VI.4.

 

4.1. Við úrlausn málsins lágu fyrir ýmis gögn frá rannsókn, sem lögreglan í Keflavík hafði með hendi á fyrstu stigum eftir hvarf Geirfinns Einarssonar 19. nóvember 1974. Af þeim gögnum má ráða að könnuð hafi verið ýmis atvik, sem lögreglunni hafa virst geta verið tengd þeim atburði. Talsmaður dómfellda hefur bent á nokkur atriði í þessu sambandi, sem hann telur að tilefni hefði verið til að kanna nánar. Um slík atriði hafa hins vegar engar nýjar upplýsingar verið færðar fram. Geta þau því ekki gefið tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til að verða við beiðni dómfellda.

Meðal gagna málsins eru umfangsmiklar lögregluskýrslur frá rannsókn á þessum þætti þess á tímabilinu eftir að Karl Schütz kom til starfa við hana sumarið 1976. Af þeim er unnt að ráða að hverju rannsókninni var þá beint, þar á meðal að hvaða marki könnuð hafi verið atriði varðandi aðra en þá, sem sættu að endingu ákæru vegna aðildar að hvarfi Geirfinns Einarssonar. Lokaskýrsla Karls Schütz, sem nú hefur verið lögð fram, leiðir út af fyrir sig ekkert í ljós um þetta efni, sem ekki hefur verið unnt að sjá af fyrirliggjandi gögnum um rannsóknina þegar dómur var felldur á málið. Hugleiðingar í skýrslunni um hvað höfundur hennar hefur talið sannað um atvik málsins hefðu ekki getað haft sjálfstætt gildi við úrlausn þess. Þær geta því heldur ekki gefið tilefni til að taka málið upp á ný. Veitir því hvorki skýrslan né yfirlýsing, sem talsmaður dómfellda vísar til í tengslum við hana, ástæðu samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til endurupptöku málsins.

 

4.2. Í kafla II.3.K. hér að framan er greint frá umfjöllun í forsendum dóms Hæstaréttar um játningar dómfellda og Kristjáns Viðars Viðarssonar um aðild sína að hvarfi Geirfinns Einarssonar og breytingu á þeim framburði. Í þeirri umfjöllun var ekki tíundað sérstaklega hvenær skýrslur með slíkum játningum komu fram eða hvernig framburður þessara ákærðu hafi verið að þessu leyti á fyrri stigum. Hvorki getur þessi umfjöllun né frásögn á öðrum stað í dóminum um að dómfelldi hafi snúið "gersamlega við blaðinu" með breytingu á framburði sínum á dómþingi 13. september 1977 gefið tilefni til ályktana um að dómendum hafi ekki verið ljóst að hann hafi neitað allri aðild að hvarfi Geirfinns á ýmsum stigum í skýrslum hjá lögreglunni og fyrir dómi, svo rækilega sem því voru gerð skil í héraðsdómi eins og rakið er í kafla II.3.C. hér að framan. Geta því röksemdir talsmanns dómfellda, sem að þessu snúa, ekki gefið tilefni til að taka málið upp á ný.

 

4.3. Greint er frá framburði Guðjóns Skarphéðinssonar, sem var meðal ákærðu í málinu, við rannsókn þess og meðferð fyrir dómi í kafla II.3.E. Á þeim 20 árum, sem nú eru liðin frá því að hann gaf síðast skýrslu um málið fyrir dómi, hefur hann ekki vikið frá framburði sínum á þeim vettvangi. Frá honum liggur ekki fyrir yfirlýsing um að hann dragi til baka framburð sinn í einhverju eða öllu, en viðtal við hann í dagblaði er ekki ígildi yfirlýsingar, sem gefin er til afnota í dómsmáli. Þegar af þessari ástæðu er ekkert tilefni til endurupptöku málsins vegna atriða, sem snúa að framburði hans.

