einarssyni, sem farnar voru í janúar og febrúar 1974 og áður hafa verið raktar, hefur á árunum 1976 og 1977 að minnsta kosti 40 sinnum verið farið til leitar að líkamsleifum hans. Könnuð hafa verið víðlend svæði í hrauninu við Hafnarfjörð, á Álftanesi og víðar. Ákærðu Kristján Viðar, Sævar Marinó, Tryggvi Rúnar og Albert Klahn hafa æði oft verið í fylgd leitarmanna. Hefur ýmist verið leitað á ákveðnum stöðum að tilvísan þeirra eða skipulega á afmörkuðum, stærri svæðum. Rannsóknarlögreglumenn hafa einkum annast leitir þessar, en einnig hafa verið fengnir til liðsinnis fjölmennir leitarflokkar almennra lögreglumanna, skáta, björgunarsveitarmanna og fleiri aðilja. Loks hefur verið kannað eins rækilega og unnt var, hvort lík Guðmundar Einarssonar kynni að hafa verið grafið í Fossvogs- eða Hafnarfjarðarkirkjugörðum, og hafa rannsóknarmenn í þeim efnum notið hjálpsemi starfsmanna garðanna. Hinar víðtæku leitir hafa engan árangur borið til þessa. Starfsmenn sorphauga Hafnarfjarðar töldu leit þar tilgangslausa, jarðýta rótaði daglega í sorpinu, einnig logaði eldur oft í haugunum og brynni þá allt, sem brunnið gæti. Eins og fyrr er rakið, taldi Erla Bolladóttir, að lakinu, sem Guðmundur Einarsson var sveipaður í hefði verið fleygt í sorptunnu við Hamarsbraut 11.
K. Samkvæmt vottorði Hagstofu Íslands var Erla Bolladóttir á íbúaskrá að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði frá 15. ágúst 1973 og skráð þar til 29. janúar 1975, en síðan í Danmörku til 30. júní 1976, en þá er hún skráð að Grýtubakka 10, Reykjavík. Samkvæmt vottorði sömu stofnunar var ákærði Sævar Marinó Ciesielski hinn 1. desember 1972 á íbúaskrá að Grýtubakka 10, Reykjavík, og allt fram að 29. janúar 1975, er hann fer til Danmerkur. Hann var skráður aftur að Grýtubakka 10, Reykjavík, hinn 30. júní 1976.
Samkvæmt vottorði Magnúsar Eyjólfssonar, stöðvarstjóra Pósts og síma í Hafnarfirði, sem dagsett er hinn 1. mars 1977, mun Bolli Gunnarsson hafa verið skráður fyrir síma að Hamars-
Bls. 270
braut 11 í janúarmánuði árið 1974. Í vottorði stöðvarstjórans segir enn fremur: "Á skuldalista gerðum af Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurborgar 24/10 1973 er skuld á síma þessum að upphæð kr. 6.262.30. Skuld þessi er ennþá ógreidd á sams konar lista gerðum 01/02 1974, en inn á þann lista er fært með bleki, að skuldin sé greidd 6/2 (gjaldkeri DS.).
Samkvæmt þessu hefði síminn átt að vera lokaður dagana 26. og 27. janúar 1974, en það skal tekið skýrt fram, að alls ekki er hægt að fullyrða, að svo hafi verið. Liggja til þess ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi er algengt, að símnotandi fær síma sinn opnaðan gegn loforði um greiðslu á vissum tíma, í öðru lagi gæti sími verið opnaður í misgripum, og í þriðja lagi ganga það margir um þann stað, þar sem opnunin fer fram, og aðeins er um eitt handtak að ræða, að síminn gæti hafa verið opnaður af einhverjum".
Af lögregluskýrslum, sem lagðar hafa verið fram í málinu og dagsettar eru í febrúar 1974, kemur fram, að ákærði Sævar Marinó Ciesielski hefur farið með flugvél til útlanda hinn 19. janúar 1974 og komið aftur hingað til lands hinn 23. janúar sama ár.
Einnig kemur fram í skýrslum þessum, að nokkrir lögreglumenn fylgdust með ferðum ákærða Sævars Marinós hérlendis frá 30. janúar og fram að 4. febrúar 1974, en þá var hann handtekinn vegna gruns um ólögmæta meðferð fíkniefna. Varð ákærða Sævari Marinó tíðförult að Grettisgötu 82, heimili ákærða Kristjáns Viðars, en einnig kom hann að Njálsgötu 44, heimili ákærða Alberts Klahn, sem og að Kópavogshæli, Vesturgötu 24 og Hamarsbraut 11. Í slagtogi með ákærða Sævari Marinó fyrrnefnda daga voru auk annarra þau Erla Bolladóttir, Helga Gísladóttir, Albert Klahn Skaftason og Hinrik Jón Þórisson.
Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu ríkisspítalanna var Helga Gísladóttir við vinnu á Kópavogshæli frá klukkan 0730 til 1530 þann 26. janúar 1974 og frá klukkan 1230 til 2030 næsta dag og Jónína Ingibjörg Gísladóttir á áþekkum tíma.
Lagt hefur verið fram í málinu vottorð Tryggva Þorsteinssonar, læknis á Borgarspítalanum, dagsett 2. mars 1977. Segir í vottorði þessu meðal annars:
". . . Þann 14/1 1974, kl. 0015, kom framangreindur Tryggvi hingað á Slysadeild Borgarspítalans. Unnusta Tryggva og þrír piltar með henni komu með hann í einkabíl.
Við komuna var Tryggvi Rúnar meðvitundarlaus og svaraði engum sársaukastimulus. Ljósop voru þröng og svöruðu ekki
Bls. 271
ljósi, en útlimareflexar voru eðlilegir og öndun var regluleg. Samt sem áður blánaði sjúkl. upp, þannig að nauðsynlegt var að gefa honum súrefni, strax og hann kom.
Skv. upplýsingum stúlkunnar hafði Tryggvi tekið eitthvert ótiltekið magn af svefntöflum, einhvern tíma fyrir kl. 23 þetta kvöld. Sjúkl. var í yfirvofandi lífshættu vegna lyfjaeitrunar, og var sett strax upp hjá honum infusion, gefið hjartastimulerandi meðul og honum gefið súrefni. Sérfræðingar af Lyflækn.-deild voru tilkallaðir, og tóku þeir piltinn að sér, og var hann lagður inn á Gjörgæsludeild. Nákvæm líkamsskoðun var ekki gerð á sjúkl., þar sem aðalvandamálið var yfirvofandi shock, en í sjúkraskrá Lyfjadeildar stendur: "Hefur merki um gamlan áverka á vi. augabrún. Hann er ekki hnakkastífur. Sár er á vi. hendi, og virðist það vera brunablöðrur, en engin merki eru um ígerð eða sýkingu í sárinu. Lófamegin á öðrum úlnliðnum er fínlegt, vel gróið ör, þversum".
Sjúkl. var útskrifaður daginn eftir. Jafnaði hann sig fljótt úr þessu ástandi sínu og viðurkenndi að hafa tekið Mebumal svefntöflur.
Við skoðun við útskrift, í áðurnefndum Journal, stendur: "Ný skoðun leiðir ekkert markvert í ljós, utan brunasár á vi. hendi".
Tryggvi kom einu sinni eftir þetta til eftirlits á Slysadeild Borgarspítalans, og var það þann 21/1 1974.
Í sjúkraskrá hans stendur skrifað: "Mun hafa verið með brunasár á vi. hendi, þegar hann lagðist inn hér á spítalann. Sár þessi eru nú gróin og er sjúkl. útskrifaður . . ."
Í skýrslu rannsóknarlögreglu, dagsettri 13. janúar 1977, kom fram, að fólk það, sem bjó á miðhæð og í risi hússins Hamarsbrautar 11, sem og næstu grannar gátu ekkert um atvik málsins borið. Hjónin, sem bjuggu á miðhæðinni að Hamarsbraut 11, sögðu, að nokkrum sinnum hefði komið fyrir, að upp í íbúð þeirra hefði borist hávaði úr kjallaraíbúðinni seint að kvöldi eða nóttu. Kvaðst konan þá gjarnan hafa stappað fæti í gólfið og hávaðinn þá undantekningarlaust hljóðnað.
Rannsóknarlögreglan gerði víðtæka könnun á því í janúar-mars 1977 hjá leigubifreiðastöðvum í Reykjavík og nágrenni, hvort unnt væri að tengja akstur einhverra leigubifreiða við atvik máls þessa, svo sem ferðir ákærða Sævars Marinós umrædda helgi, og var fjöldi bifreiðastjóra yfirheyrður. Afgreiðslubækur margra bifreiðastöðva reyndust glataðar, og varð rannsókn þessi án árangurs.
Bls. 272
Svo sem áður er rakið, hafði ákærði Kristján Viðar haldið því fram í yfirheyrslum hinn 7. apríl 1976 og einnig hinn 19. september sama ár, að í átökunum að Hamarsbraut 11 hefði Guðmundur Einarsson slitið tölu úr yfirfrakka hans. Við tæknilega rannsókna á frakkanum kom í ljós, að enginn hnappur hafði verið slitinn af honum.
Við yfirheyrslu hinn 22. október 1976 staðhæfði ákærði Kristján Viðar, að fyrri frásagnir hans um hnappinn væru réttar, en hann hefði misminnt um, af hvaða flík hnappurinn slitnaði. Kvaðst hann nú muna, að efri hnappur á leðurjakka, sem hann hefði verið í innan undir frakkanum, er verið hefði fráhnepptur, hefði ekki verið á eftir atburðinn að Hamarsbraut 11. Leðurjakki þessi komst í vörlur rannsóknarlögreglu, og reyndist þá einn hnappanna á honum vanta.
Rannsóknarlögreglan lagði hald á ýmsa muni, m. a. gólfteppi úr kjallaraíbúðinni að Hamarsbraut 11 sem og hreyfanlega hluti úr bifreið þeirri, sem ákærði Albert Klahn er sakaður um að hafa ekið líki Guðmundar Einarssonar í. Voru munir þessir og fyrrnefndur frakki ákærða Kristjáns Viðars sendir í tæknideild rannsóknarlögreglunnar í Wiesbaden í Þýskalandi. Í skýrslu deildarinnar, sem dagsett er hinn 21. september 1976, segir meðal annars:
". . . Leit að blóði var gerð í smásjá og með benzidinprófi, sem gefur mjög góða svörun við forprófun. Rannsóknirnar leiddu eftirfarandi í ljós:
". . .
Á dökkgræna frakkanum, sem Kristján Viðar Viðarsson á (4), fannst á vinstra framstykki rétt við fóðurfaldinn fjórir blóðdropan að innanverðu. Þeir reyndust samkvæmt smásjárrannsókn vera blóð og samkvæmt líffræðilegri eggjahvítugreiningu, Ulenluthprófi, vera mannsblóð. Rannsókn skv. gleypni-skolunaraðferð (Absorptions-Elutions) sýndi blóðflokk A. Vegna þess hve lítið magn var af efninu, reyndist ekki unnt að gera nánari greiningar.
Margir hlutar úr klæðningunni voru fyrir hendi. Einn hlutinn var með merki, þar sem stóð: Úr VW bifr. Innan af vinstri hurð. Það var úr riffluðu gerfileðri, grænu-grábrúnu-grænu á lit. Á nokkrum stöðum fundust svartar leifar, sem gáfu jákvæða svörun við Benzidin blóðforprófi. Ekki var hægt að gera nánari blóðgreiningu, en þó tókst að fá sönnun fyrir eggjahvítuefni úr manni. Það bendir til þess, að um mannsblóð sé að ræða. Nánari
Bls. 273
rannsóknir leiddu ekki neitt sérstakt í ljós. Hugsanlegt er, að hér sé um að ræða leifar af miklu meira blóðmagni.
Gólfteppið úr íbúðinni að Hamarsbraut 11, Hafnarfirði, var rannsakað mjög nákvæmlega til að leita að sporum, sem gætu bent á verknaðinn. Vegna mikilla óhreininda reyndist mjög erfitt að gera rannsóknirnar. Við teppið voru nokkrar matarleifar fastar, en þær hafa enga þýðingu í þessu máli.
Á hluta teppisins úr forstofu íbúðarinnar fannst þykkur blóðdropi. Blóðvatnspróf sýndi, að hann var mannsblóð. Vegna mikilla óhreininda reyndist ekki unnt að gera nánari greiningu á honum."
Þar sem ekki hafði reynst unnt að grafast fyrir um hérlendis, í hvaða blóðflokki Guðmundur Einarsson hafði verið, var hárbursti hans og höfuðhár úr móður hans send fyrrnefndri tæknideild í Þýskalandi, og segir í rannsóknarskýrslu hennar meðal annars:
". . . Hárburstinn með stálhárunum var skv. bréfinu eingöngu notaður af þeim myrta, á meðan hann lifði. Eftir lát Guðmundar var burstinn ekki hreinsaður og eingöngu notaður af móður hans. Komast átti að því, hvort blóðflokkagreining væri möguleg af hárum, sem loddu við burstann. Höfuðhár móðurinnar voru höfð til samanburðar til þess að finna mismun á þeim og hárunum í burstanum.
U. þ. b. 150 mennsk höfuðhár voru föst við burstann. Í þeim voru ljósar, meðal- og dökkbrúnar einingar með merg, sem voru þéttsetnar litarefnum. Við rannsókn með og án smásjár kom í ljós, að í höfuðhárum móðurinnar voru sams konar einingar. Eini munurinn á þeim og hárunum í burstanum var sá, að minna var í þeim af ljósbrúnum formum.
Af því mátti draga þá ályktun, að í burstanum væru auk höfuðhára móðurinnar höfuðhár af öðrum, hugsanlega syni hennar, Guðmundi. Ekki var hægt að gera greinarmun á byggingu þeirra (morphologische Differenzierung) vegna þess, hve hárin voru lík. Þess vegna varð að gera blóðvatnsprófun (serologisch) á hárunum í burstanum sem heild.
Allt efnið var því hreinsað, skorið í smátt og rannsakað með gleypni og skolunaraðferðum með tilheyrandi samanburði (Absorbtions-Elutionsverfahren). Efnið nægði til þess að gera á því 10 prófanir. Í hverri fundust A- og B-efni. Þar sem móðir G. er í B-blóðflokki, geta A-efnin ekki verið frá henni, heldur kemur þar eingöngu til greina fólk, sem hefur blóð, sem inniheldur
Bls. 274
A-efni, þ. e. a. s. fólk, sem er í A- eða AB-blóðflokki. Ef í burstanum voru örugglega engin önnur hár en þess myrta og móður hans, hefur Guðmundur samkvæmt því verið í A-eða AB-blóðflokki . . ."
Blóðsýni voru tekin úr ákærða Kristjáni Viðari, Sævari Marinó, Tryggva Rúnari og Erlu Bolladóttur á Rannsóknastofu Háskólans við Barónsstíg. Við rannsókn á þeim reyndist ekkert þeirra vera úr A-blóðflokki.
K. Á dómþingi sakadóms hinn 21. mars 1977 var eftirfarandi meðal annars bókað um meðferð málsins:
"Dómarar máls þessa fengu það til meðferðar skv. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 74/1974 hinn 15. þ. m. Ákæra var gefin út í málinu 8. desember 1976, og fengu dómarar það í hendur til athugunar 15. s. m., en fyrir þann tíma höfðu þeir engin afskipti haft af því. Við yfirlestur skjala málsins kom í ljós, að rannsókn málsins var í ýmsum atriðum verulega áfátt. Sakarefni í I. kafla ákæru hafði lítils háttar verið rannsakað fyrir dómi, en aðrir þættir ekki, að undanskildum þeim, sem dómstóllinn í málinu út af ávana- og fíkniefnum hafði haft til meðferðar. Hefur að undanförnu verið reynt að bæta úr þessu, áður en fjölskipaður dómur tæki málið til meðferðar. Rannsóknarlögreglumönnunum Gísla Guðmundssyni, Kristmundi Sigurðssyni og Hellert Jóhannessyni var falin áframhaldandi rannsókn sakarefnis, er í I. kafla ákæru greinir, hinn 12. janúar sl., og hafa dómarar málsins fylgst með rannsókninni.
Í gæsluvarðhaldi eru nú ákærðu Kristján Viðar Viðarsson, Sævar Marinó Ciesielski, Tryggvi Rúnar Leifsson og Guðjón Skarphéðinsson. Ákærða Albert Klahn Skaftasyni var sleppt úr gæsluvarðhaldi fyrir útgáfu ákæru, og Erlu Bolladóttur var sleppt úr haldi 22. desember sl. án vitundar dómaranna. Ákærði Tryggvi Rúnar hefur verið í gæsluvarðhaldi í fangelsinu í Síðumúla að undanskildu því, að frá 17/7-4/8, 9/8-30/8, 11/11-16/12 og 17/12 1976 til 14'1 1977 var hann í svokallaðri lausagæslu í Vinnuhælinu að Litla-Hrauni. Virðist gæsluvarðhald hans að Litla-Hrauni hafa verið mjög frjálslegt og framkvæmd þess í aðalatriðum verið svo sem um venjulegan refsifanga væri að ræða skv. upplýsingum fangavarða að Litla-Hrauni. Ákærði var fluttur að tilhlutan dómaranna í fangelsið við Síðumúla 14/1 sl. Hinn 31. janúar sl. var ákærði Sævar Marinó fluttur úr fangelsinu við Síðumúla í Hegningarhúsið við Skólavörðustíg að dómurum málsins forspurðum og settur í klefa við hliðina á ákærða
Bls. 275
Tryggva Rúnari. Hafa engar skýringar fengist á tiltæki þessu, en að sögn Valdimars Guðmundssonar, yfirfangavarðar, er hljóðbært milli klefa í Hegningarhúsinu. Að tilhlutan dómaranna hefur þessu verið breytt. Ákærði Kristján Viðar hefur tvisvar gert tilraunir til að svipta sig lífi, og hefur verið höfð sérstök vakt yfir honum."
Dómarar taka fram, að hinn 16. mars 1977 hafi þeir farið í vettvangsskoðun til Hafnarfjarðar. Var þá meðal annars komið að Hamarsbraut 11 þar í bæ og húsakynnin skoðuð.
Niðurstöður.
Ákærðu Kristján Viðar Viðarsson, Sævar Marinó Ciesielski og Tryggvi Rúnar Leifsson skýrðu allir frá því, mjög fljótlega eftir að rannsókn máls þessa hófst hinn 20. desember 1975, að þeir hefðu verið staddir saman í húsi einu seint í janúar 1974 ásamt fjórða manni, sem ákærði Kristján Viðar sagði fljótlega, að hefði verið Guðmundur Einarsson, sem hann þekkti. Hefðu þar orðið átök, sem leiddu til dauða Guðmundar. Fyrir miðjan janúar 1976 lágu fyrir afdráttarlausar játningar allra ákærðu bæði hjá rannsóknarlögreglu og fyrir dómi um þetta, sem bar saman í veigamiklum atriðum. Ákærðu Kristján Viðar, Sævar Marinó og Albert Klahn Skaftason skýrðu einnig frá flutningi líks Guðmundar í hraunið fyrir sunnan Hafnarfjörð sömu nótt, en ákærði Tryggvi Rúnar kvaðst ekki muna eftir því.
Lík Guðmundar Einarssonar fannst ekki, og var rannsókn haldið áfram fram eftir árinu 1976. Voru ákærðu Kristján Viðar og Sævar Marinó sífellt að breyta framburðum sínum um átökin að Hamarsbraut 11 og um flutninga á líki Guðmundar. Þeim bar þó ætíð saman um, að átök hefðu orðið, sem leitt hefðu til dauða Guðmundar, en frásagnir þeirra voru mjög reikular, einkum um eigin þátt þeirra í málinu. Á þessu tímabili breytti ákærði Tryggvi Rúnar engu efnislega frá fyrri framburðum sínum.
Eftir útgáfu ákæru og við meðferð málsins hafa ákærðu Kristján Viðar, Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar hins vegar horfið algerlega frá fyrri framburðum sínum og neita nú með öllu aðild að eða vitneskju um hvarf Guðmundar Einarssonar.
Ákærði Tryggvi Rúnar neitaði þegar í fyrsta þinghaldi, sem hann mætti í við málsmeðferðina hinn 30. mars sl., að hann hefði nokkurn tíma komið að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði eða tekið þátt í átökum við Guðmund Einarsson.
Þegar ákærði Sævar Marinó kom fyrir dóminn hinn 29. mars sl., skýrði hann í fyrstu frá ferðum sínum að kvöldi 26. janúar
Bls. 276
1974, komu sinni að Hamarsbraut 11 næstu nótt og átökum við Guðmund Einarsson. Þegar ákærði var spurður nánar um eigin þátt í átökunum, sneri hann við blaðinu og neitaði með öllu að hafa komið að Hamarsbraut 11 um nóttina eða vita nokkuð um málið.
Ákærði Kristján Viðar gaf rækilega skýrslu fyrir dóminum hinn 25. mars sl., þar sem hann lýsti átökum að Hamarsbraut 11 við Guðmund Einarsson, sem leitt hefðu til dauða hans, og flutningi á líki hans í hraunið við Hafnarfjörð þá um nóttina. Hélt ákærði fast við framburð sinn með minni háttar breytingum í síðari samprófun við meðákærðu og vitni. Hinn 29. september sl. kom hann að eigin ósk fyrir dóminn og kvaðst ekker vita um hvarf Guðmundar Einarssonar.
Ákærðu Kristján Viðar, Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar halda því fram, að fyrri framburðir þeirra um atvik máls þessa séu komnir frá rannsóknarmönnum og hafi verið fengnir með þvingunum og hótunum af þeirra hálfu. Hafi þeir sætt illri og löglausri meðferð rannsóknarmanna og fangavarða. Rannsókn dómsins á þessum kæruatriðum hefur ekki rennt stoðum undir þessar fullyrðingar. Á hinn bóginn hefur ýmislegt komið fram í gögnum málsins um, að gott samband hafi yfirleitt verið milli ákærðu og rannsóknarmanna.
Ákærði Kristján Viðar kom fyrir dóm 22. mars 1976 að viðstöddum réttargæslumanni sínum og skýrði þá frá þætti sínum í átökunum. Bar hann engar ásakanir fram vegna fyrri yfirheyrslna.
Ákærði Sævar Marinó skýrði fyrst frá aðild sinni að máli þessu hjá rannsóknarlögreglu á allra fyrstu dögum rannsóknarinnar, eða hinn 22. desember 1975. Gaf hann skýrslu í framhaldi af því hinn 4. janúar 1976, og var réttargæslumaður hans viðstaddur í bæði skiptin. Engar kvartanir eða athugasemdir komu fram vegna þessara yfirheyrslna. Ásakanir ákærða Sævars Marinós á hendur rannsóknarmönnum og fangavörðum lúta að því er virðist að atvikum, sem gerðust löngu síðar, og verður vart séð, að hverju þvinganir hefðu þá átt að miða, þar sem játning ákærða lá fyrir.
Ákærði Tryggvi Rúnar gaf sjálfstæða skýslu um mál þetta fyrir dómi hinn 30. apríl 1976, þar sem hann skýrði frá þætti sínum í málinu að viðstöddum réttargæslumanni, og hafði þá engar kvartanir fram að færa.
Ekki verður annað ráðið af skýrslum rannsóknarlögreglu um
Bls. 277
mál þetta en ákærðu hafi skýrt frá málsatvikum sjálfstætt og hver í sínu lagi.
Eftir að ákærðu breyttu framburðum sínum, héldu þeir því fram, að þeir hefðu verið annars staðar en að Hamarsbraut 11 umrædda nótt, en engar sannanir eða líkur hafa komið fram um það.
Þar sem ákærðu hafa ekki fært fram nein haldbær rök til stuðnings breytingum á fyrri framburðum sínum, verður breytingunum hafnað. Framburðir þeirra í upphafi rannsóknar fyrir dómi verða lagðir til grundvallar við úrlausn málsins og jafnframt höfð hliðsjón af efnislegum framburðum þeirra um málið við meðferð dómsins á því.
Svo sem áður er rakið, fór Guðmundur Einarsson frá heimili sínu að Hraunprýði, Blesugróf, Reykjavík, klukkan um 2000 laugardagskvöldið 26. janúar 1974. Með vættum sex vitna þykir í ljós leitt, að Guðmundur Einarsson hafi verið á dansleik í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði og verið undir áhrifum áfengis um kvöldið og nóttina, en vitnin geta ekki nánar borið um, hvenær hann fór á brott af dansleiknum.
Eitt vitni hefur staðhæft, að það hafi séð mikið ölvaðan mann á ferli neðst á Reykjavíkurvegi litlu eftir lokun samkomuhúsa þessa nótt. Vað það ekki í neinum vafa um af mynd, er það sá af Guðmundi í blöðum næstu daga, að um hann hefði verið að ræða. Gat vitnið lýst rétt klæðnaði og útliti Guðmundar. Þá staðhæfa tvö vitni, sem bæði þekktu Guðmund Einarsson, að þau hafi séð hann á gangi um Strandgötu í Hafnarfirði í nánd við Skiphól klukkan um 0200 greinda nótt í fylgd með manni, er þau telja, að hafi verið ákærði Kristján Viðar Viðarsson. Þeir hafi verið ölvaðir og reynt að stöðva bifreiðar, sem fram hjá fóru. Við sakbendingu tölu bæði vitnin ákærða Kristján Viðar líkjast mjög manni þeim, er verið hefði með Guðmundi. Á dómþingi hinn 25. mars 1977 lýsti ákærði Kristján Viðar því yfir, að framburður vitnanna gæti verið réttur. Verður samkvæmt framansögðu að telja þetta atriði sannað.
Ákærði Kristján Viðar hefur fyrir dómi skýrt frá því, að síðla kvölds hinn 26. janúar 1974 hafi ákærðu Tryggvi Rúnar og Albert Klahn komið heim til hans að Grettisgötu 82 og vitnið Gunnar Jónsson verið í fylgd með þeim. Þeir ákærðu Tryggvi Rúnar hafi neytt áfengis og fíkniefna. Um miðnætti hafi þeir allir farið út saman og ákærði Albert Klahn ekið þeim á milli skemmtistaða hér í borg, en síðan að starfsmannahúsi Kópavogshælis,
Bls. 278
þar sem hann hafði tal af ákærða Sævari Marinó, og loks að veitingastaðnum Skiphóli í Hafnarfirði, en þangað hafi verið komið klukkan rösklega 0200 um nóttina. Ákærði Kristján Viðar fullyrðir, að þeir ákærði Tryggvi Rúnar hafi stigið þar út úr bifreiðinni og litlu síðar hitt Guðmund Einarsson, sem verið hafi gamall skólabróðir hans. Ákærði Kristján Viðar gat réttilega lýst klæðnaði Guðmundar. Þeir þrír hafi síðan farið að bifreiðinni til ákærða Alberts Klahn, sem sagst hafi kannast við Guðmund, en þó ekki viljað aka þeim til Reykjavíkur og horfið á brott ásamt Gunnari Jónssyni. Hafi þeir þá farið að veifa bifreiðum í því skyni að fá far til Reykjavíkur, ákærði Tryggvi Rúnar orðið viðskila við þá Guðmund nokkta stund og farið á bak við skúra við Strandgötu, rétt við veitingastaðinn Skiphól, þar sem þeir töldu minni líkur á því, að þeir gætu stöðvað bifreiðar og fengið far, ef þeir væru allir þrír saman. Ekki tókst þeim Guðmundi þó að fá nokkra bifreið til að nema staðar, og gengu þeir þrír því heim til ákærða Sævars Marinós að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði í því skyni að fá hjá honum lán fyrir leigubifreið til Reykjavíkur. Enginn hafi verið heima að Hamarsbraut 11. Þeir ákærði Albert Klahn og Gunnar Jónsson hafi komið þangað litlu síðar, en ákærði Sævar Marinó örskömmu þar á eftir, og gat ákærði Kristján Viðar ekki séð, að hann væri undir áhrifum áfengis eða lyfja.
Framburðir þeirra ákærða Alberts Klahn og Gunnars Jónssonar eru í meginatriðum samhljóða þessari frásögn ákærða Kristjáns Viðars. Ákærði Albert Klahn kveðst ekki hafa kannast við Guðmund Einarsson, en fullyrðir, að það hafi verið hann, sem var í fylgd með ákærðu Kristjáni Viðari og Tryggva Rúnari. Gunnar Jónsson, sem sýnd var mynd af Guðmundi Einarssyni, kveður vel geta verið, að hann hafi verið maður sá, sem kom að bifreiðinni til þeirra ákærða Alberts Klahn við Skiphól, þótt hann væri ekki algerlega öruggur um það. Sagði hann, að sami maður og þeir hittu við bifreiðina hafi síðar komið að Hamarsbraut 11. Gunnar Jónsson kveðst hafa neytt áfengis greint sinn. Ákærði Albert Klahn staðfesti það og einnig, að Guðmundur Einarsson hefði verið drukkinn. Ákærði Albert Klahn sagði ákærðu Kristján Viðar og Tryggva Rúnar hafa verið undir áhrifum áfengis og lyfja, en sjálfur hafi hann verið alsgáður og ekki séð áhrif á ákærða Sævari Marinó.
Ákærði Sævar Marinó hefur fyrir dómi skýrt frá því, að hann hafi komið að Grettisgötu 82 klukkan um 2000 að kvöldi laugar-
Bls. 279
dagsins 26. janúar 1974 og þeir Kristján Viðar, Tryggvi Rúnar, Albert Klahn og Gunnar Jónsson verið þar. Ákærði Sævar Marinó kveðst síðar um kvöldið hafa farið í starfsmannahús við Kópavogshælið og fjórmenningarnir komið þangað um miðnættið á bifreið ákærða Alberts Klahn. Hann hafi hitt þá aftur klukkan um 0200 um nóttina, þegar hann kom heim til sín að Hamarsbraut 11, og þá hafi verið í för með þeim einhver maður, sem hann hefði ekki þekkt, en taldi eflaust eftir að hafa séð mynd af Guðmundi Einarssyni, að um hann hefði verið að ræða. Hann lýsti réttilega klæðnaði Guðmundar. Ákærði Sævar Marinó kveðst sjálfur hafa verið mikið undir áhrifum áfengis. Hann taldi, að ákærðu Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar hefðu verið ölvaðir og undir áhrifum lyfja, Gunnar Jónsson og Guðmundur Einarsson verið drukknir, en ákærði Albert Klahn virst alsgáður.
Á dómþingi hinn 11. janúar 1976 kveðst ákærði Tryggvi Rúnar ekki muna, hvernig staðið hafi á veru hans að Hamarsbraut 11 umrætt sinn, og á dómþingi hinn 31. mars 1977 gat hann ekki fullyrt, hvort hann hefði verið fyrr um kvöldið heima hjá ákærða Kristjáni Viðari og síðan farið með honum, ákærða Albert Klahn og Gunnari Jónssyni á ýmsa skemmtistaði og að Kópavogshæli, en þangað sagðist hann einu sinni hafa komið og gæti það hafa verið í bifreið ákærða Alberts Klahn. Ákærði Tryggvi Rúnar lýsti herbergjaskipan réttilega að Hamarsbraut 11 í framburði sínum 9. janúar 1976 hjá rannsóknarlögreglu og staðfesti frásögn sína í dómi hinn 11. sama mánaðar, enda þótt hann hafi síðar haldið því fram, að hann hafi aldrei komið þangað.
Í gögnum málsins kemur ekkert fram um það, að búið hafi verið að taka ákvörðun um að svipta Guðmund Einarsson lífi, áður en komið var að Hamarsbraut 11. Virðist það hafa verið af tilviljun, að ákærðu Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar hittu Guðmund í Hafnarfirði og að hann fór með þeim þangað.
Ekki er við annað að styðjast um átökin milli ákærðu Kristjáns Viðars, Sævars Marinós og Tryggva Rúnars annars vegar og Guðmundar Einarssonar hins vegar að Hamarsbraut 11 en framburði þeirra, framburð ákærða Alberts Klahn og Gunnars Jónssonar. Framburður Erlu Bolladóttur um það, er hún sá að Hamarsbraut 11 síðar þessa nótt, styður og játningar ákærðu.
Í framburðum ákærðu Kristjáns Viðars, Sævars Marinós, Alberts Klahn og vitnisins Gunnars Jónssonar kemur fram, að tilefnið til átakanna hafi verið það, að ákærðu hafi viljað fá Guð-
Bls. 280
mund til að leggja út peninga fyrir áfengisflösku, en hann hafi ekki viljað á það fallast. Ákærði Tryggvi Rúnar talar hins vegar um ósamkomulag og fúkyrði. Þá greinir ákærði Kristján Viðar frá því, að Guðmundur hafi kallað þá "dópista" og talað um "dópistabæli". Einnig kemur fram, að reynt hafi verið að ná veski Guðmundar af honum, en hann snúist til varnar. Ákærðu Kristján Viðar, Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar hafa allir borið, að þeir hafi lent í átökum við Guðmund. Kemur þetta og fram í framburði ákærða Alberts Klahn, og vitnið Gunnar Jónsson greinir frá átökum, sem það getur þó lítið borið um.
Ákærðu ber öllum saman um, að ákærðu Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar hafi barið Guðmund með hnefunum, uns hann féll í gólfið. Þá hafa ákærðu Kristján Viðar, Tryggvi Rúnar og Sævar Marinó samhljóða borið, að hinn síðastnefndi hafi sparkað í höfuð Guðmundar, eftir að hann féll. Ekki er unnt að slá föstu, hver ákærðu veitti Guðmundi áverka þá, er leiddu til dauða hans, en þeir beittu hann allir líkamlegu ofbeldi. Ákærðu gerðu ekkert til aðstoðar Guðmundi, eftir að hann var fallinn, né kvöddu aðra til hjálpar honum.
Ákærði Kristján Viðar hefur neitað að hafa stungið Guðmund með hníf eða byssusting, eins og hann hélt fram um tíma við rannsóknina. Meðákærðu kannast ekki við þetta. Var fallið frá þessu ákæruatriði af hálfu ákæruvalds á hendur ákærða Kristjáni Viðari í málflutningi, og kemur það ekki frekar til álita.
Erla Bolladóttir kveðst hafa komið heim til sín að Hamarsbraut 11 umrædda nótt á tímanum frá kl. 03-04, og hefur sá framburður hennar nokkurn stuðning eins vitnis. Hafi enginn verið í íbúðinni, en ummerki bent til, að menn hafi komið þar, eftir að hún fór þaðan, m. a. hefði hellst niður úr sykurpoka og lak verið horfið úr rúmi hennar. Ákærðu hafa sagt, að þeir hafi farið á brott um stund eftir árásina á Guðmund. Skömmu eftir að Erla kom heim, kveðst hún hafa orðið vör við umgang í íbúðinni og séð ákærðu Kristján Viðar, Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar vera að fást við mannslíkama, er vafinn var inn í lakið úr rúminu. Ákærðu hafi borið manninn út úr húsinu, en hún hafi ekki orðið vör við neina bifreið og aldrei séð þá Albert Klahn og Gunnar Jónsson. Framburðir ákærðu og Erlu eru í meginatriðum samhljóða um þetta. Ákærðu tóku þá ákvörðun að leyna verknaði sínum og flytja Guðmund, er þeir töldu látinn, frá Hamarsbraut 11 í hraunið fyrir sunnan Hafnarfjörð á bifreið Alberts Klahn. Földu þeir
Bls. 281
hann þar. Eru framburðir ákærðu Kristjáns Viðars, Sævars Marinós og Alberts Klahn í meginatriðum samhljóða um þetta, og þykir verða að leggja þá til grundvallar.
Lík Guðmundar hefur ekki fundist þrátt fyrir mikla leit. Hafa framburðir ákærðu um felustað líksins verið óljósir og reikulir.
Tæp tvö ár liðu frá hvarfi Guðmundar, uns grunur beindist að ákærðu, og hafa engin sýnileg sönnunargögn fundist, er tengi ákærðu óyggjandi við verknaðinn.
Eins og áður er frá greint í málsatvikalýsingu, fundust blóðdropar í frakka þeim, sem ákærði Kristján Viðar taldi sig hafa verið í umrædda nótt, og reyndust þeir vera af blóðflokki A. Geta þeir ekki verið úr ákærða sjálfum eða meðákærðu, en samkvæmt rannsókn, sem fram fór, getur blóðflokkur Guðmundar heitins Einarssonar hafa verið A eða AB.
Á hluta teppis úr forstofu íbúðarinnar að Hamarsbraut 11 fannst þykkur blóðdropi, sem reyndist mannsblóð, en ekki var unnt að greina, af hvaða flokki það var.
Vitni, er var að Hamarsbraut 11 um mánaðamótin janúar og febrúar 1974, hefur borið, að það hafi séð blóðbletti á gólfteppi í svefnherbergi, á legubekk og víðsvegar um herbergið.
Að lokum fannst blóð, sem líklegt er talið, að sé mannsblóð, innan á klæðningu úr Volkswagen bifreið þeirri, er ákærði Albert Klahn kveðst hafa ekið ákærðu í með lík Guðmundar, en ekki var unnt að greina blóð þetta nánar.
Einkahagir Guðmundar Einarssonar hafa verið kannaðir, en ekki verður séð, að þeir geti á nokkurn hátt skýrt hvarf hans. Hann var að sögn kunnugra heilbrigður og óáleitinn maður.
Fram er komið í málinu, að ákærðu Kristján Viðar, Sævar Marinó, Tryggvi Rúnar og Albert Klahn þekktust á þessum tíma og höfðu umgengist nokkuð.
Með eigin játningum ákærðu Kristjáns Viðars, Sævars Marinós og Tryggva Rúnars og öðrum gögnum málsins, sem hér að framan hafa verið rakin, telst lögfull sönnun fram komin fyrir því, að ákærðu hafi veist að Guðmundi Einarssyni með líkamlegu ofbeldi og misþyrmt honum svo, að hann hlaut bana af, en síðan falið lík hans.
Þótt ákærðu vilji ekki viðurkenna, að árásin á Guðmund hafi verið gerð í því skyni að svipta hann lífi, var hún með þeim hætti, að ákærðu mátti vera ljóst, að hún gat leitt til dauða. Verður því að telja, að ásetningur þeirra hafi verið fyrir hendi og að þeir beri sameiginlega ábyrgð á dauða Guðmundar.
Bls. 282
Framangreint atferli ákærðu Kristjáns Viðars, Sævars Marinós og Tryggva Rúnars varðar við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði Albert Klahn er ákærður fyrir eftirfarandi hlutdeild í fyrrgreindum verknaði ákærðu Kristjáns Viðars, Sævars Marinós og Tryggva Rúnars með því að veita þeim liðsinni við að fjarlægja og koma líki Guðmundar fyrir á ókunnum stað og þannig leitast við að afmá ummerki brotsins bæði þegar fyrrgreinda nótt og síðar síðla sumars sama ár. Þykir hann hafa gerst brotlegur við 211. gr., sbr. 22. gr., 4. mgr., sbr. 1. mgr., hegningarlaganna svo og við 112. gr., 2. mgr., sömu laga.
Telja verður sannað með eigin játningu ákærða Alberts Klahn og framburðum ákærðu Kristjáns Viðars og Sævars Marinós, að hann hafi aðfaranótt 27. janúar 1974 ekið frá Hamarsbraut 11 í bifreið, sem hann hafði til umráða, með Guðmund Einarsson, sem ákærðu Kristján Viðar, Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar báru út í bifreiðina. Var ekið í hraunið sunnan Hafnarfjarðar, einkum að fyrirlagi ákærða Sævars Marinós, þar sem ákærðu Kristján Viðar, Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar báru Guðmund á brott frá bifreiðinni og komu honum fyrir í hrauninu.
Eins og rakið hefur verið í málsatvikalýsingu hér að framan, kom í ljós eftir útgáfu ákæru og þegar meðferð dómsins á málinu var hafin, að ákærði Albert Klahn og vitnið Gunnar Jónsson voru staddir að Hamarsbraut 11, þegar margumrædd átök áttu sér þar stað, án þess þó að séð verði, að þeir hafi tekið nokkurn þátt í þeim. Fóru þeir af staðnum rétt í þann mund, er átökunum lauk. Ákærði Albert Klahn hefur sagt, að honum hafi ekki verið ljóst, er þeir fóru af staðnum, hvort Guðmundur hafi verið látinn eða ekki, en sá, að hann lá hreyfingarlaus. Ók ákærði Gunnari heim og hélt síðan aftur að Hamarsbraut 11, en fór þá ekki inn í húsið. Fór fyrrgreindur flutningur fram í framhaldi þessa.
Ákæruvaldið gaf ekki út framhaldsákæru á hendur ákærða Albert Klahn vegna hinna nýju upplýsinga um, að hann hafi verið viðstaddur átökin. Við úrlausn á þætti hans verður því að byggja á verknaðarlýsingu í ákæru, en hún nær ekki til annars en þess, er gerðist, eftir að ákærði kom öðru sinni að Hamarsbraut 11.
Kemur þá til álita, hvort brot ákærða, svo sem því er lýst í ákæru, geti varðað við 211. gr., sbr. 4. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga, þ. e. hvort hann hafi með verknaði sínum gerst
Bls. 283
sekur um svokallaða eftirfarandi hlutdeild í broti meðákærðu, Fyrrgreint lagaákvæði gerir ráð fyrir tveimur skilyrðum til þess, að um þetta geti verið að ræða, þ. e. að maður hafi annað hvort notið hagnaðar af borti eða haldið við ólögmætu ástandi, er skapaðist vegna brotsins. Ekkert er komið fram um, að ákærði hafi notið hagnaðar af brotinu, og kemur ákvæðið því ekki til greina að því leyti um brot hans. Leggja verður þann framburð ákærðu til grundvallar, að Guðmundur hafi verið látinn, er hann var fluttur frá Hamarsbraut 11. Brot meðákærðu var fullframið, þegar þeir höfðu svipt Guðmund lífi, þannig að verknaður og afleiðing féllu saman. Var því ekki fyrir hendi neitt ólögmætt ástand, sem ákærði Albert Klahn gat breytt nokkru um. Getur verknaður hans því ekki fallið undir lagaákvæði þetta, og ber að sýkna hann af ákæru um brot á því.
Eins og verknaðarlýsing ákæru er háttað, verður ákvæði 2. mgr. 221. gr. hegningarlaga um atferli ákærða ekki beitt.
Hins vegar var ákærði með verknaði sínum að tálma rannsókn á broti meðákærðu, og varðar það atferli hans við 2. mgr. 112. gr. almennra hegningarlaga.
Frásagnir ákærðu Alberts Klahn, Kristjáns Viðars og Sævars Marinós um flutning á líki Guðmundar Einarssonar síðla sumars 1974 á enn annan stað eru svo óljósar, reikular og ósamhljóða og sakaratriði þessu að öðru leyti svo háttað, að ekki þykir unnt að telja slíkan flutning sannaðan. Ber því að sýkna ákærða Albert Klahn að því er það ákæruatriði varðar.
II.
1. Sunnudaginn 12. mars 1972, kl. 2055, var lögreglunni á Selfossi tilkynnt um eldsvoða í Vinnuhælinu að Litla-Hrauni. Kl. 2140 þá um kvöldið var óskað aðstoðar hjá rannsóknarlögreglunni í Reykjavík vegna máls þessa, og fóru rannsóknarlögreglumennirnir Njörður Snæhólm, Haukur Bjarnason og Sævar Jóhannesson strax austur að Litla-Hrauni. Þegar þeir komu þangað um kl. 2330, var búið að ráða niðurlögum eldsins, sem hafði verið í þurrkherbergi og þvottahúsi í risi gamla hælisins. Verið var að flytja fangana til Reykjavíkur, því að allt var ljóslaust. Gamla hælið var hitalaust og gangar þröskuldafullir af vatni, sem rann niður alla stiga og niður í kjallara. Einnig rann vatn niður í gegnum raflagnir í loftum. Ekki var unnt að hefja rannsókn á tildrögum eldsvoðans þegar um kvöldið vegna erfiðra aðstæðna og ljósleysis, en næsta dag var rannsókn hafin.
Bls. 284
Haukur Bjarnason rannsóknarlögreglumaður framkvæmdi vettvangsrannsókn á brunastaðnum, og kemur eftirfarandi m. a. fram í skýrslu hans um rannsókn þessa:
Eldurinn hafði verið í risi gamla hússins, en þvottaherbergi austast í því hafði brunnið mest. Herbergi þetta er risbyggt og er byggt þversum á austasta enda hússins. Á sinn hvorum gafli herbergisins eru litlir gluggar, sem eru í 40 cm hæð frá gólfi á miðjum vegg. Var gler í báðum gluggum og hafði ekki sprungið vegna hitans. Loftrásarop (túða) er upp úr herbergi þessu upp úr miðju þakinu. Loftrás þessi er úr járni, en hefur verið klædd að innan með timbri. Öll timburklæðning innan úr loftrásinni var brunnin. Þakið var þannig byggt, að yst var bárujárn, síðan tjörupappi og klæðning þar á sperrur. Innan á sperrur var klætt með timbri og þar fest á vírnet, sem síðan hefur verið múrhúðað á. Brunnið var allt timbur bæði sperrur og klæðning efst í loftinu og brunnið niður eftir þekjunni niður í um 180 cm hæð frá gólfi. Múrhúðun lá öll inni á gólfi, en járnið hafði orðið fyrir miklu hita og því undist og rifnað. "Spíssarnir" á báðum göflum hafa verið úr tré, og voru þeir báðir brunnir, en tréklæðning þeirra var nærri metra frá risoddi og niður á steypta veggina. Ofnar, sem voru við sinn hvorn gafl, voru lítils háttar sviðnir efst, en höfðu ekki orðið fyrir miklum hita.
Inni í herberginu var rafmagnshitapottur ásamt tveim rafknúnum þvottavélum, og munu skemmdir hafa orðið á öllum þessum tækjum.
Raflagnir, sem allar voru utanáliggjandi, voru að mestu brunnar, þannig að einangrun þeirra var brunnin af. Haukur fór yfir rafmagnsleiðslurnar ásamt rafvirkja hælisins, Guðjóni Pálssyni, Heiðmörk 52, Hveragerði, og gátu þeir hvergi séð, að sambruni væri á leiðslunum. Guðjón skýrði frá því, að í janúar sama ár hefði hann endurnýjað allar rafleiðslur þarna í húsinu og sett nýjar í stað þeirra gömlu. Hafi hann endurnýjað öll perustæði og tengla og sett rakaþétt raf- og tengitæki á öllum stöðum í þvotta- og þurrkherbergi. Auk þess hafi hann sett lekastraumsrofa á rafkerfi hússins.
Næsta herbergi vestan við þvottaherbergið er þurrkherbergi. Hurð þar á milli opnast inn í þvottaherbergið og var nokkuð brunnin að ofanverðu og niður undir miðju á þeirri hlið, er fram sneri, en einungis sviðin á þeirri hlið, er sneri að vegg. Hurðarkarmurinn var lítils háttar brunninn efst á þverstykkinu, en lítið niður eftir hliðarstykkjum og ekkert neðst.
Bls. 285
Í fyrrgreindu þurrkherbergi var klæðning á súð nokkuð brunnin efst uppi og nokkuð niður eftir þekjunni, og timbur innan á loftrás var einnig nokkuð brunnið, en þó ekki efst. Í einu horni herbergisins, þar sem eldurinn hafði orðið hvað mestur, var öll klæðning í þekjunni brunnin alveg niður að gólfi. Þarna úti við súðina höfðu verið staflar af gömlum dagblöðum, og voru þeir allir brunnir á jöðrum, en sökum þess, hve þétt saman þeir höfðu legið, hafði miðhluti þeirra ekki brunnið. Þarna hafa einnig verið geymdar skjalamöppur, og voru þær allar brunnar. Í norðvesturhorni herbergisins var hilla, og var hún mikið brunnin. Þil á milli þurrkherbergisins og stigapalls, sem var úr þunnu paneltimbri, var allt brunnið efst og niður undir gólfið næst dyrakarmi.
Þá hafði nokkur eldur komist inn í geymsluherbergi í gegnum þil milli þess og fyrrnefnds þurrkherbergis. Skemmdir af völdum eldsins voru þó óverulegar í þessu herbergi, en þar inni voru geymdir ýmsir munir hælisins, þar á meðal kvikmyndasýningarvél og fleira. Nokkur reykur hafði komist inn í herbergi þetta.
