Ragnar Aðalsteinsson

 

Sætti endurupptökubeiðni SMC

réttlátri málsmeðferð?

1

Ekki er unnt að gera viðunandi úttekt á úrlausn Hæstaréttar á þeim fáu síðum sem mér eru ætlaðar. Ég hef valið þá leið að lýsa ómannlegri eða vanvirðandi meðferð, sem Sævar Marínó Ciesielski (SMC) sætti í einangrunargæslu á tímabilinu 1975 til 1977 og rekja nokkur sjónarmið um pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð gæsluvarðhaldsfanga, svo og sjónarmið um sönnunargildi þvingaðra játninga. Hefur þessi þáttur málsins vakið einna mesta athygli í almennri umræðu um úrlausnina. Ég tel þó rétt að drepa á nokkur atriði, sem ég tel helst orka tvímælis í úrlausn Hæstaréttar.

Fyrst er rétt að fara nokkrum orðum um afstöðu Hæstaréttar til þeirra nýju gagna sem lögð voru fram við endurupptökumeðferðina, en ekki gefst kostur hér á að gera ítarlega grein fyrir þeim. Í a-lið 1. mgr. 184. gr. laga um meðferð opinberra mál nr. 19/1991 kemur fram m.a. að taka skuli upp mál á ný, ef fram eru komin gögn sem ætla má að hefðu skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu málsins, ef þau hefðu komið fyrir dómara áður en dómur gekk. Við endurupptökuna túlkaði Hæstiréttur þessa grein þannig að ekki væri nægilegt fyrir SMC að sýna fram á að ætla mætti, að ný gögn hefðu skipt máli, heldur var SMC gert að sýna fram á, að líklegt væri að gögnin hefðu skipt máli, enda þótt sú aukna krafa ætti sér ekki lagastoð. Hæstiréttur beitti jafnframt þrengstu hugsanlegri skýringu á hugtakinu "ný gögn", sem er verulega frábrugðin þeirri sem viðtekin er af fræðimönnum og dómstólum annars staðar á Norðurlöndum. Í úrlausn Hæstaréttar var ennfremur ekki minnst á fjölmörg ný atriði, sem gerð var grein fyrir í upptökubeiðninni. Að auki var sú leið valin í úrlausninni að halda því fram, að í dómi Hæstaréttar árið 1980 hafi verið tekin afstaða til fjölmargra atriða, sem rétturinn á að hafa vitað um, en minnist ekki á í dómsforsendum. Sú aðferð gengur í berhögg við dóma Hæstaréttar t.d. í máli Hanes hjónanna á þessu sumri, þar sem rétturinn taldi héraðsdóm ekki hafa tekið afstöðu til röksemda verjanda um að hjónin ættu á hættu að sæta harðræði í fangelsi í ríki því sem framsals krafðist og ómerkti því dóminn. Að lokum leitast Hæstiréttur í úrlausninni við að draga úr mikilvægi nýrra sönnunargagna og sundra þeim í stað þess að meta þau heildstætt eins og tíðkað er af dómstólum. Þótt einstök atriði eigi e.t.v. ekki að leiða til endurupptöku út af fyrir sig verður samt sem áður að athuga hvort heildaráhrif þeirra leiði ekki til þeirrar niðurstöðu. Hæstiréttur viðurkenndi í dómi sínum árið 1980, að brotið hefði verið gegn ýmsum lögvernduðum réttindum SMC, en taldi að ekki hefðu þau brot verið svo alvarleg að þau gerðu játningar að engu sem sönnunargagn. Í úrlausninni er og viðurkennt að SMC hafi tekist að sanna ýmis brot gegn réttindum hans þessu til viðbótar. Hæstiréttur lítur svo á, að ekki beri að líta á réttarbrotin í heild við úrlausnina, heldur einungis þau sem sönnuð hafa verið til viðbótar.