 

4.4. Eins og fram kemur í kafla II.3.K. hér að framan var við úrlausn málsins talið sannað með skýrslum dómfellda og Kristjáns Viðars Viðarssonar, sem þóttu fá stoð í vitnisburði Þórðar Ingimarssonar, að þessir ákærðu hafi hitt Geirfinn Einarsson í veitingahúsinu Klúbbnum að kvöldi 17. nóvember 1974, rætt þar við hann um áfengisviðskipti og fengið nafn hans og heimilisfang. Þessa ályktun telur talsmaður dómfellda ekki geta staðist af ástæðum, sem áður er greint frá. Í því sambandi hefur engum nýjum upplýsingum verið haldið fram. Röksemdir talsmannsins, sem lúta að þessu, veita því ekki ástæðu samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til að málið verði tekið upp á ný.

 

4.5. Við úrlausn málsins lá fyrir framburður vitnisins Vilhjálms Knudsen um að hann hafi hitt dómfellda á Kjarvalsstöðum á tilteknum tíma að kvöldi 19. nóvember 1974, svo og framburður móður dómfellda og systur um hvenær sú fyrrnefnda hafi verið komin heim til sín eftir dvöl þar með honum, sbr. kafla II.3.H hér að framan. Þá lágu einnig fyrir gögn um mælingar lögreglumanna með áætlun á þeim tíma, sem tæki að aka á milli tiltekinna staða í Reykjavík og þaðan til Keflavíkur í samræmi við framburð ákærðu í málinu, þar á meðal viðbótargögn, sem aflað var um þetta eftir áfrýjun héraðsdóms, en að þessum gögnum er áður vikið í kafla II.3.I. Í forsendum dóms Hæstaréttar greinir frá því að dómfelldi hafi haldið fram að ekki gæti verið að hann hafi verið kominn til Keflavíkur rétt eftir kl. 22 umrætt kvöld vegna viðdvalar á Kjarvalsstöðum, sbr. kafla II.3.K. hér að framan. Segir um þetta í dóminum að óvíst sé hvenær dómfelldi hafi farið frá síðastnefndum stað, en umræddar mælingar sýni að hann gat verið kominn til Keflavíkur á tilgreindum tíma. Talsmaður dómfellda ber brigður á þessa niðurstöðu og telur að auki aðfinnsluvert hvernig staðið hafi verið að mælingum á aksturstíma. Engar nýjar upplýsingar hafa komið fram um þessi atriði málsins. Við úrlausn þess lá fyrir hvernig umræddar mælingar voru gerðar. Eru þetta því ekki atriði, sem gefa tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til endurupptöku málsins.

 

4.6. Við rannsókn og meðferð málsins var aflað skýrslna vitna, sem að nokkru er rakinn í kafla II.3.H. hér að framan, í tengslum við framburð dómfellda, Kristjáns Viðars Viðarssonar, Guðjóns Skarphéðinssonar og Erlu Bolladóttur um að Kristján hafi hringt til Geirfinns Einarssonar frá Hafnarbúðinni í Keflavík um kl. 22.15 hinn 19. nóvember 1974. Vitnin gátu ekki borið um þau atvik. Í dómi Hæstaréttar, þar sem sýnilega er stuðst við framburð ákærðu í þessum efnum, var miðað við að dómfelldi eða Kristján hafi hringt til Geirfinns á umræddum stað og tíma. Nýjar upplýsingar liggja ekki fyrir um þessi atvik, enda koma í því sambandi ekki til álita atriði varðandi aðgerðir lögreglunnar í Keflavík við frumrannsókn á hvarfi Geirfinns til að leita manns, sem var talinn hafa hringt frá Hafnarbúðinni í umrætt sinn. Hefur því ekkert komið fram í sambandi við þetta, sem getur orðið tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til að málið verði tekið upp á ný.

 

