HP fjallar um viðamestu sakamál aldarinnar

 

Velvild fangavarðanna var

Þóri Oddssyni lífsnauðsyn

 

- Nýjar upplýsingar úr fangelsisdagbók sýna að stjórnandi harðræðisrannsóknarinnar var háður velvild fangavarða eftir að hafa sjálfur gerst sekur um stjórnarskrárbrot.

 

Það var komið fram á árið 1979 þegar ekki varð undan því vikist lengur að láta rannsaka "harðræðið" sem sakborningar í Guðmundar og Geirfinnsmálum voru beittir í Síðumúlafangelsinun. Rannsóknin var falin Þóri Oddssyni vararannsóknarlögreglustjóra og þótti ýmsum ekki nema miðlungi vel til fundið vegna þess að Þórir var þar með settur í þá stöðu að rannsaka hugsanleg brot yfirmanns síns, Hallvarðs Einvarðssonar, sem hafði verið varasaksóknari og sem slíkur átt þátt í rannsókninn. Nú var hann orðinn yfirmaður hinnar nýstofnuðu Rannsóknarlögreglu ríkisins. Hitt vissu menn ekki að Þórir Oddsson mátti síst við því sjálfur að styggja fangaverði Síðumúlafangelsinsins, mennina sem rannsóknin átti fyrst og fremst að beinast að. Tveimur og hálfu ári áður en Þórir Oddsson hóf þessa rannsókn hafði hann sjálfur gerst sekur um alvarlegt mannréttindabrot - raunar brot gegn stjórnarskránni. Þetta mannréttindabrot framdi Þórir með vitnund og beinni aðstoð fangavarða í Síðumúla.

 

Í fangelsi án dóms og laga

Að fyrirskipun Þóris Oddssonar var manni nokkrum haldið í fangelsi án dóms og laga í október árið 1976. Þessi fangelsisvist stóð ekki lengi, aðeins í tæpar fimm klukkustundir. Engu að síður gerði Þórir Oddsson - ásamt fangavörðum í Síðumúla - sig sekan um alvarlegt mannréttindabrot. Lögregla hafði á þessum tíma, rétt eins og nú, heimild til að halda grunuðum í sólarhring. Að þeim tíma liðnum verður að gera annað tveggja, leiða hinn grunaða fyrir dómara eða sleppa honum. Frá þessari mikilvægu reglu eru engar undantekningar. Reglan telst þvert á móti í flestum löndum vera einn af hornsteinum réttaröryggis.

Það er svo aftur nokkur vísbending um réttaröryggi í "fyrirmyndarríkinu" Íslandi að hér hefur það þó nokkrum sinnum komið fyrir að þessi grundvallarregla sé brotin án þess að viðkomandi valdsmaður hafi þurft að sæta beinum ákúrum. Þótt þetta ákvæði sé í stjórnarskrá er enga nánari útfærslu að finna á því í lögum. Má segja að í þeirri staðreynd felist viss áfellisdómur yfir löggjafanum og raunar réttarkerfinu í heild.

 

Mannréttindabrot skráð í dagbók

Hinn grunaði í þessu tilfelli var handtekinn klukkan hálftólf fyrir hádegi miðvikudaginn 20. október 1976. Hann var settur í geymslu hjá lögreglunni í Hafnarfirði þar til daginn eftir en sennilega hefur staðið til frá upphafi að úrskurða hann í gæsluvarðhald. Víkur nú sögunni að fangelsisdagbók Síðumúlafangelsins daginn eftir, fimmtudaginn 21. október. Þar er eftirfarandi skráð um mannréttindabrot gagnvart þessum manni:

Kl. 10,50. Hringdi Magnús Magnússon rslm(rannsóknarlögreglumaður) á vegum Þóris Oddsonar fltr (fulltrúa) og bað fyrir N.N. (Engin ástæða er til að birta nafn þessa manns.) Þessi maður hefur verið í geymslu í Hafnarfirði frá í gær. Geymslan er útrunninn kl. 11,30. En Þórir Oddsson segir að það eigi að geyma hann þar til hann getur talað við hann í dag. Það er á hans ábyrgð.

Kl. 11,25. Kom lögr. Hafnarfjarðar með ofangreindan mann.

...

Kl. 13,00. Kom Þórir Oddsson fltr.

...

Kl. 14,55. ... Um sama leyti var N.N. færður fyrir Þóri fltr.

...

Kl. 15,50. Var N.N. færður á klefa sinn.

...

