Jón Steinar Gunnlaugsson

 

Úrlausn Hæstaréttar á beiðni um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 214/1978."

Úlfljótur hefur óskað eftir að ég segi álit mitt á úrlausn Hæstaréttar Íslands 15. júlí 1997 um beiðni Sævars Marinós Ciesielskis um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 214/1978.

Úrlausn réttarins er bæði ítarleg og vönduð að allri gerð. Í henni er meðal annars ástæðum fyrir endurupptökubeiðninni raðað upp með skipulegum hætti en á það hafði skort í erindi talsmanns Sævars Marinós til réttarins. Um ástæðurnar er svo fjallað hverja af annarri og þær afgreiddar með rökstuðningi. Þessi vinnubrögð réttarins eru mjög að skapi starfandi lögmanns, enda ber úrlausnin með sér, að þær röksemdir sem fram var teflt í málinu hlutu skoðun og voru afgreiddar.

Ég hef lengi talið að áfellisdómar Hæstaréttar í þessu fræga dómsmáli 22. febrúar 1980 hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gera verði til sönnunarfærslu í opinberum málum. Dómarnir voru byggðir á játningum sakborninga sem fengnar voru við afar frumstæðar" aðstæður. Að mínum dómi fela játningar einar ekki í sér fullnægjandi sönnunarfærslu í opinberum málum. Þær hljóta að þurfa að styðjast við önnur áþreifanlegri" sönnunargögn til að verða lagðar til grundvallar dómi. Margt var athugavert við þessar játningar. Sumt af því skal nefnt:

1. Um var að ræða ungmenni sem stundað höfðu afbrot og neyslu vímuefna. Slíkt fólk er líklegra en ýmsir aðrir til að kaupa sér frið" við lögreglumenn með því að játa á sig þær sakir, sem það finnur að óskað er eftir. Í málinu kemur fram að sakborningar hafa, meðan þeir voru í einangrun, leitað eftir samneyti við lögreglumennina. Þetta ber vott um það hugarástand, sem slík einangrun getur skapað og bendir til þess að til hafi orðið viðleitni til að þóknast lögreglumönnum.

2. Í samhengi við þetta er nauðsynlegt að hafa hugfast að sakborningarnir voru í einangrun og þannig ofurseldir rannsóknarvaldi, þar sem dómstóll og lögregla var undir sama hatti.

3. Af málinu öllu er ljóst að rannsóknin gekk fyrst og fremst út á að fá fram játningar. Við sakborningana var oft rætt án þess að gerðar væru lögregluskýrslur. Ljóst er að lögregla sem svona starfar gerir frekar skýrslu, þegar eitthvað kemur fram, sem henni er að skapi. Lögreglumenn báru upplýsingar á milli sakborninga, líklega fyrst og fremst með því að bera undir" einn það sem annar hafði sagt. Í raun og veru er afar erfitt að greina hvaða hlutar af framburðarskýrslum sakborninga eru frá þeim sjálfum komnir og hvaða hlutar frá lögreglumönnum.

4. Hafa verður í huga að langur tími leið frá meintum afbrotum, þar til tekið var að yfirheyra sakborninga, nær tvö ár í Guðmundarmáli" og um hálft annað ár í Geirfinnsmáli". Eftir þann tíma var tekið að spyrja sakborninga um tímasetningar og atburði á tímaskeiði fíkniefnaneyslu svo löngu fyrr. Við þessar aðstæður er svörum lítt treystandi.

5. Bent hefur verið á, að lögreglan hafi látið undir höfuð leggjast að rannsaka strax atriði sem sjálfsagt var að rannsaka, m.a. atriði sem hefðu getað horft til hagsbóta fyrir sakborninga. Nokkuð virðist vera til í þessu. T.d. hefði þurft að kanna miklu betur en gert var upplýsingar um ferð Sævars Marinós austur fyrir fjall um sama leyti og Guðmundur Einarsson hvarf.

6. Í framburðarskýrslum sakborninga komu fram ýmis atriði sem síðar kom í ljós að ekki fengu staðist. Þetta var vitaskuld til þess fallið að rýra gildi þessara skýrslna fyrir dómi. Dæmi um þetta er framburður Alberts Klahns Skaftasonar, þar sem hann lýsti af nákvæmni aðstæðum við Hamarsbraut í Hafnarfirði, þegar hann var fenginn til að koma á Toyota bifreið föður síns til að flytja lík Guðmundar Einarssonar. Sú nákvæma lýsing hrundi til grunna þegar í ljós kom að faðir hans hafði ekki átt Toyota heldur Volkswagen á þessum tíma.

7. Hafi játningarnar verið sannleikanum samkvæmar, hvernig stóð þá á því að enginn sakborninga gat bent á hvar a.m.k. annað líkið væri að finna? Málið ber með sér að ótal frásagnir hafi komið fram um þetta hjá sakborningunum en engin þeirra hafi reynst rétt, þegar líkanna var leitað. Voru játningarnar trúverðugri en þessar frásagnir af staðsetningu líkanna? Í raun og veru hefur aldrei verið sannað með óyggjandi hætti að nein glæpaverk hafi verið unnin við hvarf þessara tveggja manna. Fjöldi fólks hefur horfið á undanförnum áratugum á Íslandi án þess að skýringar hafi fundist. Mér finnst eins standa á um þessa tvo menn.

8. Mikill þrýstingur var á rannsóknarmönnum og raunar dómskerfinu sem slíku um að upplýsa þessi mannshvörf. Málið var mikið fjölmiðlamál og furðuleg pólitísk upphlaup urðu sem gerðu alla þjóðina upptekna af því um langan tíma. Enginn vafi er á að þessar kringumstæður höfðu veruleg áhrif á rannsakendur og síðar dómara.

Við meðferð beiðninnar um endurupptöku fjallar Hæstiréttur um fjölda atriða sem telja verður til annmarka á rannsókn og málsmeðferð á sínum tíma. Langflestu af þessu er hafnað sem tilefnum til endurupptöku á þeirri forsendu að upplýsingar um þessa annmarka hafi legið fyrir í málinu, þegar það var dæmt á sínum tíma. Í þessu felst sú kaldhæðnislega niðurstaða, að ekki er unnt að fá mál endurupptekið ef dómarar í málinu hafa vitað eða mátt vita um aðstæður sem leiða hefðu átt til sýknu, án þess að hafa látið þær aftra sér frá að sakfella!

Ástæða þess að í lög eru settar heimildir til að endurupptaka opinber mál er sú, að við viljum ekki að menn þurfi að sitja uppi með ranga dóma. Það má vel vera að sú lögskýring Hæstaréttar sé nú rétt, að ekki sé unnt að endurskoða ranga dóma hafi það verið dómarar sem beittu rangindum. Það er hins vegar alveg sama ástæða til að heimila endurskoðun, þó að það séu menn með dómsvald sem brotið hafa rétt á sökuðum mönnum. Þess vegna verður að breyta lagaákvæðunum um endurupptöku og rýmka heimildir að þessu leyti. Það verður þó að gera af mikilli varfærni því meginreglan er vitaskuld sú að dómar séu endanlegir.

Ég sé að lokum ástæðu til að minna á, að viðfangsefni dómara í sakamálum er ekki að svara spurningum um hvað raunverulega hafi gerst. Viðfangsefnið er að ákveða, hvort lögfull sönnun hafi verið færð fram fyrir dómi um sekt þess manns sem fyrir sökum er hafður. Sé slík sönnun ekki færð fram, kann það að leiða til þess að sekur maður sleppi. Það er gjald sem réttarríki greiðir fyrir að geta talist réttarríki.