Geirfinns- og Guðmundarmál

 

Þann 23. nóvember síðastliðinn fór Sævar Ciesielski, einn sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, þess á leit við dómsmálaráðuneytið að hann yrði sýknaður af fyrrnefndum málum og honum greiddar skaðabætur vegna fangelsisdóms og gæsluvarðhaldsvistar er hann mátti þola. Kröfum sínum til stuðnings afhenti Sævar Ciesielski ráðuneytinu um 120 blaðsíðna greinargerð en þar gagnrýnir hann harðlega rannsókn og dómsmeðferð fyrrnefndra mála og heldur því fram að fjarvist sín í málunum báðum hafi verið stungið undir stól. Í framhaldi af beiðni Sævars var skipaður sérstakur ríkissaksóknari, Ragnar Hall, til að annast meðferð kröfunnar, en Hallvarður Einarsson ríkissaksóknari varð að víkja lögum samkvæmt, þar sem hann kom nálægt rannsókn málsins á sínum tíma.

 

Verða leyniskýrslurnar birtar?

 

Settur ríkissaksóknari hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að Sævar Ciesielski geti ekki leitað til sín í þeim tilgangi að fá í hendur skýrslur og rannsóknargögn er málin varða. Sævar telur mikilvægt að leyniskýrslur, sem ekki voru lagðar fyrir Hæstarétt á síum tíma, fylgi nú kröfu sinni um endurupptöku G.G.-mála, og að birting þeirra sé reyndar forsenda þess að beiðni sín fái réttláta meðferð. Þar má meðal annars nefna svonefnda "Trúnaðarskýrslu" eftir þýska glæparannsakandann, Karl Schüt, sem fenginn var til landsins til þess að bjarga því sem bjargað var þegar rannsókn málsins var komi í þrot. "Trúnaðarskýrslan" ber þess glögg merki að rannsóknin snerist um að samræma framburð og raða málinu saman fremur en að upplýsa það.

 

Í upphafi skýrslunnar gerir Schütz grein fyrir því hvernig bregðast eigi við mótbárum almennings og að niðurstaðan af rannsókninni verði að vera trúverðug. Einnig telur hann nauðsynlegt að koma í veg fyrir að fjölmiðlar birti "gróusögur" sem kynnu að draga í efa réttmæti niðurstöðu rannsóknarinnar, því eins og segir í skýrslunni "stór hluti íslensku þjóðarinnar er svo trúgjarn". Þýski rannsóknarlögreglumaðurinn var að eigin sögn sérfræðingur í að "vernda æðstu ráðamenn Sambandslýðveldisins og upplýsa mál sem vörðuðu öryggi ríkisins". Ekki verður séð hvers vegna óupplýst mannshvörf hér á landi gátu talist verðugt verkefni fyrir þýskan lögreglumann á eftirlaunum sem einkum hefur sérhæft sig í málum er varða öryggi ríkisins.

 

Nærtækasta skýringin er sú að hlutverk hans hafi fyrst og fremst verið fólgið í því að vernda starfsheiður rannsóknaraðila og annarra embættismanna ríkisins, en opinberun sumra hinna óheyrilegu hluta, sem gerðust við rannsókn þessara mála, hlyti að hafa víðtæk áhrif á afstöðu þjóðarinnar til þeirra sem eiga að gæta laga og réttar hér á landi. Orð Karls Schüt sjálfs renna stoðum undir þessa útlistun því þegar hann var farinn af landi brott lýsti hann því yfir í viðtali við þýsk tímarit að meðferð gæsluvarðhaldsfanganna hafi minnt sig á blómatíð nasismans í Þýskalandi og að hlutdeild hans í málinu hafi bjargað íslensku ríkisstjórninni!

