Ragnar Hall sagði Hæstarétti ósatt

 

- Settur saksóknari í endurupptökumáli Sævars Ciesielski taldi í fyrra nægjanlegt að skrifa þriggja blaðsíðna greinargerð þar sem hann lagði til að Hæstiréttur hafnaði beiðni Sævars. Tvö atriði sem hann nefnir máli sínu til stuðnings eru beinlínis ósönn.

 

Sævar Ciesielski notar stór orð um þá meðferð sem hann hefur mátt þola af íslenska réttarkerfinu. Ef dæma má eftir þeim upplýsingum sem fram hafa komið að undanförnu - og raunar einnig miklu fyrr - virðist Sævar reyndar hafa gott púður að baki þessum fallbyssuskotum sínum á íslenska réttarkerfið. Nýjasta dæmið um framkomu yfirvalda gagnvart honum hefur reyndar nokkra sérstöðu. Það er nefnilega hægt að sanna. Sönnunin liggur fyrir skjalfest og undirrituð af settum saksóknara í endurupptökumálinu sem nú verður senn til meðferðar hjá Hæstarétti. Þessi setti saksóknari sagði ósatt um tvö veigamikil atriði í skýrslu sem hann skilaði Hæstarétti fyrir einu og hálfu ári. Undir þessi ósannindi skrifaði Ragnar Hall nafnið sitt með eigin hendi.

 

Var Sævar úti í sveit?

Það sem hér er um að ræða er vitnisburður Viggós Guðmundssonar leigubílstjóra sem ók Sævari alloft um það leyti sem Guðmundur Einarsson hvarf. Meðal annars ók Viggó Sævari a.m.k. tvisvar austur í Gljúfurárholt í Ölfusi. Þessar ferðir voru farnar föstudaginn 25. janúar og mánudaginn 28. janúar 1974. Guðmundur Einarsson hvarf sporlaust af spjöldum sögunnar aðfaranótt 27. janúar þetta sama ár. Það er því augljóst að allar dagsetningar skipta verulegu máli.

Þann 25. janúar 1974 ók Viggó Guðmundsson sem sagt Sævari austur í Gljúfurárholt. Þar bjuggu þá kunningjar hans, sem raunar lágu undir grun um fíkniefnamisferli.

Viggó Guðmundsson gaf lögreglunni a.m.k. tvisvar sinnum skýrslu um ökuferðir sínar með Sævar og önnur samskipti við hann. Þessar skýrslur eru gerðar 22. og 28. febrúar 1974 eða rétt um mánuði eftir að þeir atburðir áttu sér stað sem fjallað er um í skýrslunum. Um fyrri ökuferðina austur að Gljúfurárholti er haft eftir Viggó í lögregluskýrslu:

"Þann 25. janúar kvaðst kærði hafa keyrt Sævar að Gljúfurárholti í Ölfusi. Sævar var einn, og hafði með sér mat, enda ætlaði hann að dvelja þarna."

Í hinn skýrslunni segir svo:

"Ég ók Sævari nokkuð oft fyrstu dagana eftir heimkomu hans, meðal annars í tvö skipti að Gljúfurárholti í Ölfusi, sem er skammt austan við Hveragerði, í fyrsta skipti með matvæli, sem hann var búinn að kaupa, en þá ætlaði hann að fara með áætlunarbifreið, en missti af þeirri ferð..."

Af frásögn Viggós er nokkuð ljóst að Sævar hefur ætlað að hafa einhverja viðdvöl í Gljúfurárholti þótt vitaskuld verði ekki fullyrt hvers lengi hann hefur haft í hyggju að vera þar og þaðan af síður hversu löng dvölin varð. Þó virðist óhætt að fullyrða að Sævar hafi a.m.k. ætlað að vera í sveitinni yfir nótt og e.t.v. hefur hann haft í hyggju að vera þar yfir alla helgina.

 

Ragnar breytti dagsetningu

Hvað sem um það má segja, er óneitanlega kyndugt að Ragnar Hall skuli halda því fram í greinargerð sinni til Hæstaréttar að Viggó hafi ekið Sævari austur í Gljúfurárholt þann 24. janúar, sem sagt á fimmtudegi. Þessi fullyrðing hins setta saksóknara eykur á hinn bóginn líkurnar fyrir því að Sævar hafi kominn aftur í bæinn nægilega snemma til að geta verið viðriðinn manndráp í Hafnarfirði aðfaranótt sunnudagsins.

Auðvitað má hugsa sér að Ragnar Hall hafi einfaldlega misritað "24. janúar" í stað "25. janúar." En sé hér um misritun að ræða, hefur settur saksóknari gerst sekur um ónákvæmni sem tæplega samrýmist því embætti sem hann er settur til að gegna. Slík ónákvæmni er ekki sérstaklega til þess fallin að auka trúverðugleika þeirrar niðurstöðu sem hann kemst að.