Að því er varðar nýjar upplýsingar sem fram komu um meðferð á SMC og hinum sakborningunum við rannsókn málsins verður að hafa í huga að sýnt hefur verið fram á með hinum nýju gögnum og með hinum eldri að af hálfu rannsóknara, ákæruvalds og dómara voru á sínum tíma þverbrotin flest þau réttindi, sem sakborningum eru áskilin í lögum og hafa talist meðal grundvallarréttinda íslenskrar stjórnskipunar, m.a. að vera talinn saklaus uns sekt er sönnuð með lokadómi. Erfitt hefur þó reynst að leiða í ljós að öllu leyti umfang og eðli brotanna þar sem þeim var leynt með þeim hætti að bóka ekki fjölmörg þýðingarmikil atriði, m.a. meirihluta yfirheyrslnanna og hvað átti sér stað í þeim, en það er að sjálfsögðu brot í sjálfu sér. Hæstiréttur gaf sér nokkrar mjög umdeildar forsendur í úrlausn sinni um réttindi sakborninganna. Í fyrsta lagi komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu, að Mannréttindasáttmáli Evrópu, sem Ísland staðfesti á sjötta áratugnum (auglýsing í Stjt. A nr. 11/54) hefði enga þýðingu að íslenskum rétti á tímabilinu 1975 - 1980, ekki einu sinni við túlkun landslaga. Er þetta nýtt innlegg í íslenska lögfræði. Voru réttindi sakborninga samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála túlkuð mjög þröngt í samræmi við þetta. Í öðru lagi komst Hæstiréttur að þeirri nýstárlegu niðurstöðu að verjendur ákærðra manna hafi heimild til að afsala réttindum skjólstæðinga sinna. Í þriðja lagi gekk Hæstiréttur út frá því í úrlausn sinni, að ákærðir menn þurfi að bera fram mótmæli jafnharðan gegn ólöglegum aðferðum ákæruvalds, lögreglu og dómara, en að öðrum kosti teljist þær löglegar. Slík málsforræðisregla á að sjálfsögðu ekki við í opinberum málum. Í fjórða lagi er Hæstiréttur búinn að leggja þær línur með úrlausn sinni, að brot gegn réttindum sakaðra manna hafi lítil sem engin áhrif á sönnunargildi þeirra gagna sem aflað er með þeim hætti.

Um meðferð málsins fyrir Hæstarétti og niðurstöðu Hæstaréttar er það að segja að augljóslega var ekki um dómsmeðferð að ræða í þeim skilningi sem lagt er í það hugtak nú. Sjö manna nefnd var falið að fara með málið, skipuð sex dómurum Hæstaréttar og einum héraðsdómara. Beiðni SMC var einungis tekin fyrir á einum stuttum bókuðum fundi þessara sjö nefndarmanna, er 250 blaðsíðna löng úrlausnin var lögð fram og samþykkt sem úrlausn en ekki dómur. Þar af leiðandi er ekki vitað hvernig haldið var á málinu fram að því og hverjir tóku þátt í málsmeðferðinni á hverjum tíma. Hæstiréttur fjallaði ekki í úrlausninni um það sjónarmið, að SMC ætti rétt á málsmeðferð fyrir dómi, en ekki stjórnvaldi. Hæstiréttur fór með málið sem stjórnvald, en braut jafnframt margar af meginreglum stjórnsýsluréttarins, svo sem rannsóknarregluna. Nefndarmennirnir sjö virðast því hvorki hafa gætt sjónarmiða réttarfars né stjórnsýslureglna. Hæstiréttur skipaði SMC talsmann en ekki verjanda við meðferð málsins. Dómsmálaráherra fól settum ríkissaksóknara að fara með málið af ákæruvaldsins hálfu. Sá meinaði talsmanni SMC um aðgang að þeim gögnum sem voru í fórum ríkissaksóknara á þeim forsendum m.a., að óljóst væri hver staða talsmannsins væri í málinu. Settur ríkissaksóknari tók ekki að sér sjálfstætt né í samvinnu við talsmann að afla gagna til að leiða m.a. í ljós þau atriði sem horfðu SMC til sýknu eins og honum ber að gera við rannsókn máls og meðferð fyrir dómi skv. 31. gr. laga nr. 19/1991 heldur skildi hlutverk sitt þannig að hann ætti að verja þá meðferð og þá úrlausn sem fyrir lá við upphaf endurupptökumeðferðar. Augljóst er við lestur úrlausnar Hæstaréttar að nefndarmenn tóku sama pól í hæðina þar sem úrlausnin líkist mjög greinargerð fyrir sjónarmiðum ákæruvaldsins og réttlætingu fyrri mistaka og hugsanlegra réttarbrota af hálfu rannsóknarvalds, ákæruvalds og dómsvalds. Þar er ekki beitt þeirri gagnrýnu aðferð sem lögin um meðferð opinberra mála áskilja af dómstólum.