Kl. 16,13. Var N.N. færður fyrir Þóri Oddsson fltr.

...

Kl. 16,28. Fóru Þórir fltr. og Magnús rslm. N.N hlaut 20 d. gæslu.

 

Hafði sína hentisemi

Það verður auðvitað ekki fullyrt af þessum bókunum en þó má lesa milli línanna að Hafnarfjarðarlögreglan hafi ef til vill neitað að taka þátt í þessum leik. Atburðarásin er hröð framan af. Það líður einungis rétt rúmur hálftími frá því að hringt er í Síðumúlafangelsið þangað til fanginn er kominn þangað. Hafnarfjarðarlögreglan kemur honum í hendurnar á Gunnari Guðmundssyni yfirfangaverði, sem færði dagbókina á dagvakt þennan dag, fimm mínútum áður en átti að sleppa honum, lögum samkvæmt.

Lögum samkvæmt hefðu fangaverðirnir í Síðumúla átt að leiða mann þenna út um útidyrnar og sleppa honum. Það gerðu þeir ekki. Þvert á móti stungu þeir honum inn í fangaklefa og virtust ekki hafa stórt samviskubit yfir því. Þessir menn voru líka ýmsu vanir.

Og Þórir Oddsson hafði svo sannarlega sína hentisemi þennan dag. Ef hann ætlaði að úrskurða manninn í gæsluvarðhald, bar honum að gera það fyrir klukkan hálftólf. En Þórir kom ekki í Síðumúlafangelsið fyrr en klukkan eitt. Og þótt maðurinn sem hér um ræðir væri nú búinn að sitja í fangelsi án dóms og laga í hálfa aðra klukkustund, lá Þóri ekkert á. Hann sneri sér fyrst að því að ræða við eða yfirheyra annan mann sem síðan var sleppt. Það var ekki fyrr en laust fyrir þrjú sem N.N. var leiddur fyrir Þóri sem sendi hann aftur inn í klefa þrem stundarfjórðungum síðar. Ef marka má fangelsisdagbókina var gæsluvarðhaldsúrskurðurinn svo kveðinn upp rétt fyrir klukkan hálffimm.

Engum sögum fer af því í fangelsisdagbókinni hvort maðurinn var sekur eða hvað hann hafði til saka unnið. Þar er ekki að finna neinn dóm yfir honum og ekki vitað hvort hann var dæmdur yfirleitt. Hitt er víst að honum var sleppt fáeinum dögum síðar. Verið getur að hann hafi þá verið búinn að játa og málið hafi þar með verið upplýst. Þetta bendir á hinn bóginn ekki til að afbrotið hafi verið mjög alvarlegt.

 

Samsekir um lögbrot

Harðræðisrannsóknin sjálf er efni í langa umfjöllun sem við geymum okkur að mestu til síðari tíma. Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Sævars, hefur í greinargerð sinni til Hæstaréttar bent á fjölmarga agnúa á þeirri rannsókn, raunar svo marga og alvarlega að harðræðisrannsóknin má teljast marklaus með öllu þegar tekið hefur verið tillit til athugasemdanna.

Þegar við bætist sú staðreynd að Þórir Oddsson átti í rauninni sjálfur starf sitt og starfsframa undir fangavörðunum, verður enn ljósara að rannsókninni var aldrei ætlað að upplýsa eitt né neitt heldur miklu fremur að breiða yfir. Rannsakandinn og hinir grunuðu voru allir meira eða minna samsekir um lögbrot.

Sé harðræðisrannsóknin skoðuð í þessu ljósi vekur eiginlega furðu að það litla sem kom út úr henni skyldi ekki líka hafa komist fyrir undir yfirbreiðslunni sem þessir menn hjálpuðust að við að breiða yfir pyndingar, misþyrmingar og önnur augljós mannréttindabrot í Síðumúlafangelsinu.

 

Einn kinnhestur

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að einn kinnhestur væri eiginlega það ámælisverðasta sem sakborninginar hefðu mátt þola. Niðurstaða harðræðisrannsóknarinnar var sem sé sú að það þætti sannað að Gunnar Guðmundsson yfirfangavörður hefði slegið Sævar utan undir þann 5. maí 1976. Aðstæður kringum þennan kinnhest voru þannig að erfitt var að fela hann. Atburðurinn varð við svonefnda samprófun milli Sævars, Erlu og Kristjáns Viðars og að honum var fjöldi vitna. Við þessa samprófun var talið sannað að Gunnar Guðmundsson hefði slegið Sævar utan undir.

