Eintak, 10.mars 1994

Þorsteinn Antonsson rithöfundur:
Dæmt af fullkomnum vanefnum

Þorsteinn Antonsson, rithöfundur, skrifaði bók um Geirfinns- og Guðmundarmálin sem gefin var út árið 1991, Áminntur um sannsögli. Þar gagnrýnir hann málatilbúnað ákæruvaldsins harkalega.

Er að þínu mati samsvörun milli málatilbúnaðar í Guildfordmálinu og Geirfinns- og Guðmundarmálunum?
,,Já, það er ótvírætt í báðum tilvikum að játningar fengust vafasömum hætti. Í báðum málunum er um reynslulítið fólk að ræða sem er mikið til utangátta gagnvart öllu því sem fyrir það er lagt meðan á rannsókninni stendur. Ég tel ekki nokkurn vafa leika á því að réttarsálfræðingar kæmust að sömu niðurstöðu í Geirfinnsmálinu og Guildford-málinu. Það er nánast eins og kennslubókardæmi um hvernig fólk getur játað á sig nánast hvað sem er."

Var réttlætanlegt að dæma eftir þessum játningum að þínu mati?
,,Ég er leikmaður í fræðunum en eftir að hafa skoðað málsskjöl og annað það sem komið hefur fram opinberlega í þessum málum tel ég að dæmt hafi verið af fullkomnum vanefnum og lítil ástæða til að leggja á sakborninga þunga dóma."

Var saklaust fólk dæmt?
,,Ég get ekki svarað því af eða á og get ekki fullkomlega hreinsað þessa menn. En það er mitt persónulega álit að líkindin séu afar lítil á því að nokkur þeirrra sem dæmdir voru í Geirfinns- og Guðmundarmálunum hafi gerst sekir um mannsmorð. Auðvitað get ég ekki fullyrt það fullkomlega. En hvað sem segja má um sekt þeirra eða sakleysi er málatilbúnaðurinn alls óhæfur og öll meðferð málsins í það heila tekið."

Finnst þér ástæða til að taka málið upp að nýju?
,,Ég tel að bæði sakborningar og einstaklinga og þjóðfélagið sjálft eigi það inni að þessi mál verði endurskoðuð og ekkert til sparað til þess að komast að því hvað raunverulega gerðist. Þá er ég enn að tala um sjálfa málsrannsóknina og þær aðferðir sem notaðar voru. Ég varð var við það þegar ég var að vinna að bók minni að það er grunnt á blygðunartilfinningu vegna þessa tímabils og þessara mála enn í dag. Ég ræddi við marga formlega og óformlega og varð var við að miklu fleiri voru á því að þarna hafi saklaust fólk verið dæmt en jafnframt að það hefði ekkert verið hægt að gera annað eins og á stóð en að dæma það - sópa burtu ruslinu og þeim lökustu með. Þetta hafi verið úrhrök en að öllum líkindum ekki verið sek. Það er heldur lélegt fyrir eina þjóð að búa við þetta þegar tímar líða.
Ég vona því að þetta mál verði tekið upp aftur en ég veit ekki hvort af því verður."