16. júlí. 1997

 Það heldur áfram að viðra vel á okkur, að minnsta kosti hér fyrir sunnan, og það er svo sannarlega fagnaðarefni. Við Íslendingar kunnum sennilega betur að meta sólina en nokkur önnur þjóð, og það er auðvitað vegna þess, að sól og sumar eru hvort tveggja af skornum skammti hér á landi. En í dag langar mig til þess að leggja orð í belg um mál, sem er ekki beinlínis sumarlegt og því síður sólríkt í eðli sínu. Það er nýfallinn úrskurður Hæstaréttar í Geirfinns- og Guðmundarmálum. Fyrst er þess að geta, að mér sýnist úrskurðurinn ekki rangur, þótt ég vilji auðvitað ekki gerast dómari í þessum málum. Hæstiréttur var að svara ákveðinni spurningu, og hún var, hvort skilyrðum laga fyrir endurupptöku þessara mála væri fullnægt, og rétturinn svaraði þeirri spurningu neitandi. Engin ný gögn hafa komið fram, sem breyta málinu verulega.

 En fyrir mér er það ekki kjarni málsins. Nýju gögnin skipta eki eins miklu máli og gömlu gögnin. Aðalatriðið í mínum huga er það, hvort gömlu gögnin hafi nægt til þess að fella hinn upphaflegi dóm. Um það hef ég verulegar efasemdir. Gallinn við Geirfinns- og Guðmundarmálin er sá, að þau eru enn óupplýst. Ég er áreiðanlega ekki einn um þá skoðun, að það nægi varla til sakfella menn fyrir morð, að fyrir liggi játning þeirra, sem þeir hafa síðan tekið aftur, en hvort tveggja vantar, líkið af hinum myrta og einhver skiljanleg ástæða til verknaðarins. Það hefur aldrei tekist að sanna, að þeir Geirfinnur og Guðmundur hafi í raun verið myrtir. Fólk hverfur, án þess að það hafi verið myrt. Það var svo sannarlega þarft og gott framtak, þegar Ríkisútvarpið sýndi á dögunum ágætan þátt um Geirfinns- og Guðmundarmálin, sem Sigursteinn Másson og fleiri höfðu gert.

 En hvers vegna flýtti Hæstiréttur og undirréttur á undan honum sér svo að sakfella þessi ungmenni fyrir tuttugu árum, þótt gögnin væru varla fullnægjandi? Þeir, sem muna andrúmsloftið, þegar Geirfinns- og Guðmundarmálin voru til meðferðar, vita skýringuna. Hér höfðu nokkrir ábyrgðarlausir fjölmiðlungar og stjórnmálamenn magnað upp hreint galdrafár. Vilmundur Gylfason, Sighvatur Björgvinsson og fleiri menn höfðu látið að því liggja, að Ólafur Jóhannesson, þáverandi dómsmálaráðherra, og fleiri framsóknarmenn væru viðriðnir stórglæpi, Vilmundur í blaðagreinum, Sighvatur í þingræðu. Nokkrir minni spámenn eins og Halldór Halldórsson sigldu síðan í kjölfarið. Fjöldi manns trúði þessum órökstuddu dylgjum og ásökunum. Og dómarar og lögreglumenn höfðu ekki nægilegan innri styrk til að standast þessa atlögu, svo að þeim er að nokkru leyti um að kenna líka.

 Eftir að ég varð vitni að þeirri fjöldasefasýki, sem greip fólk á þessum tíma, skil ég betur en áður galdrafárið á miðöldum. En mistökin eru til þess að læra af þeim. Þegar við horfum um öxl, sjáum við það, sem hefði átt að blasa við öllum upplýstum mönnum á þeirri tíð, að Ólafur Jóhannesson var heiðarlegur og góðgjarn maður, sem varð að sitja undir ótrúlegum ásökunum. Það var vitaskuld samstarfsmönnum hans í Sjálfstæðisflokknum til skammar, að þeir skyldu ekki hafa komið honum til varnar á þeim tíma, þegar svo hart var sótt að honum. Á því var að vísu ein undantekning. Dr. Gunnar Thoroddsen, þáverandi félagsmálaráðherra, brást drengilega við hinum ótrúlegu og skammarlegu árásum á Ólaf Jóhannesson. En verstur er auðvitað hlutur þeirra, sem galdrafárið mögnuðu upp, þar á meðal Sighvats Björgvinssonar, sem nú er formaður Alþýðuflokksins og virðist ekkert hafa lært af fyrri möstökum sínum.