VI.2.

 

2.1. Heimildir í XXII. kafla laga nr. 19/1991 til að verða við beiðni dómfellds manns um endurupptöku opinbers máls, sem dæmt hefur verið fyrir Hæstarétti, eru reistar á þeirri meginröksemd að ekki verði unað við að dómur verði látinn standa um sakaráfall á hendur þeim, sem síðar getur sýnt fram á að hann hafi ranglega verið sakfelldur eða að brot hans hafi verið minna en sakfellt var fyrir. Um endurupptöku opinbers máls er ekki mælt í stjórnskipunarlögum. Kemur því í hlut löggjafans að skipa þessu með lögum, þar á meðal að setja skilyrði fyrir endurupptöku. Þegar það er gert er óhjákvæmilegt að líta til þess að á móti röksemdum, sem snúa að mikilsverðum hagsmunum dómfellds manns, vegur sú staðreynd að með lagaheimild til endurupptöku máls, sem dæmt hefur verið á æðsta dómstigi, er gerð undantekning frá þeirri meginreglu að dómur þar sé endanlegur og leiði álitaefni til lykta í eitt skipti fyrir öll. Er að sama skapi óhjákvæmilegt að taka mið af þessu við skýringu lagaákvæða, sem löggjafinn setur um þetta efni.

 

Í 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 segir eftirfarandi:

"Eftir kröfu dómfellds manns, sem telur sig sýknan sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, skal taka mál upp á ný:

 

a. ef fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fyrir dómara áður en dómur gekk,

b. ef ætla má að dómari, ákærandi, rannsóknari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða hegðun í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef falsvitna hafi verið aflað, fölsuð skjöl látin koma fram, vitni eða aðrir hafi gefið vísvitandi rangar skýrslur og þetta hafi valdið rangri dómsúrlausn."

 

Í athugasemdum við frumvarp, sem varð að lögum nr. 19/1991, eru skýrð í einu lagi öll ákvæði XXII. kafla þess, þar á meðal 184. gr. Um þessi ákvæði segir það eitt, sem hér skiptir máli, að þau komi í stað XXIV. kafla þágildandi laga nr. 74/1974 og séu efnislega á sama veg. Það ákvæði eldri laganna, sem löggjafinn hefur þannig talið svara til 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991, var í 1. mgr. 192. gr., sem var svohljóðandi:

 

"Eftir kröfu dómfellds manns, sem telur sig sýknan sakfelldan eða sakfelldan fyrir að mun meira brot en það, er hann hefur framið, skal taka mál upp af nýju:

1. Ef fram eru komin ný gögn, sem ljóst eða líklegt gera, að dómfelldi hefði verið sýkn dæmdur eða dæmdur fyrir að mun minna brot, ef þau gögn hefðu komið fyrir dómendur, áður en dómur gekk.

2. Ef ætla má, að falsgögn eða athæfi, sem í 2. tölul. 191. greinar getur, hafi valdið refsidómi að einhverju leyti eða öllu."

 

Ákvæði samhljóða þessu voru í enn eldri lögum um meðferð opinberra mála nr. 73/1973 og nr. 82/1961, svo og í fyrstu lögunum um það efni nr. 27/1951. Í ljósi þeirra ummæla í lögskýringargögnum, sem að framan getur, verður að skýra 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 til samræmis við eldri lagaákvæði sama efnis, að því leyti sem slík skýring getur orðið dómfelldum manni í hag. Samkvæmt þessu verður því að telja ákvæði a. liðar 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 fela í sér heimild til að taka opinbert mál upp á ný eftir kröfu dómfellds manns ef fram koma nýjar upplýsingar, sem unnt sé að staðfesta með sönnunargögnum eftir því sem nauðsyn krefur, og líklegt er að þær hefðu skipt máli fyrir niðurstöðu um sök hans ef þær hefðu komið fyrir dómara áður en dómur gekk.

 

Af hálfu dómfellda hefur verið vísað til þess að í 3. mgr. 186. gr. laga nr. 19/1991 sé rætt um að greina eigi í beiðni um endurupptöku þau atriði, sem vefengd séu í dómi, og ástæður sem til vefengingar eru taldar liggja. Því er haldið fram að með þessu orðalagi sé lögð áhersla á vefengingu. Sé vefenging ekki fjarstæðukennd beri að heimila endurupptöku. Þegar afstaða er tekin til þessarar röksemdar verður að líta til þess að í 3. mgr. 186. gr. laga nr. 19/1991 er fjallað um hvers efnis beiðni um endurupptöku þurfi að vera, en engan veginn um skilyrði fyrir því að hún verði tekin til greina. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki efni til að fallast á að slík tengsl standi á milli 1. mgr. 184. gr. laganna annars vegar og 3. mgr. 186. gr. hins vegar, að fyrrnefnda ákvæðið verði skýrt með rýmri hætti en að framan greinir með hliðsjón af orðalagi þess síðarnefnda.

Samkvæmt framangreindu verður ekki litið svo á að efni séu til að beita rýmkandi lögskýringu á ákvæði 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 nema að því leyti, sem áður hefur sérstaklega verið getið.

 

2.2. Í a. lið 1. mgr. 184. gr. laga nr. 19/1991 er við það miðað að nýjar upplýsingar geti því aðeins leitt til endurupptöku máls að þær hefðu líklega orðið dómfellda í hag með þargreindum hætti ef þær hefðu komið fyrir dómara áður en dómur gekk. Felst þannig í orðalagi ákvæðisins að nýjar upplýsingar geti ekki orðið til endurupptöku nema þær hefðu skipt máli á þeim tíma, sem dómur gekk, ef þær hefðu þá verið kunnar. Af þessu leiðir meðal annars að upplýsingar um breytingar á réttarheimildum eða beitingu þeirra, sem komu ekki til fyrr en eftir að dómur gekk, skipta ekki máli við mat á beiðni um endurupptöku nema breytingarnar geti einhverra hluta vegna talist gilda aftur til þess tíma. Af þessum sökum geta ákvæði laga nr. 19/1991, laga nr. 62/1994 og stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 ekki komið til álita sem grundvöllur til að meta á nýjan leik rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi, sem var um garð gengin löngu fyrir gildistöku þessara laga. Eftir að dómur gekk í málinu 22. febrúar 1980 var áréttuð í dómum Hæstaréttar sú afstaða, sem byggt hafði verið á í dómum fyrir þann tíma, að ekki væri unnt að beita ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu eins og þau væru hluti af íslenskum landsrétti, sbr. dómasafn 1985, bls. 1290, og 1987, bls. 356. Dómar, sem talsmaður dómfellda vitnar til og gengu á árunum 1990 og 1992, fólu í sér breytta afstöðu til áhrifa mannréttindasáttmálans við skýringu landsréttar. Þeirri stefnubreytingu um meðferð réttarheimilda verður þó ekki gefið gildi aftur til þess tíma, þegar þeim var beitt á annan hátt við úrlausn mála. Hins vegar má fallast á með talsmanni dómfellda að með setningu laga nr. 19/1991, laga nr. 62/1994 og stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 hafi í ýmsum atriðum verið lögfestar áður óskráðar meginreglur íslensks réttar. Má því leggja til grundvallar að dómstólar hafi tekið mið af slíkum reglum við úrlausn málsins eftir því, sem þær þóttu gilda á þeim tíma. Gildir það sama um beitingu reglna í öðrum alþjóðasamningum, sem talsmaður dómfellda vísar til.