DV föstudag 15 mars 1996

Viðar Víkingsson kvikmyndagerðarmaður:

 

Undirbýr kvikmynd

um Geirfinnsmálið

-hefur fengið 13 milljónir úr Menningarsjóði útvarpsstöðva

 

Viðar Víkingsson kvikmyndagerðarmaður vinnur nú að undirbúningi leikinnar kvikmyndar um frægasta sakamál Íslandssögunnar, Geirfinnsmálið. Viðar fékk fyrst hugmynd að myndinni fyrir fimm árum og fyrir þremur árum sótti hann um styrk úr Menningarsjóði útvarpsstöðva. Þá fékk hann vilyrði fyrir styrk en það var ekki fyrr en núna nýlega að honum voru úthlutaðar 13 milljónir til verksins úr sjóðnum.
Viðar sagði að 13 milljónirnar myndu hrökkva skammt og hann væri að reyna að útvega meira fjármagn. Stefnan væri að hefja tökur á myndinni á þessu ári. Hann hefur rætt við Friðrik Þór Friðriksson og Ara Kristinsson hjá Íslensku kvikmyndasamsteypunni um samstarf við gerð myndarinnar en vegna anna hjá þeim verður ekki af því í bili.
Viðar hefur skrifað handrit að kvikmyndinni sem áætlað er að verði í fullri lengd. Leikarar hafa ekki verið valdir en tökur eiga að hefjast í haust, að sögn Viðars.
"Þetta er það víðfeðmt mál að það hefði verið hægt að gera marga þætti. Fyrst var ég með það í huga að gera tveggja þátta seríu en það er of dýrt dæmi. Það væri hægt að gera margar útgáfur af leikinni mynd um mál eins og hvarf Geirfinns. Ég ætla að reyna að láta það koma fram í myndinni þvílíkum heljartökum það hafði á þjóðinni. Furðulegasta fólk varð fyrir ásökunum og var talið grunsamlegt," sagði Viðar sem fylgdist með Geirfinnsmálinu úr fjarlægð á sínum tíma, var þá búsettur í Svíþjóð.
-bjb