VI.5.

 

Í skýrslu fyrir dómi 21. og 22. júní 1977, sem lýst er í kafla II.4.B. hér að framan, greindi dómfelldi í einstökum atriðum frá aðdragandanum að því að hann, Erla Bolladóttir og Kristján Viðar Viðarsson báru sakir á Einar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen um aðild þeirra að hvarfi Geirfinns Einarssonar. Dómfelldi lýsti því þar yfir að skýrslur hans um aðild þessara fjögurra manna að atvikum málsins hafi verið rangar, að ákveðið hafi verið fyrirfram að bendla þá við það ef ákærðu yrðu handtekin vegna gruns um aðild að hvarfi Geirfinns og að þetta athæfi hafi verið samantekin ráð til að rugla fyrir rannsókn málsins. Hann viðurkenndi þá háttsemi, sem honum var gefin að sök í ákæru vegna þessa. Í málatilbúnaði talsmanns dómfellda kemur ekkert fram, sem máli skiptir til að varpa nýju ljósi á þetta. Er því ekkert tilefni til endurupptöku málsins vegna atriða, sem að þessu snúa.