Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar virðist sannfærður um sakleysi þeirra sem afplánuðu langa fangelsisvist fyrir tvö manndráp. Sannanir fyrir valdníðslu og lögbrotum við rannsókn málsins hrannast upp. Samt er óvíst að málið verði tekið upp aftur. Hvers vegna?

 

Hvað gerir Hæstiréttur?

 

Þessa dagana bíður stór hluti þjóðarinnar spenntur eftir úrskurði Hæstaréttar í endurupptökumálinu. Mannlíf hefur nú birt skoðanakönnun þar sem í ljós kemur að nærri 90% þeirra sem taka afstöðu eru þeirrar skoðunar að þau sem dæmd voru í Guðmundar og Geirfinnsmálum hafi verið saklaus. Nýjar upplýsingar sem fram hafa verið lagðar sýna ótvírætt að rannsókn og öll meðferð þessara mála fyrir 20 árum var með þvílíkum endemum að það getur ekki talist annað en fáránlegt að byggja sakfellingu á þeim gögnum sem þá voru notuð, bæði í héraði og Hæstarétti. Engu að síður virðist nú fullkomlega óvíst að Hæstiréttur fallist á að taka málin til rannsóknar og dómsmeðferðar að nýju. Það fer augljóslega illa saman að annars vegar liggja fyrir sannanir fyrir ranglátri málsmeðferð og að hins vegar skuli menn hika við að taka málið upp. Einhverjar ástæður hljóta að liggja að baki slíkri þversögn. Og vissulega eru ástæðurnar fyrir hendi.

 

Hátt settir hausar

Sú ástæða sem þyngst vegur er vafalaust sú að margir þeirra manna sem áttu þátt í rannsókninni á sínum tíma eru enn að störfum í réttarkerfinu og sumir nú í háum stöðum í samfélaginu. Þessir menn hafa fulla ástæðu til að óttast endurupptöku. Verði réttað í Guðmundar og Geirfinnsmálum að nýju verða störf og starfsaðferðir þessara manna dregin fram í dagsljósið. Svo mikla birtu þolir þessi 20 ára gamla rannsókn að líkindum ekki. Ásakanir á hendur þessum mönnum eru svo alvarlegar að sannist þær er varla afsakanlegt að láta þá gegna núverandi embættum sínum, - eða yfirleitt nokkru opinberu embætti. Jafnvel mætti ætla að einhverjir þeirra kynnu að eiga fangelsisvist yfir höfði sér, nema sakir teljist fyrndar. Ef Guðmundar og Geirfinnsmál verða tekin upp aftur gæti sem sagt svo farið að hátt settir hausar fjúki, ef svo má að orði komast.

Í þessu sambandi ber fyrst að nefna Hallvarð Einvarðsson, núverandi ríkissaksóknara. Hann var þá vararíkissaksóknari og sem slíkur hafði hann veruleg afskipti af rannsókn málsins. Hér skal látið liggja á milli hluta hvort starfsframa Hallvarðar megi að einhverju leyti rekja til "frammistöðu" hans í rannsókninni.

Þáttur Hallvarðar í þessari rannsókn er raunar fremur óljós en þess er að vænta að hann skýrist til muna fari svo að málin komi fyrir rétt að nýju. Þó er vitað um nokkur atriði sem betur hefðu mátt fara í embættisfærslu Hallvarðar. Nefna má að hann var viðstaddur hina frægu samprófun 5. maí 1976 þegar Gunnar Guðmundsson sló Sævar. Sá kinnhestur var eins og frægt er orðið, hið eina sem taldist sannað eftir "harðræðisrannsókn" Þóris Oddssonar. Hallvarður var hæst settur þeirra manna sem þar voru og hefur því sennilega stjórnað samprófuninni. Við yfirheyrslu hjá Þóri Oddssyni, undirmanni sínum, mundi hann þó ekki hver hafði stjórnað þessari samprófun en taldi líklegast að það hefði verið Örn Höskuldsson.