4.7. Í dómi sakadóms Reykjavíkur er fjallað ítarlega um framburð vitnisins Sigurðar Óttars Hreinssonar hjá lögreglu og fyrir dómi 13. og 14. desember 1976 og 25. maí 1977, svo og um breytingu Sigurðar á framburði sínum í október 1977 og rannsókn, sem varðaði hana, en meginatriði þessarar umfjöllunar eru reifuð í kafla II.3.G. hér að framan. Með vísan til þess, sem þar greinir, verður ekki fallist á þá staðhæfingu talsmanns dómfellda að sannað hafi verið við meðferð málsins að Sigurður hafi leitað til nafngreinds lögfræðings 15. desember 1976, að hann hafi þá haldið því fram að lögreglan hafi beitt nánar tilgreindum ólögmætum aðferðum við töku skýrslu af sér daginn áður og að hann hafi á því stigi talið sig hafa verið þvingaðan til framburðar hjá lögreglunni. Þá hafa engar nýjar upplýsingar verið færðar fram til að hnekkja rökstuddri niðurstöðu, sem komist var að við úrlausn málsins um gildi breytts framburðar Sigurðar. Þegar af þessum sökum gefa atriði varðandi framburð þessa vitnis ekki tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til að verða við beiðni dómfellda.

 

4.8. Frásögn um flutning á líki Geirfinns Einarssonar frá Keflavík, geymslu þess að Grettisgötu 82 í Reykjavík og greftrun þess í Rauðhólum, sem lá fyrir við úrlausn málsins, var komin frá ákærðu sjálfum, svo sem ráðið verður af reifun á framburði þeirra í köflum II.3.B.til II.3.E hér að framan. Meðal fyrirliggjandi gagna í málinu, sem tengdust þessu, var vottorð Veðurstofu Íslands 24. janúar 1977 um líkur á frosti í jörðu í Rauðhólum 21. nóvember 1974. Á atriði, sem þessu tengjast, var lagt mat við úrlausn málsins, en um þau hafa engar nýjar upplýsingar verið færðar fram. Gefa þau því ekki tilefni samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til endurupptöku málsins.

 

4.9. Í vitnaskýrslu fyrir dómi, sem reifuð er í kafla II.3.H. hér að framan, bar Guðmundur Sigurður Jónsson meðal annars að hann hafi að morgni 20. nóvember 1974 ekið stúlku, sem hann hafði áður talið sig bera kennsl á við sakbendingu og reyndist vera Erla Bolladóttir, frá tilteknum stað í Keflavík að vegamótum Grindavíkurvegar og Reykjanesbrautar. Í vitnaskýrslu, sem Ámundi Rögnvaldsson gaf hjá lögreglunni og reifuð er í sama kafla, kvaðst hann hafa sama morgun ekið stúlku frá nefndum vegamótum til Hafnarfjarðar. Hann þekkti ekki stúlkuna aftur við sakbendingu, þar sem Erla var meðal annarra. Ámundi lést áður en leyst var úr málinu fyrir héraðsdómi og hafði ekki komið fyrir dóm. Eins og talsmaður dómfellda hefur bent á og áður er rakið var framburður Guðmundar fyrir dómi í nokkrum atriðum á annan veg en hjá lögreglu. Bar þar einkum á milli um nákvæmni dagsetningar, þegar umrætt atvik gerðist, hvar Guðmundur hafi tekið stúlkuna upp í bifreið í Keflavík og hverrar tegundar bifreiðin hafi verið. Framburðurinn um fyrstnefnda atriðið og það síðastnefnda, eins og hann var fyrir dómi, sótti styrk til framburðar fjögurra annarra vitna, svo sem nánar greinir í áður tilvitnuðum kafla. Eins og getið er í kafla II.3.B. hér að framan lét lögreglan Erlu sjá Guðmund í tengslum við skýrslugjöf og taldi hún sig þekkja hann sem ökumann bifreiðar, sem hún hafi fengið far með umrædda leið að morgni 20. nóvember 1974. Að auki lýsti Erla því yfir í skýrslu fyrir dómi að hún efaðist ekki um að framburður Guðmundar væri réttur. Við úrlausn málsins lá fyrir í framlögðum gögnum að misræmi væri á milli skýrslna Guðmundar hjá lögreglu og fyrir dómi. Frásögn í 2. lið yfirlýsingar Erlu 19. nóvember 1996, sbr. kafla III.4. hér að framan, lýtur ekki að framburði Guðmundar sem slíkum og getur því þegar af þeirri ástæðu engu skipt varðandi gildi framburðarins. Nýjar upplýsingar hafa þannig ekki komið fram í sambandi við framburð vitnanna, sem hér um ræðir, og eru því ekki efni til að málið verði tekið upp á ný vegna atriða, sem að honum lúta.