Tveir steinsteyptir stigar liggja að umræddu lofti, en dyr eru fyrir stiganum úr járni, læstar að utanverðu með hengilás, en innan á hurðinni var renniloka. Hurð þessi átti ávallt að vera lokuð, annað hvort að utanverðu, ef enginn væri á loftinu, eða með rennilokanum, ef einhver væri uppi að vinna. Lásinn, sem vera átti að hurð þessari, hafði ekki fundist enn þrátt fyrir mikla leit. Einungis þvottamaðurinn, Rafn Svavarsson, hafði lykil að þessu svo og gæsluverðir. Þvottamaðurinn hafði lykil sinn á lyklakippu, jog var sá lykill horfinn af henni.
Á hæðinni fyrir neðan risið varð enginn eldur, en hins vegar var mikið vatn bæði á göngum og í klefum. Voru sumir klefanna þröskuldafullir af vatni. Urðu því skemmdir á flestum klefum vegna vatns, en enginn reykur komst þangað niður.
Nokkuð af vatni kom niður á neðstu hæðina í gegnum sprungur á veggjum og loftum, en aðallega með ljósastæðum. Í nýju álmuna komst hins vegar hvorki vatn né eldur.
Að lokum segir í skýrslu Hauks Bjarnasonar, að flestar líkur bendi til þess, að eldurinn hafi komið upp í suðausturhorni þurrkherbergis, enda sé það eini staðurinn, sem brunninn sé alveg niður í gólf.
Um aðdraganda að umræddum eldsvoða, framvindu hans og slökkvistarf kemur eftirfarandi fram í lýsingu Torfa Nikulás-
Bls. 286
sonar, varðstjóra á vinnuhælinu, hjá rannsóknarlögreglu hinn 13. mars 1972:
Ný vakt byrjaði á vinnuhælinu kl. 1600 þennan dag, og voru auk Torfa á vakt fangaverðirnir Steindór Guðmundsson, Baldur Oddgeirsson og Sigurjón Einarsson. Borðað var um kl. 1830, og um kl. 1945 fór Torfi fram og upp á efri hæð í gamla húsinu. Sá hann þá ekkert athugavert, en á þeirri hæð í vesturenda er hurð að stiganum upp á risloftið, en sú hurð var alltaf læst með hengilás, þegar ekki var verið að vinna uppi. Höfðu fangaverðir lykil að þeim lás ásamt fanganum Rafni Svavarssyni, sem sá um þvott fyrir fangelsið.
Sjónvarp var í setustofu, og komu flestir vistmenn til að horfa á það þetta kvöld, en þó ekki allir. Lítil hreyfing var á mönnum, á meðan fréttirnar voru í sjónvarpinu og dagskrárefni, sem á eftir þeim kom. Baldur Oddgeirsson var staddur í dyrum varðstofunnar, er hann fór að tala við Torfa um, að það væri reykjarlykt. Litu þeir inn í sjónvarpssalinn, en sáu ekkert. Fóru þá út og litu upp eftir húsinu að norðanverðu, þar sem aðaldyr eru. Sáu þeir þá reyk út um glugga á stafninum á þvottaloftinu, en sá gluggi er stundum hafður opinn, svo að þorni betur. Datt þeim fyrst í hug að athuga, hvort nokkrir væru lokaðir inni, en svo hittist á, að lögreglan frá Selfossi var nýkomin með ölvaðan mann, sem var lokaður í klefa. Var farið niður og náð í manninn, en Torfi bað Steindór Guðmundsson að fara upp á loft og kanna aðstæður. Eftir skamma stund kom fanginn Rafn Svavarsson og bað um slökkvitæki. Sagðist hann sjá í eld og halda, að það væri hægt að slökkva hann. Var hann beðinn að fara með tækið til Steindórs og reyna að slökkva. Jafnframt hringdi Torfi í slökkviliðið á Eyrarbakka og lögregluna á Selfossi og bað um, að fyrrnefndur maður yrði sóttur, og skýrði frá því um leið, að kviknað væri í. Síðan fékk hann þær fréttir ofan af loftinu, að það væri svo mikill reykur þar uppi, að þeir kæmust ekki inn eftir því. Sendi hann súrefnistæki upp, svo að unnt væri að fara lengra inn til að nota handslökkvitækin, sem þeir höfðu. Það réðst hins vegar ekkert við eldinn, og var hringt aftur í lögregluna á Selfossi og beðið um aðstoð frá slökkviliðinu þaðan. Enn fremur hringdi Torfi á Stokkseyri og bað um aðstoð frá slökkviliðinu þar. Slökkviliðið á Eyrarbakka kom mjög fljótlega, og var farið með slöngur upp á loft í gegnum húsið.
Torfi kvað það hafa verið um kl. 2045 sem þeir urðu varir við reykinn, eða mjög nálægt þeim tíma. Um kl. 2330 hætti
Bls. 287
slökkviliðið að dæla, og var þá búið að ráða niðurlögum eldsins, en sem fyrr greinir komu slökkviliðin frá Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfossi. Fengin var lögregla frá Selfossi og Reykjavík, og voru vistmenn fluttir til Reykjavíkur.
Torfi kveðst ekki hafa vitað, hverjir af vistmönnum voru í setustofu, en hann mundi eftir því og tók sérstaklega fram í skýrslu sinni, að ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson hefði ekki verið niðri, áður en þeir tóku eftir reyknum. Hann kvaðst hafa séð ákærða niðri, eftir að þeir urðu eldsins varir, en ekki séð hann eftir það. Mjög rólegt hefði verið á vaktinni fram að því að kviknaði í og ekkert, sem hefði bent til þess, að neitt sérstakt væri í bígerð. Undanfarið hefði og verið rólegt.
Þrjátíu og fimm fangar munu hafa verið á Vinnuhælinu að Litla-Hrauni hinn 12. mars 1972, þegar eldsvoðinn varð, og fjórir fangaverðir, svo sem fyrr greinir.
Á meðan á eldsvoðanum stóð, höfðu tveir fangar á Vinnuhælinu að Litla-Hrauni strokið þaðan, og var tilkynnt um strok þeirra til lögreglunnar í Reykjavík kl. 2144. Var talið, að þeir væru á leiðinni til Reykjavíkur í bifreiðinni X 127. Lögreglumenn úr Reykjavík fóru að grennslast fyrir um bifreið þessa og fundu hana skammt austan Rauðavatns. Voru þeir, sem lýst var eftir, í henni, þeir ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson og Óskar Elías Héðinn Guðmundsson, Öldugötu 42, Reykjavík.
Víðtæk rannsókn fór nú fram hjá rannsóknarlögreglunni í Reykjavík vegna eldsvoða þessa, og voru yfirheyrðir bæði fangaverðir vinnuhælisins og flestir fangar, er voru á vinnuhælinu á þessum tíma, m. a. ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson. Ákærði kvaðst hafa verið í herbergi sínu umrætt kvöld og ekki farið í mat sökum hálsbólgu, sem hann hefði verið með. Hefði hann verið að leika á plötuspilara, fyrst einn, en síðan hefði Óskar Elías komið til sín og þeir verið að leika á plötuspilarann, er þeir heyrðu mikinn umgang. Þeir fóru fram og sáu menn á leið upp á loft, en þá var eldur laus þar. Kvaðst hann hafa farið upp á efri hæðina með þeim, er þangað fóru, en síðan niður aftur. Hann hafi heyrt á tal Markúsar Einarssonar fangelsisstjóra, að sprengingarhætta væri í hælinu, og því hafi hann ákveðið að forða sér. Hafi hann farið út, yfir að fjósinu og þar yfir girðingu, sem liggur niðri að nokkru leyti, og út á þjóðveginn. Hafi hann ekki verið búinn að ganga lengi, er bifreið kom að og hann fengið far með henni á Selfoss. Þar hafi hann farið úr bifreiðinni og hitt fyrr-
Bls. 288
nefndan Óskar Elías og þeir ákveðið að taka leigubíl til Reykjavíkur. Ákærði neitaði allri vitneskju um upptök eldsvoðans að Litla-Hrauni. Sama var að segja um Óskar Elías, og bar þeim ákærða Tryggva Rúnari saman um, að þeir hefðu hist á Selfossi.
Við víðtæka rannsókn rannsóknarlögreglu, sem fór fram næstu vikur, kom ekkert frekar fram, sem varpað gat ljósi á orsakir eldsvoðans. Til að meta brunatjónið voru fengnir sem matsmenn þeir Siggeir Ólafsson og Magnús Jóhannesson. Samkvæmt matsgerð þeirra, dagsettri 20. mars 1972, töldu þeir tjónið hæfilega metið á kr. 1.315.000.
Sýslumaðurinn í Árnessýslu sendi saksóknara ríkisins gögn vegna framagreindrar rannsóknar með bréfi, dagsettu 29. maí 1972. Í bréfi saksóknara til sýslumannsins, dagsettu 8. júní s. á., er þess krafist, "að haft verði vakandi auga með því, hvort nokkurt það kemur fram, sem verða mætti til upplýsinga um eldsupptökin eða mál þetta yfirleitt. Komi eitthvað slíkt í ljós, ber að halda rannsókn málsins áfram svo sem efni kunna að gefast til og þér teljið ástæðu til".
Hinn 1. júní 1976 kom ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson, sem þá var gæslufangi vegna máls þess, sem um getur í I. kafla hér að framan, til yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglunni í Reykjavík. Kvaðst hann nú vilja skýra frá því, þegar eldur kviknaði í Vinnuhælinu að Litla-Hrauni hinn 12. mars 1972. Hann hefði verið fangi þar og verið valdur að eldsvoðanum ásamt Óskari Elíasi Héðni Guðmundssyni.
Ákærði Tryggvi Rúnar kvað aðdragandann að eldsvoðanum hafa verið þann, að umræddan dag hafi komið í heimsókn til Valgeirs Magnússonar maður, er hét Kristinn Esmar Skarphéðinsson og nú er látinn. Nokkru eftir að Kristinn kom í heimsókn til Valgeirs, hafi ákærði farið inn í klefa Valgeirs og Kristinn þá verið þar. Hafi Kristinn Esmar verið með 30 lyfjatöflur og gefið þeim. Nokkru síðar, eftir að Kristinn var farinn, hafi Óskar Elías einnig komið inn í klefann til Valgeirs. Hafi þeir skipt töflunum með sér og neytt þeirra og drukkið kaffi með. Þeir hafi fljótlega orðið undir talsverðum áhrifum og m. a. orðið mjög máttfarnir í fótum. Þegar lítið var eftir orðið af töflunum, fóru þeir að ræða um það, er þeir höfðu áður heyrt talað um meðal samfanga sinna, að lyf, sem eftir yrðu, þegar fangar losnuðu úr fangavistinni, væru geymd í herbergi á lofti vinnuhælisins. Valgeir hafi verið sofnaður, en þeir Óskar Elías ákveðið að fara upp á loft og brjótast inn til þess að ná í lyf, er þeir töldu, að
Bls. 289
þar væru. Fóru þeir upp á efri gang og þar að hurð, sem var fyrir stiganum, er liggur upp á loftið. Hurð þessi var læst með hengilás, og ákvað ákærði Tryggvi Rúnar að spenna hann frá, til að þeir kæmust upp á loftið. Stóð Óskar Elías á stigapallinum við uppganginn til þess að gera ákærða viðvart, ef einhver kæmi að. Kvaðst ákærði hafa haft meðferðis stórt skrúfjárn, sem hann notaði til að spenna lásinn af hurðinni með snöggu átaki. Því næst opnaði hann hurðina og setti lásinn og skrúfjárnið til hliðar inn fyrir dyrnar, en lokaði þeim síðan aftur, þar eð hann taldi ekki ráðlegt, að þeir færu þá upp, þar eð matartími var kominn og talsverður umgangur um bygginguna. Fóru þeir og borðuðu, en héldu að því loknu í klefa ákærða Tryggva Rúnars, sem var nr. 13. Komu þeir sér saman um, að best væri að bíða, þar til sjónvarp hæfist kl. 20 og fangar væru farnir að horfa á það. Þegar sá tími var kominn, fóru þeir upp á loft. Þar kveðst ákærði hafa spennt upp hurð á herbergi, sem er til hægri, þegar komið er upp stigann á loftið. Var mikið af pappakössum og blaðadrasli í herbergi þessu. Leituðu þeir að lyfjunum í pappakössunum og því dóti, sem þarna var, en án árangurs. Urðu þeir reiðir og vonsviknir og byrjuðu á því að reyna að kveikja í svefnbekk, sem þarna var með rifið áklæði. Ekki tókst að kveikja í honum, og fóru þeir fram á þurrkloftið, sem er við hliðina. Sóttu þeir blöð eða blaðaúrklippur, sem þar voru í pappakössum, fóru með inn í herbergið og kveiktu þar í með eldspýtum, sem óskar Elías var með. Varð af þessu mjög mikill eldur, og urðu þeir að hörfa niðru stigann. Fóru þeir inn í klefa ákærða Tryggva Rúnars, en eftir um það bil 10 mínútur heyrðu þeir, að mikill umgangur varð um ganga hælisins og að menn höfðu orðið varir við eldinn. Fóru þeir þá fram á gang, en síðan á eftir öðrum upp á efri gang, og var þá verið að reyna að slökkva eldinn. Þessu næst fóru þeir niður, og var þá búið að opna hælið út. Var föngunum sagt að fara út úr hælinu og vera á lóðinni fyrir framan húsið. Söfnuðust fangarnir þar saman, og virtist ákærða Tryggva Rúnari mikill órói vera í mönnum og stjórnleysi ríkjandi. Þegar þeir Óskar Elías höfðu ráfað um lóðina, kom til tals milli þeirra, að best væri að láta sig hverfa. Hafi þeir farið í skjóli reyks frá hælinu út á veg, en síðan gengið eftir veginum að afleggjaranum til Stokkseyrar. Þar hafi þeir stöðvað jeppabifreið og spurt ökumann, hvort hann gæti ekið þeim til Selfoss, og hann orðið við því. Sögðu þeir ökumanni, að þeir væru á bát frá Eyrarbakka. Tók hann þá trúanlega og ók þeim á Selfoss. Frá Selfossi fóru
Bls. 290
þeir með leigubifreið áleiðis til Reykjavíkur, uns lögreglan stöðvaði bifreiðina.
Óskar Elías Héðinn Guðmundsson hefur bæði hjá rannsóknarlögreglu og fyrir dómi neitað því með öllu að hafa átt þátt í að kveikja í á lofti Vinnuhælisins að Litla-Hrauni umrætt sinn, svo sem ákærði Tryggvi Rúnar hefur lýst.
Ákærði Tryggvi Rúnar kom fyrir dóm vegna máls þessa hinn 18. janúar 1977 og neitaði þá algerlega að hafa kveikt í Vinnuhælinu að Litla-Hrauni að kvöldi 12. mars 1972. Kvað hann skýrslu sína hjá rannsóknarlögreglu um það, er gerðist framangreint sinn, meira og minna ranga. Hann kannaðist ekki við, að Kristinn Esmar hefði komið í heimsókn til Valgeirs í vinnuhælið þennan dag, heldur hafi það verið í annað skipti. Þá kvað ákærði það allt rangt, er í skýrslunni greindi um töfluneyslu hans, Valgeirs og Óskars Elíasar umræddan dag. Kvaðst hann engra taflna hafa neytt að Litla-Hrauni þennan dag. Hann hafi verið í herbergi sínu að kvöldi 12. mars, er eldurinn kom upp í vinnuhælinu, en ekki mundi hann, hverjir voru með honum. Kvaðst hann aldrei hafa farið upp á loft í vinnuhælinu og neitaði, að það væri rétt, er hann sagði um ferðir sínar þangað með Óskari Elíasi. Hann hefði farið fram á gang, er honum var gert viðvart um eldinn. Síðan hefði hann farið út úr vinnuhælinu og fljótlega eftir það haldið á brott áleiðis að Selfossi.
Ákærði kannaðist í þinghaldi þessu við að hafa gefið skýrslu þá hjá rannsóknarlögreglu, er áður var rakin, og undirritað hana. Hann skýrði svo frá, að hann hefði verið í gæsluvarðhaldi vegna svonefnds "Guðmundarmáls" í fangelsinu við Síðumúla, er hann gaf umrædda skýrslu hjá Sigurbirni Víði Eggertssyni rannsóknarlögreglumanni. Hafði hann verið í einangrun allan tímann, frá því hann var úrskurðaður í gæsluvarðhaldið. Nokkru áður en hann gaf skýrsluna, hefði hann verið spurður um, hvort hann hefði framið ýmis brot, er nánar voru tilgreind. Var m. a. minnst á brunann að Litla-Hrauni 12. mars 1972 og borið á ákærða, að hann hefði kveikt í hælinu. Þeir, sem aðallega hafi rætt við ákærða, hafi verið Örn Höskuldsson fulltrúi og Eggert Bjarnason lögreglumaður. Kveðst ákærði hafa játað fyrir þeim að hafa kveikt í Vinnuhælinu að Litla-Hrauni og í framhaldi af því hefði skýrsla verið tekin af honum hinn 1. júní 1976. Hann hefði játað á sig íkveikjuna vegna loforðs frá Erni Höskuldssyni um, að hann yrði fluttur úr fangelsinu í Síðumúla að Litla-Hrauni og leystur úr einangrun. Kvað hann skýrslutökuna af sér hafa
Bls. 291
gengið greiðlega og hafi hann ekki yfir neinu að kvarta að því er hana sjálfa varðar, en margt hafi verið búið að gerast áður. Kveðst hann ekki hafa beðið um réttargæslumann, áður en skýrslan var tekin, en hann hafi margsinnis áður verið búinn að biðja um, að réttargæslumaður sinn væri viðstaddur yfirheyrslur, en því hefði ekki verið sinnt.
Vitnið Sigurbjörn Víðir Eggertsson rannsóknarlögreglumaður, sem tók skýrslu af ákærða Tryggva Rúnari hinn 1. júní 1976, skýrði svo frá fyrir dómi, að ákærði Tryggvi Rúnar hefði játað, eins og skýrslan beri með sér, að hafa orðið valdur að eldsvoða í Vinnuhælinu að Litla-Hrauni sunnudaginn 12. mars 1972 ásamt Óskari Elíasi Héðni Guðmundssyni. Var játning hans greið og án nokkurs fyrirvara, er skýrslan var tekin af honum. Nokkru áður hafði vitnið byrjað að spyrja hann um þátt hans í ýmsum óupplýstum brotum, svo sem íkveikju að Litla-Hrauni í mars 1972. Í tilefni af því hafi ákærði Tryggvi Rúnar skrifað vitninu bréf, sem er ódagsett, þar sem hann viðurkenndi að hafa kveikt í á Vinnuhælinu að Litla-Hrauni ásamt fyrrgreindum Óskari Elíasi og skýrt frá málsatvikum. Í framhaldi af bréfi þessu gaf Tryggvi Rúnar skýrslu hjá vitninu, þar sem hann viðurkenndi þetta.
Hinn 25. janúar 1977 kom ákærði enn fyrir dóm vegna máls þessa, og kvaðst hann nú vilja breyta fyrri skýrslu sinni í dómi. Kvaðst hann viðurkenna að vera valdur að eldsvoðanum á Litla-Hrauni hinn 12. mars 1972. Hann kveðst ekki muna, hvort Kristinn Esmar Skarphéðinsson hafi komið í heimsókn að Litla-Hrauni nákvæmlega þennan dag, en hann hafi komið í heimsókn um þetta leyti og haft meðferðis lyfjatöflur. Ákærði kvað þá Óskar Elías Guðmundsson hafa verið undir áhrifum af töflunum, sem þeir hefðu komist yfir, en hann mundi ekki, með hvaða hætti það hefði verið. Drukku þeir kaffi með töflunum og komust undir áhrif af þeim. Þegar lítið var orðið eftir fóru þeir að ræða um það að verða sér úti um meiri lyf. Höfðu þeir heyrt, að lyf væru geymd í herbergi, sem er til hægri á lofti vinnuhælisins, þegar komið er upp stigann á loftið. Ákváðu þeir að brjótast þar inn í leit að lyfjum. Fóru þeir upp á efri gang vinnuhælisins og að hurð, sem er fyrir stiganum upp á loftið. Hurð þessi var læst með hengilás, og sprengdi ákærði hana upp með skrúfjárni, er hann hafði meðferðis. Stóð Óskar Elías á stigapallinum við uppganginn til að gera ákærða viðvart, ef einhver kæmi. Opnaði ákærði því næst hurðina og setti lásinn og skrúfjárnið til hliðar inn fyrir dyrnar. Lokaði hann þeim síðan aftur, þar sem hann
Bls. 292
taldi ekki ráðlegt, að þeir Óskar Elías færu upp strax, vegna þess að matartími var kominn og talsverður umgangur um hælið. Eftir að sjónvarp var byrjað um kvöldið og flestir fanganna farnir að horfa á það, ákváðu þeir að fara upp á loftið til að leita að lyfjum. Neyttu þeir nokkurra taflna og drukku kaffi með, en héldu síðan upp á loftið, og spennti ákærði upp hurð á herbergi, sem er til hægri, þegar komið er upp stigann. Í herbergi þessu var mikið af pappakössum og blöðum og einnig svefnbekkur eða dívan. Leituðu þeir í pappakössunum og víðar að lyfjum, en fundi engin. Urðu þeir þá reiðir, eða öllu heldur vonsviknir, og byrjuðu að reyna að kveikja í svefnbekknum, sem var með rifið áklæði. Kvaðst ákærði sjálfur hafa borið eldinn að með eldspýtum, er Óskar Elías var með. Svefnbekkurinn logaði þó ekki, og fóru þeir þá fram á þurrkloftið og sóttu blöð eða blaðaúrklippur, sem voru þar í pappakössum. Fóru þeir með það inn í herbergið, og kveikti ákærði í því. Kom upp mikill eldur, og hörfuðu þeir niður stigann og fóru niður í klefa ákærða. Frásögn ákærða um það, sem á eftir fór, er síðan í fullu samræmi við það, sem hann hafði áður skýrt frá.
Vitnið Torfi Nikulásson, varðstjóri á Vinnuhælinu að Litla-Hrauni, Túngötu 38, Eyrarbakka, hefur skýrt svo frá fyrir dómi, að það myndi eftir því, að ákærði Tryggvi Rúnar hefði ekki verið niðri í Vinnuhælinu að Litla-Hrauni, er fangaverðirnir urðu þess varir, að eldur væri kominn upp umrætt kvöld. Vitnið mundi eftir því, að það sá ákærða niðri um stund, eftir að eldsins varð vart, en síðan mundi það ekki eftir að hafa séð hann. Vitnið vissi ekki, hvar ákærði var, þegar eldurinn kom upp. Það vissi ekkert um ferðir Óskars Elíasar um kvöldið og mundi ekki eftir að hafa séð hann. Aðrir fangaverðir, sem komu fyrir dóm, mundu ekki, hvort þeir sáu ákærða Tryggva Rúnar á þeim tíma, sem eldsins varð vart.
Niðurstöður.
Með skýlausri játningu ákærða Tryggva Rúnars Leifssonar um að hafa valdið eldsvoða að Litla-Hrauni hinn 12. mars 1972 og með hliðsjón af öðrum gögnum málsins telst sannað, að ákærði, sem var þar refsifangi, hafi valdið eldsvoðanum, svo sem hann hefur lýst.
Telja verður augljóst, að eldsvoða þessum hafi verið samfara mikil almanna hætta og ákærða mátt vera ljóst, að mönnum mundi vera af honum bersýnilegur lífsháski búinn, þar sem í húsinu voru nærri 40 manns og sumir lokaðir inni í klefum.
Bls. 293
Einnig hlaut eldsvoðinn að hafa í för með sér hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum. Telst þetta atferli ákærða Tryggva Rúnars því með hliðsjón af framansögðu varða við 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar ákærða út af broti þessu verður höfð hliðsjón af 73. gr. sömu laga.
2. Aðfaranótt sunnudagsins 27. október 1974, kl. 0400, var beðið um aðstoð lögreglunnar í Reykjavík að Hléskógum við Vatnsveituveg þar í borg. Jóhannes Björgvinsson, varðstjóri í lögreglunni, og Jónatan Hall, lögregluþjónn nr. 92, fóru á staðinn. Hittu þeir þar fyrir stúlku, sem tjáði þeim, að vinkona sín væri í húsi þarna skammt frá og væri hún í nauðum stödd. Vísaði stúlkan þeim á hús, sem reyndist vera Selásblettur 14. Útidyr hússins voru opnar, er þeir komu að því. Gengu þeir inn og hittu fyrir pilt, sem vísaði þeim á stúlkuna, er var stödd í herbergi beint á móti forstofudyrum. Stúlkan var mjög miður sín, föt hennar rifin og úr lagi færð. Þegar út í lögreglubifreiðina kom, hafði hún á orði, að henni hefði verið nauðgað. Voru stúlkurnar færðar á Árbæjarstöð lögreglunnar. Þar kvaðst stúlka sú, er sagði, að sér hefði verið nauðgað, heita K, til heimilis að . . . vegi . . ., Reykjavík, fædd 1956, en sú, sem hringdi á lögregluna, hét A, . . . vegi . . ., fædd 1957. Sögðu þær lögreglunni, að þær hefðu verið á dansleik að Borg í Grímsnesi og hitt þar pilta, sem sögðust skyldu leyfa þeim að sitja í með þeim til Reykjavíkur eftir dansleikinn. Hefðu þau farið að dansleiknum loknum í leigubifreið frá Hreyfli og ekið sem leið lá heim til annars piltsins að Selásbletti 14. Þar hefðu piltarnir farið úr bifreiðinni og hefði annar þeirra, ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson, beiði K um að koma með sér inn og tala við sig. K kvaðst hafa gert það, en þegar inn í herbergið til ákærða var komið, hefði hann tekið á sér hálstak og rifið hana úr buxunum, bæði ytri buxum og nærbuxum, og nauðgað henni. A kvaðst hafa beðið í leigubifreiðinni fyrir utan í um 15-20 mínútur, en þá farið inn til að gá að K. Hefði þá hinn pilturinn reynt að varna henni inngöngu. Hún hefði komist inn og ætlað inn í herbergi það, sem K var í, en ekki komist þangað vegna keðju, sem var fyrir dyrunum. Hefði ákærði þá komið út úr herberginu og slegið hana í andlitið, en síðan farið út til að tala við leigubifreiðarstjórann, sem hefði farið á brott. Hefði K þá verið grátandi í herberginu og föt hennar rifin. Hún hefði þá hlaupið út til að ná í hjálp og farið í Hléskóga, þar sem hún fékk að hringja. Þegar hér var komið sögu, sótti lögreglan ákærða Tryggva
Bls. 294
Rúnar og félaga hans, Sigurð Karl Pálsson, Kleppsvegi 132, að Selásbletti 14 og flutti í fangageymslu lögreglunnar. Tók rannsóknarlögreglan í Reykjavík jafnframt við rannsókn málsins, sem hófst þegar um nóttina. Framangreind lýsing á atburðum er byggð á lögregluskýrslu Jónatans Hall. Í skýrslunni kemur einnig fram, að K var með sýnilega áverka á hálsi.
Jónatan Hall lögreglumaður, Hjaltabakka 24, Reykjavík, 34 ára að aldri, hefur komið fyrir dóm í máli þessu og staðfest framangreinda skýrslu sína. Vitnið sagði, að Sigurður Karl Pálsson hefði vísað þeim lögreglumönnunum á herbergi það, sem stúlkan var í, er þeir komu inn í húsið, en herbergið sé beint á móti forstofudyrum. Hefði herbergið verið lokað með öryggiskeðju og ákærði, er var þar inni, ekki opnað fyrr en eftir nokkra stund. Hefði K verið inni í herberginu og annað hvort setið í sófa eða legið upp við hann. Hún hafði fengið taugaáfall og var grátandi og mjög miður sín. Buxur K voru rifnar, og reyndi hún að halda þeim saman. Lögreglumennirnir töluðu ekkert við hana þarna inni, en fóru með hana út í lögreglubifreiðina. Sagði hún, að ákærði Tryggvi Rúnar hefði nauðgað sér. Hefði hún síðar á lögreglustöðinni í Árbæjarhverfi skýrt frá því, að eftir að komið var úr ferð austan frá Minni-Borg í Grímsnesi, hefði hún farið inn til ákærða samkvæmt beiðni hans. Þegar inn var komið, hefði hann læst herberginu, ráðist á sig og tekið um háls hennar. Síðan hefði hann rifið bæði ytri og innri buxur hennar og nauðgað henni. Vitnið kvað K hafa verið með sýnilega áverk framan á hálsi, og var hún flutt til Andrésar Ásmundssonar læknis til skoðunar.
Jóhannes Björgvinsson lögregluvarðstjóri, Miklubraut 84, 58 ára að aldri, hefur einnig komið fyrir dóminn sem vitni og skýrt frá aðkomunni að Selásbletti 14 mjög á sama veg og fyrrgreint vitni. Vitnið kvað K hafa setið á dívan í herberginu, er þeir lögreglumennirnir komu að. Var hún kjökrandi, mjög miður sín og illa til reika. Síðbuxur, er hún var í, voru rifnar frá buxnastreng niður á læri, og hélt hún þeim saman. Vitnið tók munnlega skýrslu af henni á lögreglustöðinni í Árbæjarhverfi. Kvaðst hún hafa verið að koma ásamt ákærða Tryggva Rúnari og fleira fólki af dansleik á Minni-Borg í Grímsnesi. Þegar að Selásbletti 14 kom, kvað hún ákærða Tryggva Rúnar hafa beðið sig að koma aðeins inn til sín og tala við sig. Þegar inn í herbergið kom, hefði hann læst og ráðist á sig. Hann hefði tekið sig kverkataki, lagt sig á legubekk, rifið niður um sig buxurnar og nauðgað sér.
Bls. 295
Hún hefði engum vörnum getað komið við, þar sem hann hefði haldið um háls hennar, hert að og hótað að drepa hana, ef hún léti ekki að vilja hans. Hann hefði síðan haft fullkomnar samfarir við sig og fellt sæði til sín, að hún taldi. Kvaðst vitnið hafa spurt stúlkuna, hvort hún gerði sér grein fyrir því, að það væri alvarlegt mál að kæra mann fyrir nauðgun, og sagðist hún halda fast við kæru sína. Náði vitnið þá í rannsóknarlögreglumann, er tók málið að sér.
K gaf skýrslu hjá rannsóknarlögreglu þegar umræddan dag, þ. e. 27. október 1974. Kom hún fyrir dóm vegna málsins 19. janúar 1977 og skýrði þar frá í meginatriðum á sama veg. Greindi vitnið svo frá, að það hefði þekkt ákærða Tryggva Rúnar og Sigurð Karl Pálsson. Hefði það hitt þá í einhver skipti á dansleikjum og var A þá með því. Eigi var um neinn kunningsskap að ræða, og hafði vitnið t. d. aldrei dansað við þá. Um kl. 2200 að kvöldi 26. október 1974 voru þær A staddar í söluturni við Bústaðaveg. Komu ákærði og Sigurður Karl þangað í leigubifreið. Gáfu þeir sig á tal við þær og sögðust vera á leið á dansleik að Minni-Borg í Grímsnesi. Buðu þeir þeim með í ferðina, og þáðu þær boðið. Áður en lagt var af stað, tóku þær fram, að þær vildu láta aka sér rakleitt heim til sín, er komið væri aftur til Reykjavíkur, og lofuðu ákærði og Sigurður Karl því. Á leiðinni austur neyttu vitnið og A lítils háttar af áfengi, en vitnið kvaðst aldrei hafa fundið til áfengisáhrifa. Á leiðinni til borgarinnar bragðaði vitnið ekki áfengi. Vitnið greiddi ekki sjálft aðgangseyri að dansleiknum og telur, að annað hvort ákærði eða Sigurður Karl hafi gert það. Á leiðinni til Reykjavíkur sat vitnið að mestu leyti í aftursæti bifreiðarinnar hjá A, en var þó frammi í bifreiðinni í byrjun við hlið ákærða. Vitnið mundi ekki eftir því, að ákærði hefði verið að reyna að kyssa það í bifreiðinni, enda hefði slíkt aldrei komið til greina af þess hálfu. Þegar til Reykjavíkur kom, var ekið heim til ákærða að Selásbletti 14. Fóru ákærði og Sigurður Karl þar úr bifreiðinni og héldu inn í húsið. Vitnið og A urðu eftir í bifreiðinni, er var kyrr á staðnum, og hyggur vitnið, að bifreiðarstjórinn hafi verið að bíða eftir því að fá greiðslu. Sigurður Karl kom fljótlega út í bifreiðina og sagði vitninu, að ákærða langaði að tala við það, þar sem móðir hans væri dáin. Vitnið komst að því síðar, að ekki var um raunverulegan dauðdaga að ræða, heldur hefði móðir ákærða sofnað út frá áfengisdrykkju. Vitnið kvaðst hafa látið til leiðast vegna skilaboðanna frá ákærða að fara inn til hans, en eigi man
Bls. 296
það eftir því, að A varaði það við því. Vitnið og Sigurður Karl fóru nú inn í húsið, og vísaði Sigurður Karl því á herbergið, þar sem ákærði var. Fór vitnið inn í herbergið, en Sigurður Karl varð eftir fyrir utan. Mundi vitnið ekki eftir því, að þeir Sigurður Karl og ákærði ættu orðaskipti.
Þegar inn í herbergið kom, setti ákærði keðju fyrir hurðina og krækti henni í dyrastafinn. Að því búnu réðst hann fyrirvaralaust á vitnið og henti því upp í rúm. Vitninu varð strax ljóst, hvað verða vildi, og bað ákærða að hætta þessu, en hann skeytti því engu og sagði vitninu að halda kjafti. Ákærði reif síðan bæði ytri og innri buxur vitnisins og lagðist ofan á það. Hann tók um háls vitnisins og herti að, er það reyndi að hrópa á hjálp. Vitnið kveður sér hafa tekist að hrópa í eitt eða tvö skipti, en þá hafi ákærði hert að hálsi þess. Vitnið var grátandi, er þetta gerðist, og hafði fengið taugaáfall. Ákærði tók út getnaðarlim sinn og setti inn í kynfæri vitnisins. Hann lá ofan á því nokkurn tíma og hafði samfarir við það, en eigi er vitninu ljóst, hvort hann felldi sæði til þess. Vitnið varð vart við, að bankað var á hurðina, en það virtist engin áhrif hafa á ákærða. Þegar ákærði hafði haft samfarir við vitnið í nokkurn tíma, hætti hann, en það var ekki vegna ónæðis utan frá. Vitnið kvaðst hafa heyrt, að A hrópaði á það, og reynt að gefa frá sér hljóð. Ákærði opnaði ekki hurðina fyrr en eftir nokkurn tíma. Eigi mundi vitnið, hvort A og ákærði skiptust á orðum, og ekki varð það vart við, að ákærði slægi hana. Vitnið mundi hins vegar, að ákærði sagði, að hann skyldi drepa þær og setja þær ofan í gröfina.
Vitnið kvaðst ekki vera samt og áður eftir þennan atburð og hafi það orðið fyrir sálrænu áfalli, sem það hefur ekki jafnað sig af. Hefur vitnið fengið martröð í tvö skipti, nú síðast fyrri stuttu, vegna þessa atburðar.
Vitnið kvað þá báða, ákærða Tryggva Rúnar og Sigurð Karl, hafa verið mikið með áfengisáhrifum eftir dansleikinn að Minni-Borg. Þá kom fram hjá vitninu, að það hefði haft samfarir við karlmann, áður en framangreindur atburður gerðist.
Ákærði Tryggvi Rúnar neitaði bæði hjá rannsóknarlögreglu hinn 27. október 1974 og síðar fyrir dómi hinn 19. janúar 1977 að hafa nauðgað K, svo sem hún hefur kært hann fyrir. Hann skýrði frá því, að hann hefði verið í leigubifreið á Bústaðavegi að kvöldi laugardagsins 26. janúar 1974 ásamt Sigurði Karli Pálssyni. Hefði ökumaður leigubifreiðarinnar verið Sævar Erlendsson, Kúrlandi 29. Við biðskýli á Bústaðavegi hefðu þeir
Bls. 297
hitt K og A, sem þeir þekktu. Þeir hefðu boðið stúlkunum á dansleik á Minni-Borg í Grímsnesi og þær þegið boðið. Var ekið þangað og verið þar á dansleik um nóttina. Ákærði kvaðst hafa dansað við K og hefði hún og A orðið þeim samferða aftur til Reykjavíkur. Þeir Sigurður Karl hefðu báðir verið með áfengisáhrifum og haft áfengi meðferðis í ferð þessa. Ákærði kvað K hafa setið í framsæti við hlið ökumanns og hann við hlið hennar, en þau Sigurður Karl og A hefðu setið í aftursæti. Þau hefðu öll neytt áfengis í bifreiðinni, bæði á leiðinni austur og eins á leiðinni til Reykjavíkur. Kvaðst hann hafa verið að kyssa K á leiðinni og hefði hún ekki haft á móti því. Hann mundi ekki nú hvort þau K skiptu um sæti á leiðinni til Reykjavíkur. Kvaðst hann hafa verið talsvert ölvaður, er þau komu til borgarinnar, en muna atburði vel. Ekið var heim til ákærða að Selásbletti 14, og fóru þau ákærði og K þar inn, en þau Sigurður Karl og A biðu í bifreiðinni fyrir utan. Ákærði tók fram, að hann hefði greitt fyrir ferðina um 8.000 krónur af eigin fé.
Þegar inn var komið, fóru þau inn í herbergi bróður ákærða. Lokaði ákærði með krók, sem er innan á hurðinni. Síðan kvaðst ákærði hafa byrjað að kyssa K og þukla hana og spurt hana að því, hvort þau ættu ekki að fá sér einn. K hefði svarað því játandi, og sagði ákærði, að þau skyldu þá fara úr. Ákærði kvaðst síðan hafa farið úr fötunum og K einnig. Ákærði taldi, að þau hefðu ekki slökkt ljósið. Ákærði og K fóru því næst upp í rúm, sem var í herberginu, og lögðust þar fyrir. Höfðu þau að því búnu samfarir. K streittist aldrei neitt á móti, og kvað ákærði samfarirnar hafa farið fram með vilja hennar. Ákærði kvaðst hafa sett getnaðarlim sinn inn í kynfæri K, en eigi veit hann, hvað samfarirnar stóðu langan tíma. Ákærði taldi, að hann hefði fellt sæði til K. Eftir samfarirnar klæddu ákærði og K sig. Fóru þau út úr herberginu, fram í stofu, og kallaði ákærði á þau A og Sigurð Karl. Komu þau inn í húsið, og var sest að drykkju um hríð. Nokkru síðar fór A á brott, en nokkru þar á eftir kom lögreglan. Ákærði taldi ástæðuna fyrir því, að A fór á brott, hafa verið þá, að hann vildi ekki sinna henni neitt. Lögreglumennirnir spurðu eftir K, og sagði ákærði, að hún væri þar. Ákærði kvaðst hafa spurt lögregluna, hvað væri að. Sögðu þeir, að vinkona hennar, sem væri úti í bíl við húsið, væri að spyrja eftir henni. K fór á brott með lögreglumönnunum. Rétt á eftir komu lögreglumenn aftur og handtóku ákærða án þess að skýra honum frá tilefninu. Ákærði neitaði að hafa rifið ytri og innri buxur K.
Bls. 298
Kvaðst hann aldrei hafa orðið var við, að þær væru rifnar. Þá neitaði ákærði, að marblettir á hálsi K hefðu verið að sínum völdum, enda hefði hann ekki þurft að beita hana harðræði.
Vitnið A húsmóðir, . . . vegi . . ., fædd . . . 1957, hefur skýrt svo frá fyrir dómi, að þær K hefðu hitt ákærða Tryggva Rúnar a. m. k. tvisvar, áður en þær hittu hann og Sigurð Karl á Bústaðavegi að kvöldi 26. október 1974. Í annað skiptið hittust þau á Hressingarskálanum, en í hitt skiptið í veitingahúsinu Röðli. Vitnið kvað þær K hafa verið saman við biðskýli við Bústaðaveg, er þeir ákærði og Sigurður Karl komu þangað í leigubifreið umrætt kvöld. Þeir kváðust vera á leið á dansleik að Minni-Borg í Grímsnesi og buðu þeim með. Vitnið sagði, að þær K hefðu neytt lítillega áfengis á leiðinni austur, en einskis á leiðinni til borgarinnar. Kvaðst vitnið hafa fundið aðeins til áfengisáhrifa, er þær komu á dansleikinn. Vitnið og K dönsuðu ekkert við ákærða og Sigurð Karl á dansleiknum. K sat í framsæti við hlið ákærða á leiðinni til borgarinnar. Var ákærði mikið ölvaður og var að reyna að kyssa K, en hún vildi það ekki. Sigurður Karl var heldur minna með áfengisáhrifum. Á leiðinni til Reykjavíkur var numið staðar, og færði K sig þá í aftursæti bifreiðarinnar til vitnisins. Þegar ákærði varð þess var, flutti hann sig þangað og settist við hlið hennar.
Þegar komið var til Reykjavíkur bað ákærði um, að ekið yrði heim til sín að Selásbletti 14. Kvaðst vitnið hafa verið búið að biðja bæði bifreiðarstjórann, ákærða og Sigurð Karl, áður en lagt var af stað í ferðina, að þeim yrði ekið beint heim, er komið væri úr ferðalaginu, en því hafi ekki verið sinnt og ekið heim til ákærða. Þegar þangað kom, fóru ákærði og Sigurður Karl inn til ákærða. Skömmu síðar kom Sigurður Karl út og sagði, að ákærða langaði að tala við K og bæði hana að koma inn til sín. Jafnframt sagði hann bifreiðarstjóranum, að hann mætti fara.
Vitnið mótmælti því og sagði K og bæði hana að koma inn til sín. Jafnframt sagði hann bifreiðarstjóranum, að hann mætti fara. Vitnið mótmælti því og sagði K, að hún skyldi ekki fara inn til ákærða. Kvað vitnið sér ekki hafa litist á blikuna, enda hefði ljós verið slökkt þeim megin í húsinu, sem bifreiðin stóð. K fór inn með Sigurði Karli, og bað vitnið hana að flýta sér, áður en hún fór. Vitnið beið í bifreiðinni í 15-20 mínútur ásamt bifreiðarstjóranum. Fór því að lengja biðin. Sigurður Karl kom út aftur, einhvern tíma á meðan það beið, og sagði bifreiðarstjóranum að fara, þar sem K ætlaði að vera kyrr hjá ákærða. Vitnið kvaðst ætla að tala við K, áður en það færi, og fór með Sigurði Karli inn í húsið, enda var það farið að gruna,
Bls. 299
að ekki færi allt með felldu. Þegar vitnið kom inn í húsið, fór það að spyrja eftir K, en eigi man það, hvern það spurði. Vitnið kallaði á K og spurði, hvort hún væri ekki að koma. K svaraði vitninu ekki strax, en eftir nokkra stund svaraði hún og sagðist vera að koma. Vitnið heyrði á rödd hennar, að hún var grátandi. Vitnið heyrði, að ákærði var inni í herberginu hjá K, og öskraði hann á það, er hann heyrði til þess. Sagði hann vitninu að halda kjafti og koma sér burt. Vitnið reyndi að komast inn í herbergið og opnaði hurðina, en keðja var fyrir innan, þannig að hurðin opnaðist einungis lítillega. Eigi var unnt að sjá inn í herbergið, enda minnir vitnið, að slökkt hafi verið þar inni. Á meðan á þessu stóð, kvaðst vitnið hafa beðið Sigurð Karl, föður ákærða og einhvern annan, sem þarna þar, að gera eitthvað til hjálpar K. Einhver mannanna svaraði, að vitnið minnir faðir ákærða, og sagði, að ekkert væri hægt að gera, þar sem ákjærði væri svo sterkur, að hann gæti drepið þau öll. Á meðan vitnið beið við dyrnar, reyndi það að tala við K, en ákærði væri svo sterkur, að hann gæti drepið þau öll. Á meðan vitnið beið við dyrnar, reyndi það að tala við K, en ákærði öskraði á hana og sagði henni að halda kjafti. Eftir nokkurn tíma opnaði ákærði hurðina, og fór vitnið inn í herbergið. Réðst ákærði þar að því og sló það utanundir. Fékk vitnið högg á höfuðið og lenti á vegg. Þegar vitnið kom inn í herbergið, var K grátandi og mjög niðurbrotin. Sagði hún, að sér hefði verið nauðgað. Buxur hennar voru rifnar. Ákærði var svo reiður, að hann öskraði upp og hafði á orði að koma þeim K í gröfina. Kvaðst vitnið hafa farið fljótlega út og K komið á eftir henni. Sigurður Karl hljóp á eftir henni og stöðvaði hana. Sagðist hann skyldu hringja fyrir hana á leigubifreið. Vintið fór í nálægt hún og hringdi í lögreglu.
Vitnið sá í dóminum buxur K, sem fylgja málinu, og staðfesti það, að þær hefðu verið þannig, er það kom inn í herbergið, en buxurnar hefðu verið heilar, er K fór inn í húsið.
Vitnið Sigurður Karl Pálsson, sjómaður, Kleppsvegi 132, fæddur 16. ágúst 1950, skýrði svo frá fyrir dómi, að það hefði verið mjeð ákærða Tryggva Rúnari í leigubifreið að kvöldi fyrrnefnds dags. Voru þeir báðir undir áhrifum áfengis og höfðu áfengi meðferðis. Hittu þeir þær K og A við biðskýlið við Bústaðaveg. Ákærði Tryggvi Rúnar hefði þekkt þær báðar eitthvað, en vitnið kannaðist við A. Þeir voru að fara austur að Minni-Borg í Grímsnesi á dansleik og spurðu stúlkurnar, hvort þær vildu ekki koma með þeim. Þáðu þær boðið, og var ekið þangað. Voru þau þar á dansleik um nóttina. Taldi vitnið sennilegt, að annar
Bls. 300
hvor þeirra hefði greitt aðgangseyri fyrir stúlkurnar, en mundi ekki, hvor þeirra gerði það. Vitnið kvaðst ekkert geta staðhæft um, hvort ákærði hefði dansað við aðra stúlkuna, þ. e. K. Það rámaði eitthvað í það, en var alls ekki öruggt. Vitnið kvað þá báða hafa lent í áflogum á dansleiknum. Stúlkurnar fóru með ákærða og vitninu í leigubifreiðinni til Reykjavíkur, en eigi minntist vitnið þess, að þær hefðu nokkurn tíma haft orð á því, að þeim yrði ekið heim, þegar þau komu aftur þangað. vitnið rámaði ðí það, að þau ákærði og K hefðu setið saman í framsæti á leiðinnni til Reykjavíkur, en mundi þetta ekki fyrir víst og sagði í því sambandi, að það hefði verið blindfullt. Vitnið sagði öruggt, að þau ákærði og K hefðu kysst í bifreiðinni.
Þegar til Reykjavíkur kom, var ekið heim til ákærða að Selásbletti 14. Vitnið og ákærði fóru fyrst inn í húsið og biðu stúlkurnar í bifreiðinni á meðan. Vitnið kvað ákærða hafa sent sig út að bifreiðinni til að biðja K eða jafnvel báðar stúlkurnar að koma inn til að tala við sig. Nefndi hann ekkert, í hvaða skyni þetta væri, og kvaðst vitnið hafa verið algerlega grunlaust um, hvað hann hefði í hyggju. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að hafa sagt við K, að móðir ákærða væri dáin og hann langaði að tala við hana af þeim sökum, en kvað þetta þó geta verið. Vitnið kvaðst hafa talað við Leif, föður ákærða, en móður hans sá það hvergi. Vitnið kvað K hafa farið inn í herbergið til ákærða, en það hefði farið inn í eldhús og verið að ræða við Leif og annan mann. Mundi vitnið ekki, hvort það fór út að bifreiðinni og sagði bifreiðarstjóranum að fara á brott með A, en vildi ekki mótmæla því.