Hér á eftir verður drepið á nokkur dæmi, sem eiga sér öfluga stoð í gögnum málsins, um meðferð sakbornings og meðferð málsins, aðallega á rannsóknarstigi, en einnig eftir útgáfu ákæru. Þegar málsmeðferðin er metin er óhjákvæmilegt að hafa í huga að við rannsókn málsins fundust hvorki lík né morðvopn og engin sannfærandi tilefni voru nefnd.

II

• Hinn 11. janúar 1976 lýsti SMC því yfir fyrir dómara í þinghaldi, að hann hefði verið þvingaður til að játa á sig sakir í Guðmundarmálinu. Dómarinn synjaði um bókun á umkvörtuninni.

• Fangapresturinn í Síðumúla tilkynnti dómsmálaráðherra í september 1976 um kvartanir gæsluvarðhaldsfanga í Síðumúlafangelsi um að þeir væru beittir harðræði og að auki væri þeim haldið í stöðugum ótta við framkvæmd gæslunnar og við yfirheyrslur og rannsóknaraðgerðir í málum þeirra.

• Skömmu eftir að SMC var settur í gæsluvarðhald í desember 1975 var aðgangur fangaprests að fangelsinu takmarkaður og aðgangur hans að fangelsisdagbók bannaður. Eftir skýrsluna til dómsmálaráðherra í september 1976 snerist sakadómur og rannsóknarlögregla gegn fangaprestinum og hann fékk nánast engar upplýsingar um fanga og mál þeirra.

• Fangapresturinn hefur skýrt frá því, að SMC hafi iðulega sagt honum að hann hafi verið neyddur til að undirrita játningar hjá rannsóknarmönnum, en hann hafi ætíð afturkallað þær næstu daga. Ennfremur hafi SMC kvartað undan harðræði við prestinn í flestum viðtölum frá því í mars 1976.

• Fangavörður bar að hann hefði séð SMC svínbeygðan í yfirheyrslu, en þar hefðu verið yfirfangavörður og tveir rannsóknarlögreglumenn. SMC hafi reynt að róa yfirfangavörðinn, sem gekk berserksgang, og beðið hann að stilla sig. Fangavörðurinn bar að yfirheyrslur hefðu verið hávaðasamar.

• Rannsóknarlögreglumaður skýrði frá því að SMC hefði kvartað undan misþyrmingum í ágúst 1976, en kvörtunin hefði ekki leitt til aðgerða.

• Fangaverðir hafa skýrt frá því að þeir hafi verið fengnir til að ræða afbrot þau sem gæsluvarðhaldsfangarnir voru grunaðir um við þá í einrúmi, einkum í því skyni að fá þá til að upplýsa hvar líkin væru, sem jafngildir að fá þá til að játa.

• Sannað var að ljós var látið loga klefa SMC um nætur í því skyni að hindra svefn hans.

