Þörf bók og lærdómsrík
Saklaus í klóm réttvísinnar
Jónas Jónasson
Vaka-Helgafell
1996
***

Bók Jónasar Jónassonar um Magnús Leopoldsson er ákaflega varfærnislega skrifuð og af miklu næmi.Ljóst er að Jónas hefur lagt mikla vinnu í hana. Samstarf þeirra Magnúsar virðist einnig hafa verið með miklum ágætum og ber bókin þess merki. Þrátt fyrir það var sitthvað sem ég var ekki ánægð með. Þungamiðja bókarinnar er dvöl Magnúsar í Síðumúlafangelsinu.Ég saknaði þess hins vegar að fá ekki að kynnast Magnúsi og lífshlaupi hans nánar.Það er samt ekki sanngjarnt að deila á Jónas fyrir það,því hann er fyrst og fremst að skrifa um 105 daga dvöl Magnúsar í algjörri einangrun og líðan hans þann tíma.
Persónulega fannst mér Jónas gera því of mikil skil á kostnað mannsins og lífs hans öll þau ár sem hann átti utan múranna en því er ekki að leyna að um margt kemst Jónas vel frá verki sínu. Mér fannst hann þó leggja of mikla áherslu á hugsanir Magnúsar innan veggja þröngs klefa þar sem nákvæmlega ekkert var hægt að hafa fyrir stafni dagana langa; allir hver öðrum líkir.Tilbreytingin fólst aðeins í að heyra fótatakið staðnæmast fyrir framan klefadyrnar og slagbrandinum svipt frá hurðinni.
Jónas segir söguna í fyrstu persónu frá hendi Magnúsar og brýtur upp frásögnina með því að Magnús snýr aftur öðru hvoru og segir frá æsku sinni og lítillega hvað á daga hans hefur drifið fram að deginum örlagaríka.
Frásögn Bjarkar eiginkonu hans er hinsvegar í þriðju persónu og fer vel á því og gefur frásögninni vídd.
Þessi bók er sannarlega þörf.Og þeir yngri sem ekki muna atburði en hafa heyrt af þeim ættu að hafa gagn af henni og átta sig betur á hve hroðalegt mál var um að ræða.Við hin munum þessa atburði mjög glöggt og hve múgsefjunin var algjör.
Það er deginum ljósara að Geirfinnsmálið er eitt mesta réttarfarshneyksli í sögu okkar Íslendinga og tími til kominn að það verði tekið upp að nýju. Ég las ekki bók Einars Bollasonar sem kom út í fyrra og veit því ekki hver þungamiðja þeirrar bókar var eða hvaða tökum Einar og höfundur hennar tóku efni hennar.Ég get því ekki borið þær saman.Hvað sem því líður er þessi bók afar þörf og tími til kominn að yngri kynslóðin kynnist þessu einstaka máli sem vonandi á aldrei eftir að endurtaka sig í íslensku réttarfari, þar sem dómsvaldið lét undan þrýstingi almennings og dagblaða.Það kunna þó að líða einhver árin þar til mál þetta verður tekið upp að nýju og alsaklausir menn fá uppreisn æru.Það breytist ekki fyrr en þeir embættismenn sem enn hafa völdin láta af störfum: Þeir hafa hagsmuna að gæta,því erfitt er að eta ofan í sig mistökin.
Jónas Jónasson er góður penni og skrifar á ágætu máli.Hann á þó til að vera helst til tilfinningasamur og í byrjun fer hann nokkuð yfir strikið.Þegar fer að líða á kemst hann nær jörðinni og frásögnin verður eðlilegri.
Bókin er prýdd myndum af Magnúsi og fjölskyldu hans frá yngri árum og fram til dagsins í dag og er frágangur vandaður í alla staði ásamt nafnalista.
Ég get mælt með þessari bók,ekki endilega til að fá innsýn í þann skrípaleik sem átti sér stað heldur hvernig einum af sakborningunum leið og hvað hann hugsaði þá 105 daga sem hann dvaldi innan múra fangelsis og algjörrar einangrunar.Hvernig hann var markvisst brotinn niður andlega og líkamlega og naut ekki þess réttar sem honum bar sem gæslufanga.Ekki síður hvað rúmir þrír mánuðir í lífi manneskju hafa afgerandi áhrif á líðan hennar og þeirra sem næst standa um ókomna tíð.
Þessi bók er öllu fólki þörf lesning ekki aðeins til að svala forvitni, ekki síður til að kunna að meta frelsið sem við flest búum við. Að opna glugga og draga að sér hreint loft. Mynd á vegg til að gleðja augað.Velja sér föt að morgni.Allir þessir smáu hlutir sem okkur þykja svo sjálfsagðir að við tökum ekki einu sinni eftir þeim, en kunnum svo vel að meta þegar við erum svipt frelsi.

Bergljót Davíðsdóttir