Vitnið minntist þess ekki að hafa heyrt neitt til ákærða og K, en það mundi eftir því, að A var komin inn og var að spyrja um K. Sagði vitnið A, hvar K væri, og fóru þau að banka á hurð herbergisins. Einhver svaraði inni í herberginu, en eigi man vitnið, hver það var eða hvað hann sagði. Opnaði ákærði dyrnar eftir nokkra stund. Ekki mundi vitnið, hvort ákærði var æstur, og ekki heldur, hvort hann sló A utanundir. K var mjög miður sín og hrædd við vitnið, er það hugðist aðstoða hana við að sauma saman buxur hennar, er höfðu rifnað. Mundi vitnið, að K var í brúnum buxum og að þær voru rifnar eða með saumsprettu upp í klof. Vitnið sá umræddar buxur í dóminum og taldi, að þær væru meira rifnar nú en þá. Vitnið kvaðst ekki muna, hvort K hefði verið grenjandi, eins og það orðaði það, en eitthvert rugl hefði verið á henni. Vitnið kvað K hafa verið að byrja að gera
Bls 301
við buxurnar, þegar lögreglan kom. Buxurnar hennar hefðu verið heilar, er hún fór inn í herbergið til ákærða. Vitnið varð ekki vart við, að þær K og A neyttu áfengis að Selásbletti 14.
Vitnið Sævar Erlendsson leigubifreiðarstjóri, Kúrlandi 29, fæddur 1. apríl 1947, skýrði svo frá fyrir dómi, að ákærði Tryggvi Rúnar Leifsson hefði hringt til sín að kvöldi 26. október 1974 og beðið sig að aka sér að Minni-Borg í Grímsnesi á dansleik. Vitnið sótti ákærða heim til hans að Selásbletti 14, og kom hann þar í bifreiðina ásamt Sigurði Karli Pálssyni. Ekið var að biðskýlinu við Bústaðaveg, og komu þar í bifreiðina tvær stúlkur, sem vitnið kannaðist ekki við. Vitnið heyrði ekki samtal ákærða og Sigurðar Karls við stúlkurnar, áður en þær komu í bifreiðina. Ekið var síðan að Minni-Borg í Grímsnesi. Sat ákærði fram í hjá vitninu, en stúlkurnar og Sigurður Karl aftur í. Stúlkurnar voru með áfengi meðferðis og voru eitthvað að dreypa á því. Ákærði og Sigurður Karl neyttu og áfengis. Vitnið beið í bifreiðinni, á meðan á dansleiknum að Minni-Borg stóð, og vissi ekki, hvað þar fór fram. Þegar dansleiknum var lokið, var haldið aftur til Reykjavíkur. Sat ákærði og önnur stúlkan, sem vitnið veit, að heitir K, í framsætinu. Fannst vitninu K og ákærði vera saman, og fannst því, að K líkaði það vel, er ákærði lét vel að henni, en eigi getur vitnið staðhæft, að ákærði og K hafi verið að kyssast. Vitnið nam staðar á Sandskeiði á leiðinni til borgarinnar. Fóru ákærði og Sigurður Karl þar út úr bifreiðinni. Settist þá K í aftursætið við hliðina á hinni stúlkunni. Þegar ákærði kom aftur, bað hann K að setjast aftur í framsætið, og gerði hún það orðalaust. Ekið var heim til ákærða að Selásbletti 14. Fóru ákærði og Sigurður Karl þar inn, en stúlkurnar biðu í bifreiðinni á meðan. Eftir nokkra stund kom Sigurður Karl út og bað K um að koma inn og tala við ákærða. Gerði hún það fúslega og fór á brott úr bifreiðinni. Eftir um tíu mínútur kom Sigurður Karl aftur og bað vitnið að aka stúlkunni, sem var í bifreiðinni, heim og kom síðan aftur. Á það vildi stúlkan ekki fallast og sagðist ekki fara, nema hin stúlkan kæmi með. Eftir stutta stund kom ákærði út og greiddi fyrir aksturinn. Á meðan kom Sigurður Karl til þeirra, en ákærði bað hann að fara inn til stúlknanna, og gerði hann það. Á meðan kom Sigurður Karl til þeirra, en ákærði bað hann að fara inn til stúlknanna, og gerði hann það. Þegar ákærði hafði greitt aksturinn, ók vitnið á brott. Vitnið kvaðst engin hróp hafa heyrt innan úr húsinu að Selásbletti 14, og ekki varð það
Bls. 302
vart við nein átök þar. Það kvað ákærða og Sigurð Karl hafa verið eitthvað með áfengisáhrifum, en ekki mjög mikið.
Vitnið Logi Ásgeirsson iðnverkamaður, Urðarbraut 2, Smálöndum, Reykjavík, fæddur 27. september 1947, skýrði svo frá fyrir dómi, að það hefði komið að Selásbletti 14 laust eftir hádegi laugardaginn 26. október 1974, en vitnið kannast við húsráðendur, sem eru foreldrar ákærða Tryggva Rúnars. Var vitnið eitthvað undir áhrfum áfengis og hafði áfengi meðferðis. Var vitnið að neyta áfengis ásamt framangreindu fólki fram eftir deginum og fram á nótt. Var verið við drykkju í eldhúsi. Um nóttina kom ákærði heim, en hvenær það var, man vitnið ekki. Vitnið kvaðst sjálft hafa verið mikið undir áhrifum áfengis og ekki treysta sér til að segja um, hvort svo var um ákærða. Með honum var Sigurður Karl Pálsson. Ákærði kom fyrst inn í eldhúsið og dvaldist þar smástund. Vitnið kveður þau ekki hafa viljað ræða við ákærða, þar sem hann sé stundum slæmur, þegar hann er undir áhrifum áfengis. Ákærði fór síðan burt og inn í annað herbergi í húsinu. Kveðst vitnið ekki hafa tekið eftir því, hvað varð um Sigurð Karl. Vitnið kvað húsaskipan að Selásbletti 14 vera þannig, að húsið sé ein hæð og kjallari, og er ekki búið í kjallaranum. þeegar inn í húsið kemur, er fyrst gangur. Til vinstri á ganginum er eldhús og svefnherbergi, en stofa til hægri. Vitnið kvað sig ráma í, að stúlka, sem það ekki þekkir, kom inn í herbergið til ákærða. Kvaðst vitnið ekki minnast þess að hafa heyrt hávaða úr herberginu. Var það ekki, fyrr en önnur stúlka var komin inn í húsið, sem það heyrði hávaða. Vitnið veit ekkert, hvað ákærða og stúlkunni fór á milli, og það sá ekki stúlkuna, sem fyrst fór inntil ákærða, er hún fór þaðan út, enda var eldhúshurðin lokuð. Vitnið mundi ekki til þess, að Leifur, faðir ákærða, minntist neitt á þetta. Vitnið hafði sofnað og vaknaði, þegar lögreglan kom á vettvang.
Svo sem fyrr er að vikið, var stúlkan K færð til skoðunar hjá Andrési Ásmundssyni lækni að morgni hins 27. október 1974, og samkvæmt vottorði læknisins, sem liggur frammi í málinu, fór sú skoðun fram kl. 0530. Segir svo m. a. í vottorðinu:
"Við skoðun virtists K algjörlega ódrukkinn. Hún kvaðst vera í sömu fötum og við hina meintu nauðgun. Vantaði tölur til að halda samnan buxnastrfeng. Var rifið niður úr buxnaklaufinni og saumspretta á hægri buxnaskálminni innanfótar og náði saumsprettan niður fyrr hné. Nærbuxur voru hnýttar saman í hægri hlið, höfðu verið rifnar sundur um buxnastrenginn. Á hálsi hafði
Bls. 303
hún, hægra megin 3 ferska marbletti, hvern fyrir ofan annan, þeir efstu 1 cm á lengd, mjög mjóir, en sá neðsti 5 cm langur og 1 cm breiður. Aðrir áverkar sáust ekki, ekki heldur á úlnliðnum. Við skoðun á kynfærum sást enginn áverki, ekkert blóð og ekki fundust sáðlar í sýni frá fæðingarvegi við smásjárskoðun. Auðvelt var að þreyfa fæðingarveginn með 2 fingrum. Meyjarhaftið var óslitið, en mjög eftirgefanlegt.
Aðspurð kvaðst hún hafa haft samfarir áður. Síðustu tíðir kvað hún hafa byrjað 20/10. Hún kvaðst ekki nota getnaðarvarnar pillur.
Skoðun bendir til líkamsárásar, en ekki er hægt að fullyrða um, hvort fullkomin nauðgun haf farið fram eða ekki".
Andrés Ásmundsson læknir, sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp, Sjafnargötu 14, hefur komið fyrir dóminn og staðfest framangreint vottorð sitt. Kvað vitnið K hafa tjáð því, að sér hefði verið nauðgað, svo sem lýst er í vottorði þess. Þá hafði vitnið bókað hjá sér, að K hefði sagt því, að ákærði Tryggvi Rúnar hefði tekið sig kverkataki og hún ekki þorað að æpa, er hann hafði samfarir við hana, af ótta við, að hann mundi kyrkja sig. Vitnið kvað enga áverka hafa sést á kynfærum K, svo sem í vottorði þess greinir. Það tók sýni til rannsóknar á því, hvort sáðlar væru í fæðingarvegi. Rannsakaði vitnið sýnið í smásjá, en fann enga. Ekki sé þó unnt að útiloka þann möguleika, að óhreyfanlegir sáðlar hafi verið í fæðingarvegi K og hefðu fundist við sérfærðilega skoðun. Meyjarhaft K var órofið, en vel eftirgefanlegt. Samfarir við hana hefðu geta farið fram, þótt meyjarhaftið hefði ekki rofnað. Sagði vitnið, að af skoðun á fæðingarvegi K yrði ekkert fullyrt um það, hvort henni hefði verið nauðgað, en marblettir á hálsi og rifnar buxur, bæði ytri og innri, bentu til að hún hefði orðið fyrir ofbeldisárás í kynferðislegum tilgangi. Þá kvað vitnið K hafa sagt sér, að ákærði Tryggvi Rúnar hefði slegið A vinkonu sína utanundir, er hún kom á vettvang, rétt eftir að nauðgun hafði átt sér stað.
Vegna rannsóknar máls þessa var ákærði Tryggvi Rúnar úrskurðaður í gæsluvarðhald hinn 27. október 1974, og var honum sleppt úr varðhaldinu hinn 6. nóvember 1974.
Samprófun fyrir dómi milli ákærða og vitnanna K og A leiddi ekki til frekara samræmis í framburðum þeirra.
Niðurstöður.
Ákærða og K ber saman um, að ákærði hafi haft við hana sam-
Bls. 304
farir. Telur ákærði, að sér hafi orðið sáðfall, en K er það eigi ljóst.
Af framburðum vitnanna A, Sigurðar Karls Pálssonar og lögreglumannanna Jónatans Hall og Jóhannesar Björgvinssonar má telja fyllilega í ljós leitt, að K hafi verið mjög miður sín og óttaslegin, er að henni var komið, eftir að herbergi það hafði verið opnað, er hún var í hjá ákærða. Þá er sannað með framburðum lögreglumanna og vottorði Andrésar Ásmundssonar læknis, að hún bar ávera á hálsi, og styður það frásögn hennar um, að hún hafi verið tekin kverkataki. Enn verður talið sannað, að buxur hennar, ytri og innri, hafi verið rifnar, þegar að var komið, og styður það frásögn hennar um, að ákærði hafi rifið þær utan af henni.
Samkvæmt framansögðu telst sannað þrátt fyrir neitun ákærða, að hann hafi þröngvað K til holdlegs samræðis við sig með ofbeldi, þannig að varði við 1. mgr. 194. gr. almennra hengingarlaga.
Í þinghaldi hinn 20. janúar síðastliðinn gerði K þá kröfu á hendur ákærða Tryggva Rúnari, að hann yrði dæmdur til að greiða sér samtals krónur 255.000 í bætur, sem sundurliðist þannig, að kr. 5.000 séu fyrir fataskemmdir og kr. 250.000 í miskabætur. Þá krafðist hún vaxta af þessum fjárhæðum, þ. e. 9% vaxta frá 26 október 1974 til 23. apríl 1976, en 13% vaxta frá þeim tíma til greiðsludags. Einnig hefur lögfræðingur hennar, Sigríður Ásgeirsdóttir, krafist málskostnaðar að mati dómsins í bréfi, dags. 4. mars sl.
Ákærði hefur mótmælt kröfum þessum.
Svo sem áður greinir, kvaðst K ekki vera söm og áður eftir þennan atburð og hafi hún orðið fyrir sálrænu áfalli, sem hún hafi ekki jafnað sig af. Kveðst hún hafa fengið martröð í tvö skipti, nú síðast fyrir stuttu, vegna þessa atburðar.
Vitnið A, sem er kunningjakona K, hefur sagt fyrir dómi, að K sé mjög breytt eftir framangreindan atburð, enda hafi hún orðið fyrir miklu áfalli.
Af hálfu K hafa eigi verið lagðir fram reikningar vegna fataskemmda. Hins vegar hafa hin rifnu föt fylgt málinu, og myndir af þeim liggja frammi. Að mati dómsins verður krafa vegna fataskemmda ekki talin ósanngjörn og verður því tekin til greina að fullu. Varðandi miskabótakröfu, kr. 250.000, hefur ekki verið lagt fram vottorð um andlegt ástand K. Hins vegar verður að telja
Bls. 305
augljóst, að verknaður eins og sá, sem ákærði hefur verið fundinn sekur um, hlýtur að hafa í för með sér töluverðar andlegar þjáningar og röskun fyrir stúlku, sem fyrir slíku verður. Er hér einkum á það að líta, að K var aðeins 18 ára að aldrei, þegar umræddur atburður átti sér stað. Með ofanritað í huga þykir dóminum krafa K um miskabætur ekki ósanngjörn, og verður hún því tekin til greina að fullu. Þá ber a dæma ákærða til að greiða vexti af ofangreindum fjárhæðum, þ. e. 9% ársvexti frá 26. október 1974 til 23. apríl 1976, en 13% ársvexti frá þeim degi til greiðsludags. Hins vegar ber að vísa frá dómi kröfu um greiðslu málskostnaðar, sbr. 145. gr. laga nr. 74/1974.
3. Samkvæmt eigin játningu ákærða Tryggva Rúnars fyrir dómi braust hann inn í verslunina Nesco h/f á Laugavegi hinn 6. desember 1972, en með honum var Óskar Guðmundsson. Braut ákærði rúðu í hurð og fór inn í verslunina og tók þaðan 3 segulbandstæki. Tækin seldi ákærði fyrir kr. 10.000.
4. Ákærði hefur játað fyrir dómi að hafa hinn 3. apríl 1974 stolið peningakassa úr frímerkjaverslun að Óðinsgötu 3, en þangað hafði hann farið inn að degi til ásamt Einari Sverri Einarssyni, að því er hann minnir. Stóð kassin á borði í versluninni, og reyndust vera í honum peningar, um það bil kr. 1.000, sem notaðir voru til að kaupa á brennivínsflösku, sem þeir Einar Sverrir drukku úr.
5. Af hálfu ákæruvalds hefur verið fallið frá ákæru í málinu, að því er varðar innbrot ákærða í leirbrennslu Glits h/f að Höfðabakka 9 í Reykjavík hinn 17. september 1974, enda hafði dómur áður gengið um sakarefni þetta.
6. Að lokum hefur ákærði viðurkennt að hafa stolið veski af Hjálmari Baldurssyni, Þjórsárgötu 7 hér í borg, í veitingahúsinu Röðli hinn 7. nóvember 1974, en í veskinu munu hafa verið kr. 2.200.
Telja verður fyllilega sannað með eigin játningum ákærða og öðrum gögnum málsins, að hann hafi framið verknaði þá, er hér að framan í 3., 4., og 6. tl. hafa verið raktir, og varða þeir við 244. gr. almennra hegningarlaga.
III.
1. Þriðjudaginn 26. mars 1974 kærði Elín Þórhallsdóttir, eigandi sælgætisverslunarinnar að Vesturgötu 53, þjófnað í versluninni á kr. 31.700 í peningum aðfaranótt mánudagsins 25. mars.
Ákærði Sævar Marinó Ciesielski hefur skýrt svo frá fyrir
Bls. 306
dómi, að hann hafi að kvöldi 24. mars 1974, um kl. 2400, farið að framangreindri sælgætisverslun til að fá að hringja. Dyr verslunarinnar voru ólæstar, og fór hann þar inn. Skall þá hurðin í lás, þannig að hann gat ekki opnað, og varð honum ljósts, að enginn var í versluninni. Þegar hann var að leita að annarri útgönguleið, rakst hann á umslag í hillu bak við afgreiðsluborð. Tók hann umslagið og fór síðan út um afgreiðslulúgu með því að ýta út hlerum, sem voru fyrir henni. Í umslaginu reyndust vera peningar og ávísanir. Ákærði sló eign sinni á peningana, sem voru að fjárhæð um það bil kr. 32.000, og eyddi þeim. Ávísanirnar voru að fjárhæð nokkuð yfir 30.000 kr., og kveðst ákærði hafa eyðilagt þær.
2. Vorið 1974 kom ákærði Sævar Marinó nokkrum sinnum í skála Eimskipafélags Íslands við Sundahöfn að kvöldi til, þar sem hann þekktti tvo vaktmenn. Varð ákærði þess áskynja, að auðvelt var að ná í áfengi, sem þarna var geymt, þar sem aðeins þurfti að fara yfir girðingu eða net til að komast að því. Kvöld eitt í maí, er hann var staddur þarna ölvaður, fór hann yfir girðinguna og tók 6 koníakspela, 2 vodkaflöskur og 3 whiskyflöskur, sem hann faldi síðan undir segli fyrir utan skálann. Fékk hann Albert Klahn Skaftason til að koma með sér daginn eftir og sækja áfengið. Ákærði neytti sjálfur einhvers af áfenginu. Einnig gaf hann Albert Klahn af því og seldi eitthvað, að því er hann minnti. Einhvern næstu daga, líklega á laugardagskvöldi, fór ákærði aftur í skálann. Hitti ákærði fyrst vaktmann, og um leið og hann kvaddi hann og fór út, gætti hann þess, að lásinn á hurðini væri opinn, svo að hann kæmist inn aftur. Fór hann síðan aftur inn og tók 60 þriggja pela flöskur af vodka, sem hann setti í 2 ferðatöskur, sem hann tók einnig þarna inni. Fór ákærði með þetta heim til sín í Álfheima og seldi flöskurnar daginn eftir fyrir 60.000 krónur. Næsta kvöld fór ákærði enn í skálann á sama hátt og fyrr og tók nú einn kassa með 12 flöskum af vodka. Seldi hann þær fyrir kr. 12.000.
3. Einhvern tíma um sumarið 1974 kom ákærði Sævar Marinó í Farfuglaheimilið við Baldursgötu hér í borg og ætlaði að hitta kunningja, sem hann hafði verið að drekka með skömmu áður. Enginn var í húsinu. Á leiðinni út sá ákærði umslag með peningum, sem hann tók og reyndust vera í því kr. 30.000. Ákærði eyddi fé þessu. Einnig tók hann þverflautu, sem hann lét Albert Klahn Skaftason fá. Albert Klahn mun síðar hafa skilað flautunni til lögreglu.
Bls. 307
4. Ákærði Sævar Marinó kveðst hafa verið á dansleik í Tjarnarbúð ásamt Erlu Bolladóttur og Kristjáni Viðari Viðarssyni einhvern tíma skömmu áður en hann og ákærða Erla sviku út fé hjá Pósti og síma öðru sinni í október 1974. Hafi hann tekið þar kvenveski. Ákærði kveðst hafa tekið nafn- og ökuskírteini úr veksinu, en fleygt því síðan rétt hjá veitingahúsinu. Hann kveðst lítið muna eftir þessum sökum ölvunar. Telur hann, að peningar hafi ekki verið í veskinu. Nafnskíreinið notaði ákærði, er hann og Erla sviku út fé hjá Pósti og síma.
Eigandi veskisins kveðst hafa saknað þess eftir dansleik í Silfurtunglinu 6. október 1974.
Sannað er með játningum ákærða Sævars Marinós fyrir dómi og öðrum gögnum málsins, að hann hafi gerst sekur um framangreinda þjófnaði í 1.-4. tl. Þjófnaðurinn, er í 4. tl. greinir, er studdur framburði ákærðu Erlu, og ákærði notaði nafnskírteini, er eigandinn kveður hafa verið í veskinu. Þjófnaður þessi fór fram í veitingahúsi, en samkvæmt framansögðu er eigi hægt að slá því föstu, um hvaða veitingahús var að ræða.
Hefur ákærði með atferli þessu orðið brotlegur gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/19401. Þá telst ákærði með atferli því, er í 2. tl. greinir, einnig hafa orðið brotlegur gegn 18. gr., sbr. 39. gr. áfengislaga nr. 82/1969.
Elín Þórhallsdóttir, Hlíðarhvammi 4, Kópavogi, eigandi sælgætisverslunarinnar að Vesturgötu 53, hefur gert bótakröfu á hendur ákærða Sævari Marinó að fjárhæð kr. 31.700.
Þá hefur verið gerð krafa af hálfu Farfugladeildar Reykjavíkur á hendur ákærða Sævari Marinó að fjárhæð kr. 30.000.
Ákærði hefur ekki mótmælt kröfum þessum, og verða þær teknar til greina.
IV.
1. Laugardaginn 6. mars 1974 var ákærði Sævar Marinó staddur í afgreiðslu Flugfélags Íslands og var ölvaður. Hann hafði heyrt, að oft væri auðvelt að ná þar í áfengispakka, sem lægju í reiðileysi. Rétt fyri utan afgreiðsluna nálægt þeim stað, sem farþegar ganga út í flugvélar, sá hann hvítan póstpoka, og taldi hann af lögun pokans, að í honum væru hljómplötur. Tók hann pokann undir hendina og hafði hann heim með sér í Álfheima, þar sem hann opnaði hann. Í pokanum voru ýmis konar bréf og umslög. Í einu umslagi var eitthvað af erlendum gjaldeyri, sem ákærði tók. Einnig tók hann tvö ávísanahefti á Búnaðarbankann. Notuðu hann og ákærða Erla Bolladóttir síðan eyðublöð úr þeim til að falsa ávísanir á. Að öðru leyti hagnýtti ákærði sér ekki innihald pokans. Ákærði þorði ekki að fara með pokann aftur út á flugvöll og skildi hann eftir í geymslu fjölbýlishúss nálægt heimili sínu, þar sem hann taldi, að hann mundi finnast.
Ákærða, Erla Bolladóttir, hefur skýrt frá því, að í mars 1974 hafi ákærði Sævar Marinó komið með póstpoka á heimili þeirra að Álfheimum 40, sem hann sagðist hafa tekið við afgreiðslu Flugfélags Íslands. Úr poka þessum hafi þau tekið nokkra tugi færeyskra króna, sem ákærði skipti hjá Pósti og síma, þar sem hún starfaði. Einnig hafi þau tekið eitt ávísanahefti, sem Björgúlfur Stefánsson átti, og hafi það verið á banka á Seyðisfirði. Að öðru leyti hafi þau ekki hagnýtt sér innihald pokans.
Atferli ákærðu Sævars Marinós og Erlu er nú hefur verið rakið, er sannað með játningum þeirra og öðrum gögnum málsins. Hefur ákærði Sævar Marinó með því orðið brotlegur gegn 244. gr. almnnra hegningarlaga nr. 19/1940, en ákærða Erla við 1. mgr. 254. gr., sbr. 244. gr. sömu laga.
Af hálfu Pósts og síma hefur verið gerð krafa á Hendur ákærðu um greiðslu á kr. 2.700, sem er skaði stofnunarinnar í peningum vegna umrædds þjófnaðar. Ákærðu hafa ekki mótmælt kröfu þessari. Verður hún tekin til greina, og ber að dæma ákærðu til að greiða hana óskipt.
2. Í aprílmánuði 1974 falsaði ákærða Erla Bolladóttir tvær ávísanir á eyðublöð úr ávísanahefti Jóns Sólbergs Nóasonar við Útvegsbanka Íslands, en ávísanahefti þetta hafði ákærði Sævar Marinó komist yfir á veitingahúsinu Röðli. Annars vegar var um að ræða ávísun nr. A 449870, aðp fjárhæð kr. 2.000, á sparisjóðsreikning n.r 2218, út gefin til handhafa 25. apríl 1974, og var nafn útgefanda hið sama svo og framseljanda. Ávísun þessa notuðu ákærðu Erla og Sævar Marinó og greiðslu happdrættismiða hjá Krabbameinsfélagi Reykjavíkur og til matarkaupa.
Með atferli því, sem lýst er undir þessum lið og ákærði hafa játað fyrir dómi, hafa þau gerst brotleg við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.
Bls. 309
3. Í júní 1974 notuðu ákærðu Erla og Sævar Marinó í viðskiptum þrjár ávísanir, sem ákærða Erla falsaði á eyðublöð úr ávísanahefti Björgólfs Stefánssonar við Útvegsbanka Íslands, Seyðisfirði. Í fyrsta lagi var hér um að ræða ávísun nr. D 11776, að fjárhæð kr. 2.000, á sparisjóðsreikning nr. 5178, útgefna til handhafa 26. júní 1974 með nafni Björgólfs Stefánssonar og framseld með sama nafni. Ávísunina notaði ákærði Sævar Marinó til greiðslu í söluturni við Hlemmtorg. Í öðru lagi ávísun nr. D 11777, að fjárhæð kr. 5.000, á sama sparisjóðsreikning, útgefna til handhafa 28. júní 1974 með sama útgefandanafni. Ávísunina framseldi ákærða Erla með nafninu Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir og notaði til greiðslu í versluninni Útilíf í Glæsibæ, þar sem hún keypti flugulínu fyrir ákærða Sævar Marinó. Að lokum var um að ræða ávísun D 11778, að fjárhæð kr. 5.000, á sama sparisjóðsreikning, útgefna til Silla og Valda hinn 28. júní 1974, sem sama útgefandanafni. Ávísun þessa notaði ákærða Erla með vitund ákærða Sævars Marinós í versluninni Glæsibæ við kaup á matvælum, en að sögn ákærðu Erlu fékk ákærði Sævar Marinó afgang peninganna. Ávísunin var framseld með nafninu Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir, Austurbrún 4, Reykjavík.
Atferli ákærðu, sem lýst hefur verið undir þessum lið og sannað er með játningu þeirra fyrir dómi, varðar við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.
Af hálfu Silla og Valda hefur verið gerð krafa á hendur ákærðu um greiðslu á kr. 5.000 vegna fyrrgreindrar ávísunar, D 11778. Ákærðu hafa ekki mótmælt kröfu þessari, og verður hún tekin til greina.
4. Í bréfi Pósts og símamálastjórnar, dags. 5. nóvember 1974, til sakadóms Reykjavíkur, greinir frá því, að hinn 26. ágúst það ár hafi verið gefinn út 475.000 kr. tékki á póstútibúi R 4 að Langholtsvegi 82. Tékki þessi hafi verið greiðsla vegna fimm símapóstávísana, seem samtals hljóðuðu upp á greiðslu á nefndri upphæð frá Hraðfrystihúsi Grindavíkur til Unnar Jökulsdóttur, Sólheimum 25. Fjögur póstávísanaskeytin hafi verið að upphæð kr. 100.000 og eitt kr. 75.000, en samkvæmt reglum er hámarksupphæð slíkra ávísana kr. 100.000. Sem nafn starsstúlku póststöðvarinnar í Grindavík var á öllum skeytunum notað nafnið Steinunn Stefánsdóttir. Við afgreiðslu símapóstávísananna á póstútibúinu á Langholtsvegi hafði viðtakandi undirritað með nafni Unnar Jökulsdóttur á öll skeytin og á eitt þeirra einnig nafnnúmerið 8247-9995. Einnig hafði greiðslutékkinn, sem útgefinn
Bls. 310
var af póstútibúinu á reikning þess í útibúi Landsbankans, verið framseldur með sama nafni og nafnnúmeri.
Þá segir í bréfinu, að við endurskoðun hafi komið í ljós, að ávísanir þessar hafi ekki verið innborgaðar á póststöðinni í Grindavík og við nánari athugun skeytanna hafi hvorki ávísananúmer né skeytanúmer reynst falla inn í númeraraðir sendingardagsins 23. ágúst í Grindavík. Skeytanúmer 23. ágúst í Grindavík voru frá 123 til og með 130, en númer umræddra póstávísana voru frá 1586 til og með 1592. Að öðru leyti hafi verið það vel frá skeytunum gengið, að þau hafi ekki vakið tortryggni.
Í bréfinu er tekið fram, að engin starfsstúlka sé á stöðinni í Grindavík að nafni Steinunn Stefánsdóttir. Nafnnúmerið 8247-9995 muni ekki vera til og megi því ætla að nafn Unnar Jökulsdóttur sé falsað, en ein stúlka muni vera til á landinu með þessu nafni, en búi þó ekki að Sólheimum 25. Á ritsímastöðinni í Reykjavík séu skeytin skráð móttekin í síma 23. ágúst 1974 og færð þar inn í bók. Síðan hafa þau verið send á póststofuna í Pósthússtræti og þaðan í póstútibúið við Langholtsveg. Þar sem skeytin eru árituð "post restante", sé gert ráð fyrir, að þeirra sé vitjað á pósthús. Hinn 26. ágúst, sem var mánudagur, hafi skeytin svo, eins og áður greinir, verið greidd út.
Rannsókn hófst í máli þessu hjá rannsóknarlögreglunni í Reykjavík hinn 8. nóvember 1974. Var m. a. í upphafi rætt við starfsstúlkur á símstöðinni í Grindavík, sem verið höfðu starfandi þar á umræddum tíma, svo og við starfsfólk Langholtsútibús Pósts og síma. Við þessa rannsókn kom ekkert fram, sem varpað gæti ljósi á, hver hefði verið hér að verki.
Einnig var yfirheyrð vegna máls þessa stúlka að nafni Unnur Þóra Jökulsdóttir, Lindarbraut 2, Seltjarnarnesi. Kom fram, að hún hafði unnið hjá Hraðfrystihúsi Grindavíkur frá 4.-10 maí 1973. Neitaði hún með öllu að vita nokkuð um mál þetta, en fram kom hjá henni, að fyrir um það bil tveimur árum hefði hún glatað nafnskírteini sínu.
Hinn 29. nóvember 1974 var tilkynnt til rannsóknarlögreglunnar frá Pósti og síma, að nýtt mál sams konar hefði komið upp. Við endurskoðun þennan dag hefðu komið fram fimm símskeyti, send frá Grindavík hinn 18. október 1974, kl. 1745, en skeytin eru öll sögð móttekin í Grindavík á sama tíma. Hér var um að ræða símskeyti, póstávísanir nr. 1907-1911, sem sendast áttu á pósthús R 6, sem er á Umferðarmiðstöðinni hér í borg. Þau
Bls. 311
hljóðuðu öll á kr. 100.000, nema eitt, sem hljóðaði á kr. 75.000. Sendandi samkvæmt skeytunum var Jón Guðmundsson framkvæmdastjóri, en móttakandi átti að vera Guðrún Sigríður Jónsdóttir með nafnnúmeri 3268-2138. Undir skeytin skrifar Steinunn Stefánsdóttir. Skeyti þessi höfðu verið framsend til pósthússins á Selfossi, og þar var öll fjárhæðin greidd út hinn 22. október, og fyrir móttöku hefu kvittað Guðrún S. Jónsdóttir. við athugun endurskoðunar kom í ljós, að umrædd upphæð hafði aldrei verið gridd inn í Grindavík.
Af hálfu rannsóknarlögreglu var mál þetta þegar tekið til rannsóknar. Var m. a. rætt við starfsfólk pósthússins á Selfossi. Tvær starfsstúlkur þar mundu eftir stúlku, sem kom að sækja umrædda peninga, og lýstu þær henni svo, að hún hefði verið um það bil 163 cm á hæð, grönn og með frekar skollitað hár. Hefði þetta verið hugguleg stúlka, 18-20 ára, og minnti þær, að hún hefði verið í rauðri ullarúlpu með hettu. Gefinn var út tékki vegna upphæðar þessarar í pósthúsinu á Landsbanka Íslands, útibúið á Selfossi, og var hann stílaður á nafn Guðrúnar Sigríðar Jónsdóttur. Gjaldkeri þar mundi eftir að hafa greitt umræddan tékka stúlku um tvítugt, seem var lítil og nett, með lítið andlit, í meðallagi á hæð, frekar grönn og skolhærð. Hefði hún verið ein og hann ekki þekkt hana.
Þá var rætt við starfsfólk í pósthúsinu á Umferðarmiðstöðinni í Reykjavík. Mundi það eftir stúlku, sem hefði komið að spyrja um umrædd símskeyti, en þau voru þá ekki komin. Hefði hún sagt, að hún væri að fara austur á Selfoss rétt á eftir, og var því ákveðið að hringja á aðalpósthúsið og biðja um, að ávísanirnar yrðu sendar austur í pósthúsið á Selfossi. Stúlku þessari var lýst svo, að hún væri rekar lítil, grönn, föl í andliti, ljósskolhærð og í kringum 20 ára að aldri.
Svo sem fyrr greinir, var nafn Jóns Guðmundssonar, framkvæmdastjóra í Grindavík, notað sem nafn greiðanda á framangreindri fjárhæð. Við athugun hjá Jóni, sem var framkvæmdastjóri hjá Frystihúsi Grindavíkur, kom í ljós, að Guðrún S. Jónsdóttir hafði ekki, svo að séð yrði, unnið hjá fyrirtæki hans. Stúlka með þessu nafni og tilgreindu nafnnúmeri á skeytunum bjó að Melabraut 3, Seltjarnarnesi, en í ljós kom, að hún var í skóla á Ísafirði. Hafði hún farið þangað hinn 6. október 1974. Hinn 7. desember var tekin af henni skýrsla á Ísafirði. Kom þar fram, að hún hafði farið hinn 5. október að skemmta sér í Silfurtunglinu í Reykjavík. Eftir það hafði hún orðið vör við, að hún hafði
Bls 312
glatað veski, sem hún var með, en í því var m. a. nafnskírteini hennar. Guðrún neitaði með öllu aðild sinni að máli þessu.
Eftir þetta gerðist ekkert í málinu fyrr en hinn 8. desember 1975, að Unnur Þóra Jökulsdóttir, sem fyrr var nefnd, mætti hjá rannsóknarlögreglunni og skýrði frá því, að henni hefði borist til eyrna, að ákærði Sævar Marinó Ciesielski hefði staðið að umræddum fjársvikum. Hafði hún það eftir Guðbjörgu Thoroddsen, Vesturbrún 4 hér í borg, að ákærði Sævar Marinó hefði sagt bróður Guðbjargar, Jóni Sigurði Thoroddsen, að hann hefði staðið að þessum svikum. Staðfesti Guðbjörg þetta við yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglunni sama dag, en við yfirheyrslu hinn 9. desember 1975 skýrði ákærði Kristján Viðar Viðarsson frá því, að ákærði Sævar Marinó hefði komið heim til hans eitt sinn síðari hluta ágúsmánaðar 1974 og veirð með þykkan bunka af 5.000 kr. seðlum, sem hann talaði um, að hann ætlaði að nota til að afla sér tækja til kvikmyndatöku. Hefði hann talað um að lána Vilhjálmi Knudsen kr. 150.000, en auk þess hefðu þeir ákærðu Kristján Viðar og Sævar Marinó keypt bifrieð saman skömmu síðar og ákærði Sævar Marinó keypt bifreið saman skömmu síðar og ákærði Sævar Marinó lagt fram til kaupanna kr. 60.000. Þá sagði ákærði Kristján Viðar, að einvhern tíma eftir þetta hefði ákærði Sævar Marinó sagt sér, að hann hefði svikið þessa peninga út og fengið stúlku að nafni Guðrún Anna Guðmundsdóttir til að veita þeim viðtöku. Hefði hann greitt henni kr. 100.000 fyrir vikið.
Ákærði Sævar Marinó var yfirheyrður hinn 12. desember 1975 hjá rannsóknarlögreglu vegna máls þessa, en neitaði allri vitneskju um það. Ákærða Erla Bolladóttir var og yfirheyrð hinn 13. desember 1975, og neitaði hún einnig með öllu að hafa átt aðild að máli þessu. Kom fram hjá henni, að hún hefði frá 4. janúar þar til í byrjun októbermánaðar árið 1974 starfað hjá Pósti og síma á ritsímanum við telex, og var starfsheiti hennar fjárritari. Síðari hluta starfstímans hefði hún unnið við skeytaafgreiðslu innanlands.
Vegna rannsóknar máls þessa var ákærði Sævar Marinó Ciesielski úrskurðaður í gæsluvarðhald hinn 12. desember 1975 í allt að 30 dögum. Ákærða Erla Bolladóttir var úrskurðuð daginn eftir til að sæta gæsluvarðhaldi jafnlangan tíma.
Hinn 18. desember 1975 gaf ákærða Erla skýrslu hjá rannsóknarlögreglunni, þar sem hún játaði aðild sína að máli þessu
Bls. 313
og skýrði frá því, hvernig þau ákærði Sævar Marinó hefðu staðið að því að svíkja fé út hjá Pósti og síma í ágúst og október 1974. Við yfirheyrslu hinn 11. janúar 1976 hjá rannsóknarlögreglunni skýrði ákærði Sævar Marinó einnig frá þessum verknaði þeirra í meginatriðum á sama hátt og ákærða Erla.
Fyrir dómi hinn 28. janúar 1977 skýrði ákærða Erla svo frá, að hún hefði hinn 23. ágúst 1974 svikið kr. 475.000 út í pósthúsinu við Langholtsveg ásamt ákærða Sævari Marinó. Hefði hún á þessum tíma starfað sem fjarritari hjá Pósti og síma. Sagði hún, að ákærði Sævar Marinó hefði beðið sig að ná með einhverju móti út fé hjá Pósti og síma og hefði henni þá hugkvæmst að gera það á þennan hátt. Kvaðst hún einhern tíma síðdegis umræddan dag hafa hringt frá Hjallavegi 31 í 06 og látist vera starfsstúlka á símstöðinni í Grindavík. Las hún fyrir skeyti þess efnis, að greiðs skyldi til Unnar Jökulsdóttur, Sólheimum 25, samtals kr. 475.000, en greiðandi væri Hraðfrystihús Grindavíkur. Undirskrift á skeytunum var gefin upp Steinunn Stefánsdóttir. Voru skeytin fimm að tölu og hljóðuðu fjögur upp á kr. 100.000, en eitt upp á kr. 75.000. Sagði ákærða, að það hefði verið stúlka að nafni Ragnheiður, sem tekið heffði við skeytunum í 06. Heðfi hún ekki latið uppi neinar efasemdir, þegar ákærða las skeytin fyrir, né spurt nokkurs. Þá sagði ákærða, að ákærði Sævar Marinó heðfi, á meðan símtalið fór fram, notað hátalara til að suð heyrðist í símanum.
Ákærða kvaðst ekki hafa átt hlut að því að sækja umrætt fé í Langholtsútibú Pósts og síma, en þangað átti að senda skeytin. Kvaðst hún hafa heyrt það síðar hjá ákærða Sævari Marino að stúlka að nafni Guðrún Anna hefði náð fénu út. Skeytin hefðu verið send á föstudegi, en féð ekki veirð leyst út fyrr en á mánudegi. Kom ákærði Sævar Marinó heim með kr. 375.000, en hann kvaðst hafa greitt með þeim, sem tók féð út, kr. 100.000. ákærða vissi, að af þessu fé lánaði ákærði Sævar Marinó Vilhjálmi Knudsen kr. 300.000 og varði kr. 60.000 til bílakaupa með ákærða Krisjáni Viðari Viðarssyni. Afganginn af fénu muni hann hafa notað í eigin þágu.
Ákærða skýrði þessu næst frá því,að síðar hefði ákærði Sævar Marinó krafist þess af sér, að hún sviki á sama hátt fé út hjá Pósti og síma á ný. Hefði hún neitað þessu í fyrstu, en þar hefði komið, að hún lét undan. Voru þau stödd heima hjá móður ákærða Sævars Marinós að Grýtubakka 10. Hringdi ákærða þá í 06 og kvaðst vera á símstöðinni í Grindavík og las fyrir skeyti,
Bls. 314
fimm að tölu, um greiðslu á samtals kr. 475.000 til Guðrúnar Sigríðar Jónsdóttur. Greiðandi var sagður maður að nafni Jón, en ákærða mundi ekki, hvaða föðurnafn hún gaf upp á honum. Undirskriftin á skeytunum var sögð Steinunn Stefánsdóttir. Ákærða kvað nafn móttakanda Guðrúnar Sigríðar Jónsdóttur hafa verið tilgreint að fyrirsögtn ákærða Sævars Marinós, svo sem verið hafði einnig um nafn Unnar Jökuldsdóttur í framangreindu tilviki. engar spurningar voru bornar upp við ákærðu, þegar hún las upp skeytin. Kvað hún ákærða Sævar Marinó hafa viðhaft sömu tilfæringar við símtalið og í fyrra tilvikinu.
Ákærða kvað skeytin hafa átt að sendast á pósthúsið í Umferðarmiðstöðinni. Ekki var ætlunin í upphafi, að hún sækti þetta fé, en þar eð Guðjón Skarphéðinsson, sem ákærði Sævar Marinó ætlaði að fá til þessa, brást, hefði hann fengið hana til þess að fara í pósthúsið og hefði hann afhent henni nafnskírteini með nafni Guðrúnar Sigríðar Jónsdóttur. Þegar hún kom á pósthúsið í Umferðarmiðstöðinni, reyndist ekki nægilegt fé þar fyrir hendi til að greiða út umræddar póstávísanir, og var henni vísað á aðalpósthúsið. Þangað vildi hún hins vegar ekki fara að ótta við að þekkjast. Kvaðst hún vera að fara austur á Selfoss og bað um, að skeytin yrðu send þangað. Fór hún að Selfossi ásamt ákærða Sævari Marinó næsta dag. Fékk hún þar á pósthúsinu greidda ofangreinda fjárhæð með ávísun á Landsbanka Íslands, Selfossi, og kvittaði hún fyrir á skeytin með nafni Guðrúnar Sigríðar Jónsdóttur. Ávísunina leysti hún þá þegar út í framangreindum banka og framseldi með sama nafni. Ákærða telur, að ákærði Sævar Marinó hafi notað yfir kr. 300.000 af umræddu fé til eigin þarfa, en hinu hafi þau eytt sameiginlega.
Fyrir dómi hinn 16. febrúar 1977 kannaðist ákærði Sævar Marinó við það, að hann hefði ásamt ákærðu Erlu svikið kr. 475.000 út hjá Pósti og síma og hefði hún tjáð sér, að hún vissi um aðferðir til ess að ná þar út peningum. Hann hefði um þetta leyti vantað peninga, um 200.000 kr., til að lána kunningja sínum. Ákærða Erla hefði þá stundið upp á því, að hún næði út þessum peningum hjá Pósti og síma. Hefði ákærða Erla hringt frá Hjallavegi í ritsímann, sagst vera á símstöðinni í Grindavík með skeyti um peningasendingu frá einhverjum ákveðnum útgerðarmanni í Grindavík. Viðtakandi átti að vera Unnur Jökulsdóttir, og átti að senda peningana í Langholtsútibú
Bls. 315
Pósts og síma. Ekki mundi ákærði, hver ákvað, hvaða nöfn skyldu notuð í þessu sambandi, en heldur, að þau hafi athugað eitthvað með nöfn í Grindavík. Hann telur, að hann hafi stungið upp á nafni Unnar Jökulsdóttur út í bláinn. Hann kvað fjárhæð þá, sem hér um ræðir, hafa verið kr. 475.000 í fimm póstávísunum.
Ákærði skýrði frá því, að á meðan ákærða Erla talaði í símann umrætt sinn, hefði hann útbúið són á plötuspilara til að halda mætti, að um slæmt samband væri, en ákærða Erla hefði sagt, að svo væri um símtöl utan af landi. Hann kvað umrætt símtal hafa átt sér stað á föstudegi, en ekki hefði tekist að ná út peningunum þennan dag. Kvaðst hann hafa beðið Guðrúnu Önnu Guðmundsdóttur að leysa út féð. Hefði hún gert það og fengið kr. 100.000 fyrir. Taldi hann, að ákærða Erla hefði vitað um það. Kvaðst hann hafa lánað kr. 300.000 af þessu fé Vilhjálmi Knudsen, seem samþykkti víxil fyrir þeirri fjárhæð til um það bil sex mánaða, og hefði ákærða Erla fengið víxilupphæðina greidda að frádregnum kr. 90.000, er hann hefði fengið. Þær kr. 75.000, sem eftir voru, hefðu runnið til bílakaupa, en það fé tapaðist.
Þá sagði ákærði, að í októbermánuði sama ár hefðu þau ákærða Erla verið orðin peningalaus og hann þá stungið upp á því, að þau svikju út peninga á sama hátt hjá Pósti og síma. Varð það úr, að ákærða Erla hringdi í ritsímann frá heimili móður ákærða að Grýtubakka 10. Hafði ákærða Erla klút yfir símanum til að skapa verra samband. Hann hefði ekki verið viðstaddur símtalið og ekki framkallað són í þetta skipti. Þau ræddu um, að þetta yrði sama fjárhæð og fyrr, kr. 475.000, og átti að senda peningana í pósthúsið í Umferðarmiðstöðinni. Ákærða Erla átti að ná í peningana og nota nafn, sem var á nafnskírteini, er ákærði hafði stolið í Tjarnarbúð, en mynd af ákærðu Erlu hafði verið sett í það. Þau hefðu farið á Umferðarmiðstöðina, en þá hefðu peningarnir ekki verið komnir þangað. Bað ákærða Erla um, að þeir yrðu sendir í pósthúsið á Selfossi. Þau fóru síðan þangað austur, og fór ákærða Erla í pósthúsið, þar sem hún leysti út póstávísanirnar. Hún fékk greitt með ávísun, sem hún framseldi og leysti út í Landsbankanum á Selfossi. Ákærði kvað þau ákærðu Erlu hafa eytt þessum peningum sameiginlega, m. a. keypt Land Rover bifreið, dvalist á Hótel Loftleiðum og farið til Kaupmannahafnar.
Með játningum ákærðu Erlu og ákærða Sævars Marinós, sem
Bls. 316
eru studdar öðrum gögnum málsins, verður talið fyllilega sannað, að þau hafi gerst sek um atferli það, sem lýst er undir þessum lið ákæru. Varðar atferli þeirra beggja við 248. gr. almennra hegningarlaga, en auk þess varðar atferli Erlu við 1. mgr. 155. gr. og 157. gr. sömu laga.
Af hálfu Póst- og símamálastjórnar hefur verið gerð krafa á hendur ákærðu til greiðslu á kr. 950.000 vegna framangreindra brota. Ákærðu hafa ekki mótmælt bótakröfu þessari, og verður hún tekin til greina að öllu leyti.
Í bréfi Póst- og símamálastjórnar er einnig gerð krafa um vexti og kostnað til greiðsludags. Engin nánari lýsing er á vaxtakröfu né rökstuðningur fyrir kostnaðarkröfu. Kröfur þessar eru því vanreifaðar og er vísað frá sakadómi.
V.
1. Ákærðu Kristján Viðar Viðarsson og Sævar Marinó Ciesielski hafa skýrt svo frá fyrir dómi, að ákærði Sævar Marinó hafi einhvern tíma á árinu 1972 farið inn í bifreið, sem stóð rétt hjá heimili ákærða Kristjáns Viðars í húsasundi milli Grettisgötu og Njálsgötu, og tekið þaðan útvarpsviðtæki. Tækið notuðu báðir ákærðu til greiðslu á ökugjaldsskuld við Viggó Guðmundsson leigubifreiðarstjóra.
