Um hinar röngu sakargiftir

er þess að geta að gögn málsins bera það með sér, að bæði ákæruvald og aðrir rannsóknaraðilar töldu að menn tengdir Klúbbnum bæru ábyrgð á hvarfi Geirfinns Einarssonar. Var það löngu áður en grunur féll á skjólst.m. og hafi þeir nefnt nöfn manna, sem tengdust Klúbbnum, er sú skýring frá rannsóknarmönnum og fjölmiðlum komin. Minnt er á, að Magnús Leópoldsson var kvaddur fyrir lögreglu skömmu eftir að Geirfinnur hvarf og yfirheyrður og skýrði hann frá þessu þegar er hann var handtekinn hinn 26. janúar 1976. Dagsetningu þeirrar yfirheyrslu hef ég ekki, en að henni stóðu rannsóknarmennirnir Haukur Guðmundsson og Rúnar Sigurðsson, sem báðir tóku þátt í Keflavíkurrannsókninni svonefndu í framhaldi af hvarfinu. Líklegt má telja að Magnús hafi verið yfirheyrður í nóvember 1974 til janúar 1975. Það er því beinlínis rangt að skjólst.m. eða aðrir meðákærðir eigi upphafið að því að fella grun á svonefnda Klúbbmenn. Minna verður hér á stórfellda gagnrýni Hallvarðs Einvarðssonar, þá aðalfulltrúa saksóknara ríkisins, í garð dómsmálaráðuneytis árið 1972, er svonefnd Klúbbmál komu uppá yfirborðið. Lögreglustjóri lokaði Klúbbnum eftir að aðalfulltrúinn hafði snúið sér til hans og byggðist lokunin á heimild í áfengislögum, en var ekki rannsóknarúrræði skv. lögum um meðferð opinberra mála. Taldi aðalfulltrúi að allsendis óviðeigandi væri að hafa veitingahúsið opið frá sjónarmiði almennrar réttarvörslu. Fáeinum dögum síðar var ákvörðum lögreglustjóra felld niður að tilhlutan dómsmálaráðherra og ritaði aðalfulltrúinn skýrslu og umsögn um málið 23. okt. 1972. Taldi hann, að niðurfelling dómsmálaráðuneytis á banni lögreglustjóra væri "allsendis ótímabær og ástæðulaus og ekki studd almennum opinberum réttarvörsluhagsmunum." Til þessara átaka er að rekja sífelldan grun rannsóknarmanna á svonefndum Klúbbmönnum á þessum árum og tilhneigingu þeirra til að tengja grunsamlega atburði við Klúbbinn. Rannsóknaraðilar verða alfarið sakaðir um að hafa blanda fjórum saklausum mönnum í málið. Sakadómur og Hæstiréttur áttuðu sig ekki á því hvernig málið var í pottinn búið og heimiluðu gæsluvarðhald ítrekað. Að svo komnu máli var örðugt fyrir sakadóm og Hæstarétt að að túlka vafann í málinu ákærðu í hag. Jafnframt gátu skjólst.m. ekki litið svo á að þeir gætu fengið hlutlæga meðferð hjá dómstólunum eftir gæsluvarðhaldsúrskurðina.