Eintak, 10.mars 1994

Dr. Gísli Guðjónsson yfirréttarsálfræðingur
,,Menn hafa játað til að losna úr gæsluvarðhaldi"

Dr. Gísli Guðjónsson er yfirréttarsálfræðingur hjá University of London og hefur kannað fleiri en þrjú hundruð sakamál þar sem ástæða hefur þótt til að kanna sannleiksgildi játninga sakborninga. Lögfræðingur, sem var að rannsaka Guildford-málið, fékk hann til að skoða játningarnar sem lágu til grundvallar dóminum yfir sakborningunum. Í framhaldi af því að Gísli lagði fram niðurstöður sínar var málið tekið upp að nýju sem síðan leiddi til sakaruppgjafar. Um svipað leyti fékkst hann einnig við annað umtalað mál kennt við sexmenningana í Birmingham en þeir fengu einnig gefnar upp sakir.
,,Ég byrjaði að vinna í Guildford-málinu 1985," sagði Gísli í samtali við EINTAK. ,,Helsta vandamálið til að byrja með var að fá sérfræðinga til að vinna í málinu því flestir töldu þetta fólk sekt en síðan vann ég með geðlækni til að komast inn í það. Besta leiðin var að kynna sér játningar Carole Richardson en við töluðum samt við alla sakborninga. Í ljós kom að ýmislegt í rannsókn málsins var ekki rétt og við töldum að ekki væri hægt að taka mark á framburði hennar. Innanríkisráðherrann fékk skýrsluna okkar og þá var málið opnað aftur."

Er algengt að fólk sé dæmt eftir röngum játningum?
,,Það eru mál inni á milli þar sem menn eru dæmdir eftir játningum sem geta ekki staðist en þau eru fá í samanburði við allan þann fjölda sakamála sem rannsökuð eru. En það er heldur varla hægt að tala um að játningar séu rannsakaðar neins staðar í heiminum jafn skipulega og hér í Bretlandi, enda þarf mjög sérhæfða þekkingu til að vinna að svona málum. Maður verður að taka hvert mál fyrir sig því þau eru mörg. Og það er ekki hægt að segja að það sé neitt mynstur."

Verðurðu oft var við að játningar séu knúnar fram með harðræði, eins og í Guildford-málinu?
,,Í flestum tilfellum vinnur lögreglan vel og eðlilega að rannsókn mála. En dæmin eru til. Í einu máli sem ég rannsakaði játaði maður á sig tvö morð sem hann framdi ekki. Ástæðan fyrir játningunni var sú að lögreglan taldi honum trú um að hann yrði hvort eð er sakfelldur en ef hann játaði þá myndi hann afplána dóminn á sjúkrahúsi en ekki í fangelsi. Lögreglan hafði spilað á sjúklegan ótta hans við fangelsi."

Getur löng gæsluvarðhaldsvist orðið til þess að menn játi á sig sakir til að losna?
,,Já, í sumum tilfellum hefur komið fram að menn hafa játað á sig glæpi til að losna úr gæsluvarðhaldi og stundum er það eina ástæðan."

Værirðu tilbúinn til að skoða Geirfinns- og Guðmundarmálin ef til þín yrði leitað?
,,Ég myndi engu lofa og veit ekki hvort ég hefði áhuga á því. Svona mál eru flókin og geta tekið marga mánuði og það er enn erfiðara að taka upp tuttugu ára gömul mál."