2. Einhvern tíma árið 1972 eða í byrjun árs 1973 brutust ákærðu Kristján Viðar og Sævar Marinó inn í verslun á Laugavegi 92. Dýrkuðu þeir fyrst upp aðaldyr að bílasölu, en síðan brutu þeir upp hurð, sem þaðan liggur inn í verslunina. Tóku þeir þar allmikið af tóbaki, pípum og kveikjurum ásamt sælgæti og einnig eitthvað af smámynt. 3. Í ársbyrjun 1973 fóru ákærðu Kristján Viðar og Sævar Marinó ásamt Lárusi birni Svavarssyni a. m. k. tvívegis inn í húsið Aragötu 3 hér í borg, sem er í eigu Jóns Steffensen prófessors. Úr húsinu hurfu m. a., að sögn eiganda, minnispeningur í tilefni 100 ára afmælis Þjóðminjasafns, minnispeningur Sigurðar Norðdal, gullminnispeningur Jóns Sigurðssonar, 3 alþingishátðiðarminnispeningar, 10 50 króna peningar frá 1969, gullkvenúr, 20 karata gullarmband, kassi með ýmiss konar mynt, erlendri og íslenskri, eikarkassi með ýmsum skartgripum, 4 þriggja pela flöskur af lyfjaspíritus, 1 líters flaska af spíritus, nokkrar áfengisflöskur, nokkuð magn lyfja og tvær bankabækur. Kemur þessi lýsing á horfnum munum úr húsinu að lang
Bls. 317
mestu leyti heim við skýrslur ákærðu um það, sem þeir tóku þar.
4. Haustið 1974 fóru ákærðu Kristján Viðar og Sævar Marinó inn í opinn skála Eimskipafélags Íslands við Sundahöfn. Tóku þeir þar niður þrjá ljóskastara, sem ákærði Sævar Marinó hugðist nota við kvikmyndagerð, og fluttu þá heim til hans.
Framangreint atferli ákærðu Kristjáns Viðars og Sævars Marinós, sem lýst er í liðum 1-4 hér að framan, er swannað með játningum þeirra og öðrum gögnum málsins.
Varðar atferli þeirra í liðum 2-4 við 244. gr. almennra hegningarlaga, atferli ákærða Sævars Marinós í 1. lið við sömu lagagrein, en atferli ákærða Kristján Viðars við 1. mgr. 254. gr., sbr. 244. gr. sömu laga.
VI.
1. Hinn 12. desember 1975 kom m/s Reykjafoss til landsins frá Antwerpen. Með skipinu kom bifreiðin R 45248, sem er af Citroen gerð, árgerð 1967. Innflytjandi bifreiðarinnar og eigandi var ákærði Guðjón Skarphéðinsson. Við tollleit í bifreiðinni fundust samkvæmt skýrslu tollgæslunnar um 3,750 kg af hassi, sem falið var aðallega í "sílsum" hægra megin og inni í vinstri framhurð og farangursgeymslu. Af þessu heildarmagni var um það bil 2,550 kg ljóst hass og 1,200 kg dökkt.
Í framhaldi þessa var ákærði Guðjón Skarphéðinsson tekinn til yfirheyrslu hjá lögreglunni í Reykjavík að kvöldi þessa sama dags og síðan fyrir sakadómi í ávana- og fíkniefnamálum næsta dag, 13. desember. Þar skýrði ákærði Guðjón frá því, að hann hefði umj sumarið, í ágúst, farið utan með konu sína og dóttur með ferjuskipinu Smyrli og hefðu þau haft bifreið hans, R 45248, sem er af Citroen gerð, árgerð 1967, meðferðis. Hefði hér fyrst og fremst verið um skemmtiferð að ræða og þau ætlað að ferðast um Evrópu í um það bil einn mánuð. Þá hefðu þær mæðgur ætlað heim, en hann jafnvel ætlað að leita sér að vinnu. Hann sagði , að einn samferðamanna á skipinu hefði verið ákærði Sævar Marinó Ciesielski, sem hann kannaðist við. Hann hefði þó ekki vitað fyrr en á Seyðuisfirði, að ákærði Sævar Marinó var að fara þssa ferð, þó að hann hefði reyndar sagt honum fyrirætlan sína skömmu áður Reykjavík. Hefði hann ekki vitað annað um ferðir ákærða Sævars Marinós en hann ætlaði til Kaupmannahafnar. Ákærði Sævar Marinó hefði orðið sér og fjölskyldu hans
Bls. 318
samferða til Osló og Gautaborgar, en haldið þaðan til Kaupmannahafnar.
Ákærði kvað þau hjón hafa farið eftir ferðaáætlun sinni og hefði kona og barn haldið flugleiðis heim í lok september. Hann kvaðst hafa verið í Frakklandi og starfað við vínuppskeru til 31. október. Hefði hann dvalist hjá kunningja í Aix en Provence. Þangað hefði hann fengið póst að heiman og skeyti frá ákærða Sævari Marinó með ósk um að hringja í ákveðinn síma. Það hefði hann gert nokkrum dögum seinna, en þá var ákærði Sævar Marinó búinn að frétta, að ákærði hugðist koma heim. Hefði ákærði Sævar Marinó þá stungið upp á, að þeir hittust í Luxemburg um miðjan nóvember, en hann kvaðst þurfa að koma utan vegna leigu á kvikmyndum í Belgíu. Ákærði Guðjón ók til Luxemburgar og dvaldist þar á farfuglaheimili. Kvaðst hann hafa farið tvisvar eða þrisvar út á flugvöll, eftir að þangað kom, til að vitja ákærða Sævars Marinós. Þegar hann loks kom, var með honum maður, sem kallaður er Geiri, og varð ákærði þess fljótlega áskynja, að hann hygðist kaup hass og "gras". Þeir ákærði Sævar Marinó og umræddur Geiri hefðu reyndar báðir ráðgert slíkt og framkvæmt. Kvaðst ákærði hafa sagt þeim, að hann tæki engan þátt í efniskaupum og lýsti fyrir þeim peningaleysi sínu. Hann kvaðst hafa ekið með þeim um Rotterdam og Amsterdam, en ekki vita, á hvorum staðnum efnið var keypt.
Ákærði Ásgeir Ebeneser Þórðarson var tekinn til yfirheyrslu vegna máls þessa hjá sakadómi í ávana- og fíkniefnamálum hinn 15. desember 1975, og neitaði hann að eiga nokkurn þátt í innflutningi á umræddu efni. Við samprófun ákærðu Ásgeirs Ebenezers og Guðjóns kvaðst ákærði Guðjón kannast við ákærða Ásgeir Ebenezer sem fyrrnefndan Geira, en ákærði Ásgeir Ebenezer kvaðst ekki kannast við ákærða Guðjón.
Sama dag var ákærði Sævar Marinó Ciesielski tekinn til yfirheyrslu í fyrrnefndum dómi, en hann sat þá í gæsluvarðhaldi vegna máls þess, er um ræðir í kafla IV, 4. Neitaði hann í fyrstu nokkurri vitneskju um mál þetta. Hann viðurkenndi þó að hafa hitt ákærðu Ásgeir Ebenezer og Guðjón af hendingu á skemmtistað í Amsterdam, þegar hann var á ferðalagi erlendis skömmu áður.
Síðar í sama þinghaldi kvaðst ákærði Sævar marinó þó vilja skýra nánar og réttilega frá samskiptum sínum við ákærðu Ásgeir Ebenezer og Guðjón. Kvað hann þá ákærða Ásgeir Ebenezer hafa haldið með sömu flugvél til Luxemburgar án samráðs þar
Bls. 319
um, en þeir tekið tal saman á leiðinni. Í Luxemburg hefði ákærði Guðjón samkvæmt fyrr ráðagerðum tekið á móti ákærða. Samkvæmt beiðni ákærða Ásgeirs Ebenezers hefði verið samþykkt, að hann fengi að vera með ákærðu Sævari Marinó og Guðjóni í bifreið þess síðarnefnda. Hefði förinni í fyrstu verið heitið til Parísar, en síðar var horfið frá því og haldið til Bruxelles. Þar kvaðst ákærði Sævar Marinó hafa lokið erindum sínum, þ. e. að ræða við forráðamenn sjónvarpsstöðvar um huygsanleg kaup á íslenskum kvikmyndum. Áfangastaður ákærða Ásgeirs Ebenezers hefði að sögn verið Amsterdam, enda hefði hann verið með talsveðran erlendan gjaldeyri handa á milli, að hans sögn til fatnaðarkaupa fyirr tískuverslun. Þeir þrír félagar hefðu því orðið samferða til Amsterdam og dvalist þar þrjá til fjóra daga. Ákærði Sævar Marinó kvað sér ekki hafa tekist að ljúka fyrirhuguðum erindum varðandi sölu kvikmynda þar í borg. Hann kvaðst ekki vita til þess, að ákærði Ásgeir Ebenezer hefði lokið þar fatakaupunum, né hvernig fé hans eyddist. Ákærði Guðjón hefði viljað halda hingað til lands vegna barnburðar eiginkonu og afráðið að senda bifreið sjóleiðis frá Rotterdam. Loks hefðu þeir þrír félagar orðið samferða þaðan til Amsterdam og flugleiðis til Íslands um Kaupmannahöfn. Neitaði ákærði Sævar að hafa á nokkurn hátt í nefndri för haft með höndum fíkniefni né að hafa séð slíkt til félaga sinna. Að vísu hefði ákærði Ásgeir Ebenezer lauslega rætt slík viðskipti, en nánar um það kvaðst hann ekki vita.
Eftir samprófun í framhaldi þessarar yfirheyrslu við ákærða Guðjón kvaðst ákærði Sævar Marinó enn vilja bærta við fyrri framburð sinn. Skýrði hann nú frá því, að eftir að til Luxemburgar kom og áleiðinni í bifreiðinni til Bruxelles, hefði ákærði Ásgeir Ebenezer lýst miklum fjárráðum sínum og þeirri fyrirætlun að kaupa fíkniefni. Á þeirri stundu kvaðst ákærði ekki hafa ákveðið að kaupa sjálfur fíkniefni, en hins vegar heðfi hann haft handbæra rétt innan við eitt þúsund bandaríska dollara. Kvað hann það fé komið frá frænda sínum, búsettum í Bandaríkjunum, sem var látinn. Fljótlega eftir að ákærði Ásgeir Ebenezer orðaði ráðagerð sína, kvaðst ákærði hafa afráðið að verja sínu fé einnig til kaupa fíkniefnum. Hefði ákærði Guðjón samþykkt, að efnum yrði leynt í bifreið hans, enda var hann á förum hingaðtil lands og hugðist senda bifreiðina þangað sjóleiðis.
Ákærði Sævar Marinó sagði, að ákærði Ásgeir Ebenezer hefði talið sig þekkja sölumann hassefna í Rotterdam. Hefðu þeir félagar haldið til fundar við þann mann. Rak hann smáverslun á
Bls. 320
jarðhæð, og þar var einkum á boðstólum teiknimyndablöð og amerísk tímarit. Lýsti ákærði Sævar Marinó sölumanninum og kvað hann hafa verið þrekvaxinn með hálfsítt, úfið, skollitað hár, greitt aftur, og sennilega nálægt þrjátíu ára aldri. Hefði sér skilist á samtali ákærða Ásgeirs Ebenezers við mann þennan, að ákærði Ásgeir Ebenezer þekkti hann frá fyrri viðskiptum og einnig að vinir ákærða Ásgeirs Ebenezers hefðu áður átt við hann sams konar viðskipti. Að lokum hefði samist með þeim um verðið, eitt þúsund ogh sjö hundruð hollensk gyllini fyrir hvert kílógramm. Kvaðst ákærði Sævar Marinó þá hafa afráðið að kaupa eitt kílógramm, enda áttt sem næst fé til þeirra kaupa. hins vegar hefði ákærði Ásgeir keypt eitt og hálft kíló. Efnið hefði verið talið af tegundinni "líbanon" og verið grænleitt í pressuðum plötum, sem hver um sig vó tvöhundruð grömm. Ákærði kvað efnið hafa verið í bifreið ákærða Guðjóns, ófalið að kalla, þar til næsta dag, er ákærði hefði ásamt ákærða Ásgeiri Ebenezer falið það í bifreiðinni, nánar tiltekið í gólfbita hægra megin og eingöngu á þeim stað. Hefði þetta verið gert, er bifreiðin var á stóru stæði nálægt höfn. Ákærði, kvað það hafa verið ráðgert, að ákærði Ásgeir Ebenezer seldi efni ákærða Sævars Marinós fyrir eitt þúsund krónur grammið.
Í þinghöldum 16. og 19. desember 1975 neitaði ákærði Ásgeir Ebenezer að svara spurningum varðandi mál þetta. Í þinghaldi 22. desember svaraði hann hins vegar spurningum og skýrði þá frá utanferð sinni í nóvember það ár. Hefði erindi hans öðru fremur verið að athuga um innkaup á tískufatnaði. Á Keflavíkurflugvelli hefði hann fyrir tilviljun hitt ákærða Sævar Marinó. Hefði svo skipast, að þeior sátu saman í flugvél á leið til Luxemburgar og sögðu þá m. a. hvor öðrum frá ferðaáætlun og erindi. Hefði ákærði Sævar Marinó tjáð sér, að í Luxemburg mundi ákærði Guðjón taka á móti sér. Þeir þrír hefðu ákveðið að verða samferða í bifreið ákærða Guðjóns, en ákærði Guðjón hafði beðið félaus í nokkra daga eftir ákærða Sævari Marinó. Eftir ýmsa útúrkróka, m. a. til Bruxelles, þar sem ákærði Sævar Marinó taldi sig hafa erindi varðandi kvikmyndagerð, hefðu þeir komið til Hollands eftir nokkurra daga ferð frá Luxemburg. Nokkru áður kvaðst ákærði Ásgeir Ebenezer hafa orðið þess var, að ákærðu Sævar Marinó og Guðjón greindi á um sendingu bifreiðarinnar hingað til lands. Hefði ákærði Sævar Marinó viljað, að hún yrði sendi frá Rotterdam, en ákærði Guðjón verið á móti sendingu bifreiðarinnar hingað til lands.
Bls. 321
Þegar hér var komið yfirheyrslunni, kvaðst ákærði Ásgeir Ebenezer vilja bæta við öðru meginerindi upphaflegrar utanfarar sinnar, nánar tiltekið hasskaupum. Tildrög þessa hefðu leitað til sín. Var milliganga hans rædd á þeim grundvelli, að honum yrði lagt til allt innkaupsverð efna, ferðir að kostnaðarlausu og auk þess fé til eigin ráðstöfunar. Í ferðina hafði hann meðferðis tvö hundruð bandaríska dollara, sem hann fékk ýmist lánaða sjálfur eða fékk frá öðrum ofangreindra aðilja. Þá hefði hann haft 4.200 danskar krónur, sem hann hafði leyst út með fé, sem hann fékk frá fyrrnefndum aðiljum. Að lokum hefði hann haft 937 hollensk gyllini í ávísun og 100 gyllini í reiðufé.
Ákærði Ásgeir Ebenezer kvað sér hafa orðið það ljóst í Rotterdam af ráðagerðum ákærða Sævars Marinós, að hann hugðist kaupa hassefni, og kvaðst ákærði Ásgeir Ebenezer hafa talið, að áhugi ákærða Sævars fyrir sendingu bifreiðarinnar hingað til lands væri því beinlínis tengdur. Þar sem ákærði Ásgeir Ebenezer hugðist einnig kaupa slík efni og hafði gert ráð fyrir að þurfa að greiða óákveðnum millilið fyrir flutning efna hingað til lands, kvaðst hann hafa farið að sjá sameiginlegan hag þeirra í seendingu bifreiðarinnar hingað og jafnframt að leyna efnum í henni. Hefðu þeir ákærða Sævar Marinó rætt þetta í bifreiðinni að viðstöddum ákærða Guðjóni, og kvaðst ákærði Ásgeir Ebenezer þá strax hafa sagst fús til að greiða flutningsgjöld bifreiðarinnar og reyndar nokkra upphæð að auki. Ákærði Guðjón hefði lítið til mála lagt og hvorki játað né neitað ráðagerðinni.
Ákærði Ásgeir Ebenezer kvað ákærða Sævar Marinó hafa viljað gera hasskaup í Rotterdam og haft meðferðis nafn og heimilisfang líklegs söluaðilja, þar í borg. Hefði hann fyrst og fremst viljað kaupa sem ódýrast hass, en ákærði Ásgeir Ebenezer kvaðst hafa verið á öðru máli. Hefði þetta m. a. valdið því, að þeir félagar fóru oftar til funda og samninga við nefndan söluaðilja. Loks hafði samist um lélega hasstegund, tvö og hálft kíló samtals fyrir eitt þúsund og sjö hundruð hollensk gyllini hvert kilógramm. Ekki kvaðst hann muna, hver eða hverjir þeirra félaga fóru á fund sölumannsins í einstök skipti, en samanlagt hefðu þeir allir komið á fund hans oftar en einu sinni. Kvaðst ákærði Ásgeir Ebenezer hafa átt eitt og hálft kíló af efninu, en eitt kíló hefði ákærði Sævar Marinó átt, eða a. m. k. greitt. Þegar afhending efnisins fór fram, kvað ákærði Ásgeir Ebenezer ákærða Guðjón hafa ekið þeim ákærða Sævari Marinó í grennd verslunarinnar.
Bls. 322
þar sem afhending skyldi fara fram, en sjálfur farið á ölstofu með þeim ummælum, að þar yrði hann, á meðan þeir félagar lykju erindum sínum. Þannig hefðu þeir ákærði Sævar Marinó orðið samferða, og kvaðst ákærði Ásgeir Ebenezer haft innt af hendi greiðslu fyrir öllu efninu. Þá hefði ákærði Sævar Marinó orðið samferða, og kvaðst ákærði Ásgeir Ebenezer hafa innt af hendi greiðslu fyrir öllur efninu. Þá hefði ákærði Sævar Marinó haldið með efnið að bifreið ákærða Guðjóns, en ákærði Ásgeir Ebenezer orðið eftir í versluninni hjá seljanda. Ákærði Sævar Marinó hefði komið aftur þangað skömmu síðar og enn síðar ákærði Guðjón.
Líklega síðar sama dag kvað ákærði Ásgeir Ebenezer þá hafa farið í bifreiðinni á stæði við höfnina í Rotterdam, en þar hefði ákærði Guðjón yfirgefið þá við bifreiðina. Ákærði Sævar Marinó hefði áður falið efnið á bak við spjald í framhurð bifreiðarstjóramegin. Þaðan hefðu þeir nú fjarlægt efnið og eftir miklar vangaveltur þeirra leynt því í gólfbita bifreiðarinnar hægra megin.
Eftir lýsingu ákærða á seljanda framangreinds efnis og heimilisfangi hans sendi álþjóðalögreglan, Interpol, hingað til lands mynd af manni að nafni Van Der Meer. Allir ákærðu bentu á mynd af manni þessum í hópi mynda og kváðu hann vera seljanda efnisins.
Sýni af ofangreindu efni var sent Rannsóknastofu í lyfjafræði, Háskóla Íslands, og samkvæmt niðurstöðu athugunar, er þar fór fram, reyndist sýnið vera kannabis.
Samkvæmt eigin framburðum ákærðu Sævars Marinós og Ásgeirs Ebenezer hafi, svo og framburði ákærða og öðrum gögnum málsins telst fyllilega sannað, að ákærðu Sævar Marinó og Ásgeir Ebenezer hafi, svo sem lýst er í ákæru, keypt 2,5 kílógrömm af hassi síðari hluta nóvember 1975 og greitt fyrir hvert kílógramm 1.700 gyllini. Jafnframt að þeir hafi undirbúið flutning efnisins til Íslands með því að fela það í bifreiðinni við leit tollvarða.
Ákærði Guðjón hefur haldið því fram, að hgann hafi engan þátt átt í kaupum umrædds efnis. Í þinghaldi 13. desember 1975 sagði hann þá ákærðu Sævar Marinó og Ásgeir Ebenezer hafa r.ætt um að fela efnið í bifreið hans, en hann kvaðst hvorki hafa bannað þeim það né leyft. Þá sagði hann í sama þinhaldi, að þeir félagar hefðu boðið sér að greiða flutningsgjal bifreiðarinnar heim og
Bls. 323
kr. 100.000 í peningum, ef efnið yrði selt og hann samþykkti, að það yrði falið í bifreiðinni. Kvaðst hann hafa gengið að þessu, en engan þátt hafa tekið í því að ganga frá efninu og ekki vitað, hvar það var falið. Við yfirheyrslu hjá lögreglu daginn áður hafði viðurkennt að hafa samþykkt það, að meðákærðu kæmu efninu fyrir í bifreiðinni.
Fyrir dóminum hinn 16. desember sama ár skýrði ákærði Guðjón frá því,að hann væri næstum viss um, að efnið hefði verið falið í bifreiðinni á bifreiðastæði, þegar hann fór til að ræða við skipamiðlara. Kvaðst hann hafa komið að meðákærðu, þar sem þeir voru búnir að ræífa aftursætið úr bifreiðinni og losa plágu yfir bensíntank. Hann hefði spurt þá, hvort þeir ætluðu að setja efnið í tankinn, en þeir sagt nei, enda mætti telja, að þeuir hefðu þá þegar verið búnir að fela efnið, þar sem hann sá ekkert slíkt í fórum þeirra. éÁður hefði ákærði Sævar Marinó sýnt hvítan plastpoka, sem var undir framsæti, og sagt, að hassið væri í honum.
Nánar aðspurður í dómþingi sama dag skýrði ákærði frá því, að hann hefði ekið bifreiðninni frá hóteli á stórt stæði nærri höfninni. Meðákærðu voru með í bifreiðinni, en hann skilið við þá í bifreiðinni eða við hana og hélt sjálfur til sjómannaheimilis í grenndinni og skömmu síðar á fund skipamiðlara að semja um sendingu bifreiðarinnar til Íslands. Í bakaleiðinni fór hann fram hjá bifreiðinni á fyrrnefndu stæði. Meðákærðu voru þar enn, og var aftursætið áður skorðum og líkast því sem þeir væru að raska bensíngeymi . Hefði hann þá aftekið, að þeir röskuðu neinu viðkomandi geynminum eða gangverki bifreiðarinnar, enda væru hugmyndir þeirrar svo fráleitar, að hann skemmdir kynnu að geta hlotist af. Þrátt fyrir það hefði hann ekki fylgst nánar með bjástri meðákærðu og haldið aftur til sjómannaheimilisins. Þangað komu meðákærðu nokkru síðar og sögðust "vera búnir" eða eitthvað í þá átt og bættu við glaðlega: " Það finnst aldrei". Ákærði Guðjón kvaðst ekki hafa talið sig með vissu geta ráðið af tilsvörum þeirra, að efnið hefði þar með verið falið í bifreiðinni. Hann kvað þá félaga síðar á leiðinni til landsins fastlega hafa gefið í skyn að efnið væri í bifreiðinni, en þó hefði hann talið ólíklegt, að svo væri. Eftir að þeir komu til landsins, hefðu þeir ekki rætt beinlínis um bifreiðina, en hins vegar um skipaferðir.
Þegar ákærði Guðjón kom fyrir dóm í máli þessu hinn 1. apríl 1977, kvaðst hannah af haft grun um,að hass það, er í bifreiðinni fannst, hefði verið falið þar, en um það kvaðst hann enga
Bls. 324
vissu hafa haft. Hann tók fram, að ákærði Sævar Marinó hefði sérstaklega rætt það við sig, hve mikinn áhuga fíkniefnalögreglan hefði á málum ákærða Guðjóns og hefði hann undir grun fyrir misferli í þessum málum. Síðar hefði komið fram í viðtölum við fíkniefnalögreglu, að þetta væri rétt, þeir hefðu fylgst með honum lengi. Af þessum sökum kvað ákærði sér hafa fundist mjög ólíklegt, að meðákærðu kæmu hassinu fyrir í bifreið hans. Að lokum sagði ákærði, að sér hefði ekki verið ljóst í Rotterdam, að hassinu hefði verið komið þar fyrir, en honum var orðið þetta ljóst, áður en bifreiðin kom hingað til lands.
Á dómþingi sakadóms í ávana- og fíkniefnamálum hinn 15. desember 1975 skýrði ákærði Sævar Marinó svo frá, að ákærði Guðjón hefði samþykkt, að efnum yrði leynt í bifreið hans, enda hann verið á förum hingað til lands og ætlað að fá bifreiðina senda þangað sjóleiðis. Ákærði Ásgeir Ebenezer hefði lofað að greiða ákærða Guðjóni kr. 100.000 fyrir efnisflutninga með bifreiðinni, en auk þess flutningsgjöld hennar til landsins, kr. 50-60.000. Sjálfur kvaðst ákærði ekki hafa átt að greiða neitt fyrir flutning síns hluta efnisins vegna kunningsskapar þeirra ákærða Guðjóns. Þá kvað ákærði Sævar Marinó ákærða Guðjón hafa verið viðstaddan, er þeir ákærði Ásgeir Ebenezer földu efnið. Í þinghaldi 17. desember ítrekaði ákærði Sævar Marinó enn, að ákærði Guðjón hefði séð, er efninu var komið fyrir í gólfbita bifreiðarinnar, en að vísu hefði hann gengið frá um stund, á meðan meðákærðu færðu ummmerki endanlega í sama horf.
Í þinghaldinu 22. desember 1975 skýrði ákærði Ásgeir Ebenezer svo frá, að dag þann, er þeir fengu efnið afhent, hefði ákærði Guðjón ekið þeim félögum á stæði við höfnina í Rotterdam og yfirgefið þá þar við bifreiðina. Ákærði Ásgeir Ebenezer kvaðst ekki muna til, að ákærði Guðjón hefði komið að bifreiðinni, á meðan þeir félagar unnu við að koma efnunum þar fyrir. Þegar kaupin á efnunum voru rædd, hefðu þeir ákærði Sævar rætt þessi mál að ákærða Guðjóni viðstöddum, og kvaðst ákærði Ásgeir Ebenezer þá strax hafa tjáð sig fúsan að greiða flutningsgjöld bifreiðarinnar og reyndar nokkra upphæð að auki, ef efnin yrðu flutt í henni til landsins. Ákærði Guðjón hefði lítið til málanna lagt og hvorki játað né neitað ráðgerðinni.
Eftir heimkomu þeirra félaga hefði heimflutningur bifreiðarinnar tafist og það valdið þeim félögum áhyggjum. Hefðu þeir stöðugt verið að grennslast eftir bifreiðinni. Á því tímabili hefði ákærði Sævar Marinó ítrekað knúið á fyrir hönd ákærða Guðjóns.
Bls. 325
um aukagreiðslu, og kvaðst ákærði Ásgeir Ebenezer loks hafa stungið upp á því við ákærða Guðjón, að sú upphæð gæti orðið allt að kr. 100.000. Hann kvaðst þó hafa lofað ákærða Guðjóni þessari upphæð gegn betri vitund, enda aldrei nefnt það við fjármagnseigendur né ætlað að efna þetta, heldur eingönu viljað róa ákærða Guðjón. Þá lýsti ákærði Ásgeir Ebenezer því, þegar ákærði Guðjón kom á heimili hans hinn 12. desember, áður en hann var handtekinn. Skýrði ákærði Guðjón honum frá símtali sínu við ákærða Sævar Marinó nokkru áður, þar sem ákærði Sævar Marinó sagði frá því, að lögreglan væri að handtaka hann á heimili hans í Kópavogi. Hefðu þeir ákærði Guðjón sett það í samband við bifreiðina og hassefnin. Þegar þeir höfðu hugleitt ýmislegt í því sambandi um hríð, hefði einnig verið orðið ljóst, að bifreiðin yrði ekki leyst út þann daginn og því ekki fyrr en mánudaginn þar á eftir. Ákærði Guðjón hefði þá hreyft þeirri hugmynd að vitja bifreiðarinnar undir því yfirskyni, að hann þyrfti að ná í fatnað, en jafnframt athugaði hann möguleika á að taka úr henni hassefnin. Kvaðst ákærði Ásgeir Ebenezer þá hafa að beiðni ákærða Guðjóns lýst nákvæmlega fyrir ákærða felustað hassefnanna í bifreiðinni og ákærði Guðjón samkvæmt því eigi síðar en þá nákvæmlega vitað um felustað þeirra.
Niðurstöður.
Svo sem fyrr er rakið, viðurkenndi ákærði Guðjón við fyrstu yfirheyrslur hjá lögreglu og fyrir sakadómi í ávana- og fíkniefnamálum að hafa haft vitneskju um tilvist framangreindra hassefna í bifreið sinni, áður en hún var send frá Rotterdam, og virðist framburður meðákærðu einnig styðja þetta. Í síðasta framburði sínum fyrir dómi dró ákærði Guðjón hins vegar í land með þetta atriði, en kvað sér hafa verið þetta ljóst, áður en bifreiðin kom til landsins. Hér þykir ekki ástæða til að taka afstöðu til þess, hvenær vitneskja um tilvist hassefnisins í bifreiðinni barst ákærða Guðjóni nákvæmlega, heldur verður byggt á þeim framburði hans, að hann hafi um það vitað, áður en bifreiðin kom til landsins. Verður því að telja sannað, að ákærði Guðjón hafi staðið að flutningi bifreiðar sinnar hingað til lands, þrátt fyrir það að honum var ljóst, að í henni voru falin hassefni. Atferli ákærðu Sævars Marinós, Ásgeirs Ebenezers og Guðjóns, sem lýst er hér að framan undir VI, 1. og 2. lið, varðar við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. gr., sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 390/1974 um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna.
Bls. 326
VII.
1. Í byrjun árs 1972 braust ákærði Kristján Viðar Viðarsson ásamt öðrum manni inn í verslun að Laugavegi 92. Stálu þeir þarna um það bil 10 lengjum af vindlingum. Skiptu þeir með sér þýfinu, og neytti ákærði Kristján Viðar sjálfur síns hluta og gaf eitthvað.
2. Fyrri hluta árs 1972 fór ákærði Kristján Viðar ásamt fyrrgreindum manni inn í veitingahúsið Silfurtunglið við Snorrabraut, þar sem þeir biðu þess, að húsinu yrði lokað. Síðan brutu þeir upp hurð að geymslu í kjallara og stálu þar tveimur kössum af áfengi með um það bil 24 flöskum, aðallega whisky og vodka. Neyttu þeir þessa áfengis saman. 3. Hinn 15. janúar 1973 brutust ákærði Kristján Viðar og annar maður inn í verslunina Málarann. Fóru þeir fyrst inn í sund við Gamla Bíó og síðan inn um bakdyr verslunarinnar, en ákærði opnaði þar smekklás með hníf. Þeir stálu þarna einhverju af skiptimynd og telur ákærði, að hann hafi fengið um það bil 1.500 kr. í sinn hlut. Einnig tóku þeir eina rúllu af veggfóðri.
4. Hinn 6. janúar 1974 fór ákærði Kristján Viðar ásamt öðrum manni inn í húsið borgartúni 29. Tóku þeir úr rúðu, sem er yfir dyrum á bakhlið hússins. Fóru þeir um nokkrar skrifstofur og í einni skrifstofunni fundu þeir í skrifborðsskúffu gamla peninga, bæði seðla og mynt. Fékk ákærði seðlana, en maðurinn, sem var með honum, myntina. Einnig stálu þeir rúmlega kr. 1.000 í peningum.
Telja verður fyllilega sannað með játningum ákærða Kristjáns Viðars fyrir dómi og öðrum gögnum málsins, að hann hafi framið verknaði þá, sem lýst er í töluliðum 1-4 hér að framan, og varða þeir við 244. gr. almennra hegningarlaga.
Í málinu hefur verið lögð fram bótakrafa frá Þorgils Axelsyni, sem hafði skrifstofu að Borgartúni 29. Taldi hann, að í fyrrgreindu innbroti í skrifstofur hans hefði verið stolið tölvu, og gerði skaðabótakröfu að fjárhæð kr. 10.000 vegna hennar. Ákærði Kristján Viðar hefur ekki kannast við að hafa tekið umrædda tölvu, og í málinu er eigi ákært vegna þjófnaðar á henni. ber því að vísa kröfu þessari frá sakadómi.
VIII.
1. Svo sem greinir hér að framan í kafla III, 2, fór ákærði Sævar Marinó Ciesielski þrívegis í vörugeymslu Eimskipafélags Íslands í Sundahöfn í maí 1974 og stal þaðan áfengi. Ákærði Al-
Bls. 327
bert Klahn Skaftason hefur viðurkennt fyrir dómi að hafa aðstoðað ákærða Sævar Marinó við að flytja burtu frá skála Eimskipafélags Íslands við Sundahöfn þrjá kassa af vodka með 12 flöskum hver, er ákærði Sævar Marinó hafði stolið þar. Var þetta í maímánuði. Ákærði notaði bifreið föður síns við flutninginn, og ók hann áfenginu heim til ákærða Sævars Marinós að Álfheimum 40. Fékk ákærði Albert Klahn þar einn af kössunum fyrir þetta viðvik, en sjálfur hélt ákærði Sævar Marinó eftir 2 kössum.
Um það bil viku síðar fór ákærði Albert Klahn aftur á framangreindan stað að beiðni ákærða Sævars Marinós og sótti tvær ferðatöskur með áfengisflöskum, er ákærði Sævar Marinó hafði stolið. Ekki vissi ákærði Albert Klahn, hve margar áfengisflöskur voru í töskunum, en skildist á ákærða Sævari Marinó, að um 80 flöskur af vodka væri að ræða. Ók ákærði Albert Klahn töskunum heim til ákærða Sævars Marinós að Álfheimum 40. Fékk hann eina flösku fyrir þetta viðvik.
Framangreint atferli ákærða Alberts Klahn, sem telst sannað með játningyum hans fyrir dómi og öðrum gögnum málsins, varðar við 1. mgr. 254. gr., sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga.
2. Með játningum ákærða Alberts Klahn fyrir dómi og öðrum gögnum málsins teljast eftirtalin brot hans sönnuð:
a) Í apríl 1973 tók ákærði við og neytti tíu gramma af marijuana, sem ákærði Sævar Marinó sendi honum í bréfi frá Kaupmannahöfn.
b)Í maí 1973 keypti ákærði Albert Klahn af Gunnari Inga Ægissyni að Brekkustíg 7 í Reykjavík 10 grömm af morfínbasa fyrir kr. 10.000. Ákærði taldi, að um Psilocybin væri að ræða. Neyi hann sjálfur af efni þessu og gaf kunningjum sínum helminginn af því, en fleygði afganginum, er hann komst að því, um hvers konar efni var að ræða.
c) Í júní 1973 tók ákærði við til geymslu heima hjá sér að Njálsgötu 44 fyrir ákærða Sævar Marinó 150-160 þynnur af LSD og plastbréf með um 50 töflum af LSD, en Sævar Marinó hafði smyglað eða látið smygla þessu inn fyrir sig frá Kaupmannahöfn. Að beiðni Sævars Marinós afhenti ákærði Albert Klahn Agnari Agnarssyni 45 þynnur af framangrindu efni skömmu síðar, og nokkru þar á eftir afhenti hann Agnari 30 þynnur af LSD á Laugavegi í bifreið, sem ákærði hafði til umráða.
Um sama leyti og áður greinir keypti ákærði af Sævari Marinó
Bls. 328
5 grömm af hassi fyrir kr. 1.500 að Njálsgötu 44. Þá seldi ákærði Agnari Agnarssyni og um þetta leyti 10 grömm af hassi á kr. 300 hvert gramm að Grettisgötu 82.
Loks keypti ákærði Albert Klahn 11 töflur af LSD af Sævari Marinó á 300-400 kr. hvert stykki. Ákærði seldi töflur þessar manni, sem hann gat ekki tilgreint, fyrir alls kr. 3.500.
d) Í september 1973 keypti ákærði 5 grömm af hassi fyrir 2.500 af Sigurþóri Stefánssyni, Framnesvegi 61 hér í borg, en ákærði neytti hassins ásamt kunningjunm sínum.
e) Um miðjan október 1973 keypti ákærði ásamt fleirum 300 grömm af hassi fyrir um 100.000 krónur af Benóný Ægissyni að Vesturgötu 24 í Reykjavík. Ákærði lagði sjálfur fram kr. 20.000 til kaupanna, og komu um 80 grömm í hlut hans. Seldi hann af hluta sínum 40 grömnm fyrir kr. 15.000 manni, sem hann gat ekki tilgreint. Það, sem eftir var , notaði hann sjálfur og gaf öðrum.
f)Föstudaginn 26. október 1973 keypti ákærði 23 skammta af LSD af Hinrik Jóni Þórissyni að Vesturgötu 24 í Reykjavík, en Hinrik Jón hafði fengið efnið sent, sennilega frá Amsterdam.
Taldi ákærði, að hann hefði neytt ríflega heilmings efnisins með kunningjum sínum, en Kristján Viðar Viðarsson hefði fengið afganginn hjá honum án endurgjalds.
g) Í lok janúar 1974 keypti ákærði 120 grömm af hassi á kr. 350 hvert gramm af Sævari Marinó að Grettisgötu 82 í Reykjavík. Ákærði seldi skömmu síðar Kára Sigurðssyni um 20 gr. af hassinu fyrir kr. 13.000 að Njálsgötu 46 og Hákoni Arnari Hákonarsyni 15 grömm af því fyrir kr. 6.000 fyrir utan húsið Nhálsgötu 49. Afganginn notaði ákærði sjálfur ásamt kunningjum sínum.
Enn fremur keypti ákærði nokkru síðar ásamt Inga Rafni Bæringsssyni 60 grömm af hassi á kr. 400 hvert gramm af Sævari Marinó að Grettisgötu 82. Telur ákærði, að Ingi Rafn hafi lagt fram meiri hluta af hassinu, en afgangurinn lenti hjá Ing Rafni, og telur ákærði, að hann hafi selt það.
h)Hinn 20. mars 1974 keypti ákærði í Kaupmannahöfn hass fyrir rúmar 400 danskar krónur. Notaði ákærði hluta af því í Kaupmannahöfn, en afganginn, 36 grömm, flutti hann hingað til lands 22. sama mánaðar, falið í vindlingapakka. Við tollskoðun á Keflavíkurflugvelli fannst hassið, og var lagt hald á það.
Framangreind brot ákærða alberts Klahn, sem tilgreind eru í liðum a-g hér að framan, varða við 5. gr., sbr. 6. gr. laga nr.
Bls. 329
77/1970 um tilbúning og verslun með ópíum o. fl., en brot það, sem tilgreint er í h lið, varðar einnig við 1. gr. nefndra laga, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 257/1969 um ávana- og fíkniefni, sbr. nú 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2., sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 390/1974 um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna.
Ákæra dagsett 16. mars 1977.
I.
A. Fimmtudaginn 21. nóvember 1974, kl. 0900, tilkynnti Ellert Björn Skúlason, Grundarvegi 21 í Njarðvík, rannsóknarlögreglunni í Keflavík, að Geirfinnur Einarsson, starfsmaður sinn, til heimilis að Brekkubraut 15 í Keflavík, hefðiu farið að heiman um kl. 2230 að kvöldi þriðjudagsins 19. sama mánaðar, en síðan hefði ekkert til hans spurst. Hefði verið haldið uppi spurnum um Geirfinn frá því daginn áður að beiðni eiginkonu hans, Guðnýjar Sigurðardóttur, en án nokkurs árangurs.
Lögreglan hóf eftirgrennslan á ferðum Geirfinns Einarssonar. Þeim Guðlaugu Jónasdóttur, Melteigi 6, Keflavík, sem starfaði í Hafnarbúðinni þar í bænum, og Ástu Elínu Grétarsdóttur, Vesturgötu 15, sem stödd var í Hafnarbúðinni, bar saman um, að Geirfinnur hefði komið þangað um kl. 2200 að kvöldi 19. nóvember til að versla. Hann hefði haft þar skamma viðdvöl, en haldið síðan á brott og hafi þær ekki séð hann eftir það. Lýst var eftir fleira fólki, sem verið hefði í Hafnarbúðinni, og gáfu sig fram Hrefna Óskarsdóttir, Hringbraut 45, Keflavík, Jóhann Pétursson, Sólvallagötu 45 þar í bæ, og Jóhann Guðfinnsson frá Grindavík. Einnig var lýst eftir Geirfinni í fjölmiðlum, leitað með fjörum, kafað í Keflavíkurhöfn og með klettum út að Bergi og í Sandgerðishöfn. Leitað var á afmörkuðum svæðum alla byggðina Keflavík, Njarðvík, Innri-Njarðvík og inn á Stapa, gengna fjörur allt inn undir Kúagerði, leitað meðfram öllum akfærum vegum og vegaslóðum á afmörkuðu svæði vestan við vegamót Grindavíkurvegar og í nágrenni Njarðvíkur. Loks var haldið uppi eftirgrennslnum um Geirfinn á ýmsum stöðum og hjá kunningjum hans víðan um land, en ekkert spurðist til hans.
Geirfinnur Einarsson fæddist 7. september 1942 að Dalalandi í Vopnafirði. Foreldrar hans voru Einar Runólfsson, Baldursheimi í Mývatnssveit, og Anna Guðbjörg Friðriksdóttir, er lést 11. september 1950. Geirfinnur dvaldist framan af árum austanlands, en um 1960 fluttist hann til Keflavíkur.
Bls. 330
Guðný Sigurðardóttir, eiginkona Geirfinns, hefur skýrt frá því, að þau Geirfinnur hafi kynnst, er þau unnu í frystihúsi í Keflavík á árinu 1963. Þau gengu í hjúskap 20. desember 1964. Þau bjuggu ætíð í Keflavik, á 3-4 stöðum, en síðustu 2-3 árin bjuggu þau að Brekkubraut 15 þar í bæ. Þau áttu tvö börn saman, Sigurð Jóhann, fæddan 13. ágúst 1964, og stúlku, fædda 1. janúar 1970. Geirfinnur stundaði ýmis störf, en síðustu árin vann hann hjá fyrirtæki Ellerts Björns Skúlasonar í Njarðvíki á stórvirkum vinnuvélum. Geirfinnur hafði farið til vinnu á vegum fyrirtækis Ellerts Björns að Búrfelli, þegar framkvæmdir hófust þar. Síðan hefði hann unnið við Sigölduvirkjun á árunum 1973 og 1974. Þegar hann hætti vinnu í Sigöldu, hefði hann farið til vinnu um skamman tíma við Búrfellsvirkjun, en síðan unnið í Keflavík og nágrenni hjá Ellert Birni. Guðný sagði, að Geirfinnur hefði unnið í 10 daga, en síðan átt 4 daga leyfi og hefði hann þá alltaf komið heim. Hann hefði komið heim á fimmtudegi og farið aftur á sunnudagskvöld eða mánudagsmorgun. Geirfinnur stundaði nám í barnaskóla, en ekki var um frekara nám að ræða.
Guðný kvað Geirfinn hafa haft allgóðar tekjur síðustu árin. Þau hefðu staðið í íbúðarkaupum, en ekki átt í neinum sérstökum fjárhæagserfiðleikum. Þau hafi vel komist yfir að greiða þær skuldir, sem á þeim hvíldu. Heilsufar Geirfinns var gott. Hann hefði stundum kvartað um verk fyrir hjarta, en þó ekki viljað fara til læknis af því tilefni.
Guðný lýsti skapferli Geirfinns svo, að hann hefði alla tíða verið rólegur í framkomu og hafi hún aðeins einu sinni séð hann raunverulega reiðan. Hann hafi þagað, ef hann reiddist, og ekki rifist. Hann hafi verið þungur að eðlisfari og birgt inni sín persónulegu málefnmi, en ekki hafi verið um óeðlilegt þunglyndi að ræða. Geirfinnur var mjög ákveðinn í skoðunum. Ef hún hefði beðið hann einhvers og hann neitað, hefði reynslan verið sú, að ekki hefði þýtt að fá neinu breytt þar um.
Geirfinnur neytti yfirleitt áfengis, þegar hann var heima um helgar. Um óreglu var þó aldrei að ræða og hafi yfirleitt aldrei fallið niður vinnudagur vegna áfengisneyslu hans, nema þá helst þegar honum var boðin vinna um helgar. Undir áfengisáhrifum "fái hann málið", að sögn Guðnýjar, og hafi verið hinn ræðnassti. Hann drekki yfirleitt mikið í einu og verði drukkinn, en þá hafi hann hljóðlaust dregið sig í hlé. Þau Geirfinnur hafi farið að jafnaði út að skemmta sér einu sinni í mánuði, einkum á dans-
Bls. 331
leiki. Geirfinnur hafi farið mjög sjaldan út af heimilinu og þá helst í kvikmyndahús. Hann hafi átt fáa félaga, en besti vinur hans hafi verið Georg Valentínusson. Þeir brugguðu saman áfengi heima hjá þeim Geirfinni, en það var einungis til eigin nota og aldrei selt af því. Guðný veit ekki til, að Geirfinnur hafi staðið í neinu ólögllegu atferli eða haft samband við menn, er slíkt stunduðu.
Geirfinnur hafi ekki rætt við sig um vinnu sína og atburði dagsins. Hafi svo mikið borið á þessu afskiptaleysi, að um 2 mánuðum áður en hann hvarf, hafi þau lent í deilu út af þessu og hún þá sagt honum, að hún mundi ekki búa við þetta lengur og jafnvel að þau ættu að skilja. Eftir þetta hafi framkoma Geirfinns breyst allverulega. Hafi hann haft á orði, að hann skyldi gera allt til að reyna að bæta úr þessu, en hann væri bara svona gerður.
Vitnið Ellert Björn Skúlason hefur skýrt frá því, að Geirfinnur Einarsson hafi verið við störf hjá því, er hann hvarf. Minnir vitnið, að hann hafi verið búinn að vera hjá því í tæp 6 ár. Hafi hann aðallega unnið við stjórn vinnuvéla og verið afbragðsgóður starfsmaður. Hafi hann stundað vinnu sína vel, og minnist vitnið þess ekki, að vinna hafi fallið niður hjá honum vegna áfengisneyslu eða óreglu. Skaphöfn Geirfinns var nokkuð sérstæð, að sögn vitnisins. Gagnvart ókunnugum var hann eins og þurr á manninn og fámáll, en góður vinur vina sinna. Ef hann neytti áfengis, breyttist hann töluvert. Varð hann þá opnari, og ef hann varð ölvaður að ráði, gat hann verið stríðinn. Vitnið telur, að Geirfinnur hafi ekki neytt áfengis meira en gerist og gengur og hafi hann aðallega gert það um helgar. Vitninu virtist Geirfinnur fara vel með fé, og varð það ekki vart við, að hann ætti í neinum umtalsverðum fjárhagskröggum. Ekki gat vitnið merkt neina breytingu á hegðan eða framkomu Geirfinns síðustu daga eða vikur, áður en hann hvarf, en hafi ekki hitt hann oft á þessu tímabili. Vitnið vissi ekki til, að Geirfinnur væri í félagsskap manna, sem stunduðu ólöglegt athæfi, t. d. smygl eða áfengissölu, eða að hann hafi stundað slíkt sjálfur, og telur slíkt fráleitt. Vitnið telur óhugsandi, að Geirfinnur hafi neytt fíknilyfja, enda hafi hann haft óbeit á slíku. Vitnið veit ekki til þess, að Geirfinnur ætti óvildarmenn. Hann hafi verið mjög friðsamur og laus við árásarhneigð, en, eins og fyrr segir, getað verið stríðinn undir áhrifum áfengis. Geirfinnur var hraustur, en vitninu er ekki kunnugt um krafta hans.
Guðný Sigurðardóttir skýrir svo frá, að Geirfinnur hafi farið
Bls. 332
að kvöldi sunnudagsins 17. nóvember 1974 á kvikmyndasýningu kl. 1900 ásamt vinnufélögum sínum, þeim Þórði Ingimarssyni, er að framan greinir, og Birni Marteinssyni, Klapparstíg 4, Njarðvík. Eftir sýninguna kom Geirfinnur heim og sagði vitninu, að þeir félagar hefðu hug á að fara á dansleik í veitingahúsið Klúbbinn. Spurði hann vitnið, hvort það væri í lagi, að hann færi og hvort það vildi koma með. Vitnið vildi ekki fara, en kvað sér vera saman, þótt hann færi. Vitnið sá ekki ölvunarmerki á Geirfinni, en það hafði grun um, að Björn hefði verið með áfengi á kvikmyndasýningunni.