 

Hverjir bjuggu í Gljúfurárholti?

Í greinargerð sinni til Hæstaréttar segir Ragnar Hall orðrétt um þessi atriði:

"Í skjali M rekur bifreiðarstjórinn akstur sinn með dómfellda eftir heimkomu þeirra frá Kaupmannahöfn í janúar 1974. Er þar getið um ferðir að Gljúfurárholti í Ölfusi 24. janúar og 28. janúar 1974. Dómfelldi hafi verið einn í fyrri ferðinni og þá haft mat meðferðis, enda ætlað að dvelja þar. Ekkert kemur fram um það í þessum gögnum hverjir réðu húsum á þessum stað eða hvenær eða hvernig dómfelldi fór aftur frá Gljúfurárholti eftir dvölina."

Í þessari einu málsgrein er beinlínis rangt farið með tvö atriði. Dagsetningin er færð til og auk þess gengur Ragnar Hall út frá því að ekki sé vitað hverjir hafi ráðið húsum í Gljúfurárholti á þessum tíma. Um íbúana er þó getið í lögregluskýrslu sem dagsett er 29. janúar 1974. Af heimilisfólki í Gljúfurárholti eru fjögur nafngreind í skýrslunni; Benóný Ægisson, Örn Ingólfsson, Gígja Geirsdóttir og Guðmundur Einarsson.

Þegar Ragnar Hall fjallar um þetta, notar hann að vísu orðalagið "í þessum gögnum" þannig að með hæfilegri hártogun er hægt að hugsa sér að hann eigi einungis við skýrslurnar sem teknar voru af Viggó Guðmundssyni. Það er vissulega einnig hægt að hugsa sér að Ragnari hafi ekki verið kunnugt um lögregluskýrsluna þar sem getið er um íbúa að Gljúfurárholti. En sé svo, hefur settur saksóknari ekki lagt mikla vinnu í að kynna sér málið sem hann var settur til að fjalla um.

 

Varla orð um Geirfinn

Það er líka býsna athyglisvert að í þeirri stuttu greinargerð sem Ragnar Hall skilaði af sér eftir að hafa unnið að málinu um eins árs skeið, víkur hann í raun varla orði að Geirfinnsmálinu. Af skýrslu Ragnars virðist helst mega draga þá ályktun að Sævar hafi einvörðungu farið fram á endurupptöku Guðmundarmálsins. Geirfinn er einu sinni nefndur á nafn:

"Meðal þess sem dómfelldi Sævar Marinó var sakfelldur fyrir var stórfelld líkamsárás á Guðmund Einarsson aðfaranótt 27. janúar 1974, sem leiddi til dauða, og stórfelld líkamsárás á Geirfinn Einarsson aðfaranótt 20. nóvember 1974, sem leiddi til dauða. Voru líkamsárásir þessar í báðum tilvikum taldar varða við 218. og 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940."

Þetta er í eina skiptið á þeim fjórum síðum sem Ragnar Hall skilaði Hæstarétti, sem hann nefnir Geirfinnsmálið. Það var þó á sínum tíma almennt álitið mun dularfyllra, einkum af þeim sökum að Geirfinnur átti stefnumót við einhvern eða einhverja ónefnda menn kvöldið sem hann hvarf og hafði á orði að kannski væri skynsamlegra að fara vopnaður.

 

Og hvað um upplognar sakir?

Sævar Ciesielski fór ekki einungis fram á að verða hreinsaður af Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Hann var á sínum tíma einnig sakfelldur fyrir að hafa logið sökum á fjórmenningana, sem svo hafa jafnan verið nefndir, þá Einar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Einarsson og Valdimar Ólsen. Allt frá því að Sævar losnaði úr einangrun hefur hann haldið því fram að þegar hann nefndi þessa menn í sambandi við Guðmund og Geirfinn, hafi það verið að fyrsögn rannsóknaraðila og eftir pyntingar. Í beiðni hans um endurupptöku fer hann því einnig fram á að vera hreinsaður af því að hafa logið sökum á aðra.

Settur ríkissaksóknari, Ragnar Hall, virðist heldur ekki hafa lesið beiðni Sævars nógu vandlega til að taka eftir þessu. Í greinargerð sinni til Hæstaréttar tekur hann sér vald til að skýra til hvaða þátta málsins endurupptökubeiðnin nái:

"Beiðni dómfellda Sævars Marinós verður að skýra svo að hann geri kröfu um endurskoðun á sakfellingu að því er hann varðar vegna þessara tveggja þátta málsins, en að hann geri ekki athugasemdir við niðurstöðu umrædds dóms um önnur ákæruatriði sem þar voru dæmd."

