Íslendingar

býsnast mikið yfir stóru og smáu en yfirleitt er það bara í nösunum á þeim og kemst ekki mikið útfyrir eldhúsið eða mötuneytið í vinnunni. Þetta sést aldrei betur en þegar stór fréttamál sem af þorra þjóðarinnar eru talin hneyksli, koma upp. Hávaðinn gengur yfir á tveimur til þremur dögum en einstaka lesendabréf eða hjáróma þjóðarsál koma með eftirhreytunum. Tvö nýleg dæmi: Höfnun Hæstaréttar á beiðni um endurupptöku Guðmundar og Geirfinnsmála og launahækkanir til æðstu embættismanna. Gallup könnun sýnir að mikill meirihluti þjóðarinnar styður endurupptöku og af umræðum í þjóðfélaginu að dæma er þjóðin reið yfir óréttlætinu. En hvað svo? Fólk ypptir öxlum og lætur ósómann yfir sig ganga. Ég fullyrði að ef slíkt hefði gerst í Frakklandi eftir jafnmikla umfjöllun um þarlent réttarhneyksli þá hefði fólk orðið reitt, svo reitt að það hefði sýnt hug sinn á götum úti, og fyrir framan dómshúsið og þá hefði verið betra fyrir dómarana, sem kváðu upp úrskurðinn að vera farnir sem lengst í sumarfrí. Ef það hefði síðan gerst í Frakklandi að viku síðar hefðu sömu dómarar hækkað um tuttugu prósent í launum eftir ákvörðun kjaradóms, þá hefði einfaldlega allt orðið vitlaust. Tvisvar fylgdist ég sem fréttamaður með fjöldamótmælum í París. í annað skiptið mótmæltu á þriðja hundrað þúsund manns grunnskólafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem gerði ráð fyrir að auðveldara yrði að stofna einkaskóla. Það er skemmst frá því að segja að verslana og kaffihúsaeigendur þurftu að loka og byrgja glugga við þau stræti sem mótmælendur fóru um. Þeir sem það ekki gerðu þurftu daginn eftir að panta nýjar rúður. Þegar lögreglan gerði tilraun til að hefta för göngufólksins, sem var á öllum aldri, og hafði sumt komið langt að, rigndi grjóti og múrsteinum yfir laganna verði. Önnur mótmæli voru skipulögð viku síðar og þá átti að smala fleira fólki og hafa hærra. Áður en til þess kom hafði ríkisstjórnin dregið frumvarpið til baka. Ekki er ég að hvetja til þess að fólk fari og rústi verslanir og kaffihús á Laugaveginum vegna andúðar á Hæstarétti og kjaradómi en það má eitthvað á milli vera. Þegar háttsettir embættismenn bregðast svo hrapalega sem Hæstiréttur gerði í þessu máli og er síðan umbunað af vinum sínum í lögmannafélaginu með tuttugu prósenta launahækkun, þá ber íslenskum almenningi að láta í sér heyra. Fara út á göturnar og mótmæla, og það hátt. Ekki fimm hundruð þægir þegnar niiður á Lækjartorgimeð leyfisbréf lögreglu upp á vasann. Heldur tuttugu þúsund, þrjátíu þúsund, fjörtíu þúsund reiðir þegnar þessa lands sem fá útrás fyrir bræði sína. Það þarf að mótmæla hroka valdastéttarinnar sem telur sig hafa einkaleyfi á réttlætinu og gerir það sem henni sýnist og þá dugar ekki að boða til mótmæla einu sinni. Það þarf að mótmæla og síðan að mótmæla aftur og aftur þar til valdhafarnir sjá að sér. Íslendingar eru seinþreyttir til vandræða og það er í því skálkaskjóli sem hrokafullir valdhafar veigra sér ekki við að misbjóða réttlætiskennd þjóðarinnar í þágu samtryggingar á toppnum. Gamla viðkvæðið "hvað get ég gert" á ekki við í fimmtíu milljón manna þjóðfélagi eins og því franska og þaðan af síður í landi með tvöhundruð og sjötíu þúsund íbúa. Það er kominn tími til að fólk sýni hug sinn í verki.

 

Sigursteinn Másson