En þótt þáttur Hallvarðar í rannsókninni sé ekki að fullu ljós, er óhugsandi annað en að honum hafi verið ljóst hvað fram fór í Síðumúlafangelsinu. Það virðist jafnframt afar ólíklegt annað en að Hallvarður hafi a.m.k. tekið þátt í að ákveða þær harkalegu aðferðir sem beitt var við rannsóknina. Ábyrgð hans á málinu hlýtur hvernig sem á það er litið að teljast veruleg.

 

Forseti Hæstaréttar í hættu

Haraldur Henrysson er nú forseti Hæstaréttar en var sakadómari fyrir 20 árum. Hann var einn þriggja dómara sem dæmdu málið í undirrétti. Haraldur tekur ekki þátt í afgreiðslu Hæstaréttar á endurupptökumálinu enda telst hann vanhæfur. Það á hann raunar sammerkt með tveim öðrum Hæstaréttardómurum, Guðrúnu Erlendsdóttur og Gunnlaugi Claesen. Eiginmaður Guðrúnar er Örn Clausen sem var verjandi Alberts Klahn Skaftasonar en Gunnlaugur Claesen var ríkislögmaður á tímum GG-mála.

Þegar Hæstiréttur ákvarðar hvort þessi gömlu sakamál skuli aftur sett í sviðsljósið, standa dómararnir frammi fyrir nokkrum vanda að meta störf þessa vinnufélaga síns og það hvort hann hafi ef til vill gerst sekur um afglöp. Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að dómurum Hæstaréttar kunni að veitast erfitt að kveða upp áfellisdóm yfir vinnufélaga sínum.

Úrskurður um endurupptöku verður óhjákvæmilega áfellisdómur yfir allmörgum mönnum, störfum þeirra og starfsaðferðum. Hér er ekki einungis um að ræða Harald Henrysson og Hallvarð Einvarðsson, heldur að sjálfsögðu einnig fjölmarga aðra. Örn Höskuldsson er nú sjálfstætt starfandi lögmaður. Hann var fulltrúi við sakadóm og aðalmaðurinn í rannsókninni. Hann yfirheyrði sakborninga ásamt rannsóknarlögreglumönnunum Sigurbirni Víði Eggertssyni og Eggerti N. Bjarnasyni. Þá má nefna a.m.k. tvo fangaverði sem hækkuðu í tign eftir framgöngu sína í Síðumúlafangelsinu. Þetta eru Skúli Steinsson sem varð yfirfangavörður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og Högni Einarsson sem varð rannsóknarlögreglumaður. Skúli er sá fangavörður sem ásakaður hefur verið um mestan hrottaskap.

Fjöldi embættismanna í réttarkerfi þessa tíma er enn starfandi. Þórir Oddsson, höfundur hinnar dæmafáu "harðræðisrannsóknar" hefur að undanförnu gegnt starfi sem yfirmaður Rannsóknarlögreglu ríkisins, sem reyndar var lögð niður um mánaðamótin. Jón Thors deildarstjóri er enn að störfum í dómsmálaráðuneytinu, Sigurbjörn Víðir Eggertsson er nú titlaður aðstoðaryfirlögregluþjónn og virðist heldur hafa þokast upp á við í stöðuheitum þessa tvo áratugi sem liðin eru frá því hann var að yfirheyra sakborninga í Síðumúlafangelsinu og "pústrar" heyrðustu úr yfirheyrsluherberginu.

 

Hafa blaðamenn hreinan skjöld?

Það má meira að segja ganga svo langt að nefna núverandi dómsmálaráðherra til sögunnar. Þorsteinn Pálsson var ritstjóri Vísis á þessum tíma. Ábyrgð blaðamannastéttarinnar á því að útbreiða meðal þjóðarinnar þá móðursýki sem ríkti innan réttarkerfisins, verður sjálfsagt seint dregin inn í umræðuna að einhverju marki. Fyrir því er sú einfalda ástæða að blaðamannastéttin á eins og aðrar stéttir erfitt með að gagnrýna sjálfa sig mjög harkalega. Rannsókn á hlutlægni blaðamanna sem fjölluðu um þetta mál bíður sagnfræðinga framtíðarinnar. Blaðamenn þessa tíma hafa það vissulega sér til afbötunar að þeir fengu upplýsingar frá lögreglu og rannsóknardómara Þær upplýsingar voru mjög einhliða og sumar lognar. Á hinn bóginn má þó segja að blaðamenn hefðu átt að skoða þessara upplýsingar gagnrýnni augum.

