VI.7.

 

Eins og nánar var rakið í kafla VI.6.5. hér að framan var endurrit úr dagbók Síðumúlafangelsis, sem forstöðumaður þess lét í té til afnota í málinu, meðal annars haldið þeim annmörkum að ekki var þar greint frá færslum í dagbókina um átta atriði varðandi aðbúnað dómfellda og agaviðurlög gagnvart honum. Í þessum færslum, sem voru allar frá árinu 1976, var nánar tiltekið greint frá því í fyrsta lagi að dómfelldi hafi verið settur í handjárn og fótajárn og sviptur tóbaki 15. febrúar vegna tilraunar til stroks. Í öðru lagi að dómfellda hafi ekki verið afhent tóbak 9. mars. Í þriðja lagi að hlutir hafi verið fjarlægðir úr klefa hans 25. apríl og hann fengi ekki lesefni eða annað til dægrastyttingar, þar sem talið væri að hann hafi borið rangt við yfirheyrslur. Í fjórða lagi að uppvíst hafi orðið 24. maí um sendingu bréfa og tóbaks á milli dómfellda og annars fanga og hafi af því tilefni flest verið fjarlægt úr klefum þeirra, auk þess að þeir hafi verið settir í fótajárn. Í fimmta lagi að dómfelldi hafi verið leystur úr járnum 4. júní. Í sjötta lagi að dómfelldi hafi fengið pappír og ritföng 18. ágúst samkvæmt fyrirmælum rannsóknarmanns. Í sjöunda lagi að dómfelldi hafi krafist þess 7. september að fá blekpenna, sæng, pappír og lak, svo og að sama dag hafi fundist á salerni bréfmiði frá honum til óþekkts viðtakanda. Loks í áttunda lagi að 10. september hafi dómfelldi fengið tóbak á ný og átt kost á útivist í fangelsisgarði.

 

Um ofangreind atriði lágu að nokkru leyti fyrir upplýsingar í gögnum, sem aflað var við fyrrnefnda lögreglurannsókn á árinu 1979. Þannig var í ódagsettu bréfi dómfellda greint frá því að í Síðumúlafangelsi hafi verið tekin af honum "öll skriffæri og lyf, rúmlök í 4 mánuði, einnig fékk ég mjög lítið tóbak, það eina sem ég fékk að hafa í klefanum ... voru þrjú ullarteppi, þetta átti sér stað í byrjun janúar 1976 eða lok desember 1975 ...". Síðar í sama bréfi kvaðst dómfelldi ekki hafa fengið að fara út í fangelsisgarð fyrr en veturinn 1976. Þá sagði enn fremur í bréfinu: "Í fótjárnum var ég tvívegis, í þrjár vikur stanslaust í sitthvort sinn, í handjárnum var ég einn sólarhring á sama tímabili." Í öðru bréfi dómfellda, sem hann sendi verjanda sínum og var einnig ódagsett, gerði hann frekar að umtalsefni að skriffæri hafi verið tekin af sér. Forstöðumaður Síðumúlafangelsis greindi frá því í lögregluskýrslu 29. september 1979 að fangar þar hafi fengið að hafa í klefum sínum tvö teppi, lak, koddaver og handklæði. Hann minntist þess ekki að dómfelldi hefði ekki fengið að hafa skriffæri, en í tengslum við neyslu tóbaks kvaðst hann muna eftir því að dómfelldi hafi verið settur "í straff vegna agabrots". Forstöðumaðurinn kvaðst vita til þess að dómfelldi hafi eitt sinn verið hafður í fótajárnum vegna agabrots, en það hafi verið að sér fjarstöddum í maí eða júní 1976. Um annað tilvik sagðist hann ekki vita og minntist hann þess ekki að dómfelldi hafi verið hafður í handjárnum. Í lögregluskýrslu 24. september 1979 var eftirfarandi meðal annars haft eftir Gunnari Marinóssyni fangaverði: "Sævari var heimilt að reykja eins og öðrum, en upp komst að hann hafi staðið í bréfaskiftum við annan fanga sem ekki var þó tengdur málinu, og voru þeir þá báðir settir í reykingabann svo og fótjárn." Í lögregluskýrslu 10. september 1979 lét Kristján Viðar Viðarsson þess getið að við upphaf samprófunar 5. maí 1976 hafi dómfelldi beðið sig um vindling, en lögreglumaður hafi bannað það, þar sem dómfelldi mætti ekki reykja, og gefið honum í staðinn neftóbak. Í lögregluskýrslum forstöðumanns Síðumúlafangelsis og fjögurra fangavarða kom einnig fram að dómfelldi hafi ekki fengið að njóta útivistar í fangelsisgarði fyrr en eftir nokkurn eða langan tíma í gæsluvarðhaldsvist, en enginn þeirra minntist þess nánar hvenær af því hafi orðið.

