Ragnar H. Hall

 

Er þörf á breytingu efnisreglna laga um heimildir til endurupptöku dæmdra opinberra mála?

Hér á landi hafa ákvæði laga um endurupptöku dæmdra opinberra mála komið nokkuð til umræðu síðustu misserin, einkum í tengslum við meðferð kröfu um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 214/1978: Ákæruvaldið gegn Sævari Marinó Ciesielski o.fl. Eftir að Hæstiréttur synjaði um endurupptökuna með úrlausn sinni 15. júlí 1997 tók umræðan um þetta málefni nokkuð aðra stefnu en fyrr og hefur þar einna mest borið á hugleiðingum um nauðsyn þess að breyta þeim réttarreglum sem gilda á þessu sviði. Ég hef ekki sérstaklega lagt mig eftir að lesa allar blaða- eða tímaritsgreinar sem snúist hafa um þetta málefni eftir að umrædd úrlausn Hæstaréttar lá fyrir. Mér sýnist þó eitt vera sameiginlegt með skrifum þeirra sem telja að breyta þurfi endurupptökuheimildunum: Þeir lýsa því ekki hvernig þeir telji þær eiga að vera.

Ég tel nauðsynlegt að hafa ákveðin meginsjónarmið í huga, áður en lagt er af stað með tillögur um endurskoðun lagaákvæða um þessi efni. Hvert á gildi dóms að vera? Hvaða réttarástand skapast ef heimilað verður að endurupptaka mál eftir mannaskipti í dómstól, ef líkur benda til að nýr dómari meti sönnunargögn öðru vísi en sá sem látið hefur af störfum?

Okkar þjóðskipulag byggist á því m.a., að dómstólar fjalli um réttarágreining. Um meðferð mála fyrir dómi hafa verið settar ítarlegar réttarfarsreglur, sem fjalla um það hvernig niðurstaða verði fengin fyrir dómstólum. Þegar endanlegur dómur liggur fyrir er fengin _rétt" niðurstaða. Hún er _rétt" vegna þess að hún er fengin með þeim aðferðum sem þjóðskipulagið gerir ráð fyrir og þess vegna stendur hún. Niðurstaðan getur verið umdeilanleg út frá ólíkum sjónarmiðum, hvort sem þau lúta að lögfræðilegum álitaefnum eða öðrum, en meginreglan er sú að henni verður ekki haggað.

Endurupptökuheimildir laga um meðferð opinberra mála hafa að geyma undantekningar frá þessum meginreglum. Það leiðir af sjálfu sér að slíkar undantekningarheimildir hljóta að vera þröngar. Að öðrum kosti væri verið að víkja frá meginreglunni um að endanlegur dómur standi.

Í úrlausn Hæstaréttar um framangreinda endurupptökubeiðni segir m.a. á bls. 217:

Heimildir í XXII. kafla laga nr. 19/1991 til að verða við beiðni dómfellds manns um endurupptöku opinbers máls, sem dæmt hefur verið fyrir Hæstarétti, eru reistar á þeirri meginröksemd að ekki verði unað við að dómur verði látinn standa um sakaráfall á hendur þeim, sem síðar getur sýnt fram á að hann hafi ranglega verið sakfelldur eða að brot hans hafi verið minna en sakfellt var fyrir. Um endurupptöku opinbers máls er ekki mælt í stjórnskipunarlögum. Kemur því í hlut löggjafans að skipa þessu með lögum, þar á meðal að setja skilyrði fyrir endurupptöku. Þegar það er gert er óhjákvæmilegt að líta til þess að á móti röksemdum, sem snúa að mikilsverðum hagsmunum dómfellds manns, vegur sú staðreynd að með lagaheimild til endurupptöku máls, sem dæmt hefur verið á æðsta dómstigi, er gerð undantekning frá þeirri meginreglu að dómur þar sé endanlegur og leiði álitaefni til lykta í eitt skipti fyrir öll. Er að sama skapi óhjákvæmilegt að taka mið af þessu við skýringu lagaákvæða, sem löggjafinn setur um þetta efni."

Ég hef ekki rekist á nein frambærileg rök gegn þeirri lagatúlkun sem hér er lýst.

Ég tel fráleitt að breyta endurupptökuheimildum á þann hátt að opnað verði fyrir möguleika á að endurmeta sönnunargögn sem tekin hefur verið ótvíræð afstaða til í dómi. Ég tel núgildandi reglur um þetta efni veita borgurunum nauðsynlega vernd að þessu leyti hvað efni reglnanna snertir.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að rétt sé að huga að því, hvort ástæða sé til að breyta reglum um meðferð endurupptökubeiðna. Þá á ég við, hvort rétt kunni að vera að leysa úr endurupptökukröfu með dómi í stað þess að fjalla um hana sem stjórnsýsluákvörðun.

Ég tel að umræðan að undanförnu um endurupptökuheimildirnar hafi um of stjórnast af upphrópunum þeirra sem fyrirfram höfðu gefið sér aðra niðurstöðu en þá sem Hæstiréttur komst að í ofangreindri úrlausn. Mér hefur fundist skorta á að gagnrýnendur úrlausnarinnar gerðu grein fyrir því, eftir hverju Hæstiréttur hafi átt að fara við úrlausn málsins. Er ætlast til þess að Hæstiréttur fari eftir lögunum í slíkri úrlausn, eða á hann að fara eftir einhverju öðru? Á Hæstiréttur að taka mið af skoðanakönnunum eða vera þátttakandi í einhvers konar vinsældakapphlaupi, þegar ákvörðun er tekin? Ég tel augljóst að Hæstiréttur verði að halda sig við lagaákvæðin og túlka þau eftir viðurkenndum lögskýringarreglum, í öllum málum. Ég tel líka alveg ljóst, að það var gert í margnefndri úrlausn Hæstaréttar, sem er afar ítarleg og vel rökstudd.

Þeir sem vegna niðurstöðu í því máli telja að breyta þurfi reglunum verða að sýna okkur hinum hvernig reglurnar eiga að verða, ef eitthvert vit á að vera í umræðunni um þessi mál. Það er ekki nóg að halda ræður á torgum eða skrifa greinar í blöð um að það þurfi að breyta reglunum - það þarf að upplýsa hvernig menn vilja að reglurnar verði.