Þegar Sævari Ciesielski tókst að koma upplýsingum um pyndingar út úr síðumúlafangelsinu í júní 1976 hefðu blaðamenn kannski átt að skoða upplýsingarnar sjálfar aðeins nánar en raun ber vitni. Þess í stað hlupu þeir eins og þægir rakkar beint til Arnar Höskuldssonar til að láta hann vita að Síðumúlafangelsið væri farið að leka. Dagblaðinu þótti ekki ástæða til birta bréfin frá Sævari eftir að hafa kynnt sér efni þeirra! Vísi voru að líkindum einnig boðin bréfin til kaups. Hafi svo verið, er ekki hægt að útiloka þann möguleika að núverandi dómsmálaráðherra hafi séð og lesið eitthvað af þessum bréfum.

 

Uppreisn æru verður erfiður biti

Endurupptökumálið snýst ekki bara um endurupptöku. Það snýst ekki bara um það hvort saklaust fólk hafi verið dæmt. Ef horft er aðeins lengra fram kemur í ljós að þetta mál snýst jafnframt um "starfsheiður" þeirra manna sem unnu að rannsókninni og dæmdu í málinu.

Til að unnt sé að taka aftur upp mál sem búið er að dæma þurfa að liggja fyrir nýjar upplýsingar. Fjöldi nýrra upplýsinga liggur fyrir. Gallinn er sá þær upplýsingar lúta ekki að lausn Guðmundar og Geirfinnsmálanna. Það er meira en hæpið að lausn þeirra mála finnist úr því sem komið er. Nýjar upplýsingar liggja hins vegar fyrir varðandi rannsókn málsins. Þessar upplýsingar varða fyrst og fremst það að játningarnar sem dómarnir byggðust á, voru fengnar fram með gjörsamlega ólögmætum hætti. Nú verður ekki betur séð en þær hafi fengist með pyndingum, lyfjagjöf, hótunum, jafnvel líflátshótunum og svo e.t.v. loforðum. Þessu til viðbótar liggur fyrir að játningarnar voru yfirleitt - eða a.m.k. mjög oft - dregnar til baka mjög skömmu eftir að þær voru gefnar, jafnvel samdægurs eða daginn eftir.

Það er af þessum sökum sem sýknudómur nú hlýtur nánast sjálfkrafa að leiða til opinberrar rannsóknar á allri meðferð málsins á sínum tíma. Slík opinber rannsókn þyrfti ef vel ætti að vera að ná til allra þeirra sem komu nálægt rannsókn málsins, allt frá starfsmönnum dómsmálaráðuneytisins niður í fangaverði. Það verður erfitt að komast hjá slíkri rannsókn. Hún er nefnilega bæði eðlilegur og raunar nauðsynlegur undanfari dómsniðurstöðu um bætur handa fórnarlömbum þessara mála. Og slík bótamál munu óhjákvæmilega rísa í kjölfar sýknu.

 

Verður komist hjá endurupptöku?

Þótt ekki væri annað það "tregðulögmál" sem virðist innbyggt í íslenska réttarkerfið rétt eins og önnur "bákn" er kannski líklegast að Hæstiréttur muni synja Sævari Ciesielski um endurupptöku málanna. Þá munu vafalaust ýmsir varpa öndinni léttar. Slík niðurstaða gæti á hinn bógin veikt tiltrú almennings og jafnvel grafið undan stöðu Hæstaréttar. Almenningsálitið mun sem sé að líkindum ekki taka mark á þeirri niðurstöðu.