 

Í III. kafla reglugerðar nr. 260/1957 um fangavist voru ákvæði, sem giltu ótvírætt um vist gæsluvarðhaldsfanga í Síðumúlafangelsi. Meðal annars var þar mælt fyrir um heimild gæslufanga til að taka við fæði og öðrum persónulegum nauðsynjum, þar á meðal fatnaði, sbr. 40. gr. reglugerðarinnar. Í 42. gr. hennar var lagt bann við því að gæslufangi tæki við eða sendi frá sér bréf nema að undangenginni athugun og með leyfi dómara. Samkvæmt 43. gr. reglugerðarinnar máttu gæslufangar afla sér bóka með samþykki fangavarðar. Í 46. gr. reglugerðarinnar var mælt fyrir um að ákvæði annarra kafla hennar skyldu gilda um gæslufanga að öðru leyti en leiddi af reglum III. kafla "eftir því sem við á og með þeim tilslökunum, sem fangelsisstjóri telur æskilegar og dómari samþykkir." Samkvæmt þessu gátu átt við gæslufanga ákvæði í 10. gr. reglugerðarinnar, þar sem lagt var bann við sambandi á milli fanga, sem tóku ekki refsingu út í félagi við aðra. Einnig gátu að einhverju leyti átt við um gæslufanga fyrirmæli í 15. gr. reglugerðarinnar um útiveru, en í ákvæðinu var þó tekið fram að þau fyrirmæli næðu ekki til fanga, sem fangelsisstjóri teldi hættulegt að hafa lausa. Þá var ráðgert í 25. gr. reglugerðarinnar að ákveða ætti í reglum dómsmálaráðuneytisins um hegðun fanga hvort þeim yrðu leyfðar tóbaksreykingar, en þetta gat átt við um gæslufanga, svo sem beinlínis var ráðgert í fyrrnefndri 46. gr. Í henni virðast hins vegar ekki hafa verið reglur, sem gátu átt við um aðgang gæslufanga að skriffærum eða búnað í fangaklefum þeirra.

 

Í 27. gr. reglugerðar nr. 260/1957 voru ákvæði um viðurlög við agabrotum fanga, í 28. gr. um öryggisráðstafanir og í 29. gr. um skráningu upplýsinga um misferli fanga, en í III. kafla reglugerðarinnar var gagngert vísað til 28. gr. hennar varðandi gæslufanga. Í þeirri grein sagði eftirfarandi: "Fangaverðir geta beitt nauðsynlegum öryggisráðstöfunum við fanga, ef afstýra þarf yfirvofandi ofbeldi, bæla niður ofbeldisfullan mótþróa eða koma í veg fyrir strok. Í því skyni má meðal annars nota, eftir því sem nauðsyn krefur hverju sinni, spennibol, járn og innilokun í einangrunarklefa. Ekki má, nema með samþykki dómsmálaráðuneytisins, halda fanga í einangrunarklefa til öryggis lengur en einn mánuð í einu." Í 1. mgr. 27. gr. reglugerðarinnar, sem gat einnig varðað gæslufanga eftir því, sem efni stóðu til, sagði meðal annars: "Ef fangi gerist sekur um brot á reglum fangelsisins, og broti er ekki þannig háttað, að það sé látið sæta opinberri ákæru, getur fangelsisstjóri ákveðið fanganum eftirgreind refsiviðurlög eftir málavöxtum hverju sinni: 1. Svipting ívilnana, sem í samræmi við reglur fangelsisins eru veittar föngum, sem hegða sér vel, svo sem notkun starfstækja, bóka, ljósi á kvöldin, bréfaskiptarétti, heimsóknarrétti o.s.frv. Ekki má gera viðurværi fanga verra í refsiskyni, og ekki má svipta hann rétti til útivistar, nema brotið hafi verið framið í sambandi við útigöngu hans. Svipting ívilnana standi aldrei skemmri tíma en 14 daga." Í 3. mgr. sömu greinar sagði eftirfarandi: "Áður en fangelsisstjóri ákveður refsiviðurlög, skal hann ganga úr skugga um, hvernig broti sé háttað, með því að yfirheyra fangann og með annarri rannsókn eftir ástæðum. Jafnan skal hann bóka ákvarðanir sínar um refsiviðurlög. Beita má fleiri en eins konar viðurlögum samtímis."