• Hinn 4. maí 1976 var SMC í yfirheyrslu (samprófun) í Síðumúla að viðstöddum fulltrúa ríkissaksóknara, fulltrúa sakadóms Reykjavíkur, rannsóknarlögreglumönnum og yfirfangaverði. Vitni heyrðu hróp mikil og hávaða. Viðurkennt er að SMC hafi sætt ofbeldi í yfirheyrslunni og að það hafi ekki gefið tilefni til neinna aðgerða, hvorki af hálfu dómsmálaráðuneytis, ákæruvalds eða dómsvalds. Engar skýrslur hafi verið gerðar og ekki er upplýst hvort um var að ræða lögreglurannsókn eða dómþing. Enginn verjandi var viðstaddur eða boðaður. Þetta var viðurkennt í dómi Hæstaréttar 1980, enda var fram komin fullkomin sönnun, meðal annars skýrsla fulltrúa ríkissaksóknara, er málið var dæmt í Hæstarétti í febrúar 1980.

• Fangavörður heyrði tvívegis pústra þegar verið var að yfirheyra SMC í yfirheyrsluherbergi í Síðumúlafangelsi í janúar 1976.

• Yfirfangavörður gaf í janúar 1976 tveimur nafngreindum fangavörðum fyrirmæli um að halda SMC og öðrum gæsluvarðhaldsfanga vakandi um nótt samkvæmt skýrslu fangavarðar. Var límdur plástur yfir munn annars, en fangavörður hljóp með stól framan á sér á vegg fangaklefa SMC til að framkalla hávaða. Ennfremur tuskaði fangavörður SMC í klefa hans að sögn sama fangavarðar. Ekki verður önnur ályktun dregin en sú að ætlunin hafi verið að halda SMC vakandi til að draga úr viðnámsþrótti hans. Þá hefði SMC verið niðurlægður með því að láta hann fara nakinn á salerni.

• SMC var í einangrunargæslu í nokkur ár og fyrstu níu mánuðina fékk hann ekki að fara út í fangelsisgarð.

• Um ástand gæsluvarðhaldsfangelsisins í Síðumúla segir m.a. í dómi HR 1983 474, að "Húsakynni þau sem hann (þ.e. bótakrefjandinn) var vistaður í , voru ekki forsvaranleg til svo langrar vistunar." Vistunin var 105 dagar.

• SMC var hafður a.m.k. tvívegis í fóta- og handjárnum langtímum saman á fyrstu mánuðum gæsluvarðhaldsins. Sannað er, að fangar voru "strekktir" í fangaklefa á þessum tímabili, en með strekkingu er átt við að fangi hafi verið járnaður á höndum og fótum, hann lagður á klefagólfið og strekktur á milli horna með járnunum.

• Samkvæmt fangelsisdagbókum var SMC iðulega yfirheyrður dögum saman og það lengur en sex tíma hverju sinni án þess að nokkur skýrsla fyrirfinnist. Ekki var gætt laga við yfirheyrslur þessar og SMC ekki kynnt réttindi hans. Þá eru upplýsingar um fjölmargar svokallaðar óformlegar yfirheyrslur, þar sem ekki var gætt réttra laga. Verjandi var ekki til kallaður og vissi ekki um yfirheyrslur þessar. Verjandi SMC var viðstaddur færri en helming eiginlegra yfirheyrslna og engar óformlegar og enn síður óbókaðar.

• Verjandi SMC fékk ekki að vita um yfirheyrslur yfir vitnum og meðákærðum fyrir dómi eftir útgáfu ákæru. Saksóknari fékk hinsvegar tilkynningar um öll þinghöld í málinu.

Lesendum er látið eftir að draga ályktanir af þessum dæmum og meta hvort um ólöglegar aðferðir hafi verið að ræða, t.d. ómannlega eða vanvirðandi meðferð. Ennfremur hvort líklegt sé að SMC sé eða hafi verið í aðstöðu til að sanna hver meðferðin var í raun.