Geirfinnur og félagar hans fóru á dansleikinn, en komu aftur um kl. 0200 um nóttina. Vitnið og Geirfinnur ræddu eitthvað saman, eftir að hann kom heim, og bauð vitnið honum að borða. Geirfinnur var eitthvað ölvaður, en þó engan veginn svo, að ekki væri hægt að ræða við hann. Vitnið man ekki til þess, að hann hafi haft orð á einhverju óvenjulegu, sem fyrir hann hafði borið í Klúbbnum, og hann nefndi ekki neina menn, sem hann hefði hinn, nema hann sagði, að hann hefði hitt þarna kunningjakonu þeirra að nafni Unnur.
Vitnið Þórður Ingimarsson kveðst hafa kynnst Geirfinni Einarssyni snemma á árinu 1973. Unnu þeir þá á vélum hjá Ellert Birni Skúlasyni. Geirfinnur var mjög góður tækjamaður, og lærði það mikið af honum. Þeir urðu nokkuð nánir félagar og hittust oft utan vinnutíma. Kom vitnið oft á heimili Geirfinns, og skemmtu þeir sér saman, aðallega þar, en stundum fóru þeir á dansleiki.
Vitnið hefur ekki heyrt, að Geirfinnur hafi fengið tilboð um álitlega peningaupphæð fyrir að þegja yfir einhverju leyndarmáli né heldur, að komið hafi ókunnugir menn til hans á vinnustað og átt við hann viðræður. Telur vitnið, að vinnufélagar hans hefðu hlotið að taka eftir, hverjir þar hefðu verið á ferð, ef svo hefði verið. Geirfinnur hafi verið mjög rólegur maður og ekki borið á neinum einkennum taugaveiklunar eða þunglyndis hjá honum. Hann hafi að jafnaði verið fremur dulur og fámáll, talað lítið um sín einkamál og ekki blandað sér í almennar viðræður. Undir áfengisáhrifum gerbreyttist hann að þessu leyti og varð opinn. Hann neytti áfengis eins og gerist og gengur, en vitnið veit ekki til, að hann hafi misst úr vinnu vegna áfengisneyslu. Vitninu er ekki kunnugt um, að Geirfinnur hafi verið í tengslum við menn, er stunduðu ólöglegt atferli eða hann stundaði slíkt sjálfur. Hann bruggaði þó eitthvað á heimili sínu itl eigin nota.
Bls. 333
Vitnið kveðst hafa farið með Geirfinni og Birni Marteinssyni í veitingahúsið Klúbbinn að kvöldi 17. nóvember í framhaldi af kvikmyndahúsferð þeirra félaga. Voru þeir í Klúbbnum frá því um kl. 2200 þar til um kl. 0100. Vitnið var með Geirfinni á dansleiknum mest allan tímann, og voru þeir aðallega á efstu hæð hússins. Geirfinnur var ekki með peninga á sér, og lánaði vitnið honum peninga. Vitnið kveðst hafa séð, að Geirfinnur drakk nokkur glös af áfengi. Björnvarð viðskila við þá og var aðallega á neðri hæðunum. Þeir hittu ýmsa Keflvíkinga, sem þeir könnuðust við, og voru með þeim mest allan tímann. Eitt sinn, er þeir voru á rölti um veitingahúsið, hitti Geirfinnur mann í stiganum, sem er af 2. hæði og upp á 3. hæð. Þeir tóku tal saman, og virtist því sem þeir þekktust. Vitninu finnst, að það hafi séð manninn áður, en getur ekki komið honum fyrir sig. Vitnið beið smástund eftir Geirfinni. Hann settist ásamt manninum í stigaþrep, og heyrði það ekkert hvað þeir ræddu. Vitnið fór síðan upp, og sátu þeir þá enn í stiganum. Geirfinnur kom rétt á eftir vitninu. Þeir ræddu ekkert um manninn. Maður þessi kom vitninu þannig fyrir sjónir, að hann væri 25-30 ára að aldri. Hann var grannvaxinn og hávaxinn, að því fannst, þar sem hann sat. Vitnið veitti honum ekki nána athygli í fyrstu. Vitnið kveðst muna að hann var frekar ljóshærður eða skolhærður, en ekki man það eftir klæðnaði hans. Það man ekki, hvort maður þessi var ölvaður. Það man örugglega, að Geirfinnur var ekki orðinn mikið ölvaður, og hlýtur þetta því að hafa verið nokkuð snemma kvöldsins. Það telur sig munu þekkja manninn, ef það sjái hann aftur. Vitninu voru sýndar myndir af ákærðu í máli þessu, og kveðst það ekki hafa séð áður fólk það, sem þær eru af. Vitnið varð ekki vart við, að Geirfinnur talaði við neinn annan ókunnan mann en þann, sem áður greinir. Vitnið varð ekki vart við, að Geirfinnur talaði við neinn annan ókunnan mann en þann, sem áður greinir. Vitnið og Geirfinnur urðu eitthvað viðskila í Klúbbnum, og það telur einnig, og það hafi farið á undan út til að hita upp bifreiðina, sem þeir voru á. Geirfinnur varð þó nokkuð ölvaður í Klúbbnum og var allræðinn. Í bifreiðinni á leið til Keflavíkur talaði hann aðallega um fyrri stör sín. Hann nefndi ekki, að rætt hefði verið við sig í Klúbbnum um áfengissölu og áfengisskaup. Varð vitnið ekki vart við neitt sérstakt í tali hans eða framkomu um nóttina. Vitnið ók Geirfinni að heimili hans, og skildust þar leiðir þeirra.
Vitnið Björn Marteinsson kveðst hafa kynnst Geirfinni Einarssyni á árinu 1972, þegar þeir unnu saman hjá fyrirtæki Ellerts Björns Skúlasonar. Þeir unnu töluvert saman og kynntust þann-
Bls. 334
ig, en höfðu ekki mikil samskipti þess utan. Vitnið hafði þó ekki unnið neitt með honum mánuðina áður en hann hvarf. Geirfinnur var kurteis og rólegur í framkomu og stundaði vinnu sína vel. Varð vitnið aldrei vart neins óeðlilegs í framkomu hans. Vitnið vissi ekki um aðra félaga Geirfinns en vinnufélaga hans.
Vitnið fór í veitingahúsið Klúbbinn hér í borg að kvöldi 17. nóvember ásamt Geirfinni og Þórði Ingimarssyni. Datt þeim í hug að fara þetta eftir ferð í kvikmyndahús kl. 1900. Hafi þeir líklega komið í Klúbbinn um kl. 2200 og verið þar, uns húsinu var lokað. Vitnið og Geirfinnur höfðu neytt einhvers áfengis, áður en þeir komu í Klúbbinn, og telur vitnið, að Geirfinnur hafi verið rétt kenndur.
Þeir urðu viðskila fljótlega, er í veitingahúsið kom, og sáust lítið, á meðan þeir höfðu þar viðdvöl. Vitnið veit ekki, við hverja Geirfinnur ræddi í veitingahúsinu, og sá hann ekki á tali við neina ókunnuga menn. Vitnið kveðst sjálft hafa orðið nokkuð ölvað.
Eftir dansleikinn hittust þeir þrír félagarnir aftur í bifreið þeirri, sem Þórður var með, og ók hann þeim til Keflavíkur. Vitnið minnist ekki neins sérstaks úr samræðum þeirra á leiðinni til Keflavíkur. Það man ekki til þess, að Geirfinnur hafi nefnt, að hann hefði hitt menn í Klúbbnum, er voru að falast eftir víni hjá honum, né yfirleitt, að hann hafi rætt um neitt óvenjulegt, sem fyrir hann hefði borið þar. Vitnið fór úr bifreiðinni fyrstur þeirra félaga við heimili sitt í Njarðvík og hitti Geirfinn ekki eftir þetta. Vitnið veit ekki til þess, að Geirfinnur hafi stundað ólöglegt athæfi, svo sem áfengissölu. Milli kunningja var hann kallaður Geiri. Vitnið kannast ekki við mann undir því nafni í Keflavík eða nágrenni, sem orðaður sé við áfengissölu. Vitnið veit ekki til að Geirfinnur þekkti ákærðu í máli þessu. Vitnið þekkir þá ekki sjálft og kannaðist ekki við þá af myndum , sem birtust í blöðunum.
Við Gunnar Svanur Hafdal, Kleppsvegi 68 hér í borg, hefur skýrt frá því, að það hafi kynnst Geirfinni Einarssyni og konu hans árið 1969, þegar það dvaldist í Keflavík.
Hafi það komið talsvert á heimili þeirra á Vallargötu 24 þar í bæ um tveggja ára skeið. Kunningsskapurinn eða samgangurinn minnkaði sennilega árið 1971. Hefur vitnið aldrei heimsótt þau að Brekkubraut 15, en hitt þau einu sinni eða tvisvar. Vitnið hitti Geirfinn í Klúbbnum sunnudaginn 17. nóvember 1974 um kl. 2330. Hann var þá staddur á efstu hæð hússins. Vitnið sá ekki áfengisáhrif á hon-
Bls. 335
um. vitnið talaði lítið við Geirfinn, eða í um 5 mínútur. Það spurði hann, með hverjum hann væri, og svaraði hann því þannig: "Ég er með kunningjum mínum". Vintið spurði með hverjum, en þá svaraði Geirfinnur: " Skiptir ekki máli". Þetta svar þótti vitninu undarlegt, en hugsaði ekkert frekar um það. Vitnið spurði Geirfinn síðan venjulegra frétta um vinnu hans og heimili. Fannst því gott hljóð í honum. Vitnið kveður leiðir þeirra Geirfinns fljótlega hafa skilist. Hafi það aðeins einu sinni séð hann aftur á dansgólfinu, en ekki talað frekar við hann. Vitninu virtist Geirfinnur vera kaldari í viðmóti en hann átti vanda til áður, en þó beri þess að geta, að langt hafi verið um liðið, síðan það hafði hitt hann, ef til vill eitt ár.
Vitnið Sigríður Marlmberg framreiðslumaður kveðst afgreiða á vínbar, sem er á 1. hæð í veitingahúsið Klúbbnum hér í borg. Vitnið skýrir frá því, að maður hafi komið að vínbarnum, að það heldur sunnudaginn 17. nóvember 1974, og það afgreitt hann. Vitnið man ekki eftir, hvað maðurinn keypti né heldur hvernig hann leit út. Það man ekki, hvort maðurinn var ölvaður. Vitnið sá myndir af Geirfinni Einarssyni og kveður manninn líkjast myndinni af honum frá árinu 1973. Vitnið segist muna, að maðurinn hafi borgað með ávísun. Það man ekki, hvort hann skrifaði sjálfur áfvísunina, en það hefði óskað, að hann sannaði hver hann væri, er hann skrifaði framsal á hana. Vitnið getur ekki alveg staðhæft, hvað maðurinn hét, en hann hét einhverju sjaldgæfu nafni, og gæti það vel hafa verið Geirfinnur. Maðurinn fór eitthvað að minnast á nafn sitt, og man vitnið örugglega, að hann sagði eitthvað á þá leið, að hann væri ekki síðasti geirfuglinn.
Vitnið man ekki eftir að hafa séð mann þennan aftur í veitingahúsinu. Vitnið varð ekki vart við, að aðrir væru í fylgd með honum.
Vitnið Guðný Sigurðardóttir kveður Geirfinn hafa farið til vinnu daginn eftir, mánudaginn 18. nóvember, um kl. 1000. Vitnið ræddi eitthvað við hann, áður en hann fór, og var hann eins og hann átti að sér, nema hvað hann var eftir sig eftir drykkjuna. Hann kom úr vinnu upp úr kl. 1800, og varð vitnið ekki vart við neitt óvenjulegt í fari hans, nema þá helst það, að hann bölvaði yfir því, að hann næði ekki af sér armbandi, sem vitnið átti og hann hafði sett á sig annað hvort á laugardaginn eða sunnudaginn áður. Vitnið man ekki til þess, að hann hafi rætt um Klúbbferðina, en þó kunni að vera, að hann hafi sagt því, að hann hefði hitt fleiri kunningjakonur þeirra þar.
Bls. 336
Vegna framburðar ákærða Sævars Marinós, eins og hér á eftir verður rakið, um, að hann hefði hringt til Geirfinns 18. nóvember 1974, var vitnið spurt um símhringinu þá, er þar greinir. Vitnið kveðst ekki minnast þess eða geta fullyrt, að Sigurður Jóhann hafi svarað í símann 18. nóvember 1974, en hins vegar hafi hann mjög oft svarað í símann, eins og barna væri vani. Minntist það þess stundum, að spurt hafi verið eftir Geirfinni, en hann ekki verið heima. Vitnið minnist þess ekki sérstaklega, að ókunnugir hafi hringt til Geirfinns, það hafi aðallega verið kunningjar og vinnufélagar hans, sem hringdu, og eins vinnuveitandi hans. Þó kom fyrir, að það kannaðist ekki við þá, sem hringdu, en það hefði ekki gert sér neina rellu út af því og ekkert spurt Geirfinn út í það. Það taldi þess skipti hafa verið sárafá. Vitnið vann ekki úti á þessum tíma og var því oftast heima við. Geirfinnur kom venjulega heim úr vinnu á tímabilinu kl. 1800 til kl. 1900 og borðaði. Vitnið minnist þess ekki að hafa farið út neinna sérstakra erinda hinn 18. nóvember, nema í verslanir til innkaupa fyrir heimilið. Í þeim tilvikum hafi Sigurður Jóhann og systir hans stundum verið ein heim, en þó oftast farið með því í verslanir.
Þriðjudaginn 19. nóvember fór Geirfinnur til vinnu eins og venjulega og kom heim upp úr kl. 1800. Þau borðuðu um kl. 1830 til 1900. Þegar þau höfðu lokið við að borða, líklega um kl. 1900, hringdi síminn, og minnir vitnið, að Geirfinnur hafi svarað. Vitnið heyrði ekki, hvað hann sagði í símann. Telur það, að þetta hafi verið stutt símtal. Vitnið spurði Geirfinn ekki, hver hefði hringt, og hann nefndi það ekki við vitnið, enda var slíkt ekki vani hans. Sé öruggt, að ekki hafi verið um annað símtal að ræða, á meðan það var heima. Geirfinnur fór síðan inn á bað að þvo sér. Um kl. 1930, þegar vitnið var að ljúka við að þvo upp, en Geirfinnur staddur á baðinu, kom hann skyndilega fram og sagði: "Hvað er að?" Vitnið segist hafa sagt: "Það er ekkert að". Hann hafi þá spurt: "Varstu ekki að öskra, eða mér heyrðist þú öskra, eins og verið væri að drepa þig". Hvorki útvarp né sjónvarp hafi verið í gangi og það ekki heyrt neitt. Það hafi farið út og aðgætt, hvort hljóð hefði geta borist að utan, og hið sama hafi Geirfinnur gert, en þau hafi einskis orðið vör. Geirfinnur gerði engar frekari athugasemdir við þetta, og var þetta þar með látið niður falla. Taldi vitnið, að hann hefði heyrt þetta inn um opinn glugga á baðherberginu. Sjálft kveðst vitnið ekki hafa heyrt neitt.
Bls. 337
Vitnið ætlaði að fá Geirfinn með sér í heimsókn til Sjafnar Traustadóttur, vinkonu sinnar. Hann vildi ekki koma með, lagðist upp í rúm og kvaðst ætla að lesa. Nokkru síðar fór vitnið á bókasafnið í Keflavík, er var opnað kl. 2000. Úr bókasafninu fór það til Sjafnar Traustadóttur og var þar nokkurn tíma, en hélt síðan aftur heim kl. 2030-2100. Var Þórður Ingimarsson þá kominn heim til þeirra. Sátu þeir Geirfinnur inni í stofu og voru að horfa á sjónvarp. Vitnið gaf þeim kaffi, og sátu þeir fram undir kl. 2200, en fóru þá að sýna á sér fararsnið. Minnir vitnið, að sonur þeirra, Sigurður Jóhann, hafi spurt Geirfinn, hvort hann mætti fara með, en Geirfinnur hafi svarað því neitandi og sagt, að hann ætlaði aðeins að skreppa út stutta stund. Gaf hann enga frekari skýringu á því, hvert hann væri að fara, og datt vitninu helst í hug, að hann ætlaði að skjótast út á verkstæði Ellerts Björns í Ytri-Njarðvík. Þegar þeir voru að ganga út, bað vitnið Geirfinn um að kaup fyrir sig vindlinga. Hann staldraði við og bað vitnið um peninga fyrir vindlingunum. Vitnið minnist þess að hafa látið hann hafa einn hundrað króna seðil og eitthvað af smápeningum. Þeir Geirfinnur og Þórður fóru á brott á bifreið Þórðar. Vitnið telur, að Geirfinnur hafi komið heim aftur um kl. 2215. Fór hann úr jakkanum, en rétt í því hringdi síminn. Svaraði sonur þeirra í símann og kallaði síðan í föður sinn. Sagði sonur vitnisins því síðar, að spurt hefði verið um Geirfinn með fullu nafni hans. Vitnið lá í rúmi inni í svefnherbergi, þegar hringt var, en síminn var frammi á gagninum. Vitnið heyrði, að Geirfinnur sagði í símann: "Ég kom" eða "Ég er búin að koma", og síðar í samtalinu sagði hann: "Ég kem". Telur vitnið, að þetta samtal hafi verið stutt og hafi það ekki heyrt Geirfinn segja annað í símann. Geirfinnur tók pípu sína og píputóbak þegar eftir samtalið, klæddi sig í úlpuna og fór út. Hann skýrði vitninu ekki frá því, hvert hann væri að fara, enda var hann ekki vanur að gera það. Geirfinnur ók á brott á Cortina bifreið sinni, Ö 1577, sem er rauð á lit. Vitnið kveðst ekki hafa séð Geirfinn eða frétt af honum eftir þetta.
Vitnið hefur gefið svofellda lýsingu á klæðnaði Geirfinns og útliti hans og ýmsu hann varðandi:
"Hann hefði verið í blárri mittisúlpu með áfastri hettu og á hettunni hefði verið grár loðkantur. Innan í hettunni hefði verið gráblátt loðfóður, og hún sagðist halda, að nær öruggt væri, að úlpan hefði verið fóðruð með sams konar fóðri og í hettunni.
Á úlpunni hefði verið rennilás og að skávasar hefðu verið á
Bls. 338
hliðum úlpunnar. Þá sagði hún, að á v. ermi hefði verið lítill vasi, sem á hefði verið rennilás.
Hann hefði verið í flöskugrænum flauelsbuxum með rennilás í buxnaklauf og tölu í buxnastreng.
Hann hefði verið í skyrtu, grænköflóttri, hálferma, hnepptri að framan og fall hefði verið í bakstykki skyrtunnar og sagðist Guðný hafa saumað fallið saman og þrengt þannig skyrtuna.
Þá sagðist hún hafa tekið sauma í skyrtuna undir höndum og þrengt hana þannig.
Hann hefði verið í stuttum nærbuxum, mislitum úr "Crepe".
Hann hefði verið í dökkum sokkum úr"Crepe".
Hann hefði verið í millibrúnum leðurskóm, sem hefðu náð upp á miðjan legg, og rennilás hefði verið á þeim innanfótar. Á skónum hefði verið frekar þunnur sóli (um ein tomma)og hællinn hefði verið aðeins hærri en sólinn.
Guðný sagði, að Geirfinnur hefði verið með svart seðlaveski og sagðist ekki hafa vitað til þess, að hann hefði verið með peninga Í veskinu hefði hann ávallt verið með 3 ökuskírteini, þ. e. gamalt skírteini, nýrra skírteini og skírteini varðandi gröfuréttindi. Þá sagðist hún halda, að í veskinu hefði verið nafnskírteini hans.
Hann hafði verið með reykjapípu, sem hefði verið með nokkuð stórum haus, aðeins bogin og munnstykki bogið. Munn stykkiðhefði verið svart og hausinn svartur eða allavega dökkur á lit.
Hann hefði verið með píputóbak, Raleigh. Hann hefði verið með armbandsúr, stálúr með ljósleitri skífu, úrið hefði verið nokkuð gamalt en tegund sagðist ekki vita. Á úrinu hefði verið leðuról, svört, sem hefði verið breið og komið undir úrið. Hún sagðist halda, að nær öruggt væri, að á ólinni hefðu verið málmbólur.
Guðný sagði okkur að Geirfinnur hefði ekki verið nema meðalmaður á hæð, eða um 175 cm. Hann hefði svarað sér vel á vöxt, hvorki feitur né grannur og verið um 80 kg á þyngd. Hann hefði verið skolhærður og hár, aðeins liðað og sídd hársins hefði verið um eyru. Hár og bartar námu við eyrnasnepla.
Hann hefði verið með nær allar sínar tennur og hefði tannlæknirinn í Keflavík, Garðar Ólafsson, gert við tennur hans.
Garðar tannlæknir hefði sent Geirfinn til einvers sérfræðings í Reykjavík, sem hefði skorið í tannholdið vegna þess, að
Bls. 339
tennur Geirfinns hefðu losnað. Ekki sagðist Guðný muna, hvenær það hefði verið".
Vitnið veit ekki til, að Geirfinnur hafi átt neina óvildarmennn. Hafi hann aldrei látið slíkt í ljós við sig. Vitninu er ekki kunnugt um, að Geirfinnur hafi þekkt ákærðu í máli þessu, og heyrði hann aldrei nefna jöfn þeirra. Vitnið heyrði hann heldur ekki nefna nöfn Sigurbjörns Eiríkissonar, Magnúsar Leópoldssonar, Valdimars Olsen og Einars Bollasonar og veit ekki til,að hann hafi þekkt þá. Það kveðst ekki vita til þess, að Geirfinnur hafi þekkt mann,. sem kallaður er Maggi og og það man ekki til þess að hafa heyrt Geirfinn tala um mann með því nafni.
Samkvæmt upplýsingum símstöðvarstjórans í Keflavík fékk Geirfinnur Einarsson síma tengdan 7. mars 1974. Var símanúmer hans 3157. Nafn Geirfinns og símanúmer birtist aldrei í símaskrá. Að því er Landssíminn hefur upplýst, er ógerlegt að segja um, hvort spurt hafi verið um símanúmer Geirfinns á framnagreindum tíma eða hver hafi gert það, ef svo hefur verið.
Vitnið Sigurður Jóhann Geirfinnsson hefur skýrt frá því, að hann hafi komið inn til sín milli kl. 2100 og 2200 umrætt kvöld og ekkert farið út eftir það. Það hafi heyrt dimma karlmannsrödd í símanum, er hringt var til Geirfinns, föður þess, framangreint sinn og hafi því fundist vera um ungan mann að ræða. Maðurinn hafi spurt, hvort Geirfinnur Einarsson væri heima. Það hafi svarað játandi og maðurinn þá óskað eftir að tala við hann. Hafi hann beðið manninn að bíða og síðan kallað "pabbi, pabbi". Það kveðst ekki hafa fylgst með því, hvað faðir þess talaði í símann, en rétt á eftir hafi hann farið út. Það hafi spurt föður sinn, áður en hann fór út í seinna skiptið, hvert hann væri að fara, en hann ekki viljað svara því. Þá hafi vitnið spurt, hvort hann mætti koma með, en faðir þess svaraði því neitandi.
Vitnið var sérstaklega spurt vegna framburðar ákærða Sævars Marinós um, að ákærði hefði hringt heim til Geirfinns hinn 18. nóvember 1974. Vitnið sagðist ekki muna eftir því að hafa svarað í símann þann dag og sagt, að faðir þess væri ekki heima. Það sagði hins vegar, að alloft hefði komið fyrir, að hringt hefði verið í símann og spurt eftir föður þess, en hann hefði ekki verið heima. Hann hefði annað hvort verið í vinnunni eða eitthvað brugðið sér frá. Það sagðist ekki geta fullyrt neitt um, á hvaða tíma þessi símtöl hefðu verið og því ekki geta sagt neitt um það, hvort hringt hefði verið hinn 18. nóvember 1974. Vitnið kvaðst
Bls. 340
hafa verið í skólanum alla virka daga frá kl. 0800 til kl. 1200 og stundum í aukatímum eftir hádegið, og telur nokkuð víst, að það hafi oftast á þessum tíma verið kominn inn kl. 1700 til 1800, en upp úr því hafi faðir þess venjulega komið úr vinnu.
Vitnið Þórður Ingimarsson kveður þá Geirfinn hafa hist daginn eftir að þeir fóru í Klúbbinn, enda hafi þeir verið að vinna á sömu vél. Minnist vitnið ekki neins óvenjulegs í fari Geirfinns og hann hafi ekki rætt um, að neitt óvenjulegt hefði fyrir sig borið. Annars ræddust þeir lítið við, þar sem þeir leystu hvor annan af á vélinni. Hið sama er að segja um næsta vinnudag, þriðjudaginn 19. nóvember. Að kvöldi þess dags, rétt fyrir kl. 2100, kom vitnið heim til Geirfinns og ætlaði að fá hann með sér í kvikmyndahús. Geirfinnur var einn heima, að vitnið telur. Þegar það bar upp erindi sitt, kvaðst hann ekki geta komið, þar eð hann væri að fara að hitta einhverja menn kl. 2200. Ætti hann að hitta þá við Hafnarbúðina í einhverri bifreið. Sagðist hann ekki vita, hverjir þessir menn væru og ekki heldur hvaðan þeir væru. Tók vitnið það þannig, að hann vildi ekki láta það vita um þetta. Fannst vitninu, að Geirfinnur ætlaði að hitta einhverja, sem hann þekkti eða hefði hitt áður. Ekkert kom fram hjá honum um það, að þetta stefnumót stæði í sambandi við ferð þeirra í Klúbbinn hinn 17. nóvember. Geirfinnur sagði vitninu, að hann hefði verið boðaður til þessa stefnumóts með símtali. Hann ætti að koma einn og gangandi og að honum þætti þetta dularfullt. Geirfinnur hafi talað um þetta fremur eins og í gríni og m. a. skotið því inn, að hann ætti e. t. v. að hafa með sér barefli. Fannst vitninu á honum hann telja stefnumót þetta vera gabb. Þá hafi hann talað um, að kona sín mætti ekki vita af þessu, og skildist vitninu, að það væri krafa þeirra manna, sem hann ætlaði að hitta, að enginn mætti vita um þetta. Ekkert ræddi hann um það, í hvaða skyni hann ætti að hitta mennina.
Vitnið og Geirfinnur sátu og horfðu á sjónvarp heima hjá Geirfinni fram undir kl. 2200. Þeir ræddu ýmis mál, m. a. tilhögun vinnu þeirra. Guðný, kona Geirfinns, kom heim, stuttu áður en þeir fóru þaðan, og gaf þeim kaffi. Vitnið man vel eftir Sigurði Jóhanni, syni Geirfinns, þarna. Vitnið ók Geirfinni í bifreið sinni Vatnsnesveg í austur og hleypti honum út að beiðni hans rétt hjá bílastöðinni við þá götu, en þaðan eru 100-200 metrar að Hafnarbúðinni. Ekkert kom frekar fram hjá Geirfinni um stefnumótið eða menn þá, sem hann ætlaði að hitta. Geirfinnur bað vitnið, áður en leiðir þeirra skildust, að taka sig með, þegar það
Bls. 341
færi í vinnuna suður í Sandgerði morguninn eftir. Vitnið sá Geirfinn ekki aftur, eftir að hann fór úr bifreiðinni. Það ók fram hjá Hafnarbúðinni, en síðan rakleitt heim til sín.
Geirfinnur var að sögn vitnisins klæddur stuttri, blárri nylonúlpu með hettu með loðkanti og grænleitum flauelsbuxum. Hann var í vinnuskóm, sem vitnið telur, að hafi verið ljósbrúnir.
Morguninn eftir, hinn 20. nóvember, kom vitnið heim til Geirfinns um kl. 0745, eins og um hafði verið talað milli þeirra kvöldið áður. Vitnið beið fyrst úti og gaf hljóðmerki, en fór síðan og hringdi dyrabjöllunni. Kom Guðný til dyra, og var hún á náttslopp. Hún sagði vitninu, að Geirfinnur hefði ekki komið heim um nóttina, og spurði, hvert það hefði ekið honum kvöldið áður og hvort það vissi, hvað hann hefði ætlað. Hún sagði vitninu, að hann hefði komið heim, eftir að það ók honum kvöldið áður, en farið aftur skömmu síðar. Vitnið man ekki, hvað þeim fór meira á milli, en hún hafði miklar áhyggjur af þessu.
Vitnið veit ekki til þess, að Geirfinnur hafi átt nokkra óvildarmenn, og sé það afar ólíklegt. Hann hafi verið mjög friðsamur og ekki líklegur til að stofna til áfloga. Hins vegar hafi hann verið vel byggður og hraustur. Meðal félaga var Geirfinnur kallaður Geiri. Vitnið heyrði Geirfinn aldrei nefna nöfn ákærðu í máli þessu og vissi ekki til þess, að hann þekkti þá. Hann nefndi ekki heldur, að hann ætti kunningja tengda veitingahúsinu Klúbbnum, og það heyrði hann aldrei tala um Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson, Valdimar Olsen eða Einar Bollarson.
Vitnið hefur aldrei heyrt neinn mann nefndan í Keflavík, sem kallast Geiri. Telur það öruggt, að það hefði heyrt mann þennan nefnda á vinnustað, ef hann hefði verið miðlari í sambandi við áfengi. Ekki kannast vitnið heldur við nein mann, sem kallaður er Maggi, og hafði aldrei heyrt Geirfinn nefna það nafn.
Vitnið kveðst aldrei hafa vitað til þess, að Geirfinnur væri með smyglað áfengi, en hins vegar vissi það, að hann fékkst við að brugga. Drakk vitnið hjá honum eimað áfengi og vissi, að hann var með eimingartæki um tíma heima hjá sér. Það taldi hins vegar, að þau tæki hefðu ekki verið á heimili hans, er hann hvarf.
Vitnið Sjöfn Traustadóttir, Nesvegi 7, Grundarfirði, hefur skýrt frá því, að þær Guðný Sigurðardóttir hafi verið og séu enn nánar vinkonur. Hafi þær trúað hvor annarri fyrir einkamálum sínum. Vitnið kveðst hafa komið á heimili þeirra Guðnýjar og Geir-
Bls. 342
finns hinn 19. nóvember 1974 milli kl. 1600 og 1700, beint úr vinnu í Hafnarbúðinni í Keflavík, en vitnið starfaði þar um þær mundir. Meðan það var við vinnu þennan dag, hafði dóttir þess verið í gæslu hjá Guðnýju. Þær vinkonurnar fóru um bæinn í innkaupaferð á bifreið þeirra Geirfinns og Guðnýjar. Um kl. 1730 til 1800 ók Guðný vitninu heim til þess, og þar varð dóttir Guðnýjar eftir. Um kl. 2000 eða skömmu eftir þann tíma þetta kvöld kom Guðný heim til vitnisins, og telur það sennilegt, að sonur Guðnýjar hafi verið með henni, því að ærsl hafi verið töluverð í börnunum, en slíkt hafi jafnan verið, þegar Sigurður Jóhann, sonur Guðnýjar, var með þeim telpunum. Guðný var að koma úr bókasafni bæjarins. Vitnið er ekki alveg visst um, hve lengi Guðný dvaldist hjá því, en telur, að hún hafi farið frá því með börn sín til kl. 2200.
Morguninn eftir, um kl. 0930, hringdi Guðný til vitnisins og var greinilega eitthvað miður sín. Hún bað vitnið að koma til sín, því að Geirfinnur hefði ekki komið heim um nóttina. Vitnið tók ekki mark á þessu tali Guðnýjar og fór ekki. Um kl. 1000 hringdi Guðný aftur til þess og spurði, hvort það væri ekki að koma. Vitnið kveðst þá hafa spurt Guðnýju að því, hvort þetta væri virkilega alvara, að Guðný sagði sem fyrr, að hann væri ókominn, og fór vitnið þá heim til hennar. Guðný var þá, að því er virtist í miklu uppnámi, gekk um gólf og virtist ekki geta verið kyrr. Hún sagði vitninu, að hún hefði verið að lesa í bók fram eftir nóttu. Þegar Geirfinnur kom ekki, hefði hún orðið óróleg og ekki getað fest svefn, enda hefði það aldrei komið fyrir áður, að Geirfinnur væri að heiman næturlangt, nema þá að hann hafiverið einhver staðar í vinnu. Þær Guðný og vitnið ræddu nú um það, hvað gera skyldi, og varð niðurstaðan sú að leita ekki strax til lögreglunnar, heldur hafa samband við vinnuveitanda Geirfinns, Ellert Björn Skúlason. Þær reyndu að ná tali af Ellert Birni, en tókst það ekki fyrr en einhvern tíma síðari hluta dagsins. Hann muni svo hafa tilkynnt lögreglunni um hvarf Geirfinns.
Vitnið kveðst hafa flutt á heimili Guðnýjar að ósk hennar strax eftir hvarf Geirfinns og búið um nokkurt skeið hjá henni. Þær hefðu mikið rætt sín á milli, hvað hefði getað komið fyrir Geirfinn, en hvorug þeirra geta ímyndað sér neitt um það. Þó
Bls. 343
voru þær báðar sannfærðar um, að Geirfinnur hefði ekki svipt sig lífi, það hefði verið fjarri honum.
Vitnið Guðlaug Konráðs Jónsdóttir, Melteigi 6, Keflavík, kveðst hafa verið við afgreiðslu í Hafnarbúðinni í Keflavík að kvöldi 19. nóvember 1974, en vitnið hafði þá starfað þar í tæp tvö ár. Mikið var að gera framan af kvöldinu, en upp úr kl. 2200 fór umferð að minnka um búðina. Þegar hægjast fór um í búðinni, kom Geirfinnur Einarsson inn, en vitnið getur ekki sagt um klukkan hvað það hefur verið. Vitnið var að horfa á sjónvarp þegar Geirfinnur kom inn. Hann keypti einn pakka af vindlingum og var með peninga í höndunum nákvæmlega fyrir þeim, þ. e. 100 kr. og einhverja smáaura. Einhver orðaskipti áttu sér stað milli vitnisins og Geirfinns, sem það þekkti. Kom hann nokkuð oft í búðina, enda vann þar Sjöfn Traustadóttir, kunningjakona hans og konu hans. Var hann oft vanur að setjast niður og rabba við þær. Minnir vitnið, að það hafi spurt hann eitthvað á þá leið, hvað hann væri að flýta sér, því að vitninu fannst eins og hann væri á óvenju hraðri ferð, en það var ólíkt því, sem hans var vani. Vitnið minntist þess ekki, að hann hefði svarað þessu, heldur aðeins glott og farið rakleitt út. Rétt upp úr þessu fór að fjölga aftur í búðinni, og voru það aðallega sjómenn af bátum í höfninni, sem komu inn og vitnið þekkti. Tíu til fimmtán mínútum eftir að Geirfinnur kom í búðina, kom maður nokkur þar inn og hagaði hann sér allundarlega. Gekk hann fram og aftur eftir ganginum, virtist órólegur og horfði mikið í afgreiðsluborðið, sem er úr gleri og þar útstillt sælgæti o. fl. Vitnið spurði manninn, hvort nokkuð væri hægt að gera fyrir hann, og svaraði hann því þannig: "Ég ætla ekkert að fá, ég ætla að doka við", eða eitthvað þess háttar. Litlu síðar bað hann um að fá lánaðan síma, og sagði vitnið honum að gera svo vel Maðurinn fór að símanum, hringdi án þess að nota símaskrá, en talaði stutt í símann. Vitnið kveðst ekki haf veitt þessu neina sérstaka athygli og ekki heyrt, hvað hann sagði. Eftir símtalið lagði maðurinn peninga á borðið og gekk rakleiðis út. Síðar í framburðinum sagði vitnið, að maðurinn hefði verið mjög stutta stund í símanum. Það hafi jafnvel talið líklegt, að hann hafi ekki fengið svar, að minnsta kosti hafi það ekki heyrt hann tala. Vitninu kom maður þessi þannig fyrir sjónir, að það hefði séð hann áður, en gat ekki áttað sig frekar á því. Maðurinn var í leður- eða leðurlíkisjakka, brúndröppuðum að lit, með belti, sem hékk laust, og í ljósum tweed buxum.
Bls. 344
Vitnið hefur lýst manni þessum svo, að hann hafi verið grannur, um 1.80 cm að hæð, fremur þykkur til herðanna, með dökkskollitað hár, ljós yfirlitum, augabrúnir miklar og svolítið sambrýndar og nef frekar stórt. Húð hans hafi virst heilbrigð, en andlitsfall grófgert og hann rauður í kinnum. Augu mannsins hafi verið frakar innarlega í höfðinu og mjög sterkur augnsvipur. Maðurinn brosti eða glotti, þegar hann talaði. Hann kom vel fyrir, og var ekki að merkja neitt annarlegt við hann, hvorki af völdum áfengis- né lyfjanotkunar.
Vitnið kveðst hafa mætt í sakbendingu hjá rannsóknarlögreglu, en ekki séð neinn mann þar, sem það taldi vera umræddan mann. Það kveðst hafa séð, að ákærði Kristján Viðar var í öðrum hópnum við sakbendingu, en það hafði séð hann áður og vissi, hver hann var, því að vitninu hafði verið bent á hann, þegar hann kom eitt sinn í Hafnarbúðina ásamt ákærða Sævari Marinó, löngu áður en Geirfinnur hvarf. Vitnið segir, að framangreindur maður hafi ekki verið ákærði Kristján Viðar. Hins vegar kunni ákærði Kristján Viðar að hafa komið þarna og hringt umrætt kvöld, án þess að það veitti því athygli, enda hafi margir fengið að hringja í Hafnarbúðinni þetta kvöld. Vitninu voru sýndar myndir af ákærðu í máli þessu. Vitnið kannast við myndir af ákærðu Kristjáni Viðari og Sævari Marinó, en það telur sig ekki hafa séð þá í Hafnarbúðinni framangreint kvöld. Vitninu finnst einnig, að það hafi séð ákærða Guðjón, en veit ekki hvar.
Vitnið kveður ekki hafa verið haft neitt samráð við sig við gerð leirmyndar af manni þeim, sem kom í Hafnarbúðina umrætt sinn. Hafi þvi verið sýndar ýmsar myndi, m. a. af Magnúsi Leópoldssyni. Það hafi sagt lögreglunni, að maðurinn hafi ekki haft ósvipað höfuðlag og svip og Magnús, en að hafi þó engan veginn bent á hann. Vitnið hefur grun um, að við gerð leirmyndarinnar hafi verið miðað við mynd af Magnúsi, án þess að það væri á nokkurn hátt gert eftir ábendingu þess. Hafi það fyrst vitað um styttuna, eftir að hún hafði verið gerð og ekki séð hana, fyrr en mynd birtist af henni í sjónvari. Vitninu var lesinn framburður ákærða Kristjáns Viðars fyrir dómi um komu hans í Hafnarbúðina að kvöldi 19. nóvember 1974. Af því tilefni segir vitnið, að það hafi notað tvo sloppa við afreiðslu í búðinni, blágrænan og hvítan. Telji hún það líklegast, að það hafi verið í þeim blágræna umrætt sinn.
Vitnið Ásta Elín Grétarsdóttir, Vesturgötu 13, Keflavík, kveðst hafa verið statt í Hafnarbúðinni í Keflavík að kvöldi þriðjudags-
Bls. 345
ins 19. nóvember 1974. Vitnið kom þangað snemma um kvöldið og sat fram eftir. Lítið var um að vera í búðinni þetta kvöld. Þar var sjónvarp í gangi, en vitnið horfði lítið á það. Vitnið man eftir, að Geirfinnur Einarsson, sem það kannaðist við, kom inn í búðina. Hann keypti eitthvað, og afgreiddi Guðlaug hann. Vitnið getur ekki sagt um, hvenær kvöldsins þetta var né hve lengi hann hafði viðdvöl. Nokkru eftir að Geirfinnur var farinn , veitti það því athygli, að ókunnugur maður kom inn í Hafnarbúðina. Þar sem vitnið telur sig kannast við flesta í Keflavík, álítur það, að þetta hafi verið utanbæjarmaður. Vitnið veitti manni þessum nokkra athygli. Hann gekk að símanum, sem er fyrir innan afgreiðsluborð, og fékk að hringja. Hann talaði stutta stund í símann, og heyrði vitnið ekki, hvað hann sagði. Eftir símtalið gekk hann að afgreiðsluborði, að vitnið telur til að greiða símtalið, en hélt síðan rakleitt á brott.
Vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega eftir útliti mannsins eða klæðnaði, er það var yfirheyrt í dómi. Í lögregluskýrslu hefur það lýst klæðnaði hans svo, að hann hafi verið í gulbrúnum leðurjakka, sem var beinn niður í sniði, með belti, sem lafði niður, og hafi jakkinn verið óhnepptur. Þá hafi það séð, að maðurinn var með belti við buxur sínar. Vitnið kveðst hafa séð framan í manninn örstutta stund, þegar hann var að ganga út. Vitnið kveðst ekki hafa getað lýst umræddum manni nema að mjög litlu leyti fyrir lögreglu, þar sem mál þetta hafi fengið mjög á sig og það hafi þurrkað út úr huga sínum allt því viðkomandi. Í lögregluskýrslu lýsir það manninum svo, að hann hafi verið svolítið rauður í kinnum, með skollitað hár og hafi framkoma hans verið örugg. Vitnið man ekki, hvort maðurinn var hávaxinn eða lágvaxinn. Vitnið kveðst eitthvað hafa verið til ráðuneytis við gerð leirmyndarinnar af manninum, en það hafi verið ósátt við munnsvipinn á myndinni og einnig hafi hárið verið of snyrtilegt. Vitnið staðfesti lýsingar þess á manninum fyrir dómi.
Vitnið mætti tvisvar við sakbendingu hjá lögreglu, en ekki sá það neinn í þeim hópum manna, er þar voru, sem það taldi sig geta bent á sem mann þann, er komið hafði í Hafnarbúðina umrætt sinn og hringt. Að því er varðar munnsvip mannsins, sem kom í Hafnarbúðina, kveðst vitnið ekki geta lýst honum, en sér hafi fundist hann vera sérstæður og ekki eins og leirmyndin sýni. Vitninu voru sýndar myndir af ákærðu Kristjáni Viðari, Sævari Marinó og Guðjóni. Getur vitnið ekkert sagt um það,
Bls. 346
hvort einhver þessara mynda líkist manni þeim, sem kom í Hafnarbúðina. Það segir, að því hafi fundist ákærða Kristjáni Viðari svipa til leirmyndarinnar, er það sá mynd af honum í Dagblaðinu.
Vitninu var sýnd til samanburðar leirmyndin og myndir af ákærða Kristjáni Viðari. Sagði það, að ef munnsvipur Kristjáns Viðars væri settur á leirmyndina, mundi sá maður líkjast meira manni þeim, sem kom inn í Hafnarbúðina. Hins vegar fannst vitninu maðurinn vera eldri en ákærði Kristján Viðar, eða 20-25 ára.
Vitnið Hrefna Björg Óskarsdóttir, Hringbraut 45, Keflavík, kveðst hafa verið statt í Hafnarbúðinni í Keflavík að kvöldi 19. nóvember 1974 ásamt Jóni Péturssyni og Jóhanni Guðfinnssyni á tímabilinu frá kl. um 2130 til 2330. Hafi þau setið þar við borð úti við glugga. Vitnið þekkti ekki Geirfinn Einarsson í sjón og getur ekkert um það sagt, hvort hann kom í Hafnarbúðina á þessu tímabili. Vitnið sá þrjá til fjóra menn koma inn í Hafnarbúðina, hvern í sínu lagi, á fyrrgreindu tímabili til að fá að hringja. Það getur ekki lýst þessum mönnum, nema einn þeirra var ungur 20-30 ára að aldri, með yfirvaraskegg og í bláum hvítteinóttum jakka. Vitnið minnir, að einn þessara manna hafi veirð í brúnum leðurlíkisjakka, en getur ekki lýst honum frekar. Það þekkti engan þessara mann og hefur ekki séð neinn þeirra síðar. Vitnið man ekki eftir að hafa séð tvo menn koma saman inn í Hafnarbúðina, annan hávaxinn, en hinn lágvaxinn. Vitninu voru sýndar myndir af ákærðu Guðjóni, Krisjáni Viðari og Sævari Marinó. Það kveðst ekki geta staðhæft, hvort einhver þeirra hafi komið í Hafnarbúðina umrætt sinn til að hringja.
Vitnið Jóhann Guðfinnsson, Suðurvör 4, Grindavík, hefur skýrt frá því, að það hafi verið vélstjóri á m/b Arney, KE 50. Báturinn lagði upp í Keflavík veturinn 1974 til 1975, og kom vitnið þá oft í Hafnarbúðina þar í bæ. Vitnið var statt í Hafnarbúðinni 19. nóvember 1974 á tímanum frá kl. 2100 til 2300. Vitnið gaf sig fram við lögregluna, þegar auglýst var eftir þeim, sem hefðu verið í Hafnarbúðinni kvöld það, er Geirfinnur Einarsson hvarf. Vitnið kveðst hafa setið við borð í veitingasalnum í Hafnarbúðinni við austurvegg, um það bil fyrir salnum miðjum, og snúið baki að afgreiðsluborði og símanum. Með vitninu voru Hrefna Óskarsdóttir og skipsfélagi þess Jón Guðni Pétursson. Vitnið kannaðist ekki við Geirfinn Einarsson og veit ekki, hvort
Bls. 347
hann kom í Hafnarbúðina þetta kvöld. Fólk var alltaf að koma þar inn, og kveðst vitnið ekki hafa veitt því sérstaka athygli. Vitninu voru sýndar myndir af ákærðu Kristjáni Viðari og Sævari Marinó. Vitnið kveðst ekki geta sagt um, hvort menn þessir hafi komið inn í Hafnarbúðina. Þá voru vitninu sýndar myndir af Geirfinni Einarssyni. Kveðst það ekki minnast þess að hafa nokkurn tíma séð hann. Vitnið veitti ekki neinum mönnum sérstaka athygli, sem hringdu úr Hafnarbúðinni. Vitnið minnir fastlega, að afgreiðslustúlkurnar í Hafnarbúðinni hafi verið í ljósbláum afgreiðslusloppum.
Vitnið Ellert Björn Skúlason kveðst ekki hafa hitt Geirfinn, eftir að hann fór í Klúbbinn 17. nóvember 1974, og vissi ekkert um þá ferð, fyrr en eftir að Geirfinnur hvarf. Einhvern tíma fyrir hvarf Geirfinns var hringt á heimili vitnisins og spurt um símanúmer Geirfinns. Eiginkona vitnisins svaraði í símann og sagði þeim, er hringdi, að hún vissi ekki um númerið. Hafi maðurinn þá orðið ókurteis. Ekki er unnt að tímasetja nákvæmlega, hvenær dags þetta var, en það hafi þó verið síðdegis eða fyrri hluta kvölds einhvern tíma skömmu fyrir hvarf Geirfinns. Vitnið veit ekki til, að Geirfinnur hafi þekkt ákærðu í máli þessu, og sjálft hafði vitnið ekki heyrt nöfn þeirra, fyrr en mál þetta kom til sögunnar. Vitnið veit ekki heldur til, að Geirfinnur hafi þekkt Einar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson eða Valdimar Olsen og heyrði hann ekki ræða um þá. Geirfinnur var oft kallaður Geiri meðal kunningja og vina. Eftir að mál þetta kom upp, kveðst vitnið hafa heyrt orðasveim um, að ákveðinn maður í Keflavík, sem kallaður er Geiri, hafi stundað spíraviðskipti eða fengist eitthvað við slíkt. Kveðst vitnið hafa gefið rannsóknarlögreglunni upp nafn í þessu sambandi, sem það muni ekki lengur. Vitninu var sýndur blýantur sá, sem ákærði Kristján Viðar kveðst hafa tekið úr vasa Geirfinns. Vitnið kannast ekki við blýanta af þessari gerð og telur, að hann sé ekki frá fyrirtæki sínu. Hafi fyrirtækið eingöngu látið starfsmenn sína frá kúlupenna.
