Leiðari Eintaks 7.apríl 1994
Guðmundar- og Geirfinnsmál
Í EINTAKI í dag er birt viðtal við Sævar Ciesielski. Það þarf ekki að segja neinum hver sá er. Fyrir tuttugu árum þegar rannsókn á Guðmundar- og Geirfinnsmálum stóð sem hæst var hann mest hataður Íslendinga. Hann sat í gæsluvarðhaldi ásamt öðrum sakborningum í þessum málum
í tvö ár sem rannsókn þeirra stóð. Sú rannsókn fór í nokkra hringi, sakborningar bentu hver á annan og allt aðra menn, játuðu og drógu síðan játningar sínar til baka. Á meðan voru þessi mál í stöðugri umræðu manna á meðal. Og mynd almennings af þessari rannsókn og sakborningum
hennar varð magnaðri og magnaðri eftir því sem á leið.
Rannsókn Guðmundar - og Geirfinnsmála hófst stuttu eftir að lögreglan fór að rannsaka fíkniefnamisferli hér á landi. Fáir Íslendingar vissu yfirleitt hvað fíkniefni voru. Fréttir af rannsókn tvöfalds morðmáls féll því í frjóa jörð
ímyndunarafls almennings. Fólk taldi sér trú um að hér væri komin fram ný tegund manna; glæpamenn sem virtu mannslíf einskis og lifðu utan við öll lög og lögmál. Það fylltist hatri á þeim mönnum sem rannsókn lögreglunnar beindist að hverju sinni. Fólk leit á það sem skepnur
frekar en menn.
Í þessu andrúmslofti kepptist lögreglan við að finna einhverja niðurstöðu í þessum málum sem virtust annars næsta óleysanleg. Engin lík fundust, engin morðvopn og það eina sem lögreglan gat reynt að byggja á voru misvísandi játningar
gæsluvarðhaldsfanganna sem þeir síðan drógu til baka jafnóðum. Á endanum setti lögreglan saman líklega atburðarás úr þessum játningum og mál var höfðað gegn sakborningunum.
Héraðsdómur dæmdi þá til allt að ævilangs fangelsis. Hann hafnaði afturköllun játninganna og byggði dóm sinn á þeim. Og aðeins þeim því þrátt fyrir tveggja ára rannsókn fundust engin áþreifanleg sönnunargögn í málinu. Hæstiréttur
mildaði síðar dóminn en eftir sem áður hlutu tveir sakborningar þyngstu dóma sem þá höfðu verið felldir á Íslandi á þessari öld, sautján ára fangelsi.
Við rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálanna komu skýrt fram gallarnir á Íslensku réttarkerfi. Við upphaf þessara mála var sakadómari í raun yfirmaður rannsóknar sakamála. Það er sama fyrirkomulag og Mannréttindadómstóll Evrópu taldi
ótækt við rannsókn og dóm í umferðarlagabroti. Vegna augljósra ágalla við rannsókn þessara mála var Rannsóknarlögregla ríkisins stofnuð og gerð óháð sakadómi.
Líklega efast enginn sem kynnir sér málið að hægt er að gagnrýna rannsókn þessara mála frá mörgum hliðum. Við rannsókn á harðræði sem sakborningar ásökuðu lögregluna um kom fram að þær ásakanir áttu við rök að styðjast þótt ekki
tækist að sanna allar ásakanir. Öll rannsókn málsins frá upphafi var með ólíkindum og undir lokin virtist það eitt vaka fyrir rannsóknaraðilum að setja saman eitthvað sem gat litið út eins og niðurstaða fremur en að leiða hið sanna í ljós. Lögreglan vann að þessu máli undir
miklum þrýstingi frá almenningi sem heimtaði niðurstöðu -og þá niðurstöðu sem hann var þegar kominn að.
Þegar málið kom fyrir Sakadóm og síðar Hæstarétt vað það löngu hætt að vera venjulegt sakamál sem snerist um sannanlega sekt sakborninga. Ef sakborningar hefðu fengið að njóta þess mikla vafa sem leikur á sekt þeirra og skort á
sönnunum hefðu dómarnir í raun fellt ægi þungan dóm yfir íslensku réttarkerfi.
Miðað við afstöðu íslenskra dómara í öðrum málum, litla virðingu fyrir grundvallarmannréttindum og þær ákúrur sem þeir hafa fengið frá dómstólum ytra er ekki erfitt að ímynda sér að sú staðreynd hafi vegið þyngra í huga dómaranna en
raunveruleg efnisatriði málsins.
Það er svo fjölmörgum spurningum ósvarað í Guðmundar- og Geirfinns-málunum að það er nauðsynlegt að einhver rannsókn fari fram á þeim. Og það áður en allir aðstandendur þeirra falla frá.