III

Eins og fyrr segir voru dómar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum byggðir á meintum játningum sakborninganna. Fáein atriði taldi Hæstiréttur styðja játningarnar árið 1980. Er að endurupptökunni kom hafði verið sýnt fram á að þessi atriði áttu sér enga stoð og studdu ekki niðurstöðu dómsins. Mikilvæg vitni höfðu gefið nýjar og breyttar skýrslur, þannig að dómsniðurstaðan átti ekki lengur neinn stuðning í framburði vitnanna og útilokaði hinn nýi framburður þá atburðarás, sem ákæruvaldið hafði byggt á og Hæstiréttur fallist á að væri nægilega sönnuð. Dómfelldir afturkölluðu fyrri skýrslur sínar og gáfu breyttar skýrslur. Ný vitni gáfu skýrslur sem studdu mjög framburð SMC um málsatvik og gögn voru lögð fram um aðstæður á vettvangi, sem útilokuðu að atburðir hefðu getað gerst með þeim hætti sem á var byggt í ákæru og dómi. Hæstiréttur taldi hin nýju gögn engu máli skipta og fór enn þá leið að afgreiða gögnin með þeim hætti að það sem þau sönnuðu hefði Hæstiréttur mátt lesa út úr þeim gögnum, sem fyrir réttinum lágu árið 1980, enda þótt rétturinn hefði ekki minnst á þau. Í úrlausninni er talið að það teljist til athugasemdalausra dómarahátta í sakamálum að afgreiða atriði ákærðum í hag með þögninni og jafngildi þögnin að viðkomandi atriði telist ekki hnekkja sönnunarfærslu ákæruvalds. Hæstiréttur telur að nýir framburðir vitna skipti ekki máli nema fram komi sérstök rök eða sérstakar skýringar á breyttum framburði. Þegar slík rök og skýringar vitnanna liggja fyrir telur dómurinn að það skipti reyndar engu máli vegna þess að skýringarnar séu "ekki með þeim hætti að byggt verði á nýjum framburði þeirra". Aðalatriði málsins er að eftir stóðu einungis játningar fengnar með þeim hætti sem fyrr er lýst að hluta.

Meðal viðurkenndra grundvallarreglna í opinberu réttarfari er reglan um að ekki skuli byggja sakfellingu í sakamáli á játningum, sem aflað er með ólöglegum hætti. Jafnframt er sönnunarbyrðin um að gætt hafi verið lögmæltra reglna lögð á ákæruvaldið.

Við undirbúning á fullgildingu Samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 10. desember 1984 með framlagningu frumvarps til breytinga á alm. hgl. (120. þing 1995) var ekki talin ástæða til breytinga á efnisákvæðum alm. hgl., enda hefði verið talið að ákvæði þeirra laga hefðu veitt nægilega refsivernd svo sem með ákvæðum um manndráp, líkamsárásir, nauðung og brot í opinberu starfi, einkum ákvæðin sem gera refsiverða háttsemi dómara og annars opinbers starfsmanns, sem á að halda uppi refsivaldi ríkisins og beitir ólöglegri aðferð til að koma manni til játningar og sagna og framkvæmir ólöglega handtöku, fangelsun eða rannsókn. Þá segir að ennfremur sé lögð refsing við því er opinber starfsmaður gætir ekki réttra aðferða við meðferð máls eða úrlausn, handtöku, leit, fangelsun eða framkvæmd refsingar. Að lokum er þess getið að refsivert sé er opinber starfsmaður misnotar stöðu sína til að neyða mann til að gera eitthvað, þola eitthvað eða láta eitthvað ógert. Með þessum rökum taldi ríkisstjórnin ekki ástæðu til að gera neinar breytingar á alm. hgl. og taka upp sérstakt ákvæði um pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð frelsissviptra manna. Jafnframt var getið hins nýja ákvæðis 1. mgr. 68 gr. stjórnarskrárinnar um bann við pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð. Af þessu er ljóst að pyndingar og ómannleg eða vanvirðandi meðferð telst refsiverð að íslenskum lögum allt frá árinu 1940 er alm.hgl. tóku gildi.