 

Varðandi tilvísun í upphafi fyrrgreindrar 1. mgr. 27. gr. reglugerðar nr. 260/1957 til reglna fangelsa er þess að geta að í 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar var ráðgert að dómsmálaráðherra setti sérstakar reglur að fengnum tillögum fangelsisstjóra um hegðun fanga, hreinlæti o.fl. Samkvæmt bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 12. apríl 1977, sem liggur fyrir meðal gagna frá áðurnefndri dómsrannsókn á beitingu agaviðurlaga í Síðumúlafangelsi, höfðu slíkar sérreglur ekki verið settar þá um fangelsið.

 

Þegar áðurgreind atriði, sem færð voru varðandi dómfellda í fangelsisdagbók en ekki var getið um í endurriti úr henni 13. júní 1977, eru virt með tilliti til þeirra ákvæða í reglugerð nr. 260/1957, sem að framan getur, er ljóst að engin heimild var til viðurlaga í hans garð af því tilefni, sem greint var frá í fangelsisdagbók 25. apríl 1976, þótt heimild geti á hinn bóginn hafa staðið í 1. mgr. 27. gr. og 28. gr. hennar til þeirra viðurlaga og ráðstafana, sem gripið var til gagnvart dómfellda 15. febrúar 1976. Ekki var heldur heimilt að beita ráðstöfunum samkvæmt 28. gr. reglugerðarinnar í tilefni af þeirri háttsemi dómfellda, sem getið var um í fangelsisdagbók 24. maí 1976, en um þetta var þó upplýst við lögreglurannsókn, svo sem áður var greint. Svipting ritfanga kann að hafa getað helgast samkvæmt 1. mgr. 27. gr. reglugerðarinnar af þeirri háttsemi dómfellda, sem getið var í bókunum í fangelsisdagbók 24. maí og 7. september 1976, en um form á þeirri ákvörðun var ekki gætt ákvæða 3. mgr. sömu greinar. Ekki verður séð á hvaða grundvelli dómfellda var meinað að hafa tóbak undir höndum, enda var einskis getið í því sambandi í fangelsisdagbók. Þá voru engar skýringar í fangelsisdagbók á takmörkun á heimild dómfellda til útivistar, hvorki með vísan til lokamálsliðar 15. gr. reglugerðarinnar né á annan hátt. Um tvö síðastgreindu atriðin er þess hins vegar að gæta að upplýsingar komu að nokkru fram um þau við lögreglurannsókn 1979.

 

Við skýrslugjöf hjá lögreglunni 29. september 1979 greindi forstöðumaður Síðumúlafangelsis sem áður segir rangt frá atvikum að því leyti að hann kvaðst ekki vita um að dómfelldi hafi verið hafður í fótajárnum vegna agabrots í öðrum tilvikum en í maí eða júní 1976. Um það tilvik, sem forstöðumaðurinn skýrði ekki frá í framburði sínum og gerðist 15. febrúar 1976, liggja nú fyrir nýjar upplýsingar, svo sem áður er rakið. Verður lagt mat á vægi umrædds tilviks með þeim atriðum, sem varða nýjar upplýsingar og getið var um hér að framan.