Vitnið Elín Guðnadóttir, eiginkona Ellerts Björns Skúlasonar, hefur skýrt frá því, að það hafi rifjast upp fyrir sér, að einhvern tíma í kringum hinn 19. nóvember 1974 hafi hringt heim til þess maður, sem hafi spurt, hvort það gæti gefið honum upp símanúmer Geirfinns Einarssonar. Vitnið kveðst hafa svarað manninum því, að það vissi ekki símanúmer Geirfinns. Hafi hann þá orðið hranalegur, látið falla einhver ónot og sagt í framhaldi
Bls. 348
af því, að það væri óvenjulegt, að vinnuveitandi vissi ekki símanúmer manna sinna. Síðan hafi maðurinn skellt símanum á. Vitnið kveðst halda, að maður þessi hafi fyrst spurt um Geira, en kunningjar og vinnufélagar hafi nefnt Geirfinn Geira. Vitnið man ekki eftir rödd mannsins, en telur, að þetta hafi verið ungur maður, og var hann ekki ölvaður. Vitnið heldur, að þetta hafi verið um kl. 1700 að degi einhverjum dögum fyrir hinn 19. nóvember, en þó ekkert geta fullyrt um það.
Bifreið Geirfinns Einarssonar, Ö 1577, sem er rauð Cortina af árgerð 1970, fannst við verslunina Járn & Skip við Víkurbraut í Keflavík miðvikudaginn 20. nóvember 1974. Vitnið Ellert Björn Skúlason kveðst hafa fundið bifreiðina. Hafi sporhundur rakið slóð Geirfinns frá bifreiðinni að Hafnarbúðinni, en síðan ekki getað fundið hana aftur. Vitnið kveðst hafa athugað bifreið Geirfinns, áður en lögreglan framkvæmdi rannsókn á henni. Lögreglumenn tóku bifreiðina og fluttu hana á slökkvistöðina í Keflavík. Þar var reynt að ná fingraförum af henni bæði utan og innan, en án árangurs. Rækileg leit var gerð í bifreiðinni, en ekkert kom í ljós, sem bent gæti á, hver afdrif Geirfinns hefðu orðið.
Þeir Sigurður Kristinsson, Faxabraut 73, og Sævar Sigurðsson, Smáratúni 18, Keflavík, hafa skýrt frá því, að þeir hafi verið að vinna í húsi Olíusamlags Keflavíkur að kvöldi 19. nóvember 1974. Að vinnu lokinni stimpluðu þeir sig út kl. 2234. Héldu þeir síðan rakleitt frá húsinu á bifreið fyrirtækisins, er Sævar ók.
Sigurður hefur skýrt frá því, að þegar þeir komu að húsi Kaupfélags Suðurnesja, sem er skáhallt á móti húsi Olíusamlagsins við Víkurbraut, hafi þeir séð bifreið Geirfinns Einarssonar, sem þeir þekktu. Stóð bifreiðin á horni við girðingu, sem er við húsið. Var þetta bifreið af Cortina gerð, sem vitnið minnir, að hafi verið dökkgræn. Hafði Sævar orð á því, að þetta væri bifreið Geirfinns. Telur vitnið, að þetta hafi verið um það bil mínútu eftir að þeir stimpluðu sig út. Enginn var í bifreiðinni eða við hana.
Sævar kveðst þá þegar, er þeir óku frá húsinu, hafa veitt athygli bifreið af Cortina gerð, sem stóð við hús Kaupfélagsins á Víkurbraut. Stóð bifreiðin rétt við horn girðingar, sem er við húsið. Þegar þeir óku fram hjá bifreiðinni, þekkti vitnið einkennisnúmer hennar og að þetta væri bifreið Geirfinns Einarssonar, en vitnið kannaðist við hana í sjón. Vitnið minnist þess
Bls. 349
ekki, að annar hvor þeirra Sigurðar hafi haft orð á því, að þarna væri bifreið Geirfinns. Bifreiðin var, að sögn vitnisins, dökkrauð á lit. Það kveðst enga hreyfingu hafa séð, hvorki við bifreiðina né í henni.
Um veður á Keflavíkurflugvelli að kvöldi 19. nóvember 1974 segir svo í vottorði Veðurstofunnar:
"Kl. 18.00 var SA 5 vindstig, skýjað, 30 km skyggni, hiti 5.3 C° og jörð alauð, en frosin og þurr.
Kl. 21.00 var S 6 vindstig, úði og regn, 11 km skyggni og hiti 6.0 C°.
Kl. 24.00 var SV 5 vindstig, úði á síðustu klukkustund, 16 km skyggni og hiti 4.8 C°."
Við rannsókn málsins hefur komið fram, að maður, kunnugur Geirfinni, kveðst hafa hringt til hans um kvöldmatarleytið 18. nóvember árið 1974 og spurt hann, hvort hann hefði tök á að eima spíritus, er sjór hefði komist í, en hann hafði heyrt, að Geirfinnu fengist við að brugga. Geirfinnur lofaði að athuga málið. Síðan símtal þetta átti sér stað, kveðst maður þessi ekki hafa haft samband við Geirfinn.
Vitnið Guðný Sigurðardóttir hefur skýrt frá því, að Geirfinnur hafi sagt henni frá símtali við framangreindan mann. Kvað Geirfinnur manninn hafa farið þess á leit við sig, að hann athugaði, hvort unnt væri að eima spíritus, sem sjór hefði komist í. Geirfinnur hefðf ætlað að athuga málið, en ekkert orðið úr þessu.
Enn fremur skýrði vitnið Guðný frá því í yfirheyrslu 12. febrúar 1976, að það héldi, að það væru ein 5 ár síðan þau Geirfinnur byrjuðu að "leika sér að því" að leggja í og búa til vín úr sykri og geri. Fékk Geirfinnur lánuð tæki til að sjóða þetta, en svo voru þau tekin til baka og urðu ónýt. Þá fengu þau lánuð önnur tæki, alveg ný, hjá vinnnufélaga Geirfinns, sem býr í Ytri-Njarðvík. Var þetta á að giska 50 lítra mjólkurbrúsi, einhver rör og slöngur tilheyrandi honum. Var hægt að sjóða í þessu. Tækjunum höfðu þau skilað, áður en Geirfinnur hvarf.
Vitnið Sverrir Lúthersson, Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði, gaf sig fram við rannsóknarlögregluna 23. júní 1976 og gaf skýrslu, sem er í megindráttu má þessa leið:
Vitnið kveðst hafa veirð að vinna við Sigöldu á tímabilinu september-desember 1973 ásamt Geirfinni Einarssyni. Þeir höfðu ekki þekkst áður, en vitnið kynntist honum vel. Geirfinnur var lipur, prúður og skarpduglegur. Kom hann sér vel hjá
Bls. 350
verkstjóra þeirra. Einhverju sinni, þegar komið var fram í október, e. t. v. seint í þeim mánuði, varð vitnið vart við, að tveir menn komu að hitta Geirfinn.
Skömmu síðar var vitnið statt niðri í borðsal og heyrði þá, að einn maður úr starfsliðinu var að tala við Geirfinn. Var þetta á tímabilinu frá kl. 2200-2330 og mennirnir þá nýfarnir. Maðurinn og Geirfinnur voru að tala saman um eitthvað varðandi menn þá, sem heimsótt höfðu Geirfinn. Heyrði vitnið, að Geirfinnur sagði, að hann hefði krafið þá um fjárhæð, sem það minnir, án þess þó að fullyrða það, að hafi verið þrjú til fjögur hundruð þúsund krónur. Vitninu fannst þetta vera talsverð upphæð fyrir að þegja yfir einhverju, sem það vissi þó ekki, hvað var. Vintið heldur, að Geirfinnur hafi sagt manninum, yfir hverju hann ætti að þegja. Það telur, að maðurinn hafi eitthvað verið kunnugur hinum mönnunum tveimur, hvernig svo sem sá kunnugleiki hefur verið. Vintið getur enga lýsingu gefið á þessum manni. Það veit ekki um aldur hans og ekki í hvaða starfi hann var. Man það ekki, hvort það sá hann nokkurn tíma eftir þetta. Þetta var Íslendingur, eða a. m. k. var ekki annað að heyra á málfari hans.
Vitnið sá aldrei hina tvo mennina, en vissi, að þeir komu í einhverjum bíl upp eftir. Vitnið man ekki lengur, hvernig það vissi, að þessir menn hefðu komið. Það var eitthvað talað um það, en hverjir voru að tala um það, man það ekki. Vitnið heyrði einnig á tali mannsins og Geirfinns, að tveir menn hefðu komið að hitta hann. Vitnið hefur ekki hugmynd um, hvað menn þessir vildu Geirfinni. Geirfinnur féll mikið í áliti hjá vitninu, þegar það heyrði þetta samtal eða slitrur úr samtali, og því festist það í huga þess. Vitnið var ekki mjög langt frá þeim Geirfinni í matsalnum, þegar þeir voru að tala um þetta. Veit vitnið ekki, hvort þeir tóku eftir vitninu eða héldu, að það mundi ekki heyra til þeirra. Vitnið gerði enga tilraun til að hlusta á samtalið, þar sem því fannst efni þess ekki koma því við og tók því ekki eftir öllu, sem þeim Geirfinni fór á milli. Vitnið man ekki, hvort það fór út á undan mönnunum eða þeir á undan því. Það var eitthvað fleira fólk í salnum, en hverjir það voru eða hvort nokkrir voru nær þeim en vitnið, man það ekki. Þetta kom illa við vitnið, þar sem því fannst Geirfinnur svo heilsteyptur og duglegur að hjálpa, ef á þurfti að halda. Vitnið heyrði ekkert um það, hvort Geirfinnur hafði fengið nokkra peninga eða hvort hann ætti að fá það, enda var það stutta stund í nálægð mannanna. Geirfinnur
Bls. 351
nefndi þessa heimsókn aldrei við vitnið, og það heyrði aldrei neitt meira um hana.
Vitnið Einar Jónsson verkstjóri, Litlu-Tungu 2, Holtahreppi í Rangárvallasýslu, kveðst hafa þekkt Geirfinn vel og unnið mikið með honum, fyrst í Búrfelli 1966-1968, síðan við Vatnsfell 1970 og að lokum við Sigöldu 23. október 1973 og hafi Geirfinnur komið til starfa nokkrum dögum síðar. Það telur einnig víst, að Sverrir Lúthersson hafi byrjað að vinna á svipuðum tíma og Geirfinnur. Vitnið segir, að Geirfinnur hafi verið einstakur vélamaður og félagi, sérstaklega prúður, en dulur og fámáll. Það hafi aldrei orðið vart við óreglu á honum, þegar hann var að vinna þarna. Hefði slíkt örugglega ekki farið fram hjá því, enda vann Geirfinnur undir stjórn þess. Geirfinnur mætti ávalt vel til vinnu. Vitnið segist aldrei hafa orðið þess vart, að Geirfinnur væri ruddalegur með víni, og ekki hafa heyrt um slíkt. Vitnið kveðst muna eftir því, að eftir að Geirfinnur var hættur snemma á árinu 1974, hafi hann stundum komið inn að Sigöldu og unnið þar fríhelgar og þá mjög mikið. Vitnið minnist þess ekki, að Geirfinnur hafi fengið heimsókn í Sigöldu haustið 1973, og telur öruggt, að það hefði ekki farið framhjá því eða öðrum, sem með þeim unnu, ef svo hefði verið, enda hefðu verið þarna á þeim tíma um 40 manns og heimsóknir taldar til tíðinda. Vitnið kveður starfsmennina oftast hafa verið í kaffiskálanum á kvöldin. Hafi menn setið þarog rabbað saman eða þá tekið í tafl og spil.
Vitnið Sverrir Karlsson, Jaðarsbraut 31, Akranesi, kveðst hafa kynnst Geirfinni við Sigöldu árið 1973, en kynni þeirra hafi ekki verið mikil. Vitnið telur ólíklegt, að það hefði farið fram hjá mönnum þarna, hefði Geirfinnur fengið heimsókn, og sjálft muni það ekki eftir neinni heimsókn á þessum tíma. Vitnið kveðst aldrei hafa orðið vart við smyglað áfengi í Sigöldu, hvorki um þessar mundir né síðar. Það viti til þess, að Geirfinnur hafi bragðað áfengi þarna eftir vinnutíma, en örugglega hafi það ekki komið niður á vinnunni. Geirfinnur hafi ekki blandað sér mikið í samræður manna, og telur vitnið, að hann hafi verið mjög dulur og fáskiptinn. Hins vegar kveðst það hafa tekið eftir því, að hann hafi orðið kátari, þegar hann bragðaði vín. Vitnið man vel eftir Sverri Lútherssyni og telur öruggt, að hann hafi ekki
Bls. 352
komið fyrr en seint í október eins og flestir hinna og unnið þarna í 4-5 vikur.
B. Rannsóknarlögreglan í Keflavík hafði frumrannsókna máls þessa á hendi, svo sem áður greinir. Stóð rannsóknin fram á árið 1975, en leiddi ekki í ljós, hver afdrif Geirfinns Einarssonar hefðu orðið. Þegar komið var fram í nóvember þetta ár, fékk rannsóknarlögreglan í Reykjavík upplýsingar, sem leiddu til þess, að hafin var að nýju rannsókn í svokölluðu "Póst- og símamáli", sem að framan hefur verið rakið. Voru ákærðu Sævar Marinó Ciesielski og Erla Bolladóttir, þá til heimilis að Þverbrekku 4, Kópavogi, handtekin og síðan úrskurðuð í gæsluvarðhald.
Við rannsókn þessa máls kom fram grunur um, eins og áður er rakið, að ákærðu Sævar Marinó, Kristján Viðar Viðarsson, Tryggvi Rúnar Leifsson og Albert Klahn Skaftason væru viðriðnir hvar Guðmundar Einarssonar, Hraunprýði í Blesugröf hér i borg, í Hafnarfirði 27. janúar 1974, og voru þeir úrskurðaðir í gæsluvarðhald af því tilefni.
Ákærða, Erla Bolladóttir, var látin laus úr gæsluvarðhaldi hinn 20. desember 1975. Samkvæmt skýrslu Eggerts Bjarnasonar rannsóknarlögreglumanns, dags. 10. mars 1976, kom ákærða um miðjan janúar 1976 til rannsóknarlögreglunnar og skýrði frá því, að hún hefði orðið fyrir ónæði af símahringingum og væri hrædd. Af því tilefni kom hún til viðtals að kvöldi hins 21. janúar í fangelsið við Síðumúla. Hún hefði skýrt frá því, að nokkrum sinnum undanfarna daga og nætur hefði verið hringt í síma móður hennar í Stóragerði 29, en þar dvaldist ákærða um þær mundir. Enginn hefði ansað í símann, er hún talaði, þótt svo virtist sem einhver væri í símanum. Einu sinni hefði þó verið svarað og hefði það verið karlmaður, sem óbeinlínis hefði haft í hótunum við sig. Maðurinn hefði spurt, hvort ákærðu fyndist hún ekki vera búin að gera nóg, og benti henni á að vara sig. Sagði hann, að henni væri þó óhætt fram að ákveðnum degi. Systir ákærðu, sem búsett er á Hawaii, dvaldist hjá móður þeirra um þessar mundir, en ætlaði af landi brott þennan dag. Taldi ákærða fremur ósennilegt, að einhver ókunnugur fjölskyldunni mundi tilgreina þennan ákveðna dag. Ákærða var margspurð, við hvern eða hverja hún teldi sig vera svona hrædda. Ákærða nefndi þá nöfn þriggja mann, þeirra Einars Bollasonar, bróður síns, Sigurbjörns Eiríkssonar og Jóns Ragnarssonar. Þegar ákærða var spurð, hvers vegna hún væri hrædd við þessa
Bls. 353
menn, sagði hún það vera í sambandi við svokallað "Geirfinnsmál".
Samkvæmt fyrrgreindri skýrslu Eggerts Bjarnasonar var rætt um þetta við ákærða Sævar Marinó Ciesielski. Honum var skýrt frá því, að Erla væri hrædd við einhverja menn, en honum á engan hátt gefið í skyn, hverjir það væru. Ákærði sagðist halda, að Erla mundi vera hrædd við ákveðna menn og taldi upp þá sömu og hún hafði nafngreint. Þá sagði ákærði, að þetta væri allt í sambandi við "Geirfinnsmálið", og skýrði frá því mjög á sama veg og Erla hafði gert.
Í framhaldi af þessu var tekin skriflega skýrsla af ákærða hinn 22. janúar og síðan af ákærðu Erlu næsta dag. Þá hafði komið fram, að ákærði Kristján Viðar Viðarsson væri við málið riðinn, og var því einnig tekin af honum skýrsla. Auk fyrrgreindra nafna koma fram í skýrslum ákærðu nöfn þeirra Magnúsar Leópoldssonar og Valdimars Olsen. Þeir Einar Bollason, Magnús Leópoldsson og Valdimar Olsen voru handteknir að morgni hins 26. janúar og úrskurðaðir í 45 daga gæsluvarðhald.
Rannsókn á hvarfi Geirfinns Einarssonar og smygls á áfengi í sambandi við það var síðan fram haldið. Framangreindir menn svo og ákærðu Sævar Marinó, Kristján Viðar og Erla voru maroft yfirheyrð, og í framhaldi af því var Sigurbjörn Eiríksson handtekinn hinn 10. febrúar og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Þeir Magnús, Valdimar, Einar og Sigurbjörn neituðu staðfastlega allri vitneskju um hvarf Geirfinns Einarssonar svo og vitneskju um áfengissmygl, sem á að hafa átt sér stað í Keflavík, eins og fram hafði komið í skýrslum. Þó viðurkenndu þeir Magnús, Valdimar og Einar að hafa keypt smyglað áfengi og Einar einnig að hafa selt slíkt áfengi.
Fljótlega eftir að rannsóknarlögreglan í Reykjavík hóf rannsóknina, var Haukur Guðmundsson, rannsóknarlögreglumaður í Keflavík, tilkvaddur, þar sem hann hafði aðallega unnið að rannsókn á hvarfi Geirfinns á sínum tíma. Honum var falið að kanna, hvort unnt væri að hafa upp á ökumönnum bifreiða þeirra, sem Erla Bolladóttir sagðist hafa farið með hingað til borgarinnar frá Keflavík. Eins var honum falið að reyna að finna á Suðurnesjum bát þann, sem hugsanlega hefði verið notaður til þess að flytja smyglað áfengi að landi. Ekki tókst að hafa upp á þessum ökumönnum né heldur hvaða bát kynni að hafa verið um að ræða. Haukur kannaði, hvaða hús það hugsanlega gæti verið, sem Erla Bolladóttir sagðist hafa falið sig í um nóttina, svo sem í framburði hennar greinir. Haukur taldi, að sennilegast væri um að ræða húsið "Rauðu Mylluna", sem stendur við Duusgötu skammt frá Dráttarbrautinni í Keflavík. Þetta er gamalt íbúðarhús úr timbri, sem á sínum tíma var notað sem verbúð, en er nú notað sem geymsla á ýmsu tilheyrandi útgerð. Haukur sagði, að hús þetta mundi hafa verið ólæst og mannlaust á þeim tíma sem Geirfinnur hvarf. Farið var með Erlu í þetta hús, og kvaðst hún vera þess fullviss, að hún hefði falið sig í því umrædda nótt. Benti hún á herbergi, sem er fjærst inngöngudyrunum til hægri og innst í húsinu.
Þau ákærðu Erla, Sævar Marinó og Kristján Viðar voru öll látin lýsa sjálfstætt staðháttum á þeim stað, sem þau sögðust hafa farið á og töldu vera í Keflavik. Lýsingar þeirra allra komu heim við staðhætti í og við Dráttarbraut Keflavíkur. Var þetta gert, áður en farið var með hvert þeirra fyrir sig til Keflavíkur og án þess að þeim hefði verið sagt fyrirfram, hvernig lýsing hinna hefði verið.
Rannsókn málsins hélt áfram allt árið 1976. Seinni part sumars það ár var þýski rannsóknarlögreglumaðurinn Karl Schütz fenginn til aðstoðar við rannsóknina, og vann hann að henni með íslenskum lögreglumönnum, uns henni lauk snemma á þessu ári.
Vegna framburða ákærðu Sævars Marinós og Kristjáns Viðars fyrir dómi síðar við meðferð málsins þykir nauðsyn til bera að rekja framburði ákærðu hjá rannsóknarlögreglu, áður en að dómsframburðum kemur, en framburðirnir hafa verið mjög breytilegir, svo sem þeir bera með sér.
C. Ákærði Sævar Marinó skýrði frá því í yfirheyrslu hinn 22. janúar 1976, að sér væri kunnugt um hvarf Geirfinns Einarssonar. Hann hafi verið á gangi einn á Laugavegi milli kl. 2200 og 2300 að kvöldi, nokkrum dögum áður en Geirfinnur hvarf, þegar bifreið hafi verið stöðvuð hjá sér og kallað til sín með nafni. Hafi þetta verið Einar Bollason, bróðir Erlu, sambýliskonu hans. Undir stýrir bifreiðarinnar hafi setið Magnús Leópoldsson og við hlið hans maður, sem þeir kölluðu Geirfinn. Ákærði þekkti ekki þá Magnús og Geirfinn. Komst hann að því, er hann sá myndir af Geirfinni í fjölmiðlum eftir hvarf hans, að um sama mann var að ræða og hann sá í bifreiðinni. Ákærði fór upp í bifreiðina til þeirra. Þeir Einar og Magnús fóru þess á leit við hann, að hann tæki að sér dreifingu á áfengi, sem verið væri
Bls. 355
að smygla hingað til lands. Ákærði kveðst hafa tekið vel í þetta og lofað að kanna það. Nokkrum dögum síðar hringdi Einar í ákærða að Grýtubakka 10 að kvöldlagi, og var Erla þá þar stödd. Sagðist Einar ætla að koma og ræða við ákærða. Kom hann skömmu síðar á rauðri Fiat bifreið, og voru með honum þeir Magnús Leópoldsson og Valdimar Olsen. Sögðust þeir vera á leið til Keflavíkur til að sækja áfengissendingu og spurðu ákærða, hvort hann vildi koma með. Féllst ákærði á það. Á leiðinni suður eftir var haldið áfram viðræðum við ákærða um sölu áfengisins. Þegar til Keflavíkur kom, töluðu þeir um að hitta Geirfinn. Skildist ákærða, að hann ætti að taka þátt í að nálgast áfengið, sem sækja þyrfti út í sjó. Staðnæmst var nálægt höfninni í Keflavík. Fóru þeir Magnús og Valdimar þar úr bifreiðinni, en ákærði og Einar urðu eftir, og var talað um að sækja þá Magnús og Valdimar eftir ákveðinn tíma. Sá ákærði þá halda í átt að höfninni. Ákærði og Einar óku því næst á brott. Ákærða skildist, að önnur bifreið hefði og farið til Keflavíkur. Þeir Einar og ákærði óku um í nágrenni Keflavíkur í 1-2 klukkustundir, en héldu síðan aftur inn í Keflavík. Hittu þeir þar Magnús, en Valdimar var ekki með honum. Kom Magnús upp í bifreiðina ogsagði, að þetta hefði "reddast", og átti þá við, að þeir hefðu getað nálgast áfengið, en slys hefði orðið. Hefði Geirfinnur fallið útbyrðis og drukknað. Magnús ræddi þetta ekki nánar, en sagði, að hollara væri fyrir ákærða að nefna þetta ekki við nokkurn mann. Því næst var ekið aftir til Reykjavíkur, og fór ákærði úr bifreiðinni heim hjá móður sinni að Grýtubakka 10. Sögðust þeir Einar og Magnús mundu hafa samband bráðlega við ákærða varðandi áfengisdreifinguna.
Nokkrum dögum eftir þetta hringdi Einar til ákærða og spurði hvernig gengi að koma áfenginu út. Ákærði sagðist ekki vera búinn að athuga það endanlega, en þá var búið að lýsa eftir Geirfinni í fjölmiðlum, og ákærða leist ekki á að eiga viðskipti við þá félaga. Sagðist ákærði mundu hafa samband við Einar síðar, en það hafi hann aldrei gert. Ákærði kveðst ekki hafa látið lögreglunni í té upplýsingar um það, er hann vissi um hvarf Geirfinns, af ótta við hefndarráðstafanir. Þau Erla hafi farið til Kaupmanbnahafnar nokkru síðar.
Hinn 25. janúar sagðist ákærði vilja breyta fyrr skjýrslu sinni að nokkru og bæta við hana. Kvað hann nú Erlu, er stödd hefði verið hjá Einari, hafa hringt til sín framangreint sinn að Grýtubakka 10 og spurt sig að beiðni Einars, hvort hann væri búinn
Bls. 356
að kanna möguleikana á dreifingu áfengisins. Þá skýrði ákærði frá því, að Erla hefði verið í bifreiðinni með þeim Einari og Magnúsi, en ekki Valdimar Olsen, þegar þeir komu að sækja hann að Grýtubakka 10 umrætt sinn, svo og ákærði Kristján Viðar Viðarsson. Hafi þau verið að fara á bifreiðinni til Keflavíkur til að sækja áfengi, sem koma ætti þar á land. Þegar til Keflavíkur kom, hafi verið ekið niður að bryggju, sennilega við slippinn. Við hana var trilla, um 10 smálestir. Þarna voru fyrir tvær bifreiðar, fólksbifrieð og stór sendibifreið, sem stóð efst á bryggjunni. Við bifreiðarnar eða í þeim hafi verið menn. Erla sagði ákærða síðar, að þarna hefðu verið Geirfinnur Einarsson og Valdimar Olsen. Hafi þau Magnús, Erla og Kristján Viðar farið út á bryggjuna, enda hefði Erla spurt Magnús, hvort ekki væri í lagi, að hún færi með í sjóferðina. Ekkert var því til fyrirstöðu, og fóru þau öll út í bátinn. Þeir ákærði og Einar fóru út úr bifreiðinni rétt á eftir hinum, en héldu ekki út á bryggjuna. Þarna voru fleiri menn, sem bæði virtust vera úr sendibifreiðinni og fólksbifreiðinni. Auk þeirra þriggja fóru þrír karlmenn sem ákærði bar ekki kennsl á, út í bátinn, og var einn þeirra Geirfinnur. Báturinn sigldi síðan frá bryggjunni. Rétt á eftir fóru þeir Einar aftur inn í bifreiðina og óku á brott.
Þegar þeir komu aftur, var báturinn kominn að bryggjunni. Var verið að skipa upp úr honum og setja inn í sendibifreiðina. Þeir ákærði og Einar fóru út úr bifreiðinni og gengu niður í flæðarmálið. Ákærði sá að verið var að taka eitthvað úr bátnum og setja inn í sendibifreiðina. Þeir ákærði og Einar fóru út úr bifreiðinni og gengu niður í flæðarmálið. Ákærði sá, að verið var að taka eitthvað úr bátnum og setja í sendibifreiðina, en ekki sá hann, hvað það var. Síðar sagði Erla ákærða, að náð hefði verið í töluvert mikið magn af vodka og spírítus og einnig að settar hefðu verið í bifreiðina einhverjar netadræsur. Þeir Einar gengu aftur í átt að bifreiðinni, og kom Magnús þá til þeirra. Sagði hann svo sem ákærði hefur áður skýrt frá, að þetta hefði "reddast", en slys hefði orðið, því að Geirfinnur hefði fallið útbyrðis og drukknað. Þeir settust að því búnu allir þrír inn í bifreiðina, og var ekið áleiðis til Reykjavíkur. Erla kom ekki aftur í bifreiðina, og man ákærði ekki betur en Magnús hafi talað um, að hún kæmi með annarri bifreið. Hitti ákærði hana ekki fyrr en daginn eftir, að hann kom í íbúð þá, sem hún hafði á leigu við Hjallaveg. Ákærði spurði hana, hvernig hún hefði komist higað til borgarinnar, og sagðist hún hafa komið með Valdimar.
Í niðurlagi skýrslunnar greinir ákærði frá því, að sér hafi verið ekið til Keflavíkur og sýndir þeir tveir staðir, sem komi til
Bls. 357
greina, þ. e. höfnin sjálf og Dráttarbraut Keflavíkur. Kveðst ákærði þess fullviss, að framangreindir atburðir hafi átt sér stað við Dráttarbrautina, höfnin komi ekki til greina. Hinn 27. janúar mætti ákærði hjá rannsóknarlögreglunni að eigin ósk og kvaðst nú vilja skýra rétt frá málsatvikum. Hann sagði nú, að skýrslan frá 25. janúar um ferðalagið til Keflavíkur væri rétt og eins hverjir hefðu verið í bifreiðinni, en verið gæti að Magnús hefði ekið, en ekki Einar. Þá skýrði ákærði frá því, að þegar til Keflavíkur kom, hefði hann sjálfur, Magnús, Kristján Viðar og þrír aðrir menn farið út í bátinn sem lá við bryggjuna. Erla hefði sagt sér síðar, að þarna hefði verið Sigurbjörn Eiríksson, en Sigurbjörn þekkti hann ekki. Auk þeirra sex hafi Geirfinnur Einarsson farið út í bátinn. Í landi urðu eftir Erla, Einar og Valdimar Olsen. Bátnum hafi verið siglt frá bryggjunni út á haf. Á útleiðinni hafi komið til átaka á þilfari bátsins. Ákærði, sem var niðri í lúkarnum fram í, heyrði læti uppi á þilfarinu og fór upp að gá, hvað á gengi. Þá sá hann Kristján Viðar slá Geirfinn og einnig að þeir Magnús og Sigurbjörn lögðu til hans. Geirfinnur varð við þetta eitthvað óstöðugur á fótunum, reikaði að borðstokknum og féll útbyrðis. Bátnum var þá snúið við og hann stöðvaður. Ákærði fór aldrei lengra en upp í lúkarsopið, meðan á þessu gekk, og sá því ekki, hvað fór fram utanborðs. Eftir nokkurt vafstur, sá hann þá Kristján Viðar og Sigurbjörn drösla Geirfinni inn fyrir borðstokkinn og leggja hann á þilfarið. Mennirnir stumruðu eitthvað yfir Geirfinni og veltu honum til, en ekki sá hann Geirfinn hreyfa sig neitt af sjálfsdáðum. Báturinn var nú settur á ferð aftur og siglingunni haldið áfram. Eftir nokkra stund var hann stöðvaður, og fór ákærði þá upp á þilfarið. Ákærði getur ekki gert sér grein fyrir, hvort Geirfinnur var þá enn í bátnum. Nú var hafist handa um að ná varningnum, sem var vafinn inn í segl og net utan um og öllu fest við belgi. Varningur þessi var áfengi á stórum plastbrúsum, um 50 lítra hver, og í flöskum, er voru í svörtum plastpokum. Því næst var haldið til lands á ný og lagst að sömu bryggju og lagt hafði verið frá. Þá voru bifreiðarnar þar enn. Varningurinn var settur upp á bryggjuna og í sendibifreiðina. Ákærði getur ekki gert sér grein fyrir, hvort Geirfinnur hafi verið í bátnum, þegar varningurinn var tekinn um borð. Getur hann þvi ekki um það fullyrt, hvort lík hans hafi einnig verið sett í sendibifreiðina. Ákærði er alveg viss um, að Geirfinnur var látinn, þegar hann lá á þilfari bátsins. Hann heyrði hina tala um það, en athugaði
Bls. 358
það ekki sjálfur. Strax og búið var að ferma sendibifreiðina, fór ákærði af stað hingað til borgarinnar í sömu bifreið og hann hafði komið, en nú voru þau Erla og Kristján Viðar ekki í henni. Ákærða skildist, að sendibifreiðin ætti að fara að Klúbbnum með farminn. Ákærði hitti Erlu daginn eftir í íbúðinni við Hjallaveg.
Hinn 10. febrúar mætti ákærði til yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglunni og voru þá sýndar myndir af 16 mönnum, sem rannsóknarlögreglan taldi hugsanlegt, að hefðu verið í Dráttarbraut Keflavíkur og/eða í bátsferðinni þaðan framangreint sinn. Ákærði sagðist þekkja fyrir víst myndir af að minnsta kosti þrem þeirra manna, sem voru í Keflavík á fyrrgreindum tíma. Menn þessir voru Einar Bollason og Valdimar Olsen, sem ákærði kveðst þekkja báða í sjón, og Sigurbjörn Eiríksson, en hann sagðist ákærði ekkert þekkja. Ákærði taldi, að þeir Einar og Valdimar hefðu ekki farið í bátsferðina, en fullyrti, að Sigurbjörn hefði gert það.
Hinn 1. apríl kom ákærði fyrir dóm hjá Erni Höskuldssyni fulltrúa og var beðinn að skýra sjálfstætt frá málsatvikum. Er framburður hans á þessa leið:
"Mættur kveðst vilja taka fram í upphafi, að skýrslur þær, sem hann hefur gefið í þessu máli, séu ekki byggðar á hans eigin vitneskju eða reynslu, heldur hafi Erla Bolladóttir skýrt sér frá öllum þeim atvikum, sem hann sagði frá í eigin persónu hjá rannsóknarlögreglunni. Þá kveðst mættur hafa heyrt einhvern Elvar hafa rætt mál þetta, er mættur var í Kaupmannahöfn snemma árs 1975. Mættur kveður Erlu Bolladóttur hafa farið á undan sér til Kaupmannahafnar snemma í desember 1974, vegna þess að hún væri hrædd við einhverja fjóra menn, þ. e. Magnús Leópoldsson, Valdimar Olsen, Einar Bollason og Jón Ragnarsson. Mættur kveðst hafa gefið skýrslur þessar, til þess að hægt væri að rannsaka mál þetta, þar sem honum hefði verið sagt, að Erla yrði fyrir ónæði og óttaðist um líf sitt. Mættur segist einnig hafa upplýsingar frá Sigurði nokkrum Þorlákssyni, sem búsettur er í Kaupmannahöfn. Segir mættur, að bæði Sigurður og Elvar hafi sagt sér, að "nafngreindur maður í Keflavík" hafi fjármagnað og staðið á bak við spírasmyglt s. l. 10 ár og væri hann tengdur hinu svokallaða Geirfinnsmáli".
Hinn 8. maí mætti ákærði enn að eigin ósk til yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglu og kvaðst nú vilja segja sannleikann í máli þessu, svo sem hann best vissi. Hann sagði nú, að auk þeirra Ein-
Bls. 359
ars og Magnúsar hefði verið í bifreiðinni á Laugavegi maður, sem hann nafngreindi. Þeir hefðu rætt við sig um dreifingu smyglaðs áfengis og hefði verið ekið að veitingahúsinu Klúbbnum. Þeir hefðu farið þar inn og Sigurbjörn Eiríksson veitingamaður komið til þeirra. Maður þessi og Sigurbjörn hefðu rætt við sig um það, hvort hann gæti ekki dreift einhverju af spíra fyrir þá, og enn fremur hvort hann gæti ekki komið með þeim til Keflavikur til þess að ná í varninginn. Þeir hefðu og spurt, hvort hann gæti haft með sér aðstoðarmann. Ákærði kveðst hafa sagt þeim, að það væri í lagi, og ákváðu þeir að hringja til hans og láta hann vita, þegar af þessu yrði. Var ákveðið, að Einar Bollason hefði samband við hann. Minnir ákærða, að þetta hafi verið á föstudegi og hafi verið talað um, að af þessu gæti orðið næsta þriðjudag.
Seinnipart dags á þriðjudag hafi Einar Bollason hringt til hans og látið hann vita, að þá um kvöldið ætti að fara og ná í spírann. Var ákveðið, að Einar kæmi heim til hans á Hjallaveg um kvöldið til þess að sækja hann. Ákærði hringdi til Kristjáns Viðars að Laugavegi 32 og bað hann að koma með sér í þennan leiðangur. Einhver svaraði í símann og náði síðan í Kristján Viðar. Sagði ákærði við Kristján Viðar, að talsverðir peningar yrðu greiddir fyrir þetta.
Einar kom heim til ákærða á rauðri Fiat fólksbifreið á tímabilinu á milli klukkan 2100 og 2200 fyrrgreint kvöld og sótti hann. Með honum var Valdimar Olsen. Var ekið að Klúbbnum og þar fyrir utan sá ákærði Erlu. Kallaði hann til hennar, og kom hún inn í bifreiðina til þeirra. Síðan var ekið niður Laugaveg, og fór ákærði úr bifreiðinni við "sjoppuna" að Laugavegi 34 og hringdi þaðan til Kristjáns Viðars. Bað ákærði hann að koma niður á Vatnsstíg, þar sem bifreið biði hans. Ákærði fór síðan í bifreiðina. Skömmu seinna kom Kristján Viðar, og kallaði ákærði til hans. Kom hann að bifreiðinni og settist inn í hana í aftursætið. Sat ákærða Erla á milli þeirra, að hann minnir. Ekið var af stað niður Vatnsstíg, og þar nokkru norðar stöðvuðu þeir fyrir aftan bláa sendiferðabifreið, sem hinn nafngreindi maður ók.
Ákærði og Kristján Viðar fóru út úr bifreiðinni og gengu að sendibifreiðinni til þess að ræða við mennina, sem þar voru. Ákærði ræddi við nafngreinda manninn, og sagði hann við menn, sem voru í sendibifreiðinni, að þessir menn, þ. e. ákærðu, yrðu með. Einn mannanna, sem ákærði kannaðist við og er lyftinga-
Bls. 360
maður, en ákærði veit ekki nafn á, sagði, að hann þyrfti að fara heim til sín vestur á Hringbraut, og var haldið þangað. Á leiðinni var Valdimar að tala um, að það þýddi ekkert annað en hafa byssu meðferðis. Ók Einar heim til Valdimars á Framnesveg, þar sem Valdimar fór inn, sótti riffil og kom með hann í bifreiðina. Þetta var 22 cal. riffill, án magasíns. Var riffillinn settur í gluggann aftan í bifreiðinni og breiddur yfir hann frakki, sem þar var. Var nú ekið af stað áleiðis til Keflavíkur.
Þegar í Dráttarbrautina í Keflavík kom, var þar fyrir ljós fólksbifreið, nokkuð stór. Hjá henni stóð maður, sem ákærði nafngreindi, og gekk hann að bifreiðinni til þeirra. Ákærði fór þá út úr bifreiðinni ásamt þeim Kristjáni Viðari og Valdimar, en Valdimar fór með manninum inn í bifreið hans. Kom þá lyftingamaðurinn til þeirra og ræddi við þá Kristján Viðar. Menn þessir og Kristján Viðar fóru síðan niður að bryggjunni. Ákærði settist aftur inn í bifreiðina og ræddi við Erlu, en Einar fór út úr bifreiðinni og talaði eitthvað við Valdimar. Þegar þeir komu í Dráttarbrautina, var bátur að fara frá bryggjunni, og vissi ákærði þá ekki, hverjir voru á honum.
Þegar báturinn var kominn að, komu Sigurbjörn og tveir aðrir menn, sem ákærði þekkti ekki, upp bryggjuna. Var annar þeirra maður sá, sem síðar lét lífið þarna á staðnum. Mennirnir fóru að ræða saman, og kom Valdimar til þeirra. Þá urðu átök og sá ákærði þá Valdimar, Sigurbjörn og annan mann að auki ráðast á einn mann. Maðurinn lá á jörðinni eftir þessi átök, en reisti sig upp. Sá ákærði þá, að Valdimar var kominn með riffilinn. Sigurbjörn tók riffilinn af Valdimar og hleypti skoti af, og sá ákærði manninn falla til jarðar. Ákærði og Erla stóðu þarna skammt frá og horfðu á þennan atburð, en Kristján Viðar hljóp að og fór að deila eitthvað við mennina. Ákærði fór þá til Einars og sagði við hann, að þau skyldu koma sér burtu. Fór hann síðan og náði í Kristján Viðar, sem var í hörkurifrildi við mennina. Bað hann Kristján Viðar að koma, og gerði hann það. Ákærði fór að svipast um eftir Erlu, en fann hana ekki. Þeir fóru síðan af stað í bifreiðinni, ákærði , Kristján Viðar og Einar. Þeir leituðu að Erlu við Dráttarbrautina, en án árangurs, og fóru við svo búið til Reykjavíkur. Erla kom einhvern tíma morguninn eftir. Ákærði veit ekki, hvað gert var við manninn, sem varð fyrir árásinni í Dráttarbrautinni.
Hinn 19. ágúst var ákærði Sævar Marinó færður til viðtals og sýndar myndir af ýmsum tegundum sendibifreiða. Var ákærði
Bls. 361
spurður að því, hvort einhver þessara bifreiða líktist þeirri sendibifreið, sem verið hefði í Dráttarbrautinni í Keflavík hinn 19. nóvember 1974. Ákærði svaraði því til, að hann væri rangi maðurinn í þessu máli. Gæti hann því ekki sagt til um það, hvaða bifreið hefði verið í Dráttarbrautinni framangreint sinn, þar sem hann hefði ekki verið þar.
Hinn 22. október skýrði ákærði frá því, að hann hefði sótt kápu Erlu til Bjarna Þórs Þorvaldssonar að Bergþórugötu 27. Kvaðst hann halda, að hann hefði farið með kápuna heim til móður sinnar að Grýtubakka 10, en væri þó ekki viss um það. Ef hann hefði farið með hana þangað, ætti hún að vera í fataskáp, en til greina gæti komið, að hann hefði sett hana niður í geymslu.
Hinn 22. október var ákærði yfirheyrður og neitaði að hafa verið í Keflavík 19. nóvember 1974 eða vita nokkuð um hvarf Geirfinns.
Ákærði kvaðst kannast við það, að kápa, sem ákærða, Erla Bolladóttir, sambýliskona hans, átti, hefði verið hjá Bjarna Þór Þorvaldssyni að Bergþórugötu 27 og að ákærði hefði sjálfur farið með kápuna til hans. Taldi hann, að kápan ætti að vera hjá Bjarna Þór, en hann kvaðst ekki muna eftir því að hafa sótt þessa kápu til hans. Ákærði hefði sjálfur gengið í þessari kápu. Ekki tímasetti hann það, hvenær hann hefði farið með kápu þessa til Bjarna Þórs.
Hinn 27. október kveðst ákærði vilja skýra sjálfstætt frá vitneskju þeirri, sem hann búi yfir varðandi hvarf Geirfinns Einarssonar. Kristján Viðar hafi hringt heim til sín 18. nóvember 1974. Hann hafi spurt sig að því, hvort ákærði væri ekki til í að koma til Keflavíkur að kvöldi næsta dags og taka þátt í áfengissmygli. Ákærði svaraði þessu játandi og spurði, hvort Erla mætti ekki koma með. Sagði Kristján Viðar, að það væri allt í lagi. Ákærði sagði Kristjáni Viðari, að hann myndi tala betur við hann daginn eftir, og bað hann ákærða að hafa samband við sig að Laugavegi 32, en meðákærði bjó þar þá. Ákærði sagði Erlu frá þessu.
Ákærði hafði samband við Kristján Viðar hinn 19. nóvember þegar ákærði var staddur að Grýtubakka 10 hjá móður sinni. Ákærði skýrði honum frá því, að hann væri búinn að ákveða að fara að Kjarvalsstöðum með móður sinni. Síðar ákváðu þeir, að ákærði yrði kominn að Hjallavegi 31 klukkan rúmlega 2100 um kvöldið og ef Kristján Viðar kæmi ekki sjálfur til ákærða, mundi ökumaður á bifreið þeirri, sem kæmi að sækja hann, gefa
Bls. 362
hljóðmerki. Kristján Viðar sagði, að bifreiðin mundi koma um kl. 2130 og skyldi ákærði þá koma út. Bifreið kom að Hjallavegi 31 á framangreindum tíma, og var gefið hljóðmerki. Þau Erla fóru út að bifreiðinni. Þegar ákærði opnaði dyr bifreiðarinnar, sagði ökumaðurinn: "Ert þú Sævar?" Svaraði ákærði játandi og settist inn í hana. Bifreiðinni var ekið áleiðis að Vatnsstíg. Á leiðinni ræddi ákærði við ökumanninn um áfengissmyglið, og skýrði hann ákærða frá því, hverjir stæðu að því, en nöfn þessara manna kveðst ákærði áður hafa gefið upp í skýrslu. Einnig ræddu þeir um framkvæmdina á smyglinu, og skýrði ökumaðurinn ákærða frá því, að smyglið færi fram á trillubáti, en ákærði kveðst þá hafa fundið inn á, að áfengið væri geymt í einhverju húsi í Keflavík og væri ekki ætlunin að fara neina bátsferð þetta kvöld. Þegar niður á Vatnsstíg kom, fór ákærði að Laugavegi 32 og sótti Kristján Viðar að beiðni bifreiðarstjórans. Fóru ákærðu upp í bifreiðina, og var ekið áleiðis til Keflavíkur. Á leiðinni til Keflavíkur man ákærði, að Kristján Viðar og ökumaðurinn ræddu um það, að þeir þyrftu að hitta einhvern mann í Keflavík og þyrfti það að vera á ákveðnum tíma. Ökumaður bifreiðarinnar ók allgreitt, eins og hann væri að flýta sér. Þegar til Keflavíkur kom, var stöðvað rétt hjá söluturni. Þar afhenti ökumaðurinn Kristjáni Viðari bréfmiða og sagði honum að fara og hringja í Geirfinn. Kristján Viðar fór og kom aftur eftir stutta stund. Sagði hann, að þetta væri allt í lagi. Ökumaður bifreiðarinnar ók síðan eitthvað frá Hafnarbúðinni. Allt í einu kom maður, sem ákærði veit núna, að var Geirfinnur Einarsson, að bifreiðinni og settist í aftursætið við hliðina á Kristjáni Viðari. Bifreiðarstjórinn heilsaði Geirfinni, og Kristján Viðar fór að tala við hann. Geirfinni var sagt, að þetta væri Sævar og þetta væri Erla, sem þarna væru í bifreiðinni líka. Var síðan ekið um bæinn. Man ákærði, að Kristján Viðar, ökumaðurinn og Geirfinnur voru að ræða saman og eitthvað neikvætt kom upp í samræðunum. Ákærða fannst sem þeir vildu ekki ræða eitthvað vegna nærveru þeirra Erlu. Að endingu var ekið að Dráttarbrautinni og stöðvað nokkuð fyrir ofan sjálft húsið. Fannst ákærða smyglið hafa átt sér stað fyrr um kvöldið. Ákærði veitti athygli sendibifreið, sem stóð nokkru neðar í Dráttarbrautinni. Ökumaður bifreiðarinnar gekk að sendibifreiðinni og ræddi við einvhern þar, en fór síðan í yfirbygginguna. Tók hann þaðan tvo stóra plastbrúsa og setti þá í farangursgeymslu bifreiðarinnar, sem þeir voru á. Ökumaður bifreiðarinnar opnaði síðan
Bls. 363
bifreiðina, og fóru Geirfinnur og Kristján Viðar út úr henni. Gengu þeir allir í áttina að sendibifreiðinni. Sáu þau Kristján Viðar slá manninn. Einhver maður, sem mun hafa verið í sendibifreiðinni, hélt Geirfinni hálstaki, og ökumaður á bifreiðinni, sem þau voru á, sló Geirfinn einnig. Maður sá, sem hélt Geirfinni hálstaki var um 40 ára að aldri, herðabreiður, dökkhærður og greiddi hárið beint aftur, með kringlótt andlit og varaþykkur. Þegar þau Erla sáu, að átök voru byrjuð, gengu þau út úr bifreiðinni og í áttina að mönnunum. Gekk ákærði að þeim og getur því lýst manni þeim, sem hélt Geirfinni. Skyndilega veitti ákærði því athygli, að Erla var horfin í burtu. Ákærði gekk til Kristjáns Viðars og spurði hann, hvað væri um að vera, en hann svaraði því til, að það væri eitthvert ósamkomulag. Ákærði sá Geirfinn liggja á jörðinni hreyfingarlausan, og spurði hann Kristján Viðar, hvort hann hefði lamið hann, en hann svaraði því neitandi. Ákærði kallaði á Erlu, en án árangurs. Ákærði hélt að bifreiðinni aftur, og voru þá Kristján Viðar og ökumaðurinn komnir inn í hana. Þegar ákærði var kominn í bifreiðina, sá hann,m að tveir menn tóku Geirfinn og settu hann í sendibifreiðina. Ákærði veit ekki, hvað varð um Geirfinn eftir það.