Í kafla II hér að framan er lýst nokkrum þeim aðferðum sem SMC var beittur í einangrunargæslu á tímabilinu 1975 - 1977, en þó aðallega í upphafi tímabilsins og fram undir lok ársins 1976. Vegna þess hvernig staðið var að lögreglurannsókn á því harðræði sem SMC og aðrir sakborningar í málinu sættu af hálfu opinberra aðila koma ekki fram í gögnum málsins nema takmarkaðar upplýsingar um meðferðina, en unnt er að draga ályktanir af þessum upplýsingum. Við mat á þeim ber að hafa í huga það sem kallað er í fræðiritum um pyndingar og illa meðferð code of silence sem gerir alla upplýsingaöflun og sönnunarfærslu á þessu sviði erfiða, einkum fyrir þann sem fyrir misgerðunum verður.

Hæstiréttur tók þá afstöðu bæði árið 1980 og einnig nú árið 1997 að sá sem ber fyrir sig að hann hafi sætt ólöglegri meðferð svo sem pyndingum eða annarri illri meðferð meðan hann er í gæsluvarðhaldi á rannsóknarstigi hafi sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi sætt ólöglegri meðferð og hún hafi leitt til rangrar játningar. Hæstiréttur aðhyllist því ekki fyrrgreinda viðtekna reglu um að ákæruvaldinu beri að sanna að réttra aðferða hafi verið gætt. Hann telur breytta vitnaframburði og afturkallanir játninga ekki marktækar. Hæstiréttur leggur ofurmannlega byrði á sakborninga, sem þannig háttar um, en auðveldar rannsóknar- og ákæruvaldi að fá viðurkenningu á því að það sé hlutverk ákæruvalds og lögreglu að leitast með öllum ráðum við að koma í veg fyrir að endurupptaka játningarmáls verði heimiluð. Hæstiréttur taldi það ekki hlutverk sitt að sjá til þess að skýrslur sem upplýst er að til eru hjá ákæruvaldinu væru lagðar fram og er þar t.d. átt við greinargerðir frá fulltrúa saksóknara til ríkissaksóknara frá árinu 1976, en upplýst er að slíkar greinargerðir voru gefnar.

Þau rök sem eru einkum færð fyrir því, að dómstólar skuli ekki leggja játningar, sem aflað er með pyndingum eða annarri illri meðferð eða öðrum gagnrýnisverðum hætti, til grundvallar sakfellingu eru einkum þessar: (1) að ekki er á sönnunargildinu byggjandi; (2) virðingu dómstóla hrakar og (3) ástæða er til að vinna gegn óæskilegri meðferð stjórnvalds.

Í annarri skýrslu Íslands til mannréttindanefndar SÞ árið 1993 (CCPR/C/46/Add 5, para 84. Borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi á Íslandi, Dóms- og kirkjumálaráðuneytið 1995, bls. 31) segir m.a í athugasemdum við 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, að á Íslandi séu sönnunargögn sem aflað er með pyndingum ekki sjálfkrafa ógild samkvæmt íslenskum lögum. Í athugasemdum nefndarinnar frá 19. og 20. október 1993 við þetta atriði skýrslunnar segir m.a. (op.cit. bls. 88): "Einnig tekur hún [nefndin] eftir því að játning sem fengin er fram með þvingun er ekki skýlaust útilokuð sem sönnunargagn..." Í þriðju skýrslu til nefndarinnar segir (op.cit. bls. 101) að atriði varðandi 7. gr. samningsins standi í meginatriðum óbreytt. Ríkisstjórn og Alþingi gafst sérstakt tækifæri á að taka afstöðu til tilmæla mannréttindanefndar SÞ um breytingu á reglum um notkun þvingaðra játninga sem sönnunargagna í íslenskum rétti, er aflað var heimildar Alþingis til fullgildingar á samningnum gegn pyndingum með því að leggja fortakslaust bann við slíku. Það var ekki gert og virðist því vilji Alþingis standa til að heimila rannsóknar- og ákæruvaldi og dómstólum nú sem fyrr að sakfella menn á grundvelli illa fenginna játninga einna. Svo virðist sem okkur Íslendingum sé af einhverjum ástæðum sérstaklega í mun að halda í meintar heimildir til að sakfella sakborninga á grundvelli illa fenginna játninga eingöngu. Skýringa á þessu kann að vera að leita til þess einveldishugarfars, sem ríkir hér á mörgum sviðum og einnig til þess sem nú er nefnt "kórdrengjaviðhorf". Ekki má heldur gleyma því sem Jón Steinar Gunnlaugsson kallar "þagnarmúrinn um Hæstarétt" í bókinni Deilt á dómarana. Getum við starfandi lögmenn sakað okkur um að bera a.m.k. nokkurn hluta ábyrgðarinnar á þagnarmúrnum með aðgerðarleysi okkar og samtaka okkar. Frá lagadeild HÍ heyrist fátt.1