En verður hún endanleg? Sævar Ciesielski hefur þegar eytt allmörgum árum til að fá leiðréttingu þessara mála og hann virðist ekki líklegur til að gefast upp. Nú eru liðin 13 ár síðan hann losnaði úr fangelsi og hann hóf strax að kynna sér gögn málsins og hefur ekki látið það á sig fá þótt yfirvöld hafi þráfaldlega lagt steina í götu hans. En á Sævar einhverja möguleika eftir neikvæða niðurstöðu Hæstaréttar? Því er til að svara að hann gæti auðvitað haldið áfram að leita nýrra gagna og farið aftur fram á endurupptöku síðar. Hann á líka þann möguleika að kæra til Mannréttindanefndar Evrópu.

Slíkur málarekstur gæti vissulega orðið tafsamur en þó er hreint ekki unnt að afskrifa þann möguleika að Hæstiréttur Íslands fengi á endanum skipun að utan um að taka þetta mál upp aftur. Það væri verulegt áfall fyrir Hæstarétt.

 

Réttarkerfið fyrir dóm

Trúverðugleiki íslenska réttarkerfisins í heild er sem sagt í nokkurri hættu, eiginlega án tillits til þess hver málalok verða. Það eru þrátt fyrir allt ekki liðin nema 17 ár frá því að Hæstiréttur kvað upp úrskurð sinn og á mælistiku sagnfræðinnar er það afar skammur tími. Þeir fulltrúar réttarkerfis og laga (í víðtækri merkingu) sem að undanförnu hafa opinberlega tjáð sig um þetta mál svo sem dómsmálaráðherra, prófessorar og lögmenn, hafa lagt á það nokkra áherslu að fjölmargt hafi breyst til batnaðar á þessum árum. Þetta má að einhverju leyti til sanns vegar færa. Til dæmis hefur orðið ákveðin kerfisbreyting að því er varðar samkrull ákæruvalds og dómara.

Sakadómur er ekki lengur til. Sakadómur rannsakaði mál og dæmdi síðan. Rannsókn og dómsvald er ekki lengur á einni hendi. Það er vissulega mikil breyting til batnaðar. Á tímum sakadóms var auðvitað nokkurn veginn gefið að maður sem var ákærður yrði líka dæmdur. Meintir sakamenn komu í þessu kerfi einungis einu sinni fyrir dómara sem ekki hafði að meira eða minna leyti ákveðið afstöðu sína fyrirfram. Það voru dómarar Hæstaréttar. Í Guðmundar og Geirfinnsmálum er hins vegar stórt spursmál hvort dómarar Hæstaréttar hafi ekki einnig verið búnir að gera upp hug sinn fyrirfram, rétt eins og langflestir aðrir landsmenn.

 

Öxin og jörðin

Þegar Sunnlendingar voru að bræða með sér hvernig traustast yrði komið í veg fyrir að Jón Arason Hólabiskup og synir hans slyppu úr haldi í Skálholti í byrjun nóvember 1550, varð niðurstaðan sú að öruggast væri að taka af þeim hausana. "Öxin og jörðin geyma þá best," var haft eftir Kristjáni skrifara.

Innan íslenska réttarkerfisins eru vafalaust fjölmargir þeirrar skoðunar að sársaukaminnst sé að hræra ekki meira í Guðmundar og Geirfinnsmálum heldur láta þá "niðurstöðu" sem fékkst á síðustu árum áttunda áratugarins standa, án tillits til þess hvort þau sem dæmd voru hafi verið sek eða saklaus. Hvort dómarar Hæstaréttar eru á þeirri skoðun eða ekki kemur í ljós innan tíðar.

Jón Daníelsson

 

Þeir ákveða hvort Guðmundar og Geirfinnsmál verða tekin upp aftur:

 

Allan Vagn Magnússon héraðsdómari, settur vegna vanhæfis þriggja hæstaréttardómara.

Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari.

Pétur Kr. Hafstein hæstaréttardómari.

hæstaréttardómari.

hæstaréttardómari.

hæstaréttardómari.

hæstaréttardómari.