Síðan var ekið í burtu af staðnum. Þeir óku um næsta nágrenni í leit að Erlu, en hún fannst ekki. Þá var ekið að einhverju húsi, og fór ökumaðurinn þar inn. á meðan ökumaðurinn var inni í húsinu, ræddi ákærði við Kristján Viðar. Sagði Kristján Viðar, að það hefði átt að ná í miklu meira af áfengi. Geirfinnur hefði átt að fá þessa tvo brúsa, sem voru komnir í bifreiðina, það hefði verið umsamið. Ákærði veit, að samkomulag þetta var gert í Klúbbnum hinn 17. nóvember. Var Geirfinnur þar ölvaður og mun hafa hitt Kristján Viðar og ökumann bifreiðarinnar. Er til átti að taka, gat Geirfinnur ekki staðið við sinn hlut. Ákærði heyrði, að þegar þeir voru að ræða saman í bifreiðinni, Kristján Viðar og Geirfinnur, var vitnað til samkomulags, sem hafði verið gert í Klúbbnum. Því næst var ekið til Reykjavíkur, og var ákærða ekið heim til hans að Hjallavegi 31. Þegar ákærði fór úr bifreiðinni, gleymdi hann kápu Erlu.
Morguninn eftir vaknaði ákærði við það, að Erla var að koma heim. Sagðist hún hafa komið "á puttanum". Erla sagðist hafa dvalist í einhverju húsi í Keflavík um nóttina. Ákærði fór til
Bls. 364
Kristjáns Viðars þennan sama dag og sótti kápu Erlu. Ákærði fór þaðan til Bjarna Þórs Þorvaldssonar að Bergþórugötu 27. Skildi hann kápuna eftir hjá Bjarna Þór. Ákærði sótti kápuna til hans vorið 1975. Kápa þessi var blá með hettu. Skýrslutaka þessi af ákærða fór fram úr 6 klukkustundum.
Hinn 28. október skýrði ákærði frá því, að í nóvember 1974 hefði haft samband við sig maður, sem heitir Guðjón Skarphéðinsson, og innt sig eftir því, hvort ákærði gæti ekki selt fyrir sig spíra, sem hann gæti útvegað hjá einhverjum aðilja. Ákærði svaraði því til, að hann skyldi athuga málið. Hafði hann af þessu tilefni samband við Kristján Viðar Viðarsson, sem kvaðst skyldu athuga þetta. Gaf ákærði honum upp símanúmer hjá Guðjóni.
Hinn 18. nóvember 1974 hafði Kristján Viðar símasamband við ákærða. Skýrði hann ákærða frá manni í Keflavík, sem héti Geirfinnur og vildi kaupa spíra. Jafnframt gaf hann ákærða upp símanúmerið hjá honum, og skrifaði ákærði þetta hjá sér. Ákærði hafði síðan símasamband við Guðjón og sagði honum frá þessu. Guðjón kvaðst geta útvegað spírann og gat þess, að hann vildi hafa símasamband við manninn. Gaf ákærði honum upp símanúmer Geirfinns.
Hinn 19. nóvember fyrir kl. 2000 hafði Guðjón símasamband við ákærða að Grýtubakka 10. Ákærði sagði Guðjóni, að hann væri á förum að Kjarvalsstöðum á kvikmyndasýningu með móður sinni Erlu. Guðjón sagði ákærða, að hann væri búinn að hafa símasamband við Geirfinn og væri ákveðið stefnumót við hann kl. 2130 um kvöldið í Keflavík. Það hefði verið um það samið, að sá, sem gæti selt spíra, fengi ákveðnar prósentur, og átti Kristján Viðar að fá þær fyrir það magn, sem Geirfinnur hugðist kaupa, en ákærða minnir, að hann hafi ætlað að kaupa 60 lítra. Guðjón spurði, hvort Kristján Viðar vildi ekki koma með til Keflavíkur. Sagðist ákærði skyldu hafa samband við hann, og gerði hann það frá Kjarvalsstöðum. Kom maður að nafni Páll Konráð Konráðsson í símann, er hann hringdi. Í samtali þeirra Guðjóns hafði verið ákveðið,að hann kæmi að Hjallavegi 31 og sækti þau Erlu um kl. 2100 um kvöldið, en sýningin að Kjarvalsstöðum var búin um kl. 2045. Strax eftir sýninguna að Kjarvalsstöðum ók Erla bifreið þeirra, sem var jeppabifrieð af tegundinni Land Rover, að Grýtubakka 10, þar sem móðir hans fór úr bifreiðinni. Síðan fóru þau rakleitt að Hjallavegi 31, en þangað kom Guðjón skömmu seinna. Bað hann þau að
Bls. 365
flýta sér, þar sem þau væru orðin sein fyrir. Þau fóru út í bifreið, sem Guðjón hafði til umráða og var ekið niður á Vatnsstíg. Ákærði fór, er þangað kom, að Laugavegi 32, svo sem í skýrslu hans frá 27. október greinir, og sótti Kristján Viðar. Ákærði kveður Pál Konráð Konráðsson hafa komið til dyra, er hann hringdi dyrabjöllunni. Kristján Viðar stóð nokkuð innar á ganginum og sagði ákærði honum að koma. Því næst var ekið af stað áleiðis til Keflavíkur. Ákærði minnist þess, að Guðjón, sem hóf umræðurnar í bifreiðinni, sagði eitthvað á þá leið, að Geirfinnur hefði verið eitthvað neikvæður, þegar hann ræddi við hann. Rætt var um það, að yrði Geirfinnur ekki eins og maður, skyldi honum sýnd full harka. Samræðurnar snerust einnig um það, að hann gæti verið hættulegur, en ekki kom til tals, að Geirfinnur skyldi drepinn. Kristján Viðar tók þátt í samræðum þessum. Guðjón hafði sagt ákærða frá því, hverjir stæðu bak við þetta smygl, og kveðst ákærði hafa sagt frá þeim mönnum í öðrum lögregluskýrslum. Guðjón gat þess, að hið smyglaða áfengi yrði sótt á báti. Ákærði telur, að klukkan hafi verið 2210-2215, er þau komu til Keflavíkur. Var farið beint að Hafnarbúðinni. Stefnumótið hafði verið ákveðið kl. 2130, en sú áætlun hafði farið út um þúfur. Var því ákveðið að hringja aftur til Geirfinns, og stakk ákærði upp á því, að Kristján Viðar færi og hringdi. Guðjón skrifaði á bréfmiða símanúmer Geirfinns og afhenti Kristjáni Viðari hann. Ákærði minnist þess, að Guðjón reif bréfmiðann úr vasabók, sem hann var með. Ákærði sá, þegar Guðjón skrifaði á miðann. Á honum stóð nafn Geirfinns, símanúmer hans, og man ákærði, að tölustafirnir 31 stóðu í því. Þá greinir ákærði frá ferð Kristjáns Viðars í Hafnarbúðina, komu Geirfinns að bifreiðinni, akstri í Dráttarbrautina, umræðum um spíraviðskipti og sendibifreiðinni, sem var í Dráttarbrautinni. Þegar Guðjón hafði stöðvað bifreiðina, fór hann út og hélt að sendibifreiðinni. Sá hann Guðjón vera að ræða við einhvern í henni og telur, að það hafi verið ökumaðurinn. Síðan fór Guðjón inn í sendibifreiðina og tók þar tvo plastbrúsa, sem ákærði telur, að í hafi verið spíri, en þetta voru brúsar undan maurasýru. Ákærði sá, þegar hann setti þá í farangursgeymslu bifreiðar sinnar. Síðan gengu þeir allir að sendibifreiðinni, og var farið að ræða um greiðslu fyrir spírann. Upphaf viðræðnanna var það, að einn mannanna, sem ákærði hefur áður lýst sem þrekvöxnum, spurði ákærða, hvort hann hefði verið til sjós. Kristján Viðar svaraði manninum neitandi. Guðjón sagði þá við
Bls. 366
manninn, sem ákærði kallar þybbna manninn, hvort þeir Geirfinnur þekktust ekki. Þybbni maðurinn kvað nei við, en Geirfinnur svaraði engu. Guðjón sagði þá við Geirfinn: "Ætlar þú ekki að taka þessu?", en Geirfinnur svaraði ekki. Þá sagði Guðjón: "Hvaða vitleysa er þetta eiginlega?" og horfði á þá ákærðu Kristján Viðar. Kristján Viðar fór þá að tala við Geirfinn og sagði við hann: "Vorum við ekki búnir að ræða þetta í Klúbbnum?" Geirfinnur jánkaði því, en sagðist ekkert vilja með þetta hafa að gera og sagðist þekkja Sigurbjörn í Klúbbnum og okkur hina. Kristján Viðar sagði þá: "Heyrðu sko", en þybbni maðurinn sagði við Geirfinn: "Þú þegir yfir þessu". Geirfinnur svaraði þessu engu og gerði sig líklegan til þess að fara. Gekk hann áfram og ýtti Kristjáni Viðari úr vegi, en Kristján Viðar sló þá til hans, og sá ákærði, að höggið lenti á andliti Geirfinns. Stökk ákærði einnig á Geirfinn og sló hann í andlitið, en Geirfinnur þreif í ákærða og fleygði honum frá sér. Ákærði sá, að Geirfinnur sló Kristján Viðar í kviðinn og andlitið, en ákærði stóð upp aftur, stökk á Geirfinn og sló hann. Þá kom þybbni maðurinn aftan að Geirfinni og tók hann hálstaki. Guðjón var kominn með 50 til 60 cm lurk í hægri hönd, og sló hann Geirfinn fast högg í höfuðið. Heyrði ákærði, að Geirfinnur gaf frá sér sársaukastunu og varð máttlaus. Þybbni maðurinn hélt Geirfinni uppi með hálstaki, dró hann aftur á bak, en sleppti honum síðan, og datt Geirfinnur niður hreyfingarlaus. Í sama mund kom Kristján Viðar með barefli og sló tvö högg, að ákærði heldur, í höfuð hans, þar sem hann lá. Ákærða finnst mjög erfitt að lýsa þessu í samhengi, því að þetta hafi gerst allt á örstuttum tíma. Þeir Kristján Viðar fóru nú að huga að Geirfinni, og var hann algerlega meðvitundarlaus. Kristján Viðar þukklaði á Geirfinni, horfði svo á ákærða og hristi höfuðið. Tók ákærði það þannig, að Geirfinnur væri dáinn. Kristján Viðar og þybbni maðurinn tóku undir sinn hvorn handlegg Geirfinns, drógu hann að sendibifreiðinni og settu hann inn í farangursrými hennar. Þeir ákærði og Guðjón gengu að bifreið Guðjóns. Þá uppgötvaði ákærði, að Erla var farin. Kristján Viðar kom til þeirra Guðjóns að bifreiðinni. Sagði hann, að ákveðið hefði verið að fara heim til hans að Grettisgötu 82 og mundi sendibifreiðin koma þangað. Ákærðu óku af stað og leituðu að Erlu um nágrennið, en fundu hana ekki. Ákærði veitti því athygli, að kápa hennar og brún hliðartaska lágu í aftursæti bifreiðarinnar. Guðjón ók að einhverju húsi í Keflavík og fór þar inn, en þegar hann kom aftur,
Bls. 367
var haldið til Reykjavíkur að Grettisgötu 82. Var klukkan rúmlega 0100, er þeir komu þangað. Fóru þeir allir inn hjá Kristjáni Viðari. Þeir sáu, að sendibifreiðin stóð ljóslaus við húsið garðsmegin. Þeir fóru þá út um bakdyrnar að sendibifreiðinni, og settist Guðjón hjá bifreiðarstjóranum. Í farangursrými bifreiðarinnar voru 5 stórir plastbrúsar með spíritus, og hjálpaði þybbni maðurinn þeim Kristjáni Viðari að bera þá inn í kjallarageymslu til Kristjáns Viðars. Geirfinnur var tekinn úr sendibifreiðinni, og báru Kristján Viðar og þybbni maðurinn hann á milli sín. Gerði ákærði sér fyllilega ljóst, að hann var dáinn. Geirfinnur var settur í geymslu þá, sem spírinn hafði verið látinn í. Ákærði gekk að hægri framhurð sendibifreiðarinnar og sagði við Guðjón, að hann skyldi koma, því að Geirfinnur væri dáinn. Guðjón kom að honum inn í geymsluna, en þar voru þeir Kristján Viðar og þybbni maðurinn búnir að leggja Geirfinn til. Sá ákærði, að augu Geirfinns voru opin og brostin, áverki á vinstra gagnauga og vanga og að blóð hafði runnið fram eftir enni hans, eins og hann hefði legið á grúfu. Þegar gengið hafði verið frá líkinu, var geymslunni læst. Ákærðu fóru upp í íbúð Kristjáns Viðars, og var þar rætt um, hvað gera skyldi. Fljótlega varð samkomulag um að koma Geirfinni fyrir, og hafði Kristján Viðar orð á því, að hann gæti ekki verið lengi í geymslunni, þar sem amma sín gæti komið þangað hvenær sem væri. Margir staðir voru nefndir, þar sem hægt væri að koma Geirfinni fyrir, svo sem að leggja hann einhvers staðar, þar sem hann fyndist, en þá gætu fingraför fundist, henda honum í sjóinn, fara með hann út í hraun eða í kirkjugarð. Að lokum kom Guðjón með uppástungu að fara með hann á afskekktan stað austur í Grafning, Þegar ákveðið hafði verið að fara og grafa Geirfinn, minnist ákærði þess, að Guðjón og þybbni maðurinn ræddust við varðandi sölu á spíranum.
Um nóttina ók Guðjón ákærða heim á Hjallaveg. Þegar ákærði fór úr bifreiðinni, gleymdi hann kápu Erlu og handtöskunni. Erla kom heim að morgni hins 20. nóvember. Ákærði spurði hana, hvar hún hefði verið, og svaraði hún því sama og hann hefður áður skýrt frá. Ákærði hafi símasamband við Guðjón þennan sama dag, og kom hann með kápuna og handtöskuna til ákærða.
Ákærði kom heim til Kristjáns Viðars um kvöldið, og voru þá þar Guðjón, þybbni maðurinn og Kristján Viðar. Kristján Viðar og þybbni maðurinn fóru í geymsluna, þar sem Geirfinnur
Bls. 368
hafði verið settur. Geirfinnur var "brotinn saman" og settur í svartan plastpoka. Síðan var sett hvítt nælonband utan um pokann, það vafið og settir á það margir hnútar. Var ákveðið að flytja Geirfinn vænsta laugardag austur í Grafning.
Laugardaginn 23. nóvember var lík Geirfinns flutt frá Grettisgötu 82 á Land Rover bifreið ákærða austur í Grafning. Við flutninginn voru ákærði, Kristján Viðar, Guðjón og þybbni maðurinn. Ekið var sem leið liggur austur á Mosfellsheiði, beygt suður Grafningsveg og ekið nokkuð langan spöl fram hjá bænum Nesjavöllum. Minnist ákærði þess, að vegurinn lá alveg við vatn, og ekki langt þar frá var Geirfinnur grafinn. Ákærði telur, að farið hafi verið með líkið 300-400 metra frá veginum sjálfum og það dysjað þar. Síðan var haldið aftur til Reykjavíkur. Hefur líkið ekki verið hreyft af þeim stað, þar sem þð er upphaflega grafið. Yfirheyrsla þessi stóð lengur en 6 klukkustundir.
Hinn 4. nóvember var ákærði yfirheyrður og spurður um, hvort Sigurbjörn Eiríksson hefði farið ti Keflavíkur hinn 19. nóvember 1974. Svaraði ákærði því til, að Sigurbjörn þekki Kristján Viðar og hann hafi einu inni gefið honum hálfan kassa af ákavíti. Þegar ákærða var kynntur framburður Erlu, þar sem hún segist hafa séð hann margberja Geirfinn með lurk eða spýtu, sagðist hann ekki ætla að hlífa þessu fólki lengur. Hann hafi verið heima hjá móður sinni 19. nóvember, er Erla og Kristján Viðar fóru til Keflavíkur og Kristján Viðar lét Erlu skjóta Geirfinn. Þá sagði hann, að Guðjón hefði sótt sig heim 19. nóvember og þá verið á Citroen bifreið. Ákærði kveðst hafa sagt alveg satt í málinu. Guðjón hafi ekið til Keflavíkur og Sigurbjörn Eiríksson tekið þátt í þessu. Rætt hafi veirð við Geirfinn um peninga og spírítus í Klúbbnum, en komið hafi síðar í ljós, að hann hafi viljað selja spíritus, en ekki kaupa. Teppið, sem vafið var utan um Geirfinn, hafði orðið eftir í kjallaranum hjá Kristjáni Viðari. Geirfinnur hafi verið fluttur austur fyrir fjall, og kveðst ákærði ekki vera viss um að finna staðinn. Ákærði var nánar spurður um, hvert lík Geirfinns hafi verið flutt, og sagði hann að fyrst hefði það verið flutt austur í Þingvallavatn, en fyrst hefði það verið grafið einhvers staðar í Grafningnum, hann væri ekki viss á staðnum. Ákærða var á það bent, að ekkert hefði verið á staðnum, sem ákærði hafði bent á, og sagði hann þá, að Guðjón hefði grafið líkið upp, eftir að ákærði lenti í fangelsi, og hent því í vatnið. Ákærða var bent á, að engin ummerki sæjust á staðnum, og sagði hann þá, að þetta hefði ekki verið rétti
Bls. 369
staðurinn, Geirfinnur hefði verið grafinn einhvers staðar í Grafningnum, en hvar, vissi hann ekki. Ákærði hélt fast við það, að farið hefði verið með lík Geirfinns austur í Grafning.
Ákærði var spurður um, hvort mikið hefði sést á Geirfinni og svaraði hann því þanni: "Hann var blár á öðrum vanganum og sár eða skráma á kinnbeininu ,og ég held, að annað augað hafi verið blátt og hálfsokkið."
Hinn 6. nóvember óskaði ákærði eftir að hafa samband við rannsóknarlögregluna. Kvaðst hann hafa vilja gefa upplýsingar um "spíraflutningsbátinn" í Keflavík. Sagði ákærði, að Ásgeir Ebenezerson (svo) vissi, hvaða bátur þetta væri. Hann hefði sagt sér, að þeir, sem væru með bátinn, væru þeir sömu, sem stolið hefðu laxinum úr eldisstöðinni í "Hafnarósunum".
Ákærði kvartaði um , að einangrunin væri orðin sér mjög slæm. Honum var bent á, að hann skapaði sér þetta sjálfur. Margt, sem hann hefði sagt í skýrslunni, sem hann gaf 28. október, væri ekki rétt og það tæki langan tíma að rannsaka það nákvæmlega. Á meðan gæti ekki losnað um hann. Hann sagði þá m. a. eftirfarandi: "Megnið af skýrslunni er alveg rétt bæði það, að Guðjón ók suður eftir, og eins það, sem gerðist í Keflavík. Ég skýrði rangt í upphafi. Ég var í Klúbbnum 17. október 1974. Ég man ekki hvort Erla var með. Við fórum svo oft þangað. Kristján Viðar var þarna með. Þarna inni man ég eftir að hafa talað við Pál Konráðsson og ég held líka Hrein Vilhjálmsson.
Við Kristján Viðar stálum svörtu peningaveski af manni í einum stiga hússins. Það var þröngt þar, og Kristján tafði fyrir manninum, en ég náði veskinu úr vasa hans. Í því voru nokkur þúsund krónur. Við létum það síðan detta á gólfið við diskotekið á annarri hæð.
Við sáum annan mann, sem við ætluðum að ræna. Það var Geirfinnur, og fórum því að tala við hann og m. a. að þvæla eitthvað við hann um að selja honum áfengi. Páll Konráðsson heyrði þetta. Það varð ekki úr, að við reyndum að ræna hann, og ég fór frá, en rétt á eftir kom Kristján til mín og sagði, að maðurinn væri til í að kaupa áfengi, og var þá með nafn og heimilisfang á miða. Við töluðum við Geirfinn á stigaskörinni á annarri hæð.
Ég gaf Guðjóni upp nafn og síma Geirfinns. Hann talaði við hann í síma. Fannst hann eitthvað tortryggilegur. Töluðum í bílnum á leiðinni suður eftir, að ef hann væri að blekkja eða með stæla, þá yrði honum sýnd full harka.
Bls. 370
Guðjón kom til okkar á Hjallaveginn í leigubifreið, ég held frá Hreyfli. Erlu leiddist einni heima og bað um að fá að fara með. Guðjón ók, og við fórum suður eftir í Land Rover bifreiðinni. Erla var lélegur ökumaður og sá stundum "sýnir", er hún var að aka. Geirfinnur var settur inn í Land Rover bifreiðina að aftan. Hann lá á grúfu á gólfinu á leið til Reykjavíkur. Við Kristján sátum þá báðir fram í hjá Guðjóni. Það var motta eða teppi á gólfinu aftur í . Ég man ekki, hvort það varð blóðugt.
Geirfinnur var aldrei fluttur austur í Grafning eða settur í Þingvallavatn. Guðjón leitaði að stað suður í hrauni, og þangað var hann fluttur í Land Rover bifreið að næturlagi. Við fórum þrír með hann, Guðjón, ég og Kristján. Við fórum með hann talsvert suður fyrir Álverið og beygðum til vinstri nokkuð langt út af steypta veginum og gengum síðan um 200 metra. Þar settum við hann í nokkuð djúpa kvos. Settum mikið grjót yfir hann og þar á meðal stóra hellu. Vorum ekki með nein verkfæri. Ég var með hanska, og að ég held, að Kristján hafi verið með loðhanska".
"Það er ósatt, að lyftingamaðurinn hafi verið í Keflavík. Ég veit ekki, hvað hann heitir, en hann á heima vestur á Hringbraut og hefur geymt áfengi fyrir Viggó. Kristjáni er illa við þennan mann.
Ég veit, að Guðjón og Sigurbjörn þekkjast. Guðjón hefur sagt mér, að Klúbbmenn væru aðiljar að Keflavíkursmyglinu. Kristján Viðar þekkir Sigurbjörn vel".
"Ég held, að það hafi verið Sigurbjörn, sem var í Keflavík, eða á hann bróður, sem er líkur honum? Þá gæti það verið hann".
Hinn 8. nóvember óskaði ákærði eftir samtali við rannsóknarlögreglu. Sagðist hann vilja segja sannleikann um, hvar lík Geirfinns Einarssonar væri niður komið. Það væri grafið úti á Álftanesi. Hann gerði síðan uppdrátt af staðnum og kvaðst örugglega geta vísað á hann.
Lögreglumenn fóru með ákærða út á Álftanes. Var fyrst farið með ákærða á stað þann, sem hann hafði teiknað upp, en kvaðst ekki vera viss um, að þetta væri rétti staðurinn. Þegar lögreglumennirnir gengu frekar á hann, kvaðst hann sjá, að þetta væri skakkt hjá sér. Þeir óku nokkuð um nesið með ákærða, en hann kvaðst ekki kannast við þessa staði, svo öruggt væri. Að síðustu óku þeir með hann veginn, sem liggur yfir vesturendann á Garðaholti og fram hjá bænum Hausastöðum í áttina niður
Bls. 371
að sjó. Þar kvaðst hann kannast við sig og telja, að þeir hefðu komið þar með lík Geirfinns og beygt til vinstri meðfram sjónum. Þarna er ekki hægt að aka til vinstri meðfram sjónum, nema nokkra metra. Þar fóru þeir út, og eftir stutta leit benti ákærði á stað efst í fjöruborðinu og sagðist öruggur um, að þarna væri lík Geirfinns grafið. Sagðist hann miða við skúr, sem þarna er, en hann var áður búinn að segja, að líkið væri grafið í um 15 metra frá skúr eða bátaskýli.
Hinn 11. nóvember sýndi ákærði Sævar Marinó að beiðni lögreglunnar, hvernig bifreiðarnar hefðu verið stöðvaðar í nánd við Grettisgötu 82 framangreinda nótt. Ákærði kvað fólksbifreiðinni hafa verið lagt vinstra megin á Grettisgötu við hús nr. 77, en sendibifreiðinni í sundið milli bakgarðanna milli Grettisgötu og Njálsgötu á móts við garðhlið hússins nr. 82.
Hinn 15. nóvember var ákærði spurður sérstaklega um samskipti sín við Guðjón og hvað þeim hefði farið á milli 12. desember 1975, þegar ákærði var handtekinn á heimili sínu í Kópavogi. Ákærði kvaðst fyrr um daginn hafa talað við Guðjón og spurt hann um bifreið hans, sem var að koma til landsins, og hass, er ákærðu og Ásgeir Ebenezer Þórðarson áttu og hafði verið falið í bifreiðinni. Ákærða minnir, að hann hafi verið að borða, er lögreglan kom. Hann neitaði að opna og hringdi strax heim til Guðjóns. Sagði hann honum, að verið væri að handtaka sig. Ákærði kveður Guðjón hafa sagt sér að þegja um það, sem hann vissi. Hann hafi sagt: "Ég ætla að halda mig utan við smyglið, þú verður að redda þessu". Þá sé hann alveg viss um, að síðast hafi Guðjón sagt: "Gefðu ekki neitt upp, sem þú veist um Geirfinnsmálið".
Hinn 16. nóvember skýrði ákærði lögreglu frá símtali við Guðjón frá Kaupmannahöfn.
Hinn 17. nóvember fóru lögreglumenn með Sævar Marinó út á Álftanes, en hann hafði við yfirheyrslu sagst skyldu benda á, hvar lík Geirfinns Einarssonar væri grafið. Hann vísaði á tiltekinn stað í fjörunni neðan við bæinn Hausastaði, sunnanvert á nesinu, og sagði, að lík Geirfinns væri grafið þar. Grafið var á svæðinu með vélskóflu, en án árangurs.
Sama dag skýrði áskærði frá því, að hann hefði hringt "collect" til ákærða Guðjóns frá Kaupmannahöfn í mars 1975. Erla var viðstödd, er fyrri hluti símtalsins fór fram. Ákærði ræddi símtalið við hana á eftir og var henni því kunnugt um efni þess. Ákærð kveðst hafa viljað vita, hvernig málin stæðu hér heima,
Bls. 372
þ. e. "póstmálið" og "Geirfinnsmálið", og einnig bað hann Guðjón um peningalán. Guðjón sagði, að óheppilegt væri, að ákærði og Erla kæmu heim. Þeir hafi í símtalinu rætt um það, sem komið hefði í blöðum um "Geirfinnsmálið", og Guðjón talað um, að það væri á rangri braut. Ákærði gat ekki skilið annað á honum en það væri að renna út í sandinn. Þó væri óráðlegt fyrir þau að koma strax heim.
Ákærði kveðst haf komið til Íslands nálægt miðjum apríl, en Erla hafði farið nokkuð á undan honum. Ákærði heimsótti Guðjón oft, eftir að heim kom, og ræddu þeir Geirfinnsmálið. Töldu þeir það úr sögunni, þar sem lögreglan hefði alltaf verið á villigötum.
Hinn 25. nóvember lagði lögreglan nokkrar spurningar fyrir ákærða. Var lagt fast að honum að segja satt frá, en svara ekki að öðrum kosti, þar sem röng svör gerðu engum gagn, en lengdu aðeins gæsluvarðhaldsvist hans.
Ákærði vildi ekki svara þeirri spurningu, hver hefði ekið til Keflavíkur, en taldi, að farið hefði verið á dökkrauðblárri Volvo bifreið. Hann gaf í skyn, að ökumaðurinn hefði verið tiltekinn maður, er hann nafngreindi, en fékkst ekki til að tala hreint út um það. Sagðist hann hafa sagt rangt til, er hann nefndi Guðjón Skarphéðinson í því sambandi, en það færi ekki á milli mála, að Guðjón hefði verið í Keflavík umrætt kvöld og tekið þátt í því, sem þar gerðist.
Ákærði var spurður, hvert lík Geirfinns hefði verið flutt úr kjallaranum á Grettisgötu 82 og hverjir hefðu gert það. ákærði svaraði því til, að það hefðu hann og Kristján Viðar gert og Erla hefði ekið þeim á Land Rover bifreiðinni. Þetta hafði verið að kvöldi 21. nóvember. Ekið hafi veirð út á Álftanes og líkið grafið þar. Lýsti ákærði staðnum.
Ákærði sagði, að menn þeir, sem fóru í Keflavíkurferðina, hefðu verið óánægðir með staðinn og sagt m. a., að þarna yrði farið að byggja bráðlega og mundi þá líkið finnast. Hann hafi hitt Kristján Viðar í Tjarnarbúð næsta laugardag á eftir og talað um þetta við hann. Kristján Viðar hafi ekki viljað sinna þessu og talið staðinn góðan. Þó hafi hann komið með sér og Albert Klahn Skaftasyni á Toyota bifreið föður Alberts Klahn.. Þeir hafi flutt líkið suður í fjöruna á Álftanesi og sé hann búinn að benda á staðinn. Líkið hafi verið grafið þar í sand , en hann finni ekki staðinn. Ákærði var mjög tregur til að svara því, hverjir
Bls. 373
hefðu viljað láta flytja líkið, en sagði, að tveir menn, sem hann nafngreindi, hefði vitað þetta.
Hinn 30. nóvember var ákærði spurður, vegna upplýsinga frá Guðjóni, um afnot hans af sendibifreiðum árið 1974 og til hvaða sendiferðabifreiða hann hefði þekkt. Ákærði nefndi tiltekna menn í þessu sambandi. Sagði hann m. a., að frændi Kristjáns Viðars, Óttar Sigurðsson (svo), hefði ekið sendiferðbifreið. Ákærði taldi sig hafa komið heim til Guðjóns á Ásvallagötuna 17., 18. og 19. nóvember 1974 og hringt þaðan eitthvað í öll skiptin. Ekki kvaðst hann muna, hvert hann var að hringja, og ekki, að hann hefði skrifað númer eða nafn á miða og fengið Guðjóni. Kvaðst ákærði aðeins einu sinni hafa farið með Guðjóni í bifreið til Keflavíkur Hann var spurður, hvort hann hefði einhvern tíma að kvöldlagi ekið í bifreið um Keflavík og beðið farþegana að láta lítið bera á sér. Ákærði kvaðst ekki telja, að það kæmi til greina. Hann var spurður um, hvort hann hefði farið að kvöldlagi inn í bensínsölu eða "sjoppu" við aðalgötuna í Keflavík til að hringja. Hann kvaðst minnast þess að hafa verið einn á ferð í Keflavík með Erlu í blárri Volkswagen bílaleigubifreið og hringt úr "sjoppu" við aðalgötuna. Þau hafi þá verið að leita að gjaldeyri.
Þeirri spurningu, hvort hann hefði hitt ákærða Guðjón á Mokka 20. nóvember 1974, svaraði ákærði játandi. Þá var ákærði spurður:"Töluðu þið um það, sem gerst hafði um nóttina?"
Svar: "Já, eitthvað ræddum við um Geirfinn og að flytja þyrfti líkið. Það vr þá í kjallaranum hjá Kristjáni". "Hvenær var Geirfinnur fluttur?" Svar: "Ég vil ekki svara þessari spurningu".
Hinn 6. desember mætti ákærði í dómi hjá Erni Höskuldssyni fulltrúa. Viðstaddur þinghaldið var Jón Oddsson hæstaréttarlögmaður, verjandi hans. Skýrsla ákærða fyrir dóminum er svohljóðandi:
"Kærði kveðst nú ekki hafa farið til Keflavíkur hinn 19. nóvember 1974.
Kærði segir, að Guðjón Skarphéðinsson hafi greitt sér kr. 500.000 fyrir að nefna nöfn þeirra fjögurra manna, sem sátu í gæsluvarðhaldi í vetur, og fleiri. Hafi kærði átt að fá kr. 500.000 til viðbótar, er málinu væri lokið".
Ákærði gaf skýrslu hjá rannsóknarlögreglunni hinn 9. des-
Bls. 374
ember. Skýrði hann þar frá því, þegar þeir Kristján Viðar hittu Geirfinn í veitingahúsinu Klúbbnum, viðræðum þeirra um spíritusviðskipti og að ákærðu hefðu verið að ræða þetta nánar síðar. Þá greindi hann frá viðtölum við Erlu, Kristján Viðar og Guðjón, símtali við Geirfinn og undirbúningi ferðarinnar til Keflavíkur. Fyrst í skýrslunni segir ákærði, að örugglega hafi engin sendiferðabifreið verið á Vatnsstíg, en í niðurlagi hennar greinir frá sendiferðabifreiðinni og að Sigurður Óttar Hreinsson, frændi Kristjáns Viðars, hafi ekið henni. Ákærði skýrir því næst frá ferðinni til Keflavíkur og þegar ákærðu hittu Geirfinn þar. Þá greinir hann frá viðræðunum við Geirfinn og átökum ákærðu við hann í Dráttarbrautinni, þegar hann beið bana. Loks segir hann frá flutningi líksins til Reykjavíkur að Grettisgötu 82, geymslu þess þar og flutningi upp í Rauðhóla 21. nóvember, þar sem það var grafið. Skýrsla þessi er í meginatriðum í samræmi við framburð ákærða fyrir dómi 20. og 21. júní 1977, sem síðar verður rakinn.
Hinn 10. desember var farið upp í Rauðhóla með ákærða og hann beðinn að benda á staðinn, þar sem lík Geirfinns væri grafið. Ákærði kvaðst ekki vera viss um staðinn, þar sem ferðin hefði verið farin í myrkri, en benti á nokkra uppmoksturshóla á tilteknu svæði og kvaðst telja þá líkasta greftrunarstaðnum. Fengin var jarðýta til leitar, en án árangurs.
Hinn 22. desember kom ákærði fyrir dóm hjá Erni Höskuldssyni fulltrúa og greinir frá á þessa leið:
"Kærði skýrir sjálfstætt frá málsatvikum greint sinn, og er framburður hans í samræmi við skýrslu þá, er tekin var af honum hjá rannsóknarlögreglu hinn 9. desember s. l.
Kærði telur, að hann hafi heyrt talað um Geira í Keflavík hjá leigubílstjóra, sem ók rauðum Mercedes Benz.
Kærði segir, að áður en þau Erla fóru til Kaupmannahafnar, hafi verið rætt um að blanda öðrum mönnum inn í málið. Kærði segir, að þau Kristján, Erla, Guðjón og hann sjálfur hafi rætt um hið sama síðar, er þau komu frá Kaupmannahöfn. Segir kærði, að þau hafi alveg fylgst með rannsókninni í blöðunum og spírasmygl hafi verið mikið rætt í blöðunum þá að undanförnu".
Hinn 28. desember lýsir ákærði því í viðtali við rannsóknarlögreglumenn, hvernig ákærðu hafi borið lík Geirfinns, þegar þeir komu því fyrir í Volkswagen bifreiðinni í Dráttarbrautinni í Keflavík. Hafi Kristján Viðar og Guðjón tekið undir axlir
Bls. 375
Geirfinns, en hann sjálfur undir fætur hans. Á leiðinni frá Keflavík hafi verið rætt um, hvað gera ætti við líkið. Annað hvort Kristján Viðar eða Guðjón hafi stungið upp á því að fara út á Álftanes, en það hafi ekki verið gert. Þegar þeir voru staddir í Garðahreppi, hafi verið ákveðið að fara með það heim til Kristjáns Viðars. Kristján Viðar hafi tekið undir axlir líksins, þegar það var tekið úr bifreiðinni, en ákærði sjálfur undir fæturna. Guðjón hafi ekki aðstoðað við þetta. Þegar ákærði var nánar um þetta spurður, breytti hann framburðinum og sagði, að Guðjón hefði haldið undir líkið, meðan Kristján Viðar var að opna kjallarahurðina. Hann kveðst ekki muna eftir sendibifreiðini eða Sigurði Óttari Hreinssyni þessa nótt á Grettisgötu. Ákærði kveðst hafa nefnt við Guðjón, að hann telur, er þeir voru staddir á Mokka hinn 20. nóvember, að blanda Klúbbmönnum í málið. Guðjón hafi hlustað á þetta, en ekki átt þátt í ákvörðuninni um það.
Hinn 7. janúar 1977 skýrði ákærði frá því, að þegar Geirfinnur hafði skýrt honum frá nafni sínu í Klúbbnum 17. nóvember 1974, hefði hann tekið upp svarta, nokkuð stóra vasabók sem hann gekk með, og skrifað nafn Geirfinns á lausan miða, sem var í henni. Kvöldið eftir, þegar hann fékk upplýsingar um símanúmer Geirfinns hjá símanum á 03 heima hjá Guðjóni, hafi hann tekið miðann og skrifaði á hann símanúmerið. Ákærði fékk Guðjóni miðann. Hann man ekki, hvort hann tók aftur við honum eða lagði símanúmerið á minnið a. m. k. hafði hann númerið, þegar hann hringdi í Geirfinn kvöldið áður en þeir fóru til Keflavíkur. Ákærði kveðst hafa beðið Geirfinn í símtalinu að vera einn síns liðs og einnig sé öruggt, að hann hafi sagt honum að koma fótgangangi. Ákærði man ekki, hvort hann var með miðann í vasanum eða tók við honum hjá Guðjóni,þegar þeir voru staddir fyrir utan Hafnarbúðina hinn 19. nóvember, en hann fékk Kristjáni Viðari miðann þar, þegr hann fór inn til að hringja. Þegar Kristján Viðar fór inn ámálgaði ákærði við hann að segja Geirfinni að kom einn og fótgangandi. Þegar Kristján Viðar kom út aftur, fór ákærði út úr bifreiðinni til að hleypa Kristjáni Viðari inn í hana. Kristján Viðar fékk honum miðann, og settist ákærði aftur inn í bifreiðina. Þegar ákærði vissi, að Geirfinnur var á leiðinni, reif hann miðann í sundur, kuðlaði honum saman og henti honum út um gluggann.
Ákærði var spurður nánar um kápu Erlu, sem hann kveðst
Bls. 376
hafa gleymt hjá Bjarna Þór á Bergþórugötu hinn 20. eða 21. nóvember 1974. Skýrði ákærði svo frá:
"Eins og ég er búinn að segja, gleymdi ég kápunni heim hjá Bjarna Þór á Bergþórugötunni 20. eða 21. nóvember 1974". "Hún var þar, uns við Erla komum frá Kaupmannahöfn um vorið. Þá bað hún mig að sækja kápuna. Ég fór heim til Bjarna og spurði hann eftir henni. Hann sagði, að systir sín, Kittý, væri með kápuna. Nokkrum dögum síðar kom ég aftur til Bjarna. Þá var kápan komin þarna. Hún hékk í fatahengi eða var í skáp til vinstri, þegar gengið er inn í íbúðina. Bjarni vísaði mér á kápuna. Ég vissi, að svartir blettir voru innan í kápunni, og fór ég að skoða þá betur þarna. Ég sá, að blettir voru að innanverðu við hettuna, og einnig voru blettir á annarri erminni. Þar sem ég taldi þetta blóðbletti, sem komið hefðu í ferðinni til Keflavíkur, fleygði ég kápunni í sorptunnu bak við húsið Bergþórugötu 27, þar sem Bjarni Þór á heima. Ég sagði síðan Erlu, að kápan væri týnd".
Ákærði var spurður um, hve mikla peninga hann hefði haft undir höndum í nóvember 1974 og hvar hann hefði geymt þá.
Skýrði ákærði svo frá:
"Í síðara póstsvikamálinu, sem var haustið 1974, komumst við Erla yfir kr. 475 þúsund. Við geymdum þessa peninga heima hjá okkur á Hjallaveginum. 19. nóvember 1974 áttum við eftir nálægt kr. 200 þúsund. Þá voru peningarnir geymdir í filmuboxi í kápuvasa heim í íbúðinni hjá okkur. Það voru 70 þúsund, sem ég tók með til Keflavíkur, í fimm þúsund króna seðlum. Þeir voru í búnti og bréfaklemma utan um".
Hinn 10. janúar var ákærði spurður nánar um símtölin frá Guðjóni hinn 18. nóvember 1974. Hann kvaðst hafa hitt Guðjón á Mokka þennan dag, um kl. 1700. Fór hann með honum heim og var kominn þangað kl. 1730. Hringdi hann fljótlega upp úr því í 03 og fékk uppgefið símanúmer Geirfinns. Hann hringdi síðan heim til Geirfinns. Barn svaraði í símann og sagði, að pabbi sinn væri ekki heim.
Sama dag skýrði ákærði frá því, að hann myndi greinilega, að Geirfinnur hefði verið klæddur í bláa kuldaúlpu og dökkar flauelsbuxur, en mundi ekki litinn á þeim. Ákærði átti orðaskipti við Geirfinn á leiðinni frá Hafnarbúðinni í Dráttarbrautina. Geirfinnur sagði ekki mikið, en virtist aðallega hlusta eftir því, sem ákærði hafði að segja.
Þegar átökin voru byrjuð í Dráttarbrautinni, kveðst alltaf
Bls. 377
muna, að rennilásinn á úlpu Geirfinns hafi verið "hálf upprenndur". Ákærði lýsti síðan flutningi líksins úr bifreiðinni inn í kjallarann að Grettisgötu 82 með sama hætti og áður. Líkið var sett inn í geymslu og breitt "tau" yfir. Ákærði kveður þá Kristján Viðar hafa tekið líkið úr geymslunni. Sagðist hann halda, að Kristján Viðar hefði þá verið búinn að vefja "tauinu" meira utan um líkið, en muna þetta frekar óljóst. Þeir hefðu bundið band utan um "tauið" og hafi það verið, að hann telur, ljós trolltvinni eða eitthvað svipað. Þá greindi ákærði frá flutningi líksins á Land Rover bifreiðinni upp í Rauðhóla og greftrun þess þar.
Sama dag endurtók ákærði sögu sína um það, eþgar hann ætlaði að hringja til Geirfinns úr "sjoppunni", sem er við Aðalstöðina í Keflavík, en hætti við það. Hefði verið ekið þaðan að Hafnarbúðinni og Kristján Viðar hringt þar. Ákærði kveðst ekki hafa haft hugmynd um, hvar Geirfinnur vann, og vill ekki kannast við að hafa hringt til Ellerts Björns Skúlasonar og spurt um Geirfinn. Hann veit ekki til þess, að Guðjón hafi hringt þangað.
Hinn 10. janúar var tekin skýrsla af ákærða og hann spurður, hvar hann hefði verið aðfaranótt 20. nóvember, þegar hann kom frá Keflavík, en nokkurs misræmis hefur gætt um það hjá honum. Ákærði skýrði svo frá:
"Er við höfðum komið líki Geirfinns fyrir í kjallaranum á Grettisgötu 82, fórum við þrír saman, þ. e. ég, Guðjón og Kristján Viðar, upp í innri ganginn að íbúð Kristjáns. Þar man ég eftir, að Kristján gaf mér nokkrar róandi töflur, sem ég tók inn en ekki man ég, hvaða tegund það var. Ég get alls ekki munað fyrir víst, hvort ég fór þarna inn í íbúðina til Kristjáns og gisti þar um nóttina eða hvar ég svaf þessa nótt, en ég kom ekki heim til mín á Hjallaveginn fyrr en kl. 1000 til 1030 um morguninn og kom þá í leigubifreið. Það, sem ég hefi fullyrt áður, að ég hafi gist hjá Kristjáni, er engan veginn öruggt, þar sem ég man ekki eftir nóttinni, en ég taldi líklegast, að ég hefði gist þar. Ekki varð ég var við Sigurð Óttar Hreinsson þarna á Grettisgötunni."
Ákærði var spurður um, af hverju hann hefði fengið lánaðar skóflur hjá Guðjóni Skarphéðinssyni, þar sem skóflur munu hafa verið til heima hjá Kristjáni Viðari á Grettisgötu. Hann skýrði svo frá:
"Er ég hitti Guðjón á Mokka 20. nóvember 1974, þá var tal-
Bls. 377
að um að fela líkið, og Guðjón sagðist hafa skóflur. Ég man ekki sérstaklega, af hverju skóflur voru ekki teknar hjá Kristjáni. Skóflunum var síðan skilað nokkrum dögum eftir að við notuðum þær, en ekki man ég, hvaða dag það var. Mig minnir, að við Erla höfum farið með þær vestur á Ásvallagötuna og sett þær við dyr á geymslu, sem er undir kjallaratröppunum. Þá kom ég ekki inn í íbúðina, en talaði eitthvað smávegis við Guðjón í dyrunum".
Hinn12. janúar skýrði ákærði frá því, að hann hefði ekki séð bát við bryggjuna í slippnum í Keflavík (Dráttarbrautinni) að kvöldi þess 19. nóvember og sögurnar um bátinn væru uppspuni og ósannar.
Í skýrslu hinn 19. janúar kveðst ákærði muna, að sendiferðabifreiðin hafi beðið eftir þeim Reykjavíkurmegin við Keflavík, og telur það vera við "sjoppu", sem er við aðalgötuna, þegar ekið er í gegnum Ytri-Njarðvík. Þeir hafi báðir farið þar út, hann og Kristján Viðar, og sagt Sigurði Óttari, hvert hann ætti að fara , þ. e. í gegnum Keflavíkurbæ, niður að slippnum og bíða þar.
Ákærði var spurður um þann framburð Kristjáns Viðars, að talað hefði verið um í bifreiðinni á leiðinni til Keflavíkur að taka manninn, þ. e. Geirfinn, í gegn. Hann svarar því til, að hann muni ekki, hvort komist hafi verið þannig að orði. Það hafi verið talað um að pressa manninn til að gefa upplýsingar um spíra og hann yrði kannske erfiður, en af sinni hálfu hafi ekki verið átt við líkamlegt ofbeldi og um þannig ofbeldi hafi ekki verið rætt.
Hinn 21. janúar var ákærði spurður sérstaklega um fyrstu samskipti hans og Geirfinns Einarssonar í Klúbbnum að kvöldi þess 17. nóvember 1974 og honum bent á framburð Kristjáns Viðars hjá rannsóknarlögreglunni 14. janúar 1977.
Ákærði segir, að efnislega geti skýrsla Kristjáns Viðars verið rétt um þetta atriði. Þeir hafi notað alls konar aðferðir til að komast í samband við menn, sem þeir ætluðu að ræna, og því sé mjög líklegt, að þarna hafi hann fengið Kristján Viðar til að fara til manns þess, sem þeir ætluðu að ræna, og sagt eitthvað við hann í þá átt, hvort hann vildi viðskipti með áfengi enda rámaði sig í , að þessi aðferð væri notuð í þetta skiptið. Ákærði sagðist muna, að Kristján Viðar hefði verið með einhverja fýlu við sig í sambandi við þetta og ákærði farið sjálfur til mannsins. Hann hafi farið að tala við manninn og spurt hann
Bls. 379
að heiti. Sagði ákærði, að þeir þekktust og hefðu verið saman til sjós. Þetta hafi verið ein af mörgum aðferðum til að komast í kynni við menn og þetta sama kvöld hafi þeir verið búnir að ræna einn mann þarna í Klúbbnum á svipaðan hátt.
Þegar maður þessi sagðist heita Geirfinnur og vera frá Keflavík, kveðst ákærði hafa látið sér detta í hug, að þetta væri "Geiri" í Keflavík, sem hann hafði áður heyrt nefndan í sambandi við spíra. Þá hafi hann hætt við hugmyndina að ræna hann, en í þess stað kynnt sig og sagst heita Magnús Leópoldsson. Hafi hann spurt manninn, hvort þeir gætu ekki átt viðskipti saman um áfengi. Síðan hafi þeir rætt saman um það mál, eins og hann sé búinn að greina frá í skýrslunni frá 9. desember 1976.
Hinn 22. janúar var ákærði spurður nánar um skóflur, sem hann hefði áður skýrt frá, að hefðu verið notaðar, þegar lík Geirfinns Einarssonar var grafið. Ákærði kveðst hafa beðið Guðjón um að fá skóflurnar lánaðar, þegar hann hitti hann á Mokka hinn 20. nóvember 1974. Hann hafi sótt skóflurnar heim til Guðjóns með hans leyfi. Ekki kveðst hann muna, hvort Guðjón hafi afhent skóflurnar eða verið viðstaddur, þegar ákærði tók þær. Hann kveðst nokkrum dögum síðar hafa skilað skóflunum. Hann muni ekki, hvort Guðjón hafi tekið við þeim, en hann telur sig hafa skilið þær eftir í horninu við innganginn í íbúð Guðjóns. Þau Erla hafi verið á Land Rover bifreiðinni, bæði er hann sótti skóflurnar og skilaði þeim. Skóflurnar hafi örugglega verið tvær, önnur hafi verið með löngu skafti, en hin með stuttu og handfangi, eða það sem kallað er stunguskófla. Hann veit ekki, hver á skóflurnar né hvar þær eru niður komnar.