Af framangreindu verður dregin sú almenna niðurstaða, að ekki ríki hér á landi enn nauðsynlegur skilningur á því, að allir menn séu bornir jafnir að virðingu og réttindum; að allir menn eigi rétt til mannhelgi; að enginn maður skuli sæta pyndingum, grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu; að hvern mann skuli telja saklausan uns sök hans er sönnuð og að sá sem sætir meðferð er brýtur í bága við lögvernduð grundvallarréttindi skuli eiga athvarf hjá dómstólum landsins.

IV.

Óhjákvæmilega er fjölmörgum nú ofarlega í huga á hvern hátt megi draga úr líkum á því að slík málsmeðferð sem hér er til umræðu endurtaki sig. Grundvallarhagsmunir borgaranna eru í húfi, auk þess sem aðrir mikilvægir þjóðfélagshagsmunir koma einnig til álita. Ég minni á eftirfarandi ummæli danska blaðamannsins, stjórnmálamannsins og lögfræðingsins Viggo Hörup:

Jeg tror ikke at det har nogen interesse for samfundet hvilken tillid dommerne nyder - ikke på nogen måde - i sammenligning med den interesse, det har for samfundet, at de fortjener tillid. Det er derpå alene det kommer an ...

Auka þarf þekkinguna og vitundina um réttindi einstaklingsins og vernd þeirra og tryggja að allir geti sótt rétt sinn, allir eigi aðgang að dómstólunum. Gera þarf auknar kröfur til símenntunar þeirra sem fást við réttarvörsluna og tel ég þar með bæði dómara og lögmenn auk þeirra sem fara með rannsóknarvald og starfa í fangelsum og hælum þar sem menn eru lokaðir inni gegn vilja sínum.

Á innlendum vettvangi verður ekki með árangursríkum hætti fjallað um Geirfinns- og Guðmundarmálið nema með því að Alþingi skipi rannsóknarnefnd samkvæmt 9. mgr. 15. gr. laga nr. 52/1985 um þingsköp, sem hafi aðstæður til að rannsaka eða láta rannsaka málsmeðferðina alla frá upphafi fyrir opnum tjöldum til að leita sannleikans um hana. Með rannsókn þessari verður að leiða til lykta þær grunsemdir sem ríkt hafa með þjóðinni allt frá því í desember 1975 um að ekki hafi verið allt með felldu um meðferð sönnunargagna og öflun játninga. Alþingismenn mega ekki gleyma að þeir kunna að eiga hér nokkurn hlut að máli með umræðum um þætti málsins á þingfundum meðan á rannsókn stóð. Héraðsdómurinn átti aðild að blaðamannafundi áður en dómsmeðferð hófst þar sem SMC ofl. voru sakfelldir fyrirfram. Óhjákvæmilegt er og að endurskoða ákvæðin í lögum um meðferð opinberra mála um endurupptöku dæmdra mála og tryggja að þeir sem sækja um endurupptöku fái réttláta málsmeðferð fyrir sjálfstæðum og óháðum dómstól. Núverandi fyrirkomulag er að fenginni reynslu ekki nýtilegt og í andstöðu við stjórnarskrá. Setja verður á fót sjálfstæðan og óháðan dómstól til hliðar við almenna dómstólakerfið þar sem slík mál fái úrlausn. Mætti taka mál SMC þar fyrir að nýju þannig að tryggt yrði að hann fengi ekki aðeins málsmeðferð fyrir dómi heldur einnig réttláta málsmeðferð eins og mælt er fyrir um í stjórnarskrá. Alkunna er að sjaldnast tekst að fá opinber mál endurupptekin í fyrstu umferð og eru þess mörg þekkt dæmi úr grannlöndunum, að menn saklausir dæmdir hafi orðið að leita margsinnis til dómstóla um endurupptöku uns dómstólar hafa ákveðið endurupptöku.