Þessi tilvitnun í greinargerð Ragnars kemur í beinu framhaldi af hinni síðustu (um líkamsárásina 29. nóvember 1974) þannig að þegar hann talar um tvo þætti málsins liggur einna beinast við að álykta að hann eigi við tvær líkamsárásir, - á Guðmund og Geirfinn. Ragnar er hér m.ö.o. að halda því fram að Sævar fari ekki fram á að verða hreinsaður að upplognum sakargiftum.

Þessi túlkun Ragnars Hall kemur óneitanlega illa heim og saman við orð Sævars í enduupptökubeiðninni sem Ragnar fékk til meðferðar. Sævar lýsti pyndingum í Síðumúlafangelsi ítarlega og vék þar einnig að því hvernig hann var látinn bendla fjórmenningana við málið með sömu aðferðum og hann var látinn játa sakir á sjálfan sig. Í lok greinargerðar sinnar segist Sævar gera kröfu til að vera hreinsaður af "fyrrnefndum málum." Flestu fólki þætti að líkindum eðlilegast að skilja þau orð svo að Sævar eigi við öll þau mál sem hann rakti í skýrslu sinni, þar með taldar þær sakir sem hann var dæmdur fyrir að hafa borið á fjórmenningana.

 

 

 

____________

 

"Þjónar réttvísinnar" í tugthúsið?

 

Sævar Ciesielski vill að þeir sem bera ábyrgð á hinni svonefndu "rannsókn" Guðmundar- og Geirfinnsmála verði látnir sæta ábyrgð. Þetta kom skýrt fram í máli hans á blaðamannafundi sem hann efndi til á föstudaginn. Þar kynnti Sævar einnig bók sem hann hefur nú gefið út um þessi mál.

Dómsmorð nefnist bókin og hefur að geyma megnið af þeim skjölum sem nú hafa verið lögð fyrir Hæstarétt vegna beiðni Sævars um endurupptökuna. Fyrirferðarmest er greinargerð Ragnars Aðalsteinsson lögmanns sem Hæstiréttur fól hlutverk réttargæslumanns Sævars í málinu. En í bókinni er einnig að finna skýrslu Sævars sjálfs þar sem hann rekur gang þessara mála eins þau bitnuðu á honum. Þá birtir Sævar ennfremur í bókinni álit Ragnars Hall, setts ríkissaksóknara í málinu. Ragnar lagði til fyrir einu og hálfu ár að Sævari yrði synjað um endurupptöku málsins og rúmaðist það álit hans ásamt rökstuðningi á fjórum blaðsíðum.

 

Látnir svara til saka

Sævar fór ekki dult með þá skoðun sína á blaðamannafundinum á föstudaginn að hann gerði kröfu til þess að þeir sem báru ábyrgð á pyndingum í Síðumúlafangelsinu og þvinguðu fram játningar á sínum tíma yrðu nú látnir svara til saka.

Það hefur reyndar margoft komið fram að þeir menn sem rannsökuðu Guðmundar- og Geirfinnsmál á sínum tíma hafi ekki fylgt reglum. Ragnar Aðalsteinsson fjallar ítarlega um þetta atriði í greinargerð sinni og niðurstaða hans er sú að lögum og reglum hafi einungis verið fylgt í undantekningartilvikum.

 

Nýjar upplýsingar

Í bók Sævars er raunar að finna fjöldann allan af nýjum upplýsingum auk þess sem nýju ljósi er varpað á upplýsingar sem lágu fyrir þegar dæmt var í málinu en virðast þá ekki hafa verið taldar skipta máli. Það er því vandséð að íslenska réttarkerfið komist hjá að taka þessi mál upp og rannsaka þau frá grunni.

Svo virðst nú sem þessi nærri aldarfjórðungsgömlu sakamál séu að snúast upp í andhverfu sína. Æ fleiri hafa að undanförnu sannfærst um að ekki sé líklegra að ætla að Sævar Ciesielski, og þau sem dæmd voru með honum, hafi framið þessi morð en hver annar. Ef einhver morð voru þá yfirleitt framin. Á hinn bóginn virðist varla fara á milli mála lengur að Guðmundar- og Geirfinnsmál séu sakamál í öðrum skilningi. Í þeim skilningi eru það "þjónar réttvísinnar" sem eru glæpamennirnir, þeir sem héldu fólki í einangrun árum saman og pynduðu það til sagna, - mennirnir sem skálduðu upp tvö morð og pynduðu nokkur ungmenni til að skrifa undir þessar skáldsögur.

Slíkt er auðvitað lögbrot - og var lögbrot þegar það gerðist. Verði þessir "þjónar réttvísinnar" fundnir sekir gæti svo farið að þeir þurfi að flytja sig - ekki hinum megin við borðið - heldur hinum megin við rimlana.