Aðstæður voru nokkuð sérkennilegar og svo virðist sem rannsóknaraðilar hafi einfaldlega verið að fara á taugum. Fjórmenningunum hafði nú verið haldið inni á fjórða mánuð og enn var í raun ekkert komið fram til að réttlæta handtöku þeirra. Erla Bolladóttir hafði verið hneppt í gæsluvarðhald eftir hafa játað að hafa skotið Geirfinn að skipun Sævars. Það sem þessi þrjú ungmenni áttu nú að koma sér saman um, var þessi nýja útfærsla á dauða Geirfinns Einarssonar.

Enn var haldið í kenninguna um spírann, Klúbbinn og fjórmenningana og ef til vill hefur rannsóknaraðilum þótt líf liggja við að fá nú fram trúverðuga sögu sem Sævar, Erla og Kristján væru sammála um þannig að hægt yrði að fá fjórmenningana sem enn voru í haldi til að játa. Rannsóknarmönnum var ekki stætt á því að halda fjórmenninginum í haldi lengur nema rannsókn málsins tæki einhverjum framförum.

En Sævar vildi ekki játa.

Í dómi Hæstaréttar er "harðræðisrannsóknin" gerð að umtalsefni og rakin nokkur atriði, svo sem að ljós var látið loga sífellt hjá Sævari, fangaverðir hafi tuskað hann til og "pústrar" hafi heyrst úr yfirheyrsluherbergi. En þar sem viðkomandi fangaverðir hafa staðfastlega neitað þessu telur dómurinn ekkert mark á þessu takandi.

Dómarar Hæstaréttar töldu á hinn bóginn vítavert að fangavörður skyldi hafa slegið Sævar kinnhest.

Þannig varð kinnhesturinn það eina sem eftir stóð af hinni ítarlegu harðræðisrannsókn Þóris Oddssonar sem þó spannaði hátt á þriðja hundrað síður.

Jón Daníelsson

 

 

 

Sótti Hlynur um

yfirmannsstöðu?

 

Ragnar Hall, settur saksóknari í endurupptökumálinu, kom nafna sínum Aðalsteinssyni mjög í opna skjöldu þegar hann lagði fram umsókn frá Hlyni Þór Magnússyni um yfirmannsstöðu við Síðumúlafangelsið. Þetta gerðist þegar Hlynur bar vitni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn í síðustu viku. Tilgangurinn var augljóslega að veikja vitnisburð Hlyns og gera hann ótrúverðugan. Staða saksóknarans styrktist enn við það að Hlynur Þór hafði áður en skjalið var lagt fram neitað að hafa sótt þessa stöðu.

Ragnar Hall fékk að spyrja vitnið svo sem venja er til þegar Ragnar Aðalsteinsson hafði lokið sér af. Ragnar Hall lauk spurningalotu sinni með því að spyrja hvort Hlynur hefði áður en hann hætti í Síðumúlafangelsinu sótt um yfirmannsstöðu við fangelsið.

Hlynur svaraði spurningunni mjög ákveðið neitandi og lét raunar ekki þar við sitja, heldur skýrði frá því að sér hefði ekki getað hugsað sér fangavarðarstarfið sem framtíðarstarf og ástæðan fyrir því hve lengi hann entist í því hefði fyrst og fremst verið sú að launin hefðu verið góð og vinnutími þannig að í raun hefði verið hægt að stunda aðra vinnu með.

Að fengnu þessu svar lagði Ragnar Hall fram umsókn, undirritaða með nafni Hlyns og spurði hvort hann hefði ritað nafn sitt þar. Hlynur kvaðst ekkert botna í þessu skjali en sagði að undirskriftin líktist mjög sinni rithönd. Hlynur gaf þó í skyn að honum virtist að skjalið kynni að vera falsað.

Ef gert ráð fyrir að skjalið sé ófalsað, veikir það vitnisburð Hlyns að því marki sem ætla má að framburður hans skapist af einhvers konar hefndarhug gagnvart fangelsismálayfirvöldum. Sá er augljóslega tilgangur saksóknarans með því að leggja það fram. Neitun Hlyns veikir svo framburðinn auðvitað enn frekar.

Engu að síður er framburður Hlyns varðandi aðbúnað og meðferð fanganna í Síðumúla fyrst og fremst samstiga framburði annarra, bæði fanga og fleiri fangavarða. Það er þess vegna of snemmt fyrir Ragnar Hall að hrósa sigri, þótt óneitanlega hafi hann unnið stig ef svo má segja með vísan til kappleikjamálfars.