Vitni í Geirfinnsmáli:
Í forsendum dómanna er og lögð áhersla á framburði vitnanna Guðmundar Sigurðar Jónssonar og Ámunda Rögnvaldssonar, sem telja sig e.t.v.. hafa ekið Erlu að morgni 20. nóv. 1974 frá Keflavík að Grindavíkurafleggjara annars vegar, og hinsvegar þaðan suður í Hafnarfjörð.
Vitnið Guðmundur S. Jónsson sagði í fyrstu skýrslu fyrir lögreglu hinn 30. mars 1976, að hann hefði verið á bifreið sinni Skoda 1000, rauðri að lit, með skráningarnúmerinu G-9093. Hann sagðist hafa tekið stúlku uppí við gatnamót vegarins uppá Keflavíkurflugvöll. Hann gat ekki tímasett atburðinn né heldur dagsett hann. Á þessum tíma höfðu birst fjölmargar ljósmyndir af Erlu í fjölmiðlum. Sama dag og skýrslan var gefin var haldin einhverskonar óformleg sakbending og sagði vitnið að ein stúlkan úr hópnum kæmi til greina. Enga skýrslu hef ég fundið um sakbendinguna. Hinn 26. maí 1977, eða fjórtán mánuðum síðar, kom vitnið fyrir dóm. Það breytir nú framburði sínum að öllu eða verulegu leyti. Það kveðst muna að það hafi verið á ferðinni 20. nóv. 1974. Það hafi tekið stúlku uppí bílinn vestast á Hafnargötu í Keflavík, en ekki hinum megin bæjarins við flugvallarafleggjarann. Hann segist nú ekki hafa verið á rauðum Skoda heldur sennilegast á gamalli Moskovits bifreið, gulgrænni á lit. Hér er um gjörbreytta sögu að ræða, sem fellur betur að rannsóknartilgátu rannsóknarmanna. Upplýsingarnar getur vitnið hafa fengið úr blöðunum, en frásögn höfð eftir Erlu birtist opinberlega í maí 1976. Blaðamannafundur var haldinn 3. feb. 1977 þar sem atvikum var lýst í smáatriðum frá sjónarhóli lögreglu og sakadóms Reykjvíkur.
Vitnið Ámundi Rögnvaldsson sá Erlu Bolladóttur í hópi fjögurra stúlkna 11. apríl 1976 og þekkti hann enga stúlknanna.
Í frásögn Hæstaréttar af þessum tveimur vitnum er athyglisvert, að ekki er gerður neinn greinarmunur á skýrslu fyrir dómi eða lögreglu. Ekki er heldur gerð grein fyrir því að sakbendingar uppfylli ekki lágmarksskilyrði sakbendinga sem sönnunargagna. Þá er sérstætt að telja vitni greinargott, sem breytir skýrslu sinni svo verulega sem Guðmundur S. Jónsson gerði, þannig að í raun var um tvær ólíkar frásögur að ræða. Þá getur Hæstiréttur þess ekki að dómurum sakadóms láðist þessu sinni sem endranær að láta verjendur og ákærðu vita af réttarhaldinu og gera ráðstafanir til viðveru þeirra. Þegar af þeirri ástæðu er dómskýrsla Guðmundar þýðingarlaus sem sönnunargagn.