SMC kann einnig að eiga þess kost að leggja mál sitt fyrir Mannréttindanefnd Evrópu meðal annars í því skyni að fá viðurkenningu á rétti sínum til réttlátrar málsmeðferðar á endurupptökubeiðninni fyrir dómi þar sem gætt er sjónarmiða réttarfarsins og þess réttaröryggis sem sakborningum er tryggt í stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasamningum.

V.

Ekki hefur enn farið fram neitt fræðilegt heildarmat á því hvort dómar Hæstaréttar endurspegla á síðustu árum tryggð við stjórnarskrárvernduð réttindi borgaranna og reglur alþjóðlegra gerninga um vernd mannréttinda eða hvort rétturinn haldi óbreyttri stefnu á þessu sviði. Ég ætla þó að leyfa mér að láta í ljós það álit, að Hæstiréttur hafi breytt að nokkru fyrri afstöðu sinni til áhrifa alþjóðlegra samninga á landsrétt, enda var réttinum ekki lengur stætt á öðru vegna vaxandi þunga réttarheimildanna. Ég tel að merkja megi allríka mannréttindavitund í nokkrum dómum réttarins og sératkvæðum á síðustu árum. Af öðrum dómum verður hinsvegar ráðið, að rétturinn óttist að hann kunni að ganga of langt í viðurkenningu á gildi mannréttindareglna í landsrétti og stígi þá skref afturábak. Það er þó einkum þegar kemur að réttindum sakborninga, sem rétturinn er í dómum sínum hvað fjarlægastur ríkjandi lagaviðhorfum og skuldbindingum eins og þær birtast í mannréttindalöggjöf og túlkun hennar, enda skammt síðan þessi réttindi nutu takmarkaðrar verndar í lagaframkvæmd hér á landi.

Hæstiréttur hefur yfirleitt ekki talið það hlutverk sitt að vera framsækinn á sviði mannréttinda og hann hefur sætt gagnrýni fyrir að láta hagsmuni ríkisvaldsins, svo sem rannsóknarnauðsynjar í opinberum málum, bera lögvernduð réttindi einstaklinganna ofurliði. Niðurstaðan í endurupptökumálinu kann að endurspegla þessi atriði.

Eftir stendur að hæstaréttardómarar hafa enn komist að þeirri niðurstöðu, að þau sem sakfelld voru fyrir hvarf Guðmundar og Geirfinns, sem teljast seint til kórdrengja að áliti setts ríkissaksóknara, hafi í tvígang tekist að fremja hinn fullkomna glæp, þar sem engin áreiðanleg gögn eða vitni fundust, sem bendluðu hin sakfelldu við hvarfið, þrátt fyrir umfangsmestu rannsókn í íslenskri réttarsögu, og engin lík.

1 Sjá þó grein Sigurðar Líndal, prófessors, "Stjórnarskrá og mannréttindi", Skírnir 169 (1995); bls. 375-376, þar sem höfundurinn gagnrýnir mjög réttaröryggisreglur í alþjóðlegum samningum og telur að þeim sé ætlað að "tryggja réttindi afbrotamanna". Telur hann glæpamenn stunda iðju sína "í skjóli mannréttinda".