 

Fjarvistarsönnun skotið undan

 

Sævar Ciesielski hefur einnig farið fram á að honum verði veittur aðgangur að gömlum málsskjölum frá sakadómi í ávana- og fíkniefnamálum, en þeim skýrslum kemur fram að helgina sem Guðmundur Einarsson hvarf var Sævar Ciesielski staddur í Glúfárholti í Ölfusi. Þetta var vitað með vissu. Sævar var á þessum tíma undir nálarauga fíkniefnalögreglunnar, er grunaði hann um innflutning og sölu á kannabisefnum, og fylgdist því náið með öllum hans ferðum. Í skýrslu fíkniefnalögreglunnar gerir leigubílstjóri grein fyrir því að hann hafi ekið Sævari síðdegis á föstudegi austur í Glúfárholt og í sömu gögnum kemur fram að Sævar Ciesielski hafi ekki komið aftur til Reykjavíkur fyrr en seinni part sunnudags. Það sem er athyglisvert í þessu sambandi er að rannsóknardómari Sakadóms Reykjavíkur og tveir rannsóknarlögreglumenn, er sátu að allri rannsókn G.G.-mála á fyrstu mánuðum, höfðu umræddar fíkniefnaskýrslur undir höndum. Ætla má að þeim hafi þess vegna verið fullkunnugt um fjarvist Sævars í svonefndu Guðmundarmáli.

 

Rannsókn fíkniefnamálsins var ekki lögð fram eða höfð til hliðsjónar við úrlausn Guðmundarmálsins. Þar kemur fram verustaður Sævars Ciesielski þann tíma sem Guðmundur Einarssson hvarf. Rannsóknaraðilar tjáðu Gísla Guðmundssyni rannsóknarlögreglumanni að umræddur leigubílstjóri "hafi verið tekinn til yfirheyrslu og verið geymdur um tíma í vörslu lögreglunnar, en láðst hafi að taka neina skýrslu um það efni eða skrá niður framburð hans"! Sakadómarar kröfðust ekki skýringa. Hvorki var fyrrnefndur leigubílstjóri spurður fyrir dómi eða íbúar að Glúfárholti yfirheyrðir, en þeir gátu staðfest fjarvist Sævars Ciesielski þessa örlagaríku helgi.

 

Skortur á sönnunargögnum

 

Vegna upptöku G.G.-mála er einnig mikilvægt að iðurstöður rannsókna Wiesbaden-stofnunarinnar verði birtar. Á seinni stigum rannsóknar G.G.-mála voru tekin sýni af meintum vettvangi glæpsins, einnig sýni úr fatnaði sakborninga og send til rannsóknar hjá glæparannsóknarstöðinni í Wiesbaden í Vestur-Þýskalandi. Ekkert kom úr þeirri rannsókn sem benti til sektar. Það hlýtur að blæða úr börðum mönnum ekki síst ef barðir eru til dauða. Ef blóð var til staðar í sýnum, þótt ekki hafi verið sjáanlegt berum augum, þá hefði það átt að koma fram í þeirri rafeindasmásjárrannsókn sem framkvæmd var. Sama er að segja um þann fatnað sem rannsakaður var, þar kom ekkert óeðlilegt fram sem benti til sektar.

 

Glæparannsóknastöðin tölvukeyrði framburði til að kanna möguleikann á því að játningar í G.G.-málum væru tilbúningur. Niðurstöðurnar hölluðust einmitt að því, þar sem sakborningum bar ekki saman í veigamiklum atriðum. Þessi niðurstaða er viðurhlutamikil fyrir rannsókn málsins því engar óyggjandi sannanir komu fram um sekt hinna ákærðu, þau voru eingöngu dæmd á grundvelli eigin játninga. Játninga sem fengnar voru með harðræði og ólöglegum rannsóknaraðferðum ef marka má vitnisburði fangavarða.

 

Mér er ekki kunnugt um hlutverk skipaðs ríkissaksóknara, né hvort hann þiggur laun fyrir að hafast ekkert að, en ljóst er að ef Sævar Ciesielski fær ekki umbeðin gögn, með einum eða öðrum hætti, er það áfellisdómur yfir íslensku réttarkerfi. Eins og málsrannsókn G.G.-mála var háttað á sínum tíma er ráð að stinga við fæti áður en höggvið er í sama knérunn. Þótt flestir fjölmiðlar landisns hafi verið undarlega hljóðir um málstilbúnað Sævars Ciesielskis varðandi upptöku Guðmundar-og Geirfinnsmála er ég sannfærður um að almenningur fylgist grannt með framvindu mála.

 

(Birtist í Morgunblaðinu í júní 1995)