Farið var með ákærða til Keflavíkur hinn 23. janúar og hann beðinn að benda á stað þann, sem Mercedes Benz sendiferðabifreiðin hefði staðið að kvöldi 19. nóvember 1974, þegar hann sá hana fyrst í Keflavík. Ákærði benti á Aðalstöðina, sem er í suðurjaðri Keflavíkur, og sagði, að hann væri nokkurn veginn alveg viss um, að bifreiðin hefði verið þar.
Ákærði var beðinn að sýna stað þann, sem þeir hefðu verið á í Keflavík sama kvöld, þegar hann sagði farþegunum í Volkswagen bifreiðinni að beygja sig niður. Hann svaraði því til, að það hefði verið einhvers staðar á aðalgötunni. Hann gæti ekki nákvæmlega bent á staðinn.
Þá var ákærði beðinn að benda á "sjoppuna", sem hann hefði farið inn í umrætt kvöld og ætlað að hringja, en hætt við það.
Bls. 380
Hann benti á "sjoppuna", sem er við Aðalstöðina, og sagðist telja það öruggt, að þetta væri sú rétta. Hann hefði í fyrstu talið það vera "sjoppu" skammt frá lögreglustöðinni, en nú muna betur, að svo hefði ekki verið, heldur hafi hann einu sinni, þegar hann kom með Erlu til Keflavíkur í gjaldeyrisleit, farið inn í þá "sjoppu" til að hringja. Þessu hafi hann ruglað saman í fyrstu.
Ákærði var spurður enn einu sinni, hvort hann væri öruggur um, að ekki hefði verið tekið bensín í umræddri ferð. Hann sagði sig ráma óljóst í, að tekið væri bensín í Keflavík og þá við Aðalstöðina. Hann sagðist halda, að Guðjón hefði séð um það.
Hinn 24. janúar var ákærði beðinn að skýra nákvæmlega frá atriðum, þegar hann og félagar hans báru lík Geirfinns Einarssonar inn í kjallarann á Grettisgötu 82 aðfaranótt 20. nóvember 1974. Ákærði endurtók, að hann teldi sig örugglega muna, að þeir þrír hafi allir hjálpast að við þetta. Einnig minni sig, að ljóslaust hafi verið í þvottahúsinu. Hann hafi á eftir verið á ganginum fyrir framan og horft inn í þvottahúsið. Sá hann félaga sína vera að setja eitthvert dökkleitt efni utan um eða yfir líkið, sem legið hafi á gólfinu. Ekki kveðst hann geta áttað sig á, hvers konar efni þetta hafi verið, hvort það var "tau" eða annars konar dúkur. Kristján Viðar hafi opnað hurðina á geymslunni. Hafi hann annað hvort sparkað henni upp eða spennt hana upp með því að ýta á hana. Ekki segist hann muna, hvernig líkið var borið inn í geymsluna, en minnast þess að hafa tekið þátt í því. Það hafi verið lagt þar hálfvegis á grúfu upp á drasl til hægri handar, en vinstri vanginn hafi snúið upp og hann séð andlitið. Hann kvaðst hafa séð blóðugar skrámur eða rispur á vinstri vanganum, en ekki aðra áverka.
Þegar ákærði talaði seinna við Kristján Viðar um að flytja líkið, kveðst hann hafa haft orð á því, hvort hann ætti ekki að koma með plast til að setja utan um það. Kristján Viðar hafi sagt það óþarft, þar sem hann hefði efni til þess.
Þegar ákærði kom í geymsluna, var búið að setja eitthvað utan um líkið, og sá ákærði ekki andlitið. Þeir færðu líkið yfir í þvottahúsið. Kristján Viðar kom með eitthvað efni, að ákærða minnir brúnleitt. Í þvottahúsinu settu þeir efni þetta utan um líkið og bundu síðan um með snæri. Ákærði man ekki, hvaðan snæri þetta kom, og ekki getur hann sagt um, hvort það var úr hampi eða næloni.
Hann var sérstaklega spurður um, hvort blætt hefði úr vitum
Bls. 381
líksins eða það verið mikið blóðugt. Hann svaraði því til, að hann hefði ekki séð blæða úr vitum þess og ekki séð annað blóð en storku á vinstri vanga.
Hinn 1. febrúar var ákærði spurður um nokkur atriði.
Ákærði kveðst ekki geta sagt með vissu, hvers vegna Erla fór með þeim til Keflavíkur. Þau hafi alltaf verið saman og hún e. t. v. komið með bara vegna félagsskaparins. Hún hafi ekki átt að gera neitt sérstakt. Henni hafi ekki verið ætlað að vera bílstjóri til vara, ef Guðjón færi ekki. Ákærði kveðst ekki hafa tekið Kristján Viðar með vegna þess t. d., að hann var svo sterkbyggður og hefði líkamlega yfirburði yfir Geirfinn. Hann hefði bara tekið Kristján Viðar með, af því að þeir hafi verið vinir frá barnsaldri, og af því að hann gæti e. t. v. selt áfengi. Ákærði kveðst aldrei hafa sagt í bifreiðinni, að Geirfinnur ætti e. t. v. að hverfa. Sér þætti gott að fá að ræða þetta við þau Guðjón og Erlu. Þar að auki sé þetta ekki "logiskt". Ákærði tók Geirfinn með inn í Dráttarbrautina, af því að hann grunaði, að áfengið gæti verið falið einhvers staðar í nágrenninu. Þarna er einnig bryggja, þar sem hann hélt, að smyglað áfengi væri sett í land. Ákærði kveður það ekki rétt, að Guðjón hafi einungis farið þessa ferð af forvitni. Guðjón hafi búist við að fá peninga fyrir. Peningunum, sem kæmu úr áfengisviðskiptunum, ætlaði ákærði að skipta með honum, eins og hann hefði talað um við hann. Ákærði hafði ekkert rætt það við Guðjón fyrir ferðina, að þeir ætluðu að pressa Geirfinn, það hafi ekki verið gert fyrr en í bifreiðinni. Það sé hugsanlegt, að Geirfinnur hafi gleymt eða misskilið samkomulag þeirra í Klúbbnum, og þegar hann sé að tala um að "pressa", þá eigi hann við, að þeir hafi ætlað að gera allt, sem í þeirra valdi stæði, til þess að fá Geirfinn til að segja frá áfenginu. Í samtalinu við Geirfinn hafi þetta ekki tekist og hann hafi ætlað að fara burt, þegar þeir voru komnir út úr bifreiðinni. Þegar Geirfinnur vildi ekki semja meira við þá, hafi Guðjón gripið í öxlina á honum. Við það hafi Geirfinnur orðið reiður og ætlað fram hjá Kristjáni Viðari og hrint honum frá. Þá hafi átökin hafist. Auðvitað hafi þeir haft yfirburði, þar sem þeir voru þrír á móti einum, en æsingurinn hafi verið orðinn svo mikill, að þeir hafi gripið til barefla. Á meðan Kristján Viðar hélt Geirfinni með hálstakinu, kveðst ákærði hafa slegið Geirfinn með spýtu á fótleggina eða lærin af æsingi, af því að hann hafi hrint honum. Ákærði lamdi frá hlið, en ekki ofan frá. Ákærði sló Geirfinn ekki í magann, og hann mót-
Bls. 382
mælir því ákveðið, að hann hafi barið hann í fæturna á þessu augnabliki til þess að þvinga hann til þess að tala. Geirfinnur átti að fá peninga, ef hann vísaði á áfengið, sem þeir ætluðu síðan að stela. Ekki var heldur hugsað um manndráp í því tilviki. Auk þess var búið að tala um það greinilega í Klúbbnum, að Geirfinnur ætti að fá peninga.
Ákærði álítur, að Geirfinnur hafi dottið dauður til jarðar strax eftir hálstakið. Ákærði sá ekki, hvort hann var sleginn áfram með spýtu, eftir að hann lá á jörðinni. Kristján Viðar sagði ákærða, eftir að ákærði sneri aftur frá Erlu, að Guðjón hefði slegið hann áfram með spýtu, þar sem hann lá á jörðinni, en Guðjón þrætti fyrir það í samtali við hann. Þegar ákærði kom aftur frá Erlu, sagði Kristján Viðar þar að auki: "Geirfinnur er dauður". Því sé algerlega rangt, ef einhver skyldi álykta, að Geirfinnur hafi verið drepinn af ásettu ráði til þess að fjarlægja illa særðan mann, sem gæti borið vitni.
Ákærði leggur enn áherslu á það, að hann hafi aldrei haft þann ásetning að drepa Geirfinn. Ákærði trúir því ekki, að það hafi verið ásetningur Kristjáns Viðars. Kristján Viðar taki oft þátt í áflogum og ef hann sláist á annað borð, þá sé það upp á líf og dauða, eftir því sem ákærði hefur séð til hans. Ákærði heldur ekki, að hann hefði getað stöðvað Kristján Viðar í slíku tilviki, og þar að auki hafi hann sjálfur verið orðinn of æstur. Ákærði varð að taka Erlu með í líkflutningana í Rauðhólana, af því að hann átti ekki völ á neinum öðrum bílstjóra. Á þeim tíma höfðu hvorki Kristján Viðar né hann ökuskírteini. Að sínu áliti liggi lík Geirfinns nú eins og áður í Rauðhólum, þar sem þeir grófu það 21. nóvember 1974.
Ákærði kom fyrir dóm hjá dómurum máls þessa 20. og 21. júní sl. Verður nú framburður hans rakinn, en jafnframt getið um það, þar sem verulegt misræmi er á milli framburðarins og skýrslu hans hjá lögreglu 9. desember 1976.
Ákærði kveðst hafa verið staddur í veitingahúsinu Klúbbnum, að hann minnir að kvöldi sunnudagsins 17. nóvember 1974, ásamt Kristjáni Viðari Viðarssyni og Páli Konráði Konráðssyni. Veitti hann athygli ölvuðum manni í stiganum fyrir neðan "diskótekið" í Klúbbnum á 2. hæð. Ákærði kveðst minnast þess, að Kristján Viðar hafi rætt við mann þennan, en hvort ákærði átti frumkvæðið að því, man hann ekki. Ákærði hafði grun um, að Kristján Viðar væri að reyna að ná í veski mannsins. Ákærði gekk til þeirra og fór að ræða við þá. Ákærði spurði manninn,
Bls. 383
hvort þeir hefðu ekki verið saman til sjós, en hann neitaði því. Þetta hafi verið aðferð, sem ákærðu notuðu, ef þeir ætluðu að stela veskjum. Ákærði spurði manninn að heiti. Sagðist hann heita Geirfinnur og vera úr Keflavík. Ákærði hafði heyrt, að maður í Keflavík, sem kallaður er "Geiri", fengist við sölu á spíritus, og taldi hann, að þetta mundi vera hann. Ákærði kveðst hafa heyrt "Geira" þennan nefndan í samtali við leigubifreiðarstjóra og eins hafi Páll Konráð Konráðsson sagt sér, að hann hefði keypt af honum áfengi. Nánari deili á manni þessum veit ákærði ekki. Ákærði spurði manninn eitthvað um spíritus, og skildi ákærði svar hans þannig, að hann hefði eitthvað með spíritus að gera. Ákærði spurði manninn, hvort þeir ættu ekki að koma í einhver viðskipti, og hafði ákærði þá í huga, að Geirfinnur kæmi sér í samband við mann þann, sem hann skipti við. Þetta hafi þó verið allt í lausu lofti, en ákærði hafði í huga að komast að því, hvar spírinn væri geymdur. Minnir ákærða, að hann hafi nefnt 50.000-70.000 krónur eða einhverja áþekka upphæð, sem ákærði væri tilbúinn til að greiða fyrir upplýsingar. Ákærði skrifaði niður nafn og heimilisfang mannsins, en ekki símanúmer. Ákærði sagði manninum, að hann héti Magnús Leópoldsson og væri á vegum Klúbbsins. Mundi ákærði ræða við hann eftir helgina. Ákærða minnir, að hann hafi séð manninn aftur í Klúbbnum og hafi hann þá verið við barinn. Ákærði sá í dóminum mynd af Geirfinni Einarssyni, og sagði hann, að um hann hafi verið að ræða. Ákærði var ekki var við, að neinn væri með Geirfinni. Kristján Viðar heyrði eitthvað af samtalinu, en hvort hann heyrði, þegar rætt var um spíraviðskipti, veit ákærði ekki. Þá telur ákærði hugsanlegt, að Páll Konráð Konráðsson hafi vitað eitthvað um Geirfinn.
Daginn eftir, hinn 18. nóvember, sagði ákærði Erlu frá samtalinu við Geirfinn og væntanlegum viðskiptum. Um kvöldið ók Erla ákærða í Land Rover bifreið, sem þau áttu, heim til Guðjóns, sem þá bjó við Ásvallagötu. Ákærði fór inn til Guðjóns, en minnir, að Erla hafi beðið í bifreiðinni á meðan. Ákærði telur, að Guðrún, kona Guðjóns, hafi verið heima. Ákærði sagði Guðjóni frá væntanlegum spíraviðskiptum í Keflavík og bauð honum að taka þátt í þeim. Sagði hann Guðjóni, að hann hefði hitt mann í Klúbbnum, sem fengist við spíraviðskipti, og hefði hann boðið honum peninga, til þess að hann gæfi sér upplýsingar um, hvar spírinn væri geymdur. Ákærði heldur, að hann hafi spurt Guðjón að því, hvort hann gæti lagt fram peninga
Bls. 384
í þessu skyni til að greiða Geirfinni. Ákærði man ekki eftir því, að Guðjón hafi lofað að leggja fram peninga í þessu skyni, og hafi hann borið við lélegum fjárhag. Ákærði kveðst álíta, að Guðjóni hafi verið ljóst, að taka átti spírann ófrjálsri hendi, og hafi hann ákveðið að taka þátt í þessu.
Í lögregluskýrslunni frá 9. desember 1976 segir ákærði, að hann hafi ekki vitað, hvort Guðjóni var ljós sú hugmynd sín að stela spíritusnum. Hann hafi ef til vill litið á þetta sem væntanlegt gróðabrall. Guðjón hafi ákveðið a taka þátt í þessu og jafnvel að leggja fram einhverja peninga, ef hann hefði þá handbæra.
Ákærði man, að hann hringdi í nokkra staði úr íbúð Guðjóns. Hann kveðst hafa hringt til Kristjáns Viðars að Laugavegi 32. Einhver maður hafi komið í símann, og telur hann, að það hafi verið Páll Konráð. Kristján Viðar kom síðan í símann, og sagði ákærði honum, hvað til stæði. Kristján Viðar spurði um, hvort ætlunin væri að ræna spíranum, en ákærði telur, að honum hafi þá verið það ljóst.
Í lögregluskýrslunni segir ákærði, að þeir hafi talað um, að Kristján Viðar sæi um að útvega sendibifreið, sem nota ætti til að flytja spírann frá Keflavík til Reykjavíkur. Hafi ákærði talað um það við Kristján Viðar, að hann reyndi að fá frænda sinn til að aka þessa ferð, en ákærði vissi, að hann hafði ekið sendibifreið sumarið 1974. Kristján Viðar féllst á að sjá um þá hlið málsins.
Kristján Viðar sagðist geta útvegað sendibifreiðina og hafa tök á að koma spíranum í umferð. Þá hringdi ákærði í mann nokkurn, sem ákærði kveður hafa fengist við vínsölu. Spurði ákærði manninn um verð á spíritus. Sagði maðurinn, að þriggja pela flaska af 96% spíritus, blönduðum til helminga með vatni, væri seld á 2.000 krónur.
Ákærði kveðst hafa hringt í Landssímann og fengið upplýsingar um símanúmer Geirfinns. Kveðst hann skv. lögregluskýrslunni hafa skrifað það á miða, sem hann hafi látið Guðjón fá. Ákærði hringdi síðan heim til Geirfinns og spurði eftir honum. Barn kom í símann og sagði, að Geirfinnur væri ekki heima. Ákærði kveðst muna, að hann hafi rætt eitthvað meira við Guðjón um ferðina til Keflavíkur. Hann hafi sagt honum, að Land Rover bifreið hans væri ekki í lagi, og hafi þá verið afráðið að fá bifreið í bílaleigu. Ákveðið hafi verið að fara til Keflavíkur að kvöldi næsta dags. Sagðist Guðjón annað hvort
Bls. 385
verða heima hjá sér eða á Lambhóli við Starhaga. Ákærði og Erla héldu að því búnu á brott.
Um hádegisbilið hinn 19. nóvember kveður ákærði þau Erlu hafa farið á bílaleiguna Geysi. Hittu þau þar að máli mann þann, sem annaðist reksturinn, en ákærði kveðst ekki muna nafn hans. Þau höfðu áður fengið bifreiðar á leigu hjá manni þessum og þekktu hann. Ákærðu fengu á leigu Volkswagen bifreið, ljósbláa að lit. Enginn skriflegur samningur var gerður, en ákærði lét manninn hafa 5.000 krónur í peningum. Ákærði kveðst hafa stungið upp á því við manninn að hafa þennan hátt á, en ákærði hafði áður fengið bifreið á leigu á bílaleigunni með þessu móti. Erla ók bifreiðinni síðan inn á Hjallaveg, og var bifreiðin skilin þar eftir. Ákærða er ekkert minnisstætt, hvað gerðist þennan dag fram til kl. 1830, þegar þau Erla fóru að Grýtubakka 10, þar sem þau borðuðu kvöldverð hjá móður ákærða. Skömmu áður en ákærði fór að Grýtubakka 10, kveðst hann hafa hringt til Keflavíkur í Geirfinn Einarsson, en þó geti verið, að það hafi verið eftir að hann kom þangað. Ákærða minnir, að einhver annar en Geirfinnur hafi komið í símann og kallað á Geirfinn, en í lögregluskýrslunni segir ákærði, að sig minni, að Geirfinnur hafi sjálfur komið í símann. Ákærði kveðst hafa minnst á samtalið í Klúbbnum við Geirfinn og spurt hann, hvort hann vildi hitta sig við Hafnarbúðina í Keflavík klukkan hálf tíu eða tíu um kvöldið. Ákærði sagðist vera með peningana með sér, en nefndi ekki neina upphæð. Geirfinnur félls á þetta. Ákærði sagði sem áður, að hann héti Magnús Leópoldsson.
Um kl. 2000 um kvöldið fóru ákærði, Erla og móðir ákærða á kvikmyndasýningu á Kjarvalsstöðum og voru þar, uns sýningunni lauk. Áður en ákærði fór á brott, talaði hann við Kristján Viðar og sagði Kristján Viðar, að allt væri í lagi með sendibifreiðina. Þegar kvikmyndasýningunni á Kjarvalsstöðum var lokið, óku þau Erla móður ákærða heim til hennar, en síðan ók Erla á Hjallaveg, og var þar skipt um bifreið. Því næst héldu þau rakleitt vestur á Ásvallagötu heim til Guðjóns. Guðjón var ekki heima, og óku þau að Lambhóli við Starhaga. Guðjón var þar og eitthvað fleira fólk, og er ákærða sérstaklega minnisstæður Rafn Guðmundsson, sem hann kannaðist smávegis við. Guðjón var á gulri Fiat bifreið, og fór ákærði í bifreiðina til hans. Héldu þeir í bifreiðinni á Vatnsstíg, en þar hafði verið ákveðið að hittast. Erla kom ein á Volkswagen bifreiðinni. Ákærði kveður geta verið, að Guðjón hafi komið við á Ásvallagötu, áður en haldið var á Vatnsstíginn. Erla var komin á staðinn á Volkswagen bifreiðinni, þegar þeir komu á Vatnsstíginn. Guðjón lagði bifreiðinni hægra megin á móts við Dún- og fiðurhreinsunina á Vatnsstíg, en Erla hafði lagt hinum megin á götunni. Ákærði fór því næst að Laugavegi 32 og sótti Kristján Viðar. Páll Konráð kom til dyra að Laugavegi 32, er hann knúði þar dyra. Fór hann og sótti Kristján Viðar, en í lögregluskýrslunni hafði ákærði sagt, að Kristján Viðar hafi beðið tilbúinn á ganginum. Kristján Viðar sagðist hafa verið farinn að bíða eftir ákærða. Kristján Viðar var klæddur í leðurjakka, brúnan eða svartan, og var með loðskinnshanska á höndum. Ákærðu fóru rakleitt niður á Vatnsstíg. Þegar þeir komu þangað, hafði Guðjón sest undir stýri í Volkswagen bifreiðinni, en ákveðið hafði verið, að hann æki bifreiðinni til Keflavíkur. Erla sat í aftursætinu, beint fyrir aftan Guðjón. Ákærða minnir, að þeir Kristján Viðar hafi sest inn í Volkswagen bifreiðina, Kristján Viðar í aftursæti, en ákærði í framsæti við hlið ökumanns. Ákærði kveðst hafa séð sendiferðabifreið að Mercedes Benz gerð á Vatnsstígnum, en man ekki alveg, hvenær það var. Ákærði og Kristján Viðar fóru til ökumannsins, sem var Sigurður Óttar Hreinsson, frændi Kristjáns Viðars. Ákærði kveður þá Kristján Viðar hafa rætt við Sigurð Óttar um ferðina til Keflavíkur og hvert ætti að aka, þegar þangað kæmi. Ákærði er helst á því, að þeir hafi ætlað að hitta Sigurð Óttar við einhverja "sjoppu" í Keflavík og hafi jafnvel Hafnarbúðin veirð nefnd í því sambandi. Ákærði telur, að ekki hafi verið minnst á Dráttarbrautina, áður en til Keflavíkur kom, en þó kunni það að hafa verið. Sendiferðabifreiðinni hafi verið ekið á brott á undan. Ákærði kveður geta verið, að maður hafi verið með Sigurði Óttari, en er ekki viss um það.
Í lögregluskýrslunni greinir ákærði frá því, að þegar hann var á leið að Volkswagen bifreiðinni á Vatnsstígnum ásamt Kristjáni Viðari, áður en lagt var af stað til Keflavíkur, hafi Sigurður Óttar komið á sendibifreiðinni og stöðvað nokkru neðar á Vatnsstígnum. Sendibifreiðin, sem hann ók, hafi verið gul Mercedes Benz og eigandi hennar verið strákur, sem bjó neðarlega á Rauðalæk, og minnir ákærða, að hann hafi átt þrjá sendibíla.
Af Vatnsstígnum var ekið niður á Skúlagötu, síðan suður Snorrabraut og þaðan inn á Reykjanesbraut áleiðis til Keflavíkur. Verið geti, að bensín hafi verið tekið í Hafnarfirði, en
Bls. 387
ákærði er þó ekki viss um það. Ákærði kveður aldrei hafa verið minnst á það að beita Geirfinn líkamlegu ofbeldi. Þeir hafi rætt um það að "pressa" hann, ef hann yrði neikvæður, og eins geti verið, að ákærði hafi sagt, að þeir skyldu sýna Geirfinni fulla hörku, ef hann væri með einhverja "stæla", en ákærða hafði fundist hann áhugalítill, þegar hann ræddi við hann í símann. Þetta þýddi þó ekki, að ákveðið hefði verið að beita neinu líkamlegu ofbeldi. Ákærði hafði meðferðis 70.000 krónur í peningum, sem hann var reiðubúinn að láta Geirfinn fá, ef hann veitti upplýsingar um geymslustað spírans, en ákærði taldi, að verið gæti, að um nokkur hundruð lítra væri að ræða. Ákærði kveðst ekki vita nákvæmlega um tímann, þegar til Keflavíkur kom, en telur, að klukkan hafi verið orðin vel rúmlega tíu. Ákærði man, að stöðvað var á einhverri bensínsafgreiðslustöð í Njarðvíkum eða Keflavík. Var Sigurður Óttar kominn þangað, og ræddu þeir Kristján Viðar við hann. Var Sigurði Óttari sagt að fara í Dráttarbrautina. Sigurður Óttar virtist þekkja til í Keflavík og vita, hvar Dráttarbrautin var. Hann ók á brott á undan þeim. Þau óku síðan eftir aðalgötunni í Keflavík. Ákærði man ekki eftir neinu sérstöku á leiðinni eftir aðalgötunni, en eitthvað fólk var þar á gangi. Ákærði minnist þess ekki að hafa sagt meðákærðu að beygja sig niður af ótta við, að lögreglan stöðvaði þau, þar sem um bílaleigubifreið var að ræða. Þó geti það verið. Í lögregluskýrslunni segir ákærði, að hann hafi sagt meðákærðu að beygja sig niður, þegar þau óku eftir aðalgötunni, af framangreindri ástæðu og hafi þau gert það.
Þessu næst var ekið að Hafnarbúðinni og nokkuð fram hjá henni. Var numið þar staðar, og fóru þeir Kristján Viðar úr bifreiðinni. Héldu þeir inn í Hafnarbúðina til að svipast um eftir Geirfinni, en sáu hann ekki. Ákærði keypti eitthvað í búðinni og minnir, að það hafi verið Viceroy vindlingar. Ákærði kveðst muna eftir því, að stúlkurnar, sem afgreiddu í Hafnarbúðinni, voru í bláum sloppum. Ákærðu fóru síðan út úr Hafnarbúðinni. Þeir svipuðust um eftir Geirfinni, en sáu hann ekki og héldu að bifreiðinni. Því næst var ekið í gegnum Keflavík og niður í Dráttarbraut. Var verið að svipast um eftir Sigurði Óttari, sem Kristján Viðar ætlaði að ræða við, og eins töldu ákærðu, að þar mundi spírinn vera geymdur. Numið var staðar ofan við Dráttarbrautina. Þeir Kristján Viðar fóru þar út úr bifreiðinni, en Guðjón sneri henni við á meðan.
Bls. 388
Samkvæmt lögregluskýrlsu fundu ákærðu Sigurð Óttar, þar sem hann beið neðarlega í Dráttarbrautinni. Kristján Viðar talaði við hann og sagði honum að bíða. Ákærði er ekki viss um, hvort hann hafi talað við Sigurð Óttar þarna.
Engin mannaferð var í Dráttarbrautinni, en bátur var þar við bryggju, að ákærða minnir. Síðan var sest aftur inn í bifreiðina og ekið til baka eftir aðalgötunni. Numið var staðar við "sjoppu", og fór ákærði úr bifreiðinni til að hringja í Geirfinn. Margt fólk var í "sjoppunni", og hætti ákærði við að hringja, og var ekið aftur að Hafnarbúðinni. Þar lét ákærði Kristján Viðar hafa miða með nafni Geirfinns og símanúmeri. Bað hann ákærða Kristján Viðar að fara í Hafnarbúðina og hringja þaðan í Geirfinn. Geti verið, að hann hafi sagt við Kristján Viðar að segja Geirfinni að koma einum að Hafnarbúðinni og vera gangandi.
Í lögregluskýrslunni fullyrti ákærði þetta. Hann hefði verið búinn að segja Geirfinni áður í síma að koma gangandi og einnig að þau mundu verða á ljósblárri Volkswagen bifreið.
Kristján Viðar fór síðan inn í Hafnarbúðina. Hann kom aftur eftir skamma stund. Sagðist hann hafa náð sambandi við Geirfinn og mundi hann koma. Ákærði kveður geta verið, að Kristján Viðar hafi sagt, þegar út kom, að Geirfinnur hafi spurt um, hvort Maggi væri þarna. Kristján Viðar settist inn í bifreiðina á sama stað og áður. Skömmu síðar varð ákærði var við, að Geirfinnur kom að bifreiðinni. Kallaði ákærði til hans "Geiri", og svaraði Geirfinnur játandi. Ákærði opnaði síðan bifreiðina. Fór Geirfinnur inn í hana og settist í aftursæti fyrir aftan ákærða, eða hægra megin við hliðina á Kristjáni Viðari. Síðan var ekið um bæinn og farið að ræða um viðskiptin. Geirfinnur var þögull og lagði lítið til málanna. Ákærði kveðst hafa orðað þat við Geirfinn að fara á kyrrlátan stað og ræða málin. Geirfinnur virtist ekkert hafa á móti því og gerði enga tilraun til að komast út úr bifreiðinni. Geirfinnur virtist ekki gera sér ljóst, um hvað ákærði var að tala. Hafði ákærði þó á tilfinningunni, að hann væri að hugsa málið. Þegar niður á Dráttarbrautina kom, var numið staðar. Sagðist ákærði vera með 70.000 krónur og sýndi Geirfinni peningana. Ákærði bað hann að sýna sér, hvar spíritusinn væri geymdur. Geirfinnur virtist ekki átta sig á þessu eða vera að hugsa málið. Ákærði rétti honum peningana, og tók hann við þeim. Ákærði spurði Geirfinn nánar um spíritusinn. Hann sagðist ekki neitt vilja með þetta hafa. Ákærði minnist
Bls. 389
þess ekki, að Geirfinnur hafi haft orð á því, að hann vildi kaupa af þeim spíritus, en þó megi það vel vera. Ákærða fannst Geirfinnur snúa út úr því, sem ákærði var að spyrja hann um.
Í lögregluskýrslunni segir ákærði, að Geirfinnur hafi snúið út úr og gefið í skyn, að hann vildi kaupa spíritus, að ákærða skildist. Í lögregluskýrslunni kveðst ákærði hafa sagt Geirfinni, að hann gæti greitt honum meiri peninga, ef hann vildi, og sýnt honum fram á, að þetta væru viðskipti. hann hafi þá farið að vera með hávaða og hent peningunum á gólfið og viljað komast út úr bifreiðinni. Ákærði Guðjón hafi stöðvað bifreiðina.
Ákærði kveðst nú hafa opnað hurð bifreiðarinnar. Fór ákærði fyrst út ásamt Guðjóni, en síðan Geirfinnur og Kristján Viðar. Minnir ákærða, að hann hafi tekið peningana upp af gólfi bifreiðarinnar, rétt eftir að Kristján Viðar fór út úr henni. Erla varð eftir í bifreiðinni.
Geirfinnur ætlaði nú að ganga burt, en Guðjón hafi þá tekið í öxlina á honum og spurt hann að því, hvort þeir ættu ekki að ræða betur saman. Geirfinnur sagði þá: "Ég þekki Sigurbjörn og ykkur hina í Klúbbnum". Skildist ákærða á þessu, að Geirfinnur tryði því, að þeir væru í einhverjum tengslum við Klúbbinn. Ákærði og Kristján Viðar voru til hliðar við Geirfinn. Spurði Kristján Viðar hann að því, hvort ekki hefði verið búið að ræða þetta í Klúbbnum. Geirfinnur svaraði því ekki, en hrinti Kristjáni Viðari frá sér. Kristján Viðar sló þá Geirfinn, en ekki veit ákærði, hvar höggið kom. Ákærði sló Geirfinn í andlitið, en hann hratt ákærða frá sér, og datt ákærði aftur fyrir sig. Ákærði stóð strax á fætur og réðst aftur á Geirfinn, en hann stjakaði honum frá. Á meðan hafði Kristján Viðar slegið Geirfinn nokkur högg í magann. Guðjón tók einnig þátt í þessu. Sló hann til Geirfinns, og ákærði sá einnig, að hann tók á Geirfinni hálstak. Kristján Viðar tók því næst Geirfinn haustaki aftan frá með hægri handlegg. Ákærði kveðst því næst hafa gripið spýtu, um 70 cm á lengd, sem lá þarna. Barði hann Geirfinn með henni eitt högg, er lenti framan á fótunum um hnén. Ákærði fleygði því næst spýtunni. Ákærði var orðinn hræddur og hætt að lítast á þetta. Hann sá, að Kristján Viðar var búinn að breyta um hálstak á Geirfinni og var kominn til hliðar við hann. Ákærði kveður Guðjón hafa eitthvað tekið þátt í þessu, en nánar um það man ákærði ekki, og hann er ekki viss um, hvort Guðjón barði hann með spýtunni. Ákærði kveðst að þessu leyti breyta skýrslu sinni hjá rannsóknarlögreglu. Ákærði kveðst þó muna,
Bls. 390
að Guðjón hafi haldið á spýtunni í hendi og reitt til höggs, en ekki sá hann, hvort hann sló Geirfinn eða hvar höggið lenti, ef svo hefur verið.
Í lögregluskýrslunni segir ákærði: "Er hér var komið, sá ég, að Guðjón var kominn með spýtuna í hendurnar. Ég sá hann slá Geirfinn nokkur högg með henni, fyrst í fæturna og síðan í mjaðmirnar".
Ákærði man, að einhvern tíma í átökunum var Geirfinnur eitthvað að reyna að rífa í Kristján Viðar með annarri hendinni. Tók þá ákærði í hönd Geirfinns, og man ákærði sérstaklega, að Kristján Viðar sagði eitthvað á þessa leið við Geirfinn: "Vertu rólegur maður".
Ákærði fór nú til Erlu, sem var komin út úr bifreiðinni. Hún var taugaóstyrk og vildi, að þau færu burtu. Ákærði sagði henni, að hún skyldi fara ein, og fékk henni 5.000 krónur fyrir leigubifreið til Reykjavíkur. Ákærði sagði við Erlu, að maðurinn væri alveg óður eða eitthvað á þá leið, en skv. lögregluskýrslu hafði hann sagt, að það þýddi ekki að róa manninn niður.
Erla fór því næst á brott. Ákærði sá ekkert til Sigurðar Óttars, en telur hugsanlegt, að hann hafi séð átökin. Ákærði sneri sér nú aftur til meðákærðu og Geirfinns. Lá þá Geirfinnur á hliðinni á jörðinni. Guðjón stóð yfir honum og hafði kastað frá sér spýtunni. Kristján Viðar var álútur yfir Geirfinni að þukla á honum og sagði, að hann væri dauður. Ákærði tók á púlsi Geirfinns og fann engan æðaslátt og taldi Geirfinn látinn. Ákærði kveðst ekki geta gert sér ljóst, hvað varð Geirfinni að bana. Ákærði sá blóð eða skrámur á vinstra gagnauga og kjálka Geirfinns. Einnig sá hann svartan blett eins og mar á hálsi Geirfinns, sem gæti þó hafa verið mold. Ákærði sá ekki aðra áverka á Geirfinni.
Ákærði kveður átökin við Geirfinn hafa gengið mjög hratt fyrir sig og hafi verið erfitt að átta sig á einstökum atriðum. Ákærði man eftir, að mikill æsingur var, á meðan á átökunum stóð, en ekki man hann eftir því, að Geirfinnur hrópaði á hjálp. Ákærði heyrði stunur frá Geirfinni, og var eins og hann tæki út. Ákærði kveðst ekki geta gert sér ljóst, hvað átökin stóðu lengi, en honum fannst þau standa stutt. Þegar ákærðu höfðu athugað Geirfinn og þeim virst hann látinn, sagði Guðjón við ákærða: "Náðu í Erlu". Ákærði kvaðst hafa kallað á Erlu, en hún ekki svarað. Ákærði gekk aftur til Guðjóns, og sagði Guðjón þá við hann: "Finndu hana". Ákærði leitaði að Erlu, en fann hana ekki. Ákærði
Bls. 391
man, að Kristján Viðar sagði: "Hvað eigum við að gera?" Var þá farið að ræða um, hvort skilja ætti lík Geirfinns eftir. Ákærði taldi það ekki óhætt vegna hættu á, að fingraför kynnu að finnast. Ákærðu skoðuðu enn líkið og fullvissuðu sig um, að Geirfinnur væri látinn.
Ákærðu tóku lík Geirfinns og settu það í aftursæti bifreiðarinnar. Ákærðu létu líkið sitja uppi, og hallaðist það aðeins út á hlið. Var kápa Erlu breidd yfir það. Að því búnu héldu ákærðu á brott. Ákærðu skildu spýtuna eftir, sem Geirfinnur hafði verið barinn með. Guðjón ók bifreiðinni, og sat ákærði við hlið hans, en Kristján Viðar sat í aftursætinu hjá líkinu. Erla hafði gleymt kápu og veski í bifreiðinni. Óttuðust þeir, að henni yrði kalt og eins að hún kynni að lenda í höndum lögreglunnar. Hófu þeir því leit að henni og óku nokkuð um nágrennið. Leitin bar ekki árangur, og héldu þeir áleiðis til Reykjavíkur. Erla sagði ákærða, að hún hefði verið í auðu húsi í Keflavík um nóttina. Ákærði kveðst ekki hafa lagt trúnað á það og telur, að hún hafi verið hjá einhverju fólki. Þgar ákærði var að leita að Erlu í Dráttarbrautinni, sá hann, að Kristján Viðar fór að sendibifreiðinni til Sigurðar Óttars. Sagði Kristján Viðar Sigurði Óttari að aka á brott. Ákærði kveðst ekki hafa fylgst með ferðum Sigurður Óttars eftir þetta. Ákærði kveður þá Kristján Viðar hafa rætt við Sigurð Óttar að Grettisgötu 82 skömmu eftir ferðina til Keflavíkur. Ákærði man ekki nákvæmlega, hvenær þetta var, en hann man að þeir lögðu að honum að þegja yfir ferðinni. Ákærði telur, að Sigurður Óttar hafi vitað um átökin við Geirfinn, en ákærði er viss um, að hann átti engan þátt í þeim og kom þar ekki nærri, að því er ákærði skýrir frá í lögregluskýrslu.
Ákærði telur, að Sigurður Óttar hafi vitað um, að lík Geirfinns hafi verið flutt að Grettisgötu 82, og skildist honum á Kristjáni Viðari, að hann hefði aðstoðað hann við að búa um lík Geirfinns.
Í niðurlagi lögregluskýrslunnar, sem ákærði undirritaði, segir svo. "Það skal tekið fram, að missögnin, sem kemur fram í skýrslunni varðandi sendiferðabílinn, er vegna þess, að Sævar Marinó ætlaði að halda honum og ökumanni hans utan við mál þetta".
Á leiðinni til Reykjavíkur voru ákærðu að tala um, hvað gera ætti við lík Geirfinns. Var rætt um að koma því fyrir einhvers staðar í hrauninu á leiðinni, grafa það úti á Álftanesi eða jafnvel að setja það í hitaveitustokk uppi í Mosfellssveit. Man ákærði, að það var Guðjón, sem nefndi hitaveitustokk. Í þessu sambandi
Bls. 392
var minnst á það, að varasamt gæti verið að fara með líkið í gegnum Kópavog vegna lögreglueftirlits. Endirinn á þessu varð sá, að líkinu var ekið heim til Kristjáns Viðars að Grettisgötu 82. Var bifreiðinni ekið inn í sundið á bak við húsið, líkið tekið þar úr henni og borið inn í þvottahús í kjallara. Áður en ákærði fór úr bifreiðinni, tók hann veski og kápu Erlu. Líkið var sett inn í geymslu í kjallaranum. Ákærði man, að geymslan var læst og að Kristján Viðar sprengdi upp læsinguna. Ákærði kveður gólfdregil eða eitthvað þess háttar hafa verið sett yfir líkið.
Geirfinnur var að sögn ákærða klæddur í kuldaúlpu, mittissíða. Hann var dökkklæddur, en nánar man ákærði ekki um klæðaburð hans. Ákærði sá ekki, að nein verðmæti væru tekin af líki Geirfinns. Hann hefur þó heyrt, að Kristján Viðar hafi tekið veski Geirfinns og einhvern penna. Ákærði man ekki, hvort Kristján Viðar sagði honum þetta eða hvort hann heyrði þetta síðar.
Þegar líkinu hafði verið komið fyrir, fóru ákærðu upp í íbúð Kristjáns Viðars og ræddu saman um stund. Ákváðu þeir að hittast daginn eftir til að ræða, hvað gera ætti við líkið. Guðjón fór fljótlega á brott, og telur ákærði, að hann hafi farið á Volkswagen bifreiðinni.
Þegar ákærðu voru komnir heim til Kristjáns Viðars að Grettisgötu 82 um nóttina, var hringt. Ákærði sá ekki hver hringdi, en telur, að það hafi verið Sigurður Óttar, þar sem hann bjó að Grettisgötu 82 í sama herbergi og Kristján Viðar. Ákærði minnist þess ekki að hafa séð Sigurð Óttar um nóttina að Grettisgötu 82.
Ákærði man ekki nákvæmlega, hvar hann var um nóttina. Hann man þó, að hann var fyrst hjá Kristjáni Viðari, en síðan fór hann út og ráfaði eitthvað um.
Morguninn eftir fór hann heim til sín á Hjallaveg í leigubifreið, og var Erla þá komin heim. Ræddu þau saman um það, sem gerst hafði. Erla sagðist hafa verið í auðu húsi í Keflavík um nóttina, en síðan hafi hún getað náð í bifreið til Reykjavíkur.
Ákærði hitti Guðjón á Mokka við Skólavörðustíg eftir hádegi, en þeir höfðu mælt sér mót þar. Ræddu þeir um, hvað gera ætti við líkið. Nefndi Guðjón ýmislegt, sem kæmi til greina, sem ákærði man ekki nánar um. Ákærði man þó, að hann nefndi enn hitaveitustokk í Mosfellssveit, en Guðjón hafði unnið við hitaveituframkvæmdir þar. Ákærðu voru einir, þegar þeir ræddu um þetta, og veit ákærði
Bls. 393
ekki til, að neinn hafi heyrt það, sem þeim fór á milli. Guðjón fékk ákærða lykla að Volkswagen bifreiðinni á Mokka. Um kvöldið ók Erla bifreiðinni, sem stóð á Vatnsstíg, að bílaleigunni Geysi, og var ákærði með henni. Skildi hún lyklana eftir í bifreiðinni.
Síðla dags hinn 21. nóvember fóru þau ákærði og Erla á Land Rover bifreið þeirra að Bergþórugötu 27 til Bjarna Þórs Þorvaldssonar. Fengu þau Bjarna Þór til þess að stilla bensíngjöf bifreiðarinnar. Ákærði hafði farið með kápu Erlu heim til þeirra á Hjallaveg. Var ákærði í kápunni, þegar þau fóru til Bjarna Þórs. Ákærði man, að svartir blettir voru í kápunni, en hún hafði verið utan um Geirfinn í bifreiðinni, og telur ákærða, að um blóðbletti hafi verið að ræða. Ákærði gleymdi kápunni heima hjá Bjarna Þór, en sótti hana nokkrum dögum síðar og henti henni í sorptunnu að Bergþórugötu 27. Þau Erla höfðu mælt sér mót við Kristján Viðar og fóru heim til hans á bifreiðinni. Ákærðu höfðu nokkra viðdvöl hjá meðákærða, en fóru að því búnu heim til Guðjóns vestur á Ásvallagötu. Höfðu þau rætt við hann um það, að hann tæki þátt í að flytja lík Geirfinns. Guðjón kom með skóflu. Ákærði sá skóflu þá, sem fylgir gögnum málsins. Hann kveðst ekki geta staðhæft, að um sömu skóflu sé að ræða, en hún er nokkuð áþekk skóflu þeirri, sem Guðjón kom með.
Var nú haldið að Grettisgötu 82. Erla ók bifreiðinni inn í sundið á bak við húsið. Fóru þau síðan upp í íbúðina til Kristjáns Viðars. Síðan fóru þau niður í kjallara og inn í geymsluna, þar sem líkið var geymt. Búið var að vefja utan um líkið plastdúk og einhverju fleiru og binda utan um. Þeir settu eitthvað meira utan um líkið, svo að auðveldara væri að bera það út. Ákærðu báru síðan líkið út úr kjallaranum og komu því fyrir í Land Rover bifreiðinni. Hurð er aftan á bifreiðinni, og var líkið sett þar inn í hana. Auk skóflu þeirrar, sem Guðjón lét í té, kom Kristján Viðar með malarskóflu og haka. Kristján Viðar hafði meðferðis plastbrúsa af bensíni. Ákærði kveðst ekki geta sagt um, hvenær var lagt af stað upp í Rauðhóla, en nokkuð var liðið á kvöldið. Ákærði tekur þó fram, að hann álíti, að klukkan hafi veirð orðin um 2000. Erla ók bifreiðinni, en ákærði og Guðjón sátu í framsæti, og sat Guðjón næst Erlu. Ekki var höfð viðkoma á leiðinni og sé það ekki rétt, að bensín hafi verið tekið á plastbrúsann. Þegar upp í Rauðhóla kom, var ekið hægra megin út fyrir veginn og eftir afleggjara. Var staðnæmst, er
Bls. 394
ekið hafði verið nokkurn spöl. Ákærði kveðst vera margbúinn að benda á stað þann, sem líkið var grafið, og halda fast við framburð sinn um það. Ákærði sá ljós frá bifreiðum á aðalveginum, en hins vegar sá hann ekki ljós frá neinum húsum. Ákærðu hjálpuðust að því að grafa gryfju. Gryfjan var aflöng og gæti ákærði trúað, að hún hafi verið um einn metra að dýpt. Jarðvegurinn var grýttur, og þurfti að nota hakann. Erla tók ekki þátt í greftrinum, en horfði á. Þegar gryfjan var tilbúin, tóku þeir lík Geirfinns út úr bifreiðinni og settu það í hana. Var bensíninu úr brúsanum síðan hellt þarna í kring og kveikt í. Ákærði kveðst ekki vera viss um, hvort hann hafi kveikt í líkinu, en það hafi verið gert og hafi Kristján Viðar átt hugmyndina að því að nota bensínið. Ákærði kveðst hafa fundið, að vond lykt gaus upp. Þegar eldurinn var útbrunninn, mokuðu þeir ofan í gryfjuna og sléttuðu yfir. Síðan setti Kristján Viðar steina yfir. Líkið var grafið við hól, sem var mjög brattur.
Ákærði kom þarna aftur í ágúst eða september árið eftir ásamt Erlu. Þau töldu sig finna staðinn, þar sem líkið var grafið, en leituðu ekki nákvæmlega. Ákærði kveður þau hafa farið á staðinn vegna þess, að Erla hafi sagt honum, að hún hefði farið þangað með Kristjáni Viðari og einhverjum öðrum manni, sem hún þekkti ekki. Hafi þau grafið upp lík Geirfinns og flutt það síðan á einhvern stað við vatn inni í Heiðmörk, þar sem þau hafi komið því fyrir. Ákærði kveðst ekki hafa tekið mark á því, sem Erla sagði um flutning þennan. Ákærði tekur fram, að þau Erla hafi verið hætt að búa saman á þeim tíma. Ákærði kveðst ekki í annan tíma hafa komið á stað þann, sem lík Geirfinns er grafið, fyrr en eftir að mál þetta komst upp, og geti hann ekki gefið frekari upplýsingar um, hvar það sé grafið.
Í lögregluskýrslunni frá 9. desember greinir ákærði í sumum atriðum öðruvísi frá þessu. Hann kveður Kristján Viðar hafa verið að Grettisgötu 82, þegar þau Erla komu þangað framangreindan dag á Land Rover bifreiðinni, enda hafi þeir verið búnir að ákveða að hittast. Muni þetta hafa verið milli kl. 1500 og 1600. Erla hafi farið upp í íbúð Kristjáns Viðars og beðið þar, meðan þeir færðu lík Geirfinns yfir í þvottahúsið beint á móti geymslunni, þar sem þeir vöfðu einhverju "taui" utan um það. Þeir hafi síðan borið líkið út í Land Rover bifreiðina. Voru tvær skóflur í bifreiðinni, sem Guðjón var búinn að lána þeim. Þau hafi síðan ekið áleiðis upp í Rauðhóla, en á leiðinni hafi verið tekið bensín á fimm lítra plastbrúsa, sem þau voru með.
Bls. 395
Þegar líkið var komið í gröfina, sem þeir tóku, hafi þeir hellt bensíninu yfir það, ákærði síðan kveikt á eldspýtu og hent henni á. Þetta hafi orðið allt eitt eldhaf um leið. Erla stóð þarna rétt hjá og horfði á þetta. Guðjón hafi ekki komið nærri þessum flutningi. Þetta hafi brunnið illa og eldurinn dofnað fljótlega. Mjög vond lykt hafi komið upp og þeir þá farið að moka ofan í og slétta alveg yfir. Sumarið 1975, líklegast í júlílok, fóru þau Erla aftur þarna upp eftir til að vita, hvort þau fyndu staðinn. Töldu þau sig finna hann.