 

Við dómsrannsókn, sem fór fram á árinu 1976 vegna kæru um ótilhlýðilega beitingu viðurlaga við agabrotum í Síðumúlafangelsi, var forstöðumaður þess sem áður segir spurður almennt um hvaða reglur hafi þar verið hafðar um agaviðurlög og öryggisráðstafanir. Í svari forstöðumannsins, sem er tekið upp orðrétt í kafla VI.6.5. hér að framan, fólst efnislega að hann taldi reglugerð nr. 260/1957 ekki gilda um Síðumúlafangelsi og þar sem ekki hafi orðið af því að dómsmálaráðherra setti sérreglur um fangelsið hafi hann sjálfur orðið að mynda reglurnar, sem þar var farið eftir. Í þessu svari var út af fyrir sig rétt með farið að vanrækt hafði verið að setja sérreglur um Síðumúlafangelsi samkvæmt 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar, en eftir áðurnefndri 1. mgr. 27. gr. hennar voru þargreindar heimildir til að beita agaviðurlögum tengdar brotum á slíkum reglum. Þótt ekki séu efni til að fallast á önnur atriði, sem fram komu í svari forstöðumannsins, verður að telja að hér skipti fremur máli hvort tilhögun gæsluvarðhaldsvistar yfir dómfellda í Síðumúlafangelsi hafi í reynd verið andstæð ákvæðum reglugerðar nr. 260/1957. Til þess hefur verið tekin afstaða fyrr í þessum kafla að því leyti, sem nýjar upplýsingar hafa verið færðar fram um það efni. Að öðru leyti verður ekki séð að atriði, sem fram komu við umrædda dómsrannsókn, skipti máli við mat á beiðni dómfellda um endurupptöku.

 

Þegar framangreind atriði eru virt í heild er ljóst að dómfelldi sætti ólögmætri meðferð í gæsluvarðhaldsvist í Síðumúlafangelsi, einkum í apríl og maí 1976, í nokkuð meiri mæli en kunnugt var um við úrlausn málsins. Í samhengi við það verður einnig að líta til þess að í færslum í dagbók fangelsisins, sem ekki var greint frá í endurriti úr henni 13. júní 1977, eru viðhöfð ýmis ótilhlýðileg ummæli um dómfellda. Þau bera vitni um afstöðu fangavarða til hans, sem með engu móti fær samrýmst stöðu þeirra. Þetta eru hins vegar einu atriðin, sem færð hafa verið fram og komið geta samkvæmt öllu áðursögðu til álita sem tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til endurupptöku málsins. Þau varða öðru fremur tímabil í gæsluvarðhaldsvist dómfellda, sem var annars vegar nokkrum mánuðum eftir að hann gaf skýrslur, þar sem hann játaði aðild að hvarfi Guðmundar Einarssonar og bar einnig sakir á fjóra nafngreinda menn um aðild þeirra að hvarfi Geirfinns Einarssonar og hins vegar mörgum mánuðum áður en hann gekkst við aðild sinni að síðarnefndu mannshvarfi. Í köflum II.2.L. og II.3.K. hér að framan er greint frá niðurstöðum í dómi Hæstaréttar um hvort þeir annmarkar á rannsókn málsins og meðferð dómfellda og annarra ákærðu í gæsluvarðhaldsvist, sem þá hafði verið upplýst um, gætu leitt til þess að játningar þeirra yrðu ekki lagðar til grundvallar. Í kafla II.5.C. er greint frá athugasemdum, sem gerðar voru í dómi Hæstaréttar vegna sömu annmarka. Þótt framangreind atriði, sem nú er kunnugt um, hefðu þessu til viðbótar legið fyrir við úrlausn málsins, verður ekki talið líklegt að þau hefðu skipt máli fyrir niðurstöðu um sök dómfellda.