III.5.

 

Í yfirlýsingu Gísla Guðmundssonar, fyrrverandi yfirlögregluþjóns, undirritaðri 11. október 1996 segir meðal annars eftirfarandi:

"Ég var rannsóknarlögreglumaður hjá sakadómi Reykjavíkur í upphafi árs 1977 þegar sakadómararnir Gunnlaugur Briem, Ármann Kristinsson og Haraldur Henrysson fengu til meðferðar eftir útgáfu ákæru svonefnt Guðmundarmál, en meðal ákærðu var Sævar M. Ciesielski. Mér var falið að vinna með sakadómurunum að málinu. Ég laut fyrirmælum dómaranna um framkvæmd verksins og rannsakaði atburði ekki sjálfstætt. Að mínu áliti vantaði töluvert mikla vinnu við rannsókn málsins á fyrri stigum. Á vegum sakadómaranna var leitast við að bæta úr því og mér falið það verk.

Ég ræddi oft við Sævar í gæsluvarðhaldinu. Hann skýrði mér eitt sinn frá því að hann hefði fyrst hitt Erlu Bolladóttur eftir heimkomu sína í janúar 1974 síðla á sunnudeginum 27. janúar 1974 og hefði hann reynt að telja henni trú um að hann væri að koma frá útlöndum þennan dag. Erla hefði brugðist illa við og sagt sig hafa af því spurnir frá vinkonu sinni að hann hefði sést í Reykjavík fyrir helgina. Taldi ég ástæðu til að kanna afstöðu Erlu til frásagnar þessarar og fékk hana á skrifstofu dómsins í Borgartúni og ræddi málið við hana. Hún skýrði frá á sama hátt og Sævar án þess að ég gæfi henni neitt tilefni til. Ég lét gæta Erlu og fór á fund dómaranna Gunnlaugs og Haraldar. Þeir töldu ekki ástæðu til að fylgja þessu eftir og sögðu mér að láta Erlu fara.

Ég sagði einnig sömu dómurum frá þeirri frásögn Sævars, að hann hefði verið að Gljúfurholti 26.-27. janúar 1974 og spurði hvað skyldi gera af því tilefni, en ekki töldu dómararnir ástæðu til rannsóknar af því tilefni.

Ég tók þátt í að sækja Gunnar Jónsson til Spánar vorið 1977 til vitnisburðar fyrir dómi. Ég fór hinsvegar ekki með Gunnar Jónsson að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði og veit ekki hverjir það gerðu. Þegar komið var til Reykjavíkur frá Spáni með Gunnar afhentum við hann dómurum málsins sem tóku ákvörðun um framhaldið.

 Dómararnir fólu mér að koma á sakbendingu þar sem kannað yrði hvort Elínborg Rafnsdóttir og Sigríður Magnúsdóttir bæru kennsl á Kristján Viðar sem mann þann sem þær telja sig hafa séð með Guðmundi Einarssyni í Strandgötu í Hafnarfirði eftir að dansleik í Alþýðuhúsinu lauk árla sunnudags 27. janúar 1974. Tæknideild hafði veg og vanda af tæknilegum undirbúningi. Valdir voru nemendur úr Lögregluskólanum sem voru svipaðir á hæð og Kristján Viðar til samanburðar. Á þessum tíma var búið að birta myndir af Kristjáni Viðari í blöðum og því var gildi sakbendingarinnar sem sönnunargagns takmarkað að mínu áliti.

 Þó nokkuð löngu eftir að dómur gekk í Hæstarétti fól Hallvarður Einvarðsson, rannsóknarlögreglustjóri ríkisins, mér að rannsaka hvað hefði orðið um búslóð, muni og gögn Sævars, sem hann hafði skilið eftir í Þverbrekku 4 í Kópavogi er hann var settur í gæsluvarðhald. Eftir ítarlega rannsókn kom í ljós að ekki varð haft upp á neinu þessu og engin lögregluskýrsla var tiltæk um leit á staðnum og brottnám hlutanna."